Mál nr. 828/2017
- Skaðabætur
- Uppsögn
- Miskabætur
- Laun
- Sveitarfélög
- Stjórnsýsla
- Sératkvæði
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 396/2015 var því slegið föstu að áminning sem skólastjóri B veitti S í febrúar 2012 og uppsögn sú sem A beindi til S í kjölfarið hafi verið ólögmætar. S höfðaði mál á hendur A til heimtu bóta vegna þess tjóns og miska sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að með hinni ólögmætu uppsögn hefði A bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart S og taldi dómurinn að í henni hefði falist ólögmæt meingerð sem A yrði metin bótaskyld. Þá var fyrrgreind áminning felld úr gildi. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að S ætti rétt á skaðabótum úr hendi A sem voru hæfilega metnar 3.500.000 krónur. Hins vegar taldi rétturinn að þegar litið yrði til aðdraganda uppsagnar S yrði hvorki talið að með uppsögn S né í aðdraganda hennar hefðu viðkomandi starfsmenn A komið fram með þeim hætti að í því hefði falist ólögmæt meingerð gegn S. Var A því sýknaður af kröfu um miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson og Kristbjörg Stephensen landsréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 6. mars 2018. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér annars vegar 13.682.779 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2016 til 29. nóvember sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og hins vegar 4.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá 1. apríl 2016 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi sló Hæstiréttur því föstu með dómi sínum 11. febrúar 2016 í máli nr. 396/2015 að áminning sem skólastjóri Brekkuskóla á Akureyri veitti gagnáfrýjanda 13. febrúar 2012 og uppsögn sú sem aðaláfrýjandi beindi til gagnáfrýjanda í kjölfarið hafi verið ólögmætar.
Í samræmi við dómkröfu stefnda í héraði var með hinum áfrýjaða dómi dæmt á þann veg að áminningin væri felld úr gildi. Aðaláfrýjandi krefst ekki endurskoðunar á þeim hluta héraðsdóms.
Fallist er á með héraðsdómi að með framangreindri uppsögn hafi aðaláfrýjandi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart gagnáfrýjanda og að bætur skuli dæmdar að álitum að virtum atvikum öllum og dómvenju. Samkvæmt því og að teknu tilliti til þess að gagnáfrýjandi fékk greidd laun í fimm mánuði eftir uppsögnina verða bætur til hans ákveðnar 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Heimilt er samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laganna kemur fram að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi þurfi þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð. Í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins.
Þegar litið er til aðdraganda uppsagnar gagnáfrýjanda, sem rakinn er í málavaxtalýsingu héraðsdóms, verður hvorki talið að með uppsögn hans né í aðdraganda hennar hafi viðkomandi starfsmenn aðaláfrýjanda komið fram með þeim hætti að í því hafi falist ólögmæt meingerð gegn gagnáfrýjanda. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda þar um.
Niðurstaða héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verður staðfest en rétt er að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti.
Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Akureyrarkaupstaður, greiði gagnáfrýjanda, Snorra Óskarssyni, 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. nóvember 2016 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Ég er samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um annað en greiðslu miskabóta og ákvörðun málskostnaðar hér fyrir dómi.
Krafa gagnáfrýjanda um miskabætur tekur bæði til þeirrar ólögmætu áminningar sem honum var veitt sem og hinnar ólögmætu uppsagnar sem grundvölluð var á áminningunni. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi tók aðaláfrýjandi þátt í opinberri umræðu með því að senda út fréttatilkynningu um málefni gagnáfrýjanda samhliða hinni ólögmætu áminningu. Að þessu sérstaklega gættu er rétt að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um miskabætur. Þá tel ég að aðaláfrýjanda beri að greiða málskostnað er renni í ríkissjóð vegna reksturs málsins hér fyrir dómi, en geri ekki athugasemdir við ákvörðun gjafsóknarlauna gagnáfrýjanda.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. nóvember 2017.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð miðvikudaginn 20. september 2017, er höfðað 29. nóvember 2016 af Snorra Óskarssyni, Skógarhlíð 35, Hörgárbyggð, á hendur Akureyrarkaupstað, Geislagötu 9, Akureyri. Fyrir hönd stefnda er stefnt Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra, Brekatúni 5, Akureyri.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 13.682.779 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2016 til 29. nóvember 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð fjórar milljónir króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2016 til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess að áminning sú, er sér hafi verið veitt hinn 13. febrúar 2012, verði felld úr gildi. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi gerir ekki sérstakar dómkröfur að því er varðar kröfu um niðurfellingu áminningar en segir í greinargerð sinni að ljóst sé að hún sé úr gildi fallin þar sem gildistími áminningar sé aðeins eitt til tvö ár.
Stefndi krefst sýknu af fjárkröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að hann verði látinn niður falla.
Málavextir
Stefnandi lauk kennaraprófi árið 1973 og starfaði sem kennari upp frá því. Hinn 9. ágúst 2001 gerðu stefnandi og stefndi með sér samning þar sem stefnandi var ráðinn í fullt starf starf grunnskólakennara við Brekkuskóla á Akureyri frá 1. sama mánaðar að telja. Í niðurlagi samningsins var tekið fram að um réttindi aðila og skyldur færi eftir lögum um grunnskóla og lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla að því leyti sem ekki væri kveðið á um annað í kjarasamningum eða ráðningarsamningnum.
Jafnframt var stefndi safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri.
Á fundi 8. október 2010, sem skólastjóri Brekkuskóla kvaddi stefnanda til og haldinn var að viðstöddum fræðslustjóra og bæjarlögmanni stefnda, var stefnanda samkvæmt fundargerð greint frá því að skólanefnd hefði „rætt um meiðandi ummæli hans um samkynhneigð“, sem hann hefði látið falla á opinberum vettvangi. Var í fundargerðinni haft eftir stefnanda að „hann ræddi skoðanir sínar um samkynhneigð aldrei í skólastofunni“, en hann gæti „ekki hugsað sér að láta af því að ræða opinberlega um samkynhneigð.“ Í lok fundargerðar var tekið fram að stefnanda hefði verið kynnt að kæmi til þess að hann ræddi „aftur opinberlega á meiðandi hátt um samkynhneigða geti komið til þess að málið fari í áminningarferli.“
Hinn 29. janúar 2012 birtist umfjöllun í fjölmiðli þess efnis að aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefði látið réttarstöðu samkynhneigðra í ríkjum Afríku til sín taka. Í umfjölluninni sagði meðal annars að mannréttindasamtök hefðu kennt „evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra“. Degi síðar birti stefndi pistil á vefmiðli, sem hófst á orðum um að enn hefðu komið „upp árekstrar milli samkynhneigðra og evangelískra.“ Kjarninn í sjónarmiði evangelískra væri „að samkynhneigðin telst vera synd“, en laun syndarinnar væru „dauði og því grafalvarleg.“ Hinn 1. febrúar birtist á öðrum vefmiðli frétt um þennan pistil stefnanda. Hinn 2. febrúar boðaði skólastjóri Brekkuskóla stefnanda bréflega til fundar „vegna meints brots í starfi sem er til skoðunar“, en um það var vísað til síðast nefndrar fréttar, „þar sem þú viðhefur meiðandi ummæli um samkynhneigða.“ Yrði stefnanda gefinn kostur á að bera upp andmæli í framhaldi af fundinum, sem „gæti verið undanfari áminningar í starfi“, en á grundvelli hennar gæti komið til uppsagnar ef um „ítrekuð brot“ yrði að ræða. Að fengnum andmælum stefnanda veitti veitti skólastjóri Brekkuskóla stefnanda skriflega áminningu hinn 13. febrúar 2012, þar sem stefnandi hefði sýnt af sér „brot utan starfs“ sem ekki samrýmdist því starfi er hann gegndi.
Með bréfi dags. 20. júní 2012 boðaði skólastjóri Brekkuskóla stefnanda til fundar degi síðar, þar sem honum yrði „kynnt niðurstaða í yfirstandandi áminningarferli vegna meints brots.“ Í málinu liggur fyrir óundirritað skjal með fyrirsögninni „samkomulag um starfslok“, sem var dagsett 21. júní 2012, en samkvæmt því skyldi stefnandi láta af störfum sem kennari við skólann 1. ágúst sama ár, en halda fullum launum í eitt ár. Með bréfi dags. 29. júní 2012 til skólastjórans, fræðslustjóra og bæjarlögmanns stefnda, lýsti stefnandi því að hann hafnaði „tilboði ykkar dags. 21. júní, um starfslokasamning“, enda teldi hann ekkert tilefni til að segja sér upp starfi vegna skrifa sinna eða skoðana.
Hinn 28. júní 2012 birti stefnandi á vefmiðli pistil undir fyrirsögninni: „Leiðrétting?“ Þar lýsti hann meðal annars þeirri skoðun að „orðið leiðrétting [hefði] fengið alveg nýja merkingu“ með því að þegar drengur, sem fæddist drengur, gengist undir „kynskiptiaðgerð“ væri það nefnt leiðrétting. Hér væri um að ræða „merkingarbrengl“, því þetta væri „kynbreyting en ekki leiðrétting.“ Guð hefði gert karl og konu, sem skyldu bindast, stofna heimili og verða einn maður, en ef ætti að „gera karl að konu og/eða konu að karli þá [væri] um að ræða breytingu eða afbökun en ekki leiðréttingu.“ Frá kristnu sjónarmiði skyldi sá, sem skapaður væri karlmaður, vera það til æviloka og sama gilti um konuna, sem væri „fædd kvenvera til að vera slík til æviloka.“
Hinn 29. júní 2012 boðaði skólastjóri Brekkuskóla stefnanda skriflega til fundar 3. júlí „vegna meints brots utan starfs“ sem væri til skoðunar með tilliti til þess hvort hann hefði sýnt af sér háttsemi sem væri ósamrýmanleg starfi kennara og gæti leitt til uppsagnar ráðningarsamnings hans. Vísaði skólastjórinn til framangreindra skrifa stefnda 20. apríl og 28. júní 2012, þar sem hann viðhefði „meiðandi ummæli um samkynhneigða og transfólk“, svo og „gildandi áminningar [...] vegna meiðandi bloggskrifa í garð samkynhneigðra, en sú framkoma og athöfn þótti ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi þínu sem kennari.“ Á fundinum, sem fræðslustjóri stefnda stýrði í fjarveru skólastjórans, var stefnanda veittur frestur til að koma fram andmælum, en að þeim fengnum beindi fræðslustjórinn til stefnda 12. júlí 2012 skriflegri uppsögn úr starfi grunnskólakennara, en skólastjóri Brekkuskóla hafði veitt fræðslustjóranum skriflegt umboð til þess, með ódagsettu bréfi, og skyldi umboðið gilda í sumarleyfi skólastjórans frá 2. júlí til 17. júlí 2012.
Með bréfi til innanríkisráðherra, dags. 26. september 2012, kærði stefnandi þá ákvörðun að segja sér upp störfum. Hálfu öðru ári síðar, hinn 4. apríl 2014, kvað innanríkisráðuneytið upp þann úrskurð að uppsögnin hefði verið ólögmæt. Hinn 20. júní 2014 höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda til að fá þann úrskurð felldan úr gildi. Með dómi héraðsdóms 10. apríl 2015 var stefnandi máls þessa sýknaður af þeirri kröfu. Stefndi máls þessa áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar Íslands, sem hinn 11. febrúar 2016, komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. 396/2015, að héraðsdómurinn skyldi óraskaður.
Í málinu liggja nokkur útprentuð tölvubréf sem munu hafa verið send skólastjórnendum Brekkuskóla. Bréfin bera með sér að bréfritarar séu foreldrar barns eða barna í skólanum, en nöfn bréfritara hafa verið máð út í gögnum málsins.
Í bréfi dags. 24. ágúst 2010 skrifa hjón að í foreldraviðtali deginum áður hafi komið fram „að það gæti farið svo að [stefnandi] myndi kenna dóttur [þeirra] í tónmennt nú í vetur.“ Segja bréfritarar að það sé „eitt mikilvægasta verkefni íslenskra grunnskóla á nýrri öld að ala ekki á fordómum og kenna nemendum sínum að virða hvert annað burtséð frá félagslegum, efnahagslegum eða trúarlegum bakgrunni þeirra. Skólanum beri því að taka öll skilaboð sem ekki grundvallast á þessum gildum mjög alvarlega. Við gerum það í minnsta og við frábiðjum okkur að okkar börn sitji undir málflutningi sem elur á fordómum og byggist á kreddum. Það er skólanum ekki til framdráttar að láta slíkt ámælislaust.“ Í bréfinu er vísað til heimasíðu stefnanda og fréttar sem sögð hafa verið í vefmiðli og sagt að í ljósi þeirra skoðana stefnanda sem þar birtist fari bréfritarar fram á að hann kenni dóttur þeirra hvorki þennan vetur né síðar.
Í öðru bréfi, dags. 16. janúar 2012, skrifa bréfritarar meðal annars: „Nú í dag kom [X] heim og tilkynnti okkur að [stefnandi] hefði komið að kennslu í 2. bekk í dag vegna forfalla. Það er okkur mikið réttlætismál að maður sem hefur jafn mannfjandsamlegar skoðanir og hann kenni ekki okkar dætrum og [...] teljum við það vera eitt mikilvægasta verkefni íslenskra grunnskóla á nýrri öld að ala ekki á fordómum og kenna nemendum sínum að virða hvert annað burtséð frá félagslegum, efnahagslegum eða trúarlegum bakgrunni þeirra. Það er okkur hjartans mál að ala okkar stúlkur upp sem samfélagsþegna sem bera virðingu fyrir öðru fólki burtséð frá þessum þáttum og við leggjum mikið á okkur til að svo megi verða.“ Í ljósi þeirra skoðana sem stefnandi hafi sett fram opinberlega geti bréfritarar ekki sætt sig við „að hann komi á nokkurn hátt að uppeldi þeirra innan veggja Brekkuskóla.“
Hinn 3. febrúar 2012 skrifar einstaklingur sem kveðst vera faðir tveggja nemenda í skólanum. Hann segir að sér finnist „ekki ásættanlegt að það sé kennari í skólanum sem heldur úti hatursáróðri gegn samkynhneigðum á blogginu sínu [...] Ég vil alls ekki að hann kenni börnunum mínum og ég held að það sé skólanum til vansa að hann sé í starfsliði skólans. Sumir hafa fullyrt að hann sé góður kennari og nefni ekki afstöðu sína í kennslutímum. Sumir segja hinsvegar að það sé ekki rétt, þau hafi dæmi um að hann hafi rætt þessi mál við nemendur. Hvort sem er þá vitum við að kennarar eru fyrirmyndir nemenda eða eiga að vera það og ég held að mjög mörgum nemendum á efsta stigi sé ljós afstaða [stefnanda] til samkynhneigðra og það eitt sér gefur slæma fyrirmynd. Ég óska því eftir að [stefnandi] verði fluttur til í starfi þannig að hann sjái ekki um kennslu barna og unglinga. Ég vonast eftir að fá svör frá skólanum fljótlega.“
Hinn 10. febrúar skrifar einstaklingur sem kveðst vera faðir stúlku í skólanum og kveðst „undrast mjög að kennari sem berar lífsviðhorf og skoðanir líkar þeim“ sem stefnandi hafi ritað í áðurrakinni veffærslu 30. janúar 2012. Bréfritari segir að það sé „alveg skýrt í mínum huga að maður sem berar slík viðhorf í ræðu og riti sem eru almenningi aðgengileg, mun ekki geta leynt þessum viðhorfum sínum gagnvart börnum okkar. Þar sem réttindi samkynhneigðra eru fest í lög hér á landi og varlega áætlað að 10% íbúa landsins séu samkynhneigðir finnst mér í meiralagi undarlegt að [stefnanda], með þessi viðhorf, sé stætt á að miðla þekkingu til barna okkar.“
Hinn 12. febrúar skrifar einstaklingur sem kveðst vera foreldri tveggja barna í skólanum. Kveðst hann hafa heyrt ávæning af því að til skoðunar sé að segja stefnanda upp starfi sínu vegna skrifa hans um samkynhneigða. Kveðst bréfritari skora á skólastjóra að gera það ekki, en skólinn sé betri með stefnanda í hópi kennara: „Ég er foreldri tveggja barna í Brekkuskóla. [Stefnandi] kennir dóttur minni á yfirstandandi skólaári og hefur áður kennt syni mínum. Ég ræði oft við þau um skólastarfið og í spjalli okkar hefur oft komið fram ánægja þeirra með [stefnanda]. Bæði hafa þau sagt að hann sé einn besti kennarinn í Brekkuskóla. Mér afvitandi hefur hann aldrei predikað lífsskoðanir sínar innan veggja skólans. Ég vil taka fram að ég stend utan trúfélaga og tel að kynhneigð manna og kvenna eigi ekki að hafa nein áhrif á stöðu þeirra í þjóðfélaginu.“
Í málinu liggur bréf skólastjóra Brekkuskóla til stefnanda, dags. 13. febrúar 2012. Þar segir: „Ég undirrituð, hef ákveðið að bjóða þér launað leyfi frá störfum þínum sem grunnskólakennari við Brekkuskóla út skólaárið 2011-2012[.] Leyfið er veitt til að lægja þær öldur sem risið hafa vegna ummæla þinna á bloggi. Á meðan leyfi stendur munt þú halda fullum launum og réttindum og jafnframt bera þær skyldur sem á þig eru lagðar sem grunnskólakennari skv. þeim lögum, reglum og samþykktum sem við eiga.“
Hinn 13. febrúar 2012 sendi stefndi frá sér fréttatilkynningu undir fyrirsögninni „Akureyrarbær bregst við meiðandi ummælum um samkynhneigð“. Þar segir: „Síðustu daga hefur verið hávær umræða í fjölmiðlum um ummæli grunnskólakennara á Akureyri sem birtist á bloggi hans um samkynhneigð. Akureyrarbæ hefur verið legið á hálsi að bregðast ekki við ummælunum. Það skal upplýst að árið 2010 brugðust skólayfirvöld við ummælum umrædds kennara um samkynhneigð þar sem honum var gert að láta af slíkum meiðandi ummælum. Því var brugðist umsvifalaust við og hart við þeim ummælum sem nú eru til umræðu. Var málið þegar í stað sett í það lögformlega ferli sem starfsmannaréttur og stjórnsýslulög gera ráð fyrir hjá hinu opinbera. Starfsmannamál eru trúnaðarmál og því getur Akureyrarbær ekki gert opinber hver niðurstaða málsins er en þess skal getið að umræddur starfsmaður hefur verið sendur í tímabundið leyfi frá störfum. Akureyrarbær getur ekki og mun ekki tjá sig frekar í fjölmiðlum um mál þessa einstaka starfsmanns sem hér um ræðir.“
Hinn 15. febrúar skrifar ónafngreind kona skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Brekkuskóla og segir: „Styð ykkur í að láta [stefnanda] fara þó hann hafi kannski ekki gert börnunum mínum neitt beint svo ég viti en setjum við ekki mörkin þarna, fagmenn? Skilaboðin til barnanna eru að það gengur ekki að ganga svona á mannréttindi fólks.“
Hinn 23. febrúar skrifar fólk sem kveðst eiga tvo drengi í skólanum. Það segir: „Með þessu bréfi langar okkur að stækka hópinn sem sendir skýr skilaboð um að sú mismunun sem [stefnandi] styður með ítrekuðum skrifum sínum gegn tilverurétti samkynhneigðra, verði ekki liðin í nútíma samfélagi. Það er með öllu ólíðandi að ráðist sé á hóp venjulegs fólks á þennan hátt og jafnvel ýtt undir að fullkomlega eðlilegir og jafnvel frábærir einstaklingar hrekjist út í sjálfsmorð vegna vanmáttarkenndar og hræðslu við umhverfið. Því viljum við ekki að [stefnandi] kenni börnunum okkar nokkurn tíma aftur. Fyrir utan það að eiga samkynhneigða vini og ættingja eigum við líka tvö börn sem við viljum vinsamlegt umhverfi fyrir, óháð kynhneigð.“
Loks er í málinu afrit skjals sem virðist vera úr málaskrárkerfi og er höfundur þess sagður skólastjóri Brekkuskóla. Er þar bókað að í febrúar 2012 hafi hringt foreldri barns í nánar greindri bekkjardeild og hafi foreldrið sagt að það vildi ekki að stefnandi kenndi sínu barni. Enn fremur segir að tvær mæður barna í skólanum hafi komið í skólann. Er um erindi þeirra bókað: „Vilja ekki að [stefnandi] komi nálægt þeirra börnum.“
Frá því stefnanda var sagt upp starfi í Brekkuskóla hefur hann samkvæmt gögnum málsins þrívegis borið sig eftir auglýstu kennarastarfi. Í málinu liggur tölvubréf sem hann skrifaði skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Þelamerkurskóla hinn 20. september 2012 og mun hafa verið vegna lausrar kennslu í náttúrufræðum. Bréf stefnanda hljóðar svo: „Nú er ég á lausu en ég hef samt ekki kennt náttúrufræði í 20 ár eða svo. Ég gæti tekið þessa kennslu að mér í vetur. En hvaða dagar eru í kennslu og hve margir tímar?“ Þessu bréfi svara skólastjóri og aðstoðarskólastjóri svo, en í gögnum málsins kemur ekki fram dagsetning: „Sæll og blessaður og takk fyrir sýndan áhuga. Eins og staðan er í dag þá er náttúrufræðikennslunni skipt niður á fjóra daga en við ætlum að reyna að breyta töflunni þannig að þessi 30% kennsla fari fram á miðvikudögum og föstudögum. Þetta eru samtals 9 tímar. Hafðu samband ef þig vantar frekari upplýsingar.“
Þá liggur fyrir í málinu bréf stefnanda til skólastjóra Hrafnagilsskóla, dags. 19. febrúar 2013. Vísar stefnandi til auglýsingar eftir reyndum kennara til lengri eða skemmri tíma, kveðst sækja um stöðuna, hafa langa kennslureynslu og full réttindi. Stefnandi hlaut ekki starfið.
Hinn 31. maí 2016 auglýsti Brekkuskóli eftir umsjónarkennara. Stefnandi var meðal sextán umsækjenda en hlaut ekki starfið. Hann óskaði eftir rökstuðningi og í bréfi skólastjóra til hans, dags. 29. júní 2016, segir að við ákvörðun um ráðningu hafi það sjónarmið verið ráðandi að sá umsækjandi, sem fyrir valinu hafi orðið, hafi bætt við sig námi í sérkennslufræðum sem myndi nýtast skólanum vel. Skólinn hafi mjög jákvæða reynslu af störfum umsækjandans sem uppfylli allar hæfniskröfur.
Stefnandi fékk greidd laun frá stefnda til 31. desember 2012. Hann vann sér inn lífeyrisréttindi í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
Hinn 31. marz 2016 var Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur dómkvaddur að ósk stefnanda til að svara eftirtöldum matsspurningum:
„1. Hvaða tekjur hefur [stefnandi] farið á mis við frá [stefnda] vegna niðurfellingar launagreiðslna á grundvelli meintrar uppsagnar frá 12. júlí 2012 til 1. 5. 2016?
2. Hvert er fjárhagslegt tjón [stefnanda] af því að laun hans féllu niður vegna meintrar uppsagnar þ. 12. júlí 2012 til 1. 5. 2016? Þess er óskað að m.a. verði sundurliðað:
a. Tekjutap á hvern mánuð frá uppsagnardegi til síðasta almanaksmánaðar fyrir dagsetningu matsgerðar.
3. [Hver] eru töpuð lífeyrisréttindi [stefnanda] á umræddu tímabili?“ Í matsgerð sinni, dags. 30. maí 2016, rekur matsmaður meðal annars atvinnuleysisbætur þær sem stefnandi fékk greiddar frá ársbyrjun 2013 til 1. september 2015.
Niðurstöður matsmanns eru þær að töpuð laun stefnanda nemi 9.776.885 krónum, töpuð séreign nemi 341.893 krónum en töpuð lífeyrisréttindi 3.564.001 krónu.
Áður hafði sami tryggingastærðfræðingur verið dómkvaddur til að svara sambærilegum spurningum er lutu að skemmra tímamarki. Þykir ekki ástæða til að rekja niðurstöður þeirrar matsgerðar hér.
Með bréfi til stefnda, dags. 12. maí 2015, krafðist stefnandi bóta vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi. Nam krafa vegna fjártjóns 7.693.772 krónum en krafa vegna miska fimm milljónum króna. Áskilinn var réttur til frekari krafna vegna fjártjóns þegar það félli til. Einnig var áskilinn réttur til að krefjast bóta vegna röskunar á stöðu og högum.
Með bréfi til stefnda, dags. 29. febrúar 2016, gerði stefnandi nýja bótakröfu. Nam krafan alls 11.969.445 krónum og sundurliðaðist svo að 7.693.773 krónur voru höfuðstóll samkvæmt útreikningi dómkvadds matsmanns 7. maí 2015; 275.672 krónur voru vegna vaxta „skv. 8. gr. skaðabótalaga“ frá 1. maí 2015 til kröfudags og fjórar milljónir króna voru vegna miska.
Með bréfi til stefnanda, dags. 8. marz 2016, kveðst stefndi ekki geta orðið við kröfum stefnanda þar sem þær séu ekki í samræmi við dómvenju í málum þar sem gerð hafi verið krafa um bætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Býður stefndi bætur að fjárhæð þrjár milljónir króna vegna alls fjárhagslegs tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir og miskabætur að fjárhæð hálf milljón króna, óháð því „hvort sannað sé að lagaskilyrði fyrir miska sé fyrir að fara.“ Stefndi tekur fram að hann leggi „fram sáttaboð með fyrirvara að náist ekki sættir með aðilum og komi til dómsmáls, þá [sé stefndi] ekki bundinn framangreindu tilboði.“
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi segir dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 396/2015 hafa res judicata verkanir um það sakarefni sem dæmt hafi verið að efni til. Í yngri dómum Hæstaréttar hafi verið mörkuð sú stefna að líta til forsenda dóma til að leggja mat á res judicata verkanir þeirra. Hafi fremur verið horft til sakarefnisins sjálfs en hinna formlegu dómkrafna og sbr. meðal annars dóma í málum nr. 210/2013 og 195/2009. Af þessum sökum sé mikilvægt að afmarka efni res judicata verkana dómsins en það sakarefni, sem dæmt hafi verið um, verði ekki lagt á ný fyrir dómstóla heldur lagt til grundvallar niðurstöðu í þessu máli. Í stuttu máli sagt hafi niðurstaða Hæstaréttar Íslands verið sú að kjarasamningur og stjórnarskrá hafi ekki heimilað stefnda að áminna stefnanda eða segja honum upp störfum vegna þeirra ummæla sem hann hafi haft uppi á árinu 2012 og fjallað hafi verið um í málinu. Þvert á móti hafi stefnandi verið í fullum rétti til að tjá sig með þeim hætti sem hann hafi gert. Hafi það verið fullkomlega lögmætt af hans hálfu. Stefnandi segir að af þessu leiði að stefndi hafi haft ólögmæt afskipti af tjáningarfrelsi sínu og að áminning og uppsögn standist hvorki lög né kjarasamning.
Stefnandi segir miskabótakröfu sína byggða á fleiri atriðum en fjallað hafi verið um í hæstaréttardóminum.
Stefnandi segir að samkvæmt b lið 26. gr. skaðabótalaga sé heimilt að láta þann, sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, greiða miskabætur. Stefndi hafi brotið gegn stefnanda í öllum þessum þáttum. Stefndi hafi brotið gegn frelsi stefnanda, meðal annars trúfrelsi og tjáningarfrelsi. Hafi það verði gert með niðurlægjandi hætti í ýmsum myndum en einnig með ógnandi hætti. Friði stefnanda hafi verð raskað og brotið gegn persónu hans. Jafnframt hafi hann þurft að þola heiftarlega aðför gegn æru sinni. Stefnandi segir að nánast sé ógjörningur að flokka atvik niður undir mismunandi þætti miska. Ekki beri að gagnálykta þegar í stefnu sé reynt að lýsa atvikum með vísan til einstakra þátta miskahugtaksins. Í raun verði að horfa á atvik máls í heild. Að þeim atvikum virtum beri að dæma stefnanda miskabætur samkvæmt 27. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi með gerðum sínum lagt sig í einelti. Í e lið 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé gert ráð fyrir að á vinnustöðum sé unnið að aðgerðum gegn einelti. Á grundvelli þessa hafi verið sett reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir um einelti á vinnustað. Í reglugerðinni sé einelti skilgreint þannig að það sé ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, athöfn eða hegðun, sem sé til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem að hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt og líkamlegt ofbeldi falli þar undir. Hér sé ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kunni að rísa á vinnustað á milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem hér hafi verið lýst.
Stefnandi segir stefnda hafa tekið þátt í aðför annarra að sér sem sett hafi þrýsting á skólayfirvöld. Þegar a liður 3. gr. reglugerðar nr. 1000/2004 sé skoðaður sjáist að öll atriði sem þar séu talin upp, eigi við um hegðun stefnda gagnvart stefnanda. Stefnandi hafi um tíma verði skólastjóri við skólann í forföllum skólastjóra. Hann hafi verið tekinn úr kennslu og fluttur til og frá í starfi. Honum hafi verið ógnað, meðal annars með hótunum um atvinnumissi ef hann tjáði skoðanir sínar og kenningar þess safnaðar er hann veitti forstöðu. Honum hafi að lokum verði holað niður á bókasafni þar sem hann hafi þó ekki mátt koma nálægt sumum nemendum og hafi hann verið útilokaður frá heilu árgöngunum í því skyni. Allt þetta hafi verið til þess fallið að niðurlægja stefnanda, gert hafi verið lítið úr honum, hann hafi verið móðgaður og særður og mismunað gagnvart öðru starfsfólki. Hann hafi verði settur til hliðar opinberlega og honum valdið vanlíðan og ógnað með beinum hætti svo sem rakið hafi verið.
Stefnandi segir að í reglugerð nr. 1000/2004 sé rækilega fjallað um skyldur atvinnurekanda til að koma í veg fyrir einelti en í þessu máli hafi stefndi sjálfur lagt stund á eineltið og þar hoggið sá er hlífa hafi átt. Sé þetta mjög ámælisvert. Stefnanda hafi mætt skefjalausir fordómar, en fordómar séu að dæma eitthvað að óathuguðu máli. Stefndi hafi gert stefnanda upp viðhorf og ekki reynt í alvöru að grennslast fyrir um hver þau væru og vegna hugarafstöðu sinnar hafi stefndi verið ómótækilegur fyrir slíku.
Stefnandi segir að í eineltisáætlun stefnda sé gert ráð fyrir að gerendur séu hvattir til að leita sér hjálpar. Stefndi hafi, í stað þess að bjóða foreldrum upp á hjálp fagfólks, ákveðið að ganga í lið með þeim.
Stefnandi segir að næsti liður í einelti hafi verið áminningarferli þar sem snúið hafi verið út úr orðum sínum og þau afbökuð á mjög særandi og meiðandi hátt, þar sem hann hafi verið sakaður um glæp, hatursáróður, en enginn fótur sé fyrir þeim ásökunum. Stefndi hafi ekki kannað hvað stefnandi hafi sagt með bloggfærslum sínum heldur lagt þær út á þann veg að sérstakur dauði biði samkynhneigðra. Mjög alvarlegt sé að eigna öðrum mönnum slík ummæli að ósekju. Það að afbaka allt sem að menn segja og snúa á versta veg sé skólabókardæmi um einelti.
Stefnandi segir að eineltið hafi orðið meira þegar stefnandi hafi verið settur í tímabundið leyfi á launum. Slíkt sé niðurlægjandi, en ekki frí á silfurfati. Þarna hafi maður, sem hafi við góðan orðstír stýrt skólanum í eitt ár í leyfi skólastjóra, verið búinn að þola að vera tekinn úr kennslu, settur á bókasafn, svo ekki fengið að hitta ákveðna árganga og loks hafi hann ekki fengið að mæta í skólann.
Stefnandi kveðst byggja á því að framganga stefnda hafi tekið til allra þátta eineltis sem fram komi í fyrri hluta reglugerðar nr. 1000/2004. Auk þess sé byggt á því að í öllu því sem hér hafi verið rakið felist andlegt ofbeldi í skilningi reglugerðarinnar. Undir slíku geti sterkustu menn brotnað og þótt stefnandi hafi borið sig vel geti krosstré brotnað eins og önnur. Sé um grafalvarlegan verknað að ræða og meðal annars brot á ýmsum réttarreglum. Stefnandi kveður stefnda hafa brotið gegn ákvæðum vinnuverndarlaga nr. 46/1980. Veki hann sérstaklega athygli á e lið 38. gr. og reglugerðar nr. 100/2004 en einnig á a lið 1. gr. en það geti verið skaðlegt andlegri og líkamlegri heilsu manna að búa við einelti á vinnustað. Þá sé vísað til 13. gr. um góðan aðbúnað og hollustu á vinnustað en einelti sé í mikilli andstöðu við þau markmið. Stefnandi kveður stefnda hafa brotið gegn reglum grunnskólalaga nr. 91/2008. Kveðst hann einkum vísa til 30. gr. en með háttsemi stefnda hafi stefnandi orðið fyrir „andlegu og félagslegu ofbeldi í skólastarfi“ með sífelldum athugasemdum um hvernig hann iðki preststarf sitt og tjáningarfrelsi, með tilhæfulausum ásökunum um að ummæli hans séu hatursfull og mannskemmandi, með því að vera tekinn úr kennslu og gerður að upplesara á bókasafni í skóla þar sem hann hafi áður verið skólastjóri um tíma. Lagaákvæði nái að þessu leyti jafnt um nemendur sem starfsmenn skólans. Að auki hafi hegðun stefnda verið í andstöðu við 2. gr. laganna. Í stað þess að efla börn til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi þá sé haft fyrir þeim einelti og útskúfun þegar menn iðki tjáningarfrelsið og láti í ljós sannfæringu sína. Starfshættir við grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika en þarna hafi þveröfugt verið gert. Megi reyndar segja að 1. mgr. hafi verið virt að vettugi. Mikilvægt sé að efla víðsýni hjá nemendum en þarna hafi verið iðkuð þröngsýni og aðeins tiltekin sannfæring talin mega koma nemendum fyrir sjónir í stað þess að þeim sé kennd opin umræða um öll mál. Í stað þess að efla færni nemenda í íslenzku máli hafi kennari verið rekinn úr starfi vegna áhuga síns á því. Í stað þess að stuðla að færni nemenda í sögu þjóðfélagsins og sérkennum hafi stefnandi verið rekinn úr starfi fyrir það sem talið hafi verið sérkenni hans. Slíkt sé ekki til þess fallið að efla sjálfstæða hugsun nemenda eða þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Megi segja að gerðir stefnda séu í andstöðu við það sem stefnt sé að í grunnskólalögum.
Stefnandi kveðst vísa til 233. gr. a almennra hegningarlaga. Hann kveðst byggja á því að stefndi hafi tekið við rógburði um stefnanda og síðan rægt hann sjálfur til að réttlæta eigin gerðir gagnvart honum. Allt hafi þetta verið vegna trúarbragða stefnanda. Ekki þurfi að taka sérstaka afstöðu til þess í málinu hvort hegðun stefnda hafi verið refsiverð í skilningi hegningarlagaákvæðisins en byggt sé á því að hún hafi verið ólögmæt.
Stefnandi kveðst vísa til leiðbeininga um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og einelti á vinnustöðum stefnda í samræmi við jafnréttisstefnu stefndu sem samþykkt hafi verið í júlí 2008. Þá kveðst stefnandi vísa til kafla um áreitni og einelti í starfsmannahandbók stefnda. Þar komi fram yfirlýsing stefnda um að hann beri ábyrgð á að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir einelti. Kveðst stefnandi byggja á því að þetta loforð hafi stefndi brotið gagnvart sér. Kveðst stefnandi skora á stefnda að viðurkenna að hann sé bundinn við ábyrgðaryfirlýsingu.
Stefnandi segir einelti og aðför gegn sér hafa orðið meira eftir veffærslu hans frá 20. apríl 2012 og hafi stefndi búið til einhverskonar brot, án þess að efni textans gæfi minnsta tilefni til þess. Brugðið hafi verið á það ráð að boða stefnanda í ráðhús stefnda, á fund með fræðslustjóra og bæjarlögmanni. Þar hafi stefnanda verið tjáð að stefndi vildi losna við hann með boði um starfslokasamning sem stefnandi hafi hafnað.
Stefnandi kveðst hafa ritað veffærslu hinn 28. júní 2012 og aftur hafi verið búið til, án nokkurs tilefnis, einhvers konar brot úr því, sem tekið hafi verið með sem ástæða uppsagnar. Þarna hafi stefnandi verið rekinn úr skólanum. Hann hafi getað sagt sér það sjálfur að hann fengi ekki vinnu í grunnskólum bæjarins þar sem að hann átti heima og við þessar aðstæður gat hann ekki gert ráð fyrir að fá vinnu neins staðar annars staðar, að minnsta kosti ekki í nágrenni Akureyrar. Hafi hann ekkert unnið við starf sitt síðan.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi misbeitt valdi sínu til að losna við stefnanda úr starfi, vegna þess að stefnda hafi þótt óþægilegt að hafa hann, en ekki vegna þess að lög hafi staðið til slíkra gerða, grundvöllurinn undir gerðum stefnda sé allt of veikur til að draga slíkar ályktanir. Gerðir stefnda hafi verið ólögmætar, sjónarmiðin ólögmæt og óréttmæt.
Stefnandi kveðst byggja á því að brotið hafi verið gegn rétti sínum til að hafa sannfæringu, tjá hana og standa á henni og allt sé það í andstöðu við 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi segir að í dómum mannréttindadómstóls Evrópu og Hæstaréttar Íslands hafi tjáningarfrelsi verið talið mest þegar menn tjái sig um brýn þjóðfélagsmál. Breyting á stöðu samkynhneigðra, með endurskilgreiningu á hugtakinu hjónabandi, réttindum þeirra til að ættleiða börn og að ekki sé gerður munur á sambandi karls og konu og sambandi fólks af sama kyni, feli í sér gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar sem hafi átt sér stað og séu að eiga sér stað. Hvorki 73. gr. stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmáli Evrópu heimili að þaggað sé niður í röddum sem andæfi breytingunum. Frelsi stefnanda til að láta í ljós skoðanir sínar og hafa eigin sannfæringu sem hann tjái, verði ekki tekið af honum með rangtúlkunum stefnda á lögum, kjarasamningum og mannauðsstefnu sinni. Í fyrra dómsmáli sömu aðila hafi stefndi byggt á því, að stefnandi væri frjáls skoðana sinna og sannfæringar en að hann missti þá bara vinnuna. Hann fengi síðan ekki vinnu við fag sitt í bæjarfélaginu þar sem hann eigi heima. Þetta standist ekki. Haf verði í huga að réttur manna til að stofna trúfélög um trúarsannfæringu sína njóti ríkari réttar en um félög almennt og megi þar vísa til samanburðarskýringa 63. og 74. gr. stjórnarskrárinnar. Réttur samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar verði ekki einu sinni takmarkaður með lögum heldur aðeins af góðu siðferði og allsherjarreglu. Stefnandi kveðst byggja á því að gerðir stefnda séu brot gegn 63. gr. stjórnarskrárinnar sem heimili mönnum að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu sína. Að reka stefnanda úr starfi fyrir kenningar hans sem forstöðumaður skráðs trúfélags sem verjist ásökunum um þátt í hatursmorðum, sé meðal annars brot gegn þessu stjórnarskrárákvæði. Sama megi segja um það að fá ekki að ritskýra Biblíuna opinberlega í samræmi við trú safnaðarins.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi, með því að svipta stefnanda starfi sínu, brotið gegn 64. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem stefnandi hafi misst af réttinum til að starfa sem kennari vegna trúarbragða sinna. Hann hafi einnig misst umtalsverð lífeyrisréttindi.
Stefnandi kveðst byggja á því að 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin með því að hann hafi ekki fengið að njóta þeirra mannréttinda að vinna fyrir sér, í samræmi við menntun sína, vegna trúarbragða sinna og skoðana.
Stefnandi kveðst byggja á því að 75. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin en í reynd hafi verið lagður steinn í götu stefnanda til að stunda þá atvinnu er hann kjósi. Hafa verði í huga að stefndi einn reki grunnskóla á Akureyri og gerðir stefnda og uppsögn stefnanda fæli aðra í nágrenninu og þótt víðar væri leitað, frá að taka hann í vinnu.
Stefnandi segir að brot gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar feli í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, persónu, friði og æru sinni.
Stefnandi segir að í XXV. kafla laga nr. 19/1940 sé fjallað um brot gegn æru manna, þó þau ákvæði séu ekki tæmandi að einkarétti, en rétt þyki að víkja að þeim. Kveðst stefnandi láta liggja milli hluta hvort stefndi hafi viðhaft refsiverðar ærumeiðingar og hvort refsiskilyrðum sé fullnægt. Samkvæmt langri dómaframkvæmd sé slíkt ekki skilyrði þess að miski verði dæmdur. Stefnandi segir að í 234. gr. almennra hegningarlaga sé fjallað um móðgandi orð eða athafnir sem meiði æru manna. Hafi slíkum orðum og athöfnum verið lýst í málatilbúnaði stefnanda, meðal annars í umfjöllun um einelti það er hann hafi sætt. Stefnandi segir að í 235. og 236. gr. hegningarlaga sé fjallað um ærumeiðandi aðdróttanir. Með aðvörunum, einelti, áminningu, launalausu leyfi, uppsögn og fleiru hafi stefndi haft í frammi athafnir sem að mestu leyti hafi lagt orðstír stefnanda í rúst þannig að hann eigi sér vart viðreisnar von eftir þá útreið. Fjölmiðaumfjöllun sem fylgt hafi í kjölfarið hafi verið fyrirsjáanleg og að sjálfsögðu hafi mátt búast við að að fjöldinn drægi þá ályktun að stjórnvöld, sem starfi að lögum, fari ekki með fleipur þegar þeir telji gerðir stefnanda varða brottrekstri. Hafi menn ætlað stefnanda annað og verra en efni hafi staðið til. Við slíkar aðstæður telji enginn skólastjóri sér fært að ráða stefnanda í vinnu, enda yrði skólastarfi þá ekki vært. Hafi stefnanda verið útilokað að sækjast eftir vinnu við sitt fag að svo komnu máli. Stefnandi hafi starfað sem kennari alla sína starfsævi og vart átt kost á að hasla sér völl á nýjum vettvangi. Eftir að hann hafi verið sýknaður í Hæstarétti Íslands hafi hann ákveðið að reyna fyrir sér með því að sækja um kennarastöður en ekki haft erindi sem erfiði. Slíkt séu, eðli málsins samkvæmt, erfið spor að stíga eftir alla fjölmiðlaumfjöllunina og niðurlæginguna sem hann hafi mátt þola.
Stefnandi segist eiga að verða eins settur og ef honum hefði ekki verið sagt upp störfum. Fjárkrafa sín sé miðuð við það. Sjálfum beri stefnanda að takmarka tjón sitt í þeim mæli sem sanngjarnt megi teljast. Í málum af þessu tagi hafi verið litið til ýmissa atriða. Ekki skipti máli þótt um gagnkvæman uppsagnarfrest hafi verið að ræða, þar sem stefnandi hafi almennt mátt búast við að gegna starfi sínu til frambúðar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 702/2009. Líta þurfi til þeirra kosta sem stefnandi hafi til að vinna við fag sitt, sbr. sama hæstaréttardóm. Ólíkt lækni þeim sem þar hafi átt hlut að máli, geti stefnandi ekki hafið sjálfstæðan rekstur. Við mat á tjóni þurfi að líta til aðstæðna, launatekna og kosta stefnanda á störfum, sbr. sama hæstaréttardóm.
Stefnandi segir að þegar litið sé til aðstæðna sinna og þess sem á daga hans hafi drifið frá áminningu og uppsögn sé ljóst að ekki verði með sanngirni hægt að krefjast þess af honum að draga úr tjóni sínu frekar en hann hafi gert. Stefnandi sé kennari að mennt og hafi varið allri starfsævi sinni við kennslu. Þegar áminningin og uppsögnin hafi átt sér stað hafi verið framkvæmt mikið niðurbrot á persónu stefnanda og fjölskyldu hans. Eftir þennan atgang sem orðið hafi, hafi þeim almennu hugmyndum verið komið inn að stefnandi væri óalandi, óverjandi og óferjandi. Hann væri maðurinn sem breiddi út hatur og meiddi nemendur, mismunaði börnum og réðist að fólki vegna kynhneigðar. Orðstír hans hafi beðið slíkan hnekki að útilokað hafi verið að svo mikið sem sækja um vinnu á sínum starfsvettvangi. Í sveitarfélagi stefnanda hafi stefndi verið eini atvinnurekandinn sem til greina hafi komið. Auk þess hefði verið þýðingarlaust að sækja um vinnu í nágrannasveitarfélögum því fyrirfram hafi verið vitað að einhverjir foreldrar legðust gegn slíku og að skólunum yrði gert ómögulegt að ráða stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa kært uppsögn sína til ráðuneytis og vonað að það myndi úrskurða sér í vil og hann fengi starf sitt að nýju, annað hvort með ákvörðun ráðuneytisins eða samkomulagi við stefnda. Kveðst stefnandi taka fram að ráðuneytið hafi ranglega hafnað að ógilda uppsögnina og sé það í andstöðu við 3. mgr. 111. gr. laga nr. 138/2011. Þá hafi ráðuneytið, í andstöðu við lög, dregið til 4. apríl 2014 að kveða upp úrskurð sinn og hafi það verið einu og hálfu ári eftir að að ákvörðun hafi verið kærð.
Stefnandi segir að eftir að úrskurður ráðuneytisins hafi fallið hafi hann getað gert sér vonir um að atvinnumálum sínum rættist. Þá hafi hinsvegar svo brugðið við að stefndi hafi skotið málum til héraðsdóms hinn 26. júní 2014 og gert kröfu um ógildingu úrskurðar ráðuneytisins. Aftur hafi stefnandi lent með mál sitt í sjálfheldu en þó vonað að dómstólar afgreiddu það fljótt og hann gæti farið að vinna á ný. Dómur héraðsdóms, þar sem úrskurður ráðuneytisins hafi verið staðfestur, hafi fallið hinn 10. apríl 2015. Þá hafi stefnandi gert sér vonir um að úr atvinnumálum sínum rættist en þá hafi það reiðarslag komið að málinu hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar. Hæstiréttur hafi staðfest héraðsdóminn hinn 11. febrúar 2016. Stefnandi kveðst hafa brugðið á það ráð að sækja um stöðu í Brekkuskóla en ekki fengið. Stefndi hafi enga tilraun gert til að fá stefnanda til starfa. Stefnandi hafi einnig reynt fyrir sér í nágrannasveitarfélögum með formlegum og óformlegum hætti en alls staðar gripið í tómt. Stefnandi kveðst orðinn 64 ára gamall og hverfandi séu líkur á því að hann fái nokkurs staðar vinnu áður en starfsævinni ljúki. Kröfugerð sé miðuð við að það sé ekki fullreynt og eigi eftir að koma í ljós.
Stefnandi kveðst vísa til alls þess, sem hann segi um miska sinn, því til stuðnings að ekki verði með sanngirni gerð krafa um að hann gerði meira til að draga úr tjóni sínu. Hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur og fengið. Í því felist að stefnandi hafi verið tilbúinn að vinna þau störf sem byðust. Bótakrafa stefnanda sé lækkuð samkvæmt atvinnuleysisbótum. Stefnandi segir að öll þessi atriði hafi stefnda mátt vera ljós þegar hann hafi látið til skarar skríða og sagt stefnanda upp störfum. Tjón stefnanda hafi orðið með þeim hætti sem stefndi hafi getað gert ráð fyrir þegar hann hafi valdið því og getað sagt sér sjálfur. Verði stefndi alfarið að taka að sér að bæta það.
Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi ekki átt raunhæfan kost á að afla tekna með neinum þeim hætti sem af sanngirni mætti gera kröfu um.
Stefnandi segir að ekki megi gleyma því álagi sem máli þessu hafi fylgt og heimilið. Eiginkona stefnanda hafi orðið sjúk sem hafi gert hana óvinnufæra, fyrst um lengri eða skemmri tíma en endað með því að hún hafi verið metin 75% öryrki vegna álags. Afkomukvíði, um að missa hús og eignir, hafi einkennt það tímabil enda hafi heilsubrestur konu stefnanda fylgt framvindu uppsafnaðra málaferla sem mætt hafi stefnanda. Kona hans hafi verið eina fyrirvinna heimilis þeirra frá 1. ágúst 2014 til þess að hún hafi fengið örorkubætur í febrúar 2016. Sé þetta beinlínis tengt þeirri aðför sem stefnandi hafi orðið fyrir.
Stefnandi segist vísa til matsgerðar vegna útreiknings skaðabótakröfu sinnar. Heimilt sé að styðjast við slíka útreikninga sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli 846/2014. Ekki séu efni til að lækka bætur vegna ótryggs starfsöryggis, svo sem gert hafi verið í því máli, í ljósi þess mikla starfsöryggis sem grunnskólakennarar hafi. Að auki hafi stefndi komið því svo fyrir að stefnanda hafi í reynd ekki átt í hús að venda með vinnu. Hann megi búast við höfnun, undir yfirskini, eins og byggt sé á að gert hafi verið þegar hann hafi sótt um starf í Brekkuskóla. Sé ekki leggjandi á nokkurn mann að sækja um vinnu þar sem hann þurfi að óttast slíka meðferð. Hafi stefndi sjálfur valdið þeim ótta. Þar að auki liggi fyrir samkvæmt dómi Hæstaréttar að stefnandi hafi í engu brotið af sér í starfi. Dómurinn hafi réttarverkanir skv. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Stefnandi segir það hafa áhrif á fjárhæð bóta ef atvinnurekandi skemmi orðstír starfsmanns með ólögmætri hegðan sinni og kveðst stefnandi þar vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli 275/2003.
Stefnandi kveðst sundurliða kröfu sína vegna fjártjóns svo að launatekjutap samkvæmt mati dómkvadds matsmanns nemi 9.776.885 krónum, töpuð séreign nemi 341.893 krónum og töpuð lífeyrisréttindi 3.564.001 krónu. Samtals nemi þessar fjárhæðir 13.682.779 krónum.
Stefnandi kveðst krefjast dráttarvaxta af miskabótakröfu þegar mánuður hafi verið liðinn frá móttöku kröfubréfs.
Stefnandi segir að í máli nr. 396/2015 hafi niðurstaða Hæstaréttar Íslands orðið sú að uppsögn stefnanda væri ólögmæt. Dómurinn hafi verið reistur á þeim forsendum að stefnandi hefði ekkert til saka unnið í starfi og hvorki hefði verið heimilt að áminna hann né segja honum upp. Skipti þá ekki máli hvort litið sé til ákvæða laga eða kjarasamninga. Dómurinn hafi réttarverkanir skv. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Dómsorðið hafi hins vegar ekki lotið að ógildingu áminningarinnar og hún hafi ekki verið dregin til baka og sé því nauðsynlegt að höfða mál til að fá hana úr gildi fellda. Af dómi Hæstaréttar í umræddu máli leiði að stefnda sé skylt að draga til baka þá áminningu er hann hafi veitt stefnanda. Að auki hafi gerðir stefnda verið ólögmætar af fleiri ástæðum sem raktar hafi verið í stefnu í máli þessu. Kveðst stefnandi byggja á að áminninguna beri einnig að fella niður með vísan til þeirra málsástæðna.
Stefnandi kveðst byggja á því að ólögmæt brottvikning, sem hann hafi sætt, sé bótaskyld samkvæmt almennu sakarreglunni og einnig á grundvelli þess að í henni hafi verið brotið gegn ráðningarsambandi aðila og eigi stefnandi að verða eins settur eins og það hafi verið efnt að réttu lagi samkvæmt almennum reglum kröfu og vinnuréttar. Á því sé byggt að málsástæður þessar geti staðið hvor við annarrar hlið en ef réttarfarsástæður krefjist sé sú síðarnefnda til vara.
Stefnandi kveðst vísa til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. og 130. gr. vegna málskostnaðar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna uppsagnarinnar. Hann hafi ekki verið æviráðinn og hafi ekki getað gert ráð fyrir því að halda stöðu sinni til loka venjulegs starfsaldurs. Stefnandi hafi verið sextugur, þegar honum hafi verið sagt upp störfum, og uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi því fimm mánuðir. Stefndi segir að stefnandi hafi verið áminntur hinn 13. febrúar 2012. Hinn 21. júní sama ár hafi honum verið boðið að gera samkomulag við stefnda um starfslok þannig að hann fengi greidd full laun í eitt ár, frá 1. ágúst 2012 til 31. júlí 2013. Yrðu þær óskilyrtar og skyldu ekki sæta frádrætti vegna launa og tekna sem hann kynni að hafa annars staðar. Þessu boði hafi stefnandi hafnað með bréfi hinn 29. júní 2012 sama dag og hann hafi aftur verið boðaður til fundar vegna skrifa sem stefndi hafi talið brot í starfi. Hafi því ferli lokið með því stefnda hafi verið sagt upp störfum með bréfi 12. júlí 2012. Þar hafi komið fram að uppsagnarfrestur væri fimm mánuðir og miðaðist við 1. ágúst 2012. Stefnandi hafi fengið greidd laun út uppsagnarfrest, út árið 2012, en starfskrafta hans hafi ekki verið óskað á uppsagnarfresti.
Stefndi kveðst mótmæla því að uppsögnin hafi verið til þess fallin að draga verulega úr atvinnumöguleikum stefnanda annarsstaðar. Stefnandi hafi lengi verið umdeildur áður en til uppsagnarinnar hafi komið og styr staðið um hann um langt árabil vegna ummæla sem að hann sjálfur hafi haft uppi í fjölmiðlum og á vefsíðu sinni. Tíðarandinn hafi tekið breytingum og þar á meðal almenn viðhorf til samkynhneigðra. Því sé ekki ólíklegt að ýmsir skólastjórnendur séu hikandi við að ráða menn með þær skoðanir sem stefnandi hafi sjálfur óbeðinn kynnt landsmönnum og kveðst stefndi hafna því að uppsögn stefnanda hafi þar nokkuru breytt.
Stefndi segir að í málinu liggi fyrir ein atvinnuumsókn frá stefnanda og sé hún um starf í Brekkuskóla. Af henni verði ekki séð að stefnanda hafi verið alvara með umsókninni enda hafi hann nær ekkert fyllt út af því sem að um hafi verið beðið. Ekkert liggi fyrir um að hann hafi leitað eftir kennarastarfi annars staðar.
Stefndi segir að stefnandi sé hvítasunnuprestur og predikari. Kveðst stefndi hafa upplýsingar um að stefnandi hafi starfað sem slíkur um langt árabil og ef til vill unnið fleiri störf tengd trúfélögum og trúmálum. Því sé ekki unnt að ganga út frá því að hann hafi ekki getað haft sambærilegar tekjur af slíkum störfum. Stefnandi hafi haldið áfram störfum sínum hjá hvítasunnukirkjunni eftir uppsögnina. Ekki liggi fyrir hvort hann hafi þegið laun og eða hlunnindi fyrir og þá hver.
Stefndi segir stefnanda hafa hafnað samningi um starfslok sem hefði tryggt honum full laun í eitt ár. Miðað við dómaframkvæmd um ákvörðun bóta í sambærilegum málum verði ekki annað séð en það hafi verið mjög rausnarlegt boð. Þá hafi stefnandi jafnframt hafnað sáttaboði stefnda um þrjár milljónir króna í bætur vegna fjárhagslegs tjóns.
Stefndi kveðst til vara krefjast lækkunar skaðabóta en fjárhæð skaðabótakröfu sé mótmælt sem allt of hárri. Krafa stefnanda sé miðuð við full laun í þrjú ár og fjóra mánuði. Slíkur tími sé ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd hér á landi í sambærilegum málum sem séu all mörg. Þá kveðst stefndi vísa til þess að stefnandi hafi ekki mátt gera ráð fyrir að halda starfinu allan þann tíma enda hefðu ýmis önnur atvik getað leitt til uppsagnar eða starfsmissis. Stefnandi hafi fengið full laun í uppsagnarfresti í 5 mánuði. Þá hafi honum verið boðinn starfslokasamningur um laun í eitt ár en hafnað. Með vísan til þessa og röksemda fyrir sýknu sé gerð krafa um verulega lækkun skaðabótakröfu stefnanda.
Stefndi kveðst krefjast sýknu af kröfu um miskabætur og byggja þá kröfu sína á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir miska af hálfu stefnda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að ákvörðun stefnda hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Því sé móttælt að ferlið hafi verið niðurlægjandi fyrir stefnanda. Þó niðurstaðan hafi orðið sú að ekki hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum þar, sem nægilegar skýrar heimildir til þess hafi skort, hafi skólastjórinn haft ástæðu til að hafa áhyggjur af skrifum stefnanda og þeim viðhorfum sem þar hafi komið fram. Næsta víst megi telja að í hverjum árgangi hafi verið einhver samkynhneigður nemandi. Þá hafi þar einnig verið börn samkynhneigðra foreldra. Rannsóknir sýni að samkynhneigð ungmenni eigi mörg mjög erfitt og séu viðkvæm fyrir fordómum í sinn garð. Þar sem foreldrum sé skylt að senda börn sín í skóla, hvíli sérstakar skyldur á skólayfirvöldum að gæta velferðar nemanda sinna og brýnt sé að kennarar gefi ekki tilefni til að efast megi um virðingu þeirra fyrir börnunum og fjölskyldum þeirra. Skólastjóri hafi reynt að ræða við stefnanda um málið og beðið hann að hafa í huga stöðu sína gagnvart menendum við skrif sín. Skólastjóri og stefnandi hafi ítrekað átt samtöl þar sem reynt hafi verið að leysa málið í góðu. Einnig hafi fræðslustjóri og bæjarlögmaður átt fund með stefnanda vegna þessa. Reynt hafi verið að forðast uppsögn með því að leysa málið þannig að hann gæti sinnt í skólanum störfum sem síður yllu árekstrum við nemendur og foreldra þeirra. Skólastjóri fari með stjórnun skólans og geti stýrt því hvaða verkefni starfsmönnum séu falin.
Stefndi segir að í áminningar- og uppsagnarferlinu hafi réttra málsmeðferðarreglna verið gætt og stefnanda gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Verði að telja fráleitt að það ferli verði talið einelti og andlegt ofbeldi. Farið hafi verið eftir lögbundnum ferlum um hvernig yfirmaður skuli bregðast við þegar hann telji starfsmann hafa brotið gegn skyldum sínum. Því sé alfarið mótmælt að í þessum samtölum skólastjóra, fræðslustjóra og bæjarlögmanns við stefnanda, breytingum skólastjóra á starfi stefnanda og í áminningar- og uppsagnarferli hafi verið faldar ærumeiðingar, hótanir, ógnanir, einelti og andlegt ofbeldi.
Stefndi segir stefnanda byggja á því að brotið hafi verið gegn mannréttindum hans og mannlegri reisn. Stefndi segir í dómi Hæstaréttar Íslands sé ekki tekin afstaða til þess hvort ummæli stefnanda samrýmist starfi hans sem kennari barna sem sé lögum skylt að sækja skóla. Uppsögnin hafi verið talin ólögmæt vegna þess að ekki væri skýr heimild í lögum eða kjarasamningi til að áminna grunnskólakennara og segja honum upp vegna athæfis utan starfs. Heimild sem sé þó skýr í lögum um opinbera starfsmenn og gildi því meðal annars um kennara í framhalds- og háskólum. Foreldrum sé skylt að senda börn sín í grunnskóla og mikilvægt sé að þau geti treyst þeim sem komi að kennslu barnanna. Það hafi augljóslega verið óþægilegt til dæmis fyrir samkynhneigða foreldra, að treysta stefnanda fyrir börnum sínum og til þess hafi skólastjóra borið að líta. Eftir að hafa reynt að eiga samstarf við stefnanda um að líta til þessa hafi stefndi tekið þá ákvörðun að áminna hann og segja honum svo upp störfum og hafi talið sig hafa heimild til þess. Þrátt fyrir að niðurstaða dómstóla hafi orðið sú að ekki hafi verið fyrir hendi fullnægjandi lagastoð sé því hafnað að uppsögnin hafi falið í sér brot gegn mannlegri reisn stefnanda.
Stefndi segir stefnanda, til stuðnings kröfu um miskabætur, vísa einnig til viðtala í fjölmiðlum sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á. Viðtöl við foreldra barna í skólanum hafi ekki verið runnin undan rifjum stefnda og ekki heldur er blaðamenn hafi leitað álits félags- og sálfræðinga um málið. Samkvæmt öllu framangreindu hafni stefndi því að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til greiðslu miskabóta sé fullnægt. Verði stefndi hins vegar ekki sýknaður af miskabótakröfunni mótmæli hann henni sem allt of hárri. Eigi slík fjárhæð sér enga stoð í dómaframkvæmd, hvorki gagnvart hinu opinbera né á almennum vinnumarkaði. Til stuðnings kröfu um lækkun kröfunnar sé einnig vísað til sömu sjónarmiða og rakin hafi verið að framan í rökstuðningi fyrir sýknu af kröfu um miskabætur.
Stefndi segir að verði sér gert að greiða stefnda sé upphafstíma vaxta- og dráttarvaxtakrafna stefnanda mótmælt. Miða beri við síðara tímamark enda sé óljóst við hvað upphafstími sé miðaður og á hvaða rökum hann sé byggður.
Vegna kröfu um niðurfellingu áminningar, dags. 13. febrúar 2012, segir stefndi ljóst að áminningin sé úr gildi fallin þar sem gildistími áminningar sé aðeins 12 til 24 mánuðir og ekki sé hægt að fylgja eldri áminningu frekar eftir.
Stefndi kveðst krefjast málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, verði stefndi sýknaður. Verði bætur lækkaðar sé gerð krafa um að málskostnaður falli niður sbr. 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé sérstaklega mótmælt matskostnaði að því er launaútreikning varði.
Niðurstaða
Með dómi sínum í máli nr. 396/2015 sló Hæstiréttur Íslands því föstu að áminning og uppsögn sú sem stefndi beindi til stefnanda væru ólögmætar. Verður úrlausn máls þessa við þetta miðuð.
Stefndi byggir á því að á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna uppsagnarinnar. Hann hafi ekki verið æviráðinn og hafi ekki getað gert ráð fyrir því að halda stöðu sinni til loka venjulegs starfsaldurs. Stefnandi hafi verið sextugur, þegar honum hafi verið sagt upp störfum, og uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi fimm mánuðir. Að mati dómsins njóta grunnskólakennarar í reynd töluverðs starfsöryggis. Stefnandi er nú 65 ára að aldri. Ekkert liggur fyrir um að á síðustu árum hafi grunnskólakennarar í þjónustu stefnda notið lítils starfsöryggis eða að einhverjir þeirra hafi þurft að þola lögmæta uppsögn úr starfi áður en tíðkanlegum starfslokaaldri hefur verið náð. Í gögnum málsins segir ekki frá neinni annarri uppsögn grunnskólakennara en þeirri sem beint var að stefnanda og dæmd var ólögmæt. Þykir verða að miða við það í málinu að stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir að halda starfi sínu til loka venjulegs starfsaldurs.
Uppsögn stefnanda var ólögmæt og með henni bakaði stefndi sér skaðabótaskyldu gagnvart honum. Við mat á fjárhæð bóta verður að horfa til aldurs stefnanda en hann var orðinn sextugur að aldri þegar hann missti starf sitt. Menntun hans og starfsreynsla til nær fjörutíu ára voru á því sviði. Stefndi var til mikilla muna stærsti atvinnuveitandinn á því sviði í þeim landshluta er stefnandi á heima í. Var því augljóslega þröngt fyrir við atvinnuleit stefnanda á því sviði. Starfslok stefnanda höfðu orðið til umtalsverðrar opinberrar umræðu, meðal annars fyrir tilstilli stefnda að því leyti að stefndi sendi frá sér fréttatilkynningu þá sem rakin hefur verið. Þótt stefnandi hafi ekki verið nafngreindur í fréttatilkynningunni mátti stefnda vera ljóst að flestir færu nærri um hver ætti í hlut, en í fréttatilkynningu stefnda segir að hávær umræða hafi verið um ummæli stefnanda.
Stefnanda ber að reyna að takmarka tjón sitt með þeim hætti sem með sanngirni má ætlast til af honum. Í því skyni þáði hann atvinnuleysisbætur og ber að horfa til þeirra við ákvörðun bóta. Tilraunir hans til að hljóta nýtt starf við kennslu hafa verið raktar. Hann sendi umsókn um starf við Brekkuskóla og Hrafnagilsskóla en hlaut hvorugt. Hvort tveggja telst tilraun til að minnka tjón sitt. Upplýsingar sem hann veitti með umsókn sinni um starf í Brekkuskóla voru að sönnu fátæklegar en á hinn bóginn þekktu menn þar vel til starfa stefnanda og þess sem hann hafði fram að færa, og hefðu getað leitað hjá honum frekari upplýsinga ef ástæða hefði verið talin til. Á hinn bóginn hefur hvorki verið sýnt fram á í málinu að það, að hann hafi ekki hlotið umrædd störf, sé komið til vegna þeirra athafna stefnda sem fjallað er um í þessu máli né að brotið hafi verið á stefnda við ákvörðun um ráðningu í störfin.
Stefnandi spurðist fyrir um starf í Þelamerkurskóla. Fékk hann vinsamlegt svar með umbeðnum upplýsingum og var tjáð að honum væri velkomið að spyrja frekar ef hann þyrfti. Fyrir dómi sagði stefnandi að aðstoðarskólastjóri hefði á förnum vegi tjáð sér að „það væri búið að raða þessu niður á kennara skólans“. Fyrir dómi sagði Ingileif Ástvaldsdóttir, skólastjóri Þelamerkurskóla, að ekki hefði komið formleg umsókn frá stefnanda, aðeins fyrirspurn. Að lokum hefði annar einstaklingur, með kennsluréttindi, verið ráðinn í starfið. Ingileif sagði að hugsanleg umsókn frá stefnanda yrði metin eins og aðrar og spurð hvort starfslok hans í Brekkuskóla yrðu honum þar til trafala svaraði hún: „Ekki fyrir fram, ég mundi ekki gefa mér það fyrir fram.“ Sambærilegri spurningu svaraði Hrund Hlöðversdóttir, skólastjóri Hrafnagilsskóla, á svipaða lund fyrir dómi. Þykir að öllu samanlögðu ekki fært að leggja til grundvallar í málinu að stefnanda séu allar skóladyr lokaðar utan Akureyrar.
Þegar horft er til alls framanritaðs, atvika allra og dómvenju verða skaðabætur til stefnanda ákveðnar að álitum sex milljónir króna. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnanda vísað til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 828/2015 til stuðnings fullri bótakröfu. Sá dómur Hæstaréttar Íslands, sem snerist um efndabætur vegna sérstaks tímabundins samnings, sem Landspítalinn gerði við tiltekinn starfsmann um nánar greind sérverkefni, en rifti með ólögmætum hætti, þykir ekki breyta framangreindri niðurstöðu þessa máls.
Stefnandi krefst fjögurra milljóna króna bóta vegna þess miska sem hann hafi orðið fyrir. Í stefnu eru raktar þær breytingar sem skólastjóri Brekkuskóla gerði á starfsvettvangi stefnanda. Fyrir dómi bar skólastjórinn, Jóhanna María Agnarsdóttir, að fyrir sér hefði vakað að gæta hagsmuna nemenda. Skoðanir stefnanda gætu valdið börnunum skaða og börnin „væru þarna ekki í nógu góðu skjóli.“
Rakin hafa verið erindi sem skólanum bárust frá ónafngreindum foreldrum. Er í þeim hvorki greint frá sérstökum tilvikum þar sem stefnandi hefði brotið af sér í starfi né þar sem einstakir nemendur hefðu orðið fyrir skaða af hans völdum. Þá mun skólastjóri ekki hafa gert ráðstafanir til að líðan nemenda stefnanda yrði rannsökuð sérstaklega eða kennsluhættir hans.
Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er tjáningarfrelsi grundvallarregla og þarf mikið til að koma svo að það verði skert. Grunnskólakennarar njóta þess eins og aðrir.
Samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í lögskýringargögnum kemur fram að í skilyrðinu um ólögmæta meingerð felist að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi þyrfti þó að vera verulegt til þess að tjónsatvik verði talið ólögmæt meingerð. Í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægsta stig gáleysis fullnægi ekki kröfum ákvæðisins. Fyrir dómi lýsti skólastjóri því að fyrir sér hafi vakað að gæta hagsmuna nemenda skólans. Játa verður skólastjóra talsvert rými til að gæta hagsmuna þeirra nemenda sem honum er trúað fyrir og svigrúms við mat sitt þar um. Ekki verður talið að skólayfirvöld hafi haft sérstakan ásetning til að lítillækka stefnanda eða vinna honum miska á annan hátt. Þótt ekki hafi verið sýnt fram á að aðgerðir skólastjóra hafi í raun allar verið nauðsynlegar, hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að skólastjóri hafi í framgöngu sinni sýnt af sér svo verulegt gáleysi að framganga hans gegn stefnanda, fram að uppsögn hans, verði talin ólögmæt meingerð sem valdi skyldu til greiðslu miskabóta.
Stefnanda var sagt upp störfum eftir opinbera umræðu sem stefndi tók meðal annars þátt í með því að senda frá sér fréttatilkynningu. Með uppsögninni var í raun gert heyrinkunnugt að stefnandi hefði svo brotið af sér að réttlætti uppsögn úr starfi grunnskólakennara. Uppsögnin var ólögmæt. Þykir í henni felast ólögmæt meingerð sem stefnda verður metin bótaskyld. Verða bætur vegna hennar ákveðnar 500.000 krónur.
Stefnandi krefst vaxta af skaðabótakröfu frá 1. maí 2016 en af miskabótakröfu frá 1. apríl 2016. Bótakrafa var birt stefnda 29. febrúar sama ár. Verður vaxtakrafa stefnanda tekin til greina.
Stefnandi krefst ógildingar áminningar. Í kröfum sínum í greinargerð mótmælir stefndi því ekki sérstaklega en segir ljóst að áminningin sé úr gildi fallin þar sem gildistími áminningar sé aðeins eitt til tvö ár. Við munnlegan málflutning kom fram af hálfu stefnda að hann væri reiðubúinn að afturkalla áminninguna. Stefnandi þykir hafa hagsmuni af ógildingu áminningarinnar og verður orðið við kröfu hans þar um.
Stefnanda hefur verið veitt gjafsókn til málaferlanna. Um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði segir og er þóknun lögmanns stefnanda þar ákveðin án virðisaukaskatts. Stefnda verður gert að greiða eina milljón króna í ríkissjóð í málskostnað. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda fór Einar Gautur Steingrímsson hrl. með málið en af hálfu stefnda fór Arnbjörg Sigurðardóttir hrl. með málið. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Akureyrarkaupstaður, greiði stefnanda, Snorra Óskarssyni, sex og hálfa milljón króna ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af 500.000 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí 2016 og af sex og hálfri milljón króna frá þeim degi til 29. nóvember 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Áminning er skólastjóri Brekkuskóla veitti stefnanda hinn 13. febrúar 2012 er felld úr gildi.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., þrjár milljónir króna. Stefndi greiði í ríkissjóð eina milljón króna í málskostnað.