Hæstiréttur íslands

Mál nr. 402/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. október 2001.

Nr. 402/2001.

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

K

(Garðar Valdimarsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

M höfðaði mál á hendur K og krafðist þess honum yrði dæmd forsjá barns málsaðila. Krafðist M þess síðar að málið yrði fellt niður og stóð því óhögguð sú skipan að K færi með forsjá barnsins. M kærði úrskurð héraðsdóms um málskostnaðarágreining aðila, þar sem honum var, að kröfu K sem naut gjafsóknar í héraði, gert að greiða í ríkissjóð 200.000 krónur í málskostnað samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, enda hefði hann með rekstri málsins ekki náð kröfum sínum fram. Var þessi niðurstaða héraðsdóms staðfest og M gert að greiða K 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2001, þar sem kveðið var á um málskostnað og gjafsóknarkostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem fellt var niður að ósk þess fyrrnefnda. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hrundið verði ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og varnaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður úr hendi sóknaraðila.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

         Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2001.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 26. f.m., er höfðað 20. janúar 2001 af M, á hendur K.

Í þinghaldi 26. f.m. krafðist stefnandi þess að málið yrði fellt niður. Af hálfu stefndu var þá krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en henni var með bréfi dómsmálaráðherra 28. mars 2001 veitt gjafsókn í málinu fyrir héraðsdómi. Stefnandi krefst þess hins vegar að málskostnaður falli niður.

Samkvæmt gögnum málsins er stefnandi faðir drengsins S sem stefnda ól [ . . . ] 1986. Hafa málsaðilar aldrei búið saman og stefnda farið með forsjá drengsins allt frá fæðingu hans. Stefnandi höfðaði mál þetta í því skyni að honum yrði dæmd forsjá barns málsaðila. Tók stefnda til varna og krafðist þess að hún yrði sýknuð af kröfum stefnanda. Í þinghaldi 3. apríl sl. ákvað héraðsdómari, sem þá fór með málið, að leita álits sálfræðings á því „hvað væri barninu fyrir bestu”. Þá var þess jafnframt óskað að sálfræðingurinn gæfi álit sitt á högum málsaðila og hæfni þeirra sem uppalenda. Álitsgerð um þetta efni frá 16. júní sl. var lögð fram í þinghaldi í málinu 28. sama mánaðar. Á grundvelli þess sem þar kemur fram krafðist stefnandi þess í þinghaldi 26. f.m. að málið yrði fellt niður. Þar með stendur óhögguð sú skipan að stefnda fari með forsjá drengsins.

Samkvæmt framangreindu og með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mál þetta fellt niður.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef mál er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli. Af framansögðu er ljóst að með rekstri málsins fékk stefnandi í engu framgengt dómkröfum sínum. Samkvæmt þessu og að málsatvikum virtum þykja engin efni til þess að víkja hér frá framangreindri meginreglu. Verður stefnanda því gert að greiða málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og rennur hann í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar héraðsdómslögmanns. Þykir þóknun að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðin 380.000 krónur. Annar gjafsóknarkostnaður nemur 6.415 krónum.

Kostnaður vegna gagnaöflunar undir rekstri málsins, sbr. 3. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992, skal greiddur úr ríkissjóði, en hann nemur 81.000 krónum.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Mál þetta er fellt niður.

Stefnandi, M, greiði í ríkissjóð 200.000 krónur í málskostnað.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 380.000 krónur.