Hæstiréttur íslands
Mál nr. 598/2006
Lykilorð
- Höfundarréttur
- Aðild
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 24. maí 2007. |
|
Nr. 598/2006. |
Ólafur Jónsson (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Árna Samúelssyni (Halldór H. Backman hrl.) |
Höfundarréttur. Aðild. Skaðabætur. Miskabætur. Sératkvæði.
Ó taldi að brotinn hefði verið höfundarréttur hans þegar nafngreindir bandarískir sjónvarpsþættir, sem Ó hafði þýtt á íslensku, voru gefnir út á DVD-diskum hérlendis án heimildar hans. Höfðaði hann mál á hendur Á til greiðslu bóta af þessum sökum, en félag í eigu Á hafði áður gefið umrædda þætti út á VHS-myndböndum hérlendis með þýðingum Ó samkvæmt munnlegum samningi við hann. Talið var að hinn munnlegi samningur hefði ekki náð til nýtingar á þýðingunum við útgáfu DVD-diskanna, eins og Á hélt fram, og að honum hafi mátt vera það kunnugt. Ekki varð annað ráðið en að félag Á hefði með einhverjum hætti komið að útgáfu umræddra diska og jafnframt var viðurkennt að það hefði verið dreifingaraðili hérlendis. Bakaði aðkoma félagsins Á fébótaábyrgð á því broti gegn höfundarrétti sem hér um ræddi, sbr. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972, en Á hafði lýst því yfir að hann gerði ekki athugasemd við að Ó beindi kröfum að sér persónulega í stað félagsins. Var Á dæmdur til að greiða Ó skaða- og miskabætur sem metnar voru að álitum í heild 1.000.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 8. september 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 25. október 2006 og var áfrýjað öðru sinni 21. nóvember sama ár. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.483.059 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 634.714 krónum frá 16. ágúst 2001 til 31. júlí 2002, en af 854.815 krónum frá þeim degi til 20. júní 2003, en af 1.483.059 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst þess til vara að stefnda verði gert að greiða sér 983.059 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 634.714 krónum frá 16. september 2001 til 31. ágúst 2002, en af 854.815 krónum frá þeim degi til 20. júlí 2003, en af 983.059 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Svo sem fram kemur í héraðsdómi byggir áfrýjandi aðalkröfu sína á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á fjártjóni og miska sem áfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir vegna brota á höfundarrétti sínum. Varakrafan er hins vegar byggð á reikningum áfrýjanda, sem hann gerði Sam-myndböndum með vísan til samnings um nýtingu á þýðingu áfrýjanda á sjónvarpsþáttunum „Friends“, þegar þessir þættir voru gefnir út á svonefndum DVD-diskum.
Óumdeilt er í málinu að Sam-félagið ehf., sem var í eigu stefnda, gaf út á VHS-myndböndum fyrir íslenskan markað fyrrnefnda sjónvarpsþáttaröð. Eigandi flutningsréttarins mun hafa verið bandaríska fyrirtækið Warner Bros og kveður stefndi einkahlutafélag sitt hafa samið við það um útgáfuna. Áfrýjandi hafði þýtt þessa sjónvarpsþætti af ensku á íslensku fyrir sjónvarpsstöðina Stöð 2, og þættirnir verið sýndir þar. Sam-félagið ehf. gerði á árinu 1998 samning við áfrýjanda um nýtingu á þýðingum hans og vinnu við þær við útgáfu VHS-myndbandanna og greiddi honum fyrir þetta samkvæmt reikningum á árunum 1998 til 2003. Sá samningur var munnlegur. Af hálfu stefnda hefur verið gefin yfirlýsing í málinu um að hann geri ekki athugasemd við að áfrýjandi beini kröfum sínum að sér persónulega í stað einkahlutafélagsins.
II.
Áfrýjandi byggir málsókn sína á því að brotinn hafi verið höfundarréttur hans samkvæmt 5. gr. höfundalaga nr. 73/1972, þegar nefndir sjónvarpsþættir voru gefnir út á svonefndum DVD-diskum, en það mun hafa verið á árunum 2001 til 2003. Telur hann að þá hafi umræddar þýðingar verið notaðar án heimildar sinnar, enda hafi samkomulagið við Sam-félagið ehf. um nýtingu þeirra við gerð VHS-myndbanda ekki náð til gerðar slíkra diska. Kröfur sínar á hendur stefnda byggir hann á því að Sam-félagið ehf. hafi gefið þessa diska út til dreifingar hér á landi. Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt tölvupósta milli lögmanns síns og hins erlenda framleiðanda, Warner Bros, sem sendir voru í tilefni af þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sýkna stefnda á grundvelli aðildarskorts. Þar var Warner Bros kynnt niðurstaðan og nánar tilgreindum spurningum beint til félagsins um útgáfu og framleiðslu þáttanna, dreifingu þeirra á Íslandi og hvernig það hafi komið til að þýðingar áfrýjanda hefðu verið notaðar við framleiðslu þeirra. Í svarpósti frá Warner Bros var fyrirspurnum áfrýjanda ekki svarað efnislega heldur kom þar fram sú afstaða að félagið liti svo á að um væri að ræða deilu milli áfrýjanda og leyfishafa („licensee“) þess á Íslandi og ekki mál sem þarfnaðist frekari aðkomu Warner Bros. Ennfremur kom þar fram að félagið hefði rætt þetta mál við hinn íslenska leyfishafa og að frekari fyrirspurnum skyldi beint til hans.
III.
Samkvæmt framanrituðu var Sam-félagið ehf. leyfishafi hér á landi vegna þeirra DVD-diska sem mál þetta snýst um, en stefndi hefur ekki upplýst nánar um það atriði. Íslenska textasetningin er þó ljóslega aðallega í þágu félagsins. Það hafði áður gert munnlegan samning við áfrýjanda um nýtingu á þýðingum hans á nefndri sjónvarpsþáttaröð við útgáfu á VHS-myndböndum, og greiðslu fyrir, en ekki er um það deilt í málinu að þýðingar áfrýjanda njóta verndar höfundaréttar. Í kjölfar bréfs lögmanns áfrýjanda 13. apríl 2004 til stefnda vegna nýtingar á íslenskum þýðingum áfrýjanda við útgáfu nefndra DVD-diska ritaði lögmaður stefnda svarbréf 12. október 2004 þar sem fram kom meðal annars að þýðingar áfrýjanda hefðu ekki verið notaðar „nema að hluta á hinum útgefnu DVD-diskum“ og að Sam-félagið ehf. teldi sig hafa greitt fyrir „alla umrædda vinnu“ áfrýjanda og því ekki skylt að greiða meira „jafnvel þótt umræddir þættir séu prentaðir á annað form en VHS myndbandsspólur.“ Þá sagði einnig í bréfinu að engin vinna hefði farið fram af hálfu áfrýjanda „í tengslum við hina umdeildu útgáfu umbjóðanda míns.“ Samkvæmt framanrituðu um aðkomu Sam-félagsins ehf. að málinu bar stefnda að leggja fram frekari gögn um aðild félagsins að framleiðslu, útgáfu og dreifingu DVD-diskanna hérlendis og upplýsa þannig frekar um málsatvik, sem eru óljós af þessum sökum.
Sam-félaginu ehf., sem aðila að hinum munnlega samningi, mátti vera kunnugt um inntak hans þegar það hóf dreifingu á umræddum DVD-diskum hérlendis. Þar sem samningurinn var munnlegur og áfrýjandi hafði áður sent reikninga um sérstaka greiðslu einungis vegna VHS-myndbanda, verður að leggja til grundvallar að samningurinn hafi ekki falið annað og meira í sér en kom fram á þeim reikningum, sem greiddir voru athugasemdalaust. Er sú niðurstaða jafnframt í samræmi við almenn viðmið í höfundarétti við skýringu á slíkum samningum. Náði samningurinn því ekki til nýtingar á nefndum þýðingum við stafræna útgáfu á DVD-diskum hérlendis, eins og stefndi hélt fram í bréfi sínu.
Samkvæmt framansögðu verður ekki annað ráðið en að Sam-félagið ehf. hafi með einhverjum hætti komið að útgáfu umræddra DVD-diska og jafnframt er viðurkennt að þeir eru dreifingaraðilar hérlendis. Bakar þessi aðkoma Sam-félagsins ehf. stefnda fébótaábyrgð á því broti gegn höfundarrétti sem hér um ræðir, sbr. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga.
Gögn málsins bera ótvírætt með sér að þýðingar áfrýjanda voru notaðar að minnsta kosti á hluta þeirra DVD-diska, sem dreift var á Íslandi, enda kemur nafn hans fyrir við áhorf á þá. Í öðrum tilvikum kemur fram um íslenska texta svohljóðandi setning: „Umsamið hjá: GELULA & CO., INC.“. Áfrýjandi hefur haldið því fram að þýðingar hans hafi verið notaðar á öllum útgefnum DVD-diskum hérlendis sem innihéldu umrædda þáttaröð. Eins og tengslum Sam-félagsins ehf. við hinn erlenda eiganda flutningsréttarins er háttað stendur það stefnda nær að upplýsa nánar um þetta atriði. Hann hefur engan reka gert að því og verður að leggja fullyrðingu áfrýjanda um þetta atriði til grundvallar í málinu við ákvörðun fébóta. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga skal dæma höfundi miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti hans með ólögmætri háttsemi. Með því að rétti áfrýjanda var samkvæmt framangreindu raskað á ólögmætan hátt ber að dæma honum miskabætur. Bæði fjártjón áfrýjanda og miska verður að meta nokkuð að álitum og er rétt eins og hér háttar til að ákveða bæturnar í einu lagi. Með framangreind sjónarmið í huga þykir rétt að stefndi greiði áfrýjanda bætur fyrir brot á höfundarrétti hans, sem teljast hæfilega ákveðnar í heild 1.000.000 krónur.
Framangreind krafa var fyrst sett fram sem skaðabótarkrafa við höfðun málsins, 7. september 2005. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ber hún dráttarvexti frá 7. október sama ár.
Samkvæmt framangreindri niðurstöðu er rétt að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem nánar er kveðið á um í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Árni Samúelsson, greiði áfrýjanda, Ólafi Jónssyni, 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. október 2005 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Svo sem fram kemur í atkvæði meirihlutans byggir áfrýjandi málsókn sína á því að brotinn hafi verið höfundaréttur hans samkvæmt 5. gr. höfundalaga nr. 73/1972, þegar sjónvarpsþættirnir „Friends“ voru gefnir út á svonefndum DVD-diskum, en það mun hafa verið á árunum 2001 til 2003. Telur hann að þá hafi þýðingar sem hann hafði gert á þáttunum af ensku á íslensku fyrir Sam-félagið ehf. til útgáfu á VHS-myndböndum verið notaðar án heimildar sinnar. Kröfur sínar á hendur stefnda byggir hann á því að stefndi hafi gefið þessa diska út til dreifingar hér á landi. Þá hefur hann, að því er virðist til vara, byggt á því að hvað sem þessu liði væri nægilega sannað í málinu að stefndi hefði ráðstafað þýðingum sínum til bandaríska fyrirtækisins Warner Bros, framleiðanda DVD-diskanna, án þess að hafa haft heimild til þess. Þó að ekki hafi berum orðum verið byggt á þessari varamálsástæðu í stefnu til héraðsdóms verður að telja að hún hafi falist í hinni fyrrnefndu, enda tók stefndi afstöðu til hennar í greinargerð sinni í héraði, þegar hann tók fram að áfrýjandi virtist byggja á þessu og kvað það rangt, að hann hefði framselt þýðingarnar. Fyrir Hæstarétti kveðst áfrýjandi að auki vilja byggja á því að stefndi beri ábyrgð á ætluðum brotum á höfundarrétti áfrýjanda á þeim grundvelli að stefndi hafi annast dreifingu diskanna hér á landi fyrir hinn erlenda framleiðanda þeirra. Ekki verður séð að áfrýjandi hafi byggt á þessari málsástæðu í héraði og í úrlausn héraðsdóms er ekkert að henni vikið. Tel ég hana með vísan til 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála of seint fram komna og komi hún því ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Gögn málsins sýna, að umræddir DVD-diskar eru framleiddir fyrir markað í mörgum löndum, þar sem á þeim er að finna þýðingar á mörg tungumál, sem notandi getur valið um. Liggur nægilega fyrir í málinu, að stefndi hefur ekki framleitt diska þessa. Tel ég því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að sýkna beri hann af kröfum áfrýjanda sem á því byggjast að svo hafi verið. Þó að ráða megi af gögnum málsins að þýðingar áfrýjanda hafi að minnsta kosti að hluta verið nýttar við gerð diskanna hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að stefndi hafi sérstaklega ráðstafað þýðingunni til hins bandaríska framleiðanda. Voru engin vandkvæði á að nýta þýðingarnar við framleiðslu diskanna án slíkrar ráðstöfunar, enda höfðu þær verið gefnar út á fyrrgreindum myndböndum. Verða kröfur áfrýjanda því heldur ekki á þessu reistar. Gildir þetta bæði um aðalkröfuna um skaða- og miskabætur og einnig um varakröfuna um endurgjald samkvæmt samningi.
Samkvæmt framansögðu tel ég að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm um sýknu stefnda og málskostnað en að rétt sé að dæma áfrýjanda til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ólafi Jónssyni, kt. 070252-7599, Jóruseli 22, Reykjavík, gegn Árna Samúelssyni, kt. 120742-7799, Suðurhlíð 28d, Reykjavík, með stefnu sem birt var 7. september 2005.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur að fjárhæð 1.483.059 kr. ásamt dráttarvöxtum af 634.714 kr. frá 16.08.2001 til 31.07.2002, af 854.815 kr. frá 31.07.2002 til 20.06.2003, af 1.483.059 kr. frá 20.06.2003 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 983.059 kr. ásamt dráttarvöxtum af 634.714 kr. frá 16.09.2001 til 31.08.2002, af 854.815 kr. frá 31.08.2002 til 20.07.2003, af 983.059 kr. frá 20.07.2003 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara að stefnukröfur verði verulega lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst í stuttu máli á þá leið að stefndi, sem rekur SAM-myndbönd, hafi á árinu 1998 farið þess á leit við stefnanda að fá að nota þýðingu hans af ensku á íslensku á sjónvarpsþættinum Friends, er stefnandi hafði unnið fyrir sjónvarpstöðina Stöð 2, við útgáfu SAM-myndbanda á þáttunum á VHS-myndbönd. Hafi stefnandi fallist á þessi tilmæli og munnlegt samkomulag orðið um að stefndi greiddi helmingi lægri taxta en stefnandi hafi upphaflega fengið greitt fyrir þýðingarnar fyrir Stöð 2.
Greint er frá því að á árunum 1998 til 2003 hafi stefnandi yfirfært eða aðlagað þýðingar af sjónvarpsþáttunum á 54 myndbandsspólur, en á hverri hafi verið fjórir þættir. Samkomulag hafi verið um að stefndi greiddi stefnanda 13,65 kr. á einingu eða texta árið 1998, 14,55 kr. árið 1999, 14,85 kr. fyrri hluta ársins 2000 en 15,92 kr. seinni hluta sama árs og árið 2001, en 16,39 kr. árin 2002 og 2003. Hafi stefnandi sent stefnda reikninga vegna þýðingavinnu sinnar sem stefndi hafi greitt umsvifalaust.
Þá segir að um það bil tveimur árum eftir að aðilar höfðu komist að framangreindu samkomulagi hafi stefnandi orðið var við að stefndi var farinn að gefa út sömu sjónvarpsþætti á DVD-mynddiskum, en sú tækni hafi þá verið farin að ryðja sér til rúms. Hafi stefndi notað þýðingar stefnanda við útgáfu á DVD-mynddiskunum, þær sömu og voru á myndböndunum, án þess að leita samþykkis stefnanda eða semja við hann um greiðslur vegna útgáfunnar. Hafi hann krafið stefnda um greiðslu fyrir að nota þýðingar sínar við útgáfu á DVD-mynddiskunum, sama einingarverð á texta og við útgáfu myndbandanna, en stefndi hafnað því.
Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst nokkuð á annan veg svo sem hér greinir í stuttu máli: Stefndi segir að félag hans, Sam-félagið ehf., hafa á árinu 1998 keypt þýðingar stefnanda á sjónvarpsþáttunum Friends í því skyni að gefa þá út til sölu og leigu. Fyrirtækið Warner Bros sé eigandi þáttanna en Sam-félagið ehf. rétthafi útgáfu þeirra á Íslandi til sölu og leigu. Samið hafi verið um ákveðið endurgjald fyrir vinnu stefnanda, en hún hafi verið byggð á fyrri vinnu hans við þýðingu þáttanna fyrir sjónvarp. Hafi stefnandi þurft að yfirfara texta sína og aðlaga þá að útgáfunni. Í því hafi falist nokkur vinna sem stefndi hefði greitt fyrir, sbr. dskj. nr. 3. Um endanlega greiðslu fyrir efnið og notkun þess í þessum tilgangi hafi verið að ræða. Ekki hafi með nokkrum hætti verið áskilið að greiðslan fæli eingöngu í sér greiðslu fyrir vinnu stefnanda og notkun efnisins á VHS-myndböndum, heldur hafi verið miðað við að um væri að ræða greiðslu fyrir þýðingarvinnu, sem stefndi gæti nýtt sér ótímabundið við útgáfu á þessum sjónvarps-þáttum almennt til sölu eða leigu. Ljóst hafi verið að þættirnir yrðu einnig gefnir úr á DVD-mynddiskum, sem þá hafi verið að ryðja sér til rúms, og aðilar rætt um það sín í milli.
Skömmu eftir þetta kveður stefndi að hafist hafi verið handa við útgáfu á sjónvarpsþáttunum á DVD-mynddiskum. Hvorki stefndi né nokkur á hans vegum hafi séð um að útbúa þýðingar á þessum mynddiskum, efnið hafi komið tilbúið til dreifingar frá Warner Bros. Kveðst stefndi ekki vita hvort og þá að hvaða leyti þýðingar stefnanda voru notaðar á þessum mynddiskum.
Stefndi segir að engar athugasemdir hafi borist frá stefnanda við útgáfu á DVD-mynddiskunum fyrr en með reikningi frá stefnanda 16. ágúst 2001, sbr. dskj. nr. 4.
Stefnandi byggir á því að hann njóti höfundarréttar á umræddri þýðingu sinni á Friends-sjónvarpsþáttunum samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972. Hann hafi aðhæft þættina tiltekinni notkun og eigi því höfundarrétt að þáttunum í hinni breyttu mynd ásamt þeim sem fari með höfundarrétt að frumverkinu, þ.e. framleiðendum þáttanna, sbr. 5. gr. laganna.
Stefnandi vísar til þess að þættirnir hafi upphaflega verið sýndir í sjónvarpi og hafi síðan verið gefnir út á myndbönd og svo á DVD-mynddiskum í nýrri og sjálfstæðri útgáfu, en slík eintakagerð falli undir einkarétt höfundar samkvæmt 3. gr. laga nr. 73/1972.
Samningur aðila um þýðingar stefnanda, vegna útgáfu stefnda á VHS-myndböndunum, sé útgáfusamningur þar sem stefnandi veitti stefnda rétt til að birta aðlögun stefnanda á VHS-myndböndunum. Samningurinn hafi ekki veitt stefnda eða útgefanda eignarrétt að verki stefnanda, sbr. 33. gr. laga nr. 73/1972.
Byggt er á því að framsal höfundarréttar sé aldrei víðtækara en beinlínis sé kveðið á um í samningi, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1972. Samningur aðila hafi verið munnlegur og við samningsgerðina hafi ekkert verið rætt um aðrar útgáfur eða eintök þáttanna eða frekari notkun stefnda á þýðingunum. Samningurinn hafi einungis náð til þess að þýða þættina fyrir útgáfu myndbanda og hafi stefnandi aldrei samþykkt að þiggja eingreiðslu fyrir þýðingarnar og afsala sér þannig rétti á frekari greiðslum í framtíðinni vegna verksins. Samningur aðila hafi einskorðast við útgáfu VHS-myndbandanna.
Byggt er á því að stefnda hafi borið að leita eftir samþykki stefnanda til þess að gefa út þættina með þýðingum stefnanda við útgáfu DVD-mynddiska og greiða þá þóknun sem stefnandi áskildi sér eða að semja um hana. Það hafi stefndi ekki gert og brotið þannig með ólögmætum og saknæmum hætti gegn höfundarrétti stefnanda. Stefnda beri því að bæta stefnanda tjón hans eftir bótareglum 56. gr. laga nr. 73/1972.
Stefnandi tekur fram að fjárkrafa sín sé tvíþætt: Í fyrsta lagi sé krafist skaðabóta fyrir fjártjón að fjárhæð 983.059 kr. Þá kröfu byggi hann á því að dómstólar leggi að jafnaði til grundvallar bótum - fyrir fjárhagslegt tjón vegna brota á höfundarrétti - það verð, sem þurft hefði að greiða fyrir verkið eða afnot af verkinu samkvæmt gjaldskrá, ef um afnot hefði verið samið, sbr. Hrd. nr. 146/2000. Sanngjarnt sé því að leggja til grundvallar verðmæti samningsfjárhæðar aðila vegna þýðingar stefnanda við útgáfu þáttanna á VHS-myndbönd. Fjárkrafa stefnanda miðist því við sama einingaverð og aðilar sömdu um á einingu eða texta við útgáfu VHS-myndbandanna.
Í öðru lagi er krafist miskabóta að fjárhæð 500.000 kr. Þá kröfu kveðst stefnandi byggja á því að stefndi hafi í mörg ár gefið út DVD-mynddiska í tugþúsundatali með Friends-þáttunum án heimildar stefnanda. Hafi stefndi hagnast verulega á þessari ólögmætu og saknæmu háttsemi sinni. Hafi stefndi vanvirt höfundarrétt, heiður og sæmd stefnanda með því að virða að vettugi höfundarrétt hans. Stefndi hafi þannig raskað rétti stefnanda með ólögmætri háttsemi og eigi stefnandi rétt á miskabótum úr hendi stefnda, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1972.
Stefnandi vísar til þess að honum sé ekki kunnugt um það hvenær nákvæmlega stefndi gaf út DVD-mynddiskana. Hann viti því ekki hvenær hin bótaskyldu atvik áttu sér stað. Krafa hans um dráttarvexti af skaðabótakröfunni sé því miðuð við þann tíma er honum varð kunnugt um útgáfuna og hann krafði stefnda um þóknun fyrir þýðingarnar, sbr. reikninga hans, dags. 16.082001, 31.07.2002 og 20.06.2003 á dskj. nr. 4-6.
Varakröfu sína kveðst stefnandi styðja við almennar reglur fjármunaréttarins og byggja á þremur reikningum, nr. 9, útg. 16.06.2001 að fjárhæð 634.714 kr., nr. 25, útg. 31.07.2002 að fjárhæð 220.101 kr. og nr. 38, útg. 20.06.2003 að fjárhæð 128.244 kr. Samtals að fjárhæð 983.059 kr. Vísað er til sömu málsástæðna og aðalkrafan er byggð á eins og við geti átt, og krafist dráttarvaxta frá og með einum mánuði eftir útgáfudag hvers reiknings, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefndi kveðst byggja fyrst og fremst á því að hann sé ekki réttur aðili að kröfu stefnanda. Hann hafi ekki notað efni frá stefnanda, hvorki þýðingar né annað við útgáfu á umræddum DVD-mynddiskum. Rangt sé að hann hafi framselt þýðingar stefnanda með einhverjum hætti svo sem ætla má að stefnandi reisi kröfu sína á. Þættirnir hafi komið til stefnda frá hinum erlenda eiganda með þýðingum á nokkrum tungumálum, þ. á m. með íslenskri þýðingu. Stefnandi hafi á engan hátt rökstutt aðild stefnda að kröfunni, ábyrgð hans á efni þáttanna eða ætlaða notkun á þýðingum stefnanda. Beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Verði ekki fallist á að stefndi sé ekki réttur aðili að málinu er í fyrsta lagi byggt á því að ósannað sé að þýðingar stefnanda hafi verið notaðar við útgáfu á umræddum sjónvarpsþáttum á DVD-mynddiskum. Í öðru lagi - og að því gefnu að stefnanda takist sönnun þess að þýðingar hans hafi yfir höfuð verið notaðar - er kröfum stefnanda eigi að síður mótmælt, því er mótmælt að stefnandi geti með málshöfðun gert skaða- og miskabótakröfur í stað þeirra fjárkrafna sem áður voru hafðar uppi.
Vísað er til þess að stefnandi hafi frá upphafi litið á kröfur sínar sem fjárkröfur og hafi hann gefið út reikninga í þá veru. Slíkar kröfur geti ekki síðar orðið skaðabótakröfur. Engin skilyrði séu til að fallast á skaða- eða miskabótaskyldu stefnda í málinu. Ekkert brot hafi átt sér stað á höfundarrétti stefnanda samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972. Í versta falli sé um að ræða misskilning á samningi aðila og hafi stefnandi afmarkað kröfugerð sína vegna þess misskilnings við útgefna reikninga, m.ö.o. ráðstafað sakarefninu.
Bent er á að bótaregla 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 sé reist á grundvallar-sjónarmiðum skaðabótaréttar utan samninga, þ.e. að um saknæmt og ólögmætt atferli sé að ræða sem leiði til bótaskylds tjóns samkvæmt lögunum. Gildi það bæði um skaðabætur skv. 1. mgr. ákvæðisins og miskabætur skv. 2. mgr. ákvæðisins. Stefnandi hafi hvorki sannað slíkt tjón né gert það sennilegt. Þó að aðila greini á um efndir stefnda á samningi aðila þá sé vandséð að í skoðun stefnda á samningnum felist saknæm háttsemi, hvað þá að stefnandi hafi með því orðið fyrir bótaskyldu tjóni.
Stefndi mótmælir því sérstaklega að stefnandi hafi orðið fyrir bótaskyldum miska. Vísað er til þess að stefnandi hafi engar athugasemdir gert við útgáfu á DVD-mynddiskunum við stefnda. Hafi hann látið við það sitja að krefjast þess endurgjalds sem nú er deilt um. Vera kunni að ýmsar reglur höfundalaga nr. 73/1972 megi hafa til hliðsjónar við mat á ætluðum kröfurétti stefnanda á grundvelli hinna útgefnu reikninga, en það breyti engu um að bótareglur höfundalaganna eigi ekki við í málinu.
Áréttað er að engin lagaheimild sé fyrir því að vinsældir efnis DVD-mynddiskanna og hagsmunir stefnda séu lögð til grundvallar við ákvörðun miskabóta.
Bent er á að aðalkrafa stefnanda sé ekki sett fram sem skaðabótakrafa. Krafist sé dráttarvaxta af henni eins og um almenna fjárkröfu sé að ræða samkvæmt útgefnum reikningum, en ekki byggt á reglu 9. gr. laga nr. 38/2001, sem þó væri rétt ef um bótakröfu væri að ræða í raun. Reikningar stefnanda geti varla talist lögmætur grundvöllur bótakröfu eða töluleg forsenda hennar.
Telji dómurinn að einhverju leyti rétt að miða úrlausn málsins við bótaskyldu stefnda, er á því byggt að taka verði tillit til þess að þýðingar sjónvarpsefnis hafi takmörkuð höfundareinkenni og þegar af þeirri ástæðu séu þeir hagsmunir sem felast kunna í höfundarrétti stefnanda óverulegir í raun. Jafnframt byggir stefndi á því, komi bótaskylda á annað borð til greina, beri að horfa til þess að stefndi hafi þegar greitt stefnanda stórfé fyrir þessar þýðingar.
Þá er vísað til þess að krafa stefnanda sé í rauninni fjárkrafa samkvæmt þremur reikningum. Sá elsti þeirra sé dagsettur 16. ágúst 2001, sbr. dskj. nr. 4. Mál þetta hafi verið höfðað með stefnu sem birt var 7. september 2005 og hafi þá verið liðinn fyrningarfrestur samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905. Sami fyrningarfrestur eigi við um allar vaxtakröfur stefnanda frá því fyrir 7. september 2001. Ófyrndar séu því eingöngu kröfur samkvæmt reikningum stefnanda frá 31. júlí 20002, að fjárhæð 220.101 kr., sbr. dskj. nr. 5, og frá 20. júní 2003, að fjárhæð 128.244 kr., sbr. dskj. nr. 6. Almennt sé dráttarvaxtakröfum stefnanda mótmælt, enda ríki mikil óvissa um greiðsluskyldu stefnda.
Þá byggir stefndi á því að horfa beri til þess við úrlausn málsins að tómlæti stefnanda sé verulegt. Atvik þess máls megi rekja til samkomulags aðila frá árinu 1998. Hafi stefndi talið tilefni til að krefja stefnanda um frekari greiðslur en hann fékk frá stefnanda, hefði hann átt að hefjast handa við að halda uppi kröfu sinni, í síðasta lagi sumarið 2001, er stefndi hafnaði greiðsluskyldu hins fyrst af þeim reikningum frá stefnanda er hér er um deilt.
Vísað er til þess að stefnandi sé sérfróður þjónustuaðili sem stefndi hafi leitað til og hafi stefnandi enda áður þýtt umrædda sjónvarpsþætti, er horfði til hagræðis fyrir stefnanda. Hvergi hafi verið sérstaklega skilgreint eða umsamið að vinna stefnanda og notkunarheimild stefnda á þýðingum stefnanda væri bundin við útgáfu þessa efnis á VHS-myndbandsspólum fremur en öðrum sambærilegum miðlum með sömu notkun. Hafi þetta verið sjálfsagðar og eðlilegar forsendur stefnda í öndverðu. Raunar hafi endurgjald stefnanda ekki einu sinni verið bundið við tiltekinn tíma útgáfu eða tiltekinn eintakafjölda. Útgáfa sömu sjónvarpsþátta á DVD-mynddiskum hafi nánast komið í stað útgáfu á VHS-myndbandsspólum og hafi trauðla verið um umfangsmeiri notkun eða opinbera birtingu að ræða á þýðingum stefnanda en hann hefði getað gert ráð fyrir í upphafi, jafnvel þó að sannað hefði verið að stefnandi hefði bundið notkunarheimild stefnda við VHS-myndbandsspólur. Reikna megi með því að fyrir hvert eintak af DVD-mynddiskum hafi sala á VHS-myndbandsspólum minnkað sem því nemur. Ekki hafi verið um nýja birtingu eða nýja dreifingu að ræða heldur nýja tækni í sama tilgangi.
Tvö atriði eru að mati stefnda ráðandi varðandi endurgjald fyrir vinnu stefnanda. Í fyrsta lagi vinna hans við þýðingarnar er farið var í útgáfuna - en þetta sé grundvallarþátturinn í gjaldtöku stefnanda skv. reikningum hans á dskj. nr. 3. Í öðru lagi gæti stefnandi hugsanlega heimtað tiltekna þóknun fyrir opinbera birtingu þýðinganna. Þetta sé hins vegar á engan hátt sundurliðað í reikningum stefnanda á dskj. nr. 3, en ekki sé hægt að útiloka að hluti endurgjaldsins sé slík þóknun. Hversu stór hluti sé hins vegar algerlega óljóst og ósannað. Stefnandi hafi enga frekari vinnu innt af hendi, þar fyrir utan sé það ósannað og óljóst hvort og þá að hve miklu leyti þýðingar stefnanda voru yfir höfuð notaðar á diskunum. Þóknun höfundar fyrir opinbera birtingu á myndskeiðum sé á engan hátt bundin við það hvaða tækni sé notuð við birtinguna heldur sé litið til þess með hvaða hætti birting eigi sér stað. Óumdeilt sé að um nákvæmlega sama birtingarmáta er að ræða hvort sem notaðar eru VHS-myndbandsspólur eða DVD-mynddiskar. Í báðum tilvikum hafi viðkomandi sjónvarpsþættir verið seldir í búðum til neytenda eða leigðir til einkaafnota á myndbandaleigum. Engin breyting hafi orðið á þessu þó að þættirnir hefðu verið gefnir út á DVD-mynddiskum. Birtingin og notkunin sé sú sama, en þóknun höfundar miðist ekki við það með hvaða tækni birting á sér stað, um það séu engin ákvæði í höfundalögum nr. 73/1972.
Varakröfu sína um verulega lækkun á stefnukröfum kveðst stefndi byggja á sömu málsástæðum og að framan greinir. Þar að auki og til frekari áréttingar kveðst hann í fyrsta lagi byggja á því að krafa stefnanda skv. reikningi á dskj. nr. 4 sé fyrnd og beri því að lækka kröfu stefnanda sem því nemi. Í öðru lagi kveðst hann byggja á því að fráleitt sé að honum beri að greiða sama endurgjald og áður til stefnanda þegar ljóst sé að engin frekari vinna var unnin af stefnanda fyrir stefnda og að stefnandi hafi í raun þegar fengið greitt fyrir sömu afnot með annarri tækni. Þannig beri að lækka verulega þá hluta krafna stefnanda sem ekki séu þegar fyrndir. Í þriðja lagi er á því byggt að bótafjárhæðin sé fráleit, bæði hvað varðar skaða- og miskabætur. Engin rök séu til þess að dæma svo háar bætur þegar horft sé til atvika málsins. Í fjórða lagi er alfarið mótmælt rökstuðningi stefnanda fyrir miskabótakröfu og grundvelli hennar.
Stefnandi, Ólafur Jónsson, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði í u.þ.b. tuttugu ár fengist við þýðingar á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hafi hann byrjað að vinna á Stöð 2, þegar hún hóf störf 1986, og unnið við þýðingar alla tíð síðan með öðru starfi, en hann væri kennari að aðalstarfi.
Ólafur kvaðst hafa árið 1994 eða 1995 farið að þýða sjónvarpsþættina Friends sem væru þekktir og vinsælir og hafi verið framleiddir í tíu ár. Tiltekinn þáttafjöldi hefði verið sýndur á hverju ári. Árið 1998 hafi haft samband við hann maður frá SAM-myndböndum sem heiti Sigurður Jónsson. Hafi Sigurður kynnt sig sem framkvæmda-stjóra útgáfu myndbanda eða eitthvað í þá veru. Hafi hann sagt að þeir hefðu í hyggju að gefa þessa þætti út á myndböndum. Hafi Sigurður óskað eftir að kaupa afnot af þýðingum frá honum. Kvaðst Ólafur hafa verið ánægður með það að geta nýtt vinnu sína betur en hann hefði fengið fyrir hana á Stöð 2. Samkomulag hafi orðið um viðskipti. Ákveðið kerfi hafi mótast hjá Stöð 2. Rætt hafi verið um það og ákveðið hafi verið að fylgja svipuðu munstri.
Ólafur sagði að umrætt kerfi hafi verið þannig að það væri ákveðinn texti og greitt eftir ákveðnu taxtagjaldi fyrir hverja birtingu á skjá. Á Stöð 2 sé það þannig að sýningarréttur stöðvarinnar eða nýtingarrétturinn á þýðingum fylgi sýningarrétti sem þeir kaupa af dreifingaraðilanum, þannig að kaupi Stöð 2 nýjan dreifingarrétt þá borgi þeir aftur fyrir þýðinguna, en á hálfvirði. Á þessum tíma hafi Stöð 2 sennilega verið að borga honum 25 til 26 krónur fyrir hverja textabirtingu.
Ólafur sagði að samkomulag hans við Sigurð Jónsson hafi verið það að SAM-myndbönd greiddi honum er svaraði helmingi af fyrrgreindri þóknun hans hjá Stöð 2, eða 12 til 13 krónur á textann.
Lagt var fyrir Ólaf dskj. nr. 3, sem eru þrettán afrit af reikningum Ólafs á SAM-myndbönd á tímabilinu 8. júní 1998 til og með 20. júní 2003. Hann sagði að þessir reikningar væru í samræmi við áðurgreint samkomulag.
Ólafur sagði að á þessum tíma hafi verið komið til sögunnar svokallað DVD-form. Eitthvað hafi verið komið fram af kvikmyndum á því formi á þessum tíma og svolítið hefði borið á því að stóru útgáfufyrirtækin, sem voru á þessum tíma Skífan og SAM-myndbönd, og höfðu gefið mikið út af kvikmyndum á myndböndum, hafi verið farin að huga að því að gefa þetta út á DVD-diskum. Þessi fyrirtæki hefðu leitað talsvert til þeirra sem voru að þýða fyrir Stöð 2, en þeir hafi með sér félag. Um þetta hefði verið talsvert rætt í hópi þýðenda. Skilningur þeirra hefði verið sá að þarna væri um nýtt form að ræða og hafi þeir bundist samtökum um það að neita að afhenda þessar þýðingar nema gegn greiðslu með sama formi og hann áður lýsti, þ.e. að þessi fyrirtæki greiddi þeim hálft gjaldið sem Stöð 2 greiddi þeim fyrir frumþýðingu. Þetta hafi þó ekki samræmst þeim tilboðum sem þeir voru að fá, en þau hafi verið smánarlega lág.
Af þessu ástæðum kvaðst Ólafur strax hafa rætt við Sigurð um hvers konar útgáfu væri að ræða hjá SAM-myndböndum. Þeirra í milli hafi alveg verið skýrt að þetta væri útgáfa á myndbandi, VHS-spólu, sem hefði verið eina formið á útgáfum á sjónvarpsþáttum á þessum tíma. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig kvaðst Ólafur hafa verið harður á því að taka fram á reikningum að um myndbandaútgáfu væri að ræða.
Ólafur sagði að skriflegur samningur hefði ekki verið gerður. Samkomulagið hafi verið munnlegt við Sigurð Jónsson sem fulltrúa SAM-myndbanda. Sigurður hefði aldrei óskað eftir því að þýðingin yrði notuð á DVD-diskum eða á annan hátt en á myndböndum.
Ólafur sagði að er hann gaf út reikning á SAM-myndbönd 6. apríl 1999, sbr. dskj. nr. 3, hafi nýr framkvæmdastjóri verið kominn hjá SAM-myndböndum, Birgir Sigfússon. Á þeim tíma hafi honum orðið kunnugt um að farið var að gefa þetta út á DVD. Hafi hann spurt Birgi hvort verið væri að nota sínar þýðingar í þeirri útgáfu. Hafi Birgir neitað því. Ólafur kvaðst hins vegar hafa komist að því að þýðingar hans voru notað á DVD-diskum á árinu 2000, en þá hafi hann orðið sér úti um DVD-útgáfur af þessum þáttaröðum, sbr. dskj. nr. 14. Formið hafi verið að serían eða árið, 24 þættir, var gefið út á þremur DVD-diskum, 8 þættir á hverjum diski. Hafi hann farið í verslun og keypt sér þetta; sett það í spilara og horft á og hafi þar birst nafn hans undir.
Ólafur kvaðst þá hafa rætt við Birgi. Hafi Birgir viðurkennt að um þýðingar stefnanda væri að ræða. Kvaðst Ólafur hafa tjáð Birgi að hann hefði selt þýðingar sínar til útgáfu á myndböndum, VHS-formi, en ekki á DVD. Greinilega hefði hann viljað skilja þar á milli þar sem um mismunandi nýtingu væri að ræða. Ætti hann að fá greitt fyrir bæði birtingarformin. Ólafur kvað Birgi hafa haft aðra skoðun á þessu. Ólafur kvað Birgi þó hafa viðurkennt að það [myndbönd] kæmi fram á reikningum. Samskipti þeirra hafi í sjálfu sér ekki verið slæm. Hafi þeir verið sammála um að skoða málið, reyna að finna einhverja lausn á því. Hafi Birgir talað um að ræða málið við eigendur fyrirtækisins og skoða hvað væri hægt að gera í þessu. Þetta samtal kvaðst Ólafur hafa átt við Birgi árið 1999 eða 2000.
Ólafur kvað samskipti síðan hafa verið frekar lítil. Hafi hann nokkrum sinnum reynt að hafa samband við Birgi á þessum mánuðum og árum eftir þetta og ýtt á eftir þessu. Hafi hann stundum náð á hann en stundum ekki. Hafi Birgir ekki hafnað því að greiða. Ólafur kvaðst vera seinþreyttur til vandræða og hafa viljað finna lausn á þessu máli og þetta hafi gengið nokkuð lengi, árin hefðu liðið. Hann hafi átt þetta, byrjað á þessum þýðingum 1994, átt pakkana alla tilbúna. Og þegar ósk kom frá SAM-myndböndum um að þeir fengju efnið til útgáfu þá hafi hann sest við, fengið spólur frá þeim, yfirfarið þær og lagfært.
Ólafur kvaðst á einhverjum tímapunkti hafa sagt við Birgi að hann vildi leggja inn reikning til að ítreka afstöðu sína í málinu. Hafi hann sagt Birgi að sér fyndist vera svo lítið að gerast í þessu, hugmynd sín væri sú að setja aukinn þrýsting á málið.
Lagt var fyrir Ólaf dskj. 4, 5 og 6, sem eru afrit af reikningi Ólafs á SAM-myndbönd, dags. 16. ágúst 2001, 31. júní 2002 og 20. júní 2003. Ólafur sagði að vel gæti staðist að hann hafi 16. ágúst 2001 sent Birgi fyrsta reikninginn. Hafi hann gert sér grein fyrir því að þýðingar sínar hefðu verið notaðar í DVD-útgáfu 1999.
Aðspurður hvort hann hefði skoðað aðra þætti af Friends á DVD-diskum en þá sem hann keypti, þ.e. fyrstu seríuna, kvað Ólafur svo ekki vera.
Ólafur kvaðst ekki hafa verið hafður með í ráðum við útgáfu á DVD-diskunum, ekki innt neina þjónustu af hendi í því sambandi eða komið að uppfærslu á textum við útgáfuna á DVD.
Ólafur kvaðst hafa krafist sömu greiðslu fyrir þýðinguna er fram kemur á DVD-diskunum og fyrir þýðinguna er fram kemur á myndböndunum. Hann hafi unnið á Stöð 2 frá því að hún byrjaði að senda út, eða fyrir tæpum tuttugu árum. Á Stöð 2 hafi myndast sú hefð að þýðendur selji þýðingar; réttur stöðvarinnar til nýtingar á þeim þýðingum haldist í hendur við sýningarrétt á myndum og þáttum.
Ólafur tók sem dæmi, að hefði Stöð 2 keypt þátt og fengið sýningarrétt frá 1995 til 2000 og hann hefði þýtt þessa þætti, þá hefði Stöð 2 haft notkunarrétt á þýðingum hans þann tíma. Vildi svo til að ákveðnir þættir væru vinsælir, eins og t.d. Friends-þættirnir, og Stöð 2 því keypt aftur sýningarrétt á þeim, þá hefði Stöð 2 keypt aftur af honum þýðinguna og greitt honum hálft gjald, 50%. Þetta sé sú hefð sem myndast hefði á Stöð 2, að við endurkaup væri alltaf borgað hálft frumþýðingargjald. Þýðendur á Stöð 2 hafi fylgt þessu. Þegar hann ræddu við Sigurð Jónsson í upphafi um þetta, hafi hann gert honum grein fyrir því að þýðendur teldu að öll sala, öll nýting á þýðingum væri alltaf seld á hálfu frumþýðingargjaldi. Á þessu reisi hann kröfu í þessu máli á hendur stefnda þegar SAM-myndbönd taka hans eigu [þýðinguna] og nýti hana án hans leyfis. Hann hefði verið tilbúinn að selja þetta á hálfu verði og hann telji sig vera mjög hófsaman að rukka bara þetta hálfa gjald.
Ályktunarorð: Stefnandi byggir aðild stefnda í þessu máli á því stefndi hafi notað þýðingar stefnanda af ensku á íslensku í sjónvarpsþættinum Friends við útgáfu félags stefnda, SAM-myndbanda, á DVD-mynddiskum á þáttunum án þess að greiða stefnanda fyrir það.
Enda þótt álykta megi af gögnum málsins að SAM-myndbönd séu með nokkrum hætti rétthafi að útgáfu myndbanda á umræddum sjónvarpsþáttum á Íslandi og óumdeilt sé að SAM-myndbönd greiddi stefnanda fyrir þýðingu hans til notkunar á VHS-myndböndum, liggur ekki fyrir í málinu, að stefndi eða nokkur í hans þjónustu hafi notað þýðingu stefnanda við útgáfu þáttanna á DVD-mynddiskum. Stefnandi hefur engan veginn hnekkt þeirri staðhæfingu stefnda að mynddiskarnir hafi komið til SAM-myndbanda tilbúnir til dreifingar - m.a. með íslenskri þýðingu - frá eiganda þáttanna, erlenda fyrirtækinu Warner Bros. Raunar fær þessi staðhæfing stefnda stuðning af dskj. nr. 14, sem lagt var fram af hálfu stefnanda eftir að stefndi hafði lagt fram greinargerð í málinu.
Samkvæmt framangreindu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Árni Samúelsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Ólafs Jónssonar.
Málskostnaður fellur niður.