Hæstiréttur íslands
Mál nr. 401/2013
Lykilorð
- Fjárdráttur
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Þriðjudaginn 17. desember 2013. |
|
Nr. 401/2013. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Sigurður Jónsson hrl.) |
Fjárdráttur. Ómerking. Heimvísun.
X var ákærð fyrir fjárdrátt með því að hafa, sem varamaður stjórn A ehf., sameiginlega með Y, dregið félaginu og notað til reksturs þess fjármuni sem haldið var eftir af launagreiðslum starfsmanns og ganga áttu til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Með vísan til játningar ákærðu var í héraði farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. X var hins vegar sýknuð af ákærunni með vísan til stöðu hennar í stjórn A, þar sem ekkert hefði bent til að hún hefði tekið sæti í stjórninni í forföllum aðalmanns. Hæstiréttur taldi að ekki hefði með réttu mátt líta svo á að fyrir lægi skýlaus játning X á sakargiftum þannig að hún hafi verið í samræmi við gögn málsins um aðkomu X að brotinu. Hefðu ekki verið lagaskilyrði til þess að taka málið til dóms í héraði án frekari reifunar og eftir atvikum gagnaöflunar um þátt X í broti. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2013. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að ákærða verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og hún dæmd til refsingar.
Ákærða krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærðu og meðákærða í héraði gefin að sök fjárdráttur „með því að hafa, ákærði Y sem stjórnarformaður A ehf. ... og ákærða X sem varamaður í stjórn félagsins, sameiginlega á tímabilinu frá apríl 2011 til desember 2011, dregið félaginu og notað til reksturs þess samtals 647.883 krónur, sem ákærðu héldu eftir af launagreiðslum til starfsmannsins ... og ganga áttu til Innheimtustofnunar sveitarfélaga innan hálfs mánaðar samkvæmt 1. tl. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 54, 1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga.“
Málið var þingfest í héraði 7. mars 2013 og ákæran borin undir ákærðu en málinu frestað að ósk þeirra beggja. Í næsta þinghaldi 11. apríl 2013 var bókað: „Ákærðu viðurkenna skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Er nú farið með mál þetta samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008. Sækjandi og verjandi ákærðu tjá sig í stuttu máli um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga og leggja málið að svo búnu í dóm.“
Með málið fór aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Suðurlands. Í hinum áfrýjaða dómi segir svo um meðferð þess: „Með vísan til skýlausrar játningar ákærðu beggja og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning þeirra væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.“ Í framhaldi af því sagði að „um málavexti vísast til ákæruskjals“ og á þeim grunni var meðákærði í héraði fundinn sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru og réttilega var þar talin heimfærð til refsiákvæðis. Var hann dæmdur í 60 daga fangelsi bundið almennu skilorði í tvö ár. Hefur hann unað dómi.
Um þátt ákærðu sagði í héraðsdómi: „Hvað varðar ákærðu X, kemur sérstaklega til skoðunar staða hennar í stjórn félagsins. Mál þetta er höfðað á hendur henni sem varamanni í stjórn félagsins A ehf. eins og lýst er í ákæru og refsiábyrgð hennar á því byggð að hún eigi sæti í stjórn félagsins. Ber þá að líta til meginreglu félagaréttar, að varamaður tekur eingöngu sæti í félagsstjórn í forföllum aðalmanns. Ekkert í gögnum máls þessa bendir til þess að svo hafi háttað til í stjórn A ehf., og er það því mat dómsins að sýkna beri ákærðu X af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.“
II
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram ágreiningur um hvað falist hefði í bókaðri játningu ákærðu við meðferð málsins í héraði. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að ákærða hafi viðurkennt aðkomu sína að því að þeir fjármunir sem um ræðir í ákæru hafi ekki skilað sér til rétts eiganda þeirra. Því fái ekki staðist sú fullyrðing í héraðsdómi að líta beri einvörðungu til stöðu hennar sem varamanns í stjórn umrædds hlutafélags. Málflutningur í héraði hafi einvörðungu lotið að reifun lagaatriða um ákvörðun refsingar ákærðu beggja en ekki heimfærslu háttsemi ákærðu X til refsiákvæða með tilliti til gagna málsins. Af þeim sökum hafi hvorugur málsaðila talið þörf frekari gagnaöflunar og þess að aðalmeðferð færi fram. Af hálfu ákærðu er á hinn bóginn fullyrt að málflutningur hafi einmitt lotið að hinu síðastnefnda atriði. Ákærða hafi játað þá háttsemi sem um ræðir, en gert ágreining um heimfærslu háttseminnar. Hafi framangreind bókun í þingbók um reifun lagaatriða falið í sér lýsingu á þeim ágreiningi. Hvorugur sakflytjenda hafi þó talið þörf á aðalmeðferð í málinu eða öflunar frekari gagna um aðkomu ákærðu að broti.
Er málið var tekið til dóms í héraði var ekki bókað sérstaklega um kröfugerð aðila eins og bar að gera hefði komið fram skýr krafa ákærðu um sýknu, en í 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 er það gert að skilyrði fyrir því að máli verði lokið á þann einfalda hátt sem kveðið er á um í lagagreininni að dómari telji ekki ástæðu til að draga í efa að játning ákærðra á sakargiftum sé sannleikanum samkvæm. Fallast má á með héraðsdómi að staða ákærðu hjá framangreindu einkahlutafélagi ein og sér þurfi ekki að leiða til sakfellingar fyrir það brot sem ákæra fjallar um, en samkvæmt ákæru er henni á hinn bóginn gefið að sök að hafa ásamt meðákærða í héraði staðið „sameiginlega“ að fjárdrætti í þágu félagsins. Af röksemdum í hinum áfrýjaða dómi og fullyrðingum af hálfu ákærðu hér fyrir dómi verður ekki með nægilega öruggum hætti séð að með réttu hafi mátt líta svo á, að fyrir lægi skýlaus játning ákærðu á sakargiftum í skilningi framangreinds lagaákvæðis þannig að hún hafi verið í samræmi við gögn málsins um aðkomu hennar að því broti sem meðákærði í héraði var fundinn sekur um. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að miða við að ekki hafi verið lagaskilyrði til þess að taka það til dóms í héraði án frekari reifunar og eftir atvikum gagnaöflunar um þátt ákærðu í broti. Af þessu leiðir að ekki verður hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til frekari meðferðar að því er varðar ákærðu.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjenda ákærðu, svo sem í dómsorði greinir.
Það athugast að við meðferð málsins í héraði hefði verið rétt að gæta að 5. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. maí 2013.
Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið þann 11. apríl sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 24. janúar 2013, á hendur Y, kt. [...], og X, kt. [...], báðum til heimilis að [...], [...],
„fyrir fjárdrátt
með því að hafa, ákærði Y sem stjórnarformaður A ehf., [...], [...], og ákærða X sem varamaður í stjórn félagsins, sameiginlega á tímabilinu frá apríl 2011 til desember 2011, dregið félaginu og notað til reksturs þess samtals 647.883 krónur, sem ákærðu héldu eftir af launagreiðslum til starfsmannsins B, kt. [...], og ganga áttu til Innheimtustofnunar sveitarfélaga innan hálfs mánaðar samkvæmt 1. tl. 7. mgr. 5. gr. laga nr. 54, 1971 um Innheimtustofnun sveitarfélaga.
Eigi voru staðin lögmæt skil á fjárhæðinni en hún sundurliðast sem hér greinir á eftirfarandi launatímabil:
|
Apríl |
64.971 kr. |
|
Maí |
64.971 kr. |
|
Júní |
64.971 kr. |
|
Júlí |
75.495 kr. |
|
Ágúst |
75.495 kr. |
|
September |
75.495 kr. |
|
Október |
75.495 kr. |
|
Nóvember |
75.495 kr. |
|
Desember |
75.495 kr. |
|
Samtals |
647.883 kr. |
Teljast brot ákærðu varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Þá er í ákæru einkaréttarkrafa frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, en samkvæmt gögnum málsins hefur félagið A ehf., greitt fullnaðargreiðslu vegna hennar og telst bótakrefjandi hafa fallið frá kröfu sinni.
Ákærðu mættu bæði við þingfestingu málsins ásamt Sigurði Jónssyni hrl., sem skipaður var verjandi þeirra beggja að þeirra ósk. Fengu ákærðu þá frest til að taka afstöðu til sakarefnisins. Var málið aftur tekið fyrir þann 11. apríl sl., og mættu ákærðu þá bæði ásamt skipuðum verjanda. Ákærðu viðurkenndu, hvort um sig, skýlaust að hafa gerst sek um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru.
Með vísan til skýlausrar játningar ákærðu beggja og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning þeirra væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Um málavexti vísast til ákæruskjals.Sannað er að ákærði Y hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða Y hefur hann einu sinni áður sætt refsingu, en sakaferill hans hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu.
Refsing ákærða Y er hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga. Að virtum atvikum máls, að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða og þess að hann hefur ekki áður verið fundinn sekur um auðgunarbrot, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.
Hvað varðar ákærðu X, kemur sérstaklega til skoðunar staða hennar í stjórn félagsins. Mál þetta er höfðað á hendur henni sem varamanni í stjórn félagsins A ehf., eins og lýst er í ákæru og refsiábyrgð hennar á því byggð að hún eigi sæti í stjórn félagsins. Ber þá að líta til meginreglu félagaréttar, að varamaður tekur eingöngu sæti í félagsstjórn í forföllum aðalmanns. Ekkert í gögnum máls þessa bendir til þess að svo hafi háttað til í stjórn A ehf., og er það því mat dómsins að sýkna beri ákærðu X af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða Y til greiðslu sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda ákærða og er hæfilega ákveðin, 60.000 kr, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda ákærðu X, sem er hæfilega ákveðin, 60.000 kr., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.
Ákærða X er sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 60 daga.
Fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði Y greiði sakarkostnað, 60.000 krónur, sem er þóknun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Jónssonar hrl., að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Þóknun skipaðs verjanda ákærðu X, Sigurðar Jónssonar hrl., 60.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.