Hæstiréttur íslands
Mál nr. 144/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 13. mars 2012. |
|
Nr. 144/2012.
|
A (Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.) gegn Fjölskyldunefnd D (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem barnaverndarnefnd var heimilað að vista B, son A, utan heimilis hans í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 28. febrúar 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 5. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2012, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að B, sem lýtur forsjár sóknaraðila, skuli vistaður utan heimilis hans frá og með 9. janúar 2012 til og með 8. júlí sama ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreindri kröfu varnaraðila hafnað, en til vara að vistun utan heimilis verði markaður skemmri tími en gert var með hinum kærða úrskurði. Þá krefst sóknaraðili „málskostnaðar úr hendi varnaraðila ásamt virðisaukaskatti“ án tillits til gjafsóknar sem sóknaraðila hefur verið veitt. Skilja verður málskostnaðarkröfu sóknaraðila sem kröfu um málskostnað á báðum dómstigum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 180.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 8. febrúar sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur 3. janúar sl. og var þingfest 9. sama mánaðar. Sóknaraðili er Fjölskyldunefnd D, en varnaraðili A, [...], [...].
Sóknaraðili krefst þess að dómurinn úrskurði að drengurinn, B, kt. [...], sem lýtur forsjá föður síns, varnaraðila í máli þessu, verði vistaður utan heimilis föður í 6 mánuði frá 9. janúar 2012 að telja.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara að vistun utan heimilis verði markaður skemmri tíma en sóknaraðili krefst. Þá gerir varnaraðili einnig þá varakröfu að verði fallist á kröfu sóknaraðila um vistun utan heimilis þá verði úrskurðað um að vistunarstaður verði á heimili foreldra varnaraðila eins og sóknaraðili hafi upphaflega krafist.
Varnaraðili krefst málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur hér fyrir dómi.
Það athugast að samhliða máli þessu er rekið samkynja mál milli sömu aðila þar sem sóknaraðili hefur uppi kröfu um vistun dóttur varnaraðila, C, sem er 11 ára, utan heimilis varnaraðila í sex mánuði.
I
Í greinargerð sóknaraðila er málsatvikum lýst. Kemur þar fram að, B, sé 12 ára og lúti forsjá föður síns, varnaraðila. Móðir drengsins hafi látist 2005 og hafi hann ásamt systkinum sínum, C, fæddri 2000 og E, fæddum árið 1995, verið búsettur á heimili varnaraðila síðan. Varnaraðili hafi annast uppeldi barnanna að mestu einn, ef undan sé skilið undanfarið ár. Þá hafi hann verið í sambúð með bandarískri konu, en upp úr þeirri sambúð hafi nú slitnað. Konan, sem hafi verið barnshafandi eftir varnaraðila, hafi farið aftur til Bandaríkjanna og hafi nú eignast þar barn. Varnaraðli eigi langa sögu um þunglyndi og kvíða auk vímuefnavanda, en hann hafi verið dagneytandi á kannabis í rúmt ár.
Kröfugerð sú sem nú sé lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur byggi á röð atburða sem upp hafi komið í kjölfar afskipta Fjölskyldunefndar D af heimilinu, en nefndin hafi fylgst með velferð fjölskyldunnar um árabil, einkum vegna andlegs ástands varnaraðila.
Mál drengsins hafi verið unnið skv. ákvæðum barnaverndarlaga frá febrúarmánuði 2008 vegna tilkynningar skv. 17. gr. bvl. nr. 80/2002 frá [...]skóla. Þar greini frá lélegum mætingum í skóla og áhyggjum af aðbúnaði drengsins. Í bréfi frá skólanum 10. maí 2010 ítreki skólinn áhyggjur af aðstæðum drengsins. Þann 18 maí 2011 hafi borist tilkynning frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu skv. 18. gr. bvl. vegna heimilisófriðar. Könnun máls hafi hafist í kjölfarið. Áætlun hafi verið gerð í málinu 16. júní 2011 en tilgreindir þættir í henni hafi ekki náð fram að ganga. Nýjar tilkynningar hafi borist í málinu frá almennum borgara skv. 16. og 19. gr. bvl. þann 16. ágúst 2011 vegna gruns um vímuefnaneyslu föður og óreglu á heimilislífi s.s. matmálstímum. Að auki hafi borist tilkynning í gegnum neyðarlínu skv. 16. gr. sömu laga frá ættingja drengsins en þar greini frá ágreiningi föður og sambýliskonu.
Í heimsókn starfsmanns á heimilið 17. ágúst 2011 hafi komið í ljós að þar hafi verið 14 kettir, ólykt og óþrifnaður. Að sögn varnaraðila hafi hann verið illa staddur andlega og hann hafi ekki talið sig ráða við ábyrgð sína sem foreldri vegna andlegra veikinda og bágrar fjárhagsstöðu. Drengnum ásamt systkinum sínum hafi þá verið komið fyrir hjá föðurforeldrum. Starfsmaður sóknaraðila hafi lagt til að drengurinn yrði vistaður tímabundið utan heimilis vegna bágrar stöðu föður. Faðir hafi sagst vilja ráðfæra sig við lögmann og 31. ágúst 2011 hafi verið fundað með föður og lögmanni hans, vegna mögulegrar vistunar skv. 25. gr. bvl. Lögmaður og faðir hafi óskað eftir að horfið yrði frá tillögum starfsmanns um formlega vistun drengsins á heimili föðurforeldra með vísun í 1. mgr. 90. gr. bvl. og hann yrði hjá föðurforeldrum án formlegrar vistunar á tímabili nýrrar áætlunar, 31. ágúst til 12. október 2011 auk þess sem faðir fengi aðstoð í andlegum veikindum sínum og skyldi mæta í vímuefnapróf á heilsugæslustöð. Tillögur þessar hafi verið samþykktar og skyldi áætlun endurskoðuð 12. október 2011 með tilliti til þess hvort þeir þættir, sem kveðið hafi verið á um í áætlun hefðu gengið eftir.
Starfsmaður sóknaraðila hafi heimsótt drenginn á heimili föðurforeldra á tímabilinu og hafi verið í reglulegum samskiptum við þau. Varnaraðili hafi ekki mætt í umsamin vímuefnapróf. Á fjölskyldufundi með varnaraðila og föðurforeldrum 5. október 2011 hafi varnaraðili viðurkennt að hafa verið í daglegri neyslu á kannabis frá ágústmánuði 2010, að sögn til að vinna úr andlegum sársauka. Lagðar hafi verið fram tillögur að meðferðarúrræði sem varnaraðili hafi ekki talið að myndu nýtast sér þar sem hann væri að nota kannabis. Hafi hann sagt að kannabis hefði veitt honum von á ný og hann lini andlega vanlíðan með notkun á efninu.
Tveir fundir með varnaraðila og lögmanni hafi verið bókaðir 28. september og 18. október 2011 en í bæði skiptin hafi lögmaður mætt einn til fundar. Hafi lögmaðurinn þá ekkert heyrt frá föður vegna málsins.
Á fundi með varnaraðila 25. október 2011 hafi verið lögð fram ný áætlun um meðferð máls og jafnframt leitað eftir samþykki hans fyrir vistun drengsins skv. 25. gr. bvl. Faðir hafi ekki vilja samþykkja formlega vistun drengsins. Málið hafi síðan verið lagt fyrir nefndina 8. nóvember 2011 þar sem eftirfarandi bókun hafi verið gerð:
„Fjölskyldunefnd D ákveður að B [kt.] skuli skv. a. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga vera vistaður hjá föðurforeldrum sínum F [kt.] og G [kt.] frá deginum í dag til 8. janúar 2012.“
Frá 8. nóvember 2011 hafi drengurinn dvalið á heimili föðurforeldra skv. 27. gr. bvl. nr. 80/2002. Í viðtali við drenginn á heimili föðurforeldra 5. desember 2011 hafi drengurinn verið fámáll og hafi lítið viljað tjá sig við starfsmann sóknaraðila. Hann hafi virst una hag sínum vel á heimilinu og deili þar herbergi með eldri bróður sínum.
Í upplýsingum frá skóla frá 6. desember 2011 segi að drengurinn sé fjörugur, en oftast rólegur í tímum. Þörf sé á meira utanumhaldi og skipulagi varðandi heimanám. Rætt hafi verið við ömmu hans og sé hún öll að vilja gerð að vinna með skólanum. Umhirða sé þokkaleg en borið hafi á að drengurinn mæti í sömu fötunum. Námsráðgjafi hafi áhyggjur af líðan drengsins, hann sé lokaður og þeim mun erfiðara að ná til hans þótt það hafi gengið að einhverju leyti. Drengurinn hafi notið sérfræðiaðstoðar í formi einstaklings- og hópviðtala hjá H félags- og fjölskylduráðgjafa. Mælt sé með áframhaldandi meðferðarviðtölum sökum erfiðra uppvaxtarára og móðurmissis. Jafnframt sé mælt með að tengja drenginn við persónulegan ráðgjafa. Föðurforeldrar virðist veita drengnum ákveðið öryggi, honum líði vel þar og allur aðbúnaður sé til staðar.
Varnaraðili hafi verið í samskiptum við I lækni á heilsugæslustöð [...]umdæmis. Samkvæmt samtali 5. desember 2011 sé unnið að umsókn um örorkumat fyrir varnaraðila til Tryggingastofnunar ríkisins. Hann hafi fram til þessa fengið framfærslu skv. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, en hann hafi ekki stundað vinnu um árabil. Eftir að drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis hjá föðurforeldrum sínum hafi ekki náðst í varnaraðila. Við eftirgrennslan lögreglu hafi komið í ljós að hann hefði farið úr landi með áætlunarflugi til London 7. desember 2011 og ekkert til hans spurst frá þeim tíma þar til hann svo hafi haft samband við föður sinn örfáum dögum fyrir jól. Hafi hann þá beðið um að sér yrðu sendir peningar til útlanda. Faðirinn hafi hafnað því en hafi keypt fyrir hann flugmiða til landsins að nýju. Hann hafi svo komið til landsins 22. eða 23. desember sl.
Í greinargerð varnaraðila kemur fram að ávallt megi finna eitthvað að í uppeldi barna og vel megi vera að einhverjar athugasemdir sóknaraðila hafi átt rétt á sér. Ástandið eins og því sé lýst í kröfuskjali sóknaraðila gefi hins vegar ekki rétta mynd af málinu. Varnaraðili telji vandamál sín fyrst og fremst vera fjárhagsleg. Þrátt fyrir að varnaraðili glími við veikindi telji hann sig í stakk búinn til þess að sjá um öll börn sín, eins og hann hafi gert undanfarin ár fái hann til þess eðlilegan stuðning sóknaraðila sem veittur sé einstæðum foreldrum eins og honum.
II
Í bréfi sóknaraðila til dómsins 3. janúar 2012 var gerð krafa um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði um að B, sem lýtur forsjá föður síns, varnaraðila máls þessa, yrði vistaður utan heimilis varnaraðila í 6 mánuði á heimili föðurforeldra sinna, F og G frá 8. janúar 2012 til 8. júlí 2012 samkvæmt 28. gr., sbr. a-lið 27 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Við fyrirtöku málsins þann 17. janúar sl. lagði sóknaraðili fram bókun af fundi sínum 13. sama mánaðar þar sem kveðið var á um vistun barna sóknaraðila hjá nafngreindu fólki í [...] en með þessu var breytt vistunarstað þeim sem áður hafði verið ákveðinn og upphafleg krafa hljóðaði um. Ekki var bókað um breytta kröfugerð sóknaraðila í því þinghaldi.
Í nefndri bókun kemur nánar fram að varnaraðili hafi verið tíður gestur á heimili föðurforeldra og hafi þau lýst ójafnvægi í geðrænu ástandi hans auk þess sem hann sé enn í fíkniefnaneyslu. Í því sambandi hafi föðurforeldrar upplýst, í viðtali við starfsmann að morgni 9. janúar, að þau treystu sér ekki, að svo stöddu, til að hafa börnin á heimili sínu vegna ástands föður. Í ljósi þessa sé það mat nefndarinnar að það þurfi að vista börnin annarsstaðar en á heimili föðurforeldra.
Við munnlegan málflutning breytti sóknaraðili kröfugerð sinni í það horf sem fram kemur hér í upphafi úrskurðarins. Af hálfu varnaraðila var umræddri breytingu á kröfugerð mótmælt og taldi varnaraðili að í henni fælist röskun á grundvelli málsins.
III
Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á því að varnaraðili eigi við langvarandi geðræna erfiðleika að etja auk vímuefnavanda. Hann hafi ekki fengist til að leita sér meðferðar vegna framangreindra vandkvæða. Erfiðlega hafi gengið að fá varnaraðila til fundar við barnaverndaryfirvöld svo unnt væri að fá afstöðu hans í málinu. Með vísan til þessa, sem og þess sem rakið sé að framan í lýsingu málsatvika kveður sóknaraðili ljóst að varnaraðili sé ekki hæfur til að sinna uppeldisskyldum sínum gagnvart drengnum og því sé gerð krafa til þess að drengurinn verði vistaður utan heimilis hans næstu sex mánuði.
Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Sóknaraðili telji fullreynt að varnaraðili getið búið syni sínum þau uppeldisskilyrði sem hann eigi skýlausan rétt á. Þótt það séu mannréttindi foreldra að ala upp börn sín sé forsjárréttur foreldra takmarkaður af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldra og barna vegist á skuli hagsmunir barnanna, það hvað þeim er fyrir bestu, hafðir að leiðarljósi. Reglan styðjist við íslenskan barnarétt auk þess sem hún eigi stoð í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt í stjórnarskránni, barnaverndarlögum og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá eigi regla þessi sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland sé aðili að.
Sóknaraðili telji að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun og uppeldi drengsins sé stefnt í verulega hættu eins og málum sé nú háttað. Jafnframt telji sóknaraðili að gögn málsins sýni að varnaraðili sé ekki hæfur til að fara með forsjá barnsins vegna geðrænna erfiðleika og vímuefnaneyslu sinnar. Heilsu og þroska drengsins sé hætta búin fari varnaraðili með forsjá hans eins og málum er háttað. Hagsmunir drengsins mæli eindregið með því að varnaraðili verði sviptur tímabundið forsjá hans og að drengnum verði tryggt áframhaldandi tímabundið fóstur á heimili föðurforeldra, þar sem vel sé um hann hugsað og fyrir þörfum hans séð og réttur hans til viðunandi uppeldis og umönnunar tryggður.
Með hliðsjón af framansögðu og atvikum málsins að öðru leyti sé nauðsynlegt að drengurinn verði vistaður utan heimilis föður í 6 mánuði sbr. 28. gr. barnaverndarlaga.
Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarstarfsemi, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og gagna málsins geri sóknaraðili þá kröfu að varnaraðili verði látinn hlýta því að drengurinn verði áfram vistaður á vegum fjölskyldunefndar D til þess að hægt sé að framlengja fóstur hans sem nú stendur með vísan til 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, enda hafa önnur og vægari úrræði ekki skilað tilætluðum árangri.
Sóknaraðili vísar um breytingu sína á kröfugerð til þess að um leiðréttingu hafi verið að ræða en viðkomandi lagaákvæði geri ekki ráð fyrir að kröfugerð sé sett fram með tilgreiningu á vistunarstað eins og upphaflega hafi verið gert í bréfi sóknaraðila til héraðsdóms. Sé breytingin gerð í ljósi þess að vistunarstað barnanna hafi verið breytt með ákvörðun sóknaraðila 13. janúar 2012. Hafnaði sóknaraðili því við munnlegan málflutning að breyting sú á kröfugerð sem af þessu leiddi væri utan þess sem heimilt væri að teknu tilliti til eðlis þess máls sem hér sé til úrlausnar.
Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Varnaraðili kveðst byggja aðalkröfu sína á því að ekki sé fullnægt lagaskilyrðum umbeðins úrskurðar. Heimild til úrskurðar sé að finna í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt ákvæðinu sé áskilið að nauðsynlegt sé að ráðstöfun skv. a-lið 1. mgr. 27. gr., þ.e. að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst, standi lengur en 2 mánuði. Í 27. gr. sé áskilið að brýnir hagsmunir barns verði að mæla með úrskurði um vistun utan heimilis í allt að 2 mánuði og eigi slíkt enn frekar við ef úrskurða eigi lengur en 2 mánuði eins og hér sé krafist. Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili hvorki sýnt fram á þá brýnu hagsmuni barns sem í húfi séu né þá nauðsyn sem áskilin sé í lögum.
Varnaraðili telji að börn hans hafi lifað við gott atlæti undanfarna mánuði á heimili foreldra hans þar sem þau hafi áfram möguleika á því að búa. Engin ástæða hafi verið til að hverfa frá því fyrirkomulagi sem viðhaft hafi verið, vegna búsetu barna hans. Varnaraðili telji ástæður þess að hann hafi ekki getað sinnt börnum sínum hafi fyrst og fremst verið vegna félagslegra aðstæðna hans. Hann hafi ekki átt fjármuni til þess að fæða og klæða börn sín. Að öðru leyti hafi aðbúnaður þeirra verið eins og best verði á kosið, þó að hann viðurkenni að vera ekki fullkominn uppalandi, frekar en aðrir. Hann eigi við sín vandamál að stríða sem hann reyni að takast á við af bestu getu. Ekkert bendi til þess að börnum hans hafi verið nokkur nauðsyn á að vera vistuð utan heimilis eða að staða þeirra hafi gert það nauðsynlegt. Sú krafa hafi ekki komið frá foreldrum varnaraðila og því óljóst hvað hafi leitt til ákvörðunar sóknaraðila. Þegar tekin hafi verið ákvörðun um formlega vistun hafi ekkert verið sem hægt hafi verið að setja út á varðandi hag barnanna og megi sjá það í gögnum málsins. Staða þeirra í skóla virðist hafa verið góð og það sama eigi við um andlega og líkamlega stöðu þeirra. Ekkert hafi því bent til þess að fyrirkomulagið hafi verið slæmt eða hafi ekki hentað foreldrum varnaraðila eða börnunum sjálfum. Í dskj. 13. sem lagt hafi verið fram við fyrirtöku málsins í héraðsdómi þann 17. janúar sl. hafi verið lögð fram bókun sóknaraðila þar sem fram komi að föðurforeldrar hafi ekki treyst sér til þess að hafa barn varnaraðila inni á heimili sínu vegna ástands varnaraðila. Varnaraðili telji bókunina ekki í samræmi við raunveruleikann og áskilji sér rétt til þess að kalla foreldra sína til vitnis við aðalmeðferð. Hann telji að þau séu ekki einungis tilbúin til þess að taka við barninu heldur óski þau beinlínis eftir því að það verði vistað á heimili þeirra.
Ein af þeim málsástæðum sem liggi til grundvallar kröfu um vistun utan heimilis sé sú að varnaraðili sé neytandi á fíkniefni, nánar tiltekið kannabisefni. Varnaraðili viðurkenni að hann hafi neytt kannabisefna á undanförnum mánuðum. Hann telji þá neyslu vera afar takmarkaða og hafi hún ekki áhrif á hæfni hans til þess að ala upp börn sín. Varnaraðili neyti aldrei fíkniefna í kringum börn sín og ættu þau því ekki að bera neinn skaða af neyslu hans.
Önnur málsástæða sem sóknaraðili byggi á varði andleg veikindi varnaraðila. Hann viðurkenni að eiga við einhver andleg veikindi að stríða. Hann telji þau þó ekki svo alvarleg að hann geti ekki séð um börnin sín, fái hann til þess tækifæri og aðstöðu. Þrátt fyrir veikindi hafi hann séð um börn sín allt frá andláti barnsmóður sinnar. Einu raunverulegu ástæðurnar fyrir bágri stöðu hans sjálfs og barnsins séu vegna þess að hann hafi átt erfitt með að sjá fjölskyldu sinni farborða þar sem hann hafi ekki getað unnið undanfarin ár. Fái hann hjálp til þess frá félagsmálayfirvöldum í [...] telji hann sig meira en í stakk búinn til þess að hafa börnin hjá sér. Í því sambandi telji varnaraðili sóknaraðila ekki hafa staðið sig gagnvart honum. Varnaraðili hafi verið til margra mánaða tekjulaus sökum þess að fjárhagsaðstoð sem hann hafi átt rétt á hafi ekki verið greidd honum. Sú fjárhagsaðstoð hafi verið einu tekjur varnaraðila og því eðlilegt að rót væri á matmálstímum o.fl. þegar tekjurnar hafi engar varið. Varnaraðili hafi frá því í mars og fram í ágúst enga fjárhagsaðstoð fengið, en það sé einmitt sá tími sem barnaverndarmál varnaraðila hafi verið til meðferðar hjá sóknaraðila. Þrátt fyrir vitneskju sína um fjárhagsvandræði hans virðist sem sóknaraðili hafi ekkert gert til hjálpar fjölskyldunni, en varnaraðili telji að það minnsta sem stjórnvaldið hafi getað gert hafi verið að hjálpa honum við samskipti við sveitarfélagið svo hann fengi eðlilega fjárhagsaðstoð svo hann gæti fætt og klætt börn sín. Varnaraðili telji sóknaraðila hafa að fullu brugðist skyldu sinni við meðferð máls hans og barna hans.
Einnig byggi sóknaraðili á því að heimili varnaraðila sé óþrifalegt, of margir kettir séu á heimilinu o.fl. Þetta byggi sóknaraðili á einni heimsókn á heimili varnaraðila. Varnaraðili vilji benda á að fjöldi katta á heimili hans hafi eingöngu verið tímabundið ástand þar sem einn af köttum hans hafi orðið kettlingafullur. Nú séu eingöngu fjórir kettir á heimili hans. Varnaraðili telji einnig ekki rétt að almennt sé óþrifalegt og ólykt á heimili hans. Í eina skiptið sem starfsmaður barnaverndarnefndar hafi komið inn á heimili hans hafi viljað svo til að einn kattanna hafi migið á gólfið og hafi varnaraðili þrifið það upp um leið og hann hafi tekið eftir því. Varnaraðili telji að ekki sé hægt að draga svo víðtækar ályktanir um ástand heimilis varnaraðila eingöngu af einni heimsókn. Hann telji því ósannað að óþrifalegt sé á heimili hans.
Aðalkröfu sína byggir varnaraðili ennfremur á að ekki sé heimilt að beita úrræði samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga þar sem unnt sé að beita vægara úrræði í málinu. Vísist hér til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig vísist til 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem fram komi að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á hvers vegna ekki sé hægt að beita vægari úrræðum sem barnaverndarlög bjóði. Megi þar nefna til dæmis ákvæði 26. gr. laganna um eftirlit með heimili, fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barns, svo sem skólasókn, læknisþjónustu, rannsókn, meðferð eða þjálfun.
Þegar sóknaraðili hafi tekið ákvörðun um að vista börnin utan heimilis þá hafi þau verið vistuð utan heimilis með samþykki föður sbr. 1. mgr. 90. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á neinar raunverulegar ástæður fyrir því að breyta hefði átt þeirri tilhögun þar sem hún hafi gengið vel, bæði gagnvart foreldrum varnaraðila og börnunum sjálfum. Börnin hafi dafnað vel á þessu tímabili ef miða eigi við greinargerðir félagsráðgjafa sem liggi fyrir í málinu. Hagsmunir barnanna mæli því með að óbreyttu ástandi sé haldið við og þau fái að vaxa og dafna á sínum forsendum á heimili foreldra varnaraðila og með reglulegri umgengni við hann eins og verið hafi á undanförnum mánuðum. Með þessu telji varnaraðili að sóknaraðili hafi gerst brotlegur við meginreglu barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf. Auk þess virðist þetta fyrirkomulag duga varðandi elsta barn varnaraðila, sem sé aðeins 16 ára, E. Engar skýringar séu á því hver ástæðan sé fyrir því að ekki hafi verið gerð sambærileg krafa og um yngri börn varnaraðila gagnvart honum. Ekki sé hægt að draga aðrar ályktanir af málsmeðferð sóknaraðila en að elsti drengurinn sé á góðum stað í dag og ekkert sé hægt að setja út á stöðu hans. Varnaraðili telji það sama eiga við um yngri börn hans og telji engin rök leiða til þess að skilsmunur sem þessi sé gerður á milli yngri og eldri barna sóknaraðila.
Í greinargerð varnaraðila var einnig vísað til þess að sóknaraðili hafi ekki í málsmeðferð sinni gætt nægilega að ákvæði 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Taldi varnaraðili að skort hefði á rannsókn málsins og gerði athugasemdir við að nánar tilgreindra gagna hefði ekki verið aflað. Við munnlegan málflutning taldi lögmaður varnaraðila að sóknaraðili hefði að mestu lagt fram þau gögn sem skorað hefði verið á hann að afla og hélt hann því ekki til streitu málsástæðum sem á þessum byggðust.
Varnaraðili kveðst byggja varakröfu sína á því að úrskurður um vistun utan heimilis í 6 mánuði sé í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og ákvæði 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Ekkert liggi fyrir í málinu um ástæður þess að nauðsynlegt sé að vista börnin utan heimilis í svo langan tíma. Beri því að stytta verulega þann tíma sem vistun utan heimilis standi ef lagaskilyrði fyrir slíkri vistun verði talin fyrir hendi af hálfu dómsins. Varnaraðili telji sig geta sýnt fram á innan skemmri tíma en vistun utan heimilis sé ætlað að standa, að hann sé fær um að ala upp börn sín.
Varnaraðili kveðst loks í greinargerð áskilja sér rétt til að setja fram frekari kröfur og málsástæður og færa fram frekari rök máli sínu til stuðnings. Varnaraðili mótmæli einnig kröfum og málsástæðum sóknaraðila sem röngum og órökstuddum og áskilji sér rétt til að fjalla betur um þær, bæði í málflutningi og með framlagningu gagna. Sérstaklega sé áskilinn réttur til að leggja fram gjafsóknarleyfi í málinu.
Varnaraðili kveðst aðallega byggja á ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002 og vísar sérstaklega til 6. mgr. 4. gr. og 25.-28. gr. Ennfremur kveðst hann vísa til meginreglna á sviði barnaverndarmála, sem og til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Loks kveðst hann vísa til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað. Varðandi virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísist til laga nr. 50/1988.
Við munnlegan málflutning mótmælti varnaraðila sérstaklega þeirri breytingu sem sóknaraðili hefði gert á kröfugerð sinni, en lögmaður hans hefði fyrst séð hina breyttu kröfugerð er hún hafi verið send í tölvupósti tveimur dögum fyrir aðalmeðferð. Byggir varnaraðili á að um sé að ræða síðbúna breytingu á grundvelli málsins. Sóknaraðili hafi í raun tekið nýja stjórnvaldsákvörðun. Leiði þetta sjálfstætt til þess að hafna beri kröfum sóknaraðila. Þá kvað varnaraðili að væri það mat dómsins að krafa sóknaraðila væri samt tæk til efnismeðferðar að þá gerði hann þá varakröfu að þá yrði einungis fallist á þá kröfu sem sóknaraðili hefði upphaflega sett fram og barni varnaraðili því komið í fóstur utan heimilis til foreldra varnaraðila.
V
Eins og fram er komið er mál þetta annað tveggja sem varða börn varnaraðila og eru hér samhliða til meðferðar fyrir dómi. Varða mál þessi að meginstefnu sömu málsatvik og málsástæður og verða forsendur úrskurða í báðum málunum settar fram samhljóða.
Er hér um að ræða kröfur sóknaraðila um að tvö börn varnaraðila, C, 11 ára og B 12 ára verði vistuð utan heimilis varnaraðila í sex mánuði, en hann fer einn með forsjá þeirra eftir að móðir þeirra lést árið 2005.
Með bréfi 19. desember 2011 skipaði sóknaraðili Huldu Rós Rúriksdóttir hæstaréttarlögmann talsmann barnanna í samræmi við ákvæði 46. gr. barnaverndarlaga. Hulda Rós gaf skýrslu fyrir dómi og kom þar fram að hún hefði átt viðtal við bæði börnin á heimili föðurforeldra þeirra 28. desember sl. Hafi hún rætt við börnin hvort í sínu lagi. Kvað hún að bæði börnin hafi lýst eindregnum vilja til að búa hjá föður sínum, en ef það væri ekki hægt hafi B viljað búa hjá afa sínum og ömmu en C hafi nefnt frænku sína. Meðal gagna málsins liggur einnig greinargerð H félagsráðgjafa þar sem meðal annars kemur fram afstaða barnanna sem þau létu uppi við hana. Í ljósi þess að framangreindar upplýsingar lágu fyrir og eins þess að talsmaður barnanna taldi þeim ekki greiði gerður með því að kalla þau fyrir dóm var það mat dómara að nægilegar upplýsingar lægju fyrir í gögnum málsins um afstöðu þeirra, sbr. 2. mgr. 63. gr. a. barnaverndarlaga og því ekki ástæða til að leita eftir afstöðu þeirra sérstaklaga. Kynnti dómari lögmönnum þessa afstöðu sína og var ekki gerð athugasemd við hana. Verður því lagt til grundvallar í málinu að það sé eindreginn vilji barnanna beggja að búa hjá föður sínum.
Verður hér fyrst vikið að þeim ágreiningi aðila sem varðar breytingu sóknaraðila á kröfugerð sinni undir rekstri málsins. Eins og nánar er rakið í málavaxtakafla hér að framan voru B og C fyrst vistuð hjá afa sínum og ömmu með samþykki varnaraðila með vísan til 1. mgr. 90. gr. barnaverndarlaga. Var þetta gert að ósk varnaraðila en sóknaraðili hafði þá haft í hyggju að vista börnin á grundvelli 25. gr. sömu laga en þá ráðstöfun vildi varnaraðili ekki samþykkja. Var þetta gert á grundvelli áætlunar um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga, dags. 31. ágúst 2011. Áætlunina skyldi endurmeta 12. október 2011 og fyrr ef þurfa þætti. Varnaraðili samþykkti áætlunina og undirritaði. Fram kemur í gögnum málsins að sóknaraðili hafi leitað eftir samþykki varnaraðila um vistun barnanna skv. 25. gr. barnalaga á fundum í októbermánuði. Liggur fyrir í gögnum ný áætlun um meðferð máls sem dagsett er 25. október 2011. Þann dag átti starfsmaður sóknaraðila fund með varnaraðila þar sem hann hafnaði því að samþykkja áætlunina, en samkvæmt henni hefðu börn hans áfram verið vistuð á heimili foreldra hans frá 25. október til 20. desember 2011. Þann 8. nóvember 2011 kvað sóknaraðili síðan upp úrskurð með vísan til a. liðar 27. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið var á um að börnin yrðu áfram á heimil föðurforeldra sinna frá þeim degi til 8. janúar 2012. Þann 13. desember 2011 ákvað sóknaraðili að börnin yrðu vistuð áfram á sama heimili næstu sex mánuði og fól í kjölfarið lögmanni meðferð málsins fyrir dómi. Málið var síðan sent héraðsdómi 3. janúar sl. og þingfest þann 9. sama mánaðar. Þann 13. janúar sl. tók sóknaraðili ákvörðun um að breyta vistunarstað barnanna vegna ástæðna sem tíundaðar eru í bókun umrædds fundar og eru raktar í málsatvikakafla hér að framan. Þessi breyting á vistunarstað leiddi svo af sér hina umdeildu breytingu á kröfugerð. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að um nýja stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sem raski grundvelli málsins og að þetta eigi að leiða til þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Í 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga er mælt fyrir um heimild barnaverndarnefnda til að kveða á um vistun barns utan heimilis forsjárforeldris. Er annars vegar um að ræða heimild til að kveða á um að barn skuli vera áfram á sama stað utan heimils (a-liður) og hins vegar að barn skuli tekið af heimili (b-liður). Í báðum tilvikum er um tímabundna heimild að ræða til tveggja mánaða. Sóknaraðili hefur með vísan til 28. gr. sömu laga gert kröfu til þess fyrir héraðsdómi að ráðstöfun haldist áfram um sex mánaða skeið. Í 1. mgr. síðastnefnds lagaákvæðis greinir að ef barnaverndarnefnd telji nauðsynlegt að ráðstöfun skv. a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. standi lengur en þar sé kveðið á um skuli nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi. Það er mat dómsins að eins og samhengi framangreindra lagaheimilda er háttað verði að leggja til grundvallar að það raski ekki heimildum sóknaraðila til að krefjast þess fyrir dómi að barn sé vistað utan heimilis þó að talið sé nauðsynlegt að breyta vistunarstað þess. Er því ekki unnt að líta á þá ákvörðun sóknaraðila að breyta vistunarstað barnanna sem nýja ákvörðun í þessum skilningi, enda tilgangur ákvæðisins að tryggja að börnum sé forðað frá aðstæðum sem taldar eru óviðunandi. Kjarni þeirrar ákvörðunar sem tekin er á grundvelli 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga er að barn skuli vistað annarsstaðar en heima hjá sér og hljóta því meginforsendur ákvörðunarinnar að snúa að aðstæðum á heimili barnsins, en ákvörðun um vistunarstað hlýtur eðli sínu samkvæmt að byggjast á öðrum forsendum. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með varnaraðila að breyting sóknaraðila á vistunarstað barnanna hafi raskað grundvelli málsins þannig að taka beri kröfur hans til greina þess vegna. Ekki eru efni til að fallast á með sóknaraðila að dómnum sé unnt að kveða á um hver skuli vera vistunarstaður barnanna eins og varnaraðili fer fram á til vara, enda er það ekki á valdi dómsins að auka í kröfur sóknaraðila.
Í 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um meginreglur barnaverndarstarfs. Þar segir m.a. að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Eftir því sem aldur og þroski gefi tilefni til skuli tekið tillit til sjónarmiða og óska barna. Þá er þar mælt fyrir um að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þar er og tekið fram að ávallt skuli miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt, og að aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum verði lögmæltum markmiðum ekki náð með vægara móti. Í 21. gr. sömu laga er að finna reglur um málsmeðferð vegna tilkynninga og upplýsinga, sem leitt geta til þess að barnaverndarnefnd hefji könnun máls. Í 5. mgr. greinarinnar er tekið fram að ákvörðun um að hefja könnun skuli ekki tekin nema rökstuddur grunur sé um að tilefni sé til. Í VI. kafla laganna eru síðan fyrirmæli um ráðstafanir barnaverndarnefnda í kjölfar könnunar máls. Er þar kveðið á um ýmis úrræði, með eða án samþykkis foreldra. Einnig er þar gert ráð fyrir að til þess geti komið að barnaverndarnefnd úrskurði um vistun barns utan heimilis í allt að tvo mánuði, án samþykkis foreldra, enda séu uppfyllt þau skilyrði sem þar er kveðið á um og „ef brýnir hagsmunir barns mæla með því“, sbr. 26. og 27. gr. laganna. Í b-lið 1. mgr. 27. gr. er tekið fram að slík ráðstöfun barns sé heimil „til að tryggja öryggi þess eða til þess að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu“. Telji barnaverndarnefnd nauðsynlegt að slík ráðstöfun standi lengur en tvo mánuði, er svo mælt fyrir í 1. mgr. 28. gr. að barnaverndarnefnd skuli gera kröfu um það fyrir héraðsdómi, og getur héraðsdómur með úrskurði kveðið á um að vistun barns standi í allt að tólf mánuði í senn.
Í máli þessu liggja fyrir ítarlegar greinargerðir starfsmanna sóknaraðila þar sem gerð er grein fyrir ástæðum afskipta af heimili varnaraðila. Í málavaxtalýsingu hér að framan er rakið stuttlega að tilkynningar hafi borist sóknaraðila þar sem fram hafi komið áhyggjur tilkynnenda af líðan og aðbúnaði barna varnaraðila auk þess að fram hafi komið grunsemdir um að varnaraðili væri í fíkniefnaneyslu (kannabis). Þá kemur fram að könnun málsins hafi hafist í maí 2011 í tilefni fyrrnefndra tilkynninga en fleiri tilkynningar hafi borist í kjölfarið og starfsmaður sóknaraðila hafi loks farið á heimili hans 17. ágúst 2011. Lýsir starfsmaðurinn því svo í greinargerð að á heimilinu hafi verið 14 kettir, ólykt og óþrifalegt. Varnaraðili hafi þá tjáð starfsmanninum að hann væri illa standur andlega og hann réði ekki við ábyrgð sína sem foreldri vegna andlegra veikinda og bágrar fjárhagsstöðu. Í kjölfarið fóru börnin til föðurforeldra, fyrst í stað með samþykki föður, sbr. 1. mgr. 90. gr. barnaverndarlaga en síðar á grundvelli a. liðar 1. mgr. 27. gr. laganna til tveggja mánaða gegn vilja föður. Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að enn sé þörf til að vista börn varnaraðila utan heimilis. Samkvæmt gögnum málsins hefur aðbúnaður barna varnaraðila breyst mjög til hins betra frá því að þau fóru af heimili hans.
Varnaraðili hefur í raun ekki borið brigður á þær lýsingar á aðstæðum sem sóknaraðili hefur sett fram. Þá hefur hann ekki heldur borið brigður á það að hann hafi í ágúst 2011 lýst því fyrir starfsmanni sóknaraðila að hann réði ekki við ábyrgð sína sem foreldri. Kemur fram í gögnum að hann hafi leitað sér lögmannsaðstoðar í kjölfar þessa og þann 31. ágúst 2011 undirritaði hann áætlun sóknaraðila um meðferð máls, ásamt loforði um að fara á tímabilinu í fíkniefnapróf í nokkur skipti. Áætlun þessa skyldi endurskoða 12. október 2011. Í áætluninni er tilgreint í 9. liðum hver skuli vera hlutverk sóknaraðila til að markmið áætlunarinnar náist og fjallar einn liðurinn um að styðja skuli varnaraðila við að leita sérfræðiaðstoðar vegna veikinda sinna. Hlutur varnaraðila átti að felast í því að vera í samvinnu við félagsráðgjafa sóknaraðila, fara í vímuefnapróf samkvæmt undirrituðum samningi, mæta á fjölskyldufund á tímabilinu og loks að leita sér sérfræðiaðstoðar á tímabilinu. Fyrir liggur að varnaraðili leitaði sér ekki sérfræðiaðstoðar vegna andlegra veikinda sinna á þessu tímabili og hefur ekki látið af neyslu sinni á kannabisefnum. Af gögnum málsins má hins vegar ráða að starfsamaður sóknaraðila hefur borið undir varnaraðila tillögur um að leita sér sérfræðiaðstoðar án þess að það hafi leitt til árangurs að því er séð verður.
Varnaraðili hefur ekki mótmælt þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi upplýst starfsmann sóknaraðila um að hann neyti kannabis daglega og hafi gert frá árinu 2010. Varð ekki annað skilið af framburði varnaraðila við aðalmeðferð málsins en að hann teldi ósannað að neysla umrædds efnis hefði slæm áhrif á getu hans til að ala börnum sínum önn. Fyrir liggja tilkynningar um að aðbúnaði barna varnaraðila hafi verið áfátt meðan hann sá um þau og að mætingum í skóla hafi verið ábótavant.
Í málinu liggur fyrir greinargerð H félagsráðgjafa 10. desember 2011 sem sóknaraðili aflaði. Kemur fram í greinargerðinni að hún sé gerð vegna beiðni um meðferðarviðtöl, við börn varnaraðila þau E, B og C. Er greinargerðin sögð byggð á viðtölum við börnin og föðurforeldra þeirra á tímabilinu 24. október til 9. desember 2011. Kemur fram í greinargerðinni að helstu niðurstöður viðtala séu þær að börnin lifi í stöðugu óöryggi í tengslum við vanlíðan og vímuefnaneyslu föður þeirra sem virðist stýra heimilislífi fjölskyldunnar að miklu leyti. Föðurforeldrar hafi ekki nægilegt afl til að vernda börnin ein og óstudd fyrir þeim áhrifum sem vímuefnaneysla og sálrænir erfiðleikar föður hafi á börnin. Vegna móðurmissis og þess óöryggis sem börnin hafi búið við séu tilfinningaleg tengsl þeirra við föður þeim mjög mikilvæg. Þeim sé öllum ljóst að faðir þeirra geti ekki sinnt þeim sem skyldi núna en þau standi með honum og þeirri hugmynd hans að hann beri ekki ábyrgð á því að hann geti ekki sinnt foreldraskyldum sínum heldur séu það aðrir sem komi í veg fyrir það. Þessar aðstæður komið í veg fyrir það að börnin geti til fullnustu nýtt styrkleika sinn í leik og starfi. Í niðurlagi greinargerðar H kveður hún það vera mat sitt að um sé að ræða fjölskyldu sem eigi við undirliggjandi óleysta erfiðleika að etja bæði persónulega og fjölskyldulæga. Fyrst og fremst sé því mikilvægt að það skapist öryggi í kring um líf barnanna og vissa til handa þeim um hvernig umgjörðin um líf þeirra verði á næstunni. Föðurforeldrar virðist mjög vel til þess fallin að skapa þetta öryggi en þau þurfi bæði aðstoð við það og einnig hvíld frá fósturforeldrahlutverkinu. Börnin hafi lifað við stöðugt áfallaástand um langt skeið og þurfi bæði á stuðningi og úrvinnslu að halda í tengslum við það. Mikilvægt sé því að þeim verði fundinn farvegur til þess að njóta sín betur en áður í umhverfi sínu með aukinni umönnun í leik og starfi. Einnig sé mikilvægt að þau fái áfram möguleika á að vinna úr erfiðum tilfinningum í tengslum við þá sálfélagslegu erfiðleika sem þau hafi lifað við.
Með hliðsjón af þeim ummælum sem að framan eru rakin þykir einsýnt að börn varnaraðila eiga við vanda að etja, sem virðist djúpstæðari en svo að varða eingöngu þrif á heimili, óþrifalegt kattahald, óreglulega matmálstíma eða mætingar í skóla, þó nefnd atriði kunni öll að vera á sinn hátt birtingarmynd vandans. Þá er það mat dómsins að gögn málsins og málatilbúnaður varnaraðila sýni að hann geri sér ekki grein fyrir þessum vanda barna sinna. Verður ekki séð að hann horfist í augu við að hann þurfi sjálfur að leita sér aðstoðar í veikindum sínum og að láta af fíkniefnaneyslu eigi hann að geta búið börnum sínum það öryggi, þá félagslegu umgerð og þá aðhlynningu sem þau þurfa á að halda. Er fallist á með sóknaraðila að gögn málsins sýni ótvírætt að eins og nú er komið málum sé varnaraðili alls ófær um að sinna uppeldisskyldum sínum gagnvart börnunum vegna andlegra veikinda og fíkniefnavanda. Þá liggur og fyrir að varnaraðili hefur ekki fengist til að leita sér meðferðar vegna framangreindra vandkvæða. Þá sýna gögn málsins að oft og einatt hefur gengið erfiðlega að fá varnaraðila til fundar við barnaverndaryfirvöld svo unnt væri að fá fram afstöðu hans, en slíkt leiðir eðlilega til óþarfa tafa á framgangi málsins. Er og fallist á með sóknaraðila, einkum í ljósi þess takmarkaða innsæis sem varnaraðili virðist hafa í þarfir barna sinna, að því er þetta varðar, að ekki verði talið að vægari úrræði komi hér að notum. Verður og ekki séð af gögnum máls þessa að sóknaraðili hafi ekki gætt meðalhófs við meðferð barnaverndarmálsins og er fullyrðingum varnaraðila í þá veru hafnað. Eins og hér stendur á getur vilji barnanna til að eiga heimili hjá föður sínum ekki haft úrslitaáhrif. Það er því mat dómsins að uppfyllt séu fyrr rakin skilyrði 26. og 27. gr. barnverndarlaga og að hagsmunir barna varnaraðila standi til þess að fallast á kröfu sóknaraðila í málinu. Þegar af þeim ástæðum sem að framan greinir verður krafa sóknaraðila tekin til greina eins og hún er sett fram á þann hátt sem nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki eru forsendur til að fallast á varakröfu varnaraðila um að vistun utan heimilis verði ákveðin til styttri tíma en sex mánaða.
Það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu að vistunarstað barnanna var breytt í janúar sl. og þau flutt á nýtt heimili. Mátti ráða það af framburði föður varnaraðila fyrir dómi að rétt sé að börnin hafi verið flutt að ósk hans og eiginkonu hans þó einnig hafi verið ljóst af framburði hans að hann sé tilbúinn til og vonist eftir að börnin snúi aftur til þeirra. Verður að ætla að ákvarðanir um vistunarstað barnanna hljóti í hverju tilviki að þurfa að taka í ljósi fyrirliggjandi aðstæðna og eru engar forsendur til þess að nefndri ákvörðun verði breytt í úrskurði þessum.
Sóknaraðili hefur ekki uppi málskostnaðarkröfu í málinu og verður honum þegar af þeirri ástæðu ekki dæmdur málskostnaður. Hvor aðili verður því látinn bera sinn kostnað af málinu.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hans, Flosa Hrafns Sigurðssonar héraðsdómslögmanns og Borgars Þórs Einarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin til hvors þeirra fyrir sig að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunarinnar er haft í huga að mál þetta er annað af tveimur samskonar málum sem rekin eru samhliða milli sömu aðila og nær gjafsóknarleyfi til þeirra beggja.
Halldór Björnsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Tekin er til greina krafa sóknaraðila, Fjölskyldunefndar D, um að, B, kt. [...], sem lýtur forsjá varnaraðila, A, verði vistaður utan heimilis hans frá og með 9. janúar 2012 til og með 8. júlí sama ár.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin málflutningsþóknun, lögmanna hans, Flosa Hrafns Sigurðssonar héraðsdómslögmanns sem þykir hæfilega ákveðin 100.400 krónur og Borgars Þórs Einarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega áveðin 150.600 krónur í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.