Hæstiréttur íslands

Mál nr. 598/2016

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Hilmari Grétari Sigþórssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Gripdeild
  • Eignaspjöll
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ítrekun
  • Einkaréttarkrafa

Reifun

H var sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, gripdeild, líkamsárás, brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll. Við ákvörðun refsingar var litið til sakaferils H og vísað til 1. mgr. 218. gr. c, 3. mgr. 106. gr. og 255. gr., sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og talið að fyrri dómar hefðu ítrekunaráhrif á þau brot sem H hafði verið sakfelldur fyrir. Var refsing H ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þá var H gert að greiða A miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. ágúst 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af I., II., III., V. og VI. kafla ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 23. febrúar 2014 og síðari lið ákæru héraðssaksóknara sama dag, svo og að hann verði sýknaður af ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 6. maí 2016. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð. Til vara krefst ákærði þess að refsing hans verði milduð.

Brotaþolinn A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar á einkaréttarkröfu sinni, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal þeim mönnum ekki refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum. Að virtri geðrannsókn, sem gerð var á ákærða, og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins eru engin efni til að líta svo á að ákærði hafi á verknaðarstundu þeirra brota, sem hann er ákærður fyrir að hafa framið, verið alls ófær að stjórna gerðum sínum af þeim ástæðum er um ræðir í fyrrnefndri lagagrein. Er hann því sakhæfur í skilningi hennar. Þá var andlegum högum ákærða ekki þannig komið þegar atvik málsins áttu sér stað að ákvæði 1. mgr. 16. gr. sömu laga standi því í vegi að refsing geti borið árangur.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot sem honum eru gefin að sök í málinu og til endurskoðunar eru hér fyrir dómi. Þá eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í hinum áfrýjaða dómi.

Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, gripdeild, líkamsárás, brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll. Samkvæmt 3. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga má hækka refsingu um allt að helmingi ef sá, sem dæmdur er sekur um brot á greininni, hefur áður sætt refsingu eftir henni. Þá sagði í 1. mgr. 218. gr. b. sömu laga, er í gildi var á þeim tíma sem ákærði gerðist sekur um líkamsárás þá sem um ræðir í málinu, sbr. nú 1. mgr. 218. gr. c. laganna, að hækka mætti refsingu allt að helmingi ef sá, sem dæmdur er sekur um brot á 217., 218. eða 218. gr. a., hefur áður sætt refsingu samkvæmt þeim greinum. Ákærði hlaut 12. júní 2015 dóm fyrir brot gegn valdstjórninni og þá var hann 29. júní 2012 dæmdur fyrir líkamsárárs samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var jafnframt sakfelldur fyrir þjófnað og gripdeild með síðastgreindum dómi og þjófnað og tilraun til þjófnaðar með dómi 31. október sama ár og loks var honum með dómi 12. júní 2015 gert að sæta refsingu fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar.

Eftir 255. gr. almennra hegningarlaga má, hafi maður áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, hækka refsingu um allt að helmingi af þeirri refsingu, sem hann hefði annars hlotið, og hafi hann áður verið dæmdur oftar en einu sinni fyrir auðgunarbrot má refsing vera tvöfalt þyngri. Við beitingu 1. mgr. 218. gr. c., 3. mgr. 106. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga skal þess gætt að fullnægt sé almennum ítrekunarskilyrðum 71. gr. laganna. Samkvæmt þeirri lagagrein hefur dómurinn frá 12. júní 2015 ítrekunaráhrif á brot ákærða í máli þessu gegn valdstjórninni og dómurinn 29. júní 2012 ítrekunaráhrif á áðurnefnt líkamsárásarbrot hans. Loks hafa síðastgreindur dómur, dómurinn 31. október 2012 og dómurinn 12. júní 2015, að undanskildu þjófnaðarbroti ákærða 12. ágúst 2014, ítrekunaráhrif á auðgunarbrot þau sem ákærði er með dómi þessum sakfelldur fyrir að hafa framið. Að þessu virtu og með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Samkvæmt 3. mgr. 182. gr. laga nr. 88/2008 skulu niðurstöður máls dregnar saman í dómsorði. Í forsendum hins áfrýjaða dóms var fallist á einkaréttarkröfu áðurnefnds brotaþola, sem birt var ákærða 8. mars 2016, eins og hún var fram sett, en láðst hefur að taka þá niðurstöðu upp í dómsorð. Fær þessi annmarki á dóminum því ekki breytt að krafan verður tekin til greina eins og nánar segir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Hilmar Grétar Sigþórsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði A 161.625 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. september 2015 til 8. apríl 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 524.939 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2016. 

Mál þetta, sem dómtekið var 10. júní sl. er höfðað með þremur ákærum, ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ákæru héraðssaksóknara, báðum dagsettum 23. febrúar 2016, og ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsettri 6. maí 2016, á hendur Hilmari Grétari Sigþórssyni, kt. [...], óstaðsettum í hús, Reykjavík.

Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 23. febrúar 2016, var höfðað mál á hendur ákærða „fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2015, nema annað sé tekið fram:

I.

Þjófnað og eignaspjöll með því að hafa þriðjudaginn 12. ágúst 2014 í verslun [..] við [...] í Reykjavík stolið rúmfötum, samtals að verðmæti kr. 63.800 og tekið lampa í versluninni og kastað honum í rúðu með þeim afleiðingum að lampinn eyðilagðist og rúðan brotnaði.

(M. [...])

Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 244. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Þjófnað með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 21. júní í félagi við B stolið ipad að óþekktu verðmæti úr bifreiðinni [...] þar sem hún stóð við Grettisgötu [...] í Reykjavík.

(M. [...])

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

Gripdeild með því að hafa laugardaginn 5. september í verslun [...] við [...] í Reykjavík, klætt sig í jakka að verðmæti kr. 16.995 og því næst gengið út úr versluninni án þess að greiða fyrir jakkann.

(M. [...])

Telst brot þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Þjófnað með því að hafa laugardaginn 5. september farið inn í bifreiðina [...] þar sem hún stóð á bifreiðastæði við smáhýsin við Fiskislóð í Reykjavík og stolið þaðan seðlaveski með greiðslukortum, hársnyrtitösku og förðunartösku allt að verðmæti kr. 766.045.

(M. [...])

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

V.

Þjófnað með því að hafa þriðjudaginn 8. september brotið rúðu í bifreiðinni [...] með steinhellu þar sem hún stóð í bifreiðastæði við Frímúrarahúsið við Bríetartún í Reykjavík og stolið þaðan samsung galaxy s5 mini farsíma að verðmæti kr. 70.000.

(M. [...])

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI.

Þjófnað með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 14. september í félagi við C, brotið rúðu í skartgripaverslun [...] við [...] í Reykjavík og stolið þaðan skartgripum að verðmæti kr. 499.194.

(M. [...])

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Vegna V. kafla ákæru, gerir A, kt. [...] kröfu um að ákærði greiði sér 161.625 kr. auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 8. september 2015 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.“

Með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 23. febrúar 2016, var mál höfðað á hendur ákærða „fyrir neðangreind hegningarlagabrot, framin í Reykjavík á árinu 2015 sem greinir:

  1. Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 17. ágúst að Fiskislóð 16, bitið C, kennitala [...], í brjóstið og í kjölfar þess slegið C að minnsta kosti tvisvar sinnum í andlitið með kylfu. Af þessu hlaut C lítið sár utanvert á hægra eyra, bólgu og eymsli yfir hægra kinnbeini og 4x3 cm. hringlaga mar á brjóstkassa.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

  1. Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa að þriðjudaginn 15. september, utan við fangaklefa í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að Hverfisgötu 113, veist með ofbeldi að E, varðstjóra í fangageymslu, og gripið með vinstri hendi í háls hans.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 6. maí 2016, var mál höfðað á hendur ákærða „fyrir líkamsárás, með því að hafa, þriðjudaginn 28. júlí 2015 utandyra við verslun [...] við [...] í Reykjavík, veist með ofbeldi að F, kt. [...] starfsmanni verslunarinnar sem hafði afskipti af ákærða, slegið hann ítrekað í höfuð og líkama, beygt þumalputta hans og tekið hann hálstaki, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut grunnan skurð á eyrnablöðku vinstra megin, mar og eymsli aftan á hálsi og hnakka, mar framarlega á hálsi báðum megin og neðan við viðbein, mar, eymsli og skerta hreyfigetu vegna verkja á ofanverðum lendarhrygg og eymsli, tognun og ofreynslu á vinstri þumli.

(Mál nr. [...])

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

I.

                Það skal tekið fram að ákærði kaus að tjá sig ekki um sakargiftir fyrir dóminum. Aðspurður vildi hann ekki horfa á þær upptökur úr eftirlitskerfum sem voru á meðal gagna málsins og kvað það enga þýðingu hafa. Þrátt fyrir rétt ákærða samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 ber dómara við sönnunarmat að líta til 115. gr. laganna.

Ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsett 23. febrúar 2016

Hér á eftir verður fjallað um hvern ákærulið fyrir sig.

Ákæruliður I

Ákærði játaði verknaðinn hjá lögreglu en neitaði sök hér fyrir dómi. Kvaðst hann ekki muna eftir játningunni. Á meðal gagna málsins er upptaka úr eftirlitsmyndavél sem staðsetur ákærða í versluninni og sést hann veitast þar að verslunarstjóranum, G, eins og sá síðarnefndi lýsti fyrir dóminum. Þá hefur vitnið H starfsmaður verslunarinnar borið að hafa séð ákærða stela rúmfötunum og fela þau innanklæða. Einnig kvaðst G hafa séð móta fyrir þeim undir yfirhöfn ákærða og að hann hafi hrökklast undan honum inn í verslunina þegar hann gekk á hann. Ákærði hafi síðan notað lampa til þess að brjóta sér leið út úr versluninni með því að kasta honum í rúðu.

Tvö vitni sem voru í námunda við vettvang hjálpuðust að við að yfirbuga ákærða. Annað þeirra, I, kom fyrir dóminn og bar að hafa séð ákærða brjóta sér leið út um gluggann eftir að hafa brotið rúðuna. Hann hafi farið í humátt á eftir honum og fundið hann í húsnæði bílaumboðs þar skammt frá. Ákærði hafi stokkið á hann en vitnið kvaðst hafa náð að yfirbuga hann og halda honum þar til lögreglan kom á vettvang. Kvaðst hann fullviss um að um ákærða hafi verið að ræða enda hafi glerbrotasalli fallið af fatnaði mannsins á vitnið þegar þeir tókust á.

                Sannað þykir með framburði vitna og öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið. Eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða

Ákæruliður II

Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Í frumskýrslu kemur fram að tilkynning hafi borist um að brotist hafi verið inn í bifreið að Grettisgötu og tveir menn hafi sést yfirgefa vettvang, annar þeirra með ætlaða fartölvu undir hendinni. Ákærði og B hafi verið handteknir á kaffihúsi. Fyrir dóminn komu þeir lögreglumenn sem komu að máli þessu og lýstu þeir handtöku ákærða og B á kaffihúsi. Hafi annar þeirra játað en ákærði hafi vísað á spjaldtölvu þar sem hún var falin.

Þá kom Bfyrir dóminn en hann kvaðst hafa séð tölvu í bílnum umrætt sinn. Ákærði hafi brotið rúðu bifreiðarinnar en vitnið gripið tölvuna. Lögreglan hafi síðan handtekið þá á kaffihúsi. B staðfesti að hann hefði fengið dóm fyrir verknaðinn, en um er að ræða dóm Héraðsdóms Reykjavíkur kveðinn upp 4. desember 2015 með vísan til 161. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til framburðar vitna og annarra gagna málsins þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið. Er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákæruliður III

                Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Á meðal gagna málsins eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum sem staðsettar eru á nokkrum stöðum í versluninni [...] auk útprentana skjáskota. Sést ákærði þar greinilega. Ákærða var sýnd upptakan hjá lögreglu en hann kvaðst ekki kannast við sig á henni.

                Af gögnum þessum má greinilega sjá er ákærði kemur inn í yfirhöfn með hettu. Einnig sést er ákærði gengur að fatarekka og skoða úlpur en síðar virðist fremsta úlpan horfin af rekkanum. Þá sést er hann gengur út úr versluninni og er þá í yfirhöfn sem er frábrugðin þeirri sem hann klæddist þegar hann kom inn. Sú yfirhöfn er með háum kraga og greinilegum renningum á öxlum. Samkvæmt skriflegri kæru og fylgigögnum frá versluninni var um að ræða yfirhöfn tiltekinnar tegundar að verðmæti 16.995 kr.     

Fyrir dóminn komu tveir lögreglumenn sem að málinu komu. Annar þeirra var á frívakt en kannaðist við ákærða og samferðarmann hans er þeir gengu inn í verslunina. Hafi hann ákveðið að láta lögreglu á vakt vita af ferðum þeirra. Hinn kvaðst hafa leitað á ákærða en ekki fundið neitt. Kváðust lögreglumennirnir ekki hafa veitt því athygli hvernig ákærði var klæddur umrætt sinn eða skoðað sérstaklega.

Að virtum ofangreindum gögnum þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið. Er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákæruliður IV

                Þessi ákæruliður tengist ákærulið III. en atvikin áttu sér stað sama dag. Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Aðspurður kvað hann samferðarmann sinn vera þann seka. Eins og áður er rakið hafði lögregla afskipti af ákærða og samferðarmanni hans en ákærða var sleppt þar sem ekki fannst ætlað þýfi á honum. Tilkynning hafi borist frá fjarskiptum um að brotist hefði verið inn í bifreið í smáhýsum við Fiskislóð og hafði ýmsum hlutum verið stolið þaðan, m.a. tösku með hársnyrtivörum en vörurnar fundust í geymsluskáp í versluninni [...]. Kvaðst lögreglumaðurinn á frívakt hafa séð þegar ákærði setti töskuna í skápinn en það samræmist því sem sjá má á upptökum úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar. Þá bar sá lögreglumaður sem á vettvangi var að burðarpokinn sem fannst í geymsluskápnum hafi verið merktur með nafninu J. Þá fundust hátalarar í bakpokanum sem samferðarmaður ákærða var með.

Vitnið J kannaðist við burðarpokann sem sína eign svo og það sem í honum var. Ekki hafi þó allt þýfið komist til skila m.a. förðunarvörur og peningaveski með greiðslukortum.

                Á upptökum úr eftirlitsmyndavélakerfum verslunarinnar, sem áður er vísað til, sést þegar ákærði kemur burðarpoka fyrir í geymsluskápnum og samferðarmaður hans, K, kemur þar fyrir bakpoka.

                Eins og hér hefur verið rakið hefur ákærði viðurkennt að hafa verið með K umrætt sinn en ekki að hafa stolið burðarpokanum sem hann kom fyrir í geymsluskápnum heldur hafi K gert það. Þessi framburður ákærða, þótt rýr sé, verður ekki hrakinn með ofangreindum gögnum og vitnisburðum en hann bar á sama veg hjá lögreglu. Þá fannst ekki annað, við leit umrætt sinn, sem tengdist innbrotinu í bifreiðina, en hársnyrtivörur. Því eru ekki skilyrði til þess að sakfella ákærða fyrir þjófnað í samræmi við ákæru en vafa um það atriði ber að skýra ákærða í hag, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður ekki fallist á það með ákæruvaldinu að skilyrði séu til að sakfella ákærða fyrir hylmingu samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga og er í því sambandi vísað til 180. gr. laga nr. 88/2008. Verður ákærði því sýknaður af broti samkvæmt þessum ákærulið.

Ákæruliður V

                Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið og kveðst ekki hafa verið þarna að verki. Í málinu liggur fyrir kæruskýrsla tilkynnanda þar sem fram kemur að rúða hafi verið brotin í bifreið hans með steinhellu og síma í hans eigu stolið úr henni. Á meðal gagna eru upptökur úr eftirlitsmyndavél sem sneri að bifreiðastæðinu er atvikið átti sér stað. Þá liggja fyrir skjáskot úr upptökunni.

                Af upptökunni sést ákærði greinilega. Þá sést hann brjóta rúðu bifreiðarinnar, teygja sig eftir einhverju sem þar er og taka á rás frá vettvangi.

Að virtum ofangreindum gögnum þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið. Er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákæruliður VI

                Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu uppgötvaðist innbrotið við eftirlitsferð um Grandagarð. Rúða hafði verið brotin í skartgripaversluninni [...] og sáust tveir menn hlaupa frá vettvangi. Hamar var á gangstéttinni fyrir neðan brotna rúðuna svo og skartgripir sem mennirnir höfðu trúlega misst þegar styggð kom að þeim er lögreglan kom akandi. Fyrir dómi gáfu þeir lögreglumenn skýrslu sem að málinu komu og lýstu atvikum. Kvaðst annar þeirra hafa hlaupið ákærða uppi sem henti frá sér hvítum plastpoka en í honum voru skartgripir, ætlað þýfi. Samferðarmaður ákærða, C, hafi einnig verið handtekinn.

                Á meðal gagna eru upptökur úr eftirlitsmyndavél verslunarinnar, skjáskot og ljósmyndir teknar á vettvangi. Sjá má að ákærði kemur og skoðar glugga verslunarinnar tæpum sex klukkustundum fyrir innbrotið. Þá sést þegar maður með hulið andlit brýtur glugga með hamri en síðan kemur annar maður í mynd með húfu og heldur á hvítum plastpoka. Sameiginlega teygja mennirnir sig inn í sýningarskáp í versluninni og setja skartgripi í pokann. Þeir hlaupa frá vettvangi þegar þeir verða varir við bílljós. Skjámyndir frá lögreglustöð sýna ákærða og einnig sést húfa hans sem að er nákvæmlega eins og sú sem sést á upptökum frá vettvangi.

Fyrir dóminn kom C en hann kvaðst hafa verið undir miklum áhrifum fíkniefna á þessum tíma og myndi því ekkert eftir atvikum. Hann staðfesti að hann hefði fengið dóm fyrir verknaðinn, en um er að ræða dóm Héraðsdóms Reykjavíkur kveðinn upp 8. mars 2016 með vísan til 161. gr. laga nr. 88/2008.

Að virtum ofangreindum gögnum þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið. Er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákæra héraðssaksóknara dagsett 23. febrúar 2016

Fyrri töluliður ákæru

                Ákærði neitar sök samkvæmt þessum lið ákæru. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dagsettri 17. ágúst 2015, barst tilkynning frá fjarskiptum vegna líkamsárásar. Brotaþoli A, sem þá var staddur á Tryggvagötu, greindi lögreglu frá því að ákærði hefði ráðist á sig á þáverandi íverustað ákærða með því að bíta sig í brjóstið og lemja í andlit með kylfu. Hafi mátt sjá bitfar á brjósti brotaþola og töluverða áverka í andliti og blæddi úr eyra hans. Leitað var af ákærða á íverustað hans að Fiskislóð. Þar var vitnið L sofandi en derhúfa A fannst á vettvangi svo og kylfa. Ákærði var handtekinn síðar um kvöldið og neitaði hann sök. Segir í skýrslunni að hann hafi verið með áverka á vinstri hendi. Fyrir dóminn kom lögreglukona sem ritaði frumskýrslu málsins og staðfesti þetta. Bar hún að brotaþoli hefði verið með áverka á andliti og bitfar. Á meðal gagna eru ljósmyndir sem teknar voru á vettvangi.

                Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hann hafa farið með ákærða út á Granda á íverustað hans. Ákærði hafi ráðist á sig og hafi brotaþoli tekið á móti honum og náð utan um höfuð hans. Hafi ákærði þá bitið sig í brjóstið en síðan slegið sig með kylfu í síðuna, andlit og hendur.

                Vitnið L staðfesti fyrir dóminum að hafa sofið umrætt sinn. M kvaðst ekki hafa verið vitni að átökum en ákærði og brotaþoli hafi rifist og hafi hann upplifað aðstæður sem ógnandi á milli þeirra. Hafi hann því haft sig á braut.

                Samkvæmt læknisvottorði sást við skoðun brotaþola lítið sár á utanverðu hægra eyra og storknað blóð þar í kring. Bólga hafi verið yfir hægra kinnbeini og eymsli. Á brjóstkassa hafi verið 4 x 3 cm hringlaga mar en sárið náði ekki í gegnum húð. Þá segir í vottorðinu að sýnilegir áverkar brotaþola samrýmist lýsingu hans á atburðum, auk þess sem hann hafi verið með mar á bringu sem samrýmdist biti eftir mann. Af ástandi brotaþola mátti ráða að hann hefði neytt áfengis í nokkru magni. N læknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt. Tók hann fram að frásögn brotaþola hefði verið heldur óljós en áverkar gátu samrýmst því að á hann hefði verið ráðist með þeim hætti sem hann lýsti. Hafi þó ekki komið fram hjá brotaþola að hann hefði verið bitinn en vitnið kvaðst hafa dregið þá ályktun af hinum hringlaga áverka.

                Af framburði brotaþola og vitnisins M liggur fyrir að brotaþoli var á íverustað ákærða umrætt sinn. Þá bar M að hann hefði séð ákærða og brotaþola rífast. Þrátt fyrir að framburður brotaþola sé trúverðugur svo langt sem hann nær eru engin vitni að átökum þeirra á milli og meintu ofbeldi ákærða gagnvart honum. Gegn neitun ákærða og með hliðsjón af 108. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 er ekki komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi framið brot samkvæmt þessum ákærulið. Verður hann því sýknaður af brotinu.

Seinni liður ákæru

                Ákærði neitar sök samkvæmt þessum lið ákæru. Sakarefni var fyrst borið undir hann við þingfestingu málsins en skýringar á því koma fram í upplýsingaskýrslu.

Atvikum er svo lýst í skýrslu lögreglu að ákærði, sem var vistaður í fangaklefa umrætt sinn, óskaði eftir því að fara á salerni. Á meðal gagna er upptaka úr fangageymslu. Sést þar greinilega er ákærði ræðst að brotaþola og á sér stað stutt viðureign áður en brotaþola tekst að loka hann inni í klefanum.

                Fyrir dómi lýstu brotaþoli, lögreglumaðurinn E, og O fangavörður atvikum á sama veg; ákærði hafi fyrst eftir að hann kom út úr fangaklefanum verið rólegur en síðan farið að æsa sig og verið ógnandi. Hafi E beðið hann um að fara inn í klefann aftur en hann hafi öskrað á hann. Skyndilega hafi ákærði gripið með vinstri hendi í háls brotaþola og ekki sleppt þegar hann var beðinn um það. Hafi brotaþoli hins vegar náð að ýta honum inn í fangaklefann. Nánar spurður kvað brotaþoli ákærða hafa náð að grípa efst í skyrtukraga hans og við það hafi hann líka gripið í bert hold. Hafi brotaþoli roðnað lítið eitt undan og fundið til óþæginda en ekki talið ástæðu til að leita læknis. Fram kom af hálfu ákæranda að ekki væri á því byggt að um kverkatak hefði verið að ræða.

Að virtum ofangreindum gögnum og framburði vitna þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þessum ákærulið. Er brot ákærða rétt fært til refsiákvæða.

Ákæra lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dagsett 6. maí 2016

Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið og kveðst ekki hafa verið þarna að verki. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu er atvikinu lýst svo að tilkynning hafi borist um að starfsmaður [...] við [...] væri í átökum við mann sem hafi verið að stela úr versluninni. Þegar á vettvang var komið hafi brotaþoli, F, verið með ákærða í tökum en ákærði hafi verið í annarlegu ástandi. Áverkar hafi verið sjáanlegir á hálsi og kinn brotaþola sem kvað ákærða hafa kýlt sig margoft.

Fyrir dóminn kom lögreglumaðurinn E sem ritaði frumskýrslu og staðfesti efni hennar. Kvað hann ákærða hafa verið handtekinn en hann muni hafa veist að brotaþola. Þá hafi fundist þýfi á ákærða innanklæða.

Á meðal gagna er upptaka úr öryggisvél verslunarinnar en á henni sést ákærði ásamt fleiri aðilum á þeim tíma sem um ræðir, m.a. þegar brotaþoli ræddi við þá innandyra

Þá liggur fyrir læknisvottorð P, þar sem staðfest er að brotaþoli hafi komið á bráðamóttöku þann 29. júlí 2015, strax í kjölfar hinnar meintu árásar. Við skoðun hafi komið í ljós grunnur skurður á eyrnablöðku vinstra megin. Mar hafi verið aftan á hálsi og hnakka og eymsli við þreifingu. Þá hafi hann verið með mar framarlega á hálsi báðum megin og við viðbein. Mar hafi verið á ofanverðum lendarhrygg og eymsli þar við þreifingu auk skertrar hreyfigetu vegna verkja. Nokkur eymsli hafi verið á þumli. Við endurkomu 31. ágúst 2015 hafi brotaþoli lýst viðvarandi verkjum á lendarsvæði og svæfi hann illa vegna þess svo og vegna kvíða í kjölfar árásarinnar. Læknirinn staðfesti skýrslu sína fyrir dóminum.

Brotaþoli bar fyrir dómi að fjórir menn hafi komið inn í verslunina og hafi þeir hegðað sér grunsamlega. Þrír hafi verið að stela vörum og bað hann þá um að skila þeim. Hafi hann lent í átökum við tvo þeirra utandyra. Annar þeirra hafi verið lágvaxinn en hann hafi sparkað og lamið í bak hans. Sá hávaxni hafi gengið harðar fram og hafi sá lamið sig ítrekað með krepptum hnefa í háls og andlit. Hann hafi dregið hann upp að vegg og slegið honum utan í hann. Brotaþoli kvaðst ekki hafa barist á móti honum enda verið hræddur um að æsa hann upp enn frekar. Hann hafi gert sér grein fyrir að maðurinn væri sterkari enn hann og hafi hræðst mest að hann næði sér í jörðina. Maðurinn hafi alltaf vaðið í hann aftur með barsmíðum þótt brotaþoli hafi reynt að ýta honum frá sér. Hann hafi haldið manninum föstum þegar hann sá lögregluna koma.

Við skýrslutöku hjá lögreglu var brotaþola sýnd fyrrgreind upptaka og benti hann þá á ákærða sem árásarmanninn. Þá hafi hann bent á aðila sem hann taldi vera þann sem lamdi sig í bakið en nefndi í því sambandi 70% líkur.

Vitnið Q, eiginkona brotaþola, kvaðst hafa hringt í lögreglu en ekki séð alla atburðarásina. Hún hafi séð þegar maður barði og kýldi brotaþola fyrir utan verslunina. Einn hafi verið eftir í átökum við brotaþola þegar lögreglan kom. Hafi hún séð þegar hann barði brotaþola í hnakkann með hnefanum og barði hann í síðuna. Jafnframt hafi hann tekið brotaþola hálstaki og reynt að fella hann. Hún hafi séð áverka á brotaþola og lýsti þeim frekar.

Vitnið R kvaðst búa í grennd við verslunina og hafa orðið vitni að því þegar maður í öryggisbúningi var í átökum við annan mann. Árásarmaðurinn hafi notað hnefa, klipið og látið höggin dynja um allt á brotaþola, m.a. andlit, háls og axlir. Öryggisvörðurinn hafi haldið ró sinni og haldið manninum föstum þegar lögreglan kom. Hún kvaðst ekki hafa séð fleiri veitast að brotaþola enda ekki séð alla atburðarásina. Hún kvaðst hafa séð að öryggisvörðurinn var blóðugur í andliti eftir átökin og með áverka á hálsi.

Að virtum ofangreindum gögnum og framburði brotaþola og annarra vitna þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um að hafa veist að brotaþola með ofbeldi á þann hátt sem lýst er í ákæru, með þeim afleiðingum sem þar greinir að undanskildum eymslum og skertri hreyfigetu á ofanverðum lendarhrygg. Þegar litið er til framburðar brotaþola má vera ljóst að annar aðili, kom aftan að honum og réðst á hann með spörkum og höggum í baksvæði. Að því virtu og þegar litið er til gagna málsins, eins og þau liggja fyrir dóminum, telur dómurinn varhugavert að telja að þær afleiðingar hafi stafað af atlögu ákærða og verður ákærði því sýknað af þeim afleiðingum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008.

Ákvörðun refsingar

                Á meðal gagna málsins er geðrannsókn ákærða framkvæmd af S geðlækni. Matsins var aflað af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgasvæðinu með það fyrir augum að kanna hvort ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 ætti við um hagi ákærða. Í greinargerð læknisins kemur fram að tvívegis áður hafi ákærði gengist undir geðrannsókn, nú síðast í lok febrúar 2015. Fram kemur að ákærði hafi verið í mikilli neyslu undanfarin fimm ár en undanfarið eitt og hálft til tvö ár hafi hún ágerst til mikilla muna. Ákærði fari í alvarlegt geðrofsástand í neyslu og í fráhvörfum. Meðferð hafi aldrei verið við komið þrátt fyrir brýna þörf fyrir hana. Ljóst sé að ákærði þurfi á viðeigandi lyfja- og sálfræðimeðferð að halda. Hann er greindur með félagslega persónuleikaröskun, lyfjafíkn og áfengismisnotkun. Það sé hins vegar mat læknisins að ákærði sé ekki ósakhæfur, sbr. 15. gr. laga nr. 19/1940 og með vísan til 16. gr. laganna sé ekkert læknisfræðilegt sem komi í veg fyrir að refsing kynni að bera árangur yrði hann fundinn sekur. Læknirinn kom fyrir dóminn og staðfesti niðurstöður geðrannsóknar sinnar. Enn lagði hann áherslu á að þrátt fyrir að ákærði væri sakhæfur væri hann engu að síður veikur einstaklingur sem ætti ekki í nein hús að venda. Ljóst væri að hann væri í brýnni þörf fyrir aðstoð vegna alvarlegrar lyfja- og áfengisfíknar sinnar.

                Með vísan til vottorðs geðlæknisins og framburðar hans fyrir dóminn þykir sýnt fram á að andlegu ástandi hans sé ekki svo háttað að ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við. Verður honum því gerð refsing.

                Ákærði á að baki sakarferil sem nær aftur til ársins 2003 og hefur hlotið sex refsidóma fyrir ofbeldisbrot, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, auðgunarbrot og tilraun til þeirra svo og umferðarlagabrot, m.a. akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fyrstu tveir dómar ákærða voru skilorðsbundnir og rauf hann skilorð þess seinni. Eftir það hefur refsing hans verið óskilorðsbundin og nú síðast hlaut hann dóm í júní 2015 í sex mánuði og var sviptur ökurétti í 10 mánuði.

                Ákærði hefur nú verið fundinn sekur um fjögur þjófnaðarbrot, eignaspjöll og gripdeild. Jafnframt fyrir brot gegn valdstjórninni og líkamsárás. Hvað varðar þjófnaðarbrotin þá er í einu tilviki, lið I í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 23. febrúar 2016, um að ræða brot sem var framið fyrir uppkvaðningu síðasta dóms. Verður refsing ákærða að því leyti ákvörðuð sem hegningarauki skv. 78. gr. almennra hegningarlaga við þann dóm. Hin brotin eru öll framin eftir uppkvaðningu þess dóms.

                Til refsiþyngingar horfir að ákærði hefur ítrekað framið auðgunarbrot. Hann hefur þrívegis áður verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot, þar af tvívegis gegn valdstjórninni. Þrátt fyrir að ekki hafi hlotist alvarlegur skaði af árás ákærða nú er brotið litið alvarlegum augum. Við ákvörðun refsingar ber því að líta til 72. gr., en ákærði telst vanaafbrotamaður, 3. mgr. 106. gr., 218. gr. og 255. gr., sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Þá vísast til 1.-3. tl. 70. gr. og 77. gr. laganna.

Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjórtán mánuði.

Bótakrafa og sakarkostnaður

                Af hálfu A er gerð skaðabótakrafa á hendur ákærða að fjárhæð 161.625 kr. auk vaxta vegna tjóns er hann varð fyrir í tengslum við V. lið ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 23. febrúar 2016. Um er að ræða bætur vegna farsíma sem stolið var og kostnaðar vegna tjóns á rúðu, þ.e. vegna sjálfsábyrgðar er hann stóð straum af og innréttingum bifreiðar. Krafan er studd gögnum og er tekin til greina eins og hún er sett fram.

                Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 skal dæma ákærða til greiðslu sakarkostnaðar vegna þeirra brota sem hann er sakfelldur fyrir, sem er 590.152 kr. auk greiðslu málsvarnarþóknunar verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl., samtals 64.480 kr. og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., samtals 840.000 kr. svo og ferðakostnað hans, 17.400 kr.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.

                                                                                  D ó m s o r ð :

                Ákærði, Hilmar Grétar Sigþórsson, sæti fangelsi í fjórtán mánuði. 

                Ákærði greiði 590.152 krónur í sakarkostnað auk greiðslu málsvarnarþóknunar verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar, hrl., samtals 64.480 krónur, og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., samtals 840.000 kr. svo og ferðakostnað hans 17.400 kr.