Hæstiréttur íslands

Mál nr. 686/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                              

Föstudaginn 16. nóvember 2012.

Nr. 686/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 1. gr. laga nr. 39/2012. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sína taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, X, fyrir Hæstarétti, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2012.

I

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 6. nóvember 2012 þess efnis að X kt. [...]verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, [...], að [...], vinnustað hennar á veitingastaðnum [...] að [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis áður greinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima, vinnu eða farsíma hennar eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram, að hinn 6. nóvember sl. hafi A lagt fram kæru á hendur X fyrir ofbeldis- og líflátshótanir í sinn garð.  Kvað hún þau hafa hætt saman í lok mars eða byrjun apríl árið 2011 og síðan þá hafi hann ítrekað hótað henni ofbeldi og lífláti vegna peninga sem hann segi hana skulda sér. Kvað hún hann jafnframt hafa birst við heimili hennar í nokkur skipti og á tímabili hafi hann komið þar á hverjum einasta degi. Fyrir stuttu hafi hann kastaði grjóti í glugga á heimili hennar auk þess sem hún  hafi séð hann aka um hverfið hennar. Hinn 4. nóvember sl. hafi hann svo komið þrisvar sinnum sama daginn í vinnunna til hennar á veitingastaðinn [...] að [...] í [...] og öskrað á hana að borga og verið með ógnandi framkomu. Kvað hún hann hafa sagt að hann myndi koma á hverjum degi í vinnuna til hennar þar til hún dræpist. Í kjölfarið hafi hann sent vinkonu hennar skilaboð á Facebook um að hann myndi  ekki láta hana vera, fyrr en hún hefði greitt skuldina. A hafi lagt fram gögn sem sýni þessi skilaboð og í þeim komi m.a. eftirtaldar hótanir fram í garð A:

- „ég mun ekki fara úr þessum heimi fyrr en ég er kominn með peninginn eða ég er búinn að kyrkja hana til dauða og hengja mig svo strax“

- „er oft með óhreinar nálar á mér væri ekki gaman fyrir hana að fá eina óvart í sig“.

- „ég skal lofa uppá líf mitt mömmu minnar kisu og fósturpabba sem mér þykir mest vænt um að rétt áður en ég mun kveðja frá þessum blessaða heimi að ég mun taka hana með mér í gröfina eða aids sem er verra“

- „komin 2 ár núna...ekki heldur hún að ég sé að fara að gefa mig? Hún á ekki eftir að nenna að búa á þessu landi lengur“

Þá hafi A lagt fram nýrri skilaboð af facebook þar sem X taki fram að hann muni ekki virða nálgunarbannið og ætli að halda ótrauður áfram.

Vitni, sem sé samstarfsmaður A á [...], hafi borið í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa hinn 4. nóvember sl. séð ungan mann koma inn á staðinn. Kvað vitnið hann hafa verið mjög ógnandi í framkomu og hafi farið strax að A og bent ógnandi á hana. Kvað hún þau hafa skipst á nokkrum orðum. Hún hafi ekki heyrt um hvað en tekið eftir því að A hafi verið brugðið. Kvað hún manninn hafa farið en komið aftur og þá viðhaft samskonar ógnandi framkomu í garð A. Kvaðst vitnið hafa spurt A hver þetta væri og hún svarað að þetta væri fyrrverandi kærasti hennar sem hún væri hrædd við.

Í málinu liggur fyrir mynd úr öryggismyndavél [...] þar sem X sést inn á staðnum umrætt sinn.

A hafi ítrekað leitað aðstoðar lögreglu vegna háttsemi X í hennar garð eftir að þau hættu saman. Um sé að ræða eftirfarandi mál:

Mál lögreglu nr. 007-2012-58227: Tilkynnt hafi verið um ölvaðan mann fyrir utan heimil A að [..] og hafi hann verið að kasta grjóti í húsið.

Mál lögreglu nr. 007-2011-61032: A hafi komið á lögreglustöð til þess að tilkynna um líkamsárás. Kvað hún X hafi ráðist að sér fyrir utan [...]. Lögregla hafi verið kölluð til vegna þessa máls og hafi X verið handtekinn á vettvangi. Í skýrslutöku vegna málsins hafi hann sagst hafa farið að [...] til þess að ræða við A vegnar skuldar hennar við sig.  Hafi hann játaði að hafa tekið hana hálstaki umrætt sinn auk þess sem hann hafi játað að hafa gengið hart að henni að greiða umrædda skuld. Kvaðst hann hafa verið búinn að henda munum í húsið hennar og elta hana til að þrýsta á hana að borga sér. Þá kvaðst hann vera mjög  þrjóskur og geta beðið fyrir utan húsið hennar eða skólann hennar allan daginn. Jafnframt hafi hann sagt í skýrslutökunni að  hann myndi halda áfram að áreita hana þar skuldirnar yrðu borgaðar og ef hún neitaði áfram að borga myndi hann gera henni eitthvað rosalegt. Kvaðst hann hafa hugsað um að taka hana í gíslingu og láta hana hringja í foreldra sína til að fá peninga. Kvaðst hann hafa verið að „stalka“ hana þangað til hún borgaði sér.

Þess beri að geta að eftir samskipti við A umrætt sinn hafi X farið heim til sín og sótti hníf og birst svo aftur að [...] en þá hafi A verið farin. A hafi ekki lagt fram kæru á hendur X í þessu máli en hann hafi verið dæmdur fyrir vopnalagabrot, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli [...].

Mál lögreglu nr. 007-2011-59644: Í þessu máli hafi A kært X fyrir hótanir um ofbeldi og skemmdir á eignum hennar greiddi hún honum ekki peninga. Meðal gagna málsins séu skjöl sem staðfesti þessar hótanir. Í skýrslutöku vegna þessa máls hafi kærði játað að hafa áreitt A og kvaðst ekki ætla að hætta fyrr en hann fengi skuldir sínar borgaðar. Málið hafi verið sent ríkissaksóknara til meðferðar og bíði ákvörðunar þar.

Mál lögreglu nr. 007-2011-59560: X hafi ekið aftan á bifreið A eftir að hafa veitt henni eftirför um Ármúla í Reykjavík. Í skýrslutöku vegna málsins hafi X játað að hafa veitt A eftirför umrætt sinn til þess að tala við hana vegna skuldar sem hún væri ekki fáanleg til að greiða. A hafi talið að X hefði ekið viljandi á sig umrætt sinn en hann hafi neitað því.

Hjá lögreglu liggja sömuleiðis fyrir tilkynningar frá 3. júní 2011, 13. maí 2011 og 30. september 2011, þar sem A hafi óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem X hafi mætt óvelkominn með læti að heimili hennar að [...].

Af framangreindu sé ljóst að X hafi beitt A ítrekuðum fjárkúgunum og verið mjög óútreiknanlegur í hegðun sinni gagnvart henni. Hafi hún fulla ástæðu til að óttast hann.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið gegn A og að hætta sé á að hann haldi áfram að raska friði hennar í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt, en til vara krafðist hann að kröfunni væri markaður styttri tími.  Telur hann að ekki sé lagagrundvöllur fyrir kröfunni.

II

Fyrir dóminn hafa verið lögð fram afrit rannsóknargagna lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 6. nóvember sl. um að varnaraðili skuli sæta nálgunarbanni.  Fallist er á það með lögreglustjóra að gögn þessi beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverð brot gegn brotaþola, en jafnframt að hætta sé á að varnaraðili haldi áfram að brjóta gegn brotaþola.  Jafnframt er tekið undir það mat lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði verndað með öðrum hætti en að varnaraðili sæti nálgunarbanni.  Þykja því uppfyllt skilyrði 4. gr. og 6. gr. laga nr. 85/2011 til þess að staðfesta ákvörðun lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka nálgunarbanninu skemmri tíma.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem ákveðst 75.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Bjarna Haukssonar hdl., 75.300 krónur.  

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :     

X, kt. [...], er gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...], vinnustað hennar á veitingastaðnum [...] að [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis áður greinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri, hringi í heima-, vinnu-, eða farsíma hennar, eða setji sig á annan hátt í beint samband við hana.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 75.300 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Einnig greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Bjarna Haukssonar hdl., 75.300 krónur.