Hæstiréttur íslands

Mál nr. 203/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Steinbergur Finnbogason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. apríl sama ár klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að „kröfu um einangrun verði hafnað og eða að einangrunarvist verði markaður skemmri tími.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þann tíma sem krafist er. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                            

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. mars 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess  að X, kt. [...], [...], [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 4. apríl 2017 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Krafan er reist á a lið 1. mgr. 95. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Lögreglan telur að kærði sé undir grun um brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra. Hann krefst þess aðallega að gæsluvarðhaldskröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er og að það verði án takmarkana.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði hafi verið  handtekinn í gær, 27. mars klukkan 17.15, en kærði sé grunaður um eftirtalin fjársvikabrot:

Mál lögreglu númer 007-2017-[...]. Þann 8. mars sl. hafi aðili kært kærða vegna fjársvika. Kvaðst hún hafa greitt kærða 300.000 krónur 14. feb. sl.  í fyrirfram greidda leigu vegna marsmánaðar  vegna leigu á einbýlishúsi  að [...]. Jafnframt hafi  kærði krafist  900.000 króna sem tryggingu sem kærandi greiddi ekki.  Ekkert hafi orðið úr leigunni. Kærandi hafi verið í samskiptum við kærða í gegnum tölvu og síma um afhendingu og frekari greiðslur. Kærandi hafi lagt fram gögn um samskipti við kærða máli sínu til stuðnings. Kærandi kvaðst hafa verið í sambandi um endurgreiðslu sem kærði hafi lofað en ekkert orðið úr efndum.  Hafi félag á vegum kærða, A ehf., gert samning um kaup á ofangreindri eign sem greiða átti í júní næstkomandi en félagið hafi ekki haft heimild til að framleigja eignina. Kærði hafi gefið ótrúverðugar skýringar að mati lögreglu. 

Mál lögreglu númer 007-2017-[...]. Kæra frá 23. mars sl. Þar sé kærði grunaður um að hafa leigt íbúð að [...] 19. október sl.  Kærandinn hafi séð auglýsingu á Bland og skoðað íbúðina og hitt þar aðila sem kynnti sig sem B. Daginn eftir hafi hún greitt 700.000 krónur til kærða sem tryggingu. Hafi kærandi fengið lykla og íbúðina afhenta. Síðar hafi komið í ljós við þinglýsingu leigusamnings að íbúðin var í eigu [...] ehf. og að kærði hafði ekkert umboð til leigja íbúðina. Félag skráð á kærða, A ehf., hafi leigt íbúðina og ekki staðið við neitt og átti að bera aðilann út. Kærði hafi því svikið út umrædda upphæð með blekkingum og kynnt sig sem leigusala. Samkvæmt upplýsingum kæranda hafi hún verið í samskiptum við kærða um að hann endurgreiddi og hafi hann lofað greiðslu en ekkert orðið úr því. Kærði hafi gefið ótrúverðugar skýringar á þessu en viðurkenni að hafa móttekið 700.000 krónur.

Mál lögreglu númer 007-2016-[...].  Kærði sé  grunaður um að hafa með blekkingum svikið út úr aðila leigugreiðslur vegna húsnæðis að [...] og [...] að fjárhæð 1.350.000 krónur en það mál hafi verið kært til lögreglu 20. október sl. Kærandi hafi greitt 1.000.000 krónur í fyrirframgreiðslu vegna [...]. Kærði játi að hafa móttekið fjárhæðina. Kærði virðist ekki hafa haft umboð til að leigja [...], en sú eign sé í eigu þriðja aðila. Kærði hafi verið starfsmaður fasteignasölunnar [...] en sé hættur þar sem starfsmaður. Svo virðist sem kærði hafi útbúið samninga í nafni leigulistans.

Mál lögreglu númer 007-2017-[...]. Kæra sé dagsett 23. mars en þar sé kærði grunaður um að hafa svikið út 900.000 krónur í mars sl. vegna sama húsnæðis í [...] sem hann hafi framleigt án heimildar. Samskiptin við kærða [...]  hafi byrjað með þeim hætti að fyrirtækið A ehf, sem er félag skráð á kærða,  hafi gert kauptilboð í eignina þann 8.12.2016 sem  hafi verið tekið.  Greiða hafi átt með einni greiðslu við kaupsamning, í síðasta lagi 3.6.2017.  Þangað til hafi  félagið ætlað að leigja húsið frá 3.1.2017. Leigan hafi átt að vera  260.000 krónur á mánuði og þann 10. janúar hafi X greitt 144.000 krónur.  Að sögn kæranda hafi kærandi mætt með foreldra  sína  þegar hann kom og skoðaði húsið í fyrsta skiptið. Þann 21. mars hafi kærandi farið ásamt eiginmanni sínum að [...] og  séð að einhverjir voru inní í húsinu. Að sögn kæranda hafi hann hringt í kærða  og þá hafi hann sagst vera í New York. Samkvæmt upplýsingum kæranda kom í ljós að [...] höfðu leigt eignina til tveggja ára og hafi þeir greitt 900.000 krónur fyrirfram til kærða sem tryggingu. Samkvæmt upplýsingum kæranda  hafi [...] verið hræddir þar sem kærði hefði haft í hótunum við þá. Kærandi hafi rætt við [...] og kynnt  þeim stöðuna og þeir sagt honum að þeir hafi skrifað undir leigusamning og hafi verið búnir að vera í húsinu í mánuð.  Kærandi kvaðst hafa rift leigusamningi við A ehf. 21. mars.

Þá séu eldri mál á kærða. Kæra dagsett 20. mars  2015 en þar sé kærði  grunaður um að hafa svikið aðila með því að auglýsa á vefsíðunni „Bland“ Iphone 6 + síma  til sölu. Hafi kærandi greitt inn á reikning kærða í Íslandsbanka 105.000 krónur í þremur greiðslum. Kærandi hafi hins vegar ekki fengið símann afhentan þrátt fyrir að kærði hafi lofað að endurgreiða. Kærði geti ekki gefið viðhlítandi skýringar á þessu. Í kæru frá 13. maí 2015 sé kærði grunaður um að hafa svikið aðila með því að auglýsa á vefsíðunni „Bland“  Samsung síma til sölu. Kærandi  hafi greitt kærða 90.000 krónur  inn á reikning kærða en ekki fengið símann  afhentan.

Í þessum málum hafi kærði meðal annars verið í tölvu-, net, og símasamskiptum við kærendur þar sem hann hafi beiti blekkingum og lofað að endurgreiða kærendum.  Lögregla telur vera rökstuddan grun um að kærði X hafi svikið út fé af aðilum með blekkingum og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi þar sem rannsóknin sé á frumstigi og ekki hafi fyrr náðst í kærða til yfirheyrslu vegna áðurnefndra mála. Að mati lögreglu  sé nauðsynlegt  að taka frekari skýrslu af kærða og  frekari skýrslur af vitnum  og telur lögregla nauðsynlegt með hliðsjón að gögnum málsins  að rannsaka önnur gögn meðal annars tölvu og net og símaskipti kærða við kærendur.   Kærði hafi gefið ótrúverðugar skýringar á málunum.  Þyki því brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og sterkum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni  ef hann fær að fara frjáls ferða sinna.

 Til rannsóknar í málum þessum sé ætlað brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði sé undir rökstuddum  grun um aðild að málunum  samkvæmt gögnum og vitnisburði. Kærði X  hafi áður komið við sögu lögreglu í tengslum við fjársvik og hafi hann  áður hlotið dóma vegna fjársvika hér á landi og í Danmörku.

Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærða verði með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 4. apríl 2017 kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Þegar litið er til gagna málsins er fallist á með saksóknara að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varðað getur fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og töluverðir rannsóknarhagsmunir í húfi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. og b liðar 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.      

Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 4. apríl 2017 klukkan 16. Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.