Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Matsgerð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 18. janúar 2016. |
|
Nr. 2/2016.
|
M (Júlí Ósk Antonsdóttir hdl.) gegn K (enginn) |
Kærumál. Börn. Matsgerð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M var vísað frá dómi. Héraðsdómari hafði ítrekað beint því til málsaðila að afla sérfræðilegrar álitsgerðar til afnota í málinu, sbr. 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Aðilarnir urðu ekki við því og báru við að þau hefðu ekki fjárhagslega burði til að greiða sjálf kostnað vegna slíkrar matsgerðar. Óskuðu þau eftir því að héraðsdómur kvæði á um að kostnaður vegna hennar greiddist úr ríkissjóði, en dómurinn hafnaði þeirri málaleitan. Í dómi Hæstaréttar voru ákvæði 42. gr. barnalaga rakin og vísað til þess að þau fælu í sér frávik frá reglu 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um forræði málsaðila á sönnunarfærslu. Endurspegluðu ákvæðin þá sérstöðu sem dómsmál um forsjá barna hefðu. Þar sem héraðsdómur taldi að nauðsyn bæri til að afla sérfræðilegrar álitsgerðar til að meta þau atriði sem greinir í 2. mgr. 34. gr. barnalaga hefði honum, með vísan til 3. mgr. 42. gr. laganna, borið að leggja fyrir málsaðila að afla hennar. Taldi Hæstiréttur að eins og atvikum væri háttað í málinu hefði þó átt að mæla fyrir um að kostnaður af slíkri gagnaöflun greiddist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2015 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. janúar 2016. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. desember 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu deila aðilar um forsjá fjögurra sona sinna og hefur héraðsdómari ítrekað beint því til þeirra að afla sérfræðilegrar álitsgerðar til afnota í málinu, sbr. 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þau hafa ekki orðið við því og borið við að þau hafi ekki fjárhagslega burði til að greiða sjálf kostnað vegna matsgerðar, en jafnframt óskað eftir því að héraðsdómur kveði á um að kostnaður vegna álitsgerðarinnar greiðist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Því hefur héraðsdómari hafnað. Málsaðilar munu báðir hafa sótt um gjafsókn til innanríkisráðuneytisins, en umsóknum þeirra verið synjað.
Samkvæmt 2. mgr. 34 gr. barnalaga kveður dómari á um hvernig forsjá barns verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu og lítur þá meðal annars til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns og tengsla þess við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi, og vilja barns, að teknu tilliti til aldurs og þroska þess. Af niðurstöðu hins kærða úrskurðar verður ráðið að héraðsdómur hafi ekki talið sér fært að leggja dóm á málið án þess að fyrir lægi sérfræðileg álitsgerð um forsjárhæfni málsaðila, þar sem metin hafi verið þau atriði sem rakin eru í málsgreininni. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. barnalaga fylgist dómari með öflun sönnunargagna og getur hann ákveðið að afla sjálfur gagna sem hann telur nauðsynleg til að leggja megi dóm á mál, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þá getur hann lagt fyrir aðila að afla sérfræðilegrar álitsgerðar ef hann telur hennar þörf og ákveðið að kostnaður af gagnaöflun sem hann mælir fyrir um greiðist úr ríkissjóði, sbr. 3. og 4. mgr. sömu lagagreinar. Umrædd ákvæði fela í sér frávik frá reglu 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um forræði málsaðila á sönnunarfærslu og endurspeglar þá sérstöðu sem dómsmál um forsjá barna hafa. Að baki ákvæðinu búa þeir ríku hagsmunir sem barn hefur af því að aflað verði fullnægjandi og vandaðra gagna áður en ákvörðun er tekin um svo mikilsvert málefni hver skuli fara með forsjá þess.
Eins og að framan er rakið taldi héraðsdómur nauðsyn bera til að aflað yrði sérfræðilegrar álitsgerðar til þess að leggja mat á þau atriði sem greinir í 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Bar honum þá í samræmi við framangreint og með vísan til 3. mgr. 42. gr. laganna að leggja fyrir málsaðila að afla slíkrar álitsgerðar og eins og atvikum er háttað í málinu, að mæla svo fyrir um að kostnaður af slíkri gagnaöflun greiðist úr ríkissjóði, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Ekki eru á málatilbúnaði aðila þeir annmarkar að varðað geti frávísun málsins án kröfu. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. desember 2015.
Mál þetta, sem þingfest var 5. febrúar 2015, var tekið til úrskurðar 7. desember sl., um frávísun máls, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.
Málið höfðaði M, kt. [...], [...], Akureyri, með stefnu, þingfestri 5. febrúar 2015, á hendur K, kt. [...], [...], Akureyri.
Dómkröfur stefnanda og stefndu eru í stefnu og greinargerð samkynja að því leyti að bæði fara þau fram á að þeim verði með dómi falin forsjá fjögurra drengja, sem fæddir eru á árabilinu 2005 til 2011, og að kveðið verði á um umgengni þeirra. Þá hefur stefnda uppi þá varakröfu að aðilar fari áfram sameiginlega með forsjá drengjanna, en að þeir hafi lögheimili hjá henni og að stefnandi greiði með þeim meðlag. Aðilar krefjast jafnframt báðir málskostnaðar.
Í stefnu hafði stefnandi að auki uppi kröfu um að dómurinn úrskurðaði til bráðabirgða að honum yrði falin forsjá drengjanna, að lögheimili þeirra yrði hjá honum og að hann fengi greitt meðlag með þeim. Enn fremur krafðist hann þess að dómurinn ákvarðaði til bráðabirgða um umgengni drengjanna og að aðilum væri óheimilt að fara með þá úr landi. Af hálfu stefndu var þess krafist að öllum bráðabirgðakröfum stefnanda yrði hafnað.
I.
Málatilbúnaður aðila.
1. Í stefnu gerir stefnandi stutta grein fyrir málavöxtum, en í framhaldi af því rökstyður hann málsástæður sínar. Í greinargerð stefndu er málsatvikum og málsástæðum tvinnað saman.
Málavextir eru þeir helstir samkvæmt lýsingum málsaðila, að stefnda, sem er af erlendu bergi brotin, kom til landsins árið 1999, en að sögn eru ættmenn hennar hér búsettir. Málsaðilar hófu sambúð árið 2004 og festu um svipað leyti kaup á íbúð á [...] hér á Akureyri. Þá gengu þau í hjónaband, en eignuðust síðan fyrrnefnda drengi, en tveir þeir yngstu eru tvíburar.
Samvistum aðila lauk haustið 2014. Í kjölfarið leitaði stefnda skilnaðar að borði og sæng á grundvelli 33. gr. laga nr. 31, 1993. Fyrir liggur að aðilum auðnaðist ekki að ná samkomulagi um forsjá og umgengni drengjanna þrátt fyrir sáttameðferð sýslumanns, sbr. ákvæði samkvæmt 33. gr. a barnalaga nr. 76, 2003 og framlagt sáttavottorð.
Óumdeilt er að stefnandi hefur frá skilnaði haldið kyrru fyrir í áðurnefndri eign aðila, ásamt elsta syni þeirra. Stefnda hefur aftur á móti búið í leiguíbúð, eigi fjarri húseigninni, ásamt þremur yngstu drengjunum. Fyrir liggur að aðilar hafa um árabil starfað við fiskvinnslu eigi fjarri íverustöðum þeirra.
2. Í stefnu er gerð grein fyrir málsástæðum stefnanda. Segir þar m.a. að hann hafi séð um daglega umönnun og umsjá drengjanna að mestu leyti og að hann hafi af þeim sökum mjög sterk tengsl við þá. Þá segir í stefnu að elsti drengurinn hafi lýst vilja sínum til að vera hjá stefnanda. Þar um er vísað til nefnds sáttavottorðs sáttamanns sýslumanns, [...], fjölskyldu- og félagsráðgjafa. Einnig er staðhæft að næstelsti drengurinn hafi lýst sama vilja til búsetu. Um lagarök er að þessu leyti vísað til 3. mgr. 1. gr. og 43. gr. barnalaga nr. 76, 2003.
Stefnandi byggir á því að hagsmunum allra drengjanna sé betur borgið hafi þeir búsetu hjá honum. Stefnandi staðhæfir að hann hafi m.a. stuðlað að umgengni elsta drengsins við stefndu, en á móti hafi hann notið nokkurrar umgengni við næstelsta drenginn. Þessu sé hins vegar þveröfugt farið með yngstu drengina tvo, sem hann hafi naumast hitt. Stefnandi byggir einnig á því að hann sé betur í stakk búinn til að sinna þörfum drengjanna, t.d. varðandi heimanám og í samskiptum við skóla, enda sé hann vel mæltur á íslenska tungu.
Stefnandi staðhæfir að vegna ágreinings aðila séu ekki fyrir hendi forsendur fyrir sameiginlegri forsjá. Hann byggir hins vegar á því að umgengni drengjanna við aðila eigi að vera ríkuleg, enda séu það hagsmunir þeirra, en þar um er vísað til 46. gr. barnalaga. Stefnandi rökstyður nánar kröfu sínar, en enn fremur kröfu um bráðabirgðaúrskurð um forsjá, umgengni o.fl.
Um lagarök vísar stefnandi að öðru leyti til ákvæða barnalaga nr. 76, 2003. Hann bendir einkum á 34., 35., 37., 38., 53., 55. og 57. gr. og VI. kafla laganna. Að því er varðar málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr., en um virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50, 1988.
Í stefnu, líkt og við rekstur málsins fyrir dómi, leggur stefnandi áherslu á að nauðsynlegt sé að dómari skipi sérfróða aðila til að kanna aðstæður málsaðila sem og hæfni þeirra til að fara með forsjá á grundvelli 3. mgr. 40. gr. barnalaganna. Fer hann fram á að dómari ákvarði að kostnaður við slíka gagnaöflun greiðist úr ríkissjóði, sbr. heimildarákvæði 4. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Stefnandi áskilji sér og rétt til að leggja fram matsbeiðni hafi dómari ekki frumkvæði að því leyti.
Við þingfestingu málsins lagði stefnandi fram vottorð um sáttameðferð sýslumanns, endurrit úr hjónaskilnaðarbók og málflutningsumboð. Í stefnu áskildi hann sér rétt til að leggja fram frekari gögn á síðari stigum og að koma fram með nýjar málsástæður, sbr. ákvæði 41. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Enn fremur hafði hann fyrirvara um að við aðalmeðferð máls myndi hann, auk þess að gefa aðilaskýrslu, leiða fram vitni sem þekkja til hagsmuna barna hans.
3. Í greinargerð stefndu er byggt á þeirri málsástæðu að henni verði falin forsjá drengjanna, að það sé þeim fyrir bestu, að forsjárhæfni hennar sé mun betri en stefnanda og að hún geti boðið börnunum upp á mun tryggari og betri uppeldisaðstæður en hann.
Stefnda andmælir öllum málsástæðum stefnanda sem órökstuddum og röngum, en jafnframt andmælir hún bráðabirgðakröfum hans.
Um lagarök vísar stefnda til 28. gr. og 28. gr. a, 34. gr., 46. og 47. og 57. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Um málskostnað vísar stefnda til 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.
Við þingfestingu málsins lagði stefnda m.a. fram frekari gögn frá sýslumanni um skilnaðarmál aðila, en einnig umsagnir leikskólakennara um næstelsta drenginn, A, sem dagsett eru 10. og 11. febrúar 2015. Í greinargerð áskildi stefnda sér rétt til að leggja fram frekari gögn á síðari stigum og að koma fram með nýjar málsástæður en boðaði jafnframt að kæmi til aðalmeðferðar myndi hún gefa aðilaskýrslu og kalla til vitni sem þekktu til aðstæðna drengjanna.
II.
Á dómþingi þann 26. mars sl. var m.a. upplýst frekar um hagi og aðstæður málsaðila og drengjanna þeirra. Þar á meðal kom fram að ekki stæðu fyrir dyrum breytingar á búsetu aðila og jafnframt að ekkert sérstakt væri athugavert við líkamlegt heilsufar drengjanna. Að ósk lögmanna aðila var afráðið að fresta málinu um stund vegna sáttaumleitana, en að því sögðu var bókað að dómari hefði beint því til aðila að þeir myndu huga að matsbeiðni héldi málareksturinn áfram.
Í þinghaldi þann 7. maí sl. voru að hálfu lögmanns stefndu lögð fram gögn frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, dagsett í janúar sl. Gögn þessi vörðuðu næstelsta drenginn, A, sem fæddur er í apríl 2009, en þar segir frá því að hann sé með væga þroskahömlun, hreyfiþroskaröskun, en enn fremur álag tengt félagslegum aðstæðum. Í nefndu þinghaldi var bókað að aðilar hefðu báðir lagt fram umsóknir hjá innanríkisráðuneytinu um gjafsókn, en að þeim hefði verið hafnað. Af þessu tilefni áréttaði lögmaður stefnanda ósk sína um að dómari ákvarðaði að kostnaður vegna gagnaöflunar yrði greiddur úr ríkissjóði. Dómari hafnaði þeirri málaleitan, en ítrekaði fyrri orð um að málsaðilar öfluðu á eigin kostnað matsgerðar dómkvadds matsmanns. Í þinghaldinu áréttaði lögmaður stefnanda kröfur um bráðabirgðaforsjá o.fl. honum til handa.
Í þinghöldum, sem haldin voru sumarið og haustið 2015, lögðu lögmenn aðila fram fleiri umsagnir leik- og grunnskólakennara umræddra drengja.
Vegna fyrrnefndra bráðabirgðakrafna stefnanda ákvað dómari að veita tveimur elstu drengjunum færi á að tjá sig um málefni sín, sbr. ákvæði 43. gr. barnalaga, en jafnframt kallaði hann sér til aðstoðar sérfróðan aðila. Á dómþingi 8. júní sl. var aðilum og lögmönnum þeirra gerð grein fyrir því sem fram hafði komið í viðræðum dómara við drengina tvo. Á dómþingi 1. júlí sl. var bókað að tekist hefði óformleg sátt með aðilum um gagnkvæma umgengni og viðveru drengjanna við heimili þeirra, en jafnframt að lögmaður stefnanda hefði að því sögðu fallið frá fyrrnefndum bráðabirgðakröfum. Að ósk aðila hélt dómari sérstakt sáttaþing með aðilum og lögmönnum þeirra, en þá var og tilkvaddur túlkur. Sættir tókust ekki með aðilum. Upplýst var á dómþingi að stefnandi hefði öðru sinni óskað eftir gjafsókn hjá gjafsóknarnefnd innanríkisráðuneytisins, en að umsókn hans hefði verið hafnað vegna of hárra tekna hans. Í kjölfar þessa áréttaði lögmaður stefnanda beiðni sína um að dómari ákvarðaði að kostnaður vegna gagnöflunar skyldi greiðast úr ríkissjóði, sbr. ákvæði 4. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Dómari hafnaði þeirri málaleitan, en beindi því enn til aðila, að þeir stæðu eftir atvikum saman að matsbeiðni.
Í þinghaldi þann 21. október sl. var því lýst yfir af hálfu lögmanna málsaðila að þeir myndu ekki leggja fram matsgerð dómkvadds matsmanns vegna takmarkaðra fjárráða þeirra. Vegna þessa lagði dómari að aðilum að leita sátta, en áréttaði einnig tilmæli um að afla matsgerðar dómkvadds matsmanns, a.m.k. um málefni næstelsta drengsins.
Við meðferð málsins hafa málsaðilar báðir lagt fram nokkrar upplýsingar um fjárhag sinn, en þar á meðal er afrit skattframtals fyrir árið 2015, staðgreiðsluyfirlit, greiðsluáætlanir, umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhagslega aðstoð við framfærslu fatlaðra langveikra barna, yfirlit um umönnunargreiðslur frá sömu stofnun fyrir árið 2015 og greiðslur vegna leikskólagjalda. Einnig liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar um inneignir aðila í fjármálastofnunum samkvæmt skattframtölum áranna 2013 og 2014.
Á dómþingi 2. desember sl. lýstu lögmenn aðila sýnilegri gagnaöflun lokið, en jafnframt beindu þeir þeim tilmælum til dómara að hann ákvarðaði dag til aðalmeðferðar málsins. Í nefndu þinghaldi, en einnig í þinghaldi þann 7. desember sl., var því lýst yfir að við aðalmeðferð málsins ætluðu aðilar að gefa skýrslur, en jafnframt að það væri ætlan þeirra að leiða fram sem vitni ættingja sína og vinafólk svo og leik- og grunnskólakennara og talmeinafræðing.
Í kjölfar þessa beindi dómari því til lögmanna málsaðila að þeir tjáðu sig munnlega um frávísun málsins vegna vanreifunar, sbr. ákvæði 1. mgr. 100. gr. einkamálalaga nr. 91, 1991, og gekk það eftir þann 7. desember sl.
III.
Stefnandi andmælir því að málinu sé vísað frá dómi og þ. á m. af þeirri ástæðu að ekki hafi verið aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns, en þar um vísar hann til þess sem áður er fram komið um efnaleysi hans. Stefnandi bendir á að telji dómari nauðsynlegt að afla slíkrar matsgerðar geti hann aflað hennar sjálfur, sbr. ákvæði 2. og 4. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Stefnandi bendir jafnframt á að aðilum sé það brýnt að fá skorið úr ágreiningi sínum og þá í ljósi hinna miklu hagsmuna sem um sé að tefla.
Stefndi tekur undir ofangreindar röksemdir stefnanda. Þá bendir hún á að frávísun málsins geti strítt gegn grundarvallarreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnda áréttar að umsókn hennar um gjafsóknarleyfi hafi verið hafnað af innanríkisráðuneytinu og að hún hafi ekki fjárhagslega burði til að afla matsgerðar dómkvadds matsmanns, líkt og tíðkist í málum sem þessum.
IV.
Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um hvernig forsjá barna, lögheimili þeirra, umgengni og meðlagsgreiðslum verði háttað.
Samkvæmt 34. gr. barnalaganna nr. 76, 2003 er það grundvallarregla barnaréttar að þegar ákvarðað er um ágreining í málum sem þessum eigi að fara eftir því sem barni er fyrir bestu. Ber dómara í því viðfangi m.a. að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldna þeirra til að tryggja rétt barns til umgengni og hvort hætta sé á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi. Þá ber að líta til vilja barns að teknu tilliti aldurs og þroska.
Samkvæmt 43. gr. barnalaganna skal dómari í samræmi við ofangreint ákvæði veita barni kost á að tjá sig um mál sín eftir því sem tilefni og þroski gefur tilefni til. Þá skal dómari samkvæmt 42. gr. barnalaganna fylgjast með öflun sönnunargagna. Getur hann lagt fyrir aðila að afla tilgreindra gagna sem varða aðstæður þeirra og barna þeirra. Verði aðilar ekki við tilmælum dómara eða er það ókleift getur dómari sjálfur aflað gagna sem hann telur nauðsynleg til að leggja megi dóm á málið.
Í máli þessu hafa aðilar lagt fram fyrrgreind gögn. Gögnin eru mikilvæg, en þau verða vart talin umfangsmikil, en þau stafa aðallega frá leik- og grunnskólum umræddra drengja. Að auki liggja fyrir mikilsverð sérfræðigögn um næstelsta dreng málsaðila. Þessu til viðbótar hefur dómari undir rekstri málsins rætt við tvo elstu drengi málsaðila með aðstoð sérfróðs aðila, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 43. gr. barnalaganna.
Líkt og hér að framan hefur verið rakið hefur dómari ítrekað beint því til málsaðila að afla sérfræðilegrar matsgerðar dómkvadds matsmanns. Dómari hefur hins vegar hafnað því að kostnaður því tengdur greiðist úr ríkissjóði. Málsaðilar hafa ekki orðið við þessum áskorunum.
Það er meginregla, sem er hluti af grundvallarmannréttindum, að einstaklingar eigi almennan rétt til aðgangs að dómstólum, sbr. ákvæði 1. mgr. 70. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 62, 1994. Verða því allar takmarkanir á aðgangi manna að dómstólum að koma fram með skýrum hætti í lögum.
Í máli þessu hafa báðir málsaðilar staðhæft að þeir hafi leitað eftir gjafsókn til innanríkisráðuneytisins, sbr. ákvæði XX. kafla einkamálalaga nr. 91, 1991, sbr. breytingarlög nr. 7, 2005. Með nefndri löggjöf, sbr. nú 1. mgr. 127. gr. einkamálalaganna, hefur Alþingi tiltekið sérstök skilyrði fyrir veitingu gjafsóknar. Segir þannig í a-lið 1. mgr. 127. gr. laganna að til grundvallar veitingu gjafsóknar sé að efnahag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fjárhagslega ofviða. Alþingi hefur í þessu lagaákvæði ekki kveðið á um sérstakt tekjuviðmið, en í þess stað kveðið á um að ráðherra sé heimilt að kveða á um takmarkanir á gjafsókn í reglugerð, sbr. nú reglugerð nr. 45, 2008, með síðari breytingum.
Aðilar þessa máls hafa málsaðilar ekki lagt fram gögn þau sem lágu til grundvallar höfnun á umsóknum þeirra um gjafsókn til gjafsóknarnefndar innanríkisráðuneytisins. Verður þannig ekki séð að höfnun á umsóknum þeirra hafi byggst á ómálaefnalegum sjónarmiðum.
Á meðal málsskjala sem aðilar hafa lagt fram eru gögn, sem varða m.a. tekjur þeirra á árinu 2014. Einnig hafa þeir lagt fram takmörkuð gögn, sem virðast sýna að þeir hafi átt innistæður á bankareikningum árið 2013, að upphæð tæplega 6,7 milljónir króna.
Að þessu virtu hafa málsaðilar að mati dómsins ekki sýnt fram á að þeim sé ókleift að afla matsgerðar af fjárhagslegum ástæðum.
Í barnalögum nr. 76, 2003, einkum VI. kafla, er kveðið á um meðferð dómsmála vegna ágreinings um forsjá barna o.fl. og eru þar ríkar skyldur lagðar á dómara að upplýsa mál, þannig að niðurstaða þess hafi hag barna að leiðarljósi. Er dómara þannig eftir atvikum bæði heimilt og skylt að grípa til sjálfstæðra athafna og er þannig síður bundinn af kröfugerð, málsástæðum eða yfirlýsingum aðila en tíðkast í venjubundnum einkamálum. Að öðru leyti gilda almennar reglur laga nr. 91, 1991, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaga nr. 76, 2003.
Samkvæmt framansögðu hafa málsaðilar lýst gagnaöflun lokið og í reynd hafnað því að afla matsgerðar dómkvadds matsmanns þrátt fyrir ítrekuð tilmæli dómara þar um.
Í þeim málarekstri sem hér um ræðir er það mat dómsins að aðilum sé það brýnt að afla skýrslu sérfræðings um hagi og aðstæður sínar og þeirra drengja sem hér eiga hlut að máli. Að þessu sögðu brestur mjög á að kröfur málsaðila séu studdar viðhlítandi gögnum. Það er þannig álit dómara, að eins og aðilar hafa lagt málið fyrir dóminn, séu vandkvæði á að dæma það eftir þeim gögnum sem fyrir liggja. Að þessu öllu sögðu er það álit dómsins, að eins og hér stendur á, sé ekki fullnægt skilyrðum 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19, 1991 um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. að því leyti m.a. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 699/2014.
Þegar allt ofangreint er virt eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði málsaðila að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá dómi ex officio.
Málskostnaður fellur niður.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.