Hæstiréttur íslands
Mál nr. 477/2014
Lykilorð
- Þjófnaður
- Hylming
|
|
Fimmtudaginn 21. maí 2015 |
|
Nr. 477/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn X (Jón Egilsson hrl.) |
Þjófnaður. Hylming.
X var ákærð fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara 254. gr. sömu laga, með því að hafa í félagi við Y brotist inn í verslun og stolið þaðan myndavél og fjórum linsum. Með hliðsjón af framburði X hjá lögreglu og fyrir dómi og að teknu tilliti til framburðar Y var talið að ákæruvaldið hefði ekki axlað sönnunarbyrði sína um að X hefði gerst sek um þjófnað eða hylmingu og var hún því sýknuð af kröfum þess.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms og að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærða krefst þess aðallega að hún verði sýknuð, en til vara að refsing verði milduð.
Ákærðu er gefinn að sök þjófnaður en til vara hylming með því að hafa í félagi við meðákærða í héraði, Y, aðfaranótt fimmtudagsins 21. nóvember 2013 brotist inn í verslun Nýherja að Borgartúni 37 í Reykjavík með því að spenna upp rennihurð og stela þaðan myndavél og fjórum linsum. Hluti þýfisins fannst í bakpoka fyrir aftan sófa við leit lögreglu daginn eftir á heimili ákærðu. Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara 254. gr. sömu laga.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 21. nóvember 2013 fékk lögregla heimild til húsleitar hjá ákærðu. Leitin fór fram seint um kvöld sama dag eða tæpum sólarhring eftir innbrotið. Hittist ákærða þar fyrir og klæddist þá svartri hettupeysu með áletruninni „Element“. Á myndum úr öryggismyndavél verslunarinnar Nýherja má sjá að annar innbrotsþjófanna klæddist svartri peysu að því er virðist með sömu áletrun. Fyrir dómi skýrði ákærða svo frá að þegar lögregla knúði dyra hjá henni hefði hún verið léttklædd á leið í háttinn og því gripið peysu sem lá á sófanum og klæðst henni. Spurð um hver ætti peysuna kvaðst hún ekki vita það. Ákærða skýrði frá á sömu lund þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu 22. nóvember 2013 eftir að hafa dvalið um nóttina í fangaklefa. Fyrir dómi skýrði meðákærði þannig frá að hann hefði fengið að dvelja á heimili ákærðu og að menn í för með sér hefðu komið þýfinu fyrir á heimili hennar.
Ákærða hefur frá öndverðu gefið fyrrgreinda skýringu á því að hún klæddist umræddri hettupeysu og verður henni ekki vísað á bug. Þá er komið fram í málinu að meðákærði gisti hjá ákærðu á þessum tíma. Frásögn hans fyrir dómi um þýfið og annað sem liggur fyrir í málinu bendir ekki til að ákærðu hafi verið kunnugt um að það hafi verið falið á heimili hennar. Samkvæmt þessu hefur ákæruvaldið ekki axlað sönnunarbyrði sína um að ákærða hafi gerst sek um þjófnað eða hylmingu og verður hún sýknuð af kröfum þess.
Allur sakarkostnaður sem ákærðu var gert að greiða með héraðsdómi verður felldur á ríkissjóð með þeim fjárhæðum sem þar greinir. Jafnframt greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður ákærðu í héraði, eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi, og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 5. júní 2014
Mál þetta, sem var dómtekið 15. maí sl., er höfðað af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með ákæru dagsetri 20. mars sl. „á hendur Y, kt. [...], [...], [...], Z, kt. [...], [...], [...], Þ, kt. [...], [...], [...], og X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin brot framin á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2013 og 2014, á hendur ákærða Y einum og í félagi, sem hér greinir:
I.
1. Á hendur ákærða, Y, fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar, með því að hafa í tvígang þriðjudaginn 24. september 2013 í versluninni Elko í Skeifunni í Reykjavík, reynt að stela síma með því að klippa víra af farsíma, en horfið frá þegar starfsmaður kom að honum og síðar sama dag komið í sömu verslun og stolið tveimur farsímum af gerðinni Samsung Galaxy S4, samtals að verðmæti kr. 125.500.
Mál nr. 007-2014-[...]“
Er þetta talið varða við 244. gr. og 244., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2. „Á hendur ákærða Y fyrir þjófnað í félagi við X og til vara hylmingu, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 21. nóvember 2013 í félagi brotist inn í verslun Nýherja Borgartúni 37 í Reykjavík með því að spenna upp rennihurð og stolið þaðan 4 linsum af gerðinni Canon og ljósmyndavél af gerðinni Canon EOS-1D að verðmæti kr. 800.000-, en hluti þýfisins fannst í bakpoka fyrir aftan sófa eftir leit lögreglu þann 22. nóvember að dvalarstað ákærða og X að [...] í [...], og þannig haldið munum ólöglega frá eiganda sínum fram til þess dags.
Mál nr. 007-2013-[...]“
Er þetta talið varða við 244. gr. og til vara við 254. gr. laga nr. 19/1940.
3. „Á hendur ákærða Y fyrir þjófnað í félagi við Z og Þ, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 13. febrúar 2014, brotist inn í verslunina Samsungsetrið/Bræðurnir Ormsson, Síðumúla 9 í Reykjavík, með því að brjóta glugga á versluninni og stolið þaðan 4 fartölvum af gerðinni Samsung og 4 spjaldtölvum af gerðinni Samung Galaxy, samtals að verðmæti 969.900,- með því að ákærði Y og Z brutu rúðu í versluninni, Z fór inn í verslunina en ákærði Y tók við munum og ákærði Þ beið í bifreiðinni [...] og ók með ákærðu og þýfið burt af vettvangi, en bifreiðinni [...] hafði verið stolið fyrr um nóttina frá bílasölunni Bilson, Klettshálsi 9 í Reykjavík, sbr. ákæruliður nr. 5 og mál nr. 007-2014-[...].
Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]“
Er þetta talið varða við 244. gr. laga nr. 19/1940.
4. „Á hendur ákærða Y fyrir þjófnað í félagi við Æ og til vara hylmingu, með því að hafa sunnudaginn 27. október 2013 í verslun Húsasmiðjunnar, Vínlandsleið í Reykjavík stolið 2 kúbeinum, exi og sleggju, samtals að verðmæti kr. 50.533,- en munirnir fundust í bifreiðinni [...], við [...] í [...] þar sem lögregla hafði afskipti af ákærða og Æ, sbr. mál lögreglu nr. 033-2013-[...] og þannig haldið munum frá réttum eiganda vitandi um að þýfi væri að ræða fram til 29. október 2013, eftir að lögregla fann munina við leit.
Mál lögreglu nr. 007-2013-[...] og 033-2013-[...]“
Er þetta talið varða við 244. gr. laga nr. 19/1940 og til vara við 254. gr. sömu laga.
5. „Á hendur ákærða Y fyrir þjófnað og nytjastuld, aðfaranótt fimmtudagsins 13. febrúar 2014 frá bílasölunni Bilson, Klettshálsi 9 í Reykjavík, stolið lyklum af bifreiðunum [...] og [...], með því ná lyklum úr bréfalúgu bifreiðarsölunnar, en bifreiðinni [...], fannst skammt frá Múrbúðinni Klettshálsi 7 sama dag, en bifreiðin hafði verið notuð af ákærða Y sömu nótt, en bifreiðin [...] var notuð af ákærða og meðákærðu í þjófnaði sömu nótt, sbr. ákæruliður nr. 3, sbr. mál nr. 007-2014-[...] en bifreiðin fannst svo 15. febrúar 2014 við Safamýri 65 í Reykjavík.
Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]“
Er þetta talið varða við 244. gr. og laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 259. gr. sömu laga.
6. „Á hendur ákærða Y fyrir nytjastuld, skjalabrot og hylmingu, með því að hafa á tímabilinu 19-20. nóvember 2013 tekið bifreiðina [...], BMW bifreið, heimildarlaust frá bílasölunni Eðalbílar Fosshálsi 9 Reykjavík, en bifreiðin var tilkynnt stolin 20. nóvember 2013, en bifreiðin fannst á skráningarmerkjunum [...], sem tilkynnt höfðu verið stolin 21. nóvember, en bifreiðin fannst fyrir utan [...], og kveikjuláslyklarnir á dvalarstað ákærða og X, [...] eftir leit lögreglu, sbr. ákæruliður nr. 2, mál lögreglu nr. 007-2013-[...].
Mál nr. 007-2013-[...], og [...]“
Er þetta talið varða 1. mgr. 259., 157. og 254. gr. laga nr. 19/1940.
7. „Á hendur ákærða Y fyrir fíkniefnalagabrot, og fyrir nytjastuld og skjalabrot í félagi við Ö með því að hafa miðvikudaginn 15. janúar 2014 á bifreiðinni [...], sem var á röngum skráningarmerkjum, [...], en bifreiðin [...] var tilkynnt stolin til lögreglu 13. janúar sl., frá Stóru Bílasölunni Klettshálsi 2 í Reykjavík, en kveikjuáslyklum hafði verið stolið af bílasölunni gegnum bréfalúga, en skráningarmerkin [...] voru tilkynnt stolin til lögreglu 31. desember 2013 af bifreiðinni við bílasölu Bílalands Klettshálsi 2 í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013-[...], sem ákærði Y hafði komist yfir en Ö ók bifreiðinni vestur [...] við [...] í [...], þar sem lögregla hafði afskipti ákærða Y og Ö, jafnframt á sama tíma haft í vörslum sínum 2,29 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit á ákærða Y á lögreglustöðinni að Hverfisgötu í Reykjavík.
Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]“
Er þetta talið varða við 157. gr. og 1. mgr. 259. gr. laga 19/1940 og við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/ 2002.
8. „Á hendur ákærða Y fyrir þjófnað, og til vara hylmingu, líkamsárás og hótun, með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 31. desember 2013 brotist inn í húsnæði MOOD förðunarskóla að Ármúla 17a í Reykjavík, með því að spenna upp útidyrahurð og stolið einni fartölvu af gerðinni Macbook hvíta að lit, en öryggisvörðurinn A kom að ákærða utandyra en ákærði sló A með hamri í bringuna og hótaði að drepa hann og var þetta til þess fallið hjá vekja hjá A ótta um líf sitt og velferð, en fartölvan fannst 15. janúar 2014 eftir leit lögreglu að dvalarstað ákærða og meðákærðu að [...] 15. janúar og þannig haldið fartölvunni frá eiganda sínum fram til þess dags.
Mál lögreglu nr. 007-2013-[...]“
Er þetta talið varða við 244., 233., 217. gr. og til vara 254., laga nr. 19/1940.
II.
„Á hendur ákærða Y fyrir gripdeild og skjalabrot, með því að hafa dælt eldsneyti á bensínstöðvum Olís á höfuðborgarsvæðinu á neðangreindar bifreiðar með röngum skráningarnúmerum, samtals að verðmætis 65.703 krónur og ekið á brott án þess að greiða fyrir svo sem hér greinir:
M. 007-2014-[...]
9. Að kvöldi laugardagsins 2. nóvember 2013, við bensínstöð Olís við Hafnarfjarðaveg í Garðabæ dælt eldsneyti að andvirði kr. 11.687,- á bifreiðina [...], ljósgrá Renault Clio bifreið og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, en bifreiðin var á röngum skráningarmerkjum [...], sem ákærði hafði stolið sbr. ákæruliður í I. 5.
10. Þriðjudaginn 22. nóvember 2013, við bensínstöð Olís við Norðlingabraut 7, Norðlingaholti í Reykjavík, dælt eldsneyti að andvirði kr. 6.000,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, á röngum skráningarmerkjunum [...], sem ákærði hafði komist yfir, en skráningarmerkin voru tilkynnt stolin 18. nóvember 2013 til lögreglu af bifreiðinni [...] frá bifreiðastæði við Árbæjarsafn í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013- [...], en skráningarmerkin fundust 31. desember 2013 undir bifreið að bílasölunni Bílaland Klettshálsi.
11. Mánudaginn 25. nóvember 2013, við bensínstöð Olís Sæbraut/Kleppsvegi Sundagörðum 2 í Reykjavík, dælt eldsneyti að andvirði kr. 7.999,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, en bifreiðin var á röngum skráningarmerkjum [...], sem ákærði hafði komist yfir, en skráningarmerkin voru tilkynnt stolin 18. nóvember 2013 til lögreglu af bifreiðinni [...] frá bifreiðastæði við Árbæjarsafn í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013- [...], en skráningarmerkin fundust 31. desember 2013 undir bifreið að bílasölunni Bílaland Klettshálsi.
12. Fimmtudaginn 28. nóvember 2013, við bensínstöð Olís við Hafnarfjarðaveg í Garðabæ dælt eldsneyti að andvirði kr. 8.007,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, á röngum skráningarmerkjum [...] sem ákærði hafði komist yfir, en skráningarmerkin voru tilkynnt stolin 18. nóvember 2013 til lögreglu af bifreiðinni [...] frá bifreiðastæði við Árbæjarsafn í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013- [...], en skráningarmerkin fundust 31. desember 2013 undir bifreið að bílasölunni Bílaland Klettshálsi.
13. Að kvöldi föstudagsins 6. desember 2013 við bensínstöð Olís, Álfheimum 49 í Reykjavík, dælt eldsneyti að andvirði kr. 10.001,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, á röngum skráningarmerkjum [...], sem ákærði hafði komist yfir, en skráningarmerkin voru tilkynnt stolin 18. nóvember 2013 til lögreglu af bifreiðinni [...] frá bifreiðastæði við Árbæjarsafn í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013- [...], en skráningarmerkin fundust 31. desember 2013 undir bifreið að bílasölunni Bílaland Klettshálsi.
14. Þriðjudaginn 10. desember 2013, dælt eldsneyti að andvirði kr. 9.000 á rauða Volkswagen bifreið, og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, en bifreiðin var á röngum skráningarmerkjunum [...], sem ákærði hafði komist yfir, en skráningarmerkin voru tilkynnt stolin 18. nóvember 2013 til lögreglu af bifreiðinni [...] frá bifreiðastæði við Árbæjarsafn í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013- [...], en skráningarmerkin fundust 31. desember 2013 undir bifreið að bílasölunni Bílaland Klettshálsi.
15. Sunnudaginn 22. desember 2013 við bensínstöð Olís, Klöpp Skúlagötu í Reykjavík, dælt eldsneyti að andvirði kr. 7.000,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, á röngum skráningarmerkjunum [...], sem ákærði hafði komist yfir, en skráningarmerkin voru tilkynnt stolin 31. desember 2013 til lögreglu af bifreiðinni við bílasölu Bílalands Klettshálsi 2 í í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013-[...], en skráningarmerkin [...] fundust sama dag undir bifreið að bílasölunni Bílalandi Klettshálsi.
16. Laugardaginn 28. desember 2013 við bensínstöð Olís, Gullinbrú í Reykjavík, dælt eldsneyti að andvirði kr. 6.000,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið, á röngum skráningarmerkjunum [...], sem ákærði hafði komist yfir, en skráningarmerkin [...] voru tilkynnt stolin 31. desember 2013 til lögreglu af bifreiðinni við bílasölu Bílalands Klettshálsi 2 í Reykjavík, sbr. mál lögreglu nr. 007-2013-[...], en skráningarmerkin [...] fundust sama dag undir bifreið á sömu bílasölu.“
Er þetta talið varða við 245. gr. og 1. mgr. 157. gr. laga nr. 19/1940.
III.
„Á hendur ákærða Y:
17. Fyrir þjófnað, nytjastuld, skjala- og umferðarlagabrot, með því að hafa á tímabilinu frá aðfaranótt miðvikudagsins 11. desember til 12. desember við Bílasölu Bernhard að Eirarhöfða 11 í Reykjavík, stolið þaðan kveikjuáslyklum af bifreiðinni [...], með því að spenna upp glugga, og sett skráningarmerkin [...], sem ákærði hafði komist yfir á bifreiðina [...], en skráningarmerkin [...] voru tilkynnt stolin til lögreglu af bifreið við Bílasölu Íslands Skógarhlíð þann 13. desember 2013 (mál 007-2013-[...]), en bifreiðinni [...] með röngum skráningarmerkjum var ekið vestur Vesturlandsveg við Höfðabakka í Reykjavík aftan á [...] þann 18. desember með þeim afleiðingum að bifreiðin [...], snerist á veginum og hafnaði utan í vegg, en ákærði ók burt af vettvangi án þess að sinna lögboðnum skyldum sínum, en bifeiðin fannst skömmu síðar að bifreiðastæði við Hlöllabáta að Bíldshöfða, en ákærði hafði yfirgefið bifreiðina, en í bifreiðinni fannst sími ákærða.
Mál nr. 007-2013-[...] og mál nr. 007-2013-[...]“
Er þetta talið varða við 244., 1 .mgr. 157. gr., og 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
18. „Fyrir þjófnað og nytjastuld, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 6. janúar 2014 við bílasöluna Bílaland Klettshálsi 11 í Reykjavík, stolið kveikjuáslyklunum af bifreiðinni [...] með því að ná þeim í gegnum bréfalúgu bílasölunnar og kjölfarið tekið heimildarlaust sömu bifreið, en bifreiðin fannst svo við Árbæjarapótek 7. janúar 2014.
Mál nr. 007-2014-[...]
Er þetta talið varða við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940.
19. Fyrir þjófnað og nytjastuld og til vara fyrir hylmingu, með því að hafa þriðjudaginn 24. desember 2013 á bílasölunni Bílahöllinni Bíldshöfða 5 í Reykjavík stolið kveikjuáslyklum af bifreiðinni [...], sem lágu undir mottu innandyra með því spenna upp glugga og tekið bifreiðina heimildarlaust í kjölfarið, en bifreiðin fannst svo 26. desember fyrir utan Max Bíldshöfða 5a án kveikjuáslykla, en lögregla fann kveikjuáslykla ásamt skráningarskírteini, eftir leit 15. janúar 2014 að dvalarstað ákærða [...] í úlpu í eigu ákærða og kommóðu, sem ákærði geymdi muni sína og þannig haldið mununum ólöglega frá eiganda sínum fram til fram til 15. janúar 2014 þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að um þýfi var að ræða,
Mál nr. 007-2013-[...]“
Er þetta talið varða við 244., til vara við 254. gr. 1. mgr. 259. gr. og laga nr. 19/1940
20. „Fyrir þjófnað og skjalabrot, með því að hafa á tímabilinu frá byrjun nóvember til 3. nóvember 2013 stolið skráningarmerkjunum [...] af bifreiðinni MMC Galant á bifreiðastæði við Gylfaflöt í Grafarvogi í Reykjavík og sett þau á bifreiðina [...] sem var í eigu ákærða, en lögregla hafði afskipti af ákærða og bifeiðinni 5. nóvember fyrir utan Grasarima 7 í Reykjavík, en tilkynntur var þjófnaður til lögreglu á skráningarmerkjunum [...] þann 3. nóv. sl. sbr. 007-2013-[...].
Mál nr. 007-2013-[...]( -[...])“
Er þetta talið varða við 244. gr. og 1. mgr. 157. gr. laga nr. 19/1940.
IV.
„Á hendur ákærða Y fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa:
21. Aðfaranótt mánudagsins 10. febrúar 2014, ekið bifreiðinni [...] við Þingmannaleið á móts við Vallarkór í Kópavogi undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna henni örugglega, (amfetamín í blóði 340 ng/ml), þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Mál. 007-2014-[...]
22. Að kvöldi miðvikudagsins 12. febrúar 2014, ekið bifreiðinni [...] við Goðheima í Reykjavík undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna henni örugglega (amfetamín í blóði 455 ng/ml), þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
M. 007-2014-[...]“
Eru brotin í ákærulið IV. 21 og 22 talin varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
V.
23. „Á hendur ákærða Y fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 1. febrúar 2014 utandyra við veitingastaðinn Parka Hverfisgötu 20 í Reykjavík haft í vörslum sínum 1,13 g af amfetamíni sem lögregla fann í veski ákærða.
M. 007-2014-[...]“
Er þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
Er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og jafnframt að 3,42 g af amfetamíni, sem hald var lagt á, verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001 og að ákærða Y verði gert að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006.
Í málinu gerir Olís þá kröfu að ákærða, Y, verði gert að greiða skaðabætur, að fjárhæð 65.673 krónur auk vaxta, samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá tjónsdögum, 2., 22., 25., 28. nóvember, 6., 10., 22., og 28. desember 2013, þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en eftir það dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Y, játar sök skv. 1., 21., 22 og 23. tl. ákæru. Að öðru leyti neitar ákærði sök samkvæmt ákæru. Af hálfu verjanda er krafist sýknu af þeim ákæruefnum er ákærði neitar sök. Að öðru leyti er krafist vægustu refsingar er lög leyfa og málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði, Z, neitar sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Ákærði, Þ, neitar sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Ákærða, X, neitar sök. Af hálfu verjanda er krafist sýknu og að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði.
Ákærði, Y, játar sök skv. 1., 21., 22 og 23. tl. ákæru. Með hliðsjón af þeirri játningu hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður ákærði sakfelldur skv. þeim töluliðum ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Að því er 20. tl. varðar hefur ákæruvald fallið frá ákæru fyrir þjófnað en miðar við að um skjalabrot sé að ræða. Ákærði hefur játað að hafa ekið bifreiðinni MMC Galant, án skráningarmerkja, skv. þessum tölulið. Miðað við játninguna gat ákærða ekki dulist að um skjalabrot var að ræða. Verður hann því sakfelldur fyrir skjalabrot samkvæmt 1. mgr. 157. gr. laga nr. 19/1940.
Framburðir ákærðu og vitna hér í dómi verða raktir eftir því sem þörf er á hverju sinni fyrir niðurstöðu um einstaka ákæruliði.
2. tl. ákæru.
Aðfaranótt fimmtudagsins 21. nóvember 2013, kl. 02.48, fékk lögregla tilkynningu um innbrot í verslun Nýherja við Borgartún 37 í Reykjavík. Er lögregla kom á vettvang var rætt við öryggisvörð sem bar að kl. 02.44 hefðu komið boð frá öryggiskerfi verslunarinnar um innbrot. Hafi öryggisvörðurinn verið kominn á vettvang kl. 02.46. Teknar hafi verið myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar. Þar hafi mátt sjá tvo menn með grímur fyrir andliti og hettur á höfði. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá sama degi hafði lögregla undir höndum vísbendingar um að BMW bifreið hefði sést í nágrenni innbrotsins kvöldið áður. Við [...] í Reykjavík hafi fundist ljós BMW bifreið með skráningarnúmerið [...]. Búið hafi verið að setja á bifreiðina skráningarnúmerið [...].
Að fenginni húsleitarheimild hafi verið framkvæmd húsleit á heimili ákærðu, X, að [...], en vitað hafi verið til þess að ákærði, Y, byggi heima hjá henni. Ákærða, X, hafi verið á heimili sínu, en ákærði, Y, fjarverandi. Við húsleitina hafi fundist kveikjuláslyklar að bifreiðinni [...]. Þá hafi við húsleitina fundist, á bak við sófa, taska og í henni myndavél sem stolið hafi verið í innbrotinu í Nýherja. Einnig hafi verið í töskunni linsur sem teknar hafi verið í sama innbroti. Þá hafi verið lagt hald á tölvu af gerðinni Apple og HP fartölvu, en grunur hafi leikið á að um þýfi væri að ræða. Í skýrslunni kemur fram að við húsleitina hafi ákærða, X, verið klædd í svarta hettupeysu með hvítum stöfum framan á með nafninu ,,Element“. Er tekið fram að annar hinna grunuðu úr innbrotinu í Nýherja hafi verið klæddur í samskonar peysu samkvæmt myndum úr öryggismyndavélakerfi. Þá er þess getið að samkvæmt upptökum úr kerfinu hafi annar aðili í innbrotinu verið fremur lágvaxinn. Ákærða sé 167 cm á hæð. Hinn aðilinn hafi verið mun hærri.
Ákærði, Y, hefur skýrt svo frá að meðákærða, X, hafi leyft ákærða að dvelja heima hjá sér að [...]. Einhverjir menn hafi komið á heimilið að kvöldi til og verið með bakpoka með sér sem þeir hafi skilið eftir. Ákærði kvaðst í framhaldi hafa farið til Hafnarfjarðar og meðákærða verið handtekin af lögreglu á meðan. Ákærði kvaðst ekki vilja tjá sig um hvaða menn hafi komið með töskuna á heimili meðákærðu.
Ákærða, X, kvað meðákærða, Y, hafa dvalið heima hjá sér um þessar mundir. Hafi ákærði gist á sófa í stofunni. Á þessum tíma hafi ákærða verið í óreglu. Hún hafi ekki vitað hverjir hafi komið á heimili hennar aðfaranótt fimmtudagsins 21. nóvember og hún hafi ekki vitað um tösku í íbúðinni er lögregla hafi lagt hald á við húsleit. Peysuna sem hún var í við handtöku kvaðst hún ekki vita hver hafi átt en hún hafi legið í sófa í stofunni og hún gripið hana.
Niðurstaða:
Ákærðu neita bæði sök. Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að þýfi úr innbrotinu í Nýherja fannst á heimili ákærðu, X. Á þeim tíma dvaldi ákærði, Y, á staðnum. Ákærði, Y, hefur ekki getað bent á hverjir hafi komið með töskuna á heimilið. Við húsleitina fundust á heimili ákærðu kveikjuláslyklar að bifreið með skráningarnúmerið [...]. Bifreiðin fannst skammt frá [...], en skipt hafði verið um númer og á hana sett skráningarnúmerið [...]. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafði umrædd bifreið sést í nágrenni við innbrotsstaðinn. Á myndskeiði úr eftirlitsmyndavélakerfi Nýherja má sjá einn innbrotsþjóf í svartri hettupeysu með hvíta stafi framan á peysunni. Samkvæmt staðhæfingu lögreglu er um álíka peysu að ræða og ákærða, X, var í er lögregla framkvæmdi húsleit á heimili hennar. Þegar til þessara atriða er litið er að mati dómsins hafið yfir allan vafa að ákærðu hafi í félagi brotist inn í verslun Nýherja að Borgartúni 37, aðfaranótt fimmtudagsins 21. nóvember 2013. Verða þau sakfelld samkvæmt þessum lið ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða.
3., 5. og 6. tl. ákæru.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt fimmtudagsins 13. febrúar 2014 kl. 05.13 fékk lögregla þá nótt tilkynningu um innbrot í verslunina Bræðurna Ormsson að Síðumúla 9 í Reykjavík. Fram kemur að öryggisvörður hafi tjáð lögreglu á vettvangi að öryggiskerfi verslunarinnar hafi farið af stað kl. 05.02 og vörðurinn komið á vettvang kl. 05.14. Þá kemur fram að á myndum úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar hafi mátt sjá dökka bifreið af gerðinni Passat stöðva fyrir utan verslunina. Tveir aðilar hafi komið út, ökumaður og farþegi.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá fimmtudeginum 13. febrúar 2014 barst lögreglu tilkynning um innbrot frá bifreiðaverkstæðinu Bílson að Kletthálsi 9 í Reykjavík. Er lögregla mætti á staðinn hafði hún tal af eiganda bifreiðaverkstæðisins sem greindi lögreglu frá því að kveikjuláslyklum að bifreið með skráningarnúmerið [...] hafi verið stolið úr lyklageymslu við hægri hlið inngangs að verkstæðinu. Bifreiðin hafi verið tekin í kjölfarið. Hafi eigandi verkstæðisins tekið eftir þessu er hann hafi komið til vinnu kl. 08.00 að morgni fimmtudagsins. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 15. febrúar 2014 fór lögregla þann dag kl. 18.20 með ákærða, Z, að Síðumúla 9 en ákærði vildi benda lögreglu á bifreiðina og væri hún þar í nágrenninu. Fram kemur að lögregla hafi fundið bifreiðina við hús nr. 65 við Síðumúla.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 14. febrúar 2014 fékk lögregla myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfi bifreiðaverkstæðisins Bílson til meðferðar. Á myndskeiðum megi sjá hvar tveim settum af lyklum sé stolið. Séu bifreiðar fyrir utan verkstæðið teknar ófrjálsri hendi í kjölfarið. Fyrra tilvikið hafi verið kl. 03.23 en þá hafi bifreið með skráningarnúmerið [...] verið stolið. Klukkan 04.32 hafi síðari bifreiðinni verið stolið, en um sé að ræða svarta bifreið, Passat, með númerið [...]. Fram kemur að lögreglumaður hafi getað greint á myndskeiði að ákærði, Y, hafi verið að verki. Fyrri bifreiðin hafi verið af gerðinni Audi. Á myndskeiði sem sýndi er síðari bifreiðin var tekin hafi mátt sjá viðkomandi drekka úr kókflösku. Lögreglumaður hafi fengið að skoða myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi Olís við Norðlingaholt. Kl. 03.58 hafi mátt sjá ákærða, Y, koma á bifreið með skráningarnúmerið [...], en um hafi verið að ræða Hyundai Accent. Greina hafi mátt er ákærði fór inn í verslunina og hafi hann m.a. keypt kók í flöskum. Einnig hafi hann keypt tvenn pör af hönskum. Með ákærða hafi verið maður sem þekkja hafi mátt af myndum sem annan tveggja er tekið hafi lykla á bifreiðaverkstæðinu Bílson. Á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél af innbroti við verslunina Bræðurnir Ormsson hafi mátt greina að bifreið, svört að lit, með skráningarnúmerið [...] hafi verið notuð við innbrotið.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 14. janúar 2014 fann lögregla bifreið með skráningarnúmerið [...], af gerðinni BMW, við [...] í Reykjavík. Fram kemur að búið hafi verið að setja skráningarnúmerið [...] á bifreiðina. Kveikjuláslyklar bifreiðarinnar hafi fundist við húsleit á heimili ákærðu, X og Y, að [...]. Hafi lyklarnir verið í kommóðu í anddyri. Skráningarnúmerin [...] hafi verið tilkynnt stolin af Bílasölu Íslands, 21. nóvember 2013.
Teknar voru skýrslur af ákærðu við rannsókn málsins. Við skýrslugjöf, 15. febrúar 2014, greindi ákærði, Z, frá því að meðákærðu hafi að kvöldi miðvikudagsins 13. febrúar 2014 sótt ákærða þar sem hann hafi verið staddur í Kópavogi. Meðákærði, Y, hafi ekið bifreið sem þeir hafi verið á og ekið að Norðlingaholti þar sem farið hafi verið inn í verslun Olís. Meðákærði, Y, hafi m.a. keypt kók og hanska. Eftir það hafi hann ekið bifreiðinni upp á Höfða þar sem meðákærði, Y, hafi yfirgefið bifreiðina. Hafi hann sagt meðákærðu að hitta sig í Skeifunni. Þangað hafi meðákærði, Y, komið á sportbíl. Meðákærðu, Y og Þ, hafi farið í burtu á sportbílnum og ákærði beðið á staðnum. Meðákærði, Y, hafi komið til baka á svartri bifreið af Passat gerð, sem ákærði hafi farið inn í. Inni í bifreiðinni hafi ákærða verið réttir hanskar.
Þeir tveir hafi hitt meðákærða, Þ, á öðrum stað og ekið um í nágrenni við verslun Bræðranna Ormssons í dágóða stund. Meðákærði, Y, hafi verið að leita að grjóthnullungi og fundið einn slíkan. Hafi ákærði tekið hnullunginn upp og farið með hann inn í bifreiðina. Meðákærði, Y, hafi síðan ákveðið að fara í aftursæti bifreiðarinnar. Meðákærði, Þ, hafi þá tekið við akstrinum. Þeir hafi ekið bifreiðinni fyrir framan verslunina í Síðumúla og reynt að henda grjóthnullunginum í gegnum rúðuna. Hafi það að lokum tekist. Hafi ákærði stokkið inn í verslunina. Þar hafi hann tekið varning sem hann hafi rétt meðákærða út um brotinn gluggann. Að því loknu hafi ákærði stokkið út og þeir allir ekið á brott. Er þeir hafi verið staddir rétt hjá Kringlunni hafi þeir ákveðið að taka leigubifreið þaðan. Þeir hafi tekið leigubifreið inn í Kópavog þar sem þeir hafi farið úr henni.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 16. febrúar 2014, hafði lögregla samband við Hreyfil-Bæjarleiðir til að grennslast fyrir um hvort einhverjir hefðu tekið leigubifreið frá Kringlunni upp í Kópavog aðfaranótt fimmtudagsins 13. febrúar 2014. Fram kom staðfesting bifreiðastjóra sem kvaðst hafa ekið þrem karlmönnum, frá Kringlunni upp í [...] í Kópavogi, þessa nótt. Við athugun á bifreiðastöðinni hafi komið í ljós að þegar leigubifreiðin hafi verið pöntuð að Kringlunni hafi verið hringt úr síma með númerið [...]. Samkvæmt upplýsingum úr kerfi lögreglu væri ákærði, Y, skráður fyrir númerinu.
Ákærðu neita allir sök fyrir dóminum. Ákærðu, Y og Þ, kváðust ekki hafa farið í umrætt innbrot. Fyrir dóminum kvaðst ákærði, Z, ekki muna eftir atvikum umrætt sinn. Hafi hann verið í mikilli neyslu á þeim tíma. Kvaðst hann hvorki geta játað eða neitað því er fram kæmi í lögregluskýrslu. Myndi hann atvikin ekki í dag.
Niðurstaða:
Ákærðu neita allir sök. Þegar innbrot í verslunina, Bræðurna Ormsson við Síðumúla, var tilkynnt fór af stað lögreglurannsókn sem síðar leiddi til handtöku ákærðu. Eftir að tilkynning barst um að tvær bifreiðar hefðu verið teknar við verkstæðið Bílson við Klettháls 9, voru málin tvö tengd saman. Árvökull lögreglumaður greindi á mynd úr eftirlitsmyndavélakerfi við verkstæðið Bílson að annar þeirra er stóðu að töku á bifreiðunum drakk kók úr flösku. Eftir að hafa kynnt sér myndavélakerfi Olís við Norðlingaholt frá sama kvöldi mátti greina ákærða, Y, þar kominn ásamt öðrum.
Í innbrotinu í Síðumúla notuðust þjófarnir við dökka Passat bifreið. Var það sú bifreið sem tekin var í síðara skiptið við verkstæðið Bílson. Ákærði, Z, viðurkenndi síðan verknaðinn við skýrslugjöf hjá lögreglu og greindi frá atvikum á þann hátt að samrýmdist þeim upplýsingum er lögregla hafði komist yfir varðandi innbrotið. Gat ákærði, Z, bent á bifreiðina [...] við Síðumúla í Reykjavík.
Þegar þessi atvik málsins eru virt er að mati dómsins hafið yfir allan vafa að ákærðu hafi í félagi brotist inn í verslunina Bræðurna Ormsson að Síðumúla 9, aðfaranótt fimmtudagsins 13. febrúar 2014 og stolið þaðan varningi samkvæmt ákæru. Jafnframt er sannað að ákærði, Y, hafi sömu nótt stolið lyklum að bifreiðunum [...] og [...] úr bréfalúgu bifreiðaverkstæðisins Bílson að Kletthálsi 9 og ekið bifreiðinni [...] frá verkstæðinu að Múrbúðinni Kletthálsi 9 og bifreiðinni [...] um Reykjavík, að og frá innbrotsstað að Síðumúla 9. Með hliðsjón af þessu verða ákærðu allir sakfelldir skv. 3. tl. ákæru og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Jafnframt verður ákærði, Y, sakfelldur skv. 5. og 6. tl. ákæru og er sú háttsemi rétt heimfærð til refsiákvæða.
4. tl. ákæru.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá sunnudeginum 27. október 2013, kl. 13.56, fékk lögregla þann dag tilkynningu um þjófnað í verslun Húsasmiðjunnar á Vínlandsleið í Reykjavík. Er lögregla kom á staðinn ræddi hún við verslunarstjóra sem kvaðst fyrir tilviljun hafa verið að aka fram hjá versluninni þegar hann hafi séð hurð á timbursölu opna, en timbursalan hafi átt að vera lokuð þar sem um sunnudag var að ræða. Hafi hann því ákveðið að kanna hverju það sætti. Á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfi hafi hann séð bifreið hringspóla fyrir utan verslunina. Því næst hafi mátt sjá mann koma út úr timburafgreiðslunni með sleggju, kúbein og boltaklippur. Maðurinn hafi áður gengið úr versluninni yfir í timburafgreiðsluna og opnað þar hurð. Hann hafi farið inn í umrædda bifreið og henni verið ekið á brott. Samkvæmt skýrslu lögreglu var um að ræða hvíta Subaru Impressa eða Kio Rio bifreið.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Selfossi frá 29. október 2013, kl. 02.22, fékk lögregla þá nótt tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir við Eyjahraun í Þorlákshöfn. Fram kemur að á Hafnarbergi á móts við Norðurbryggju hafi lögregla stöðvað för bifreiðar með skráningarnúmerið [...]. Við athugun lögreglu hafi komið í ljós að umrætt skráningarnúmer hafi verið tilkynnt glatað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, 26. október 2013. Í skotti bifreiðarinnar hafi verið sleggja, öxi og boltaklippur, er tilkynnt hafi verið stolið 27. október 2013 í verslun Húsasmiðjunnar að Vínlandsleið. Þá hafi verið í skotti bifreiðarinnar, skráningarnúmerið [...]. Einnig hafi verið í bifreiðinni búnaður líkt og andlitsgríma, höfuðljós, vasaljós og kúbein. Ákærði, Y, og Æ, hafi verið í bifreiðinni, ásamt X. Ákærði, ásamt öðrum í bifreiðinni var handtekinn og þau færð á lögreglustöð. Við athugun á verksmiðjunúmeri bifreiðarinnar hafi komið í ljós að bifreið sú sem um ræddi hafi átt að vera á skráningarnúmerinu [...].
Niðurstaða:
Ákærði neitaði sök við aðalmeðferð málsins. Þá kvaðst Æ ekki kannast við innbrot í verslun Húsasmiðjunnar við Vínlandsleið. Í máli þessu liggur fyrir að þeir munir sem teknir voru í innbroti í Húsasmiðjuna fundust í bifreið er ákærði var í er hann var handtekinn á Selfossi. Ekki er unnt að greina á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélakerfi Húsasmiðjunnar hvort ákærði sé á ferð í innbrotinu. Með hliðsjón af neitun ákærða á sök er ekki komin fram lögfull sönnun um sekt hans að því er þjófnað varðar og verður hann því sýknaður af því ákæruefni skv. 4. tl. ákæru. Er lögreglumenn handtóku ákærða og samferðafólk hans voru í bifreiðinni ýmsir munir sem augljóslega voru ætlaðir til innbrota. Lögreglumenn sem handtóku ákærða staðfestu þetta og kváðu að í tilkynningu til lögreglu hafi komið fram að mjög grunsamlegir menn væru á ferli í Þorlákshöfn með búnað sem gaf slíkt eindregið til kynna. Í málinu liggur fyrir að þýfi úr verslun Húsasmiðjunnar við Vínlandsleið var í bifreið er ákærði var farþegi í. Gat honum ekki dulist að um þýfi var að ræða. Verður ákærði sakfelldur fyrir hylmingu. Er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða að því er þennan ákærulið varðar.
7. tl. ákæru.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 15. janúar 2013 kl. 05.10 var bifreið, með skráningarnúmerið [...], veitt eftirför þar sem henni var ekið vestur Nýbýlaveg í Kópavogi frá Reykjanesbraut. Hafði lögreglu áður verið tilkynnt um þjófnað á umræddum skráningarnúmerum. Umrædd bifreið hafi átt að vera á skráningarnúmerinu [...]. Reyndist ökumaður bifreiðarinnar vera Ö, en ákærði, Y, farþegi í framsæti. Fram kemur að báðir hafi þeir virst undir áhrifum fíkniefna. Hafi þeir verið handteknir af lögreglu. Við leit á ákærða, Y, hafi fundist efni sem grunur lék á að væri amfetamín. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu reyndist vera um amfetamín að ræða, 2,29 g að þyngd.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 11. janúar 2014, kl. 16.00, fékk lögregla þann dag tilkynningu um að kveikjuláslyklum að bifreiðinni [...] hafi verið stolið í gegnum bréfalúgu á Stóru Bílasölunni við Klettháls 2 í Reykjavík. Fram kemur að bílasali hafði lagt bifreið með skráningarnúmerið [...] fyrir framan bifreiðina til að ekki væri unnt að aka hinni bifreiðinni. Rúða hafi hins vegar verið brotin í bifreiðinni [...], bifreiðin verið færð úr stað og bifreiðin [...] tekin ófrjálsri hendi í framhaldi.
Er tekin var skýrsla af Ö 15. janúar 2014 kvaðst hann viðurkenna að hafa ekið umræddri bifreið. Hann hafi ekki vitað að bifreiðin hafi verið tekin ófrjálsri hendi og að hún væri á stolnum skráningarnúmerum. Hefði ákærði, Y, ,,örugglega gert það“. Ástæða þess að Ö hafi ekið bifreiðinni hafi verið að hann væri próflaus og hefði ákærði, Y, ekki vilja missa prófið. Fyrir dómi kvaðst Ö hafa svarað lögreglu í skýrslutöku með þeim hætti sem hann gerði þar sem hann hafi verið ,,pirraður“. Hann hafi verið í samkvæmi umrætt sinn og fengið lykla að umræddri bifreið hjá einhverri stelpu. Hafi hann ekki vitað að bifreiðin hafi verið tekin eða á röngum númerum.
Niðurstaða:
Ákærði hefur viðurkennt fíkniefnalagabrot skv. þessum tölulið ákæru. Hann neitar sök að öðru leyti. Við mat á sök er til þess að líta að ákærði hefur áður verið sakfelldur fyrir að hafa tekið bifreiðar ófrjálsri hendi með því að stela lyklum að bifreiðum á bílasölum eða bifreiðaverkstæðum. Eins hefur ákærði verið staðinn að því að færa skráningarnúmer ólöglega á milli bifreiða. Ö lýsti því við handtöku að ákærði bæri ábyrgð á því að Ö hefði ekið bifreið sem væri á röngum skráningarnúmerum og tekin ófrjálsri hendi. Staðhæfing hans fyrir dómi um að ótilgreind stúlka hafi látið hann hafa lykla að bifreiðinni og að hann hafi svarað lögreglu með þessum hætti þar sem hann hafi verið pirraður er ótrúverðug. Verður framburður hans hjá lögreglu lagður til grundvallar niðurstöðu.
Með hliðsjón af öllu framansögðu telur dómurinn hafið yfir vafa að ákærði hafi tekið bifreiðina [...] ófrjálsri hendi, svo sem lýst er í ákæru og ekið henni á skráningarnúmerinu [...], en því númeri var stolið 31. desember 2013. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
8. tl. ákæru.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt 31. desember 2013, kl. 06.00, barst lögreglu tilkynning þá nótt, um innbrot inn í húsnæði MOOD förðunarskóla að Ármúla 17a í Reykjavík. Er lögregla mætti á staðinn var rætt við öryggisvörð á staðnum. Öryggisvörðurinn greindi frá því að innbrotsþjófurinn hafi verið á staðnum er hann mætti á svæðið. Hafi innbrotsþjófurinn slegið til hans með hamri í bringuna og hótað honum lífláti gerði hann eitthvað. Árásarmaðurinn hafi farið á brott í grárri Renault Clio bifreið með skráningarnúmerið [...]. Í frumskýrslu kemur fram að öryggisvörðurinn hafi lýst því að hann fyndi til í bringunni eftir árásina. Á staðinn hafi komið aðili frá förðunarskólanum. Hafi hann lýst því að ekkert hafi verið tekið í innbrotinu annað en gömul fartölva. Samkvæmt skýrslu lögreglu beindist strax grunur að ákærða. Hann væri skráður fyrir ljósgrárri Renault Clio bifreið með skráningarnúmerið [...]. Hafi ákærði verið grunaður um að hafa stolið skráningarmerkjum [...].
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 16. janúar 2014 fór lögregla 15. janúar 2014, kl. 14.40, í húsleit að [...] í [...]. Fram kemur að við húsleitina hafi kveikjuláslyklar að bifreiðinni [...] fundist í vasa á úlpu ákærða. Þá hafi skráningarskírteini þeirrar bifreiðar fundist í kommóðu er X, íbúi að [...] hafi sagt að tilheyrði ákærða. Á staðnum hafi verið lagt hald á fartölvu af gerðinni MacBook sem stolið hafi verið í innbroti í förðunarskóla MOOD að Ármúla 17a.
Niðurstaða:
Ákærði hefur játað vörslu á tölvu skv. ákæru. Hann hefur neitað sök að því er varðar þjófnað, líkamsárás og hótun. Í máli þessu liggur fyrir að innbrotsþjófur í húsnæði förðunarskóla MOOD að Ármúla 17a ók á brott á bifreið í eigu ákærða. Í innbrotinu var tekin fartölva, sem síðar fannst á heimili X og ákærða.
Þegar þau atriði málsins eru virt er komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi brotist inn í húsnæði förðunarskólans og stolið þaðan fartölvu. Ekki liggur fyrir önnur sönnun um líkamsárás og hótanir en staðhæfing öryggisvarðar. Ekkert áverkavottorð liggur frammi í málinu. Gegn neitun ákærða verður ekki talið sannað að hann hafi slegið öryggisvörðinn í bringuna og hótað honum. Verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi. Að öðru leyti verður ákærði sakfelldur skv. þessum ákærulið og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
9-16. tl. ákæru.
Í 9.-16. tl. ákæru er ákærða, Y, gefið að sök gripdeildir og skjalabrot með því að hafa dælt eldsneyti á tilgreindar bifreiðar með röngum skráningarnúmerum, á bensínstöðvum Olís á höfuðborgarsvæðinu, samtals að verðmæti 65.703 krónur og ekið á brott án þess að greiða fyrir. Ákærði neitar sök. Til grundvallar þessum ákæruliðum öllum liggja myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi bensínstöðva. Lögreglumenn er önnuðust rannsókn málsins komu fyrir dóminn og staðfestu að hafa borið kennsl á ákærða á myndunum. Dómurinn hefur haft allar þessar myndir til skoðunar. Er að mati dómsins engum vafa undirorpið að ákærði er á myndum úr eftirlitsmyndavélakerfum að dæla eldsneyti á bifreiðar skv. töluliðum 9., 11., 12., 14., 15. og 16. Fyrir liggur að umræddar bifreiðar voru á röngum skráningarnúmerum. Það gat ákærða ekki dulist. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum töluliðum ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða að því leyti. Að því er 10. tl. varðar eru myndir út eftirlitsmyndavélakerfi mjög óskýrar. Í ljósi neitunar ákærða á sök verður ákærði sýknaður af þessum tölulið ákæru. Að því er 13. tl. varðar eru engar myndir til úr eftirlitsmyndavélakerfi, en fyrir liggur einungis tilkynning starfsmanna um að dælt hafi verið eldsneyti á Renault bifreið, án þess að greitt væri fyrir. Gegn neitun ákærða verður sök ekki talin sönnuð skv. þessum lið.
17. tl. ákæru.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 18. desember 2013, kl. 08.04, var lögreglu tilkynnt um árekstur undir brúnni við Höfðabakka, með akstursleið til vesturs. Er lögregla kom á staðinn kom í ljós að árekstur hafði orðið með bifreiðunum [...], sem ekið hafði aftan á bifreiðina [...]. Tekið er fram að bifreiðin [...] hafi verið á röngum skráningarnúmerum, en á bifreiðinni hafi verið skráningarnúmerið [...]. Samkvæmt framburðum á vettvangi hafi bifreiðunum verið ekið Vesturlandsveg til vesturs. Mikil umferð hafi verið, hiti um frostmark en snjóél, hálka og ísing. Bifreiðin [...] hafi verið óökuhæf. Ökumaður bifreiðarinnar [...] hafi stungið af á bifreiðinni.
Er lögregla hafi verið á vettvangi hafi bílasali á Bíldshöfða 5, tilkynnt lögreglu að brún Honda CRV með skráningarnúmerið [...] væri á bifreiðastæði við Hlöllabáta við Bíldshöfða og að bifreiðin væri mikið skemmd. Hafi bílasalinn séð til manns hlaupa frá bifreiðinni í vestur yfir vegg þar sem hann hafi horfið sjónum. Lögreglumenn hafi kannað með bifreiðina og aftur í henni fundið skráningarnúmerið [...]. Kveikjuláslyklar hafi ekki verið í bifreiðinni, en í henni fundist verkfæri, töng, tveir hamrar og járnkrókur. Rætt hafi verið við skráðan eiganda bifreiðarinnar [...], sem hafi greint lögreglu frá því að skráningarmerkjum bifreiðarinnar hafi verið stolið við Bílasölu Íslands 12. desember 2013. Rætt hafi verið við vitni á vettvangi við Hlöllabáta sem hafi lýst því að maður, um 185 cm á hæð og dökklæddur, hafi hlaupið út úr bifreiðinni [...] við Hlöllabáta. Ekki hafi vitnin greint útlit mannsins nánar. Rætt hafi verið við sölumann hjá Bernhard að Eirhöfða 11. Hafi sölumaðurinn tjáð lögreglu að umrædd bifreið hafi verið í sölu hjá þeim. Hafi starfsmenn ekki verið búnir að uppgötva hvarf bifreiðarinnar er lögregla hringdi. Starfsmenn hafi þó tekið eftir því í vikunni á undan að gluggi á bílasölunni hafði verið spenntur upp þannig að viðkomandi hefði getað náð í kveikjuláslykla sem verið hafi rétt fyrir innan gluggann. Bifreiðin [...] var færð í aðstöðu lögreglu til frekari rannsóknar. Fram kemur að farsími hafi fundist í hanskahólfi bifreiðarinnar með símakorti með farsímanúmerinu [...].
Tekin var lögregluskýrsla af ákærða 15. janúar 2014. Við það tilefni var hann spurður að því hvort hann kannaðist við síma er fundist hefði í bifreiðinni [...]. Ákærði kvaðst ekki kannast við fyrrnefnt símanúmer sem hafi verið í símanum en símann sjálfan ætti ákærði. Hafi ákærði notað símann en látið hann frá sér fyrir löngu.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa verið ökumaður bifreiðarinnar [...] 18. desember 2013. Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að sími ákærða fannst í umræddri bifreið. Þá hafa sjónarvottar lýst ökumanni bifreiðarinnar sem manni um 185 cm á hæð. Er það nærri hæð ákærða. Ákærði hefur og á svipuðum tíma verið staðinn að því að taka skráningarnúmer af bifreiðum og setja ólöglega á aðrar bifreiðar. Loks er hliðsjón höfð af því að ákærði hefur verið staðinn að því að stela kveikjuláslyklum bifreiða af verkstæðum og bílasölum með því að veiða þá upp í gegnum bréfalúgur eða ná þeim í gegnum opna glugga. Í málinu liggur fyrir að kveikjuláslyklum bifreiðarinnar [...] var stolið með þeim hætti. Þegar þessi atvik málsins eru virt er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið það brot sem um getur í 17. tl. ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
18. tl. ákæru.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var 6. janúar 2014 tilkynnt um innbrot í bílasöluna Bílaland Kletthálsi 11 í Reykjavík. Tilkynnandi mætti á lögreglustöð og lét í té myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavélakerfi við bílasöluna. Af myndskeiðum sést þar sem einstaklingur kemur á ljósgrárri Renault Clio bifreið með skráningarnúmerið [...]. Viðkomandi beygir sig niður við hurð eða glugga bílasölunnar og teygir sig inn eftir kveikjuláslyklum. Er um karlmann að ræða, klæddan í dökkan fatnað. Í tilkynningu kemur fram að viðkomandi hafi tekið kveikjuláslykla að bifreið með skráningarnúmerið [...]. Viðkomandi tók umrædda bifreið traustataki. Fannst hún við Árbæjarapótek við Hraunbæ, 7. janúar 2014. Í skýrslu lögreglu kemur fram að skráningarmerkjunum [...] hafi verið stolið frá Bílalandi að Kletthálsi 11 í Reykjavík, 30. desember 2013.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa tekið umrædda kveikjuláslykla eða bifreið. Sá sem stal kveikjuláslyklum og tók í framhaldi ófrjálsri hendi bifreiðina [...] var á bifreið er ákærði hafði til umráða, en um er að ræða ljósgráa Renault Clio. Þá hefur því verið slegið föstu í 16. tl. Ákæru, að ákærði hafði komist yfir skráningarmerkin og þau tilkynnt stolin 31. desember 2013. Þá er til þess að líta að ákærði hefur ítrekað verið staðinn að því að stela kveikjuláslyklum frá bílasölum eða bifreiðaverkstæðum með því að veiða þá upp úr dyralúgum eða með því að brjóta upp glugga. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
19. tl. ákæru.
Þann 27. desember 2013 var af hálfu bílasölunnar Bílahöllin, Bíldshöfða 5 í Reykjavík tilkynnt til lögreglu um töku á bifreiðinni [...]. Í tilkynningu kemur fram að um sé að ræða WV Golf. Þá kemur fram að bifreiðin hafi verið tekin eftir kl. 14.00 þann 24. desember 2013. Fram kemur einnig að bifreiðin hafi fundist 26. desember 2013 fyrir utan Max, Bíldshöfða 5 í Reykjavík. Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 15. janúar 2014 fór lögregla þann dag í húsleit á heimili X og ákærða, að [...] í [...]. Í skýrslunni kemur fram að kveikjuláslyklar að bifreiðinni [...] hafi fundist í vasa á úlpu er X hafi sagt að væri í eigu ákærða. Þá hafi fundist í skúffu undir fötum í eigu ákærða skráningarskírteini fyrir bifreiðina.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa tekið kveikjuláslykla umræddrar bifreiðar, né hafa ekið henni um í Reykjavík. Við mat á niðurstöðu er til þess að líta að kveikjuláslyklar bifreiðarinnar fundust í úlpu ákærða á dvalarstað hans að [...]. Þá fannst skráningarskírteini bifreiðarinnar innan um föt ákærða. Ákærði hefur ítrekað verið staðinn að því að taka kveikjuláslykla bifreiða ófrjálsri hendi af bílasölum og bifreiðaverkstæðum, með því að veiða þá upp úr dyralúgum eða með því að brjóta upp glugga. Þá hefur ákærði ítrekað verið staðinn að því að færa skráningarmerki ólöglega á milli bifreiða. Þegar til þessara atriða er litið er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um sekt ákærða skv. þessum ákærulið. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði, Y, er fæddur í [...]. Hann á að baki sakaferil allt frá árinu 2006. Hér verður þess getið að ákærði var í Héraðsdómi Reykjavíkur, á árinu 2012, dæmdur í 2ja mánaða skilorðsbundið fangelsi, m.a. fyrir þjófnað og gripdeild. Þá var ákærði í Hæstarétti, [...] 2012, dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Áfrýjað var dómi Héraðsdóms Suðurlands. Loks gekkst ákærði undir sátt 30. nóvember 2012 fyrir akstur sviptur ökurétti. Samkvæmt þessu var ákærði á tveim skilorðsbundnum dómum samtímis. Fyrir því standa ekki rök. Ákærði hefur rofið skilorð beggja framangreindra dóma og verða þeir nú teknir upp, sbr. 60. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af þessu og sakaferli ákærða sæti hann fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða, frá 14. febrúar 2014 til dómsuppsögudags.
Ákærði, Z, er fæddur í [...]. Hann á að baki sakaferil allt frá árinu 2008 og nokkurn fjölda dóma og sátta. Ákærði var þrívegis dæmdur á árinu 2013 fyrir brot gegn hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Brot ákærða nú eru ítrekun. Hefur hann áður ítrekað verið dæmdur fyrir þjófnað. Með hliðsjón af broti ákærða sæti hann fangelsi í 4 mánuði. Með hliðsjón af sakaferli er ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði, Þ, er fæddur í [...]. Hann á að baki sakaferil allt frá árinu 2009. Hér er þess getið að ákærði var [...] 2012, sakfelldur fyrir þjófnað. Var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára. Ákærði hefur með broti sínu rofið skilyrði refsidómsins. Verður hann nú tekinn upp eftir reglum 60. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af því sæti ákærði fangelsi í 4 mánuði. Ekki er unnt að skilorðsbinda dóminn.
Ákærða, X, er fædd í [...]. Hún hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Með hliðsjón af broti ákærðu sæti hún fangelsi í 3 mánuði. Og þar sem hún hefur ekki áður gerst brotleg þykir unnt að skilorðsbinda refsinguna svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.
Með hliðsjón af lagaákvæðum í ákæru verður ákærði, Y, sviptur ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins.
Ákærði, Y, hefur verið sakfelldur fyrir gripdeild og skjalabrot með því að hafa dælt eldsneyti á bensínstöðvum Olís á bifreiðar með röngum skráningarnúmerum, samtals að verðmæti 49.693 krónur. Ákærði ber skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann hefur valdið með ólögmætri háttsemi sinni. Verða skaðabótakröfurnar teknar til greina. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. Dráttarvextir miðast við þingfestingu málsins fyrir dómi.
Með hliðsjón af lagaákvæðum í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs 3,42 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærðu greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirlitum og málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 14. febrúar 2014 til dómsuppsögudags.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærða, X, sæti fangelsi í 3 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, Y, er sviptur ökurétti 3 ár frá birtingu dómsins.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 3,42 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði, Y, greiði Olís skaðabætur að fjárhæð 49.693 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. desember 2013 til 28. mars 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, Y, greiði 1.742.044 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 1.493.450 krónur. Að auki greiði ákærði sakarkostnað að fjárhæð 10.000 krónur í félagi við meðákærðu, X.
Ákærði, Z, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar héraðsdómslögmanns, 338.850 krónur.
Ákærði, Þ, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Þ. Skarphéðinssonar héraðsdómslögmanns, 727.900 krónur.
Ákærða, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns 313.750 krónur. Sakarkostnað að fjárhæð 10.000 krónur greiði ákærða í félagi við meðákærða, Y.