Hæstiréttur íslands

Mál nr. 622/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann


                                     

Fimmtudaginn 11. október 2012.

Nr. 622/2012.

 

Egus Inc.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

Sjóklæðagerðinni hf. og

(Kristinn Hallgrímsson hrl.

Bjarneyju Harðardóttur.

(Jón Ögmundsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu E Inc., minnihlutaeiganda S hf., um að lagt yrði lögbann við því að S hf. hagnýtti sér starfskrafta B eða gerði henni kleift að hafa afskipti af eða taka þátt í stjórnun S hf. og dótturfélaga þess. E Inc. þótti hvorki hafa sýnt fram á að störf B hjá tiltekinni auglýsingastofu í þágu S hf. brytu gegn lögvörðum rétti E Inc. né að réttindi E Inc. myndu fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum yrði ekki fallist á lögbannskröfuna. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir sýslumanninn í Hafnarfirði að leggja lögbann við því að varnaraðilinn Sjóklæðagerðin hf. hagnýtti sér með nokkrum hætti beint eða óbeint starfskrafta varnaraðilans Bjarneyjar Harðardóttur, léti henni í té tæki, aðstöðu, síma, tölvu, netfang eða nokkurn annan búnað sem gerði henni kleift að hafa afskipti af, taka þátt í eða stjórna daglegri starfsemi varnaraðilans Sjóklæðagerðarinnar hf. eða dótturfélaga hans. Einnig var hafnað kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að varnaraðilinn Bjarney Harðardóttir hefði samband við viðskiptamenn varnaraðilans Sjóklæðagerðarinnar hf. og/eða starfsmenn þeirra í nafn hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sýslumanninum gert að leggja lögbann í samræmi við áðurnefndar kröfur sínar. Loks er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 er fallist á með héraðsdómi að störf varnaraðilans Bjarneyjar Harðardóttur hjá auglýsingastofunni J&L ehf. í þágu varnaraðilans Sjóklæðagerðarinnar hf. hvorki brjóti né muni brjóta gegn lögvörðum rétti sóknaraðila. Hann hefur heldur ekki fært rök að því að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði ekki fallist á kröfu hans um lögbann. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

        Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

        Sóknaraðili, Egus Inc., greiði varnaraðilum, Sjóklæðagerðinni hf. og Bjarneyju Harðardóttur, hvoru um sig 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. september 2012.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness 20. júní 2012 og var tekið til úrskurðar 30. ágúst 2012 að loknum munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Egus Inc, Möltu, en varnaraðilar eru Sjóklæðagerðin hf., Miðhrauni 11, Garðabæ, og Bjarney Harðardóttir, Holtaseli 39, Reykjavík.

Sóknaraðili gerir þær kröfur að ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 14. júní 2012 um að hafna beiðni um lögbann verði hnekkt og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. hagnýti sér með nokkrum hætti beint eða óbeint starfskrafta varnaraðila Bjarneyjar Harðardóttur, láti henni í té tæki, aðstöðu, síma, tölvu, netfang eða nokkurn annan búnað, sem gerir henni kleift að hafa afskipti af, taka þátt í eða stjórna daglegri starfsemi varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. eða dótturfélaga þess. Einnig er þess krafist að lagt verði lögbann við því að varnaraðili Bjarney Harðardóttir hafi samband við viðskiptamenn varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og/eða starfsmenn þeirra í nafni félagsins.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila in solidum að mati dómsins.

Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hrundið og að ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði um synjun lögbannsgerðar verði staðfest. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

Sóknaraðili lýsir málavöxtum svo að hann sé eigandi að 49% hlutafjár í varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. Forstjóri varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. sé Helgi Rúnar Óskarsson. Varnaraðili Bjarney Harðardóttir sé sambýliskona Helga. Varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. hafi gert tímabundinn

alds eða stjBjarneyju a aðila sem eru skyldir eða tengdir, s.s. vegna eignarhalds eða stj

 

 

ráðgjafarsamning við varnaraðila Bjarneyju á árinu 2011. Samningurinn hafi runnið út um áramótin 2011/2012. Á stjórnarfundi 16. desember 2011 hafi stjórn synjað framlengingu ráðgjafarsamningsins. Tillaga um nýjan ráðgjafarsamning, sem lögð hafi verið fram til afgreiðslu á stjórnarfundi 12. mars 2012, hafi verið felld. Óumdeilt sé að aukinn meirihluta stjórnar þurfi til samningsgerðar við varnaraðila Bjarneyju samkvæmt hluthafasamkomulagi hluthafa varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar.

Í gildi sé hluthafasamkomulag í varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf., dags. 9. ágúst 2011, milli SF ll slhf. og sóknaraðila, Egusar Inc. Markmið samkomulagsins um stjórnskipulag og hlutafjáreign sé samkvæmt grein 1.3 að: „stuðla að góðum og heilbrigðum rekstri félagsins, með góða arðsemi að leiðarljósi og hag hluthafa í fyrirrúmi. Til þess að ná því markmiði skulu aðilar og stjórnendur félagsins í þeirra umboði af fremsta megni reyna að komast að samkomulagi um ákvarðanir og gæta þess að ákvarðanir um rekstur, kaup og sölu á eignum félagins og aðrar ráðstafanir brjóti ekki í bága við þau markmið.“

 Í 4. kafla hluthafasamkomulagsins sé fjallað um stjórn félagsins og stjórnun. Í 3. lið greinar 4.2 sé sérstaklega kveðið á um að við ákvarðanir um samninga við hluthafa eða aðra aðila sem séu skyldir eða tengdir, s.s. vegna eignarhalds eða stjórnunar, þurfi samþykki a.m.k. fjögurra stjórnarmanna félagsins.

 Þrátt fyrir hið skýra ákvæði í hluthafasamkomulaginu, markmið með gerð þess og í ljósi þeirrar staðreyndar að ráðgjafarsamningur varnaraðila Bjarneyjar hafi í tvígang verið felldur í stjórn, hafi varnaraðili Bjarney í skjóli sambýlismanns síns, forstjóra varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar, haft stöðug og veruleg afskipti af daglegri starfsemi félagsins sem jafna megi til þess að hún væri þar í stjórnunarstöðu.

Varnaraðili Bjarney hafi enn, meira en hálfu ári eftir að ráðgjafarsamningur hennar við félagið rann sitt skeið, aðstöðu í höfuðstöðvum félagsins að Miðhrauni 11, Garðabæ, og tölvu og síma frá félaginu. Í þeim efnum sé rétt að nefna að ráðgjafarsamningur Bjarneyjar hafi ekki gert ráð fyrir að hún hefði aðstöðu í höfuðstöðvum félagsins. Engu að síður hafi hún mætt þar til starfa á meðan á samningstíma stóð og geri í raun enn, þrátt fyrir að samningur hennar við félagið sé löngu runninn út og endurnýjun hans hafi í tvígang verið hafnað af stjórn. Síðast en ekki síst hafi hún enn netfangið bjarney@66north.is, þrátt fyrir ítrekaðar aðfinnslur af hálfu stjórnarmanna félagsins. 

Þá hafi varnaraðili Bjarney komið ítrekað fram f.h. varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. út á við eins og hún gegni stöðu fyrir félagið. Hún hafi meðal annars komið fram f.h. varnaraðila á ISPO sýningunni, sem sé ein stærsta kaupstefnan í útivistargeiranum. Þá hafi hún jafnframt verið í forsvari fyrir þátttöku félagsins í tískusýningu í Bláa lóninu, farið fyrir verkefni um breytingu á vörumerki Rammagerðarinnar (sem sé dótturfélag í eigu varnaraðilans Sjóklæðagerðarinnar hf.), farið fyrir opnun nýrrar verslunar Rammagerðarinnar á Akureyri, setið fundi með hönnuðum, hafnað þátttöku fyrir félagsins hönd í svokallaðri atvinnumessu á vegum Vinnumálastofnunar, farið á fund Polartec, stærsta birgis félagsins í Bandaríkjunum, ásamt forstjóra og formanni stjórnar, og svo mætti lengi telja. Framangreind afskipti af félaginu hafi hún átt eftir að ráðgjafarsamningur hennar við félagið hafi runnið sitt skeið og mörg hver ennfremur eftir að stjórn félagsins hafi í annað sinn hafnað að gera samning við hana. 

Gunnar Jónsson, stjórnarmaður í varnaraðila, hafi ítrekað gert athugasemdir við aðkomu varnaraðila Bjarneyjar að félaginu eftir að ráðgjafarsamningur hennar hafi runnið sitt skeið. Þann 9. febrúar 2012 hafi Gunnar óskað eftir því að forstjórinn staðfesti fyrir kl. 13:00 þann sama dag að varnaraðili Bjarney sinnti engum störfum fyrir varnaraðila Sjóklæðagerðina hf. Afrit af póstinum hafi jafnframt verið sent á stjórnarmenn sem og varastjórnarmann. Erindinu hafi síðan verið fylgt eftir með tölvupósti af hálfu Gunnars, dags. 13. mars 2012, þar sem krafa um að forstjóri staðfesti að varnaraðili Bjarney gegndi ekki störfum fyrir félagið hafi verið ítrekuð.

 Þann 13. mars 2012 hafi borist svar frá forstjóra varnaraðila þar sem segi m.a.: „Bjarney hefur hvorki starfað við félagið né þegið greiðslur frá félaginu frá því í desember (þegar ráðgjafarsamningur Bjarneyjar rann út) [innskot lögmanns sóknaraðila] ef undan eru skilin stjórnarlaun fyrir setu sína í stjórn félagsins fram að síðasta hluthafafundi þar sem ný stjórn var kosin. Hún hefur unnið að því að tryggja að verkefni færist yfir á réttar hendur og þannig að ekki glatist verðmæti við þá flutninga.“

Framangreind yfirlýsing forstjórans standist ekki. Þann 6. mars 2012 hafi varnaraðili Bjarney boðað af netfangi sínu bjarney@66north.is, Fannar Pál Aðalsteinsson og Felix Gylfason, starfsmenn hjá varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. til fundar um: „calendar og verkefni framundan“, líkt og það sé orðað í tölvupóstskeytinu. Þann 23. apríl 2012 hafi varnaraðili Bjarney boðað af netfangi sínu bjarney@66north.is, til fundar með yfirmönnum varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. vegna svokallaðs vildarkerfis. Þá hafi varnaraðili Bjarney jafnframt  verið í samskiptum við viðskiptamenn varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., líkt og sjá megi á tölvupóstsamskiptum hennar við Birki H. Guðnason, framkvæmdastjóra Icelandair hf., dags. 30. apríl 2012. Í kjölfar tölvupóstsamskipta við Birki um þátttöku varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. í endurreisn Amerísk–íslenska Viðskiptaráðsins, hafi varnaraðili Bjarney sent þann 9. maí 2012 tölvupóstskeyti á forstjóra varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. sem og fjármálastjóra félagsins þar sem hún hafi lýst því yfir án nokkurs umboðs að: „Við (Sjóklæðagerðin hf.) [innskot lögmanns sóknaraðila] ætlum að taka þátt í stofnun(enduruppbyggingu) á Ameríska (svo) íslenska viðskiptaráðsins. Meðfylgjandi er umsókn um að gerast stofnfélagi, getur þú (Kristín Andrea Einarsdóttir, fjármálastjóri Sjóklæðagerðarinnar hf.) [innskot lögmanns sóknaraðila] sótt um fyrir hönd Sjóklæðagerðarinnar.“

 Á stjórnarfundi í varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. þann 1. júní síðastliðinn hafi Gunnar Jónsson, stjórnarmaður í félaginu, óskað eftir staðfestingu á því að búið væri að loka fyrir netfang Bjarneyjar. Forstjóri félagsins hafi svarað því neitandi og gefið þá skýringu að Bjarney hefði hafið störf hjá auglýsingastofunni Jónsson & Le´macks, sem tekið hefði að sér stóran hluta markaðsmála varnaraðilia. Þá hafi forstjórinn jafnframt verið inntur eftir því hvort Bjarney hefði tekið þátt í fundum erlendis með fyrirtækinu Polartec. Forstjórinn hafi svarað því svo til að formaður og forstjóri hefðu farið utan á fund með Polartec ásamt eiginkonum sínum. Rétt sé í þeim efnum að nefna að varnaraðili Bjarney hafi verið í tölvupóstsamskiptum við Lindsey Thompson, markaðsstjóra Polartec. Um hrein og bein ósannindi sé því að ræða af hálfu forstjóra varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og ljóst að afskipti varnaraðila Bjarneyjar af félaginu beri með sér að hún hafi haldið áfram störfum fyrir félagið í reynd eftir að ráðgjafarsamningi var lokið og eftir að stjórn felldi í tvígang að gera nýjan samning við hana. 

Sóknaraðili telur afar brýnt að krafa hans nái fram að ganga. Ljóst sé að varnaraðili Bjarney hafi haft veruleg afskipti af daglegum rekstri varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og  löngu eftir að ráðgjafarsamningur hennar við félagið hafi verið runninn út og nýjum ráðgjafarsamningi við hana hafði verið hafnað í tvígang. Þá hefur varnaraðili Bjarney jafnframt komið fram við starfsmenn Sjóklæðagerðarinnar hf. líkt og hún sé í stjórnunarstöðu hjá félaginu, m.a. með því að boða ýmsa starfsmenn og yfirmenn á fund um málefni sem hún hafi hvorki heimild né umboð til að hafa umsjón með. Það hafi ekki verið fyrr en nýverið, nánar tiltekið þann 30. apríl 2012, að starfsmenn félagsins hafi verið upplýstir um að Bjarney væri í raun löngu hætt störfum fyrir félagið og hefði hvorki umboð til að sinna verkefnum fyrir félagið né koma fram út á við fyrir hönd þess. Ljóst sé að varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. hafi ekki fylgt umræddri tilkynningu eftir, til að mynda með því að loka netfangi varnaraðila Bjarneyjar hjá félaginu, og hafi starfsmenn félagsins haldið áfram að senda á hana erindi líkt og hún gegni þar enn störfum.

Svör sambýlismanns varnaraðila Bjarneyjar og forstjóra varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. til að réttlæta afskipti varnaraðila af rekstri félagsins, annars vegar á þá leið að hún væri að koma verkefnum sínum yfir á aðra starfsmenn og hins vegar að nauðsynlegt væri að hún hefði netfang hjá varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. vegna starfa sinna hjá Jónsson & Le´macks, séu rökleysa. Vart þurfi að fjölyrða um að það tekur starfsmann ekki sex mánuði að koma verkefnum sínum til annarra starfsmanna. Þá hafi framlögð gögn þessa máls sýnt fram á að varnaraðili hafi í raun ekki verið að úthluta verkefnum sem hún áður hafði á sinni könnu til annarra starfsmanna. Þvert á móti hafi hún áfram sinnt umræddum verkefnum og jafnframt komið að öðrum verkefnum á vegum varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og viðskiptamanna félagsins. Því sé ljóst að enda þótt ekki sé til að dreifa samningi við varnaraðila Bjarneyju um störf fyrir varnaraðila Sjóklæðagerðina hf. hafi hún í raun gegnt slíkum störfum. Hæstiréttur hafi ítrekað staðfest í dómum sínum að líta beri til innihalds fremur en forms. Innihald afskipta varnaraðila Bjarneyjar af félaginu undanfarna mánuði beri með sér að hún hafi gegnt veigamiklum störfum fyrir félagið og komið fram gagnvart starfsmönnum þess og viðskiptamönnum svo sem hún gegndi þar stjórnunarstöðu.

 Óumdeilt sé að stjórn varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. hafi synjað því að gera hvort heldur er ráðgjafar- eða ráðningarsamning við Bjarneyju með tilskildum meirihluta. Varnaraðili  sé því ekki bundinn neinum trúnaði gagnvart félaginu og eigi því ekki að hafa afskipti af starfsemi félagsins eða fá aðgang að trúnaðargögnum þess og öðrum upplýsingum. Sjóklæðagerðinni hf. sé með öllu óheimilt að láta varnaraðila Bjarneyju koma fram eða annast um nokkur málefni eða verkefni sem hafi með félagið að gera. Forstjóri félagins hafi neitað statt og stöðugt að varnaraðili Bjarney hafi afskipti af daglegum rekstri félagsins. Þó hafi forstjórinn neitað að loka fyrir netfang varnaraðila Bjarneyjar hjá félaginu. Með framlögðum gögnum telur sóknaraðili sig hafa sýnt fram á að varnaraðili Bjarney sinni störfum fyrir félagið sem hún hvorki hafi umboð né heimild til.

 Sýslumaður hafi hafnað framkominni lögbannsbeiðni á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir samningur við varnaraðila Bjarneyju Harðardóttur, sbr. 3. lið greinar 4.2 hluthafasamkomulags og því verði ekki séð að brotið hafi verið gegn lögvörðum rétti gerðarbeiðanda. Þessi niðurstaða fáist engan veginn staðist. Meginástæða þess að sóknaraðili krefst þess að lagt verði lögbann við athöfnum varnaraðila sé einmitt sú staðreynd að ekki er í gildi samningur milli aðila en varnaraðilinn Bjarney haldi engu að síður áfram að gegna störfum fyrir félagið og koma fram fyrir þess hönd svo sem samningur væri fyrir hendi. Í því felist brotið og það geti ekki staðist að sniðganga megi skuldbindingu hluthafasamkomulagsins með því að halda starfsmanni, sem ekki mætti ráða án þess að tilskilinn meirihluti samþykkti, en láta einfaldlega hjá líða að gera við hann samning. Þar sem varnaraðilinn Bjarney sé ekki bundin nokkrum trúnaði gagnvart varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. hafi sóknaraðili, sem eigandi hartnær helmings hlutafjár í félaginu, brýna hagsmuni af því að stöðva frekari brot. Ljóst sé að beiðni um lögbann yrði ekki lögð fram ef samningur væri fyrir hendi við varnaraðila Bjarneyju, enda væri þá engu broti til að dreifa.

Með því að heimila varnaraðila Bjarneyju aðgang að starfsstöðvum félagsins, taka þátt í sýningum á vegum þess sem og verkefnum, fundum um stefnumótun og vildarkerfi, heimila henni að boða stjórnendur félagsins á fundi, synja þátttöku í Atvinnumessu, heimila henni að halda netfangi á vegum félagsins, sem hún noti til þess að reka erindi á vegum félagsins án heimildar, sé af hálfu varnaraðila beggja af ásetningi brotið gegn lögvörðum hagsmunum sóknaraðila. Brotastarfsemi þessi verði aðeins stöðvuð og upprætt með lögbanni.

Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins telur sóknaraðili að öll skilyrði 24. gr. laga nr. 31/1990 séu til staðar og því beri að hnekkja ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 14. júní síðastliðnum og leggja lögbann á í samræmi við framkomnar kröfur sóknaraðila.

Eins og mál þetta er vaxið geti skaðabætur úr hendi varnaraðila ekki talist nægjanleg vernd til handa sóknaraðila. Sóknaraðili telur einsýnt að réttindi og hagsmunir hans séu ekki nægjanlega tryggðir með réttarreglum um skaðabætur.

II.

Varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. telur málsatvikalýsingu sóknaraðila ranga og villandi um mörg helstu atvik málsins og sé henni því mótmælt í heild sinni. Varnaraðili lýsir helstu atvikum málsins þannig að gerður hafi verið ráðgjafarsamningur við varnaraðila Bjarneyju í kjölfar kaupa SF ll slhf. á 51% hlut í félaginu sumarið 2011 en þá hafi forsvarsmaður sóknaraðila, Sigurjón Sighvatsson, lýst því sérstaklega yfir í fréttatilkynningu að hann hlakkaði til samstarfsins við varnaraðila Bjarneyju. Gildistími ráðgjafarsamningsins hafi verið tímabundinn til ársloka 2011 en sameiginlegur skilningur aðila hafi verið að gerður yrði ráðningarsamningur við varnaraðila Bjarneyju að loknum gildistíma samningsins eins og endurspeglist í framangreindri yfirlýsingu forsvarsmanns sóknaraðila.

Varnaraðili Sjóklæðagerðin hf., bendir á að reynsla og menntun varnaraðila Bjarneyjar hafi komið félaginu til mikilla góða en hún sé rekstrarhagfræðingur að mennt og með áratuga reynslu af markaðsmálum, stefnumótun og stjórnun. Hafi varnaraðili Bjarney m.a. sinnt stjórn markaðsmála hjá stórfyrirtækjum hérlendis og kennslu í vörumerkjastjórnun og markaðsmálum á háskólastigi. Fljótlega hafi komið í ljós að varnaraðili Bjarney hafi náð miklum árangri í ráðgjafarstörfum sínum fyrir félagið. Til dæmis hafi velheppnaðar auglýsingaherferðir leitt til mikillar söluaukningar í verslunum félagsins, markaðsherferð erlendis skilaði miklum árangri, kostnaðarhagræðing náðist fram við ljós- og hreyfimyndatöku af vörum félagsins með innleiðingu nýrra aðferða og innleiddar hafi verið nýjungar í markaðssetningu sem muni að líkindum draga verulega úr kostnaði á því sviði. Þá hafi samanburður á könnunum sem MMR hafi unnið fyrir varnaraðila í júní 2011 og janúar 2012  leitt í ljós að á starfstíma varnaraðila Bjarneyjar hafði staða vörumerkis félagsins styrkst umtalsvert. Árangur varnaraðila Bjarneyjar hafi reglulega verið kynntur stjórnarmönnum félagsins sem hafi aldrei gert athugasemdir við störf hennar eða settu fram gagnrýni á þau.

Það hafi því komið forstjóra varnaraðila í opna skjöldu að ekki næðist samstaða um endurnýjun ráðgjafarsamnings varnaraðila Bjarneyjar við félagið vegna andstöðu fulltrúa sóknaraðila á fundi stjórnar félagsins hinn 16. desember 2011. Í upphafi ársins hafi forstjórinn gert athugasemdir við þessa afstöðu stjórnarinnar og bent meðal annars á þau mikilvægu verkefni sem væru framundan hjá félaginu á sviði markaðssetningar og þann mikla árangur sem varnaraðili Bjarney hefði náð með störfum sínum í þágu félagsins. Þá hafi forstjórinn bent á að það væri bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að skipta um ábyrgðaraðila að þessum verkefnum og því gæti það vart samrýmst hagsmunum félagsins. Sóknaraðili hafi engu að síður gert þá kröfu að varnaraðili Bjarney léti af ráðgjafarstarfinu án þess að gera sérstaka grein fyrir því hvernig sú krafa samræmdist hagsmunum félagsins. Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi ekki fyrr en í lögbannsbeiðni til sýslumannsins í Hafnarfirði haldið því fram að störf varnaraðila Bjarneyjar væru fallin til að skaða hagsmuni félagsins án þess þó að færa nokkur rök fyrir þeirri fullyrðingu. Telur varnaraðili að í málinu liggi ekki annað fyrir en að störf varnaraðila Bjarneyjar hafi verið félaginu til heilla.

Þá bendir varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. á að ekki hafi verið gerður samningur við varnaraðila Bjarneyju Harðardóttur um störf hennar í þágu félagsins síðan tímabundinn ráðgjafar-samningur hennar rann sitt skeið um síðastliðin áramót. Varnaraðili Bjarney hafi þó áfram sinnt ákveðnum verkefnum í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. til að unnt yrði að fela þau starfsmönnum félagsins og til að tryggja að verðmæti færu ekki forgörðum. Þau störf hafi hún unnið án þess að þiggja sérstakt endurgjald frá félaginu. Varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. hafi í kjölfar þess gengið til samninga við auglýsingastofuna Jónsson & Le´macks ehf.og falið henni að annast og hafa umsjón með verkefnum á sviði markaðs- og kynningarmála félagsins en auglýsingastofan hafði um árabil sinnt slíkum verkefnum fyrir varnaraðila. Hafi auglýsingastofan falið ráðgjöfum sínum ýmis verkefni í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., þ.m.t. varnaraðila Bjarneyju sem hafi hafið ráðgjafarstörf hjá auglýsingastofunni eftir að hún lauk ráðgjafarstarfi sínu í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. Varnaraðili bendir á að ráðgjafarstörf varnaraðila Bjarneyjar séu því ekki unnin á grundvelli samningssambands við hana heldur samnings við auglýsingastofuna. Ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði um að hafna kröfu sóknaraðila um lögbann grundvallast einmitt á þeirri staðreynd að ekki liggi fyrir neinn samningur við varnaraðila Bjarneyju og því verði ekki séð að brotið hafi verið gegn því samningsákvæði sem sóknaraðili styður kröfu sína við.

Sú staðreynd sé óumdeild með aðilum málsins en í greinargerð sóknaraðila sé sérstaklega tekið fram að meginástæða þess að sóknaraðili krefjist lögbanns við athöfnum varnaraðila sé að ekki sé í gildi samningur á milli varnaraðila.

Á grundvelli samningsins við auglýsingastofuna hafi varnaraðila Bjarneyju, eins og öðrum ráðgjöfum auglýsingastofunnar, sem vinni að verkefnum í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., verið gert kleift að sinna verkefnum á sviði markaðs- og kynningarmála varnaraðila í höfuðstöðvum félagsins og í nafni þess, enda þyki stjórnendum varnaraðila það betur samræmast hagsmunum félagsins en ef þeir kæmu fram í nafni auglýsingastofunnar í samskiptum við viðsemjendur þess. Samkvæmt samningnum hafa ráðgjafar auglýsingastofunnar, sem sinnt hafa verkefnum fyrir varnaraðila, því haft aðgang að aðstöðu í höfuðstöðvum félagsins og hafi þeim verið úthlutað tölvupóstföngum með endingunni @66north.is. Hafi framangreind tilhögun gefið góða raun að mati varnaraðila sem telur hana ekki á nokkurn hátt vera fallna til þess að skaða hagsmuni félagsins eða hluthafa þess. Að gefnu tilefni vekur varnaraðili jafnframt athygli á því að ráðgjafar auglýsingastofunnar beri trúnaðar- og þagnarskyldu gagnvart félaginu samkvæmt samningi þess um verkefni á sviði markaðs- og kynningarmála. Eigi það jafnt við um varnaraðila Bjarneyju sem aðra fulltrúa auglýsingastofunnar. Ranghermt sé því í greinargerð sóknaraðila til dómsins að varnaraðili Bjarney beri engar trúnaðarskyldur gagnvart félaginu. Þá áréttar varnaraðili sérstaklega að varnaraðili Bjarney hafi engar greiðslur þegið frá félaginu síðan hún lét af stjórnarsetu í því síðastliðinn vetur.

Varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir tilvist samningsins við auglýsingastofuna, tilhögun samstarfsins og þeirri staðreynd að auglýsingastofan hafi falið varnaraðila Bjarneyju, á grundvelli samningsins, að sinna og hafa umsjón með ýmsum verkefnum á sviði markaðs- og kynningarmála varnaraðila. Engu að síður kjósi sóknaraðili að líta svo á að varnaraðili Bjarney gegni störfum í þágu félagsins án þess að gerður hafi verið við hana samningur. Í því felist brot gegn ákvæði hluthafasamkomulags um skilyrði samningsgerðar og að sóknaraðili hafi brýna hagsmuni af því að kröfur hans nái fram að ganga þar sem varnaraðili Bjarney hafi engum trúnaðarskyldum að gegna gagnvart félaginu. Varnaraðili bendir á að sú afstaða sóknaraðila byggist á algjörum grundvallarmisskilningi eða þekkingarleysi á raunverulegum atvikum málsins, enda komi varnaraðili Bjarney o.fl. að markaðs- og kynningarmálum félagsins á grundvelli samnings þess við auglýsingastofuna eins og að framan greini.

Kröfu sína um að öllum kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og að staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 14. júní 2012 um synjun lögbannsgerðar byggir varnaraðili á að lagaskilyrðum lögbanns sé ekki fullnægt.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn, enda sanni gerðarbeiðandi eða geri sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi gerðarbeiðanda fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Megi álykta að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur tryggi nægilega hagsmuni gerðarbeiðanda fyrir ætlaðri ólögmætri röskun, verður lögbann ekki lagt við athöfninni samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 24. gr. laganna.

Sóknaraðili grundvalli kröfu sína um lögbann á ákvæði þriðja liðar greinar 4.2 í  hluthafasamkomulagi í Sjóklæðagerðinni hf. á milli SF ll slhf. og Egus Inc., dags. 9. ágúst 2011 og gangi hann út frá því sem gefnu að umrætt ákvæði eigi við um varnaraðila Bjarneyju. Í ákvæðinu segi að samþykki a.m.k. fjögurra stjórnarmanna þurfi vegna ákvarðana er lúti að „samningum við hluthafa eða aðra aðila sem þeim eru skyldir eða tengdir, s.s. vegna eignarhalds eða stjórnunar.“

Sóknaraðili láti þó algjörlega hjá líða að fjalla um og rökstyðja hvernig umrætt ákvæði hluthafasamkomulagsins taki til varnaraðila Bjarneyjar sem sé eins og ráða megi af gögnum málsins ekki hluthafi félagsins. Þá hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að hún geti talist til aðila, sem tengist hluthöfum félagsins í krafti eignarhalds eða stjórnunar, en hvorki varnaraðili Bjarney né sambýlismaður hennar, forstjóri varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., séu meðal stjórnarmanna SF ll slhf. Af hálfu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. sé alfarið hafnað þeirri ósönnuðu fullyrðingu sóknaraðila að óumdeilt sé með aðilum að aukinn meirihluta stjórnar þurfi til samningsgerðar við varnaraðilann Bjarneyju.

Jafnvel þótt dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að umrætt ákvæði hluthafasamkomulagsins, sem sé grundvöllur kröfugerðar sóknaraðila, eigi við um varnaraðila Bjarneyju þá liggi fyrir í málinu að engum samningi sé til að dreifa á milli félagsins og hennar. Störf varnaraðila Bjarneyjar í þágu félagsins séu unnin á grundvelli og samkvæmt samningi auglýsingastofunnar Jónsson & Le´macks ehf. við félagið sem tekið hafi að sér að annast og að hafa umsjón með markaðs- og kynningarmálum félagsins. Auglýsingastofan hafi falið varnaraðila Bjarneyju að vinna að verkefnum í þágu félagsins á grundvelli samningsins en ekki varnaraðili. Þannig liggi fyrir að varnaraðili geti ekki talist hafa brotið gegn ákvæði hluthafasamkomulagsins, hvorki með því að ganga til samningsgerðar við varnaraðila Bjarneyju án fulltingis meirihluta stjórnar félagsins, né með því að fela henni starf í þágu félagsins án þess að ganga til samninga við hana. Útilokað sé að heimild varnaraðila til samningsgerðar við auglýsingastofuna verði takmörkuð á grundvelli ákvæðis hluthafasamkomulagsins, enda taki orðalag þess aðeins til samningsgerðar við hluthafa og aðila sem þeim teljast tengdir eða skyldir. Af þeirri ástæðu beri að staðfesta þá ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði að synja um framgang lögbannsgerðarinnar.

Varnaraðili bendir á að kröfugerð sóknaraðila í málinu samræmist í engu tilvitnuðu ákvæði hluthafasamkomulagsins en í því sé samkvæmt framansögðu aðeins kveðið á um takmörkun á heimild félagsins til samningsgerðar við hluthafa þess og tengda aðila. Kröfugerð sóknaraðila í málinu sé miklu víðtækari og eigi sér enga stoð í ákvæði hluthafasamkomulagsins. Þannig geri sóknaraðili þá kröfu að lagt verði lögbann við því að varnaraðili hagnýti sér með nokkrum hætti starfskrafta varnaraðila Bjarneyjar, láti henni í té tæki, aðstöðu, síma, tölvu, netfang eða nokkurn annan búnað, sem geri henni kleift að hafa afskipti af, taka þátt í eða stjórna daglegri starfsemi varnaraðila eða dótturfélaga. Bendir varnaraðili á að hvorugur varnaraðila hafi undirgengist samningsskuldbindingu sem geti orðið grundvöllur þeirrar kröfugerðar sóknaraðila.

Ljóst sé að varnaraðili hafi fulla heimild til samningsgerðar við auglýsingastofuna, enda feli orðalag hluthafasamkomulagsins aðeins í sér takmörkun á heimild til samningsgerðar við hluthafa í varnaraðila og tengda aðila. Þá gildi einu hvort auglýsingastofan kjósi að fela varnaraðila Bjarneyju eða öðrum að sinna verkefnum í þágu félagsins. Varhugavert sé að frekari takmarkanir á samningsfrelsi varnaraðila verði leiddar af orðalagi ákvæðisins, enda sé brýnt að þeir sem annist daglegan rekstur félagsins hafi svigrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem þeir telji best samrýmast hagsmunum þess. Þá sé það ekki á forræði varnaraðila að gera ráðstafanir til að fullnægja kröfum sóknaraðila í málinu þar sem auglýsingastofan hafi forræði á framkvæmd samstarfssamningsins og þar með ákvörðunarvald um val á ráðgjöfum sem vinni að verkefnum á grundvelli hans.

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila grundvalli hann kröfugerð sína á því að hann hafi, sem eigandi 49% hlutafjár í Sjóklæðagerðinni hf., brýna hagsmuni af því að koma í veg fyrir störf varnaraðila Bjarneyjar í þágu Sjóklæðagerðarinnar hf. með vísan til þess að ekki hafi verið gerður við hana samningur. Hún sé því ekki bundin nokkrum trúnaði gagnvart félaginu og áframhaldandi störf hennar séu félaginu til tjóns. Verulega skorti aftur á móti á að sóknaraðili hafi fullnægt sönnunarkröfum laganna, þ.e. sóknaraðili hafi ekki sannað með hvaða hætti þær athafnir, sem hann krefjist að lagt verði lögbann við, brjóti gegn hagsmunum hans eða hverjir þeir hagsmunir séu yfir höfuð, aðrir en þeir að geta beitt neitunarvaldi í stjórn varnaraðila við samningagerð við nánar tilgreinda aðila. Varnaraðili bendir á að allt bendi til að hagsmunum sóknaraðila málsins, sem öðrum hluthafa í varnaraðila, sé mun betur borgið með því að varnaraðili Bjarney haldi áfram að sinna verkefnum í þágu félagsins á grundvelli samnings þess við auglýsingastofuna. Þá bendir varnaraðili á að eðli málsins samkvæmt hafi varnaraðili Bjarney trúnaðarskyldum að gegna gagnvart varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf., samkvæmt samningi varnaraðila við auglýsingastofuna og því eigi fullyrðingar sóknaraðila um annað ekki við rök að styðjast.

Þá bendir varnaraðili á að lögbannsgerðir séu neyðarráðstafanir sem skuli aðeins beitt ef sýnt sé fram á af hálfu gerðarbeiðanda að önnur úrræði séu ekki tiltæk til að koma í veg fyrir að réttindi fari forgörðum eða verði fyrir spjöllum á meðan beðið sé eftir dómi um þau. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi í engu rennt stoðum undir endurteknar fullyrðingar hans í greinargerð til dómsins þess efnis að hann hafi brýna hagsmuni af því að koma í veg fyrir „frekari brot“, sem hann telur felast í störfum varnaraðila Bjarneyjar í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. Af hálfu varnaraðila sé því alfarið mótmælt að störf varnaraðila Bjarneyjar fyrir auglýsingastofuna, sem annist markaðs- og kynningarmál félagsins, geti talist fela í sér brot gegn því ákvæði hluthafasamkomulagsins sem sé grundvöllur kröfugerðar sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili hvorki fjallað um, rökstutt né sannað hvernig ráðgjafarstörf varnaraðila Bjarneyjar hjá auglýsingastofunni séu fallin til að brjóta gegn hagsmunum hans eða valda honum tjóni. Hafi sóknaraðili því ekki fullnægt þeim skilyrðum laganna að sanna eða gera sennilegt að brotið sé gegn hagsmunum hans á nokkurn hátt, hvað þá að hann muni verða fyrir réttarspjöllum af því að bíða dóms í skaðabótamáli út af meintri röskun á þeim hagsmunum sem hann telur sig eiga og vill vernda með lögbannsgerðinni.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, gegn væntingum varnaraðila, að sóknaraðili hafi einhverja lögvarða hagsmuni af því að lögbannsgerðin nái fram að ganga, bendir varnaraðili á að samkvæmt 2. tl. 3. mgr. 24. gr. verði lögbann ekki lagt á ef stórfelldur munur er á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að koma í veg fyrir hana. Tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir að gerðarbeiðandi stöðvi athöfn vegna lítilvægra hagsmuna í samanburði við hagsmuni gerðarþola, jafnvel þó svo að ótvírætt sé brotið á rétti gerðarbeiðanda. Í þessu máli vegist á meintir hagsmunir sóknaraðila af því að koma í veg fyrir störf varnaraðila Bjarneyjar í þágu varnaraðila annars vegar og hagsmunir félagsins af áframhaldandi störfum hennar á grundvelli samningsins við auglýsingastofuna hins vegar. Eins og áður hafi komið fram hafi athafnir hennar í engu valdið sóknaraðila tjóni eða verulegum óþægindum heldur þvert á móti. Telur varnaraðili að það sé engum vafa undirorpið að hagsmunir hans af því að fá áfram notið ráðgjafar varnaraðila Bjarneyjar séu mun ríkari en sóknaraðila og af þeim ástæðum beri að synja kröfu hans um lögbann.

Samkvæmt framansögðu hafi sóknaraðila í fyrsta lagi láðst að fullnægja því grundvallarskilyrði lögbannsgerða að gerðarbeiðandi sanni að hann eigi þann lögvarða rétt sem hann vill vernda með lögbannsgerðinni. Samkvæmt hluthafasamkomulaginu nái réttur hans ekki til annars en að geta beitt neitunarvaldi gegn samningum við nánar tilgreinda aðila, tengda varnaraðila, en sóknaraðili hafi hvorki sýnt fram á að ákvæði hluthafasamkomulagsins eigi við um varnaraðila Bjarneyju né sannað tilvist samnings varnaraðila um störf hennar sem falið geti í sér brot gegn hluthafasamkomulaginu. Þá sé með öllu útilokað að sóknaraðili geti grundvallað kröfugerð sína, sem sé verulega íþyngjandi í garð varnaraðila, á ákvæði hluthafasamkomulagsins. Í öðru lagi hafi sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á að störf varnaraðila Bjarneyjar í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., sem innt séu af hendi á grundvelli samnings varnaraðila og auglýsingastofunnar, séu fallin til að brjóta gegn lögvörðum hagsmunum hans á nokkurn hátt. Í þriðja lagi hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að réttindi hans verði fyrir borð borin verði hann knúinn til að bíða efnisdóms um kröfur sínar og í fjórða lagi telur varnaraðili einsýnt að það varði varnaraðila málsins mun meira að starfskraftar varnaraðilans Bjarneyjar verði nýttir í þágu félagsins fyrir milligöngu auglýsingastofunnar, en að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Í því samhengi megi ekki aðeins vísa til viðskipta- og rekstrarlegra hagsmuna varnaraðila heldur jafnframt samningsfrelsis hans, en takmarkanir á rétti félagsins til að ganga til samninga við auglýsingastofuna verði að byggja á skýrri heimild og styðjast við málefnaleg sjónarmið og efnislegar forsendur sem ekki séu fyrir hendi í málinu. Þá vegi atvinnufrelsi varnaraðilans Bjarneyjar jafnframt þungt en það verði ekki skert nema að ströngum skilyrðum uppfylltum.

Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili því óhjákvæmilegt að dómurinn fallist á kröfu hans um staðfestingu á þeirri ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði að synja um lögbannsgerðina.

Krafa varnaraðila er reist á ákvæðum laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., einkum 1. mgr. og 3. mgr. 24. gr. laganna. Krafa varnaraðila um málskostnað grundvallast á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og 91. gr. laga nr. 90/1989. 

III.

Varnaraðili Bjarney mótmælir málsatvikalýsingu sóknaraðila málsins í heild sinni og gerir eftirfarandi grein fyrir atvikum þess. Varnaraðili kveðst hafa hafið störf sem ráðgjafi á sviði sölu- og markaðsmála í verktöku í þágu Sjóklæðagerðarinnar hf. sumarið 2011 í kjölfar kaupa SF ll slhf. á 51% hlut í félaginu. Um tímabundinn samning hafi verið að ræða með gildistíma fram að áramótunum 2011/2012 og hafi varnaraðili gert ráð fyrir að gengið yrði frá hefðbundnum ráðningarsamningi við hana að þeim tíma liðnum, m.a. í ljósi yfirlýsingar forsvarsmanns sóknaraðila í fréttatilkynningu, sem send hafi verið út í tengslum við kaupin á meirihluta hlutafjár í félaginu, og þess árangurs sem varnaraðili hafi náð á gildistíma ráðgjafarsamningsins.

Varnaraðili kveðst hafa fengið upplýst í ársbyrjun 2012 að ekki væri samstaða um endurnýjun ráðgjafarsamningsins við hana í stjórn Sjóklæðagerðarinnar hf. vegna andstöðu fulltrúa sóknaraðila. Hafi varnaraðila komið þetta mjög á óvart, enda hafi góður rómur verið gerður að ráðgjafarstörfum hennar í þágu félagsins fram að þeim tíma. Hafi varnaraðili m.a. stýrt auglýsingaherferð sem hafi leitt til mikillar söluaukningar í verslunum, náð fram kostnaðarhagræðingu í markaðsstarfi félagsins og innleitt ýmsar nýjungar sem kæmu til með að draga enn frekar úr kostnaði félagsins vegna markaðsstarfs. Þá hafi kannanir á stöðu vörumerkis Sjóklæðagerðarinnar hf. á starfstíma hennar leitt í ljós, að vörumerkið styrktist umtalsvert. Varnaraðili kveðst hafa gert stjórnarmönnum Sjóklæðagerðarinnar hf. grein fyrir störfum sínum og árangri með reglubundnum hætti, sem hafi aldrei hreyft nokkrum athugasemdum við þau eða gagnrýnt á nokkurn hátt. Varnaraðili hafi því talið að störf hennar í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. væru vel metin og í þágu hagsmuna félagsins og hluthafa þess.

Varnaraðili kveðst aðeins hafa þegið 600.000 krónur á mánuði í verktakagreiðslur vegna starfa hennar í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., enda þótt um rúmlega fullt starf væri að ræða. Þá hafi hún haldið áfram að sinna ýmsum verkefnum í þágu félagsins án endurgjalds á árinu 2012 til að koma þeim í hendur starfsmanna félagsins. Vorið 2012 hafi varnaraðili síðan hafið ráðgjafarstörf hjá auglýsingastofunni Jónsson & Le´macks ehf. sem hafi sinnt markaðsmálum Sjóklæðagerðarinnar hf. með hléum allt frá árinu 2003, og þar hafi henni verið falið að vinna áfram að verkefnum í þágu félagsins vegna reynslu sinnar og tengsla við starfsfólk þess og viðsemjendur. Kveðst varnaraðili hafa aðgang að starfsstöðvum varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og vinnuaðstöðu þar eins og aðrir starfsmenn auglýsingastofunnar sem sinni verkefnum félagsins, auk þess sem þeim sé veittur aðgangur að tölvupósti með endingunni @66north.is.

Varnaraðili bendir á að enginn samningur sé í gildi á milli hennar og varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og hún hafi engar beinar greiðslur þegið frá félaginu á árinu 2012 ef frá séu taldar greiðslur vegna stjórnarsetu sem hún hafi látið af hinn 25. mars sl. Þá mótmælir hún sérstaklega sem rangri og ósannaðri þeirri fullyrðingu sóknaraðila að félagið greiði kostnað vegna símnotkunar hennar.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði frá 14. júní 2012 að hafna beiðni sóknaraðila um lögbann. Þá kröfu sína byggir varnaraðila einkum á því að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. sé ekki fullnægt.

Í 24. gr. laganna segir að lögbann verði því aðeins lagt á byrjaða eða yfirvofandi athöfn, enda sanni gerðarbeiðandi eða geri sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi gerðarbeiðanda fari forgörðum eða verði fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Þá bendir varnaraðili á að tryggi réttarreglur um refsingu eða skaðabætur nægilega hagsmuni gerðarbeiðanda fyrir meintri ólögmætri röskun þá verði lögbann ekki lagt við athöfninni samkvæmt 1. tl. 3. mgr. sömu lagagreinar.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi hvorki sannað né gert sennilegt að ákvæði þriðja liðar greinar 4.2 í hluthafasamkomulagi í varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. á milli SF ll slhf. og sóknaraðila, dags. 9. ágúst 2011, eigi við um hana en þar segi að samþykki a.m.k. fjögurra stjórnarmanna félagsins þurfi til ákvarðana er lúta að „samningum við hluthafa eða aðra aðila sem þeim eru skyldir eða tengdir, s.s. vegna eignarhalds eða stjórnunar“. Varnaraðili hafi látið af stjórnarsetu í SF ll slhf. og því sé ekki sjálfgefið að ákvæðið taki til hennar. Þá bendir varnaraðili jafnframt á að hún sé ekki aðili að hluthafasamkomulaginu og að takmarkanir á stjórnarskrárvörðu frelsi hennar til að sinna þeirri atvinnu sem hún kjósi verði því ekki byggðar á því.

Jafnvel þótt dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að umrætt ákvæði hluthafasamkomulagsins eigi við um varnaraðila þá liggi fyrir í málinu að hún hafi ekki gert nokkurn samning við varnaraðila Sjóklæðagerðina hf. Störf varnaraðila í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. byggist alfarið á samningi auglýsingastofunnar Jónsson & Le´macks ehf. við félagið sem falið hafi varnaraðila að vinna að sölu- og markaðsmálum félagsins. Þannig geti ekki verið um að ræða brot gegn ákvæði hluthafasamkomulagsins, enda taki orðalag þess aðeins til samningsgerðar varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. við hluthafa félagsins og aðila sem þeim teljast tengdir eða skyldir. Af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila og staðfesta þá ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði að synja um framgang lögbannsgerðarinnar.

Þá bendir varnaraðili á að kröfugerð sóknaraðila í málinu sé í engu samræmi við ákvæði hluthafasamkomulagsins en í því sé samkvæmt framansögðu aðeins kveðið á um takmörkun á heimildum félagsins til samningsgerðar við hluthafa þess og tengda aðila. Kröfugerð sóknaraðila gangi miklum mun lengra. Í málinu krefjist sóknaraðili þess að lagt verði lögbann við því að varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. hagnýti sér með nokkrum hætti starfskrafta varnaraðila, láti henni í té tæki, aðstöðu, síma, tölvu, netfang eða nokkurn annan búnað, sem geri henni kleift að hafa afskipti af, taka þátt í eða stjórna daglegri starfsemi félagsins eða dótturfélaga. Varnaraðili telur að kröfugerðin eigi sér enga stoð í ákvæði hluthafasamkomulagsins og útilokað að svo víðtækar takmarkanir á atvinnufrelsi hennar verði grundvallaðar á óskýru orðalagi þess. Þá sé með öllu útilokað að orðalag ákvæðisins geti komið í veg fyrir að varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. gangi til samninga við auglýsingastofuna Jónsson & Le´macks ehf. sem hafi samkvæmt framansögðu falið henni að sinna verkefnum í þágu félagsins. Þá leiði sú staðreynd, að varnaraðili eigi ekki aðild að samningssambandi auglýsingastofunnar og varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., til þess að kröfu sóknaraðila um lögbann sé ranglega beint að henni þó að hún hafi vitanlega verulega hagsmuni af niðurstöðu málsins þar sem með lögbannsbeiðninni sé vegið að rétti hennar til að afla sér lífsviðurværis.

Varnaraðili Bjarney gerir einnig athugasemd við þá fullyrðingu sóknaraðila að það varði hann verulegum hagsmunum að koma í veg fyrir störf hennar fyrir Jónsson & Le´macks ehf. í verkefnum í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., einkum á grundvelli þess að ekki hafi verið gerður við hana samningur og hún sé því ekki bundin nokkrum trúnaði gagnvart félaginu. Varnaraðili telur sig hafa gegnt ráðgjafarstörfum sínum af miklum heilindum í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og hluthafa þess. Um það beri árangur hennar skýrt merki auk þess sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við þau af hálfu stjórnarmanna. Þá hafi sóknaraðili hvorki fjallað um, rökstutt né sannað með hvaða hætti ráðgjafarstörf hennar í þágu auglýsingastofunnar, sem sinni sölu- og markaðsmálum varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., brjóti gegn hagsmunum hans þannig að réttlætt geti kröfu hans um lögbann. Ekki verði fallist á fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að varnaraðili beri engar trúnaðarskyldur gagnvart Sjóklæðagerðinni hf. Það geri hún eðli málsins samkvæmt á grundvelli samningssambands síns við auglýsingastofuna.

Varnaraðili Bjarney bendir jafnframt á að aðeins skuli beita lögbanni ef gerðarbeiðanda tekst að sýna fram á að önnur úrræði séu ekki tiltæk til að koma í veg fyrir að hagsmunir hans spillist á meðan beðið er eftir efnislegum dómi um þau. Í málinu hafi sóknaraðili hvorki sýnt fram á hvaða hagsmunum það varði hann að koma í veg fyrir störf varnaraðila í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf., né að þeir hagsmunir hans muni skerðast við að bíða dóms í skaðabótamáli. Skilyrðum lögbannsgerðar sé bersýnilega ekki fullnægt að þessu leyti.

Komist dómurinn að þeirri ólíklegu niðurstöðu að sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á að hann hafi einhverja lögvarða hagsmuni af því að lögbannsgerðin nái fram að ganga bendir varnaraðili á að samkvæmt 2. tl. 3. mgr. 24. gr. verður lögbann ekki lagt á ef stórfelldur munur er á hagsmunum gerðarþola af því að athöfn fari fram og hagsmunum gerðarbeiðanda af því að koma í veg fyrir hana. Tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir að gerðarbeiðandi stöðvi athöfn vegna lítilvægra hagsmuna í samanburði við hagsmuni gerðarþola, jafnvel þó svo að ótvírætt sé brotið á rétti gerðarbeiðanda. Í þessu máli vegast á meintir hagsmunir sóknaraðila af því að koma í veg fyrir störf varnaraðila fyrir Sjóklæðagerðina hf. annars vegar og hagsmunir varnaraðila af því að fá notið atvinnufrelsis síns að sinna því starfi sem hún kjósi. Varnaraðili hafi áður bent á að sóknaraðili hafi í engu sýnt fram á að störf hennar í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. hafi valdið honum tjóni og því geti hann ekki haft nokkra raunverulega hagsmuni af því að kröfugerð hans nái fram að ganga. Réttur varnaraðila til atvinnufrelsis teljist aftur á móti til grundvallarmannréttinda sem varinn sé í 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Takmarkanir á þeim rétti verði því að styðjast við málefnalegar ástæður og byggjast á ríkum og viðeigandi efnislegum forsendum. Með vísan til þess telur varnaraðili það engum vafa undirorpið að hagsmunir hans af því að fá að starfa að verkefnum fyrir Jónsson & Le´macks ehf. í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. séu mun ríkari en hagsmunir sóknaraðila og því beri að hafna kröfum sóknaraðila og staðfesta ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði um synjun lögbannsgerðarinnar. Vegna síðasta málsliðar 2. tl. 3. mgr. 24. gr. tekur varnaraðili sérstaklega fram að engin efni séu til þess að gera varnaraðilum að setja tryggingu fyrir tjóni sem störf hennar kunna að baka sóknaraðila þar sem sóknaraðili hafi í engu sýnt fram á hvaða hagsmunum það varði hann að koma í veg fyrir framangreind ráðgjafarstörf varnaraðila eða gert sennilegt að meint brot gegn þeim hagsmunum hans geti varðað varnaraðila skaðabótaábyrgð.

Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili því óhjákvæmilegt að dómurinn fallist á kröfu hans um að hafnað verði öllum kröfum sóknaraðila og staðfestingu á þeirri ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði að synja um lögbannsgerðina.

Krafa varnaraðila Bjarneyjar er reist á ákvæðum laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., einkum 1. og 3. mgr. 24. gr. laganna er varða skilyrði og framkvæmd lögbanns og atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Krafa varnaraðila um málskostnað grundvallast á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990 og 91. gr. laga nr. 90/1989. Gerð er krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu varnaraðila til að standa skil á virðisaukaskatti af málflutningsþóknun lögmanns en varnaraðili er ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn að fá virðisaukaskatt tildæmdan úr hendi sóknaraðila. Um skyldu til greiðslu virðisaukaskatts vísar varnaraðili að öðru leyti til ákvæða laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV.

                Undir rekstri málsins fyrir dómi hafa málavextir skýrst. Sumarið 2011 keypti félagið SF ll slhf. hlut í varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. og eftir það átti SF ll slhf. 51% í félaginu á móti  sóknaraðila Egus Inc. sem hélt á 49% hlut. Af því tilefni gerðu þessir tveir eigendur varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. með sér hluthafasamkomulag 9. ágúst 2011 þar sem m.a. var kveðið á um í grein 4.2 að samþykki fjögurra stjórnarmanna þurfi til að gera „samninga við hluthafa eða aðra aðila sem þeim eru skyldir eða tengdir, s.s. vegna eignarhalds eða stjórnunar.“

                Varnaraðili Bjarney Harðardóttir er rekstrarhagfræðingur að mennt og með áratuga reynslu af markaðsmálum, stefnumótun og stjórnun. Hún er sambýliskona Helga Rúnars Óskarssonar forstjóra varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. Gerður var tímabundinn ráðningarsamningur við varnaraðila Bjarneyju á árinu 2011 og rann sá samningur út í árslok. Á stjórnarfundi í varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. 16. desember 2011 synjaði stjórn félagsins um framlengingu ráðningarsamningsins við varnaraðila Bjarneyju. Tillaga um nýjan samning við hana var einnig felld á stjórnarfundi 12. mars 2012 en eins og áður sagði þurfti samþykki fjögurra stjórnarmanna félagsins til þessarar ákvörðunar sem ekki fékkst.

                Vorið 2012 réð varnaraðili Bjarney sig til auglýsingastofunnar Jónsson & Le´macks ehf. sem hafði sinnt markaðsmálum varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. með hléum allt frá 2003. Þar var henni falið að vinna áfram að verkefnum í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. Enginn samningur er í gildi milli varnaraðila Bjarneyjar og varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og hún hefur ekki þegið greiðslu frá félaginu eftir að hún lauk þar störfum ef frá eru taldar greiðslur vegna stjórnarsetu sem hún lét af 25. mars 2012.

                Samstarfs- og viðskiptasamningur varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og Jónsson & Le´macks ehf. er dagsettur 1. mars 2012. Fram kemur í honum að um tilraunasamstarf sé að ræða sem felist í því að Jónsson & Le´macks ehf. yfirtaki alfarið umsjón með öllum markaðsmálum varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. Segir jafnframt í samningnum að starfsmenn Jónsson & Le´macks ehf. skuli kynna sig sem starfsmenn varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. gagnvart birgjum og viðskiptavinum og nota netföng varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. Þá er kveðið á um trúnaðar-og þagnarskyldu starfsmanna auglýsingastofunnar um hagi varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf.

                Ljóst er af framansögðu að varnaraðili Bjarney starfar ekki lengur hjá varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. heldur vinnur hún hjá markaðs- og auglýsingastofunni Jónsson & Le´macks  ehf. og þiggur þar laun. Ákvæði greinar 4.2 í hluthafasamkomulaginu um að ekki megi gera samning við aðila sem eru skyldir eða tengdir á því ekki við í málinu þar sem enginn samningur hefur verið gerður af hálfu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. við varnaraðila Bjarneyju. Störf varnaraðila Bjarneyjar í þágu varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar byggjast alfarið á samningi auglýsingastofunnar við félagið.

 Í 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl. segir í 1. mgr. að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði hann knúinn til að bíða dóms um þau.

                Vinnusamband varnaraðila Bjarneyjar og auglýsingastofunnar Jónsson & Le´macks ehf. getur ekki talist athöfn sem raskar lögvörðum rétti sóknaraðila með þeim hætti að lögbanni verði beitt. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hagsmunir hans muni fara forgörðum enda þótt hann þurfi að bíða dómsúrlausnar um vernd þeirra.

                Samkvæmt framansögðu verður kröfu sóknaraðila hafnað um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði um að hafna því að leggja lögbann við því að varnaraðili Sjóklæðagerðin hf. nýti starfskrafta varnaraðila Bjarneyjar, beint eða óbeint, eða láti henni í té tæki, aðstöðu, síma, tölvu, netfang eða annan búnað sem gerir henni kleift að hafa afskipti af, taka þátt í að stjórna daglegri starfsemi varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. eða dótturfélaga þess. Þá er því einnig hafnað að lagt verði lögbann við því að varnaraðilinn Bjarney hafi samband við viðskiptamenn varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. eða starfsmenn þeirra í nafni félagsins.

                Eftir þessari niðurstöðu verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. 350.000 krónur í málskostnað og varnaraðila Bjarneyju 439.250 krónur en í því tilviki er virðisaukaskattur meðtalinn.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, Egus Inc., um að lagt verði fyrir sýslumanninn í Hafnarfirði að leggja lögbann við því að varnaraðilinn Sjóklæðagerðin hf. hagnýti sér með nokkrum hætti beint eða óbeint starfskrafta varnaraðilans Bjarneyjar Harðardóttur, láti henni í té tæki, aðstöðu, síma, tölvu, netfang eða nokkurn annan búnað sem gerir henni kleift að hafa afskipti af, taka þátt í að stjórna daglegri starfsemi varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. eða dótturfélaga þess. Einnig er hafnað kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumanninn í Hafnarfirði að leggja lögbann við því að varnaraðilinn Bjarney Harðardóttir hafi samband við viðskiptamenn varnaraðila Sjóklæðagerðarinnar hf. og/eða starfsmenn þeirra í nafni félagsins.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila Sjóklæðagerðinni hf. 350.000 krónur í málskostnað og varnaraðila Bjarneyju 439.250 krónur í málskostnað.