Hæstiréttur íslands
Mál nr. 695/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 8. desember 2009. |
|
Nr. 695/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. desember 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún þess að hún verði ekki látin sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 11. desember 2009 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að hann hafi undanfarið rannsakað ætlað mansal og milligöngu um vændi, upphaflega á grundvelli ítrekaðra upplýsinga þess efnis að kærða flytji stúlkur til landsins, geri þær út til vændis og taki hluta hagnaðarins af þeim.
Fyrr á þessu ári hafi kærða verið til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um innflutning fíkniefna og mansal. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-676/2009, uppkveðnum 1. desember sl., hafi hún verið sakfelld fyrir innflutning fíkniefna og hagnýtingu vændis, en sýknuð af ákæru um mansal.
Í októbermánuði sl. hafi lögreglu ítrekað borist nafnlausar ábendingar þess efnis að nokkrar konur stunduðu vændi á heimili kærðu að A og að þjónustan væri auglýst á internetinu. Lögreglan hafi kannað þessar auglýsingar, en í þeim séu myndir af hálfnöktum konum og vísbendingar um að hægt sé að hringja í símanúmer þeirra til að fá kynlíf.
Þá hafi lögreglu borist upplýsingar um komu nokkurra kvenna til landsins og bendi rannsókn málsins til þess að þær séu komnar hingað til lands til að stunda vændi á vegum kærðu.
Einnig hafi komið í ljós að sérstakt húsnæði hafi verið tekið á leigu undir vændisstarfsemi kærðu.
Fyrir nokkru hafi lögreglan tekið framburðaskýrslu af konu sem hafi komið hingað til lands til að stunda vændi á vegum kærðu og hafi hún lýst bágum aðstæðum.
Á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness hafi farið fram húsleitir 3. desember sl. á heimili kærðu, í bifreið hennar og á B. Kærða hafi verið handtekin sama dag og yfirheyrð í kjölfarið. Hún hafi neitað sök. Aðrir meintir samverkamenn kærðu hafi einnig verið handteknir vegna málsins.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur lögreglan að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærða flytji konur hingað til lands, geri þær út til vændis og taki hluta hagnaðarins hjá þeim sér til viðurværis.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Enn eigi eftir að yfirheyra nokkrar konur sem taldar eru hafa stundað vændi á vegum kærðu, þ.e. brotaþolana í málinu. Einnig sé nauðsynlegt að yfirheyra sakborninga aftur og yfirheyra önnur hugsanleg vitni. Þá þurfi einnig að rannsaka önnur gögn, svo sem tölvur, símagögn, bankagögn o.fl., sem varpað geti skýrara ljósi á atvik. Að mati lögreglu má ætla að ef kærða verði látin laus muni hún eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að tala við samverkamenn sína og/eða vitni í málinu og reyna að hafa áhrif á framburð þeirra. Þá kunni hún að reyna að koma undan gögnum sem hafi sönnunargildi í málinu. Lögregla telur það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til að koma í veg fyrir að kærða geti spillt rannsókn málsins.
Sakarefni málsins er talið varða við 227. gr. a og 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur fangelsi allt að 8 árum ef sök sannast. Að mati lögreglu er fram kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi gerst sek um háttsemi sem getur varðað fangelsisrefsingu. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærða undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka og vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærða, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 11. desember 2009 kl. 16:00.
Þá skal kærða sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.