Hæstiréttur íslands
Mál nr. 250/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 2. júlí 2003. |
|
Nr. 250/2003. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103 gr. laga nr. 19/1991
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2003.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með skírskotun til b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, til þriðjudagsins 8. júlí 2003, kl. 11:00 f.h.
Við fyrirtöku málsins mótmælti ákærði kröfu um gæsluvarðhald. Hann vilji frekar að beitt verði úrræði, skv. 110. gr. laga nr. 19/1991 þar til dómur gengur í málinu. Af hálfu fulltrúa ríkissaksóknara er lagst gegn því að beitt verði vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi, sbr. ákvæði 110. gr. laga nr. 19/1991.
[...]
Um lagarök hefur af hálfu ríkissaksóknara verið vísað til b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eins og áður segir.
Brot þau sem ákærða eru gefin að sök geta varðað allt að 12 ára fangelsi skv. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001.
Það er álit dómara að ekki sé varlegt að treysta á vægara úrræði en gæsluvarðhald, svo að nærvera ákærða verði tryggð, svo sem farbann skv. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Að öllu þessu virtu verður fallist á kröfu ríkissaksóknara með vísan til þeirra raka sem sem hann hefur sett fram í kröfu sinni. Fellst dómari því á að ákvæði b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 eigi við í málinu.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákærði, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 8. júlí 2003 klukkan 11:00 f.h.