Hæstiréttur íslands

Mál nr. 416/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf


Föstudaginn 2

 

Föstudaginn 2. nóvember 2001.

Nr. 416/2001.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Vitni. Skýrslugjöf.

Af hálfu Y, ætlaðs brotaþola í máli ákæruvaldsins gegn X, sem sakaður var um kynferðisbrot, var þess krafist að hafnað yrði kröfu verjanda ákærða um að Y yrði gert skylt að koma fyrir dóm sem vitni. Með því að 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999, þótti ekki eiga við þar sem Y var orðin 19 ára gömul, var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að henni væri skylt að koma fyrir dóminn sem vitni, enda yrði X gert að víkja úr þinghaldinu á meðan skýrslan væri tekin.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Skipaður réttargæslumaður Y skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2001, sem barst réttinum 31. sama mánaðar ásamt kærumálsgögnum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2001, þar sem Y var gert skylt að koma fyrir dóm sem vitni í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærandi krefst þess að dæmt verði að henni sé ekki skylt að kom fyrir dóm sem vitni í málinu.

Hvorki sóknaraðili né varnaraðili  hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Við rannsókn málsins var fyrir dómi tekin skýrsla af kæranda með heimild í a. lið 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, en þá hafði hún ekki náð 18 ára aldri.  Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999, skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst þess. Ef um er að ræða brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um kynferðisbrot, og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telja sérstaka ástæðu til þess. Kærandi máls þessa er 19 ára gömul og verjandi ákærða, sem sakaður er um kynferðisbrot, hefur krafist þess að hún verði yfirheyrð á ný við aðalmeðferð málsins. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

D ó m s o r ð:

         Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2001.

Málavextir eru þeir að hinn 17. þessa mánaðar hófst aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn X, en honum eru gefin að sök tiltekin brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga.  Annar ætlaðra brotaþola í málinu, Y, er á vitnalista ákæruvaldsins, en samkvæmt yfirlýsingu ákæruvaldsins er Y leidd sem vitni til að unnt verði að spyrja hana um önnur atriði en þau sem snerta ætluð brot sem hún hafði orðið fyrir og einn ákæruliðurinn tekur til.

                Réttargæslumaður Y, Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður, krefst þess f.h. Y að því verði hafnað að hún verði leidd fyrir dóminn sem vitni.  Aðalmálsástæða fyrir kröfunni er sú að tekin hafi verið skýrsla af Y fyrir dómi á rannsóknarstigi málsins, sbr. a-lið 74. gr. laga nr. 19/1991, hér á eftir skammstafað oml. Til nánari rökstuðnings er vísað til reglugerðar nr. 4/1999, einkum 13., 15. og 16. gr.  Verði niðurstaðan sú að Y verði gert að koma fyrir dóminn þá er þess krafist með vísan til 6. mgr. 59. gr.  oml., að ákærða verði gert að víkja frá á meðan skýrslutakan fer fram þar sem Y treysti sér ekki til að gefa skýrslu að ákærða viðstöddum.

                Þorvaldur Jóhannesson héraðsdómslögmaður, verjandi ákærða, krefst þess fyrir hans hönd að Y verði kvödd fyrir dóminn sem vitni og að hafnað verði kröfunni um að ákærða verði gert að víkja úr réttarsalnum á meðan tekin verður af henni vitnaskýrsla.

                Ákæruvaldið tekur ekki afstöðu til framkominnar kröfugerðar.

 

                Niðurstaða

                Samkvæmt a-lið 1. mgr. 74. gr. a oml., sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 skal taka skýrslur af brotaþola fyrir dómi þegar um er að ræða rannsókn á brotum gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri er rannsókn hefst hjá lögreglu.  Undir rannsókn máls þessa var því tekin vitnaskýrsla af Y fyrir dómi, enda hafði hún ekki náð 18 ára aldri. 

                2. mgr. 48. gr. oml. hljóðar svo:  ,,Dómara er heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað skv. 74. gr. a og 105. gr.  Þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð ef þess er kostur og annar hvor málsaðili krefst eða dómari telur annars ástæðu til.  Ef um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri skal hann þó ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til.”

                Samkvæmt meginreglu 1 mgr. 49. gr. oml. er öllum skylt að koma fyrir dóm í opinberu máli.  Dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. oml.  Undantekning frá þessari meginreglu er sú að brotaþoli yngri en 18 ára þarf ekki að koma fyrir dóm undir aðalmeðferð máls er svo stendur á eins og lýst er í 2. mgr. 48. gr. oml. og rakið var að ofan og skýrslutaka af brotaþola fyrir dómi undir rannsókn máls er þannig í raun hluti af aðalmeðferð máls. Undantekningarákvæði þetta er sett til hlífðar brotaþolum, sem ekki hafa náð 18 ára aldri.  Samkvæmt gagnályktun frá 2. mgr. 48 gr. oml. telur dómurinn því að frá 18 ára aldri hvíli almenn vitnaskylda á brotaþola, sem talið er að hafi orðið fyrir einhverju þeirra brota sem lýst er í XXII. kafla almennra hegningarlaga.

                Y er 19 ára gömul. Með vísan til alls sem að ofan greinir telur dómurinn að á henni hvíli almenn vitnaskylda og ber henni því að koma fyrir dóm til vitnisburðar.

                Samkvæmt 6. mgr. 59. gr. oml. getur dómari ákveðið að sakborningi verði vikið úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis er tekin, ef þess er krafist og dómari telur að nærvera sakbornings geti orðið vitninu sérstaklega til þyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess. 

Fyrir liggur að Y treysti sér ekki til að bera vitni að ákærða viðstöddum.  Áralöng dómaframkvæmd er fyrir því að ákærði víki frá ýmist sjálfviljugur eða að honum sé gert að víkja frá á grundvelli 6. mgr. 59. gr. oml. er skýrsla er tekin af vitni og aðstæður eru með líkum hætti og í þessu máli. Verjandi ákærða er viðstaddur skýrslutökuna og ákærða er kynntur vitnisburður eftir á. Eins og afstöðu Y er háttað verður ekki annað ráðið en að nærvera ákærða geti haft þau áhrif á vitnisburð hennar, sem lýst er í 6. mgr. 59. gr. oml.  Samkvæmt því þykir rétt að verða við kröfu hennar og gera ákærða að víkja úr þinghaldi á meðan skýrsla er tekin af henni.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Y er skylt að koma fyrir dóm sem vitni í málinu nr. S-1390/2001. 

Ákærða, X, er gert að víkja úr þinghaldinu á meðan vitnaskýrsla er tekin af Y.