Hæstiréttur íslands
Mál nr. 848/2016
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Matsgerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Símon Sigvaldason dómstjóri.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2016. Hann krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnsins A, en til vara að forsjáin verði sameiginleg en að lögheimili barnsins verði hjá sér og gagnáfrýjanda gert að greiða meðlag með því. Í báðum tilvikum krefst hann þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði upphaflega fyrir sitt leyti 8. mars 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu gagnsakar 5. apríl sama ár og gagnáfrýjaði hún öðru sinni 6. þess mánaðar. Hún krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði að fjárhæð 2.704.905 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þau benda til þess að ekki hafi orðið neinar verulegar breytingar frá því að héraðsdómur gekk og að samskiptavandi foreldranna varðandi umgengni stúlkunnar sé enn fyrir hendi.
Í hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var lagt heildarmat á aðstæður stúlkunnar og foreldra hennar og skipun forsjár og umgengnisréttar á þann veg sem best var talinn samræmast hag þeirra og þörfum. Eru ekki efni til að hnekkja þessu mati héraðsdóms. Á það ber hins vegar að leggja áherslu, að aðilar láti togstreitu í samskiptum sínum ekki bitna á barninu og það fái að njóta eðlilegrar umgengni við föður sinn.
Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt þykir að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Aðaláfrýjandi, M, greiði gagnáfrýjanda, K, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 26. október sl., var þingfest fyrir dóminum 17. desember 2015.
Stefnandi er M, [...], [...], en stefnda er K, [...], einnig í [...].
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að honum verði falin óskipt forsjá barnsins A, kt. [...], og að stefndu verði gert að greiða með barninu einfalt meðlag til fullnaðs átján ára aldurs þess. Til vara er þess krafist að aðilar fari áfram með sameiginlega forsjá barnsins, en að lögheimili þess verði hjá stefnanda og að stefndu verði þá gert að greiða með barninu einfalt meðlag til fullnaðs átján ára aldurs. Í báðum tilvikum er þess krafist að dómurinn ákveði inntak umgengnisréttar barnsins við það foreldri sem ekki fær forsjá eða lögheimili. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að skaðlausu að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefnda krefst þess að kröfu stefnanda um forsjá, lögheimili og meðlag verði hafnað, en að henni verði þess í stað falin forsjá dótturinnar A, og að lögheimili hennar verði áfram hjá stefndu. Til vara er þess krafist að forsjá stúlkunnar verði áfram sameiginleg og að lögheimili hennar verði áfram hjá stefndu. Einnig er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu einfalt meðlag með dótturinni, eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs. Þá krefst stefnda þess að dómurinn ákveði inntak umgengni þess foreldris sem ekki fær forsjá stúlkunnar. Loks krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í greinargerð stefndu er þess enn fremur krafist að dómurinn úrskurði um forsjá til bráðabirgða á meðan málið er rekið fyrir dómi, sem og um umgengni til bráðabirgða. Undir rekstri málsins krafðist stefnandi þess einnig að honum yrði til bráðabirgða falin forsjá stúlkunnar. Kröfum beggja aðila þessa efnis var hafnað af dóminum.
Málsatvik
Stefnandi í máli þessu er fæddur og uppalinn í [...], en kom fyrst hingað til lands árið 2002. Árið 2005 settist hann hér að og hóf þá sambúð með stefndu. Í júní 2011 eignuðust þau dótturina A. Stefnandi starfar sem sjálfstætt starfandi [...] og segist starfs síns vegna ekki þurfa að hafa fasta búsetu þar sem hann vinnur hverju sinni. Hann kveðst í nánustu framtíð munu búa áfram á Íslandi og vinna að verkefnum hér á landi og erlendis. Vinnu sinnar vegna þarf hann þó að ferðast til útlanda á 4 til 6 vikna fresti og dvelur þá að jafnaði í viku í senn, oftast þó skemur. Verkefnin eru á hinn bóginn árstíðabundin, mest er að gera á vorin og haustin, en lítið á veturna og sumrin. Kveðst hann skipuleggja ferðalög sín með góðum fyrirvara, í samráði við umboðsmann sinn, og hafi hann þá hagsmuni fjölskyldunnar að leiðarljósi.
Samkvæmt gögnum málsins er fjárhagsstaða stefnanda góð, hann rekur fyrirtæki hér á landi utan um vinnu sína [...], og skilar það góðum hagnaði ár hvert. Þá á hann húseignina að [...] hér í borg, sem hann keypti ásamt stefndu meðan á sambúð þeirra stóð. Býr stefnandi þar ásamt núverandi sambýliskonu sinni og ársgamalli dóttur þeirra.
Stefnda er fædd og uppalin í [...], en kom fyrst til Íslands árið 1999. Þá dvaldi hún hér samfellt í eitt ár, en settist að árið 2004. Sama ár eignaðist hún dóttur, B, með þáverandi sambýlismanni sínum. B er nú tólf ára gömul.
Stefnda hefur um átta ára skeið rekið eigið fyrirtæki [...] og síðustu sex ár [...]. Segir hún fyrirtækið ganga vel og því geti hún greitt sér hærri laun en meðallaun. Hjá henni starfi að jafnaði 4-5 starfsmenn. Auk starfa við fyrirtækið sinnir stefnda [...]. Nýverið festi hún kaup á 90 fm íbúð að [...], en áður bjó hún í leiguhúsnæði með dætrum sínum tveimur. Í júní síðastliðnum eignaðist stefnda þriðju dóttur sína, en stefnda og faðir stúlkunnar höfðu ekki hafið sambúð þegar slitnaði upp úr sambandi þeirra.
Í október 2012 lauk stormasamri sambúð stefnanda og stefndu. Í kjölfarið deildu þau hatrammlega um skipti eigna og umgengni dótturinnar, en einnig um umgengni stefnanda við eldri dóttur stefndu. Í október 2013 gerðu þau með sér samning um forsjá, lögheimili, meðlag og umgengni við A. Samkvæmt honum voru aðilar sammála um sameiginlega forsjá dótturinnar og að lögheimili hennar skyldi vera hjá móðurinni, stefndu. Faðir féllst á að greiða meðlag með barninu, svo og leikskólagjöld, en öll meiri háttar útgjöld, svo sem tannlæknakostnaður og útgjöld vegna tómstunda, áttu að greiðast að jöfnu af foreldrum, enda lægi fyrir samþykki beggja áður en stofnað yrði til þeirra. Þá var samkomulag um að stúlkan dveldi að jöfnu hjá foreldrum sínum, viku og viku í senn. Jafnframt var þar kveðið á um umgengni um páska, jól og áramót og í sumarleyfi aðila. Loks segir þar eftirfarandi: „Samkomulag er um að geti foreldri ekki sinnt umgengnisviku sinni skuli það tilkynna hinu foreldrinu um það með minnst 30 daga fyrirvara. Jafnframt er samkomulag um að foreldri sem ekki getur annast barnið á umgengnistíma leiti fyrst til hins foreldris varðandi umönnun þess áður en leitað er til þriðja aðila. [...] Þá er samkomulag um að barnið megi ferðast til útlanda með foreldri sínu í jóla-, páska-, vetrar- eða sumarleyfi. Foreldrar láti vita með að minnsta kosti 30 daga fyrirvara standi til að fara utan í leyfi með barnið.“
Samkomulag þetta var staðfest af Sýslumanninum í Reykjavík í nóvember 2013.
Í stefnu segir að stefnandi hafi að stærstum hluta sinnt uppeldi og umönnun A allan sambúðartíma aðila, en jafnframt gengið eldri dóttur stefndu í föðurstað. Einnig er þar fullyrt að eftir sambandsslit hafi A verið mun meira í umgengni og umsjá stefnanda en stefndu. Í greinargerð stefndu er því hins vegar haldið fram að stefnandi hafi alfarið stjórnað fyrirkomulagi á umgengni eftir því sem hentaði honum hverju sinni, ýmist vegna ferða hans til heimalands síns eða vegna vinnuferða. Af fjölmörgum gögnum málsins má ráða að báðir aðilar saka hvort annað um brot á áður gerðum umgengnissamningi. Lýsa gögnin djúpstæðum ágreiningi milli aðila, reiði, tortryggni og ósætti þeirra vegna umgengni stúlkunnar við hvort foreldri. Ganga þar á víxl ásakanir af ýmsu tilefni sem ekki þykir þó ástæða til að fjölyrða hér um.
Sumarið 2015 magnaðist ágreiningur aðila um umgengni dóttur þeirra. Vildi stefnda þá breyta umgengni í þá veru að telpan dveldi hjá föður sínum frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja helgi í stað jafnrar umgengni, viku og viku í senn, eins og um hafði verið samið. Taldi stefnda sér ekki lengur fært að koma til móts við síbreytilegar þarfir stefnanda, enda þyrfti telpan fyrst og fremst reglu og festu í lífi sínu. Stefnandi vildi ekki ganga að þessu, en óskaði þess í stað eftir óbreyttri skipan á umgengni eða að hún yrði ákveðin í samræmi við þarfir barnsins hverju sinni. Sáttameðferð hjá sýslumanni í nóvember 2015 bar ekki árangur. Í sáttavottorði kemur fram að foreldrar hafi mætt í eitt viðtal og hafi stefnda ekki talið forsendur fyrir frekari sáttameðferð. Stefnandi hafi á hinn bóginn viljað halda áfram sáttameðferð. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta og gerði þær kröfur sem að ofan greinir.
Í þinghaldi í máli þessu 12. febrúar 2016 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns, þar sem þess var óskað að matsmaður legði mat á aðstæður aðila og barnsins, forsjárhæfni aðila, sérstaklega samskiptahæfni, tengsl barnsins við aðila og eðli þeirra tengsla, svo og hvernig best yrði háttað umgengni barnsins við það foreldri sem ekki fengi forsjá eða lögheimili. Loks var þess óskað að metin yrðu tengsl barnsins við systkini.
Að ósk aðila var C sálfræðingur dómkvödd til matsstarfa og er matsgerð hennar dagsett 18. júlí 2016. Matsgerðin er mjög ítarleg og rekur matsmaður þar forsögu málsins, matsferlið, og samtöl sín við aðila og aðra viðmælendur, ásamt því að gerð er grein fyrir niðurstöðum þeirra sálfræðilegu prófa sem lögð voru fyrir aðila. Í niðurstöðum matsgerðarinnar segir eftirfarandi:
Forsjárhæfni aðila, sérstaklega samskiptahæfni
Eftirtalin sex atriði eru talin vera undirstöður góðrar forsjárhæfni: ást, vernd, öryggi, líkamleg umönnun, atlæti, örvun, hvatning, stuðningur og fyrirmynd. Matsmaður álítur báða foreldra uppfylla með góðum hætti ofangreinda þætti. Báðir foreldrar sýna barni sínu ástríki og eru hlýlegir í samskiptum við það. Báðir foreldrar sýna staðfestu og stöðugleika og taka ábyrgð á barninu og verja það hættum. Líkamleg umönnun barnsins er mjög góð hjá báðum foreldrum og góðar aðstæður eru á heimilum þeirra. A nýtur sérlega góðrar örvunar og hvatningar hjá foreldrum sínum og telpan ber þess vitni. Báðir foreldrar eru metnaðarfullir í starfi og eiga innihaldsrík áhugamál sem er hollt og gott að hafa fyrir barni. Matsmaður telur báða foreldra búa yfir mjög góðri forsjárhæfni.
Einnig þarf að líta til persónulegra eiginleika foreldra þegar mat er lagt á forsjárhæfni þeirra. Það er ekkert í persónugerð M og K sem ætti að koma í veg fyrir að þau geti ræktað foreldraskyldur sínar. Sálfræðileg próf leiða í ljós að M og K eru ekki haldin neinum geðrænum vanda heldur búa þau bæði yfir góðum sjálfstyrk. Í viðtölum við þau bæði og þegar lífshlaup þeirra er skoðað er margt sem er líkt með þeim að mati matsmanns. Bæði hafa þau kosið að flytja frá ættjörð sinni og setjast að á Íslandi þar sem þau hafa komið sér vel fyrir. Það þarf ýmsa styrkleika til að það geti tekist eins vel og raun ber vitni. M og K eru bæði vel greind, kjarkmikil, sjálfstæð, lausnarmiðuð og félagslega sterk. Samskiptahæfni þeirra beggja er góð ef litið er til þess hversu vel þau hafa aðlagast hér á landi og myndað varanleg vinatengsl. Þau búa yfir eiginleikum sem þarf til að ná samkomulagi um hvernig hagsmunum A sé best borgið. Vonbrigði og sársauki í sambandi þeirra og sambandsslitum hefur birgt þeim sýn og gert þeim erfitt fyrir að standa saman sem foreldrar. Það hefur m.a. birst í alvarlegum ásökunum á báða bóga um líkamlegt harðræði sem matsmanni finnst ekki sérstaklega trúverðugt. Jafnframt hefur það birst í ósveigjanleika þeirra varðandi umgengni A við þau og á það sérstaklega við um móður. Matsmaður álítur að æskilegast væri að þau M og K færu áfram sameiginlega með forsjá A að því gefnu að þau færu í ráðgjöf þar sem væri unnið á lausnamiðaðan hátt að því að festa niður fyrirkomulag á umgengni, allt með hagsmuni A að leiðarljósi.
Tengsl barnsins við aðila og eðli þeirra tengsla
Út frá frásögnum aðila og athugun virðast tengsl A við foreldra vera heilbrigð og góð. A virkaði örugg í návist þeirra og var einkennandi fyrir samskiptin að báðir foreldrar sýndu henni virka svörun, þolinmæði og leiðsögn. Tengslamyndun A, eins og hún birtist matsmanni, ber vott um að hún hafi hlotið viðeigandi örvun, ást og umhyggju frá fæðingu. Barn sem finnur fyrir virkri svörun uppalenda og finnur að þörfum þess sé mætt lærir smám saman að það getur treyst umhverfinu. Þessir þættir eru sýnilegir í fari A og birtast í samskiptum hennar við foreldra, auk þess sem umsögn frá leiksólakennurum staðfestir það.
Tengsl barnsins við systkini
A á þrjár systur, tvær móðurmegin og eina föðurmegin. Tvær yngri systur hennar eru innan við eins árs gamlar og tenging við þær tekur mið af þeim aldri og virðist vera eðlileg. Öðru máli gegnir um tengsl A við eldri systur hennar sem er tæplega 12 ára gömul og þær alltaf fylgst að. Ljóst er að samband þeirra er náið og þrátt fyrir aldursmun ná þær saman í leik og sú eldri finnur til eðlilegrar ábyrgðar gagnvart þeirri yngri.
Hvernig best verði háttað umgengni barnsins við það foreldri sem ekki fær forsjá eða lögheimili
Báðir foreldrar eru hæfir foreldrar og A er vel tengd báðum foreldrum sínum og því mikilvægt að henni verði gert kleift að umgangast þau bæði eins ríkulega og tök eru á. Burtséð frá því hvort foreldri fer með forsjá er ljóst að umgengnissamningur verður að taka mið af óhefðbundnum vinnutíma föður til að A eigi þess kost að eiga góða umgengni með honum. Það mun reyna á sveigjanleika móður sem hún sýndi lengst framan af eftir sambúðarslit.
Við aðalmeðferð málsins gaf matsmaður skýrslu fyrir dóminum, greindi þar frá niðurstöðum sínum, rakti efnistök og svaraði spurningum aðila og dómara. Ítrekað aðspurð kvaðst matsmaðurinn hvorki vilja né geta gert upp á milli foreldra, enda væru þau bæði mjög hæfir foreldrar. Þá tók matsmaðurinn fram að hún óttaðist að það þjónaði ekki hagsmunum barnsins ef annað foreldra fengi fulla forsjá þess. Gæti hitt þá komið í veg fyrir ríkulega umgengni eða hunsað óskir þess sem ekki færi með forsjána. Betra væri ef forsjáin yrði áfram sameiginleg og að aðilar kæmu sér saman um umgengni dótturinnar við þau.
Auk matsmannsins gáfu aðilar málsins skýrslu fyrir dóminum, svo og vitnin D, sambýliskona stefnanda, Valgeir Sigurðsson, samstarfsmaður stefnanda, og E, fyrrverandi sambýlismaður stefndu og faðir elstu dóttur hennar, B.
Dómurinn leitaði ítrekað eftir vilja aðila til sátta og bauð þeim einnig til sáttamiðlunar, en án árangurs. Þrátt fyrir varakröfu beggja málsaðila um áframhaldandi sameiginlega forsjá yfir dótturinni, telja þeir forsendur þess fyrirkomulags með öllu brostnar. Kemur sú afstaða þeirra fram bæði í stefnu og greinargerð, og var einnig ítrekuð við munnlegan flutning málsins.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfu sína um forsjá á því að það sé barninu fyrir bestu að hann fari með forsjá stúlkunnar. Hafi hann í reynd farið með fulla forsjá barnsins frá sambúðarslitum aðila og felist krafa hans í því að lagaleg staða hans gagnvart dóttur sinni verði færð til bókar í samræmi við framkvæmd síðustu ára. Ástæða þess að hann fari ekki aðeins fram á lögheimilisbreytingu heldur og fulla forsjá sé sú að stefnda hafi undanfarin fjögur ár reynst ófær um að eiga í þeim samskiptum við stefnanda sem sameiginleg forsjá geri ráð fyrir. Hún hafi sýnt velferð stúlkunnar takmarkaðan áhuga og oft hafi liðið mánuðir milli þess sem hún átti í samskiptum við hana. Að mati stefnanda hafi stefnda aðeins látið sig velferð stúlkunnar varða þegar hún hafi átt í lagalegum deilum við stefnanda eða verið honum ósátt. Aukinheldur telur stefnandi stefndu lítt færa um að leggja reiði sína og ósætti í garð hans til hliðar. Stefnandi hafi ítrekað reynt að bæta samskipti sín við stefndu, en ekki haft erindi sem erfiði. Byggir hann á því að stefnda hafi lítt skeytt um hagsmuni barnsins og forsaga málsins sýni að sátt milli þeirra muni ekki nást. Því séu ekki lengur til staðar skilyrði fyrir sameiginlegri forsjá þeirra.
Stefnandi vísar til þess að stúlkan hafi notið umönnunar hans nánast óslitið frá fæðingu og sé hún bæði vön honum og háð, auk þess að vera tengdari honum en öðrum. Hann hafi lagt mikla áherslu á líkamlegt og tilfinningalegt öryggi stúlkunnar og að regla sé á lífi hennar. Þar sem stór hluti fjölskyldu stúlkunnar sé búsettur erlendis hafi stefnandi lagt mikla áherslu á að viðhalda tengslum hennar við fjölskylduna og styrkja eftir megni. Þannig sendi hann reglulega myndir til fjölskyldunnar og frá upphafi hafi stúlkan verið í samskiptum við móður hans í gegnum „skype“, þrisvar sinnum í viku hið minnsta. Þá haldi hann við reglulegum samskiptum hennar við aðra ættingja á sama hátt. Stefnda hafi á hinn bóginn ítrekað lagt stein í götu góðra samskipta. Hún hafi tilhneigingu til þess að líta á alla aðra en foreldrana sem þriðja aðila í lífi stúlkunnar og oftar en ekki reynt að halda þeim utan þess. Þá veiti hún sinni fjölskyldu litlar upplýsingar um stúlkuna og sendi henni sjaldan myndir. Heldur stefnandi því fram að stefnda hafi bannað fjölskyldu sinni að eiga í samskiptum við stefnanda og hafi fjölskylda hennar ekki séð annan kost en að beygja sig undir vilja hennar.
Stefnandi vísar enn fremur til þess að stúlkan hafi búið á heimili hans frá unga aldri en þar búi hún við festu og öryggi. Hún eigi sitt eigið herbergi og húsið sé nálægt leikskóla hennar. Stefnandi og sambýliskona hans vinni alla jafnan ekki eftir að leikskóla ljúki eða um helgar og dagskráin fari því sjaldan úr skorðum. Stefnandi eyði miklum tíma með stúlkunni, til dæmis fari hann oft í viku með hana í sund og því sé hún orðin flugsynd. Þau ferðist mikið og njóti þess að eiga gott og eðlilegt fjölskyldulíf. Stúlkan búi við fjárhagslegt öryggi hjá stefnanda og hafi aldrei liðið neinn skort. Fyrir utan stóra fjölskyldu og vini erlendis þá eigi stefnandi og sambýliskona hans gott og þétt vinanet á Íslandi og hafi það reynst þeim mjög vel þegar á hefur reynt. Þá dveljist móðir sambýliskonu hans hér á landi löngum stundum og hafi nú í hyggju að festa kaup á íbúð nálægt þeim svo auðveldara sé fyrir hana að fara á milli.
Stefnandi tekur fram að hann þurfi starfs síns vegna að ferðast reglulega til útlanda. Allar ferðir hans séu þó skipulagðar fram í tímann með hagsmuni fjölskyldunnar í huga og standi þær yfirleitt aðeins í örfáa sólarhringa og oftast líði langur tími á milli þeirra. Þá hafi hann rétt á því að taka fjölskyldu sína með sér. Þannig hafi ferðir hans ekki valdið miklum truflunum á daglegri rútínu og heimilislífi.
Stefnandi segir dóttur sína hafa ferðast mikið allt frá því hún var þriggja mánaða gömul. Hún sé búsett á Íslandi, eigi föður frá [...], móður frá [...] og stjúpmóður frá [...]. Augljóst sé að hún muni halda því áfram. Þetta sé ekki óalgengt í nútímasamfélagi og sé rétt að því staðið ætti það síður en svo að vera andstætt hagsmunum hennar.
Auk ofanritaðs heldur stefnandi því fram að stefnda hafi búið við lítið fjárhagslegt öryggi og stuðningsnet hennar verið takmarkað. Hún hafi alla tíð unnið mikið og iðulega einnig á laugardögum, og stúlkan því oft sett í pössun utan leikskólatíma. Að mati hans yrði aðskilnaður stúlkunnar við hann því þungbærari en gagnvart stefndu og myndi valda henni mun meira óþarfa raski. Auk þess sé stefnda síður hæf til þess að annast barnið, meðal annars vegna alvarlegra skapgerðarbresta og lítillar innsýnar í þarfir þess.
Stefnandi krefst þess að ákveðið verði með dómi hvernig umgengni barnsins verði við það foreldri sem ekki fer með forsjá þess, en stefnandi tekur fram að hann vilji að barnið njóti reglulegrar umgengni við stefndu, eins og þarfir hennar og vilji standi til hverju sinni.
Krafa stefnanda um meðlag byggist á framfærsluskyldu beggja foreldra við barnið og sé fjárhæð kröfunnar miðuð við tekjur stefndu sem stefnandi telji fullnægjandi til greiðslu einfalds meðlags.
Um lagarök, til stuðnings kröfu sinni um forsjá barnsins, meðlag og umgengnis- ákvörðun, vísar stefnandi til ákvæða barnalaga nr. 76/2003, einkum 2. mgr. 34. gr. og um málsmeðferðarreglur til 4. mgr. 36. gr. sömu laga. Um varnarþing er vísað til 115. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kröfu um málflutningsþóknun styður stefnandi við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður stefndu og lagarök
Stefnda telur að forsendur sameiginlegrar forsjár séu brostnar milli aðila og því sé nauðsynlegt að dómur kveði á um að öðrum hvorum aðila verði falin forsjá stúlkunnar. Forsenda sameiginlegrar forsjár sé að foreldrar geti í samvinnu alið önn fyrir barni, en stöðug átök og gríðarleg stjórnsemi stefnanda komi að mati stefndu í veg fyrir að aðilar geti staðið saman að ákvörðunum er varði stúlkuna.
Stefnda byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 beri dómara að láta hagsmuni barnsins ráða við ákvörðun um forsjá þess. Í því samhengi sé vert að benda á greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að gildandi barnalögum, en þar sé getið ýmissa atriða sem taka eigi tillit til við ákvörðun um forsjá barna. Sérstaklega megi þar nefna stöðugleika, en stefnda telur að mun meiri stöðugleiki ríki í lífi hennar en stefnanda. Eins og greina megi í barnalögum sé litið svo á að stöðugleiki og öryggi séu meðal lykilatriða til að tryggja börnum þroskavænleg skilyrði. Í dæmaskyni sé þar rætt um stöðugleika í ytra umhverfi eða aðstæðum barns og hvort líklegt sé að barnið þurfi að flytja úr því umhverfi sem það þekki. Stefnda kveðst verða áfram með fasta búsetu hér á landi ásamt eldri dóttur sinni og sé hér í föstu starfi. Stefnandi ferðist á hinn bóginn mikið og sé þannig mikið fjarverandi, þótt stúlkan sé í umgengni hjá honum. Starfi stefnandi meira á erlendri grundu en hér á landi. Þá sé nauðsynlegt að líta til þess að sambýliskona stefnanda sé erlend leikkona, og telur stefnda litlar líkur á að hún setjist varanlega að hér á landi. Stefnda telur hins vegar ljóst að framtíð hennar og barna hennar sé hér á landi og aðal starfsvettvangur hennar verði sömuleiðis hér.
Stefnda byggir kröfur sínar einnig á því að hún hafi frá fæðingu stúlkunnar verið aðalumönnunaraðili hennar og að þær mæðgur séu mun tengdari tilfinningalega en stefnandi og stúlkan. Þegar stúlkan sé hjá henni sé það hún sem annist hana en ekki aðrir. Þannig sé einnig ljóst að skráning umönnunardaga hjá henni séu skýrlega þeir dagar sem hún annist barnið sjálf en ekki þriðji aðili. Slíku sé augljóslega ekki fyrir að fara hjá stefnanda, en hann sé oft fjarverandi þá daga sem stúlkan sé í umgengni við hann. Því sé alls óljóst hversu mikið hann hafi í raun annast barnið síðustu árin. Þá byggir stefnda einnig á því að samband stúlkunnar við eldri systur sé mjög kærleiksríkt og þær afar hændar hvor að annarri.
Stefnda byggir jafnframt á því að stúlkan sé farin að sýna mjög eindreginn vilja til að vera meira hjá stefndu en stefnanda. Þannig séu skiptidagar milli heimila afar erfiðir þar sem hún bíði allan daginn eftir stefndu, en sé í raun ósátt við að fara í leikskóla þegar hún viti að stefnandi eigi að sækja hana. Kveðst hún hafa þurft að tala stúlkuna inn á að fara í leikskólann þá morgna sem hún veit að stefnandi á að sækja hana.
Stefnda telur stúlkuna þarfnast beggja foreldra sinna og leggi því áherslu á góða umgengni við báða foreldra. Telur hún mikilvægt að umgengni verði í framtíðinni miðuð við þarfir barnsins, en ekki stefnanda, og því verði umgengni miðuð við rúma umgengni aðra hvora helgi, svo meiri líkur séu á því að stefnandi geti staðið við áætlaða umgengni og að minna verði um breytingar, barninu til heilla.
Krafa stefndu um forsjá dóttur sinnar, lögheimili og umgengni er byggð á barnalögum nr. 76/2006, einkum 34. gr., sbr. 28. gr. og 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þá er byggt á barnalögum í heild, svo og meginreglum þeirra og undirstöðurökum. Meðlagskrafan byggist á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 sem og ákvæðum sömu laga um framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. og 6. mgr. 57. gr. þeirra laga. Um málsmeðferð vísast til VI. kafla barnalaga. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er vísað til laga nr. 50/1988.
Niðurstaða
Í máli þessu deila aðilar um forsjá dóttur þeirra, A, sem fædd er [...] 2011. Eins og áður greinir gerðu aðilar málsins með sér samning um forsjá, lögheimili, meðlag og umgengni við stúlkuna [...]. október 2013, sem síðan var staðfestur af Sýslumanninum í Reykjavík í nóvember 2013. Samkvæmt samningnum fóru foreldrar sameiginlega með forsjá dóttur sinnar, en lögheimili hennar skyldi vera hjá stefndu. Báðir gera nú kröfu um að þeim verði falin óskipt forsjá stúlkunnar.
Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 sker dómari úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist. Í 2. mgr. 34. gr. sömu laga segir að dómari kveði á um hvernig forsjá barns eða lögheimili verði háttað eftir því sem barni er fyrir bestu. Meðal þeirra atriða sem líta ber til við mat á því er hæfi foreldra, stöðugleiki í lífi barnsins, tengsl þess við báða foreldra sína, skylda þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hætta á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili þess hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilji barns, að teknu tilliti til aldurs þess og þroska.
Í skýrslu sinni fyrir dómi bar stefnandi að hann þyrfti vinnu sinnar vegna að dvelja erlendis um það bil fjóra daga í mánuði. Vegna þessa kvaðst hann stundum þurfa á hjálp sambýliskonu sinnar að halda þegar A væri í umgengni hjá sér. Þegar hann væri á landinu ynni hann hins vegar mikið heima við og lyki vinnu þegar sækja þyrfti A á leikskóla. Aðspurður taldi hann ekki óeðlilegt að hann ferðaðist mikið með stúlkuna í ljósi þess að hún þekkti vel þá staði sem þau ferðuðust til og þar byggju einnig ættingjar hennar og venslafólk. Þá fullyrti hann að hann og sambýliskona hans hefðu ekki í hyggju að flytja úr landi. Stefnandi kvaðst alltaf hafa verið kurteis í samskiptum sínum við stefndu og að hann hefði sýnt henni sveigjanleika. Stefnda hefði hins vegar kallað hann öllum illum nöfnum. Þá hefði stefnda tálmað umgengni til þess að særa hann. Að mati stefnanda hefði stefnda ekki nægan tíma fyrir barnið. Þó tryði hann því að hún væri að gera sitt besta.
Í máli stefndu fyrir dómi kom fram að A ætti rétt á að umgangast báða foreldra sína. Hún sagðist ósátt við það að stefnandi væri í útlöndum þegar stúlkan væri í umgengni hjá honum. Þegar stefnandi væri ekki á landinu vildi hún hafa A hjá sér, eins og þau hefðu samið um á sínum tíma. Stefnda kvaðst ekki þurfa að fara utan til þess að sinna [...] þar sem hún gæti gert slíkt í gegnum tölvuna heima. Þegar hún færi gætu dætur hennar dvalist hjá foreldrum hennar í [...] meðan hún ynni. Þessar ferðir væru á hinn bóginn færri en tvisvar á ári. Stefnda lýsti stefnanda sem góðum föður og sagði hún A tala vel um hann og að hún elski hann mikið. Hún kvaðst tilbúin til þess að veita stefnanda ríflega umgengni um helgar og í fríum, fengi hún forsjána. Hins vegar kvaðst hún hrædd um að missa A til útlanda, yrði niðurstaðan sú að faðirinn fengi forsjá barnsins. Þá neitaði hún því að hafa tálmað umgengni A við föður sinn, en sagðist hafa haft barnið hjá sér þegar hann hefði ekki verið á landinu.
Eins og áður hefur verið rakið starfar stefnandi sem [...] og býr, ásamt sambýliskonu sinni og dóttur þeirra, litlu systur A, í einbýlishúsi í [...]. Stefnda er [...], en sinnir einnig [...]. Hún er einstæð móðir þriggja dætra og býr ásamt dætrum sínum í íbúð í [...] sem hún festi nýlega kaup á. Dómurinn er sammála niðurstöðu dómkvadds matsmanns um að báðir aðilar séu mjög hæfir og frambærilegir foreldrar og hafi allt til þess að bera til að vera A góð fyrirmynd og geta búið henni góð og þroskavænleg skilyrði. Í matsgerðinni segir einnig að sálfræðileg próf hafi leitt í ljós að hvorugt þeirra sé haldið neinum geðrænum vanda, heldur byggju þau yfir góðum sjálfstyrk. Þau séu bæði vel greind, kjarkmikil, sjálfstæð, lausnarmiðuð og félagslega sterk. Bæði hefðu þau aðlagast hér á landi og myndað varanleg vinatengsl. Er það álit dómsins að ekkert hafi komið fram sem rýrt getur hæfni aðila til þess að sinna andlegum og líkamlegum þörfum barnsins eða að tryggja því þroskavænleg skilyrði.
Í máli þessu hefur verið lagður fram mikill fjöldi gagna um samskipti aðila, ýmist í formi símaskilaboða, tölvuskeyta eða endurrita af samtölum. Eru gögn þessi flest því marki brennd að þau hafa enga þýðingu fyrir úrslit málsins, en endurspegla aðeins djúpstæðan ágreining og ósætti aðila um tilhögun umgengni við telpuna. Virðist aðilum ógjörningur að leggja þann ágreining til hliðar í samskiptum sínum.
Ómótmælt er að A hefur frá sambúðarslitum og fram til sumars 2015 að jafnaði dvalist lengur hjá stefnanda en stefndu. Þá hefur hún í mörg skipti dvalist í lengri tíma erlendis með stefnanda. Frá sumrinu 2015 hefur umgengni stúlkunnar við foreldra sína þó verið nokkuð jöfn og í samræmi við forsjársamning aðila. Frá sambúðarslitum hefur hún haft lögheimili hjá móður sinni, en þar býr einnig eldri systir hennar, B, og nokkurra mánaða gömul yngri systir. Þá á A ársgamla systur á heimili föður. Ekki er um það deilt að A á heilbrigð, innihaldsrík og sterk tengsl við báða foreldra sína og systur, ekki síst eldri systur sína, B, en fram kemur í matsgerð dómkvadds matsmanns að samband þeirra sé náið þrátt fyrir aldursmun, enda hafi þær hafi alltaf fylgst að. Með hliðsjón af þeim góðu tengslum sem A hefur við báða foreldra sína þykir ljóst að verði öðrum aðilanum falin óskipt forsjá telpunnar muni það óhjákvæmilega hafa einhverja röskun í för með sér fyrir hana, þar sem hún mun þá líklega ekki umgangast forsjárlausa foreldrið í jafn ríkum mæli og áður.
Þrátt fyrir eindregna afstöðu matsmanns um að æskilegast væri að foreldrarnir færu áfram með sameiginlega forsjá stúlkunnar telur dómurinn að langvinnar og hatrammar deilur þeirra um umgengni barnsins, ásakanir og tortryggni í hvors annars garð af ýmsu tilefni, ásamt ítrekuðum yfirlýsingum þeirra sjálfra um að allar forsendur fyrir sameiginlegri forsjá séu brostnar, komi í veg fyrir að unnt sé að kveða á um áframhaldandi sameiginlega forsjá þeirra. Í því sambandi er minnt á að forsenda slíks fyrirkomulags er að gott og stöðugt samstarf sé á milli foreldra og að þau sýni hvort öðru sveigjanleika, traust, gagnkvæma virðingu og tillitssemi. Þótt ekkert bendi til þess að ósætti foreldranna hafi hingað til haft slæm áhrif á þroska stúlkunnar eða tilfinningaleg tengsl hennar, telur dómurinn engu að síður að slíkt kunni í náinni framtíð að marka sín spor í uppeldi barnsins og draga úr möguleikum þess til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Þykir því nauðsynlegt að dómurinn kveði á um að annað foreldra fái óskipta forsjá stúlkunnar.
A er nú fimm ára gömul og hefur því nám í grunnskóla næsta haust. Er mikilvægt að ró og festa hafi þá skapast í samskiptum foreldra og umgengni barnsins við þá. Ljóst er að vegna starfs stefnanda og tíðra ferðalaga hans til útlanda hefur hann ekki sömu tækifæri og stefnda til að fylgja eftir reglubundinni skólagöngu telpunnar og búa henni þann stöðugleika, aðhald og eftirfylgni sem henni er nauðsyn við þær aðstæður. Í því ljósi, svo og þegar litið er til þess að lögheimili stúlkunnar hefur verið hjá stefndu frá sambúðarslitum aðila, er það niðurstaða dómsins að fallast beri á aðalkröfu stefndu og fela henni forsjá A til átján ára aldurs hennar. Að áliti dómsins þjónar sú skipan best hagsmunum barnsins, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, um leið og tryggt verður að ekki er raskað nánu og kærleiksríku sambandi stúlkunnar við eldri systur sína, B, sem einnig býr hjá stefndu.
Samkvæmt 5. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. og 2. og 6. mgr. 57. gr. sömu laga, ber dómara að kröfu foreldris að kveða á um meðlag í dómi, enda hafi krafa verið um það gerð. Í samræmi við þetta og þá niðurstöðu að réttast sé að forsjá barnsins verði hjá stefndu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu einfalt meðlag með barninu, eins og það ákvarðast hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, frá dómsuppsögu til fullnaðs 18 ára aldurs þess.
Í máli þessu er einnig gerð krafa um að dómurinn ákveði inntak umgengni þess foreldris sem ekki fær forsjána. Dómurinn telur mikilvægt að A fái að umgangast ríkulega það foreldri sem ekki fer með forsjána og er það einnig í samræmi við niðurstöðu dómkvadds matmanns. Enginn vafi leikur á að samband stefnanda við dóttur sína er náið og er það í þágu hagsmuna barnsins að viðhalda því með eins ríflegri umgengni og kostur er. Um leið er áréttað að stefndu er skylt að sjá til þess að barnið fái að umgangast stefnanda eins og ákveðið er með dómi þessum og kveðið er á um í dómsorði. Samkvæmt því verður umgengni A við stefnanda sem hér segir:
A dvelur hjá stefnanda aðra hverja viku frá fimmtudagssíðdegi til mánudagsmorguns og skal stúlkan sótt og henni skilað í leikskóla/skóla á þeim dögum, í fyrsta sinn 1. desember 2016 til 5. desember 2016.
Á hverju sex vikna tímabili skal A dvelja vikulangt hjá stefnanda, frá kl. 12 á hádegi á laugardegi til kl. 12 á hádegi næsta laugardags. Skal stefnandi sækja stúlkuna á heimili stefndu og stefnda síðan sækja hana að viku liðinni á heimili stefnanda. Stefnandi skal með minnst 30 daga fyrirvara tilkynna stefndu hvaða viku innan hvers sex vikna tímabils hann kjósi að stúlkan dvelji í umgengni hans. Geti stefnandi ekki sinnt umgengni á því tímabili, t.d. vegna vinnu sinnar, fjarveru eða af öðrum ástæðum, fellur umgengni niður þann tíma. Fyrsta sex vikna tímabil af þessu tagi hefst 31. desember 2016.
Í jólaleyfi, frá 20. til 27. desember, og um áramót, frá 28. desember til 2. janúar ár hvert, skal A dvelja til skiptis hjá foreldrum sínum, fyrst hjá stefnanda um komandi jól, en hjá stefndu um áramót, og síðan koll af kolli. Sama fyrirkomulag skal vera um hverja páska, en um páskana 2017 skal stúlkan fyrst dvelja hjá stefndu. Í vetrarleyfum grunnskóla skal A dvelja til skiptis hjá foreldrum sínum nema samkomulag náist um annað.
Í sumarleyfi skal A dvelja hjá stefnanda í fjórar vikur, fyrst frá 20. júlí 2017, en frá 20. júní 2018, og síðan koll af kolli.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.
Með hliðsjón af atvikum öllum og eðli málsins þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Dóm þennan kváðu upp Ingimundur Einarsson dómstjóri, sem dómsformaður, og sálfræðingarnir Guðfinna Eydal og Þorgeir Magnússon.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, K, skal fara með forsjá stúlkunnar A, kt. [...], til átján ára aldurs hennar.
Stefnandi, M, greiði mánaðarlega einfalt meðlag með stúlkunni, eins og það ákvarðast hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins, frá dómsuppsögu til fullnaðs átján ára aldurs hennar.
Umgengni stúlkunnar við stefnanda skal þannig háttað:
A dvelur hjá stefnanda aðra hverja viku frá fimmtudagssíðdegi til mánudagsmorguns og skal stúlkan sótt og henni skilað í leikskóla/skóla á þeim dögum, í fyrsta sinn 1. desember 2016 til 5. desember 2016.
Á hverju sex vikna tímabili skal A dvelja vikulangt hjá stefnanda, frá kl. 12 á hádegi á laugardegi til kl. 12 á hádegi næsta laugardags. Skal stefnandi sækja stúlkuna á heimili stefndu og stefnda síðan sækja hana að viku liðinni á heimili stefnanda. Stefnandi skal með minnst 30 daga fyrirvara tilkynna stefndu hvaða viku innan hvers sex vikna tímabils hann kjósi að stúlkan dvelji í umgengni hans. Geti stefnandi ekki sinnt umgengni á því tímabili, t.d. vegna vinnu sinnar, fjarveru eða af öðrum ástæðum, fellur umgengni niður þann tíma. Fyrsta sex vikna tímabil af þessu tagi hefst 31. desember 2016.
Í jólaleyfi, frá 20. til 27. desember, og um áramót, frá 28. desember til 2. janúar ár hvert, skal A dvelja til skiptis hjá foreldrum sínum, fyrst hjá stefnanda um komandi jól, en hjá stefndu um áramót, og síðan koll af kolli. Sama fyrirkomulag skal vera um hverja páska, en um páskana 2017 skal stúlkan fyrst dvelja hjá stefndu. Í vetrarleyfum grunnskóla skal A dvelja til skiptis hjá foreldrum sínum nema samkomulag náist um annað.
Í sumarleyfi skal A dvelja hjá stefnanda í fjórar vikur, fyrst frá 20. júlí 2017, en frá 20. júní 2018, og síðan koll af kolli.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.