Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-65
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fjöleignarhús
- Sameign
- Viðurkenningarkrafa
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 28. apríl 2023 leita Guðrún Helga Pálsdóttir og Harpa Njálsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. mars 2023 í máli nr. 213/2022: Guðrún Helga Pálsdóttir og Harpa Njálsdóttir gegn Rúnari V. Sigurðssyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að eignarhaldi á bílastæði við tilgreint fjöleignarhús þar sem aðilar eiga eina íbúð hver. Gagnaðili höfðaði mál þetta gegn leyfisbeiðendum til að fá viðurkennt með dómi að bílastæðið væri séreign hans.
4. Héraðsdómur féllst á kröfu gagnaðila og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Leyfisbeiðendur byggðu á því að bílastæðið væri sameign eigenda hússins, enda væri það ekki tilgreint í eignaskiptayfirlýsingu sem séreign. Í dómi Landsréttar kom fram að í gögnum málsins væri fyrst vikið að bílastæðinu í afsali sem gefið var út fyrir hönd þeirra sem byggðu húsið. Landsréttur taldi að slá mætti því föstu að þeir sem reist hefðu húsið og átt það í upphafi hefðu ákveðið að hið umdeilda bílastæði yrði séreignarhluti þeirrar íbúðar hússins sem nú væri í eigu gagnaðila. Enda þótt þá, eða eftir atvikum síðar, hefði farist fyrir að gera lögformlega skiptayfirlýsingu fyrir húsið þar sem bílastæðisins væri sérstaklega getið sem séreignarhluta íbúðarinnar, fengi það ekki hróflað við þeirri ákvörðun eigenda hússins.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið sé fordæmisgefandi um rétthæð eignaskiptayfirlýsingar gagnvart síðari kaupsamningum eða afsölum sem fela í sér frávik frá henni. Þá telja leyfisbeiðendur að málið varði mikilvæga hagsmuni þeirra þar sem þeim hafi verið gert að greiða málskostnað sem sé langt umfram það sem þeir hafi fjárhagslegt bolmagn til að greiða. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur þar sem forsendur hans séu í beinni andstöðu við 4. og 5. gr. laga nr. 59/1976 um fjölbýlishús og dómurinn virðist reistur á þeirri röngu forsendu að ákvörðun þess efnis að umrætt bílastæði skyldi vera séreign íbúðar leyfisbeiðanda hafi verið tekin áður en skiptayfirlýsing var gerð.
6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.