Hæstiréttur íslands
Mál nr. 423/1999
Lykilorð
- Líkamsárás
- Samning dóms
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 1999. |
|
Nr. 423/1999. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Óskari Svani Barkarsyni(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Líkamsárás. Samning dóms.
Í héraðsdómi
var Ó sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa slegið G í andlitið og
sparkað í hann og tekið í höfuð ÓB og skellt því niður á hné sér, síðan fellt
ÓB, sest klofvega ofan á hann og þrýst fast með hné sínu og báðum höndum að
hálsi hans. Fundið var að því, að í hinum áfrýjaða dómi væri látið við það
sitja að rekja framburð vitna fyrir lögreglu og segja, að framburður vitnisins
fyrir dómi hafi verið sambærilegur eða vitnið staðfesti framburð sinn hjá
lögreglu. Þetta þótti þó ekki koma að sök við úrlausn málsins. Talið var, að
lítilsháttar misræmi í framburði sumra vitna hjá lögreglu og fyrir dómi væri
ekki til þess fallið að hagga því sakarmati dómsins, að ákærði hefði að ósekju
ráðist að G og ÓB og veitt þeim áverka í samræmi við verknaðarlýsingu ákæru. Þó
þótti ekki vera fyllilega sannað að Ó hefði sparkað í G, en það ákæruefni fengi
ekki stoð fyrir héraðsdómi í öðru en framburði eiginkonu G. Var héraðsdómur
staðfestur um sakfellingu Ó, en með hliðsjón af 3. mgr. 159. gr. laga nr.
19/1991 um meðferð opinberra mála þótti mega una við refsiákvörðun hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma
hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.
Málinu var skotið til Hæstaréttar að ósk ákærða 27. ágúst 1999 á
grundvelli a., b. og c. liða 147.
gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákæruvaldið krefst þess, að
ákærði verði sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og refsing verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af II. kafla ákæru en til vara, að refsing
verði milduð og skilorðsbundin.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 1999 var ákærði sýknaður af
sakargiftum í I. kafla ákæru og bótakröfum vísað frá dómi og eru þau
úrlausnarefni dómsins ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
Við skýrslutöku vitna fyrir héraðsdómi var sá háttur hafður á, að í lok
yfirheyrslunnar var hverju vitni sýnd lögregluskýrsla með framburði þess og
spurt, hvort það hefði undirritað hana, lesið hana yfir fyrir undirritun og
hvort þar væri rétt eftir vitninu haft. Ekki kemur glögglega fram í endurriti
málsgagna, hvort öll vitnin lásu skýrslurnar sjálf eða hvort þær eða hluti
þeirra var lesinn fyrir vitnunum. Í hinum áfrýjaða dómi er við lýsingu
framburðar flestra vitna látið við það sitja að rekja efni framburðarins fyrir
lögreglu og segja, að framburður vitnisins fyrir dómi hafi verið sambærilegur
eða vitnið staðfesti framburð sinn hjá lögreglu.
Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 skal dómur reistur á
sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, en í 2. mgr. og
3. mgr. er að finna undantekningarákvæði, sem eiga við sérstakar aðstæður. Í d.
lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem veitt var lagagildi með
lögum nr. 62/1994, er greindur sá réttur sakborninga, að þeir fái fyrir dómi að
spyrja eða láta spyrja vitni, sem leidd eru gegn þeim. Af þessu leiðir, að í
refsimálum er að jafnaði rétt að rekja efni framburðar fyrir dóminum sjálfum og
eftir atvikum, hvernig hann samrýmist því, sem áður er fram komið fyrir
lögreglu. Öðru máli getur hins vegar gegnt, þegar efni lögregluskýrslu er
óyggjandi lesið í réttinum að lokinni skýrslutöku þar og einstök atriði úr
henni og dómsframburði borin saman. Sú aðferð, sem héraðsdómari beitti, kemur
þó ekki að sök við úrlausn þessa máls. Lítilsháttar misræmi í framburði sumra
vitna hjá lögreglu og fyrir dómi er ekki til þess fallið að hagga því sakarmati
dómsins, að ákærði hafi að ósekju ráðist að Gunnari Birkissyni og Óskari Braga
Sigþórssyni og veitt þeim áverka í samræmi við verknaðarlýsingu ákæru. Þó þykir
ekki vera fyllilega sannað, að ákærði hafi sparkað í Gunnar Birkisson, en það
ákæruefni fær í raun ekki stoð fyrir héraðsdómi í öðru en framburði eiginkonu
hans.
Með þessum athugasemdum og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms
verður hann staðfestur, en með hliðsjón af 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991
þykir mega una við refsiákvörðun hans.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og nánar greinir
í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Óskar Svanur Barkarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar
með talin laun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar
hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms
Reykjavíkur 29. júní 1999.
Mál þetta sem
dómtekið var 11. júní sl. er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 23.
apríl 1999 á hendur ákærða Óskari Svani Barkarsyni, kt. 110471-4919, Vesturvör
27, Kópavogi, fyrir líkamsárásir á árinu 1998 í Reykjavík:
I.
Aðfaranótt laugardagsins 1. ágúst utan við
veitingastaðinn Hlölla Báta, Lækjargötu 2, slegið Björn Stefán Björnsson, kt.
080177-3729, tvisvar á vinstra auga og elt hann síðan inn í strætisvagn sunnar
við Lækjargötu og slegið hann þar aftur á vinstra auga, allt með þeim
afleiðingum að brot kom í vinstri augntóttarbotn Björns Stefáns og þurfti hann
að gangast undir aðgerð vegna brotsins þar sem vinstri augntóttarbotn var
endurbyggður með siliconplötu. Hlaut
hann einnig tvísýni og dofa í vinstri kinn vegna löskunar á skyntaug í
augntóttarbotni og auk þess útlitslýti þar sem vinstra auga varð innstætt og
augnglufan minni þeim megin og vinstra augnlokið 1-2 mm síðara en hið hægra.
Telst þetta
varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr.
laga nr. 20/1981, sbr. einnig 111. gr. laga nr. 82/1998.
II.
Aðfaranótt
sunnudagsins 4. október við biðskýli SVR í Lækjargötu gegnt Arnarhóli, slegið
Gunnar Birkisson, kt. 150662-5089, í andlitið og sparkað í hann og tekið með
báðum höndum um höfuð Óskars Braga Sigþórssonar, kt. 021071-5799, og skellt því
niður á hné sér, allt þetta með þeim afleiðingum að Gunnar Birkisson, sem féll
til jarðar og vankaðist, hlaut tvo skurði ofan á vinstri augabrún, hrufl á
vinstri kinn og hægri úlnlið og Óskar Bragi Sigþórsson hlaut mikla bólgu á
hægri kinn og bólgu á vinstri kinn, mar í andlit og blóðnasir, síðan fellt
Óskar Braga, sest klofvega ofan á hann og þrýst fast með hné sínu og báðum
höndum að hálsi hans.
Telst þetta
varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr.
20/1981, sbr. einnig 110. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er
krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar.
Eftirtaldir
gera skaðabótakröfur í málinu:
Af hálfu
Björns Stefáns Björnssonar, Kríuhólum 4, Reykjavík, er gerð krafa um bætur
fyrir þjáningar kr. 210.000, fyrir varanlegan miska kr. 1.200.000, fyrir
tímabundna örorku kr. 200.000 og fyrir varanlega örorku vegna tvísýnis kr.
2.700.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari
breytingum frá 1. ágúst 1998 til greiðsludags.
Þá er gerð krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldarinnar
á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. ágúst 1999. Auk þess er krafist skaðabóta vegna útlagðs kostnaðar o.fl., alls
kr. 46.846. Loks er þess krafist að
ákærða verði gert að greiða málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti á
málskostnað auk vaxta af málskostnaði skv. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991,
sbr. og 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, að mati dómsins.
Af hálfu
Gunnars Birkissonar, Hraunbæ 60, Reykjavík, er krafist skaða- og miskabóta
samtals að fjárhæð kr. 250.640 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá
4. október 1998 til þess dags er liðinn er mánuður þar til honum er kynnt
bótakrafan, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til
greiðsludags.
Af hálfu
Óskars Braga Sigþórssonar, Skólatúni 3, Bessastaðahreppi, er krafist skaða- og
miskabóta samtals að fjárhæð kr. 236.520 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr.
25/1987 frá 4. október 1998 til þess dags er liðinn er mánuður þar til honum er
kynnt bótakrafan, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi
til greiðsludags.
Af hálfu
ákærða er þess krafist aðallega að hann verið sýknaður af öllum kröfum
ákæruvaldsins í málinu. Til vara að
ákærða verði ekki gerð refsing vegna II. kafla ákærunnar, að bótakröfum verði
vísað frá dómi og að réttargæslu- og málsvarnarlaun verði tildæmd.
Um I. lið ákæru.
Málsatvik og sönnunargögn.
Laugardaginn
1. ágúst 1998 kl. 04.14 kom brotaþoli, Björn Stefán Björnsson, á
Lögreglustöðina við Hverfisgötu. Hann
var bólginn á vinstri augabrún og lítils háttar storkið blóð á andliti hans. Nokkuð ölvaður að sjá. Skýrði hann lögreglu svo frá að hann hefði
verið staddur fyrir utan Hlölla Báta við Lækjargötu um kl. 03.40 um nóttina er
tveir menn hefðu veist að þeim þriðja og kvaðst hann hafa spurt þessa menn hvað
gengi á. Þeir hafi þá snúið sér að
honum með höggum og spörkum. Kvaðst
hann hafa séð þann kost vænstan að flýja en mennirnir hafi hangið í úlpu
hans. Til þess að losna frá mönnunum
hafi hann smeygt sér úr úlpunni og hlaupið suður Lækjargötu. Hann hafi flúið inn í almennisvagn SVR en
annar árásarmannanna hafi elt hann inn í vagninn og slegið hann í
andlitið. Hafi vagnstjórinn skakkað
leikinn og árásarmaðurinn þá farið út úr vagninum og á brott. Björn kvaðst hafa farið með vagninum að
Hlemmi og komið á Lögreglustöðina í framhaldi af því. Hann kvaðst hafa verið með peningaveski í úlpuvasanum og í
veskinu hafi einnig verið ökuskírteini hans, skotvopnaskírteini og um 15.000
krónur í reiðufé. Hann kvaðst ekki
þekkja árásarmennina en taldi þá vera á aldrinum 20-22 ára. Annar þeirra sé um 180 cm á hæð, skolhærður
og stuttklipptur. Hinn um 185 cm á hæð
dökkhærður og stuttklipptur. Hann
kvaðst ekki geta gefið nánari lýsingu á mönnunum, hvorki útliti þeirra né
fatnaði. Tveir lögreglumenn fóru ásamt
Birni til leitar að mönnunum og því sem hann hafði tapað en leitin bar ekki
árangur. Í framhaldi af því var hann
fluttur til aðhlynningar á Slysadeild.
Hinn 4. sama
mánaðar kom Björn Stefán Björnsson aftur á skrifstofu lögreglu til að leggja
fram kæru vegna framangreindrar líkamsárásar.
Lýsti hann atvikum þannig að hann hefði staðið í biðröð við Hlölla Báta
í Lækjargötu á fyrrgreindum tíma.
Kvaðst hann hafa verið þriðji í röðinni og hafi maður fyrir framan hann
verið að deila við þann sem var að fá afgreiðslu og var fremstur í röðinni og
hafi maðurinn tekið í þennan mann. Kvaðst Björn Stefán hafa gengið á milli og lagt hönd sína á bringu
árásaraðilans. Þá hafi maðurinn snúið
sér snöggt við og slegið hann tvisvar snöggt á vinstra augað. Kvað hann höggin hafa verið þung og blætt
hafi úr auganu. Hann kvaðst hafa reynt
að forða sér með því að hlaupa á brott en maðurinn hafi tekið í úlpu hans og
haldið. Hann hafi náð að klæða sig úr
úlpunni og komast á brott og upp í strætisvagn. Maðurinn hafi elt hann inn í vagninn og slegið hann þar þriðja
höggið aftur á vinstra augað og hafi þetta högg verið mjög þungt. Hann kvað strætisvagnabílstjórann hafa komið
honum til aðstoðar og tekið manninn og komið honum út úr vagninum. Hann kvaðst telja að annar maður hefði verið
með árásarmanninum en sá hefði ekki haft sig í frammi. Hann kvað stúlku hafa kallað “Óskar” á eftir
árásarmanninum. Hann kvað árásaraðilann
hafa verið 19 til rúmlega 20 ára gamlan, með ljóst aflitað hár, stuttklipptan
um 188-190 cm á hæð. Hann kvaðst efast
um að geta þekkt manninn aftur en nefndi tvö vitni að atvikinu Önnu Rós
Sigurðardóttur starfsmann Hlölla Báta og strætisvagnabílstjórann Brynjar Örn
Einarsson. Hann kvað aðila sem vinni á
Hlölla Bátum og heiti Svavar hafa heyrt Önnu Rós lýsa árásarmanninum og hafi
Svavar talið að um gæti verið að ræða Óskar sem hefði verið rauðhærður en væri
nýlega búinn að láta aflita á sér hárið og væri að æfa í World Class og væri
þar mikið.
Brotaþoli,
Björn Stefán, kom fyrir dóminn og lýsti atvikum á svipaðan hátt og hjá
lögreglu. Hann kvaðst hafa farið að
skipta sér af tveimur mönnum sem voru tuskast fyrir framan hann í biðröð við
Hlölla Báta. Árásarmaðurinn hafi þá
kýlt hann tvö högg í andlitið og kveðst hann hafa hlaupið í burt. Hann kveðst lítið hafa séð vegna meiðslanna
og hafa forðað sér inn í strætisvagn.
Árásarmaðurinn hafi komið á eftir honum og veitt honum enn eitt þungt
högg en bílstjóri þá tekið manninn.
Hafi höggið, sem hann fékk í strætisvagninum, lent á sama stað og fyrri
höggin. Hann kvað árásarmanninn hafa
verið hærri en hann sjálfur um 1,90 á hæð og sterkbyggðan. Hann kvaðst ekki búast við að hann myndi
þekkja hann aftur. Hann lýsti meiðslum
sínum og afleiðingum eins og greinir í læknisvottorði. Hann kvaðst hafa heyrt stúlku segja að
stúlka hefði kallað á eftir árásarmanninum “Óskar”. Aðspurður um misræmi á lýsingu hans á árásarmanninum í
frumskýrslu og þegar hann gefur skýrslu hjá lögreglu nokkrum dögum síðar kvaðst
hann hafa verið í sjokki en þetta orðið skýrara fyrir sér þegar hann hugsaði
betur um það en hann taldi að maðurinn hefði verið unglegur og unglega klæddur
en nánari lýsingu gat hann ekki gefið á honum.
Vitnið
Brynjar Örn Einarsson kvaðst við skýrslutöku hjá lögreglu hafa verið á
næturvakt hjá SVR og hefði hann lagt strætisvagni í bifreiðastæði rétt neðan
við Menntaskólann í Reykjavík í Lækjargötu um 10 mínútur fyrir fjögur
aðfaranótt laugardags í ágústmánuði sl.
Hann hafi þá séð ungan mann, dökkhærðan, koma hlaupandi alblóðugan og
setjast inn í vagninn. Hann hafi verið
móður og másandi eins og eftir talverð hlaup.
Ungur ljóshærður maður hafi komið hlaupandi á eftir hinum fyrri inn í
vagninn og fyrirvaralaust rekið þeim sem sat hnefahögg í andlitið. Sá dökkhærði hafi verið gjörsamlega
uppgefinn og ekki varið sig fyrir þeim ljóshærða. Hann kvaðst hafa staðið upp og gengið á milli og beðið þann
ljóshærða vinsamlegast um að fara úr vagninum.
Árásarmaðurinn hafi horft á hann dágóða stund og síðan gengið út úr
vagninum. Brotaþolinn hafi síðan farið
með vagninum að Hlemmi og hafi gefið honum upplýsingar um vagnnúmerið ef hann
myndi síðar hafa þörf á vitnum. Hann
kvað brotaþolann hafa verið með skurð á vinstri augabrún eftir hnefahöggið í
vagninum. Hann lýsti árásarmanninum sem
stuttklipptum og ljóshærðum, um 1,90 á hæð.
Hann hefði samsvarað sér vel í vexti og virst vera í góðu líkamlegu formi. Hann kvaðst telja að ljósi liturinn á hári
mannsins væri ekki ekta. Hann kvaðst
ekki vera viss um hvort hann myndi þekkja þennan ljóshærða mann aftur.
Vitnið
Brynjar Örn kom fyrir dóminn og lýsti atvikum á sama veg og hann hafði gert hjá
lögreglu hinn 22. september 1998. Hann
taldi að maðurinn hefði verið með ljóst litað eða aflitað hár, grannur og í
góðu formi.
Vitnið Anna
Rós Sigurðardóttir var yfirheyrð hjá lögreglu 22. september 1998. Hún kvaðst hafa verið að vinna í lúgu
veitingastaðarins Hlölla Bátar í Lækjargötu 2.
Fremst í röðinni hafi verið tveir strákar sem hún kannast við. Næsti maður, sem hún kveðst hafa heyrt að
var kallaður Óskar, hafi verið að rífast við þá. Brotaþoli, Björn Stefán, hafi farið að miðla málum og hafi sett
aðra höndina á milli Óskars og hinna tveggja.
Óskar þessi, sem hafði virst reiður, hafi í fyrstu sagt eitthvað við
Björn Stefán en slegið hann síðan fyrirvaralaust með hnefanum í andlitið. Hafi höggið komið á vinstri augabrún Björns
Stefáns. Hún kvað Björn Stefán hafa
farið aftur á bak við höggið og árásarmaðurinn á eftir honum. Hún kvaðst hafa misst sjónar af þeim smá
stund og fært sig að öðrum glugga til að sjá betur. Hafi hún þá séð Björn Stefán liggja í götunni og hann hafi verið
að reyna að rísa á fætur. Árásarmaðurinn
hafi staðið yfir honum og reynt að slá til hans með krepptum hnefa en ekki hitt
þar sem einhver kona hafi hangið í jakka hans.
Björn Stefán hafi risið á fætur og hlaupið fyrir hornið á Lækjargötu. Hinn hafi hlaupið á eftir honum með konuna í
eftirdragi en hún hafi verið að reyna að halda aftur af honum. Kvað hún þessa konu hafa kallað nafnið Óskar
og beðið hann um að hætta og láta hinn í friði. Hún lýsti árásarmanninum þannig að hann hefði verið í
sinnepsgulum jakka og blárri skyrtu, hávaxinn með stuttklippt ljóst hár og
sterklegur.
Vitnið Anna
Rós kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og sagðist henni þar frá á sama
hátt og áður hjá lögreglu.
Ákærði, Óskar
Svanur Barkarson, var yfirheyrður af lögreglu 19. október 1998. Hann kvaðst ekki kannast við að vera
viðriðinn þessa líkamsárás. Hann kvað
Bríeti Ósk Birgisdóttur, sambýliskonu sína, geta vottað að hann hefði verið
heima umrætt kvöld. Hann kvað móður
sína, Sigrúnu Óskarsdóttur, og systur, Guðrúnu Jacobsen, einnig geta vitnað um
það að hann hafi verið heima þetta kvöld.
Ákærði var aftur kvaddur til skýrslutöku hjá lögreglu 30. október 1998
en óskaði þá eftir að sér yrði skipaður verjandi og þar sem Hilmar
Ingimundarson hrl. var ekki viðlátinn var yfirheyrslu frestað. Hinn 18. desember 1998 var hann yfirheyrður
á ný. Benti hann þá á tvö önnur vitni
sem að gætu borið um að hann hefði verið heima greinda nótt og nefndi þar til
Þórhall Guðmundsson og Sigrúnu Áslaugu Guðmundsdóttur. Kvað hann þau hafa verið í heimsókn hjá
honum þessa nótt og hafi þau ýmist verið í herbergi hans eða inni hjá móður
hans. Hafi þau komið um miðnættið og
verið hjá honum til fjögur eða fimm aðfaranótt 1. ágúst. Hafi þau spjallað og horft á
sjónvarpið. Hann kvað Sigrúnu vera
frænku sína og Þórhall félaga. Þegar
honum var bent á að vitnið Bríet hafi verið erlendis umrædda helgi kvaðst hann
hafa ruglast á helgum og haldið að hún hefði verið heima á þessum tíma. Hann kvaðst ekki hafa beðið hana um að gefa
skýrslu um þetta mál heldur hafi hann einungis bent á hana sem hugsanlegt vitni
að fjarvist sinni frá vettvangi en misminnt um tímann. Honum var kynnt framkomin bótakrafa Björns
Stefáns og hafnaði hann henni.
Fyrir dóminum
neitaði ákærði alfarið sök. Hann kvaðst
hafa verið heima og benti á vini sína, móður og systur sem gætu vottað
það. Hann bar, eins og áður hjá
lögreglu, að Sigrún og Þórhallur hefðu verið hjá honum frá miðnætti til u.þ.b.
fjögur til fimm um nóttina. Hann kvað
Guðrúnu systur sína hafa komið um miðnætti og verið í einhvern tíma heima og að
móðir hans hefði verið heima alla nóttina.
Hann kvaðst hafa verið með ólitað hár á þessum tíma, en hann er
rauðhærður. Hann kvaðst aldrei hafa
aflitað á sér hárið en fengið sér strípur einhvern tímann en ekki verið með þær
á þessum tíma.
Hinn 19.
október 1998 var vitnið Bríet Ósk Birgisdóttir yfirheyrð hjá lögreglu. Hún kvaðst muna eftir því að Óskar hefði
orðið veikur á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi. Hún kvað þau tvö hafa verið heima um kvöldið og horft á
myndbandsspólu og hafi þau ekkert farið út um kvöldið eða nóttina. Hún kvað þau hafa sofið saman um nóttina en
ekki muna hvenær þau hafi farið að sofa og hún hafi ekki orðið vör við að hann
færi í burtu um nóttina. Ítarlega
aðspurð kvaðst hún muna þetta vegna þess að hann hafi verið veikur og það hafi
verið verslunarmannahelgi.
Hinn 30. sama
mánaðar var Bríet Ósk aftur yfirheyrð af lögreglu. Henni var kynnt að lögreglan hefði undir höndum gögn sem bentu
til þess að hún hefði verið stödd erlendis á þeim tíma sem um ræðir. Kvaðst hún þá játa að hafa farið til
Benidorm á Spáni hinn 27. júlí 1998 og flogið heim til Íslands hinn 10.
ágúst. Hún kvaðst hafa skýrt rangt frá
þar sem hún kvaðst vita að ákærði hefði verið heima þessa nótt og hún vildi
ekki að honum væri stungið inn fyrir það sem hann hefði ekki gert. Hún kvaðst ekki hafa verið beðin um að skýra
ósatt frá heldur hafi hún gert það sjálfviljug en hún kvað Óskar hafa sagt sér
að hann hefði verið heima þessa nótt og kvaðst hún trúa honum.
Þegar vitnið
Bríet Ósk kom fyrir dóminn kvaðst hún hafa ruglast á helgi. Kvaðst hafa haldið að þetta hefði verið
fyrsta helgi í júlí en þá hefði ákærði verið veikur. Hún kvað ákærða ekki hafa verið með aflitað hár en einhvern
tímann hefði hann verið með ljósar strípur.
Hún kvað hann ekki eiga sinnepsgulan jakka.
Lögregla
yfirheyrði vitnið Sigrúnu Óskarsdóttur, móður ákærða, 5. nóvember 1998. Hún kvað þetta kvöld vera sér minnisstætt
vegna þess að verslunarmannahelgi var framundan og að Guðrún dóttir hennar
hefði komið með börnin í pössun þetta föstudagskvöld. Hún kvaðst ekki vera vön að passa fyrir Guðrúnu og m.a. vegna
þess væri þetta henni minnisstætt. Hún
kvað Óskar Svan hafa verið heima en Guðrún hefði skilið börnin eftir í hennar
umsjá og farið í bæinn að skemma sér upp úr miðnætti. Hún kvaðst vera næturvörður að atvinnu og þar af leiðandi vaka
mikið á nóttunni heima og kvaðst hún hafa setið yfir sjónvarpi þessa aðfaranótt
laugardags. Hún kvað Óskar hafa verið
hjá sér alla nóttina á milli þess sem hann hafi farið yfir í herbergi sitt sem
sé innar á sama stigagangi. Hún kvað
Guðrúnu hafa komið heim á milli þrjú og hálf fjögur og lagst til svefns hjá
börnunum. Ákærði hafi þá verið hjá
henni og einnig þegar hún hafi farið að sofa um hálf fimmleytið. Hún kvað hann ekki hafa verið drukkinn eða
við drykkju þetta kvöld og þegar hún hafi vaknað um klukkan eitt hafi hann
komið inn með stírurnar í augunum eins og hann hafi sjálfur verið að
vakna.
Þegar vitnið
Sigrún kom fyrir dóminn bar hún á sömu lund.
Hún lýsti því að húsið sem þau byggju í væri einskonar fjölskylduhús,
þar byggju fleiri fjölskyldumeðlimir.
Hún kvað dóttur sína Guðrúnu, sem ekki býr á sama stað, hafa komið og
farið út á milli tólf og eitt um kvöldið og komið síðan aftur síðar um nóttina. Hún kvað vitnin Þórhall og Sigrúnu einnig hafa
verið hjá þeim að horfa á sjónvarp.
Taldi að þau hefðu verið þarna í einn til tvo tíma. Hún kvað ákærða hafa verið vakandi þegar hún
fór að sofa um klukkan hálf fimm og hafi hann þá verið inni í hennar íbúð, en
herbergi hans sé innar á ganginum. Hún
kvað það hafa verið óvenjulegt við þetta kvöld að Óskar var heima og að Guðrún
fór út.
Vitnið Guðrún
Ólöf Jacobsen, systir ákærða, var yfirheyrð af lögreglu 15. nóvember 1998. Hún kvaðst muna eftir að hafa á
föstudagskvöldið 31. júlí 1998 farið með dætur sínar til móður sinnar, Sigrúnar
Óskarsdóttur, sem hafi ætlað að gæta þeirra.
Hún kvað ákærða hafa verið heima og hafi hann ýmist verið inni hjá móður
þeirra eða í sínu herbergi sem sé innar á stigaganginum. Hún kvaðst hafa farið þaðan um miðnætti á Skuggabarinn
og hafa komið heim til móður sinnar aftur um hálf fjögur leytið um nóttina og
hafi ákærði þá verið þar í íbúðinni.
Móðir hennar hafi einnig verið vakandi og verið að horfa á sjónvarpið en
ákærði hafi eitthvað verið að “væflast um” og fengið sér núðlur og hafi hann
enn verið í íbúðinni þegar hún sjálf hafi lagst til svefns. Hún kvaðst muna þetta vel þar sem það hafi
verið verslunarmannahelgi og hún fari yfirleitt lítið út að skemmta sér. Hún kvaðst telja að ákærði hefði verið
ódrukkinn þetta kvöld.
Fyrir dóminum
skýrði vitnið Guðrún frá á sama veg og hjá lögreglu. Spurð um háralit ákærða taldi hún að hann hefði aflitað á sér
hárið fyrir u.þ.b. tíu árum en aldrei verið með strípur og á sl. sumri hefði
hann verið með ólitað hár. Hún kvað
hann venjulega klæðast svörtu og hvítu og kvaðst ekki geta ímyndað sér hann í
gulum jakka.
Vitnið Sigrún
Áslaug Guðmundsdóttir gaf skýrslu hjá lögreglu 30. desember 1998. Hún kvaðst muna eftir þessu kvöldi þar sem
það hafi verið verslunarmannahelgi.
Hún kvaðst hafa verið heima hjá Óskari aðfaranótt 1. ágúst 1998. Hún hafi komið þangað um miðnætti í fylgd
með Þórhalli Guðmundssyni og verið hjá ákærða til um klukkan fimm. Hefðu þau fyrst verið hjá ákærða og síðan
farið til móður hans sem búi innar á sama stigagangi. Þar hafi þau horft á myndbandsspólu og síðan farið aftur yfir til
ákærða og verið þar þar til hún og Þórhallur hafi farið heim um fimmleytið
þessa nótt. Hún kvað þau ekki hafa
verið að neyta áfengis. Hún kvað móður
ákærða hafa verið heima og systur hans Guðrúnu hafa komið þarna við en stansað
stutt. Hún taldi að Guðrún hefði komið
ein og fannst hún hafa verið að ná í eitthvað.
Hún kvaðst vita til þess að Guðrún hefði komið aftur heim til móður
ákærða um hálf fjögurleytið um nóttina og hafi móðir hans sagt sér frá því
daginn eftir. Hún kvaðst ekki hafa
orðið vör við dætur Guðrúnar. Hún kvað
ákærða oft skjótast yfir til móður sinnar og geti hann vel hafa gert það meðan
þau voru í herbergi hans.
Vitnið Sigrún Áslaug kom fyrir
dóminn og skýrði frá á sama hátt og hún hafði áður gert hjá lögreglu. Hún upplýsti að hún og ákærði væru
systkinabörn.
Vitnið
Þórhallur Guðmundsson gaf skýrslu hjá lögreglu 5. janúar 1999. Hann kvaðst hafa farið í heimsókn til ákærða
ásamt Sigrúnu Áslaugu, sem hann mundi ekki hvers dóttir var. Hann taldi að þau hefðu komið þangað á
tímabilinu milli tíu og ellefu að kvöldi laugardagsins 1. ágúst 1998. Hann lýsti því að þau hefðu verið í íbúð móður
ákærða í fyrstu og hafi ákærði verið þar.
Þau hafi horft þar á sjónvarpið og á myndbandsspólu. Síðan hafi þau farið yfir í herbergi ákærða
og eitthvað farið á milli híbýla ákærða og móður hans. Hann taldi að þau hefðu farið heim rúmlega
fjögur aðfaranótt sunnudagsins 2. ágúst.
Hann kvað ákærða ekki hafa farið neitt út á meðan þau voru þar og hann
hafi ekki verið drukkinn. Hann taldi að
systir ákærða, Guðrún, hefði verið á staðnum þegar þau komu og taldi að hún
hefði farið út síðan og komið aftur seinna um nóttina og hann hefði þá séð hana
hjá móður ákærða. Hann minntist þess að
börn Guðrúnar hefðu verið á staðnum og taldi að hún hefði skilið þau eftir í
umsjá móður ákærða.
Þegar vitnið
Þórhallur kom fyrir dóminn kvaðst hann hafa ruglast á dögum þegar hann gaf
skýrslu hjá lögreglu og gaf þá skýringu á því að yfirheyrslan hefði komið mjög
skyndilega upp. Hann kvað þau Sigrúnu
Áslaugu eitthvað hafa verið að “skjóta sig” þá en þau væru ekki saman nú. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þau
hafi komið til ákærða en taldi að það hefði verið fyrir miðnætti og kvað þau
hafa farið aftur seint um nóttina. Hann
kvaðst muna eftir að móðir ákærða, ákærði og systir hans hafi verið þarna en
taldi að systirin hefði skroppið frá.
Hann kvaðst ekki vita hvenær eða hvort hún hefði komið aftur en hann
taldi sig muna eftir að hafa séð börn hennar.
Hann kvað ákærða ekki hafa verið með litað hár sl. sumar og hann kvaðst
aldrei hafa séð hann í sinnepsgulum jakka.
Hinn 26.
nóvember 1998 fór fram sakbending vegna þessa máls og mættu til
sakbendingarinnar vitnin Brynjar Örn Einarsson og Anna Rós Sigurðardóttir. Vitnið Brynjar Örn kvaðst ekki þekkja neinn
þeirra manna sem stillt var upp fyrir sakbendingu, en ákærði var á meðal
þeirra. Vitnið Anna Rós kvaðst að
lokinni skoðun ekki geta bent á neinn mannanna í röðinni með vissu en hún kvað
aðila með spjald nr. 3 vera líkan þeim aðila sem hún hefði séð kvöldið sem
atburðurinn átti sér stað. Kvað hún nef
þeirra vera svipað en hún tók fram að hún væri ekki viss um að þetta væri rétti
maðurinn. Ákærði bar spjald nr. 3 við
sakbendinguna.
Í málinu liggur
frammi áverkavottorð vegna Björns Stefáns Björnssonar skráð af Hannesi Petersen
yfirlækni Háls- nef- og eyrnadeildar.
Þar segir:
“Vottorð
þetta er gert að beiðni rannsóknardeildar Lögreglunnar í Reykjavík, Óskars Þórs
Sigurðssonar lögreglufulltrúa vegna máls nr. 010-1998-21753.
Þann l. ágúst
1998 lenti Björn í átökum í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann fékk högg á andlitið
vinstra megin, a.m.k. tvisvar sinnum kýldur og einu sinni að sparkað hafði
verið í andlitið. Björn sagði að hann
hafi ekki rotast við þessa áverka en hann kvartaði um óþægindi í vinstri hluta
andlits, þá mest yfir gagnauga vinstra megin og kjálka vinstra megin. Að auki fannst sjúklingi hann sjá tvöfalt.
Leitaði fyrst
á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur að nóttu til 01.08.98. Við skoðun þá var eftirfarandi skráð: Vinstra
augnlok bólgið. Augnhreyfingar
eðlilegar, sjáöldur svara ljósáreiti beint og óbeint. Sjónsvið eðlilegt. Ekkert
tvísýni. Húðskyn undir auga eðlilegt en dofi var við nefrót vinstra megin. Efra augnlok bólgið. Storkið blóð sást í báðum nösum en ekki
greindist septum hematoma.
Ástand sjúklings vakti grun um
brot eða rof á beinumgjörð augntóftar og var sjúklingur þess vegna sendur í
tölvusneiðmynd af andlitsbeinum sem sýndi brot á augntóftargólfi vinstra megin.
Fengin var skoðun augnlæknis sem taldi augnhreyfingar góðar og var því frekari
aðgerð frestað um viku til rannsóknar á hvort ástand batnaði. Ekki reyndist svo
vera og var sjúklingur enn með tvísýni þá aðallega þegar hann leit upp og
niður. Var því framkvæmd aðgerð 10.08.98 þar sem gerð var endurbygging á
augntóftargólfi vinstra megin með silicon plötu. Aðgerðin gekk í alla staði vel og án complicationa og
útskrifaðist sjúklingur heim daginn eftir aðgerð.
Sjúklingi var
ráðlagt að halda sig frá vinnu í a.m.k. hálfan mánuð eftir aðgerð. Þó svo að
tvísýni hafi verið til staðar strax eftir aðgerð var það talið eðlilegt þar eð
enn var bólga í augntóft og augnlokum.
Sjúklingur var hvattur til augnleikfimi, þ.e. að horfa upp og niður og
reyna á augnkúluna af fremsta megni.
Endurkoma var ráðlögð 1½ mánuði eftir aðgerð.
Áverki
sjúklings verður að teljast alvarlegur, högg á andlit nálægt augum og heila eru
ætíð varasöm jafnvel lífshættuleg og geta haft í för með sér óafturkræfar
afleiðingar, með verulegum starfstruflunum. Tvísýni er bagalegt, bæði frá
félagslegu og starfslegu sjónarhorni.
Tvísýni sjúklings ætti að ganga yfir á 4-6 vikum, en ef ekki, gæti þurft
að leiðrétta tvísýni jafnvel með endurtekinni aðgerð eða öðrum aðgerðum. Endurkoma
til mats er ráðlögð.
Vottorð þetta
er byggt á sjúkragögnum frá Slysadeild og Háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss
Reykjavíkur.”
Framangreint
vottorð er dagsett 22. september 1998.
Hinn 27. október 1998 er annað áverkavottorð gefið út af Guðmundi
Viggóssyni lækni, sérfræðingi í augnlækningum, Augndeild Landspítalans vegna
meiðsla Björns Stefáns Björnssonar. Í
niðurstöðu þess segir eftirfarandi:
“Eftirstöðvar brots á augntóttarbotni vinstra megin. Veldur vægri hreyfingarhindrun á vinstra
auga. Ekki er öruggt að sjúklingur nái
nokkurn tímann alveg eðlilegri hreyfingu á augað. Telja má þó víst að tvísýni hái honum lítið undir flestum
kringumstæðum. Þá er um nokkurt
útlitslýti að ræða, innstætt auga og minni augnglufa vinstra megin. Ekki tel ég fýsilegt að reyna að laga þetta
frekar með aðgerð. Það er því ljóst, að
sjúklingur hefur hlotið nokkurt varanlegt útlitslýti, sem er þeim mun bagalegra
sem hann er þetta ungur.”
Útlitslýtum
er nánar lýst þannig í vottorðinu að vinstra augað liggi innar í augntóttinni
en augað hægra megin. Þessu fylgi væg
lokbrá þar sem vinstra efra augnlok sé 1-2 mm síðara en það hægra, þ.e.
sjúklingur opni vinstra augað ekki jafn vel og það hægra. Þá er einnig nefndur dálítill dofi í vinstri
kinn vegna löskunar á skyntaug í augntóttarbotni. Í vottorðinu kemur einnig fram að Björn Stefán hafi hlotið
tvísýni og brot á augntóttarbotni vinstra megin sem gert hafi verið við á
hefðbundinn hátt á Háls- nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.
Niðurstaða.
Atburður sá
sem ákært er fyrir átti sér stað um kl. 04.00 aðfaranótt laugardagsins 1. ágúst
1998, var þetta verslunarmannahelgi.
Fjögur vitni, Sigrún, Guðrún, Sigrún Áslaug og Þórhallur, hafa borið hjá
lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi verið heima hjá sér þessa nótt og að hann
hafi ekki verið við drykkju. Tvö vitnanna
eru úr nánustu fjölskyldu hans, móðir og systir og eitt er tvímenningur við
hann. Framburður þessara vitna hefur
verið nokkuð stöðugur og í samræmi, dálítil frávik þykja ekki þess eðlis að
framburður neins þeirra þyki fyrir þær sakir ótrúverðugur. Framburður vitnisins Bríetar Óskar er
ómarktækur. Við mat á framburði er hins
vegar haft í huga að um náin ættmenni er að ræða. Sjónarvottar að árásinni, vitnin Anna Rós og Brynjar Örn, þekktu
ákærða ekki sem árásarmanninn við sakbendingu sem fram fór tæpum fjórum mánuðum
síðar, þótt Önnu Rós þætti hann svipa eitthvað til árásarmannsins. Af vitnum og brotaþola er árásarmanninum
lýst sem 18 til 22 ára, ákærði er fæddur árið 1971 og var 27 ára á þessum tíma. Honum er lýst sem ljóshærðum, líklega með
litað eða aflitað hár. Ákærði er
rauðhærður og vitni bera að hann hafi á þessum tíma ekki verið með litað eða
aflitað hár. Lýsing á stærð og
vaxtarlagi gæti átt við ákærða. Vitnið
Anna Rós sagði árásarmanninn hafa verið í sinnepsgulum jakka og vitnið Brynjar
Örn kvað hann hafa verið unglega klæddan, þau vitni sem spurð voru könnuðust
ekki við að ákærði klæddist gulum jakka.
Það sem helst tengir ákærða við atburðinn er að vitnið Anna Rós heyrði
árásarmanninn kallaðan Óskar og að maður sem ekki var sjónarvottur taldi
líklegt að þessi Óskar væri aðili “sem hefði verið rauðhærður en væri nýlega
búinn að láta aflita á sér hárið og væri að æfa í World Class”. Ákærði er fyrst yfirheyrður 19. október
1998, í rannsóknargögnum kemur ekkert fram um háralit eða tengsl ákærða við
World Class og ekki kemur fram að rætt hafi verið við manninn Svavar sem gaf
framangreinda lýsingu. Samkvæmt mynd af
sakbendingu hinn 27. nóvember 1998 virðist ákærði vera með sinn rétta háralit
þar. Margir menn bera nafnið Óskar og
þykir ekki verða á þessu byggt til sakfellingar. Ákærði hefur einarðlega neitað sök. Ósannað þykir að ákærði hafi átt hlut að líkamsárás á Björn
Stefán Björnsson aðfaranótt 1. ágúst 1998 og skal hann vera sýkn af háttsemi
þeirri sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið.
Bótakröfu
Björns Stefán Björnssonar er vísað frá dómi.
Um II. lið ákæru.
Málsatvik og sönnunargögn.
Aðfaranótt
sunnudagsins 4. október kl. 03.44 var lögregla kvödd að biðskýli SVR í
Lækjargötu vegna slagsmála. Þegar
lögreglan kom á vettvang hafði stór hópur safnast saman og voru föt á víð og
dreif um svæðið. Daginn eftir komu
Gunnar Birkisson og Óskar Bragi Sigþórsson til lögreglu og kærðu ákærða fyrir
líkamsárás í tilgreint sinn.
Gunnar
Birkisson skýrði lögreglu svo frá að hann hefði verið að skemmta sér ásamt
eiginkonu sinni og vinum aðfaranótt sunnudagsins 4. október á Fógetanum við
Aðalstræti í Reykjavík og hefði verið á leið þaðan eftir Lækjargötu þegar
árásin átti sér stað. Hann kvaðst hafa
verið með Óskari Braga Sigþórssyni, konu hans Ingunni Ástu Guðmundsdóttur og
tveimur systrum hennar Hildi Björk og Selmu Eddu Guðmundsdætrum og konu sinni
Jóhönnu B. Þórhallsdóttur. Hann kvað
þau hafa verið við biðstöð SVR í Lækjargötu og kvaðst hann hafa gengið við hlið
Óskars Braga er þeir hafi mætt ljóshærðum manni, þreknum og taldi hann að Óskar
Bragi og maðurinn, sem er ákærði, hefðu rekist lítillega saman. Kvað hann Óskar Braga hafa beðist afsökunar
og þeir hafi gengið áfram en kona hans, Jóhanna, hafi verið komin lengra á
undan. Kvað hann skyndilega hafa verið
rifið í sig. Hafi hann snúið sér við og
þá séð að þetta var maðurinn sem þeir höfðu verið að mæta, ákærði. Hafi ákærði spurt hann hvort hann væri
“eitthvað að rífa kjaft” og kvaðst hann hafa svarað því neitandi en ákærði hafi
þegar kýlt hann eða sparkað í hann og hafi hann rotast við höggið. Kvaðst hann hafa rankað við sér upp við vegg
þarna nálægt. Hann kvaðst hafa verið
fluttur á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.
Í lögregluskýrslunni er því lýst að Gunnar sé með sár á vinstri kinn og
gagnauga og hruflaður og marinn á enni og hafi verið saumaður á vinstra
gagnauga en þar hafi verið tveir skurðir.
Kvaðst Gunnar aldrei hafa séð umræddan árásarmann áður.
Óskar Bragi
Sigþórsson skýrði lögreglu svo frá að hann hafi verið staddur á Lækjartorgi
ásamt nokkrum kunningjum sínum um kl. 03.30 hinn 4. október sl. Þar hafi ákærði rekist utan í hann og Gunnar
Birkisson. Kvaðst hann hafa haft orð á
þessu við ákærða en síðan hafi þeir gengið áfram. Hafi ákærði þá ráðist aftan að honum og skellt honum í
jörðina. Hann hafi setið klofvega yfir
honum og skallað hvað eftir annað í andlitið.
Kvaðst hann strax hafa vankast við árásina og því lítið geta skýrt frá
framhaldinu en hann taldi að Bríet Ósk Birgisdóttir, sem var með ákærða, hefði
einnig sparkað í síðu hans. Kvað hann
lögregluna hafa komið á staðinn og tekið niður nöfn aðila og flutt hann á
Slysadeild til skoðunar.
Brotaþoli
Gunnar Birkisson kom fyrir dóminn og skýrði frá málsatvikum á sama hátt og hjá
lögreglu. Hann kvaðst hafa gengið götumegin
við Óskar Braga og ekki rekist utan í ákærða.
Hann kvaðst hafa rotast og rankað við sér liggjandi upp við vegg og hafi
ákærði þá setið ofan á félaga hans, Óskari Braga, og verið að kýla hann. Hann kvað sex spor hafa verið saumuð í enni
sér. Aðspurður kvað hann hjúkrunarkonu
hafa hreinsað og saumað sig en hann hafi ekki talað við lækni á
Slysadeildinni.
Brotaþoli
Óskar Bragi kom einnig fyrir dóminn.
Hann kvað þau hafa verið að ganga eftir Lækjargötu í leit að
leigubifreið þegar atvikið átti sér stað.
Hann kvaðst hafa rekist utan í mann, sem þau mættu, og kvaðst hafa sagt
eitthvað sem svo “það munar ekki um það.”
Næsta sem hann viti er að árásarmaðurinn stekkur á Gunnar sem rotast og
stúlkunni, sem hafi verið með honum, hafi lent saman við vitnið Hildi. Hann kvað ákærða hafa lamið höfði sínu á hné
sér og síðan haldið honum með kyrkingartaki eða haldið hendinni að hálsi
hans. Hafi Ingunn, kona hans, þá kallað
að þau ættu fjölskyldu eða eitthvað í þá veru og þá hafi verið eins og ákærði
“færi úr gír”. Hann hafi staðið upp og
allt hafi verið búið. Hann kvað þetta
atvik hafa komið sér illa. Hann kvaðst
vera flugmaður og hafa verið að fara til útlanda daginn eftir en því hafi
seinkað um þrjá mánuði. Hann kvaðst
hafa verið illa bólginn á augum og talinn rifbeinsbrotinn. Hann kvað ákærða ekkert hafa sagt á móti við
athugasemd hans þegar þeir rákust saman.
Hann kvað ákærða hafa tekið einhverja stelpu, sem hafi gengið þarna fram
hjá, og skallað hana þannig að hún lá í jörðinni. Hún hafi hins vegar forðað sér af vettvangi en hann taldi að
lögreglu hefði tekist að hafa upp á henni.
Vitnið
Jóhanna Bergmann Þórhallsdóttir gaf skýrslu hjá lögreglu sama dag og brotaþolar
kærðu atvikið. Hún kvaðst hafa verið að
skemmta sér með vinum sínum, þeim Hildi, Ingunni, Selmu, Óskari Braga og
eiginmanni sínum á Fógetanum í Aðalstræti og hafi þau verið gangandi á leið
þaðan þegar atvikið varð. Hún kvaðst
hafa verið aðeins á undan hinum og hafi þá heyrt Gunnar, mann sinn, kalla á
sig. Hún hafi litið við og séð að maður
kýldi Gunnar niður og sparkaði síðan í hann einu sinni þar sem hann lá í
götunni. Hún kvaðst hafa hlaupið af
stað í átt að manni sínum og er hún kom þarna að hafi umræddur árásaraðili
tekið kunningjakonu hennar, Hildi Guðmundsdóttur, og rifið í hana og kastað
henni til. Hafi Hildur misst annan
skóinn og hvítan pels sem hún var í.
Hún kvað ókunna stúlku, sem hafi gengið þarna fram hjá, einnig hafa
orðið fyrir árás af hálfu sama manns.
Hafi hann rifið hana að sér og skallað hana með enninu í andlitið þannig
að hún hafi hnigið niður. Hún kvað
Gunnar hafa legið þarna slasaðan og hafi árásarmaðurinn verið kominn úr að
ofan. Hún kvaðst þá hafa hringt úr
GSM-síma, sem hún var með, í lögregluna.
Árásaraðilinn hafi ráðist aftur á Óskar Braga og verið ofan á honum
þegar lögreglan kom á staðinn en þá hætt slagsmálum.
Vitnið
Jóhanna kom fyrir dóminn og skýrði þar frá atvikum á sama veg og hún lýsti hjá
lögreglu. Hún kvað Gunnar hafa verið
með tvo stóra marbletti og tvo sauma, sem hún hafi tekið úr í Amsterdam. Hún kvað einnig hafa séð mikið á Óskari
Braga.
Vitnið Selma Edda Guðmundsdóttir
gaf skýrslu hjá lögreglunni 18. nóvember 1998.
Hún kvaðst hafa verið í fylgd með systrum sínum, Ingunni og Hildi,
Gunnari Birkissyni, Óskari Braga Sigþórssyni og Jóhönnu konu Gunnars í október
sl. í Lækjargötu. Hún kvað þetta hafa
verið um helgi en kvaðst ekki muna dagsetninguna. Hún kvað systur sínar hafa gengið á undan ásamt Jóhönnu. Hún hafi gengið á eftir þeim og Gunnar og
Óskar hafi verið á eftir sér. Hún
kvaðst hafa tekið eftir pari, sem hafi komið gangandi á móti þeim, og hafi sér
virst þau vera að rífast. Hún kvað þau
hafa gengið hratt fram hjá og síðan kvaðst hún hafa heyrt Óskar segja eitthvað
á þá leið hvort parið væri að flýta sér.
Hún kvað parið hafa komið hlaupandi á eftir þeim nokkru síðar er þau
voru á móts við Arnarhól og hafi stúlkan sparkað í fætur hennar nokkrum
sinnum. Hún kvaðst ekki hafa svarað
fyrir sig og ekki vita hvers vegna stúlkan réðist að henni, stúlkan hafi blótað
mikið og spurt hvað þau væru að gera við manninn hennar. Hún kvaðst hafa séð manninn, sem var með
stúlkunni, í átökum við Óskar Braga.
Hafi maðurinn verið ber að ofan og skyrta hans legið í götunni. Hann hafi setið klofvega á Óskari Braga og
þrýst með framhandlegg framan á háls Óskars.
Hún kvaðst einnig hafa séð Hildi systur sína sitja klofvega ofan á
stúlkunni og halda henni en stúlkan hafi blótað og barist um. Hún kvað árásarmanninn einnig hafa skallað
ókunna stúlku, sem hafi staðið við hliðina á henni, og hafi hún hnigið niður og
hún hafi séð að það blæddi úr henni eftir höggið. Hún kvað lögregluna hafa komið stuttu síðar. Hún kvað Gunnar hafa verið blóðugan í
andliti og Óskar með glóðarauga á báðum augum og bólginn á báðum kinnum eftir
átökin.
Vitnið Selma kom fyrir dóminn og
staðfesti framangreindan framburð sinn hjá lögreglu.
Hinn 23.
nóvember 1998 var tekin skýrsla af Hildi Björk Guðmundsdóttur hjá
lögreglu. Hún kvað árásina hafa átt sér
stað á grasi gengt Arnarhóli þar sem Esso bensínstöðin hafi verið áður en hún
flutti að Geirsgötu. Hún kvaðst hafa
verið í miðbænum með systrum sínum Ingunni og Selmu Eddu og þeim Gunnari,
Óskari Braga og Jóhönnu. Þau hafi
gengið eftir Lækjargötu í átt að Geirsgötu og hafi hún verið aðeins á undan
hinum ásamt Jóhönnu og Ingunni. Hafi
þau verið að leita að leigubíl. Þau
hafi ekki vitað fyrr til en ákærði hafi komið aftan að hópnum og ráðist á
Gunnar. Hún kvaðst ekki hafa séð
glögglega hvað gerðist en Gunnar hafi legið eftir árásina á grasinu og ekki
staðið upp meira. Hún hafði síðan séð
ákærða ráðast á Óskar Braga. Hafi hann
tekið um höfuð Óskars Braga og skellt því niður á hné sér. Stúlkurnar hafi farið að gráta og Jóhanna
hafi reynt að ná sambandi Neyðarlínuna.
Hún kvaðst hafa séð ákærða liggja klofvega yfir Óskari Braga þar sem
hann lá á bakinu í grasinu. Hafi ákærði
haldið báðum höndum um háls Óskars Braga og hert að en Óskar Bragi hafi verið
vankaður. Hún kvaðst þá hafa reynt að
ná ákærða af Óskari Braga en hann hafi staðið upp og hrint henni í
jörðina. Þá hafi komið stúlka, sem hafi
virst vera kærasta ákærða, og sparkað í fætur hennar og kvaðst hún hafa verið
með marbletti eftir þessi spörk.
Stúlkan hafi látið öllum illum látum, sparkað í allt og alla. Hún kvaðst hafa náð taki á stúlkunni og náð
að snúa hana niður í jörðina og halda henni þar. Síðan hafi verið eins og ákærði vaknaði úr einhvers konar trans,
sem hann virtist vera í á meðan á þessu stóð, og hafði hann farið af Óskari
Braga og hallað sér upp að lágum vegg sem þarna var. Óskar Bragi hafi verið með glóðarauga á báðum augum og mjög
bólginn í andliti á eftir og Gunnar hafi verið með skurð yfir annarri hvorri
augabrún sem blætt hafi úr. Hún kvað
bol og kápu, sem hún hafi verið í, hafa rifnað. Hún kvað árásina hafa verið fyrirvaralausa og kvaðst ekki gera sér
grein fyrir ástæðu hennar.
Vitnið Hildur
Björk gaf skýrslu fyrir dóminum og er hún í samræmi við það sem hún skýrði
lögreglu frá og rakið hefur verið.
Sama dag var
tekin skýrsla af vitninu Ingunni Ástu Guðmundsdóttur. Hún mundi eftir atvikinu og taldi að hún, Jóhanna og Hildur hefur
gengið á undan þeim Gunnari, Óskari Braga og Selmu. Þau hafi verið að ganga eftir Lækjargötunni gengt Arnarhóli en
höfðu verið að skemmta sér í miðbænum, þetta hafi verið aðfaranótt 4. október
eftir lokun skemmtistaða. Hún kvaðst
muna eftir því að þau mættu pari en hún kveðst ekki hafa veitt því sérstaka
athygli. Næst þegar hún snéri sér við
hafi hún séð Gunnar liggja á jörðinni, blóðugan í andliti og manninn, sem þau
höfðu mætt skömmu áður, halda báðum höndum um höfuð Óskars og reka það niður á
hné sér. Hún kvað þetta hafa gerst mjög
hratt en Óskar Bragi hafi risið upp aftur og farið í manninn. Þeir hafi slegist en þessi maður hafi náð Óskari
Braga undir sig og setið þannig að annað hnéð og hendur voru við háls Óskars
Braga. Hafi maðurinn þrýst hnénu að
hálsi Óskars og einnig hert að með báðum höndum. Hún kvaðst hafa hlaupið til og séð að Óskar var orðinn blár í
framan og sömuleiðis varirnar. Hún
kvaðst hafa sagt við manninn að þau Óskar ættu tvö lítil börn og beðið hann um
að láta Óskar vera. Maðurinn hafi þá
brugðist við á einkennilegan hátt og hafi verið eins og hann vaknaði úr
einhverju annarlegu ástandi og hafi hann kippt að sér höndum. Hann hafi þá verið ber að ofan en hún hafi
ekki séð hann fara úr bolnum. Kvað hún
lögregluna hafa komið fljótlega. Hún
kvað Gunnar hafa verið illa farinn og ekki risið upp fyrr en lögreglan
kom. Hún kvað bæði Óskar og Gunnar hafa
verið með áverka í andliti eftir árásina.
Hafði Óskar verið með glóðarauga á báðum augum og mikið bólginn í
andliti og Gunnar verið með skurð á enni sem blætt hafi úr.
Framburður
vitnisins Ingunnar Ágústu fyrir dóminum var í samræmi við það sem hún skýrði
lögreglu frá.
Hinn 28.
desember 1998 var ákærði yfirheyrður hjá lögreglu vegna þessa atburðar. Hann kvaðst kannast við þetta mál og að hafa
verið á vettvangi ásamt kærustu sinni Bríeti Ósk Birgisdóttur. Hann kvað þau eitthvað hafa verið að rífast
þegar hópur fólks hafi gengið fram hjá þeim.
Hann kvað stráka í hópnum hafa hreytt einhverjum óhróðri að honum og upp
úr því hafi orðið átök þeirra á milli.
Hann kvaðst ekki muna hvað það var sem að þeir sögðu og hann kvaðst hafa
verið mjög ölvaður og muna atburðarrásina óljóst af þeim sökum. Hann kvaðst muna að þeir hafi verið tveir á
honum og kastast til á grasfleti, sem þarna er, en þetta hafi átt sér stað
gengt Arnarhóli. Taldi hann að
mennirnir hefðu síðan róað sig niður og þeir verið byrjaðir að tala saman. Hafi hann þá séð að Bríet lá undir
einhverjum kvenmanni sem hafði tak á henni.
Hafi hann beðið konuna um að sleppa Bríeti en hún hafi ekki orðið við
því fyrr en lögreglan kom á vettvang.
Nánar lýsti hann átökunum við þessa tvo menn á þann veg að hann hafi
tuskast við þá og hafi skyrtan rifnað utan af honum í átökunum. Hann kvaðst ekki muna hvor þeirra hafi rifið
skyrtuna utan af honum en eftir það hafi hann verið ber að ofan. Hann kvað mennina hafa gefið honum einhver
högg á hægri vanga og hafi hann svarað í sömu mynt. Hann kvaðst ekki muna hvar hann kýldi þá. Það hafi verið mikil læti þarna og
stúlkurnar, sem hafi verið með þessum mönnum, hafi hangið utan í honum. Hann kvaðst hafa verið blár og marinn á
hægri vanga og með sprungna vör eftir átökin en hann kvaðst ekki hafa leitað á
Slysadeild vegna áverkanna. Hann lagði
áherslu á að átökin hefðu byrjað með rifrildi og ýtingum þeirra á milli. Framburðarskýrslur vitnanna Gunnars og
Óskars Braga hjá lögreglu voru bornar undir ákærða og kvað hann frásögn þeirra
og atvikalýsingu vera ranga að öðru leyti en því að hann kvað vel geta verið að
hann hefði setið ofan á Óskari Braga og hann kvaðst ekki kannast við að hafa
skallað einhverja stúlku eins og fram komi hjá vitnum. Hann hafnaði því að hafa þrýst með
einhverjum hætti á háls Óskars Braga og að hafa skallað hann. Hann kvaðst hins vegar ráma í að einhver
stúlka hefði komið að honum og beðið hann um að láta manninn, sem hann lá ofan
á, í friði og kvaðst hann hafa orðið við þeirri beiðni. Að öðru leyti kvað hann frásögn vitna af
átökum sínum við Óskar Braga vera ranga.
Honum voru kynntar bótakröfur Gunnars Birkissonar og Óskars Braga
Sigþórssonar. Hafnaði hann þeim báðum
og taldi þær báðar of háar og vera vanreifaðar.
Ákærði gaf
skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.
Þar kvaðst hann kannast við þessi átök en hann kvað þau hafa verið tvö á
móti mörgum og hafi hópurinn, sem þau mættu, ekki síður átt sök á
átökunum. Hann mótmælti því að hafa
kýlt og sparkað í brotaþola. Hann
skýrði frá eins og hjá lögreglu og kvaðst hafa verið að rífast við konu sína
Bríeti og fólkið, sem hafi átt leið þarna hjá, hafi farið að skipta sér af því
og áður en hann vissi af hafi allt verið komið í slagsmál. Hafi verið mikill æsingur og öngþveiti. Hann kannaðist ekki við að þeir nafnarnir
hefðu rekist saman. Hann kvaðst hafa
verið drukkinn og hafi þetta fólk einnig verið drukkið og allir mjög
æstir. Hann kvaðst ekki hafa þekkt
þetta fólk og hann kvaðst ekki vita hver hafi átt upptökin að átökunum sem hafi
byrjað sem venjuleg slagsmál. Hann
kannaðist við að hafa setið klofvega yfir einum manninum en kannaðist ekki við
að hafa þrýst að hálsi hans og ekki við að hafa slegið höfði hans á hné
sér. Hann kvaðst sjálfur hafa verið
illa marinn eftir átökin. Hann kvað
stúlku hafa beðið sig að láta manninn í friði sem hann sat á og hafi hann gert
það. Hann kvaðst hafa beðist afsökunar
á eftir og hafi þau setið þarna saman í grasinu þegar að lögreglan kom. Hann kvaðst ekki hafa séð meiðsli á hinum en
sjálfur hafi hann verið með blóðnasir, marinn, með sprungna vör og glóðarauga
en ekki hafa farið á Slysadeild.
Vitnið Bríet
Ósk Birgisdóttir var yfirheyrð af lögreglu 30. desember sl. Hún kvaðst muna eftir þessu atviki. Hún hefði verið á ferð í miðbænum ásamt
kærasta sínum, Óskari Svani Barkarsyni.
Hún kvaðst hafa verið drukkin og kvað þau hafa verið að rífast. Þegar þau hafi gengið í Lækjargötu gengt
Arnarhóli hafi þau mætt hópi fólks og hafi einhverjir í hópnum hreytt í þau
ónotum en hún kvaðst ekki muna hvað hafi verið sagt, þau hefðu farið að rífast
við þetta fólk og hafi slagsmál brotist út á milli ákærða og tveggja stráka úr
hópnum. Hún kvaðst hafa hlaupið að þeim
í þeim tilgangi að stöðva slagsmálin en þá hafi einhver stúlka rifið í föt
hennar og hafi hún brugðist við með því að ýta stúlkunni frá sér með annarri hendi. Þessi stúlka hafi þá fellt hana í grasblett,
sem að þarna hafi verið, og sest klofvega yfir hana. Hafi stúlkan haldið í hár hennar og reigt höfuð hennar aftur en
hún hafi legið á bakinu með stúlkuna klofvega yfir sér. Hafi stúlkan haldið henni svona niðri í
einhvern tíma og löðrungað hana öðru hverju.
Hún kvaðst hafa fengið áverka, bólgnað við hársvörðinn og fengið mar en
ekki hafa farið á Slysadeild vegna þessa.
Hún kvaðst ekki minnast þess að ákærði og Óskar Bragi hefðu rekist saman
en hún kvað þessa stráka hafa hreytt ónotum í þau.
Þegar vitnið
Bríet kom fyrir dóminn skýrði hún frá líkt og hún hafði gert hjá lögreglu.
Óskar Bragi
Sigþórsson fór á Slysavarðstofu í framhaldi af atburðinum. Kom hann þangað kl. 04.17 hinn 4. október
1998. Í niðurstöðu áverkavottorðsins
segir:
“Sjúklingur kemur um nótt þ. 4/10 1998 og
lýsir líkamsárás, sem hann varð fyrir og að hann hafi fengið högg í andlit og
vinstri síðu. Ekki komu fram
beináverkar á röntgenmyndum, sem teknar voru í seinni komunni þann sama sólarhring,
en hann var talinn vera með mar og yfirborðsáverka í andliti, mar á vinstri
síðu og líklega með brot í tveimur rifjum vinstra megin í brjóstkassa.
Var
afgreiddur með bólgueyðandi lyf og verkjalyf og fékk endurkomutíma, en ekki er
að sjá, að hann hafi komið í fleiri skipti en þessi tvö, sem hér er frá
greint.”
Á sama tíma
kom á Slysadeild Gunnar Birkisson og í niðurstöðu áverkavottorðs hans segir:
“Gunnar er 36
ára gamall karlmaður sem lendir í ryskingum í miðbæ Reykjavíkur. Var sleginn í höfðið og fellur síðan í
götuna. Fær sár í andlit og hrufl á hæ.
úlnlið. Það er enginn grunur um áverka
á beinum. Sárin eru hreinsuð upp. Reikna má með að sár hans hafi gróið á 1-2 vikum og ekki líklegt
að þau valdi neinum framtíðar útlitslýtum eða óþægindum.”
Niðurstaða.
Ákærði játar að hafa átt aðild að
átökum við brotaþola aðfarnótt sunnudagsins 4. október 1998 í Lækjargötu gegnt
Arnarhóli, en heldur því fram að um slagsmál hafi verið að ræða sem brotaþolar
eigi sjálfir sök á. Upplýst þykir að
ákærði og kærasta hans, Bríet Ósk, annars vegar og hins vegar brotaþolarnir
Gunnar og Óskar Bragi og vitnin Jóhanna, Selma Edda, Hildur Björk og Ingunn
Ásta hafi mæst í Lækjargötu gegnt Arnarhóli umrædda nótt. Ákærði og Bríet Ósk voru, samkvæmt því sem
þau bera sjálf, að rífast og er þetta stutt með framburði Selmu Eddu. Óskar Bragi ber að þeir ákærði hafi rekist
saman þegar þeir mættust og með framburði hans og Gunnars, ákærða og Bríetar
Óskar þykir upplýst að Óskar Bragi sagði eitthvað við ákærða um leið. Gunnar telur að hann hafi afsakað sig,
sjálfur kveðst hann hafa sagt “það munar ekki um það” eða eitthvað líkt og
Selma Edda kveðst hafa heyrt Óskar Braga segja eitthvað á þá leið hvort parið
væri að flýta sér. Ákærði og Bríet Ósk
segja þá hafa hreytt í þau ónotum og verið að skipta sér af rifrildi þeirra,
hvorugt þeirra kvaðst þó muna hvað þeir hefðu sagt. Brotaþolarnir Gunnar og Óskar Bragi bera báðir að ákærði hafi
ráðist fyrirvaralaust aftan að þeim.
Gunnar segir ákærða hafa skyndilega rifið í sig, spurt “hvort hann væri
eitthvað að rífa kjaft” og síðan kýlt sig eða sparkað í sig þannig að hann hafi
rotast. Óskar Bragi sagði hjá lögreglu
að ákærði hefði skallað sig í andlitið og hann hefði vankast, en fyrir dómi
kvað hann ákærða hafa lamið höfði sínu við hné sér og síðan haldið sér með
kyrkingartaki. Vitnið Jóhanna kvaðst
hafa litið við er hún heyrði Gunnar kalla til sín og séð hann um leið kýldan
niður og síðan sparkað í hann, hafi árásaraðilinn einnig ráðist á Óskar Braga. Vitnið Selma Edda ber að hún hafi séð ákærða
þrýsta framhandlegg framan á háls Óskars Braga þar sem hann sat klofvega á
honum. Vitnið Hildur Björk kvaðst hafa
séð Gunnar liggja í grasinu og séð ákærða skella höfði Óskars Braga á hné sér
og síðan halda báðum höndum um háls hans og herða að. Vitnið Ingunn Ásta kveður Gunnar hafa legið í jörðinni þegar hún
snéri sér við, hún kveðst hafa séð ákærða halda um höfuð Óskars Braga og reka
það í hné sér og síðar sitja á Óskari Braga með annað hnéð og hendur við háls
hans og þrýsta að svo hann hafi verið farinn að blána. Með vitnaframburði þeim sem hér hefur verið
rakinn þykir sannað að ákærði hafi ráðist að brotaþolunum Gunnari og Óskari
Braga og veitt þeim þá áverka sem í ákæru greinir. Þykir þessi árás hafa verið án tilefnis og fólskuleg, en ósönnuð
er sú fullyrðing ákærða að fólkið hafi áreitt hann og vitnið Bríeti Ósk. Er ákærði fundinn sekur um þá háttsemi sem
honum er gefin að sök í II. lið ákæru og þykir brotið vera þar rétt heimfært
til refsiákvæðis.
Bótakröfur brotaþola Gunnars
Birkissonar og Óskars Braga Sigþórssonar, þykja ekki vera nægilega reifaðar né
studdar gögnum á fullnægjandi hátt þannig að á þær verði lagður dómur og er
þeim því vísað frá dómi.
Refsiákvörðun.
Ákærði er fæddur árið 1971. Hann var ekki orðinn fullra 18 ára þegar
hann gekkst hinn 3. apríl 1989 undir sátt fyrir brot gegn 106 og 1. mgr. 217.
gr. alm. hgl. Í fimm önnur skipti hefur
hann gengist undir sátt, fjórum sinnum vegna umferðarlagabrota og einu sinn
vegna áfengislagabrots og brots gegn 106. gr. alm. hgl., síðast var gerð við
hann sátt 10. júlí 1997. Hann hefur
fimm sinnum hlotið dóm. 14. janúar 1994
varðhald í 40 daga, skilorðsbundið í þrjú ár vegna líkamsárásar samkvæmt 1.
mgr. 217. gr alm. hgl., hinn 26. júní 1995 þriggja mánaða varðhald
skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot samkvæmt sömu lagagrein, hinn 29. september
1995 fimm mánaða fangelsi fyrir brot gegn löggjöf um ávana og fíkniefni, hinn
4. janúar 1996 fangelsi í fjóra mánuði fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218.
gr. alm. hgl. og loks 28. mars sama ár tveggja mánaða hegningarauka fyrir brot
samkvæmt sömu lagagrein. Hinn 29.
desember 1996 var honum veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar
110 dögum. Stóðst hann það skilorð. Eftir 18 ára aldur hefur ákærði því fjórum
sinnum hlotið refsingu fyrir líkamsárásir, síðast árið 1996, og auk þess einu
sinni fyrir brot gegn 106. gr. alm. hgl.
Árás ákærða
beindist gegn tveimur mönnum og þykir hafa verið tilefnislaus og vítaverð,
alvarleg meiðsli hefðu getað hlotist af henni, en sú varð ekki raunin. Um ítrekun er að ræða og ber því að ákvarða
refsingu samkvæmt 1. mgr. 218. gr. a, sbr. 71. gr. alm. hgl. með áorðnum
breytingum. Refsingin þykir hæfilega
ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Vegna
sakarferils ákærða kemur ekki til greina að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði skal greiða
helming alls sakarkostnað.
Málsvarnarlaun til skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar
hæstaréttarlögmanns, ákvarðast 120.000 krónur.
Bótakröfum er
vísað frá dómi.
Hjördís
Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
d ó m s o r ð
Ákærði, Óskar Svanur
Barkarson, skal sæta fangelsi í fjóra mánuði.
Ákærði skal greiða
helming alls sakarkostnað.
Málsvarnarlaun til skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar
hæstaréttarlögmanns, ákvarðast 120.000 krónur.
Bótakröfum er
vísað frá dómi.