Hæstiréttur íslands
Mál nr. 654/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Föstudaginn 1. nóvember 2013. |
|
Nr. 654/2013.
|
Einar Árnason (sjálfur) gegn Dróma hf. (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli E á hendur D hf., til úrlausnar um gildi nauðungarsölu, var vísað frá héraðsdómi. Með dómi Hæstaréttar var hinn kærði úrskurður ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, með vísan til þess að héraðsdómur hefði ekki leyst úr málinu á réttum lagagrundvelli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili þess með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 16. febrúar 2012 að íbúð í eigu sóknaraðila að Tjarnargötu 10 í Reykjavík, númer 01-0502, yrði seld nauðungarsölu til lúkningar skuld við sig samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu 27. október 2004, en íbúðin hafði verið sett að veði til tryggingar skuldinni. Með tilkynningu sýslumanns 15. mars 2012 var varnaraðila greint frá því að fyrrgreind beiðni um nauðungarsölu hafi borist embættinu og yrði hún tekin fyrir á skrifstofu þess 24. maí 2012, að undangenginni auglýsingu sem send yrði til birtingar í Lögbirtingablaði 12. apríl sama ár.
Hinn 28. maí 2013 fór samkvæmt fyrirliggjandi endurriti úr gerðabók sýslumanns fram að Tjarnargötu 10 nauðungarsala til að halda áfram uppboði á fyrrnefndri eign sóknaraðila. Fyrir varnaraðila sem gerðarbeiðanda var mættur nafngreindur héraðsdómslögmaður og sóknaraðili sem gerðarþoli. Bókað var að honum hafi verið kynnt framlögð gögn og leiðbeint um réttarstöðu sína. Síðan var fært til bókar: „Gerðarþoli óskar bókað að hann hafi krafist að fá að greiða lánið á 1. veðrétti á sama hátt og lán Hildu hf. sem hvílir á Grundarstíg 5, Reykjavík en það hafi ekki fengist. Gerðarþoli leggur fram tölvupósta ... með samskiptum við Dróma hf. þar sem hann telur að fram komi ósannindi starfsmanns og vanræksla starfsmanna Dróma hf. við úrlausn mála“. Lögmaður varnaraðila mótmælti bókun sóknaraðila í heild sinni sem rangri og tilhæfulausri og var þess krafist að uppboðið færi fram. Sýslumaður taldi þær athugasemdir sem fram komu ekki leiða til þess að stöðva bæri uppboðið og skyldi það því fara fram að kröfu varnaraðila sem gerðarbeiðanda. Leitað var eftir boðum í eignina og var hæst boðið í hana af hálfu varnaraðila. Síðan var bókað: „Frekari boð komu ekki fram og er uppboðið á eigninni nú lokið. Hæstbjóðanda er greint frá því að boð hans í eignina verði samþykkt ef greiðsla berst samkvæmt því í samræmi við breytta uppboðsskilmála þann 23. júlí nk. kl. 11:00.“
Sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms 19. júlí 2013 „um ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík ... 28. maí 2013 vegna framhalds nauðungarsölu og nauðungarsölu almennt að Tjarnargötu 10 íbúð nr-0502“. Krafðist sóknaraðili þess að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi og sér úrskurðaður málskostnaður. Í hinum kærða úrskurði er tekið fram að í XIII. kafla laga nr. 90/1991 sé fjallað um úrlausn héraðsdómara um ágreining sem rís við nauðungarsölu. Segi í 5. mgr. 73. gr. þeirra laga að sá sem leitar slíkrar úrlausnar skuli tafarlaust senda héraðsdómara málsgögn samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar. Í lok úrskurðarins kemur fram að þar sem sóknaraðili hafi ekki lagt fram þau gögn þrátt fyrir ótvíræða skyldu hans til þess séu ekki uppfyllt skilyrði laganna til að taka kröfu hans til meðferðar. Af þeim sökum verði að vísa kröfunni frá dómi af sjálfsdáðum án þess málið sé formlega tekið fyrir á dómþingi, sbr. 1. mgr. 74. gr. þeirra. Í úrskurðinum er þess ekki getið að sóknaraðila, sem er ólöglærður og fór með mál sitt sjálfur, hafi verið leiðbeint um formhlið þess.
II
Samkvæmt 6. mgr., sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991 getur gerðarþoli borið ágreining undir héraðsdómara um gildi nauðungarsölu sem þegar hefur farið fram, þar á meðal gildi uppboðs sem hefur verið fram haldið eftir ákvörðun sýslumanns, sbr. 35. gr. og 36. gr. sömu laga. Í 2. mgr. 22. gr. er meðal annars kveðið á um að mótmæli af hendi gerðarþola skuli að jafnaði ekki stöðva nauðungarsölu nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður telji þau annars valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsalan fari fram. Taki sýslumaður ekki til greina mótmæli gerðarþola stöðvi það ekki frekari aðgerðir að hann lýsi yfir að hann muni bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm eftir ákvæðum XIV. kafla laganna. Sá kafli ber heitið „Úrlausn um gildi nauðungarsölu.“ Þar segir meðal annars í 1. mgr. 80. gr. að þegar uppboði hefur verið lokið samkvæmt V. kafla laganna geti hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar.
Eins og áður greinir leitaði sóknaraðili úrlausnar héraðsdómara eftir að uppboði á íbúð hans var lokið. Skýra verður kröfu sóknaraðila svo að með þessu sé hann að leita úrlausnar um gildi nauðungarsölunnar. Það þýðir sem fyrr segir að leysa ber úr kröfunni eftir XIV. kafla laga nr. 90/1991, en ekki XIII. kafla þeirra svo sem gert var í hinum kærða úrskurði. Af þessari ástæðu verður að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdóm að leysa úr málinu að nýju á réttum lagagrundvelli.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2013.
I
Með tilkynningu móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júlí sl. krafðist Einar Árnason, kt. [...], úrlausnar héraðsdóms um ,,ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík þriðjudaginn 28. maí sl. vegna framhalds nauðungarsölu og nauðungarsölu almennt að Tjarnargötu 10, íbúð nr. 0502, fnr. 200-2809.“
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og honum úrskurðaður málskostnaður.
II
Í XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu er fjallað um úrlausn héraðsdómara um ágreining sem rís við nauðungarsölu. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. laganna skal sá sem vill leita úrlausnar héraðsdómara lýsa því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni, þar sem sú ákvörðun kemur fram sem leita á úrlausnar um. Hafi hlutaðeigandi ekki verið staddur við fyrirtökuna og ekki mátt fá boðun til hennar eða haft lögmæt forföll eða ákvörðunin kom ekki fram við fyrirtöku, má hann þó koma yfirlýsingu sinni bréflega fram við sýslumann innan viku frá því honum varð kunnugt um ákvörðunina, ef henni hefur ekki þegar verið framfylgt með aðgerðum við nauðungarsöluna. Fram kemur m.a. í 3. mgr. sömu greinar að sýslumaður skuli svo fljótt sem er unnt afhenda þeim sem hyggst leita úrlausnar héraðsdómara staðfest eftirrit framlagðra gagna og endurrit úr gerðabók að því leyti sem þau varða ágreiningsefnið. Í 5. mgr. sömu greinar segir síðan að sá sem leitar úrlausnar héraðsdómara skuli tafarlaust senda honum málsgögn skv. 3. mgr.
Sóknaraðili hefur enn ekki lagt fram staðfest eftirrit framlagðra gagna og endurrit úr gerðabók, en liðnir eru rúmir tveir mánuðir frá því sóknaraðili lagði fram kröfu sína til héraðsdóms 19. júlí sl.
Í 1. mgr. 74. gr. laganna segir að þegar héraðsdómara hafi borist gögn varðandi nauðungarsöluna kanni hann hvort skilyrðum þessara laga til að leita úrlausnar hans sé fullnægt. Ef svo er ekki vísi hann málinu frá dómi með úrskurði án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi.
Þar sem staðfest eftirrit framlagðra gagna og endurrit úr gerðabók hefur ekki verið lagt fram þrátt fyrir ótvíræða skyldu þar um, eru ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu til þess að taka kröfu sóknaraðila til meðferðar. Af þeim sökum verður að vísa henni frá dómi án kröfu, það er án þess að varnaraðili að slíku ágreiningsmáli krefjist þess og án þess að það sé formlega tekið fyrir á dómþingi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laganna.
Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.