Hæstiréttur íslands
Mál nr. 126/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 25. mars 2010. |
|
Nr. 126/2010. |
Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. (Baldvin Hafsteinsson hrl.) gegn Guðmundi H. Víglundssyni (enginn) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.
V sf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að tvær bifreiðar yrðu teknar úr vörslum G og umráð þeirra fengin honum. Talið var að kæra V sf. hafi borist of seint þar sem þá hafi verið liðinn tveggja vikna frestur, samkvæmt 144. gr. laga nr. 91/1991, til að til að kæra úrskurðinn. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru dagsettri 23. febrúar 2010, sem barst héraðsdómi 26. sama mánaðar, en Hæstarétti, ásamt kærumálsgögnum, 3. mars 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. febrúar 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að bifreiðirnar EZ-G29 og IU-G49 yrðu teknar úr vörslum varnaraðila og umráð þeirra fengin sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og krafa hans, um að tilgreindar bifreiðir verði teknar úr vörslum varnaraðila og umráð þeirra fengin sóknaraðila, verði tekin til greina. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt endurriti úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness var sótt þing af hálfu aðila við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 11. febrúar 2010. Eins og að ofan greinir er kæra sóknaraðila dagsett 23. febrúar sama ár, en árituð um móttöku af Héraðsdómi Reykjaness 26. sama mánaðar. Var þá liðinn sá tveggja vikna frestur til að kæra úrskurðinn sem áskilinn er í 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt því verður málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. febrúar 2010.
I.
Mál þetta var þingfest 27. nóvember 2009 og tekið til úrskurðar 8. janúar 2010.
Gerðarbeiðandi er Eiríkur Ormur Víglundsson f.h. Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., Kaplahrauni 14-16, Hafnarfirði
Gerðarþoli er Guðmundur Helgi Víglundsson, Erluási 15, Hafnarfirði.
Dómkröfur gerðarbeiðanda eru þær að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að bifreiðarnar EZ-G29 af gerðinni Nissan Primastar, fyrst skráð 30.08.2007, og IU-G49 af gerðinni Nissan Primastar, fyrst skráð 16.05.2008, verði teknar úr vörslum gerðarþola og umráð þeirra fengin gerðarbeiðanda. Þess er krafist að gerðin fari fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.
Gerðarþoli krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar að mati dómsins úr hendi gerðarbeiðanda, í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.
II.
Í framlögðum félagasamningi, sem Víglundur Guðmundsson og Eiríkur Ormur Víglundsson, sonur hans, gerðu með sér og innlagður var í firmaskrá 25. júní 1980, kemur fram að þeir reki í félagi í Reykjavík, vélsmiðju svo og annan skyldan atvinnurekstur undir firmanafninu Vélsmiðja Orms og Víglundar sf. Kemur þar fram að hlutur Eiríks Orms hafi numið 80% en hlutur Víglundar 20% og skyldi ágóða og halla af starfseminni skipt eftir sömu hlutföllum en gagnvart lánadrottnum skyldu þeir ábyrgjast skuldir félagsins að óskiptu. Þá segir í 3. gr. samningsins að undirskrift beggja þurfi til að selja eða veðsetja eignir firmans svo og til allra meiri háttar ráðstafana, svo sem gerðar verksamninga og stærri skuldbindinga, og þá hafi þeir báðir prókúruumboð fyrir firmað.
Víglundur Guðmundsson lést 1984. Með tilkynningu til firmaskrár, sem móttekin var af borgarfógetaembættinu í Reykjavík 30. ágúst 1984, óskuðu þau Eiríkur Ormur Víglundsson og Eyrún Eiríksdóttir, ekkja Víglundar, eftir því að prókúra Víglundar yrði afmáð úr firmaskrá. Þá var jafnframt tilkynnt að framvegis yrði firmað ritað af Eiríki Ormi. Með tilkynningu til firmaskrár dagsettri 30. september 1994 tilkynnti Eyrún Eiríksdóttir að aðild hennar að sameignarfélaginu væri lokið og sama dag tilkynntu þeir Eiríkur Ormur og gerðarþoli að gerðarþoli hefði gerst aðili að sameignarfélaginu. Kom jafnframt fram að þeir ábyrgðust skuldbindingar félagsins báðir fyrir annan og annar fyrir báða.
Óumdeilt er að gerðarþoli hafði tilgreindar bifreiðar í eigu Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. til umráða. Þá er einnig óumdeilt að sumarið 2009 kom upp ósætti á milli þeirra bræðra Eiríks Orms og gerðarþola en aðila greinir á um orsakir ósamkomulagsins. Þá er ágreiningur um það hvort gerðarþoli hafi hætt störfum fyrir gerðarbeiðanda auk þess sem bræðurna greinir á um það hvort gerðarþoli sé sameigandi með bróður sínum að gerðarbeiðanda og hvort gerðarþoli sé enn starfsmaður gerðarbeiðanda.
Ljóst er af gögnum málsins að tilkynning um að gerðarþola hafi á félagsfundi í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. verið vikið brott úr félaginu á grundvelli ákvæða 6. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög var send til firmaskrár 11. desember 2009. Þá liggur einnig fyrir í málinu vottorð Fyrirtækjaskrár dagsett 8. desember 2009 þar sem fram kemur að eini eigandi Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. sé Eiríkur Ormur Víglundsson. Þessum gögnum hefur gerðarþoli mótmælt sem röngum.
III.
Af hálfu gerðarbeiðanda er á því byggt að gerðarþoli hafi látið af störfum sem framkvæmdastjóri hjá gerðarbeiðanda sumarið 2009. Gerðarþoli hafi hins vegar ekki sinnt margítrekuðum óskum gerðarbeiðanda um að afhenda bifreiðarnar EZ-G29 og IU-G49, sem hann hafði til umráða meðan hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra. Sé því gerðarbeiðanda nauðugur einn kostur að krefjast þess að bifreiðarnar verði teknar með valdi úr umráðum gerðarþola og umráð þeirra fengin gerðarbeiðanda að nýju.
Við munnlegan málflutning kom fram að gerðarbeiðandi byggði á því að hann væri eigandi umræddra bifreiða en gerðarþoli hefði hins vegar ekki sýnt fram á að hann hefði lögmætar vörslur þeirra. Skipti engu máli í því sambandi hvort gerðarþoli sé sameigandi að gerðarbeiðanda eða ekki. Öll fríðindi starfsmanna falli niður við starfslok og því beri gerðarþola að skila bifreiðunum til gerðarbeiðanda. Eiríkur Ormur Víglundsson sé löglegur fyrirsvarsmaður gerðarbeiðanda og riti firmað og hafi því heimild til að leggja fram framkomna aðfararbeiðni í nafni gerðarbeiðanda.
Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til ákvæða 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
IV.
Gerðarþoli byggir kröfu sína á því að Eiríkur Ormur Víglundsson hafi ekki haft heimild til þess að leggja fram umrædda aðfararbeiðni f.h. Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. Í íslenskum rétti gildi sú meginregla þegar um sameignarfélög er að ræða, að samþykki allra félagsmanna þurfi til ráðstafana sameignarfélags, sbr. 2. mgr. 12. laga um sameignarfélög nr. 50/2007.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög, geti hver og einn félagsmaður, í sameignarfélagi þar sem stjórn hefur ekki verið kosin og framkvæmdarstjóri ekki ráðinn, gert ráðstafanir sem eru eðlilegur þáttur í rekstri félagsins og enginn félagsmanna hefur lýst sig mótfallinn. Gerðarþoli telji að framlagning umræddrar aðfararbeiðnar sé ekki eðlilegur þáttur í rekstri umrædds sameignarfélags enda sé hún gerð í þeim eina tilgangi að ganga á rétt annars sameiganda. Gerðarþoli sé sjálfur félagsmaður í umræddu sameignarfélagi og sé mótfallinn framlagningu aðfararbeiðninnar. Því séu skilyrði ofangreindrar lagagreinar ekki uppfyllt.
Ákvörðun um að taka umræddar bifreiðar úr vörslum annars félagsmanns verði eingöngu tekin á fundi í sameignarfélaginu og til hennar þurfi samþykki allra félagsmanna, sbr. 2. mgr.12. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög. Enginn slíkur fundur hafi verið haldinn í félaginu. Þá megi geta þess að Eiríkur Ormur hafi sjálfur til umráða bifreiðar frá félaginu með sama hætti og gerðarþoli.
Í bréfi lögmanns Eiríks Orms Víglundssonar til lögmanns gerðarþola dagsettu 22. september 2009, hafi því verið haldið fram að gerðarþoli væri ekki sameigandi að sameignarfélaginu. Fyrir liggi hins vegar að gerðarþoli hafi gerst aðili að félaginu þann 30. september 1994, sbr. tilkynningu til firmaskrár Reykjavíkur þess efnis. Gerðarþoli sé skráður sameigandi að félaginu hjá sýslumanni og hafi þeirri skráningu ekki verið hnekkt á neinn hátt.
Ljóst sé að Eiríkur Ormur og gerðarþoli hafi umboð til þess að rita firmað fyrir hönd félagsins á grundvelli laga nr. 42/1903, um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð. Í 118. gr. laganna komi fram að í tilkynningu um félag með ótakmarkaðri ábyrgð skuli m.a. tilkynna hvort einstakur félagsmaður hafi ekki rétt til þess að rita firma. Því hafi hver einstakur félagsmaður rétt til þess að rita firma ef ekki hefur verið tilkynnt um að einstakur félagsmaður hafi ekki slíkan rétt. Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/2007 sameignarfélög, komi fram að hafi stjórn ekki verið kosin í sameignarfélagi, framkvæmdastjóri ekki ráðinn og ekki er um annað samið og það tilkynnt til firmaskrár, sé hver einstakur félagsmaður í fyrirsvari fyrir félagið og riti firma þess. Þótt Eiríkur Ormur hafi umboð til firmaritunar, liggi fyrir að hann skorti heimild félagsfundar samkvæmt sameignarfélagalögum til að óska eftir aðför í framangreindum bifreiðum.
Gerðarþoli bendir á að hann hafi ekki haft til umráða umræddar bifreiðar vegna þess að hann hafi verið framkvæmdarstjóri sameignarfélagsins, heldur vegna þess að hann sé annar af sameigendum þess. Í aðfararbeiðni fullyrði gerðarbeiðandi að gerðarþoli hafi í raun verið framkvæmdarstjóri sameignarfélagsins og sé þeirri fullyrðingu ekki mótmælt. Gerðarþoli starfi enn hjá sameignarfélaginu sem annar eigandi þess. Að öllu ofangreindu virtu telji gerðarþoli að hafna beri kröfum gerðarbeiðanda. Um lagarök vísar gerðarþoli til laga nr. 50/2007, um sameignarfélög, einkum til III. kafla, um stjórnkerfi og réttarstöðu félagsmanna. Einnig vísar gerðarþoli til laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, einkum 2. kafla um firmu. Málskostnaðarkrafan styðjist XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Niðurstaða.
Í 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 segir að ef manni sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður samkvæmt 83. gr. sömu laga, sé honum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis, sem getur í 72. eða 73. gr., verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. liggi ekki fyrir. Gerðarbeiðandi verður því að eiga ljós réttindi og þarf að vera réttur aðili að kröfu um gerðina og hann þarf að sanna réttindi sín með gögnum sem fyrrgreind 83. gr. heimilar honum að styðja mál sitt við fyrir dómi. Í athugasemdum með aðfararlögum er tekið svo til orða að það sé skilyrði beinnar aðfarargerðar að krafa gerðarbeiðanda sé skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljóst, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana. Segir jafnframt að litið hafi verið svo á, að krafa fullnægi þessum áskilnaði ef hægt sé að sýna fram á réttmæti hennar með þeim takmörkuðu sönnunargögnum, sem heimilt sé að afla við aðför, þannig að ekki verði talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga.
Í máli þessu er óumdeilt og sýnt fram á með gögnum, að gerðarbeiðandi er eigandi bifreiðanna EZ-G29 og IU-G49. Þá er einnig óumdeilt að gerðarþoli hafði heimild til umráða yfir bifreiðunum þar til ágreiningur kom upp milli eigenda sameignarfélagsins. Eins og áður er fram komið, kom til deilna milli sameigenda að gerðarbeiðanda sumarið 2009 sem standa enn. Snýst ágreiningurinn meðal annars um það, hvort gerðarþoli sé sameigandi að gerðarbeiðanda með Eiríki Ormi Víglundssyni og hvort ákvarðanir sameignarfélagsins, sem sagðar eru teknar eftir að ágreiningur þeirra bræðra kom upp, séu teknar með lögformlegum hætti og séu því löglegar. Liggja frammi í málinu fjölmörg gögn sem sýna ágreining aðila og aðgerðir vegna hans.
Eins og áður er rakið, bera gögn málsins með sér að þann 30. september 1994 hafi firmaskrá verið tilkynnt að gerðarþoli hefði gerst aðili að Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. Í máli þessu er því mótmælt af hálfu gerðarbeiðanda, að með þessari aðild hafi gerðarþoli orðið sameigandi að félaginu eins og gerðarþoli heldur fram. Þá liggur frammi í málinu annars vegar tilkynning til firmaskrár dagsett 11. desember 2009 um að gerðarþola hafi á félagsfundi í Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. verið vikið brott úr félaginu á grundvelli ákvæða 6. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög og hins vegar vottorð fyrirtækjaskrár dagsett 8. desember 2009 þar sem fram kemur að eini eigandi Vélsmiðju Orms og Víglundar sf. sé Eiríkur Ormur Víglundsson. Þessum gögnum hefur gerðarþoli mótmælt sem röngum en ljóst er að tilkynning um einn eiganda er dagsett áður en gerðarþola, sem samkvæmt eldra vottorði firmaskrár var annar tveggja sameigenda, var samkvæmt gögnunum vikið úr félaginu. Úr þessum ágreiningi verður ekki leyst í þessu máli og telur dómurinn, í ljósi andmæla gerðarþola, að með vísan til alls framanritaðs sé varhugavert að láta umbeðna aðfarargerð ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Verður því að hafna kröfum gerðarbeiðanda í málinu.
Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað eins og í úrskurðarorði greinir.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kröfum gerðarbeiðanda, Vélsmiðju Orms og Víglundar sf., er hafnað.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola, Guðmundi Helga Víglundssyni, 260.000 krónur í málskostnað.