Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. ágúst 2006.

Nr. 443/2006.

Sýslumaðurinn í Keflavík

(Ásgeir Eiríksson fulltrúi)

gegn

X

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. ágúst 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. ágúst 2006.

Lögreglustjórinn í Keflavík krefst þess að kærða, X,  kt. [...], Reykjanesbæ, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. ágúst nk. kl. 16:00.

Kærði mótmælir framangreindri gæsluvarðhaldskröfu.

                Lögreglustjóri kveður málsatvik þau helst, að þann 12. ágúst síðastliðinn hafi verið tilkynnt um innbrot og þjófnað að A í Keflavík. Um hafi verið að ræða talsvert magn verðmæta, tæknibúnaðs, myndavéla, peninga, vegabréfa, lykla og ýmissa annarra muna. Sama dag hafi verið tilkynnt um innbrot og þjófnað í íbúðarhúsnæði að B í Grindavík. Þar hafi einnig verið um að ræða talsverð verðmæti, tæknibúnað, skartgripi, peninga og ýmsa aðra verðmæta muni.  Skömmu eftir að tilkynning um innbrotið í Grindavík barst til lögreglu hafi lögreglu borist upplýsingar þess efnis að mögulegt þýfi hefði fundist á lóð C í Keflavík. Um hafi verið að ræða muni tengda innbrotinu í B í Grindavík. Umrætt svæði C er vaktað með myndavélum.

Aðfararnótt sunnudagsins 13. ágúst kl. 02:23 hafi þau Y, kt. [...], X, kt. [...] og Z, kt. [...], verið handtekin á vettvangi innbrots að D í Vogum. Í bifreið sem þau voru á hafi fundist munir úr hinum tveimur innbrotunum en alls ekki allt sem stolið hafði verið. Bæði Y og X eru þekktir afbrotamenn. Þeir neita að tjá sig um mikilvæg málsatvik og neiti að upplýsa lögreglu um dvalarstað sinn. Þriðji aðilinn, Z hafi viðurkennt að hafa leyft Y að geyma þýfi í bifreið hennar, [...], í nokkurn tíma og að hún hafi fengið hjá Y fíkniefni í staðinn. Grunur leiki á að þýfi sé falið á heimili hennar og foreldra hennar að E í Hafnarfirði. Þá hafi fundist kveikjuláslyklar bifreiðar sem tilkynnt var stolin á Akureyri síðastliðna verslunarmannahelgi.

Kærði viðurkenndi aðild sína að innbrotinu að D í Vogum fyrir dóminum en neitaði aðild að öðrum innbrotum.

Lögreglustjóri kveður rannsókn málsins vera á frumstigi. Með tilliti til umfangs málanna og nauðsynlegs tíma sem þarf til að rannsaka og leita frekari sönnunargagna og fá nákvæmari upplýsingar hjá tjónþolum og öðrum sem veitt geta mikilvægar upplýsingar sé það mat lögreglustjóra að nauðsynlegt sé að úrskurða ofangreinda einstaklinga í gæsluvarðhald á meðan nauðsynlegir rannsóknarhagsmunir séu verndaðir.  Hætta sé á að sakborningar valdi sakarspjöllum ef þeir fá að ganga lausir.

Vísað er til a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.

                Rannsókn stendur nú yfir hjá lögreglu á ætluðum þjófnaðarbrotum kærða, Y og Z. Þykir rökstuddur grunur fyrir hendi samkvæmt gögnum málsins um að kærðu hafi gerst sek um þjófnaði á verðmætum munum. Er rannsókn málsins enn á frumstigi og ljóst að gangi kærði laus megi ætla að hann muni torvelda rannsókn lögreglu með því að hafa áhrif á samseka, spilla sakargögnum og koma verðmætum undan. Er því fallist á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála séu uppfyllt og því beri að verða við kröfu lögreglustjóra um að kærði skuli sæta gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna eins og krafan er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 16. ágúst nk. kl. 16:00.