Hæstiréttur íslands

Mál nr. 378/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Einkahlutafélag
  • Fyrirsvar
  • Aðild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 378/2011.

Strengur byggingar ehf.

(Steinn S. Finnbogason hdl.)

gegn

Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Einkahlutafélög. Fyrirsvar. Aðild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa F hf. um að bú S ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Hæstiréttur vísaði til þess að samkvæmt gögnum málsins hefði enginn átt sæti í stjórn og framkvæmdastjórn S ehf. þegar úrskurður héraðsdóms var kærður. Þá segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að sérregla 3. mgr. 40. gr. laga nr. 138/1994 um formlegt fyrirsvar fyrir einkahlutafélag, sem sé án stjórnar, taki aðeins til tilvika, þar sem aðrir leitist við að fylgja eftir réttindum sínum gagnvart félaginu, en veiti ekki fyrrum stjórnarmönnum vald til að taka ákvarðanir um málefni félagsins, sem hefðu ella heyrt undir stjórn þess. Því væru Í og Þ, sem sögðu sig úr stjórn S ehf. 13. maí 2011, ekki bærir um að taka ákvörðun um að kæra úrskurð héraðsdóms í málinu frá 30. sama mánaðar til Hæstaréttar. Þá taldi Hæstiréttur að umboð Í og Þ til handa lögmönnum, í janúar 2011, til að taka ákvörðun um að skjóta til Hæstaréttar máli, sem ekki hafði verið leyst úr fyrir héraðsdómi, gæti heldur ekkert gildi haft þegar enginn væri lengur bær til að ráða málefnum S ehf. að lögum. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá, sem liggja fyrir í málinu, skipuðu Ívar Ómar Atlason og Þórarinn Arnar Sævarsson stjórn sóknaraðila 13. desember 2010 og höfðu átt þar sæti frá 4. apríl 2007, en sá síðarnefndi var jafnframt framkvæmdastjóri félagsins. Varnaraðili hefur lagt fram í Hæstarétti ljósrit tilkynningar Ívars Ómars og Þórarins Arnars, sem barst fyrirtækjaskrá 13. maí 2011, þar sem þeir sögðu sig úr stjórn sóknaraðila og Þórarinn Arnar sagði að auki af sér sem framkvæmdastjóri félagsins. Einnig hefur varnaraðili lagt fram vottorð úr fyrirtækjaskrá 7. júlí 2011, þar sem fram kemur að enginn eigi sæti í stjórn sóknaraðila og gegni heldur enginn starfi framkvæmdastjóra félagsins. Verður við það að miða að svo hafi verið ástatt fyrir sóknaraðila þegar úrskurður héraðsdóms í máli þessu var kærður.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög fer stjórn slíks félags með málefni þess, en sé framkvæmdastjóri ráðinn stjórnar hann félagi ásamt stjórn þess. Í 1. mgr. 40. gr. laganna er kveðið á um heimild stjórnarmanns í einkahlutafélagi til að segja hvenær sem er starfa sínum lausum, en samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar ber öðrum stjórnarmönnum að efna þá til kjörs nýs stjórnarmanns ef enginn varamaður er til að taka sæti hans. Í 3. mgr. 40. gr. laganna er mælt svo fyrir að verði félag án stjórnar skuli þeir, sem síðast gegndu stjórnarstörfum, formlega skoðast í fyrirsvari uns ný stjórn tekur við.  Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 138/1994, sagði um þetta síðastnefnda ákvæði að það væri samsvarandi tillögu, sem gerð hefði verið um breytingu á 48. gr. þágildandi laga nr. 32/1978 um hlutafélög, en sú tillaga náði fram að ganga með c. lið 53. gr. laga nr. 137/1994, sbr. nú 3. mgr. 64. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Samkvæmt athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 137/1994, var þetta ákvæði sett „til að girða fyrir réttarfarslega erfiðleika við að stefna félagi sem er án stjórnar en á þetta hefur reynt. Er kveðið á um að þeir sem síðast gegndu stjórnarstörfum skoðist formlega í fyrirsvari uns ný stjórn tekur við.“ Af þessum lögskýringargögnum verður að álykta að sérregla 3. mgr. 40. gr. laga nr. 138/1994 um svokallað formlegt fyrirsvar fyrir einkahlutafélag, sem er án stjórnar, taki aðeins til tilvika, þar sem aðrir leitast við að fylgja eftir réttindum sínum gagnvart félaginu, en veiti á hinn bóginn ekki fyrrum stjórnarmönnum vald til að taka ákvarðanir um málefni félagsins, sem hefðu ella heyrt undir stjórn þess. Samkvæmt þessu voru áðurnefndir menn, sem sögðu sig úr stjórn sóknaraðila 13. maí 2011, ekki bærir um að taka ákvörðun um að kæra úrskurð héraðsdóms í máli þessu frá 30. sama mánaðar til Hæstaréttar.

Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt yfirlýsingu Ívars Ómars Atlasonar og Þórarins Arnars Sævarssonar 13. júlí 2011, þar sem meðal annars er tekið fram að þeir hafi í janúar á því ári falið lögmönnum á tiltekinni lögmannsstofu að taka fyrir hönd sóknaraðila til varna gegn kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti á félaginu „fyrir héraðsdómi og með kæru til Hæstaréttar ef til kæmi.“ Slíkt umboð til að taka ákvörðun um að skjóta til Hæstaréttar máli, sem ekki hefur verið leyst úr fyrir héraðsdómi, getur ekkert gildi haft eftir að enginn er lengur bær til að ráða málefnum sóknaraðila að lögum. Að virtu þessu og öðru því, sem að framan greinir, verður ekki litið svo á að sóknaraðili standi að kæru á úrskurði héraðsdóms. Af þeim sökum ber að vísa málinu frá Hæstarétti.

Varnaraðili hefur ekki krafist kærumálskostnaðar úr hendi annars en sóknaraðila, sem samkvæmt framansögðu telst ekki standa að málskoti þessu. Kærumálskostnaður verður af þeim sökum ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2011.

Sóknaraðili, Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., kt. 691282-0829, Lágmúla 6, Reykjavík, krefst þess að bú varnaraðila, Strengs bygginga ehf., kt. 471205-0280, Lágmúla 6, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta.  Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað. 

Krafa sóknaraðila barst dóminum 13. desember 2010.  Hún var tekin fyrir á dómþingi 9. febrúar 2011 og komu þá fram mótmæli varnaraðila.  Var þingfest ágreiningsmál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 19. maí sl. 

Sóknaraðili kveðst eiga kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt lánssamningi dags. 6. desember 2005.  Lánaði hann til varnaraðila eins og hann segir jafnvirði 130.000.000 íslenskra króna, í svissneskum frönkum (60%) og japönskum jenum (40%).  Hann segir skuldina nema nú 512.625.406 íslenskum krónum. 

Sóknaraðili kveðst eiga veð til tryggingar þessari skuld og öðrum skuldum varnaraðila í Elliðabraut 4, 6, 8, 10 og 12 í Reykjavík (1. veðréttur).  Þá eigi hann tryggingarbréf á 4. veðrétti í Smárahvammi í Garðabæ til tryggingar 25.000.000 króna.  Hann hafi einnig fengið framseldan byggingarrétt á lóðunum við Elliðabraut, en ekki sé unnt að þinglýsa veðbréfum á eignirnar.  Tekur hann fram að veðbréf sín njóti veðréttar samhliða veðrétti Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, til tryggingar jafn háum kröfum. 

Sóknaraðili vísar til árangurslauss fjárnáms er gert hafi verið hjá varnaraðila 13. september 2010.  Að kröfu Tollstjóra var þar gert fjárnám fyrir kröfu að fjárhæð 341.811 krónur.  Ekki var mætt af hálfu varnaraðila og var gerðinni lokið sem árangurslausri samkvæmt 2. tl. 62. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. gr. laga nr. 95/2010. 

Varnaraðili upplýsir í greinargerð sinni að sóknaraðili sé stærsti eigandi varnaraðila í gegnum dótturfélag sitt.  Hann ráði öllum ákvörðunum um málefni varnaraðila.  Sóknaraðili hafi veitt lán gegn 1. veðrétti í lóðunum við Elliðabraut, samhliða jafn háu láni frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis.  Báðir þessir aðilar hafi krafist þess að eignast hlut í varnaraðila og hafi það gengið eftir.  Ekki hafi verið unnt að þinglýsa veðbréfum á lóðirnar og því sé sóknaraðili skráður eigandi.  Fullyrt er raunar í greinargerðinni að umrætt lán hafi ekki verið greitt til varnaraðila.  Standi hann ekki í skuld við sóknaraðila. 

Þá segir varnaraðili að hann hafi greitt kröfu Tollstjóra sem fjárnám var gert fyrir þann 3. febrúar 2011.  Sama dag hafi hann krafist endurupptöku fjárnáms­gerðarinnar. 

Varnaraðili byggir á því að hin árangurslausa fjárnámsgerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans.  Hann segir að sú krafa Tollstjóra sem fjárnám var gert fyrir hafi verið byggð á áætlun skattstjóra, en ekki skilagreinum.  Krafan hafi samt sem áður verið greidd og muni hann nú eiga endurgreiðslukröfu á hendur Tollstjóra, þegar sóknaraðili hafi afhent bókhald félagsins svo stjórn þess geti sinnt skyldum sínum.  Sú staðreynd að varnaraðili hafi getað greitt kröfuna sé næg sönnun þess að fjárnámið gefi ekki rétta mynd af fjárhagsstöðunni.  Auk þess kveðst varnaraðili eiga tvær kröfur á hendur sóknaraðila, málskostnaðarkröfu og skaðabótakröfu.  Hann hafi nýtt sér rétt sinn samkvæmt aðfararlögum til að láta endurupptaka fjárnámsgerðina.  Gerðin sé því ekki endanleg. 

Verði talið að sóknaraðili hafi veitt honum lán, byggir varnaraðili á því að hann eigi fasteignirnar Elliðabraut 4, 6, 8, 10 og 12.  Virði þeirra hafi ekki verið metið hjá sýslumanni og afstaða hafi ekki verið tekin til fjárhæðar hinnar meintu skuldar. 

Þessu næst byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé ósönnuð, röng, hún sé byggð á ólögmætum skilmálum.  Kveðst hann leggja sérstaka áherslu á aðstöðumun aðila.  Sóknaraðili sé fjármálastofnun sem gefi sig út fyrir að hafa yfir að ráða sérfræðingum á sviði fjármálaþjónustu. Varnaraðili sé fasteignafélag.  Hann hafi enga menntun eða þekkingu á fjármálaþjónustu og verði því að öllu leyti að geta treyst því að sú þjónusta sem sóknaraðili veitir sé byggð á sérfræði­þekkingu.  Því hvíli sérfræðiábyrgð á sóknaraðila vegna viðskipta aðila.  Um viðskiptin gildi lög nr. 121/1994 um neytendalán. 

Höfuðstóll lánsins hafi verið 130.000.000 króna.  Hann hafi ekki tekið þá fjár­hæð að láni sem sóknaraðili krefjist greiðslu á.  Kveðst hann því mótmæla því sem ósönnuðu að honum hafi verið veitt það lán sem hann sé krafinn um greiðslu á.  Skoraði varnaraðili í greinargerð á sóknaraðila að leggja fram gögn er sýndu að fjár­munirnir hefðu verið greiddir til varnaraðila og lánveitandi þannig efnt samninginn. 

Verði talið að sóknaraðili hafi í raun efnt lánasamninginn kveðst varnaraðili mótmæla heildarskuldinni samkvæmt honum.  Hún sé ósönnuð þar sem samningurinn sé ólögmætur og útreikningar sóknaraðila sömuleiðis. Sóknaraðili hafi ekki sannað rétta og lögmæta skuld og verði því að hafna kröfu um gjaldþrotaskipti. 

Þá er einnig byggt á því að meint skuld við sóknaraðila hafi verið greidd með skuldajöfnuði með skaðabótakröfum varnaraðila.  Miðar varnaraðili þá við að krafa sóknaraðila sé röng og ólögmæt og að hana beri að leiðrétta.  Segir í greinargerð að óskað hafi verið eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta tjón varnaraðila.  Mats­gerð var hins vegar ekki lögð fram. 

Nánar segir um skaðabótakröfuna að starfsmenn sóknaraðila hafi með háttsemi sinni valdið varnaraðila gríðarlegu fjárhagstjóni með því að koma í veg fyrir sölu á lóðunum við Elliðabraut.  Sóknaraðili hafi látið hjá líða að svara tillögum og samþykkja kauptilboð sem hafi borist.  Þetta hafi leitt til þess að lóðirnar hafi lækkað gríðarlega í verði.  Hafi þetta leitt til mikils tjóns fyrir varnaraðila.  Þá hefði einnig verið unnt að skila lóðum til Reykjavíkurborgar gegn endurgreiðslu að fjárhæð 200.000.000 króna.  Sóknaraðili hafi komið í veg fyrir það.  Með þessari háttsemi hafi Text Box: 5sóknaraðili, í vondri trú og af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, valdið varnaraðila tjóni sem nemi gríðarlegri eignarýrnun.  Varnaraðili telur einnig að tilboð hafi síður borist í eignirnar vegna þess að ólögmæt lán hafi hvílt á þeim.  Þá hafi tjón einnig komið fram með fjármagnsgjöldum og kostnaði, sem ekki hefði fallið á varnaraðila ef eignir hefðu verið seldar. 

Varnaraðili segir að sóknaraðila hafi verið ljóst að verðtrygging skulda í íslenskum krónum miðað við gengi erlendra gjaldmiðla væri andstæð lögum.  Þá sé slíkur skilmáli um gengistryggingu ósanngjarn.  Þrátt fyrir það hafi sóknaraðili reynt að sniðganga bannið.  Hann hafi verið í vondri trú og þetta bitni eingöngu og af fullum þunga á varnaraðila, sem neytanda, til hagsbóta fyrir sóknaraðila, fjármálastofnunina.  Því beri að víkja samningnum til hliðar að hluta með vísan til 14. gr. laga nr. 38/2001, en hann kveðst einnig byggja á 36. gr. og 36. gr. c laga nr. 7/1936.  Lánasamningurinn sé ósanngjarn og andstæður góðri viðskiptavenju.  Vísar hann hér til aðstöðumunar aðila.  Skilyrði séu til að víkja til hliðar gengis­tryggingu samningsins samkvæmt 36. gr., sbr. 36. gr. c. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 18. gr. sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001. 

Þá byggir varnaraðili á því að meint krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með 1. veðrétti í Elliðabraut 4, 6, 8, 10 og 12; og með 4. veðrétti í Smárahvammi í Garðabæ.  Verðmæti eignanna sé hærra en krafa sóknaraðila eftir leiðréttingu í samræmi við dómaframkvæmd um gengistryggð lán.  Því geti sóknaraðili ekki krafist gjaldþrotaskipta, sbr. 1. tl. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. 

Varnaraðili kveðst hafa gert sér ákveðnar forsendur fyrir viðskiptum sínum við sóknaraðila.  Í fyrsta lagi að lánskjör yrðu í samræmi við lög, í öðru lagi að láns­fjárhæðin myndi ekki stökkbreytast og í þriðja lagi að hann myndi eignast þá eign sem keypt var fyrir lánsféð.  Hann hafi ekki getað séð fyrir hinar miklu breytingar sem urðu á gengi gjaldmiðla.  Brostnar forsendur leiði til þess að víkja beri samningnum til hliðar og honum beri aðeins að endurgreiða þá fjárhæð í íslenskum krónum sem var lánuð.  Enn fremur telur varnaraðili að hrun fjármálamarkaðarins hafi sömu áhrif á samning aðila og force majeure tilvik á langtímasamninga.  Hér sé um að ræða óskráða meginreglu.  Þá nefnir varnaraðili einnig ósanngirni. 

Í lok greinargerðar varnaraðila er skorað á sóknaraðila að leggja fram gögn sem hreki fullyrðingar hans um að enginn erlendur gjaldeyrir hafi verið til hjá sóknar­aðila, sem hafi þar af leiðandi ekki getað veitt slíkan gjaldeyri að láni, auk gagna sem hreki þá fullyrðingu að sóknaraðili hafi tekið stöðu á móti krónunni í miklum mæli og þannig unnið beint gegn hagsmunum varnaraðila. 

Niðurstaða

Eins og lýst er í beiðni sóknaraðila var gert árangurslaust fjárnám hjá varnar­aðila 13. september 2010.  Þótt skuldin sem fjárnámið varðaði hafi verið greidd síðar, breytir það engu um gildi gerðarinnar sem sönnunar um ógjaldfærni varnaraðila.  Þá dugar beiðni um endurupptöku gerðarinnar heldur ekki til að hnekkja sönnunargildi hennar. 

Varnaraðili kveðst ekki skulda sóknaraðila neitt.  Hann hafi ekki fengið láns­féð greitt til sín og því standi hann ekki í skuld við sóknaraðila.  Sóknaraðili hefur lagt fram afrit af beiðni um útborgun láns og afrit af skilmálabreytingum um skuldina.  Bera þessi skjöl skýrlega með sér að varnaraðili hefur fengið fé að láni og sagt til um hvert það skyldi greitt.  Verður ekkert byggt á þessari fullyrðingu varnaraðila. 

Hins vegar verður að fallast á þá málsástæðu varnaraðila að skuldin sé í íslenskum krónum og verðtryggð miðað við gengi svissnesks franka og japansks jens, en ekki lán í þeim gjaldmiðlum.  Þessi verðtrygging skuldarinnar er ógild samkvæmt 18. gr. sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001.  Þessi niðurstaða hefur ekki önnur áhrif en þau að skuldin verður ekki reiknuð í samræmi við breytingar á gengi umræddra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu, heldur eftir öðrum ákvæðum lánssamningsins og með vöxtum í samræmi við dómafordæmi.  Varnaraðili er ekki einstaklingur og því gilda lög nr. 121/1994 um neytendalán ekki um lánssamning aðila, sbr. 1. mgr. 1. gr., sbr. a-lið 4. gr., laganna. 

Sóknaraðili lagði fram útreikning kröfunnar miðað við þessa niðurstöðu.  Telur hann að þá nemi skuld varnaraðila samtals 278.236.374 krónum.  Þó að hluti samningsskilmála sé talinn ógildur, verður ekki talið að skilmálar hafi verið ósanngjarnir eða að önnur atvik leiði til þess að unnt sé að beita 36. gr. eða 36. gr. c samningalaga.  Þá eiga sjónarmið um brostnar forsendur ekki við.  Sóknaraðili hefur sýnt nægilega fram á að varnaraðili skuldi honum fé, en ekki verður krafist nákvæmrar sönnunar um fjárhæð skuldarinnar, nema nauðsynlegt sé til að meta hvort hún sé nægilega tryggð með veði. 

Eftir að 65. gr. gjaldþrotalaga var breytt með 17. gr. laga nr. 95/2010 skiptir ekki máli þótt svo kunni að vera að hin árangurslausa fjárnámsgerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag varnaraðila.  Þá eru fullyrðingar hans um skaðabótakröfur á hendur sóknaraðila óskýrar og duga ekki til að stöðva framgang gjaldþrotaskipta.  Hann hefur ekki sýnt fram á bótaskyldu sóknaraðila eða gefið nokkrar vísbendingar um hvert tjón hann hafi beðið. 

Varnaraðili ber sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði.  Hann hefur ekki reynt að sanna þessa fullyrðingu.  Óstaðfest verðmöt og tilboð frá árunum 2007 og 2008 geta ekki talist tæk sönnunargögn um þessa staðhæfingu.  Er því ósannað að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með veði, svo og að umræddri fjárnámsgerð hafi ranglega verið lokið sem árangurslausri. 

Samkvæmt framansögðu ber að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta.  Honum verður gert að greiða sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Að kröfu sóknaraðila, Frjálsa fjárfestingarbankans hf., er bú varnaraðila, Strengs bygginga ehf., kt. 471205-0280, tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 250.000 krónur í málskostnað.