Hæstiréttur íslands
Mál nr. 10/2001
Lykilorð
- Verksamningur
- Aðild
- Matsgerð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 20. september 2001. |
|
Nr. 10/2001. |
Skúli G. Jóhannesson(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn Ragnari Hafliðasyni (Kristinn Hallgrímsson hrl.) og gagnsök |
Verksamningur. Aðild. Matsgerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
S byggði einbýlishús í Reykjavík og fékk G ehf. til að annast múrverk í húsinu og hleðslu milliveggja. Starfsmaður G ehf. átti frumkvæði að því að R, málarameistari, tók að sér að mála húsið. R málaði húsið að utan í september 1997 og hóf málun hússins að innan í október sama árs, en sú vinna stóð fram í janúar 1998 þegar S bað R að hætta störfum. Á framangreindu tímabili innti S samtals af hendi 1.800.000 krónur til R sem kvittaði fyrir greiðslum í eigin nafni. Eftir að S hafði beðið R að hætta störfum krafðist hinn síðarnefndi þess að S greiddi sér samtals 2.622.192 krónur, en S hafnaði þeirri kröfu. Í máli sem R höfðaði á hendur S til greiðslu kröfunnar krafðist S sýknu í fyrsta lagi á grundvelli þess að málinu væri beint að röngum aðila þar sem hann hefði samið við G ehf. en ekki R um málun hússins. Hæstiréttur hafnaði þessari málsástæðu S með vísan til þess að hann hefði haft samband beint við R um framkvæmd og greiðslur fyrir verkið. S krafðist í öðru lagi sýknu með vísan til þess að hann hefði samið við R um fast verð fyrir verkið og hann hefði þegar innt af hendi greiðslur samkvæmt þeim samningi. Hæstiréttur taldi að í málinu hefði ekki komið fram sönnun um að slíkur samningur hefði komist á og hafnaði þessari málsástæðu. S krafðist í þriðja lagi sýknu með vísan til þess að reikningur R væri bersýnilega ósanngjarn, sbr. 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, en dómkvaddur matsmaður hafi talið „kostnaðarmat“ á málun hússins utan- og innanhúss 1.780.550 krónur. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að beiðni S um dómkvaðningu matsmanns hafi ekki lotið að því að mat skyldi lagt á það verk, sem R hafi unnið í húsinu. Matsgerðin geti þegar af þeirri ástæðu ekki orðið grundvöllur dóms um endurgjald fyrir það verk. Engu að síður sýni niðurstaða matsmannsins að mjög verulegur munur sé á reikningum R og því, sem matsmaðurinn hafi talið hæfilegan og sanngjarnan kostnað við að mála húsið. Af matinu leiði því að telja verði reikninga R úr hófi fram. Samkvæmt því verði að telja reikninga R bersýnilega ósanngjarna og þá því ekki viðhlítandi grundvöll kröfugerðar hans samkvæmt grunnrökum að baki 5. gr. laga nr. 39/1922. Taldi Hæstiréttur málið vanreifað af hálfu R og ekki komist hjá því að vísa kröfum hans frá héraðsdómi af þessum sökum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2001. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, svo og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 645.068 krónur en til vara lægri fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. mars 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 10. apríl 2001. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 2.622.163 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. desember 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Aðaláfrýjandi byggði einbýlishús að Vesturfold 23 í Reykjavík. Annaðist Gifsverk ehf. múrverk í húsinu og hleðslu milliveggja fyrir fast verð samkvæmt verksamningi 22. apríl 1997, sem undirritaður var af aðaláfrýjanda sem verkkaupa en Ásgeiri Guðmundssyni fyrir hönd Gifsverks ehf. sem verksala. Í málinu liggur fyrir skjal með yfirskriftinni „Verktilboð í málningarvinnu innanhúss, málun yfir gifsaða fleti.“ Er þar gert ráð fyrir föstu einingarverði fyrir málningu gifsflata annars vegar og glugga að innanverðu hins vegar. Er skjalið dagsett 22. apríl 1997. Það er óundirritað, en undir línu, sem ætluð er til undirritunar verksala, stendur „ F.h. Gifsverk ehf “ Þá liggur fyrir í málinu annað skjal með yfirskriftinni „Verktilboð í málningarvinnu utanhúss að Vesturfold 23 Rvk.“ Er þar kveðið á um fast verð fyrir efni og vinnu við að mála húsið að utan, sem átti að vera 430.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Fylgir verktilboðinu allrækileg verklýsing. Þetta skjal er einnig dagsett 22. apríl 1997 og óundirritað. Er gert ráð fyrir undirritun Gifsverks ehf. undir skjalið með sama hætti og framan er lýst varðandi verktilboð í innanhússmálninguna. Greinir aðila verulega á um gildi þessara skjala eins og síðar verður rakið.
Óumdeilt er að starfsmaður Gifsverks ehf. hafi átt frumkvæði að því að gagnáfrýjandi, sem er málarameistari, kom að málningu hússins að Vesturfold 23. Þá liggur fyrir að gagnáfrýjandi hóf störf við málningu hússins að utan í maílok 1997 með undirbúningsvinnu og sílanböðun útveggja. Aðilar eru sammála um að fundum þeirra hafi fyrst borið saman síðsumars 1997, allnokkru eftir að þessar framkvæmdir hófust, þegar gerðar voru litaprufur vegna utanhússmálningarinnar, en greinir á um hvaða dag það hafi verið. Var hafist handa við að mála húsið að utan í september 1997, en innanhússmálun hófst í október þess árs og stóð fram í janúar 1998 þegar aðaláfrýjandi bað gagnáfrýjanda að hætta störfum, en verkinu var þá að mestu lokið. Aðaláfrýjandi greiddi gagnáfrýjanda fyrri hluta vetrar 1997 samtals 1.800.000 krónur vegna málningarvinnunnar. Gerði hann það með sex greiðslum með um það bil tveggja vikna millibili, fyrst 15. október og síðast 9. desember, 300.000 krónur í hvert sinn. Gaf gagnáfrýjandi kvittun fyrir móttöku hverrar greiðslu í eigin nafni. Kvaðst aðaláfrýjandi í skýrslu fyrir héraðsdómi hafa átt frumkvæðið að þessari greiðslutilhögun. Gagnáfrýjandi gaf 30. desember 1997 út reikning vegna framangreindra innborgana. Reikning fyrir verkið í heild, vinnu og efni, gaf hann ekki út fyrr en 2. nóvember 1998, en hafði áður kynnt aðaláfrýjanda heildarkostnað af verkinu. Hljóðaði reikningurinn upp á 3.048.504 krónur fyrir dagvinnnu í 1.863 klukkustundir og eftirvinnu í 123 klukkustundir og 503.434 krónur vegna efnis allt auk virðisaukaskatts. Nam reikningsfjárhæðin að frádregnum áðurgreindum innborgunum en meðtöldunm virðisaukaskatti samtals 2.622.192 krónum. Með bréfi 23. nóvember 1998 krafði gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda um greiðslu þessarar fjárhæðar ekki síðar en 4. desember 1998. Aðaláfrýjandi hafnaði kröfunni með bréfi síðastgreindan dag.
Með beiðni 28. apríl 1999 óskaði aðaláfrýjandi eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að „staðreyna og leggja mat á“ nánar tiltekin atriði vegna málningarvinnu við húsið að Vesturfold 23. Varðandi málningarvinnuna utanhúss var í matsbeiðninni óskað eftir því „að mat verði lagt á það hver sé hæfilegur og sanngjarn verkkostnaður við að mála húsið nr. 23 við Vesturfold í Reykjavík, að utan, með viðurkenndum aðferðum og á forsvaranlegan hátt.“ Jafnframt var óskað eftir nánar tilgreindri sundurliðun á kostnaðinum. Þá var varðandi utanhússmálninguna óskað mats á því hvort málningarvinnunni væri lokið og verkið teldist fullnægjandi. Varðandi innanhússmálninguna var á hliðstæðan hátt óskað eftir því „að mat verði lagt á það hver sé hæfilegur og sanngjarn verkkostnaður við að mála húsið nr. 23 við Vesturfold í Reykjavík, að innan, með viðurkenndum aðferðum og á forsvaranlegan hátt.“ Þá var óskað sambærilegrar sundurliðunar og áður var rakið og mats á því hvort verkinu væri lokið og það teldist fullnægjandi. Var matsmaður dómkvaddur til verksins 21. maí 1999. Í matsgerð hans 27. nóvember 1999 var „kostnaðarmat á utanhússmálningu“ hússins samtals 566.550 krónur, en „kostnaðarmat á innanhússmálun“ samtals 1.214.000 krónur. Taldi matsmaðurinn að nokkuð vantaði upp á að fullnaðarfrágangur innanhúss væri viðunandi, en kostnaður við að bæta úr því væri „ekki meira en 200.000 kr.“
II.
Aðaláfrýjandi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Telur hann sig hafa samið við Gifsverk ehf. um allt málningarverk á húsi sínu og hafi aldrei komist á neitt samningssamband milli sín og gagnáfrýjanda um það. Eins og að framan er rakið liggja fyrir í málinu tvö verktilboð dagsett 22. apríl 1997 vegna málningarvinnu við hús aðaláfrýjanda, þar sem gert er ráð fyrir undirritun fyrir hönd Gifsverks ehf. sem verksali. Skjöl þessi eru ekki undirrituð. Í skýrslu fyrir héraðsdómi bar Ásgeir Guðmundsson, einn af eigendum Gifsverks ehf., að hann hafi lagt til við aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi myndi mála húsið. Hann hafi síðan fengið þær tilboðstölur, sem fram komi í framangreindum skjölum, hjá gagnáfrýjanda, en ekki haft frekari afskipti af málinu. Hann muni þó hafa annast útprentun skjalanna. Bar hann að ætlunin hafi verið sú að hann hefði einhver meiri afskipti af málningarþættinum, sem síðan hafi ekki orðið. Ásgeir hafnaði því þannig að Gifsverk ehf. væri aðili að samningi við aðaláfrýjanda um málningarvinnuna, en taldi hins vegar að bæði aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi hefðu munnlega samþykkt umrædd verktilboð. Hafi ekki orðið af undirritun þeirra af ástæðum sem honum væru ókunnar.
Ljóst er að gagnáfrýjandi hóf störf við málningu á húsi aðaláfrýjanda að frumkvæði Gifsverks ehf. og að málningarvinna utanhúss hófst í litlum mæli áður en fundum málsaðila bar saman. Af gögnum málsins og framburði vitna verður hins vegar ekki annað ráðið en að aðaláfrýjandi hafi varðandi bæði framkvæmd verksins eftir þetta og greiðslur fyrir það haft samskipti beint við gagnáfrýjanda án milligöngu Gifsverks ehf. Aðaláfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að hann hafi komið að máli við gagnáfrýjanda og rætt um hvernig þeir skyldu haga innborgunum á verkið. Greiddi hann gagnáfrýjanda síðan hálfsmánaðarlega eins og að framan er rakið og viðurkenndi gagnáfrýjandi móttöku greiðslanna með útgáfu kvittana í eigin nafni. Voru þessar greiðslur raunar orðnar svo miklar að ekki verður annað séð en að þær hafi samtals numið hærri fjárhæð en fólst í framangreindum verktilboðum. Þá eru málsaðilar sammála um að verklok hafi borið að með þeim hætti að aðaláfrýjandi hafi snúið sér beint til gagnáfrýjanda og óskað eftir að verkinu lyki. Þegar allt þetta er virt verður ekki fallist á að sýkna beri aðaláfrýjanda á grundvelli aðildarskorts, enda liggur fyrir að gagnáfrýjandi innti verk sitt af hendi í hans þágu.
Þá krefst aðaláfrýjandi jafnframt sýknu á grundvelli þess að komist hafi á samningur milli málsaðila um að gagnáfrýjandi framkvæmdi málningarverkið fyrir fast verð og að greiðslur samkvæmt þeim samningi séu þegar að fullu inntar af hendi. Ekki verður fallist á það með gagnáfrýjanda að þessi málsástæða sé of seint fram komin, enda var henni haldið fram við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi að gefnu tilefni af framburði vitnis við aðalmeðferð þess. Hefur ekki verið vefengd fullyrðing aðaláfrýjanda um að þessari málsástæðu hafi þá ekki verið mótmælt, en úr henni er og leyst í héraðsdómi. Eins og að framan er rakið bar Ásgeir Guðmundsson fyrir héraðsdómi að málsaðilar hefðu báðir munnlega samþykkt framangreind verktilboð dagsett 22. apríl 1997, en hann hafi ekki verið aðili að þeirri samningsgerð. Þessu er hvorugur málsaðila sammála. Aðaláfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að hann hafi ekki samið við gagnáfrýjanda, en taldi sig hins vegar hafa náð samkomulagi við Ásgeir Guðmundsson fyrir hönd Gifsverks ehf. um verkið. Gagnáfrýjandi bar hins vegar fyrir héraðsdómi að hann hafi ekki séð þessi skjöl fyrr en aðaláfrýjandi sýndi honum þau á árinu 1998 eftir að ágreiningur um endurgjald fyrir verkið var upp kominn. Verður þannig ekki talin fram komin sönnun um að samningur framangreinds efnis hafi komist á með aðilum. Því til stuðnings er ennfremur að ekki verður séð að aðaláfrýjandi hafi við greiðslur sínar vegna verksins í árslok 1997 tekið mið af efni margnefndra verktilboða.
Loks reisir aðaláfrýjandi sýknukröfu sína á því að reikningur gagnáfrýjanda fyrir verkið sé bersýnilega ósanngjarn. Geti gagnáfrýjandi því ekki reist kröfu sína á honum samkvæmt 5. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Eins og að framan er rakið nema þeir tveir reikningar, sem gagnáfrýjandi gaf út fyrir verkið, samtals 4.422.192 krónum. Í framangreindri matsbeiðni var óskað mats á „hver sé hæfilegur og sanngjarn verkkostnaður“ við að mála hús aðaláfrýjanda að utan og innan. Var niðurstaða matsmanns að „kostnaðarmat“ á málun utan- og innanhúss væri samtals 1.780.550 krónur. Beiðni aðaláfrýjanda um dómkvaðningu matsmanns laut ekki að því að mat skyldi lagt á það verk, sem gagnáfrýjandi vann í húsinu. Getur matsgerðin þegar af þeirri ástæðu ekki orðið grundvöllur dóms um endurgjald fyrir það verk. Niðurstaða matsins sýnir engu að síður að mjög verulegur munur er á reikningum gagnáfrýjanda og því, sem matsmaður taldi hæfilegan og sanngjarnan verkkostnað við að mála húsið. Leiðir því af matinu, þrátt fyrir framangreinda ágalla á matsbeiðninni, að telja verður reikninga gagnáfrýjanda úr hófi fram, enda verður ekki talið að skráning vinnuseðla og grundvöllur reikningsgerðar gagnáfrýjanda sé fullnægjandi þegar kostnaður víkur svo verulega frá því, sem almennt má telja hæfilegt. Það var og niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að reikningar gagnáfrýjanda væru úr hófi. Samkvæmt framansögðu verður að telja reikninga gagnáfrýjanda bersýnilega ósanngjarna og verða þeir því ekki taldir viðhlítandi grundvöllur kröfugerðar hans samkvæmt grunnrökum að baki 5. gr. laga nr. 39/1922.
Samkvæmt framansögðu eru þeir annmarkar á matsgerð hins dómkvadda manns að hún verður ekki lögð til grundvallar við ákvörðun endurgjalds til gagnáfrýjanda fyrir verkið. Sérfróðum meðdómsmönnum er ekki að lögum ætlað að bæta úr annmörkum á gagnaöflun málsaðila með því að leggja á grundvelli eigin þekkingar mat á atriði, sem viðhlítandi gögn skortir um, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem reikningsgerð gagnáfrýjanda er samkvæmt framansögðu heldur ekki viðhlítandi grundvöllur kröfugerðar er málið svo vanreifað af hans hendi að ekki verður hjá því komist að vísa kröfu hans sjálfkrafa frá héraðsdómi. Með því að gagnkrafa aðaláfrýjanda stendur í órofa tengslum við aðalsök í héraði er óhjákvæmilegt að vísa henni einnig frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjanda verður gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjandi, Ragnar Hafliðason, greiði aðaláfrýjanda, Skúla G. Jóhannessyni, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. sept. sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 18. janúar sl. Gagnsök í málinu var höfðuð með gagnstefnu áritaðri um birtingu 25. febrúar sl, þingfestri 2. mars sl.
Aðalstefnandi og gagnstefndi er Ragnar Hafliðason, kt. 121128-4389, Breiðvangi 23, Hafnarfirði.
Aðalstefndi og gagnstefnandi er Skúli Jóhannesson, kt. 093442-3479, Vesturfold 23, Reykjavík.
Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök:
Að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.622.163 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum frá 4. des. 1998 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eftir mati dómsins.
Dómkröfur aðalstefnda í aðalsök:
Aðalstefndi krefst sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda og málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðis-aukaskatti.
Dómkröfur gagnstefnanda í gagnsök:
Að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 645.068 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. mars 2000 til greiðsludags.
Til vara krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda aðra lægri fjárhæð samkvæmt mati dómsins.
Jafnframt er krafist dóms um að gagnkröfufjárhæð gangi svo sem til þarf til skuldajafnaðar við þá fjárhæð sem dæmd kann að verða úr hendi gagnstefnanda í aðalsök málsins, en krafist er sjálfstæðs dóms fyrir því sem umfram kann að vera af gagnsakarfjárhæð.
Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi gagnstefnda skv. framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur gagnstefnda í gagnsök:
Aðallega krefst gagnstefndi sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda.
Til vara er þess krafist að kröfur gagnstefnanda í gagnsök verði verulega lækkaðar.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu eftir mati dómsins.
Málavextir
Aðalstefnandi höfðar mál þetta til heimtu þess sem hann telur vangreitt fyrir vinnu og efni sem hann lét aðalstefnda í té við málningu húss aðalstefnda að Vesturfold 23 í Reykjavík.
Aðalstefnandi sem er málarameistari málaði hús aðalstefnda að Vesturfold 23 að utan og innan. Aðalstefndi heldur því fram að hann hafi samið um verk þetta við Gifsverk ehf., sem hafi lagt fram tilboð í málun hússins að utan og innan þann 22. apríl 1997. Þessu neitar aðalstefnandi. Hann kveðst hafa skoðað húsið í maí 1997 eftir að Davíð Guðmundsson frá Gifsverki ehf. spurði hvort hann hefði áhuga á að mála húsið. Gifsverk ehf. gifsaði húsið að innan. Aðalstefnandi kveðst hafa farið á verkstað ásamt starfsmönnum sínum hinn 27. maí 1997 til undirbúnings á verkinu með sílan, sílanúðabrúsa, tröppur og stiga. Aðalstefnandi kveðst hafa komið af og til að húsinu til að fylgjast með hvernig gengi að pússa húsið að utan. Eitt sinn þegar aðalstefnandi var staddur á verkstað kveðst hann loks hafa verið kynntur fyrir eiganda hússins, aðalstefnda. Þá hafi verið ákveðið að aðalstefnandi málaði líka húsið að innan.
Múrverki utanhúss var ekki lokið fyrr en seinni partinn í ágúst 1997 að sögn aðalstefnanda. Málun utanhúss mun hafa hafist í september og innanhúss í október 1997. Að sögn aðalstefnanda unnu rafvirkjar við að fræsa í veggi fyrir nýjum raflögnum um allt hús og bora fyrir loftljósum eftir að byrjað hafði verið á málningarvinnunni. Þetta kostaði aukavinnu að sögn aðalstefnanda. Jafnframt er því haldið fram af hálfu aðalstefnanda að mikið hafi verið um aukaverk og breytingar á litum í húsinu og þess vegna hafi ýmsir hlutar hússins verið tvímálaðir.
Aðalstefndi greiddi aðalstefnanda 1.800.000 kr. inn á verkið á tímabilinu 15. okt. til 9. des. með 6 greiðslum að fjárhæð 300.000 kr. hver. Í málinu liggja fyrir kvittanir frá aðalstefnanda til aðalstefnda vegna þessara greiðslna.
Hinn 30. des. 1997 gaf aðalstefnandi út reikning á aðalstefnda. Á reikningi þessum segir:
Innborgað samkvæmt kvittunum 6 x 300.000 samtals 1.445.760 kr.
virðisaukaskattur 354.240 kr.
1.800.000 kr.
Hinn 2. nóv. 1998 gerði aðalstefnandi aðalstefnda reikning vegna málningarvinnunnar. Reikningurinn sundurliðast svo:
Málningarvinna dv. 1863 tímar á 1.480 2.757.240 kr.
Málningarvinna nv. 123 tímar á 2.368 291.264 kr.
Efni 503.434 kr.
3.551.938 kr.
Áður gr. skv. reikn. nr. 277 1.445.760 kr.
2.106.178 kr.
Virðisaukaskattur 516.014 kr.
2.622.192 kr.
Með beiðni, dags. 28. apríl 1999, óskaði aðalstefndi eftir dómkvaðningu matsmanns til þess að leggja mat á tiltekin atriði vegna málningarvinnu við húsið Vesturfold 23 í Reykjavík. Í matsbeiðni er þess óskað að matsmaður veiti svör við eftirfarandi spurningum og leggi mat á hæfilegan og sanngjarnan verkkostnað við málun hússins.
A. Málningarvinna utanhúss:
1. Óskað er eftir því að mat verði lagt á það hver sé hæfilegur og sanngjarn verkkostnaður við að mála húsið nr. 23 við Vesturfold í Reykjavík, að utan, með viðurkenndum aðferðum og á forsvaranlegan hátt.
Er óskað eftir sundurgreiningu kostnaðar er snýr að:
i) málun veggja,
ii) málun gluggakarma og pósta,
iii) málun hurða og
iv) málun þakkants.
Sundurgreindur verði kostnaður við vinnu og efni, virðisaukaskattur og önnur gjöld sem af slíku verki leiða.
2. Þá er óskað mats á því hvort málningarvinnu að utan sé lokið og ef svo er ekki hverju er þá ólokið og kostnað við að ljúka verkinu?
3. Þá er óskað mats á því hvort verkið teljist fullnægjandi og ef svo er ekki þá hvaða atriði sé um að ræða og kostnað við að lagfæra verkið?
B. Málningarvinna innanhúss:
1. Óskað er eftir því að mat verði lagt á það hver sé hæfilegur og sanngjarn verkkostnaður við að mála húsið nr. 23. við Vesturfold í Reykjavík, að innan, með viðurkenndum aðferðum og á forsvaranlegan hátt.
Er óskað eftir sundurgreiningu kostnaðar er snýr að:
i) málun veggja,
ii) málun lofta,
iii) málun glugga.
Sundurgreindur verði kostnaður við vinnu og efni, virðisaukaskattur og önnur gjöld sem af slíku verki leiða.
2. Þá er óskað mats á því hvort málningarvinnu að innan sé lokið og ef svo er ekki hverju er þá ólokið og hvað kostar að ljúka verkinu?
3. Þá er óskað mats á því hvort verkið teljist fullnægjandi og ef svo er ekki þá hvaða atriði er um að ræða og hver sé kostnaður við að lagfæra þau?
Þess er óskað að kostnaðarmat verði sundurliðað og að í því komi fram magntölur og einingarverð eftir því sem kostur er.
Hinn 21. maí 1999 var Kristján Aðalsteinsson málarameistari dómkvaddur til þess að framkvæma hið umbeðna mat. Hann skilaði matsgjörð, dags. 27. nóv. 1999. Matsmaður taldi utanhússmálun viðunandi að frátaldri þvottahússhurð. Kostnað við að mála eina umferð á hurðina taldi matsmaður 4000 kr. Tekið er fram í matsgjörð að matsþoli hafi beðið um að láta þykktarmæla veggi en það hafi ekki reynst mögulegt þar sem nákvæmir þykktarmælar fyrir steinveggi séu ekki til. Í matsgerð er talið ýmislegt sem matsmaður telur athugavert við málningu innanhúss og telur hann kostnað við lagfæringar á því ekki meiri en 200.000 kr. með efniskostnaði og vsk. Í matsgjörðinni er kostnaðarmat matsmannsins á innan- og utanhússmálun. Kostnaðarmat á málun innanhúss miðað við verðlag í nóvember 1999 er 1.214.000 kr. að öllu meðtöldu þ.á m.vsk. Efniskostnaður er metinn 242.800 kr. Mat þetta er miðað við að loft og veggir séu slípuð og gert við, grunnmálað og tvær umferðir málaðar með akrýlplastmálningu. Hurðir og gluggar séu sparslaðir, slípaðir og grunnaðir, slípað lauslega og lakkaðar tvær umferðir. Málun utanhúss er metin 566.550 kr. að öllu meðtöldu þ.á m.vsk. Þar er efniskostnaður metinn 169.965 kr. Mat þetta miðast við að steinveggir séu slípaðir með steini, grunnaðir með olíuakrýlmálningu, þykkhúð borin á vatnsbretti og málaðar tvær umferðir með akrýlplastmálningu. Tréverk sé slípað yfir allar ójöfnur, blettmálað með grunnviðarvörn þar sem við á og málaðar 2 umferðir með þekjandi viðarvarnarefni. Járn sé grunnað með ryðvarnargrunni og málaðar tvær umferðir með akrýlplastmálningu.
Gagnsökina höfðar gagnstefnandi til heimtu kostnaðar við lagfæringu á því sem gagnstefnandi telur miður hafa farið við framkvæmd verks aðalstefnanda að fjárhæð 200.000 kr. Um rökstuðning fyrir þessum kröfulið í gagnstefnu er vísað til matsgerðar Kristjáns Aðalsteinssonar málarameistara. Jafnframt er krafist 196.710 kr. vegna kostnaðar við að lagfæra parket í gangi, en málning hafi ýrst á parketið. Varðandi þennan lið er vísað til framlagðrar kostnaðaráætlunar Baldurs Jónssonar húsasmíðameistara og framangreindrar matsgerðar. Vegna málningar sem ýrst hafi á svefnherbergisgangi er krafist 100.000 kr. vegna kostnaðar við endurnýjun á teppi á ganginum. Enn fremur krefst gagnstefnandi 148.358 kr. vegna kostnaðar við að skipta um sólbekki en gagnstefnandi heldur því fram að starfsmenn gagnstefnda hafi orsakað málningarklessur á sólbekk í stofu. Til stuðnings þessum lið var lögð fram kostnaðaráætlun frá Steinsmiðju S.Helgasonar hf., sem smíðaði upphaflega sólbekkinn.
Málsástæður og rökstuðningur aðalstefnanda
Aðalstefnandi byggir kröfur sínar í aðalsök á því að um verkið hafi verið samið milli aðila þar sem aðalstefndi hafi falið aðalstefnanda að mála húsið að Vesturfold 23 í Reykjavík, bæði að utan og innan. Það hafi aðalstefnandi gert eftir fyrirmælum aðalstefnda varðandi tilhögun verksins. Það sé rangt sem aðalstefndi hafi kosið að halda fram eftir að ágreiningur reis milli aðila, að verkið skyldi unnið fyrir fast verð. Aðalstefndi hafi í þessu sambandi haldið því fram að hann hafi samið við Gifsverk ehf. um málun hússins. Því mótmælir aðalstefnandi sem röngu. Aðalstefndi hafi sjálfur samið við aðalstefnanda, gefið honum fyrirmæli um vinnslu verksins og greitt honum fyrir verkið framan af með sex innborgunum. Verkið hafi verið unnið í reikningsvinnu. Það sé því ótvírætt að aðalstefnda beri að greiða aðalstefnanda fyrir verkið miðað við þá vinnu sem í verkið fór og tilgreint sé á tímaskýrslum og samkvæmt framlögðum reikningum. Verk aðalstefnanda hafi um margt verið óvenjulegt. Tímaskriftir aðalstefnanda og starfsmanna hans í verkinu staðfesti að við verkið hafi verið unnir 1.863 dagvinnutímar og 123 yfirvinnutímar, sem aðalstefndi hafi sérstaklega óskað eftir. Tímagjald fyrir dagvinnu hafi verið 1.480 kr. auk virðisaukaskatts og fyrir yfirvinnu 2.368 kr. auk virðisaukaskatts. Starfsmenn hafi verið átta og þar af hafi meginvinnan verið unnin af fimm starfsmönnum. Þá sé hluti af kröfu aðalstefnanda samkvæmt hinum umstefndu reikningum efni að fjárhæð 626.775 kr. Hlutfall efnis og vinnu skýrir aðalstefnandi sérstaklega með miklum breytingum í verkinu og mikilli vinnu við þær.
Allt verkið hafi verið unnið í samræmi við óskir aðalstefnda og beri honum því skýlaus skylda til að greiða fyrir þá vinnu. Alls sé krafan 3.551.938 kr. án virðisaukaskatts. Aðalstefndi hafi greitt aðalstefnanda innborganir samtals að fjárhæð 1.445.760 kr. án virðisaukaskatts og séu því ógreiddar eftirstöðvar 2.106.178 kr. án virðisaukaskatts, 516.014 kr. Hin umkrafða skuld sé því samkvæmt framlögðum reikningi, dags. 2. nóv. 1998, að fjárhæð 2.622.192 kr. (2.106.178 + 516.014 = 2.622.192). Stefnukrafan í aðalsök er 2.622.163 kr.
Aðalstefnandi byggir á því að reikningurinn sé sanngjörn og eðlileg krafa hans til greiðslu fyrir þá vinnu sem hann hafi unnið í þágu aðalstefnda og samkvæmt hans óskum. Hvorki aðalstefndi né Jón Kaldal arkitekt, sem hafi verið eftirlitsmaður með verkinu, hafi gert athugasemdir við málningarvinnuna.
Aðalstefndi hafi falið aðalstefnanda að vinna verkið. Hvorki hafi verið samið um fast verð fyrir verkið né einingarverð. Verkið hafi átt að vinna í reikningsvinnu. Aðalstefndi hafi beðið aðalstefnanda að vinna yfirvinnu frá 12. til 20. des. 1997 þar sem aðalstefndi ætlaði að flytja í húsið fyrir jól. Yfirvinna þessi hafi verið unnin.
Það sé rangt sem aðalstefndi hafi haldið fram að verkið hafi verið tilboðsverk með samningi hans við Gifsverk ehf. Aðalstefndi hafi ekki sýnt fram á það með neinum hætti að aðalstefnandi hafi ekki verið viðsemjandi hans um verkið. Aðalstefnandi byggir á því að aðalstefnda beri að greiða hinn umstefnda reikning og reisir þá kröfu sína á meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og aðalstefnda beri samkvæmt grunnrökum 5. gr. laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 með eða án lögjöfnunar að greiða uppsett verð aðalstefnanda fyrir vinnuna.
Aðalstefnandi styður kröfur sínar við almennar reglur kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Hann styður kröfur sína einnig við meginreglur kauparéttar, sbr. lög nr. 39/1922, einkum 5. gr. þeirra laga. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður aðalstefnandi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum. Kröfu um málskostnað styður aðalstefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og rökstuðningur aðalstefnda í aðalsök
Sýknukrafa aðalstefnda er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti.
Aðalstefndi telur sig hafa samið við Gifsverk ehf. um málun hússins að utan og innan skv. fyrirliggjandi tilboði, sem hann hafi gengið að. Tilboðið sé ekki undirskrifað þar sem aðalstefndi hafi viljað kanna fyrst ýmis atriði um verð o.fl. svo og ráðgast við innanhússarkitekt áður en gengið yrði til samninga. Að því loknu hafi aðalstefndi gengið munnlega að tilboðinu. Samskipti hans varðandi tilboðið hafi ávallt verið við Ásgeir Guðmundsson hjá Gifsverki ehf. Hafi aðalstefndi ekki lagt neina sérstaka áherslu á að aðilar undirrituðu tilboðið þar sem Gifsverk ehf. hafi unnið að múrverki hússins og aðalstefndi borið traust til félagsins sem ábyrgs aðila, m.a. vegna fyrri verka þess. Aðkoma aðalstefnanda sjálfs að verkinu hafi alfarið verið í gegnum Ásgeir hjá Gifsverki ehf. án atbeina aðalstefnda enda hafi aðalstefndi aldrei rætt samningskjör við aðalstefnanda eða átt við hann nokkur samskipti varðandi þann þátt málsins.
Þegar litið sé til umfangs verks og verkefnastöðu iðnaðarmanna á þessum tíma verði að telja með ólíkindum þær fullyrðingar aðalstefnanda að verkið hafi verið unnið í reikningsvinnu og að aldrei hafi verið rætt um upphæð tímagjalds eða annað það sem hafi gefið aðalstefnda færi á að meta kostnað við málun hússins, sem þó hafi hlotið að koma aðalstefnda við.
Aðalstefnandi hafi komið að verkinu fyrir atbeina og beiðni Gifsverks ehf. og styðji frásögn aðalstefnanda það atriði. Vilji aðalstefnandi halda því fram að hann hafi starfað sem sjálfstæður verktaki að málun hússin, þá verði að túlka það svo að Gifsverk ehf. hafi ráðið hann að verkinu sem undirverktaka sem myndi ekki kröfuréttarsamband milli aðalstefnanda og aðalstefnda með þeim hætti sem aðalstefnandi haldi fram. Reikningar frá aðalstefnanda breyti í engu þessu atriði enda séu þeir ekki sönnun um það að verkið hafi réttilega verið unnið í reikningsvinnu skv. verkbeiðni aðalstefnda. Þess utan hafi þeir ekki verið gefnir út og afhentir aðalstefnda fyrr en eftir að aðalstefnandi hafði lokið vinnu sinni og ágreiningur kominn upp á milli aðilanna.
Aðalstefnandi hafi alla sönnunarbyrði fyrir því að á milli aðila hafi komist sá samningur sem aðalstefnandi byggi alfarið á. Þessi sönnunarbyrði sé þyngri en ella þar sem í málinu liggi frammi gögn sem sanni eða geri mjög sennilegt að frásögn aðalstefnda um samning hans við Gifsverk ehf. sé rétt.
Verði ekki fallist á sýknu vegna aðildarskorts styður aðalstefndi sýknukröfu sína á því að umræddur reikningur aðalstefnanda sé bersýnilega ósanngjarn og í engu samræmi við þá málaravinnu sem leyst var af hendi við Vesturfold 23.
Aðalstefndi telur ljóst að tímaskráning sé óhófleg og óraunveruleg þegar litið sé til verksins í heild. Af tímaskráningarblöðum megi ráða að um svonefndar “eftiráskráningar” sé að ræða. Skráningarnar séu mjög ónákvæmar í öllum tilfellum og því sé ekki á vinnuseðlunum byggjandi.
Aðalstefnandi hefði þurft að skrá vinnustundir jafnóðum og mun nákvæmar með tilvísunum til einstakra verkþátta hafi hann ætlað að byggja á þessum gögnum sem áreiðanlegum upplýsingum um raunverulegt umfang verksins, ekki síst þegar litið sé til þeirra fullyrðinga hans, að verkið hafi orðið mun umfangsmeira en ella vegna margra og mikilla breytinga á verkinu meðan það stóð yfir og þar af leiðandi tvíverknaðar, sem aðalstefndi kannist ekki við.
Almennt verði að gera þá lágmarkskröfu til tímaskýrslna að í þeim komi nákvæmlega fram við hvað sé unnið, hvenær sólarhringsins (sérstaklega þegar um óvenjulegan vinnutíma sé að ræða), og hverjir komi að hverjum verkþætti, hve lengi og á hvaða tíma. Þá sé einnig upplýst hver starfsréttindi hvers starfsmanns séu með tilliti til tímagjalds. Sé þessi nauðsyn enn brýnni þegar í verk fari óvenjulega langur og mikill tími og rökstyðja eigi það með því að fram hafi farið breytingar að kröfu verkbeiðanda og tví- eða margtekning vinnuþátta. Sé t.d. erfitt að ímynda sér að það taki fagmenn 142 klst. að mála þrjá bílskúrsveggi að innan án þess að sennilegar og fullnægjandi útskýringar liggi fyrir á tímaskráningarblöðum. Við svo búið sé ekki byggjandi á tímaskráningarblöðum aðalstefnanda gegn mótmælum aðalstefnda. Ef um aukaverk hafi verið að ræða hafi sú skylda hvílt á aðalstefnanda eftir almennum reglum að tryggja sér sönnun um það efni og eftir atvikum tryggja sér um það samþykki og/eða verkbeiðni aðalstefnda. Sömu sjónarmið hljóti að eiga við fari verk úr böndum og verði mun umfangsmeira vegna atriða er verkkaupi beri ábyrgð á.
Þá hafi aðalstefndi sannað með framlagðri matsgerð, sem aflað hafi verið með réttum og löglegum hætti, að reikningsgerð aðalstefnanda fyrir verkið sé úr hófi fram. Í niðurstöðu matsgerðar komi fram að heildarmatskostnaður við málun hússins að utan og innan nemi 1.780.550 kr. auk þess sem verkinu sé ekki að fullu lokið. Nemi kostnaður við að fullgera verkið og lagfæra afleiðingar vegna hroðvirkni aðalstefnanda að mati matsmanns 200.000 kr. Þá hafi aðalstefnandi valdið aðalstefnda tjóni.
Af matsgerð verði ráðið að krafa aðalstefnanda sé bersýnilega ósanngjörn og geti aðalstefnandi ekki byggt kröfu sína á hinum ósanngjarna reikningi, sbr. 5. gr. kaupalaga. Matsgerð miðist við verðlag í nóvember 1998 eða ári eftir að vinna aðalstefnanda var innt af hendi. Á þeim tíma hafi verkefnastaða iðnaðarmanna yfirleitt verið erfið og verkefni fá. Svonefnd reikningsvinna, sbr. hugtakanotkun aðalstefnanda, í heildstæðum verkum hafi því heyrt til undantekninga en tilboðsvinna hafi verið ríkjandi. Vissulega kunni verkið að hafa orðið eitthvað umfangsmeira en í upphafi hafi verið talið en það skýri engan veginn þann mikla mismun sem sé á niðurstöðu matsgerðar annars vegar og reikningi aðalstefnda hins vegar. Ótrúverðugt sé að verkið hafi orðið margfalt umfangsmeira en niðurstaða matsgerðar segi til um. Verði að draga þá ályktun af þessum mismun að vel hafi verið lagt í tímaskráningar aðalstefnanda og manna hans.
Nái krafa aðalstefnanda fram að ganga að einhverju leyti eða öllu krefst aðalstefndi skuldajafnaðar við það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna aðalstefnanda og fyrir þeim kostnaði sem aðalstefndi þurfi að ráðast í til að lagfæra og fullgera verk það sem aðalstefnanda hafi borið að klára og hann hafi reikningsfært aðalstefnda fyrir. Skuldjafnaðar er krafist svo sem til nái en sjálfstæðs dóms fyrir því sem eftir kunni að standa.
Þá er dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda sérstaklega mótmælt.
Aðalstefndi vísar til laga nr. 91/1991, einkum 16. gr. vegna aðildarskorts og 28. gr. vegna skuldajafnaðar, almennra reglna kröfu- og verktakaréttarins og laga nr. 39/1922, einkum 5. gr. og almennra sönnunarreglna laga um meðferð einkamála.
Málsástæður og rökstuðningur gagnstefnanda í gagnsök
Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að gagnstefnandi hafi gert athugasemdir við gagnstefnda og menn hans á meðan á framkvæmd verksins stóð vegna seinagangs við það og slæmrar umgengi. Athugasemdir þessar hafi aðallega snúið að því að málararnir hafi ekki gætt þess nægilega að verja aðra hluta hússins fyrir málningu og umgengi væri sóðaleg að mati gagnstefnanda. Þá hafi verið gerðar athugasemdir við verkið sjálft og slæman frágang, sbr. matsgerð dómkvadds matsmanns.
Gagnstefnandi krefst skaðabóta vegna þess tjóns sem hann telur gangstefnda hafa valdið sér á ólögmætan og saknæman hátt með hátterni sínu sem aðallega hafi falist í því að hafa ekki gætt þess nægilega að verja hluti fyrir málningu þegar málningarvinna stóð yfir og jafnframt að kastað hafi verið svo til höndunum við verkið að gagnstefnanda sé nauðugur einn kostur að láta endurvinna hluta þess, sbr. matsgjörð.
Hinn dómkvaddi matsmaður hafi gert ýmsar athugasemdir við verkið, aðallega innanhúss og sé það mat hans að kostnaður við að lagfæra það sem miður hafi farið hjá gagnstefnda og mönnum hans sé 200.000 kr. Gagnstefndi telji sig hafa lokið verkinu fyrir utan smáleg atriði í bílskúr. Ljóst sé af lýsingu matsmanns að því fari fjarri og sé verkið ekki í samræmi við þær kröfu sem gerðar séu til fagmanna á þessu sviði.
Þá komi fram í matinu að málning hafi ýrst yfir svefnherbergisgang og eins hafi granítsólbekkir í stofu ekki verið nægilega varðir og hafi málning gengið niður í bekkina. Séu þeir alþaktir smáum málningarslettum sem ekki hafi reynst mögulegt að hreinsa þar sem bekkirnir sjálfir séu alsettir örsmáum holum sem málning sitji í.
Kostnaður við að lagfæra parket í gangi sé samkvæmt framlagðri kostnaðaráætlun Baldurs Jónssonar húsasmíðameistara, sem hafði lagt upphaflega parketið, 196.710 kr. og sé þá miðað við að hið skemmda parket sé rifið upp og nýtt lagt í staðinn. Áætlunin innifeli ekki teppakostnað eða teppalögn en varlega megi áætla þann kostnað 100.000 kr.
Kostnaður við að skipta um sólbekki skv. framlagðri kostnaðaráætlun þess aðila er hafi smíðað þá og séð um uppsetningu þeirra, Steinsmiðju S. Helgasonar hf., sé 148.358 kr. Sé þá miðað við nýja sólbekki ásamt þeim kostnaði sem gagnstefnandi þurfi óhjákvæmilega að greiða fyrir við að taka niður hina skemmdu bekki og setja nýja í staðinn.
Af gögnum málsins og frásögn gagnstefnda sjálfs í aðalsök hafi hann og menn á hans snærum unnið við málun hússins að innan og utan. Það hafi því verið gagnstefndi og aðilar á hans ábyrgð sem ollu gagnstefnanda fyrrgreindu tjóni og á því beri gagnstefndi ábyrgð lögum samkvæmt. Skipti ekki máli hvort gagnstefndi hafi unnið sem sjálfstæður verktaki eða undirverktaki Gifsverks ehf. þar sem ábyrgð hans sé eftir gildandi rétti sjálfstæð og hugsanlegt inngrip húsbóndaábyrgðarreglu leysi hann ekki undan ábyrgð. Af sönnuðum verksummerkjum og atvikum málsins að dæma liggi fyrir að gagnstefndi hafi valdið gagnstefnanda tjóni með saknæmum hætti með því að gæta ekki réttra aðferða við að verja eigur gagnstefnanda þannig að þær skemmdust ekki. Það sé eðlileg og sanngjörn krafa að málarar sjái til þess að ekki hljótist af skemmdir við verk er þeir framkvæma, ella verði þeir ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir valda með slíkri vangá eins og hér háttar, hvort sem er gagnvart verkbeiðanda eða þriðja aðila.
Gagnstefnandi byggir sýknukröfu sína í aðalsök aðallega á aðildarskorti þar sem gagnstefndi sé ekki aðili að þeim samningi sem taki til málningarvinnu á Vesturfold 23. Krafa gagnstefnanda á hendur gagnstefnda sé skaðabótakrafa og sé krafist skuldajafnaðar við hugsanlega kröfu gagnstefnda nái hún að einhverju eða öllu leyti fram að ganga í aðalsök.
Þá er krafist sjálfstæðs dóms fyrir gagnkröfunni að því leyti sem hún kunni að vera umfram þær kröfur í aðalsök sem hugsanlega verði dæmdar, en sjálfstæðs dóms að öllu leyti fyrir gagnsakarkröfunni verði gagnstefnandi sýknaður í aðalsök.
Í aðalsök hafi gagnstefnandi haft uppi skuldajafnaðarkröfu gagnvart gagnstefnda vegna skorts á verklokum að fjárhæð 200.000 kr., verði ekki fallist á sýknukröfu vegna aðildarskorts og gagnstefnanda dæmt áfall að einhverju leyti í aðalsök. Krafist er dóms fyrir þeirri fjárhæð í gagnsök, verði talið að samningssamband hafi myndast milli aðila, en verði gagnstefnandi sýknaður í aðalsök vegna aðildarskorts sé ljóst að þessi hluti gagnkröfu eigi þá ekki við rök að styðjast og muni gagnstefnandi þá ekki halda kröfu þessari til streitu gagnvart gagnstefnda. Eftir sem áður standi skaðabótakrafa gagnstefnanda á hendur gagnstefnda vegna skemmda á parketi og sólbekkjum.
Um rökstuðning fyrir kröfum sínum vísar gagnstefnandi til almennra reglna um bótaábyrgð, almennra reglna kröfu- og samningaréttarins svo og verktakaréttar. Um heimild til höfðunar gagnsakarmáls er vísað til 2. tl. 28. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing til 42. gr. sömu laga enda séu aðalsök og gagnsök báðar af sömu rót runnar og raktar til sömu atvika. Kröfu um dráttarvexti styður gagnstefnandi við 3. kafla laga nr. 25/1987. Vaxta er krafist frá þingfestingardegi gagnsakar. Kröfu um málskostnað styður gagnstefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 en gagnstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda, þar sem lögmönnum sé skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.
Málsástæður og rökstuðningur gagnstefnda
Af hálfu gagnstefnda er því mótmælt að gagnstefnandi hafi á verktímanum gert athugasemdir við seinagang verksins og slæma umgengni. Hafi verkið að mati gagnstefnanda gengið hægt sé honum sjálfum um að kenna og stafi það þá af breytingum í verkinu og óloknum verkþáttum annarra en málara. Því er og mótmælt að gagnstefndi hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart gagnstefnanda með því að hafa ekki gætt þess nægilega að verja hluti fyrir málningu þegar málningarvinna stóð yfir. Gagnstefndi hafi gætt þess að pakka öllu inn og verja þegar málað var.
Niðurstöðu og sönnunargildi matsgerðar Kristjáns Aðalsteinssonar málarameistara er mótmælt. Gagnstefndi telur matsgerðina ónákvæma og matið illa framkvæmt sem geri það að verkum að niðurstaða matsins verði röng og sönnunargildi hennar ekkert um þann ágreining sem er í málinu.
Gagnstefndi gerir eftirfarandi athugasemdir við einstaka liði matsgerðarinnar:
Forstofa:
Forstofa hafi verið unnin í lok verksins og ekki lokið vegna þess að gagnstefnandi hafi neitað gagnstefnda að koma inn í húsið til að ljúka verkinu.
Hol:
Í holinu, eins og í nokkrum öðrum hlutum hússins, hafi verið eftir að yfirfara og sinna smálegum frágangi.
Baðherbergi:
Málning í baðherbergjum verði skýjuð og láti á sjá með tímanum vegna vatnsgufu. Baðið hafði verið í notkun, eins og aðrir hlutar hússins í 2 ár þegar matið fór fram.
Svefnherbergisgangur:
Innfelldir bogar hafi verið smíðaðir í restina og eftir hafi verið að fullmála. Smiðir á vegum gagnstefnanda hafi verið að verki fram undir miðjan janúar 1998 eftir að gagnstefndi hafi ekki fengið að vera þar við vinnu.
Fataherbergi og snyrting:
Gagnstefndi hafi aldrei verið beðinn um að mála húsgögn. Annað það sem hér er lýst sem ómáluðu hafi verið smíðað eftir að gagnstefndi lauk vinnu.
Stofa og borðstofa:
Arinn í stofu hafi verið byggður og gifsaður um miðjan desember 1997 og því hafi verið útilokað að mála hann fyrr en a.m.k. 6 vikum síðar en þá hafi gagnstefndi verið hættur. Gagnstefndi kannast ekki við að málningarslettur hafi verið eftir sig á granítsólbekk.
Garðskáli:
Hæð undir sólbekki sé mjög lítil og sjáist ekki undir þá nema liggja á gólfinu.
Bílskúr:
Sett er út á spörslun. Frágangur veggja í bílskúr hafi verið mjög slæmur og hafi verið unnnn af öðrum. Verk gagnstefnda hafi verið unnið eins og um bílskúr væri að ræða.
Engar athugasemdir séu gerðar við frágang utanhúss nema að það vanti eina umferð á hurð í vaskahúsi, en ekki sé gerð krafa um það í málinu.
Í niðurstöðu sinni varðandi þessar athugasemdir segi matsmaður að kostnaðurinn vegna þessa sé ekki meiri en 200.000 kr. með efni og virðisaukaskatti. Þessari niðurstöðu sé ekki unnt að byggja á í dómsniðurstöðu. Þessi niðurstaða segi ekkert um hver kostnaðurinn sé í raun og ekkert um það hvernig hann sundurliðast eftir einstökum þáttum, sem suma þyrfti hugsanlega að fella út. Sundurliðun sú sem óskað hafi verið eftir í matsbeiðninni sé ekki fyrir hendi og því sé niðurstaðan ekki marktæk.
Matsmaðurinn segist ekki hafa getað mælt þykkt málningar og því ekki getað kannað í hversu mörgum litum hafi verið málað og hversu margar umferðir hafi verið farnar. Þetta telur gagnstefndi að matsmaður hefði getað gert og hafi borið að gera það. Matsbeiðandi verði að bera hallann af þessum galla á matsgerðinni.
Matsmaðurinn leggi fram með matsgerð sinni svokallað kostnaðarmat á tveim blöðum fyrir málningu innanhúss og utanhúss. Mjög ófullkomnar forsendur séu lagðar til grundvallar þessu kostnaðarmati og í það vantar heilu verkþættina sem unnir hafi verið í verkinu. Þá séu einingarverð þau sem notuð séu miklum mun lægri en þau sem í gangi voru á þessum tíma og séu enn. Engin heildarniðurstaða sé í matinu og ekki sundurliðun efnis og vinnu í hverjum verkþætti fyrir sig. Niðurstaða matsgerðarinnar sé því marklaus og hafi ekkert sönnunargildi í málinu.
Í kostnaðarmati utanhúss sé t.a.m. ekki miðað við sílanböðun hússins, sem gagnstefndi hafi þó framkvæmt tvisvar að beiðni gagnstefnanda. Að vori og aftur að hausti áður en málað var. Þá hafi verið nauðsynlegt að kýtta milli steins og glugga. Einnig hafi allir gluggalistar verið málaðir sérstaklega. Undirvinna hafi verið gríðarlega mikil vegna frágangs á múrverki. Ekkert af þessu sé í kostnaðarmati matsmanns.
Innanhúss, eftir að veggir höfðu verið grunnaðir, hafi verið nauðsynlegt að heilsparsla alla veggi og síðan blettsparsla. Málaðar hafi verið þrjár umferðir en ekki tvær. Glugga hafi þurft að hreinsa sérstaklega og heilsparsla þá og lakkera. Allir hurðarkarmar hafi verið málaðir. Kverklistar í loftum hafi verið málaðir sérstaklega síðar. Allt tréverk í loftum hafi verið lakkerað. Loftið á gestasnyrtingunni hafi verið tekið niður og málað að nýju. Svona mætti lengi telja en ekkert af þessu sé í niðurstöðu matsmanns. Gólf, sem voru máluð, var gólf í þvottahúsi og hafi það verið málað með “gólftexi” sem sé mjög kostnaðarsöm aðgerð og kosti efni og vinna um 3.500-4.000 kr. fermeterinn. Matsmaður meti gólfmálningu á 1.400 kr., sem sé eins og önnur einingarverð í matinu til mikilla muna of mögur.
Kostnaður við verkið sé því verulega vanáætlaður í matsgerðinni og hún engin sönnun þess kostnaðar sem hafi verið við verkið eins og það var unnið. Þetta varði efnislega niðurstöðu í aðalsökinni og er á því byggt af hálfu gagnstefnda að með matsgerðinni hafi gagnstefnanda ekki tekist að sýna fram á hvað verkið kostaði eins og það var unnið. Hann verði að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Gagnstefndi byggir á því að sá hluti kröfugerðar gagnstefnanda, 200.000 kr., sem byggð er á framangreindu mati, sé vanreifaður. Þá hafi ekki verið tekið tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Verkið hafi verið unnið í tímavinnu og þess vegna hafi óloknir verkþættir ekki verið reikningsfærðir. Matið og matsgerðin miði ekki að því að sýna fram á hver kostnaður hafi verið við verkið í tímavinnu, en þess í stað sé verkið metið sem tilboðsverk og þá ekki eins og verkið hafi í raun verið unnið.
Gagnstefndi hafi ekki bakað sér þá bótaskyldu sem gagnstefnandi reisir kröfur sínar á. Verkið hafi verið faglega unnið í alla staði og þó svo að einhverjir dropar kynnu að hafa dottið og málning hafi hugsanlega ýrst á hluta gólfs, eins og alltaf vilji verða í verkum sem þessum, þá hefði fagmönnum verið unnt að fjarlægja þá málningu meðan hún hafi ekki verið orðin of gömul. Sú ákvörðun gagnstefnanda að meina gagnstefnda að ljúka verkinu og “fínisera” eins og alltaf sé gert í lok hvers verks, og afleiðingar þeirra ákvörðunar, verði að vera alfarið á ábyrgð gagnstefnanda.
Þá er á því byggt að verkinu hafi lokið tveim árum áður en matið fór fram, og margt af því sem nú eru gerðar athugasemdir við, skýrist af því og jafnframt því að eftir að vinnu gagnstefnda lauk hafi iðnaðarmenn á vegum gagnstefnanda verið að verki í húsinu og hæglega getað valdið tjóni. Þá er byggt á því að gagnstefnandi hafi í janúar 1998 meinað gagnstefnda að vinna inni í húsinu að undanskildum bílskúrnum. Þegar gagnstefndi hafi síðan ætlað að ljúka verki sínu inni í húsinu hafi gagnstefnandi meinað honum það.
Sá hluti kröfugerðar gagnstefnanda sem er reistur á kostnaðaráætlun Baldurs Jónssonar húsasmíðameistara, 196.710 kr., og kostnaðaráætlun vegna sólbekks frá Steinsmiðju Sigurðar Helgasonar, 148.358 kr., er mótmælt sem vanreifuðum og ósönnuðum. Á hvorugu þessu einhliða skjali sé unnt að byggja í málinu. Gagnstefnanda hefði verið í lófa lagið að láta meta þetta í matsmálinu. Í hvorugu tilviki sé heldur tekið tillit til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Við munnlegan málflutning var kröfu gagnstefnanda, um 100.000 kr., vegna teppakostnaðar mótmælt sem gagnstefnda óviðkomandi. Yfirlýsing frá Teppaversluninni Friðrik Bertelsen um verð á gólteppi var ekki tölulega véfengd en tekið fram að teppi hafi verið látið á svefnherbergisgang eftir að gagnstefndi hafði hætt störfum fyrir gagnstefnanda. Þessir kröfuliðir séu allir vanreifaðir, einhliða og ósannaðir. Þessir liðir komi ekki fram í matsgerð hins dómkvadda matsmanns þó svo að þeir hafi verið til mats samkvæmt matsbeiðni.
Gagnstefndi byggir á því að gagnstefndi hafi engar athugasemdir gert við verkið á verktímanum og í raun þvert á móti verið mjög ánægður með vinnuna og framvinduna. Gagnstefnandi hafi haft sér til fulltingis fagmenn til eftirlits með verkinu og ekki hafi heldur komið fram athugasemdir frá þeim. Það hafi ekki verið fyrr en gagnstefnandi áttaði sig á að verkið var að verða dýrara en hann hafði reiknað með að hann hafi farið að láta gagnstefnda fara í taugarnar á sér og þá síðar farið að gera athugasemdir þær við verkið sem hann hafi nú sett fram. Kostnaður við verkið hafi farið úr böndum vegna breytinga og ákvarðana sem gagnstefnandi beri einn ábyrgð á.
Um lagarök vísar stefndi til almennra meginreglna íslensks réttar á sviði kauparéttar auk meginreglna kröfuréttar og samningaréttar með vísan m.a. til laga nr. 7/1936. Þá er vísað til meginreglna laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 með eða án lögjöfnunar, einkum 5. grein þeirra laga. Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi vexti er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987.
Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslu fyrir dómi svo og matsmaðurinn, Kristján Aðalsteinsson málarameistari, vitnin Jón Kaldal arkitekt, Ásgeir Guðmundsson múrari, einn af þremur eigendur Gifsverks ehf., Baldur Jónsson húsasmíðameistari, Valgeir H. Helgason málarameistari, fyrrum starfsmaður aðalstefnanda, Jónas Hilmarsson málari, tengdasonur aðalstefnanda og Óskar H. Ragnarsson lögfræðingur, sonur aðalstefnanda og fyrrum starfsmaður.
Við aðalmeðferð málsins fóru dómarar, aðilar og lögmenn þeirra á vettvang og skoðuðu húsið að Vesturfold 23 að utan og innan.
Forsendur og niðurstaða
Verk það sem aðalstefnandi vann að Vesturfold 23 hefur ekki verið mælt enda byggir aðalstefnandi á því að verkið hafi verið unnið í tímavinnu en aðalstefndi á því að gert hafi verið ákveðið tilboð í verkið.
Um fullyrðingar varðandi tilboð í verkið er af hálfu aðalstefnda vísað í óundirritað verktilboð í málningarvinnu, dags. 22. apríl 1997, sem liggur fyrir í málinu sem dskj. 32. Á fyrstu bls. á þessu dómsskjali er fyrirsögn: Verktilboð í málningarvinnu innanhúss, málun yfir gifsaða fleti. Verktilbð þetta er óundirritað en neðst á blaðinu er lína sem mun hafa verið ætluð fyrir undirritun verkkaupa og önnur fyrir undirritun f.h. Gifsverks ehf. Þarna er ekkert um það hvaða hús á að mála og hver á að gera það og ekki heldur hver sé verkkaupi. Á 2. bls. í verktilboðinu er fyrirsögn: Verktilboð í málningarvinnu utanhúss að Vesturfold 23 Rvk., þar er vísað í meðfylgjandi verklýsingu. Á þessu blaði er hvorki tilgreindur verkkaupi né sá sem vinna skal verkið. Þetta plagg er einnig óundirritað en með sama fyrirkomulagi varðandi fyrirhugaðar undirritanir og á bls. 1. Plagginu fylgir verklýsing á utanhússmálningu.
Ekkert er fram komið um að aðalstefnandi hafi komið á verksstað 22. apríl 1997 eða fyrir þann tíma. Að hans sögn kom hann fyrst að húsinu 27. maí 1997.
Fram kom hjá Ásgeiri Guðmundssyni, einum af þremur eigendum Gifsverks ehf., sem annaðist múrverk og hleðslu milli veggja að Vesturfold 23 samkvæmt verksamningi dags. sama dag og áðurgreint tilboð, að á milli Gifsverks ehf. og aðalstefnanda séu engin tengsl og hafi Gifsverk ehf. ekkert umboð til að skuldbinda aðalstefnanda. Ásgeir kvaðst hafa bent aðalstefnda á aðalstefnanda. Aðalstefnandi hafi samþykkt að taka verkið að sér. Ásgeir sagðist hafa fengið tilboðstölur hjá aðalstefnanda. Því er mótmælt af aðalstefnanda en viðurkennt að Ásgeir Guðmundsson hafi spurt hvort aðalstefnandi væri til í að mála húsið. Það kvaðst aðalstefnandi hafa samþykkt en ekkert hafi verið rætt um verð.
Á tímabilinu 15. okt. til 9. des. 1997 greiddi aðalstefndi aðalstefnanda samtals 1.800.000 kr. og fékk kvittanir frá aðalstefnanda.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ekki fallist á sýknukröfu aðalstefnda byggða á aðildarskorti.
Fullyrðingar aðalstefnda um að samið hafi verið um ákveðið verð fyrir verkið eru rökstuddar með vísan til framangreinds verktilboðs á dskj. 32. Með sömu röksemdum og raktar eru hér að framan er kröfum aðalstefnda, á því byggðar að samið hafi verið um ákveðið verð, hafnað.
Að sögn hina sérfróðu meðdómenda er ekki óeðlilegt að mála svona hús í tímavinnu enda þótt algengt sé að gera ákveðið tilboð í verk.
Í þriðja lagi er sýknukrafa aðalstefnda á því byggð að reikningur aðalstefnanda sé bersýnilega ósanngjarn.
Reikningi aðalstefnanda fylgja ekki dagskýrslur þar sem fram kemur við hvað var unnið hverju sinni. Gegn andmælum aðalstefnda verður hann því ekki talin sönnun um tímafjölda, umfang verks og tví- eða margverknað.
Niðurstaða hins dómkvadda matsmanns gefur til kynna að reikningurinn sé úr hófi fram. En hér er til þess að líta að magntölur í matinu eru vantaldar. Þær eru þær sömu og koma fram í bréfi Jóns Kaldal, dags. 18. ágúst 1998. En í bréfi þessu kemur fram að í þær magntölur vantar ýmsa verkþætti, svo sem hvelfingu og glugga í skála, 3 styttuhólf og 1 sjónvarpshólf og snyrtiborð. Samt er í matsgjörð metinn kostnaður við málun snyrtiborðs, þriggja styttuhólfa og sjónvarpshólfs.
Hinir sérfróðu meðdómendur telja einingarverð vegna gólftex í matinu of lágt, en önnur einingarverð telja meðdómendur eðlileg. Þegar hinir sérfróðu meðdómendur hafa litið til þess sem vantalið er í matsgjörð og miðað við eðlilegt einingarverð vegna gólftex telja þeir eðlilegt endurgjald fyrir vinnu við málun innanhúss vera 2.000.000 kr. að meðtöldu efni og vsk. Þá er miðað við að verkinu hafi verið lokið, loft og veggir sparslaðir, en ekki er litið til fullyrðinga aðalstefnanda um margverknað, þar sem þær teljast ósannaðar vegna þess að dagskýrslur fylgja ekki reikningi.
Í matinu er ekki metinn kostnaður við sílanböðun hússins að utan og ekki er litið til sérstaks kostnaðar við málun á raufum á húsinu utanverðu og sérstaks kostnaðar vegna gerðar þakkants. Hinir sérfróðu meðdómendur telja eðlilegt endurgjald fyrir málun utanhúss að þessum atriðum virtum 1.200.000 kr. að meðtöldu efni og vsk.
Í aðalsök verður aðalstefndi því dæmdur til þess að greiða aðalstefnanda 1.400.000 kr., þ.e. heildarkostnaður við verk aðalstefnanda telst vera 3.200.000 kr. og frá þeirri fjárhæð dragast 1.800.000 kr. sem þegar hafa verið greiddar. Fjárhæð þessa greiði aðalstefndi með vöxtum eins og krafist var.
Í gagnsök krefur gagnstefnandi gagnstefnda um greiðslu á 200.000 kr. vegna þess sem er ógert og kostnaðar við lagfæringar. Þessi liður er ósundurliðaður í matsgjörð en eftir atvikum þykir hinum sérfróðu meðdómendum að þessi liður sé hæfilega áætlaður fyrir það sem ógert er svo og það sem lagfæra þarf fyrir utan parket og sólbekk.
Við vettvangsskoðun kom í ljós að málning hafði ýrst á parket í svefnherbergisgangi. Ekkert hefur komið fram um að gagnstefnandi hafi tilkynnt gagnstefnda um þetta eða annað sem hann taldi athugavert við verkframkvæmd gagnstefnda á meðan á verkinu stóð og þannig gefið gagnstefnda kost á að bæta úr því sem úrbóta þarfnaðist. Menn á vegum gagnstefnda munu síðast hafa unnið inni í húsinu fyrir jól 1997. Gagnstefnandi lét gagnstefnda fara frá verkinu í janúar 1998 og kvaðst ætla að fá einhvern annan til þess að ljúka verkinu. Enda þótt fallast megi á það með gagnstefnda að verið geti að þessi málning hafi komið á parketið eftir að hann hætti störfum, þá þykir þó líklegra að það hafi gerst þá er húsið var málað. Hinir sérfróðu meðdómendur telja ástæðulaust að rífa gólfið upp, heldur megi hreinsa parketið með auðveldum hætti.
Við vettvangsskoðun sást málning á sólbekk í stofu. Það sama á við um þetta og málninguna sem ýrst hafði á parkett í svefnherbergisgangi að óvíst er hvenær þessi málning kom á sólbekkinn. En eftir atvikum þykir bera að leggja til grundvallar að það hafi gerst þá er stofuglugginn var málaður. Hinir sérfróðu meðdómendur telja ástæðulaust að fjarlægja sólbekkinn heldur megi hreinsa hann.
Kostnað við lagfæringu á parketi og sólbekk telja hinir sérfróðu meðdómendur hæfilega áætlaðan 100.000 kr.
Í gagnsök verður gagnstefndi því dæmdur til þess að greiða gagnstefnanda 300.000 kr. Við ákvörðun þeirrar fjárhæðar hefur verið litið til virðisaukaskatts á vinnu. Hin tildæmda fjárhæð í gagnsök komi til skuldajöfnunar við dæmda fjárhæð í aðalsök.
Niðurstaða málsins verður því sú að aðalstefndi verður dæmdur til þess að greiða aðalstefnanda 1.100.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.400.000 kr. frá 4. des. 1998 til 2. mars 2000 en af 1.100.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Málið dæma Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari, Sigurjón Björnsson málarameistari og Þorkell Jónsson byggingatæknifræðingur.
D ó m s o r ð:
Aðalstefndi, Skúli Jóhannesson, greiði aðalstefnanda, Ragnari Hafliðasyni, 1.100.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.400.000 kr. frá 4. des. 1998 til 2. mars 2000 en af 1.100.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaður fellur niður.