Hæstiréttur íslands
Mál nr. 434/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gögn
- Verjandi
|
|
Þriðjudaginn 24. september 2002. |
|
Nr. 434/2002. |
Ríkislögreglustjóri(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Kristín Edwald hdl.) |
Kærumál. Gögn. Verjandi.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu ríkislögreglustjóra um að tekin yrði skýrsla af X fyrir dómi vegna rannsóknar opinbers máls, sem beindist að X, en hafnað að framlengja frest ríkislögreglustjóra til að synja verjanda X um aðgang að gögnum málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2002, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að tekin yrði skýrsla af varnaraðila fyrir dómi vegna rannsóknar opinbers máls, sem beinist að henni, en hafnað að framlengja frest sóknaraðila til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum málsins. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómari taki skýrslu af varnaraðila og frestur til að synja verjanda hennar um aðgang að gögnum málsins verði framlengdur í þrjár vikur.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2002.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að héraðsdómur taki skýrslu af af X og framlengi jafnframt í þrjár vikur frest sem lögregla hefur til að synja verjanda hennar um aðgang að gögnum er varða rannsókn máls nr. 006-2002-86.
Verjandi kærðu hefur mótmælt kröfunni.
Í greinargerð með kröfu ríkislögreglustjóra kemur fram að embættið hafi nú til rannsóknar ætlað brot X, framkvæmdastjóra fjárfestingafélagsins G hf. og varamanni í stjórn B hf., og annarra gagnvart B hf. [...]. Rannsókn málsins sé mjög umfangsmikil og gangi allvel en sé hins vegar enn á fyrstu stigum og því sé ljóst að miklu sé ólokið, eins og úrvinnslu haldlagðra [gagna] og skýrslutökum af þeim sem tengjast málinu. Nauðsynlegt sé að fá kærðu fyrir dóm til að staðfesta fyrri framburð sinn og yfirheyra hana nánar um málið áður en hún fái að kynna sér öll gögn málsins. Ósamræmis gæti í framburði kærðu og annarra sakborninga. Fari svo að kærðu yrði heimilað að kynna sér gögn málsins á þessu stigi málsins byði það tvímælalaust upp á þá hættu að hún legði mat á sönnunarstöðu málsins og gæti hagað framburði sínum í samræmi við framburði annarra eftir því sem henni hentaði. Með því móti gæti hún spillt sönnunarfærslu í málinu og torveldað og seinkað rannsókn þess. Sé því jafnframt nauðsynlegt að krefjast þess að héraðsdómur framlengi þann frest sem lögregla hefur til að kynna verjanda gögn málsins. Verið sé að rannsaka brot sem talin séu geta varðað við 247. og/eða 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 36., sbr. 37. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994 og 107. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981.
Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, eins og henni var breytt með 12. gr. laga nr. 36/1999, skal verjandi jafnskjótt og unnt er fá endurrit af öllum skjölum sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn, sem ekki verða endurrituð, en lögregla getur þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum málsins í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar telji hún það geta skaðað rannsókn málsins. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að þegar verjandi hefur fengið aðgang að gögnum máls sé honum heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum gögnin með öðrum hætti.
Í b-lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 36/1999, er mælt svo fyrir að telji lögregla nauðsynlegt að skýrsla verði tekin fyrir dómi af sakborningi, brotaþola eða vitnum til þess að upplýsa mál áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess beri dómara að verða við slíkri beiðni þótt ákæra hafi ekki verið gefin út. Þá segir þar og að ef þörf krefur geti dómari framlengt frest skv. 1. mgr. 43. gr. laganna í allt að þrjár vikur svo hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans.
Í athugasemdum með ofangreindri 12. gr. frumvarps til laga nr. 36/1999, sem breytti 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 á þann veg að heimila lögreglu að meina verjanda að aðgang að gögnum máls í allt að eina viku frá því þau urðu til eða komust í vörslur hennar, kemur fram að rétt sé að leggja áherslu á að þessi heimild lögreglu sé hugsuð sem undantekningarákvæði sem aðeins ætti að beita þegar sérstaklega stendur á og verulegir hagsmunir eru í húfi. Þá segir í athugasemdum með b-lið 1. mgr. 23. gr. 1aga nr. 36/1999, sem fyrr er nefnd, að með tilliti til sönnunargildis skýrslu, sem gefin er fyrir dómi, í samanburði við lögregluskýrslu geti lögregla með ákvæðinu leitast við að tryggja sönnun áður en sakborningur fær aðgang að gögnum og þar með tækifæri til að hagræða framburði sínum, t.d. með hliðsjón af framburði annarra sakborninga eða vitna í málinu. Jafnframt sé ekkert því til fyrirstöðu að sakborningur fái aðgang að málskjölum eftir að hann hefur gefið skýrslu skv. ákvæðinu. Í athugasemdunum segir enn fremur: ,,Gert er ráð fyrir að dómari geti, ef þörf krefur, framlengt einnar viku frestinn í 1. mgr. 43. gr., sbr. 12. frumvarpsins, í samtals allt að þrjár vikur svo að hægt verði að ljúka skýrslutöku innan hans, en slíkt gæti orðið nokkuð tímafrekt ef taka þyrfti skýrslu af mörgum sakborningum og vitnum”.
Af ákvæði 1. málsl. b. liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 leiðir að það er háð mati lögreglu hvort hún telji nauðsynlegt að skýrsla verði tekin fyrir dómi af sakborningi, brotaþola eða vitnum til þess að upplýsa mál áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess. Er ákvæðið fortakslaust um að dómara beri skylda til að verða við slíkri beiðni þótt ákæra hafi ekki verið gefin út. Samkvæmt því verður krafa ríkislögreglustjóra um skýrslutöku af kærðu X fyrir dómi tekin til greina.
Það er meginregla opinbers réttarfars að verjandi eigi rétt á aðgangi að öllum gögnum máls og að honum sé jafnframt heimilt að kynna þau sakborningi. Svo sem áður greinir er lögð á það áhersla í athugasemdum með 12. gr. frumvarps til laga nr. 36/1999, sem breytti 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, að heimild lögreglu, er þar kemur fram, sé hugsuð sem undantekningarákvæði sem aðeins ætti að beita þegar sérstaklega stendur á og verulegir hagsmunir eru í húfi. Af því leiðir að skýra ber ákvæðið þröngt sem og heimildarákvæði b. liðar 1. mgr. 74. gr. a til framlengingar frestsins.
Að kröfu ríkislögreglustjóra var heimiluð húsleit í húsnæði B hf./A hf. með dómsúrskurði 28. ágúst sl. Fór leit þar fram sama dag og hald lagt á gögn, sem talin eru hafa þýðingu við rannsókn málsins, og bókhaldsgögn afrituð. Fjórir einstaklingar hafa verið yfirheyrðir 28. og 29. ágúst sl. sem sakborningar í málinu og hafa ýmis þessara gagna verið borin undir þá og þeim gefinn kostur á að gefa skýringar á atriðum tengdum þeim. Kærða X var yfirheyrð síðarnefnda daginn að viðstöddum verjanda sínum sem skipaður var til starfans í gær. Allir hafa sakborningarnir neitað sök en ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir neinum þeirra á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hafa þeir því eftir atvikum haft öll tök á að bera sig saman og hagræða framburði sínum. Þá hafa þeir einnig haft aðgang að öllum bókhaldsgögnum sem lögregla afritaði.
Að virtu öllu framangreindu er það mat dómsins að ekki séu efni til að beita þröngri undantekningarreglu b. liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, til framlengingar frests til að synja verjanda kærða um aðgang að gögnum málsins. Ber því að hafna kröfunni að þessu leyti.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Krafa ríkislögreglustjóra um skýrslutöku fyrir dómi af kærðu X vegna máls nr. 006-2002-86 er tekin til greina en kröfu ríkislögreglustjóra um framlengingu frests sem lögregla hefur til að synja verjanda kærðu um aðgang að gögnum málsins er hafnað.