Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðfarargerð
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Föstudaginn 10. ágúst 2012.

Nr. 453/2012.

Einar Þór Einarsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

Kærumál. Aðfarargerð. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Að beiði A hf. var fjárnám gert í eignarstýringasafni E hjá félaginu. E höfðaði mál á hendur A hf. þar sem þess var krafist að ákvörðun sýslumanns um fjárnámið yrði hnekkt og lagt fyrir sýslumann að synja fjárnámsbeiðni A hf. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi þar sem kröfugerð E uppfyllti ekki meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að í kröfu E um að ákvörðun sýslumanns yrði hnekkt fælist krafa um að gerðin yrði ógilt með dómi. Gæti sú krafa E um að lagt yrði fyrir sýslumann að synja fjárnámsbeiðni A hf., sem ekki yrði fjallað um í máli sem borið væri undir dóm, ekki valdið því að kröfu hans um ógildingu gerðarinnar yrði vísað frá dómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu E um ógildingu fjárnámsgerðarinnar til efnislegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júní 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. júní 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með erindi til héraðsdóms 13. febrúar 2012 krafðist sóknaraðili „úrlausnar héraðsdómara um fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði í máli nr. ... sem fram fór hjá honum þann 17. janúar 2012 að kröfu Arion banka hf.“ Kröfu sína orðaði sóknaraðili svo „að ákvörðun sýslumanns verði hnekkt og lagt verði fyrir sýslumann að synja gerðarbeiðanda ... um fjárnám hjá gerðarþola“.

Í 15. kafla laga nr. 90/1989 er fjallað um úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar. Þar er meðal annars í 1. mgr. 93. gr. kveðið á um hvað koma skuli fram í tilkynningu til héraðsdóms, þegar þangað er vísað ágreiningi um aðfarargerð eftir lok hennar. Með því að krefjast úrlausnar héraðsdómara um fjárnámsgerðina og að ákvörðun sýslumanns verði hnekkt telst sóknaraðili hafa gert kröfu um að gerðin yrði ógilt með dómi. Krafa sem hann jafnframt gerði um að lagt yrði fyrir sýslumann að synja fjárnámsbeiðni varnaraðila, en um þá kröfu verður ekki fjallað í máli sem borið er undir dóm samkvæmt 15. kafla laga nr. 90/1989, getur ekki valdið því að kröfu hans um ógildingu fjárnámsgerðarinnar verði vísað frá dómi. Önnur atriði sem áskilið er í 1. mgr. 93. gr. laga nr. 90/1989 að koma skuli fram í tilkynningu til héraðsdóms var öll að finna í erindi sóknaraðila. Leiðir þetta til þess að hinn kærði úrskurður verður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka fyrrgreinda kröfu sóknaraðila til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu sóknaraðila, Einars Þórs Einarssonar, gegn varnaraðila Arion banka hf., um ógildingu fjárnámsgerðar 17. janúar 2012 til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. júní 2012.

Með bréfi, sem móttekið var hjá Héraðsdómi Reykjaness 13. febrúar 2012, krafðist sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði í máli nr. 036-2011-04091 sem fram fór hjá honum þann 17. janúar að kröfu varnaraðila. Málið var þingfest 29. febrúar og tekið til úrskurðar 10. maí sl.

Sóknaraðili er Einar Þór Einarsson, Mýrarkoti 6, Álftanesi, en varnaraðili er Arion banki hf.

Dómkröfur sóknaraðila eru „að ákvörðum sýslumanns verði hnekkt og lagt verði fyrir sýslumann að synja gerðarbeiðanda, þ.e. Arion banka hf. kt. [...], um fjárnám hjá gerðarþola, þ.e. Einari Þór Einarssyni, kt. [...], á grundvelli fyrirliggjandi aðfararbeiðni.“

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að fjárnámsgerð sýslumannsins í Hafnarfirði nr. 036-2011-04091, sem gerð var hjá sóknaraðila þann 17. janúar 2012, verði staðfest.

Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.

I.

Ágreiningur málsins varðar fjárnám sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði þann 17. janúar 2012 hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila.

Upphaf málsins má rekja til þess að þann 15. desember 2006 gaf sóknaraðili út skuldabréf nr. 6222 til Kaupþings banka hf., upprunalega að höfuðstól 147.000.000 króna. Til trygg­ingar skilvísum greiðslum á öllum skuld­bindingum sóknaraðila gagnvart Kaup­þingi banka hf., þ. á m. kröfu bank­ans samkvæmt skuldabréfinu, stóð inneign sóknaraðila á inn­láns­­­reikn­ingi hans hjá Kaupþingi banka hf., nr. 300926, að handveði samkvæmt  hand­veðs­samn­ingi, dags. 5. maí 2006.

Þann 29. janúar 2008 var, að beiðni sóknaraðila, láninu samkvæmt skuldabréfinu  breytt úr ís­lenskum krónum í er­lendar myntir. Skulda­bréfið fékk þá nýtt númer, nr. 7015.  Skuldabréfið eignaðist varnaraðili þann 21. október 2008, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá sama degi.

Þann 13. mars 2009 óskaði sóknaraðili eftir því að inneign hans á fyrrgreindum inn­láns­reikn­ingi yrði flutt á eignastýringarsafn hans nr. 470500 sem stofnað var til á grundvelli samn­­ings um eignastýringu, dags. 4. júní 2004. Varnaraðili kveður þessa millifærslu hafa verið samþykkta í þeirri trú að eigna­stýr­ing­a­rsafnið væri, eins og innlánsreikningur hans nr. 300926, handveðsett til trygg­ingar greiðsl­um á öll­um skuld­bindingum sóknaraðila gagnvart stefnda, þ. á m. kröfu bank­ans samkvæmt skulda­bréfi nr. 7015. Svo hafi þó ekki reynst vera, enda eigna­stýringar­safn nr. 470500 hand­veðsett bank­an­um til tryggingar á greiðslu yfir­drátt­arskuld eins og hún væri á hverjum tíma, á tékka­reikningi nr. 763 samkvæmt handveðssamningi sóknaraðila  og bankans, dags. 15. apríl 2005.

Skuldabréfi nr. 7015 var skilmála­breytt þann 31. mars 2009 að beiðni sóknar­aðila og gjalddagi ákveðinn 10. maí 2009. Skulda­bréfinu var aftur skilmálabreytt að beiðni sóknaraðila þann 4. júní 2009 og gjalddagi ákveðinn 1. september 2009. Undir báðar skilmálabreytingarnar skrifuðu sóknaraðili sem útgefandi skuldabréfsins og varnaraðili sem kröfuhafi.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2009, kröfðust eiginkona sóknaraðila og sóknaraðili þess að eiginkona sóknaraðila yrði einnig skráð eigandi að eigna­stýringarsafni nr. 470500. Með bréfi, dags. 31. júlí 2009, sögðu þau eigna­stýringarsamningnum upp og kröfðust þess að andvirðið yrði lagt inn á reikning í eigu eigin­konu sóknaraðila.  Í kjölfarið á þessu krafðist varnaraðili kyrr­­setn­ingar á fjármunum á eigna­­stýringar­safninu til trygg­ingar á greiðslu kröfu varnaraðila samkvæmt skulda­­bréfinu með beiðni, dags. 12. ágúst 2009. Sýslu­maðurinn í Hafnar­firði féllst á kyrr­setn­ingar­beiðni varnaraðila og var réttarstefna  gefin út í stað­festingar­máli þann 21. ágúst 2009.

Skuldabréf nr. 7015 féll í gjalddaga þann 1. september 2009.

Með stefnu, birtri í nóvember 2009, höfðaði eiginkona sóknaraðila mál á hendur varnaraðila og krafðist greiðslu á helmingi eignastýringarsafnsins. Dómur féll í málinu áður en dómur var upp­kveð­inn í stað­fest­ingarmáli vegna kyrr­setn­ing­ar en með dómi Hér­aðs­­dóms Reykja­víkur, dags. 23. mars. 2010, var varnaraðili dæmd­ur til að greiða eiginkonu sóknaraðila 49.179.500 krónur ásamt dráttar­vöxt­um. Varnaraðili greiddi þá kröfu 2. september 2010 í samræmi við framan­greindan dóm.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í staðfestingarmáli vegna kyrrsetningar féll 14. júlí 2010 en með dómi Hæstaréttar þann 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010 var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem kröfugerð varnaraðila í málinu sam­rýmdist ekki ákvæðum laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Umrætt skuldabréf er gengistryggt og tilkynnti varnaraðili sóknaraðila með tilkynningu þann 28. nóvember 2011 að hann hefði endurútreiknað kröfu samkvæmt skulda­bréfinu. Tilkynning um endurútreikn­ing­inn og forsendur hans hefur verið lögð fram í málinu. Sam­kvæmt þeim útreikningi nemur skuld sóknaraðila gagnvart varnaraðila á gjalddaga skuldabréfsins, þann 1. september 2009, 62.069.465 krónum. Sóknaraðili greiddi síðast af skuldabréfinu 4. ágúst 2009 en hefur ekkert greitt af því síðan.

Sem áður sagði vísaði Hæstiréttur þann 17. nóvember 2011 frá héraði kyrrsetningu sem fram hafði farið hjá sóknaraðila. Varnaraðili höfðaði því nýtt staðfestingarmál á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og var það þingfest 14. desember 2011 og hefur dómur ekki gengið í því máli.

Skuldabréf það, sem liggur til grundvallar kröfu varnaraðila í þessu máli, varð aðfararhæft eftir að fyrrnefnd kyrrsetning var gerð. Á grundvelli þess var fjárnám gert hjá sóknaraðila og er deilt um það í þessu máli.

II.

Krafa sóknaraðila í málinu byggist í fyrsta lagi á því að varnaraðili fari ekki með forræði kröfunnar. Í öðru lagi er byggt á því að ágreiningur sé um gildi kröfunnar og í þriðja lagi er byggt á því að varnaraðili hafi með engu móti sýnt fram á réttmæti og fjárhæð kröfunnar.

Sóknaraðili kveðst frá öndverðu hafa hafnað því að varnaraðili fari með forræði kröfunnar. Varnaraðili hafi með engu móti sýnt fram á að krafa samkvæmt skuldabréfinu sé á hans forræði. Skuldabréfið sé liður í uppgjöri vegna afleiðuviðskipta samkvæmt  samningi sóknaraðila nr. 1112 við Kaupþing banka hf. Í október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir öll völd hluthafafundar Kaupþings banka hf. og vikið stjórn og skipað skilanefnd. Öllum eignum Kaupþings banka hf., hverju nafni sem þær nefnast, hafi verið ráðstafað til Nýja Kaupþings hf., nú Arion banka hf. Samkvæmt 1. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hinn 21. október 2008 hafi réttindi og skyldur samkvæmt  afleiðusamningnum ekki flust yfir til hins nýja banka og því séu kröfur varnaraðila ekki á hans forræði. Varnaraðili hafi því ekki framsalsheimild fyrir bréfinu.

Fyrst við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni hafi varnaraðili lagt fram yfirlýsingu starfsmanns Kaupþings banka hf., dags. 10. janúar 2012, um að skuldabréfið hafi verið framselt varnaraðila í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Ekki hafi þurft framsal frá Kaupþingi banka hf. ef bréfið hefði upphaflega verið eign varnaraðila. Skuldabréfið hefði þá verið eign hins nýja banka frá stofnun hans. Skuldabréfið beri það ekki með sér að hafa verið framselt. Það sé ekki handhafabréf og því geti varnaraðili ekki sýnt fram á að hafa forræði kröfunnar. Yfirlýsing starfsmann skilanefndar um framsal fullnægi ekki ákvæðum laga.

Fyrir Héraðsdómi Reykjaness sé nú rekið dómsmál þar sem tekist sé á um gildi kröfunnar. Sóknaraðili hafi frá öndverðu hafnað því að skulda varnaraðila þá fjármuni sem hann sé nú krafinn um. Þá hafi sóknaraðili í því máli gagnstefnt varnaraðila og krafið hann um þá fjármuni sem að hann eigi inni á eignastýringarsafni sínu hjá varnaraðila. Þeim samningi hafi verið sagt upp skriflega þann 6. ágúst 2009 í samræmi við ákvæði samningsins en varnaraðili hafi engu að síður haldið þeim fjármunum eftir með ólögmætum hætti.

Sóknaraðili hafi frá öndverðu hafnað fyrirliggjandi útreikningum á kröfu varnaraðila. Sóknaraðili hafi gefið út skuldabréf 15. desember 2006 til Kaupþings banka hf. að fjárhæð 147.000.000 króna og hafi sú skuld verið bundin vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 266,1 stig og borið svokallaða breytilega kjörvexti með 0,75% álagi. Á fyrsta gjalddaga skuldabréfsins 1. janúar 2008 hafi sóknaraðili átt að greiða 130.000.000 króna af höfuðstól skuldarinnar auk  vaxta og verðbóta frá kaupdegi en  upp frá því hafi hann átt að greiða eftirstöðvar skuldarinnar með vöxtum með 48 mánaðarlegum afborgunum. Í skuldabréfinu hafi ekki verið kveðið á um tryggingar fyrir greiðslu skuldarinnar.

Í málinu liggi fyrir greiðsluseðill til sóknaraðila frá Kaupþingi banka hf. vegna gjalddaga skuldabréfsins 1. janúar 2008. Samkvæmt greiðsluseðlinum skyldi fyrsta afborgun af nafnverði nema 48.914.539 krónum og af verðbótum 2.885.976 krónum en að viðbættum vöxtum, að fjárhæð 1.003.993 krónum og 510 krónum vegna tilkynningar- og greiðslugjalds eða samtals 52.805.018 krónu. Á seðlinum komi fram að eftirstöðvar með verðbótum eftir greiðslu yrðu engar. Fyrir fyrsta gjalddaga hafi sóknaraðili þegar greitt rúmar 100.000.000 króna inn á höfuðstól kröfunnar. Varnaraðili hafi ekki gert grein fyrir þeim greiðslum og þá hafi varnaraðili með engu móti sýnt fram á hvernig þetta efni greiðsluseðilsins fái samrýmst því sem kveðið hafi verið á um í skuldabréfinu.

III.

Varnaraðili  byggir á því  að í málinu sé enginn ágreiningur um að sóknaraðili hafi stofnað til skuldar við varnaraðila þann 15. desember 2006 með útgáfu á skuldabréfi nr. 6222 (nú nr. 7015), enda viðurkenni sóknaraðili það. Staðreyndir málsins séu að sóknaraðili hafi ekki staðið skil á skuld sinni við varnaraðila og séu vanskil nú orðin veruleg. Sóknaraðili hafi ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að hann muni standa skil á skuldbindingum sínum eða geti staðið skil á skuldbindingum sínum. Varnaraðila sé heimilt samkvæmt skýrum ákvæðum skuldabréfsins að innheimta skuld sína gagnvart sóknaraðila eins og hann og hafi gert með því að senda aðfararbeiðni til sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 16. nóvember 2011. Þá liggi ljóst fyrir í máli þessu að sóknaraðili eigi fjármuni á eignastýringarsafni hjá varnaraðila nr. 470500. Samkvæmt ákvæðum aðfararlaga nr. 90/1989 sé varnaraðila heimilt að gera fjárnám í eigum sóknaraðila til fullnustu kröfu sinni gagnvart varnaraðila.

Varnaraðili byggir kröfu sína í málinu á því að öll skilyrði aðfaralaga hafi verið uppfyllt við framkvæmd umþrættrar aðfarargerðar. Í 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfaralaga sé mælt fyrir um heimild til að gera aðför til fullnustu kröfum samkvæmt skuldabréfi með ákveðnum tilteknum skilyrðum. Aðfararbeiðni varnaraðila, dags. 16. nóvember 2011, sé byggð á gildu skuldabréfi. Skuldabréfið mæli fyrir um ákveðna peningaupphæð, undir­ritun skuldara sé vottuð af tveimur vitundarvottum og berum orðum sé tekið fram í skuldabréfinu að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengis dóms eða réttarsáttar.  Skilyrðum 7. gr., 10. og 16. gr. sé einnig fullnægt í málinu.

Sóknar­aðili byggi kröfur sínar í fyrsta lagi á því að varnaraðili fari ekki með forræði kröfunnar. Varnaraðili kveðst mótmæla þeim málatilbúnaði sóknaraðila, enda hafi sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á það. Varnaraðili byggir á því að hann sé réttur og lögmætur eigandi kröfu samkvæmt skuldabréfi nr. 7015 og hafi verið það frá birtingu ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008. Þetta fái frekari stoð í forsendum fyrir skiptingu efnahagsreiknings, dags. 19. október 2008, sem hafi verið lagðar fram í málinu. Þar komi fram að útlán til viðskiptavina séu færð yfir til varnaraðila. Þessu til viðbótar liggi frammi í málinu sameiginleg yfirlýsing slitastjórnar Kaupþings banka hf. og varnaraðila um að skuldabréf nr. 7015 hafi verið framselt frá Kaup­þingi banka hf. til varnaraðila í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008. Af þessu ætti að vera ljóst að varnaraðili sé réttur og lögmætur eigandi skuldabréfs nr. 7015 frá 21. október 2008 og hafi tekið réttilega við greiðslum úr hendi sóknaraðila vegna skulda­bréfsins.

Varnaraðili heldur því fram að samkvæmt viðskiptabréfareglunum fái framsalshafi þann rétt sem bréfið bendi til og hafi því sóknaraðili tapað mótbárum sínum. Ekki skipti máli þótt skulda­bréfið hafi ekki verið stimplað um framsalið, eins og sóknaraðili virðist byggja mála­til­bún­að sinn á, enda sé það ekki gildisskilyrði framsals samkvæmt viðskiptabréfa­reglun­um. Þá sé einnig þess að geta að sóknaraðili hafi skrifað undir tvær skilmálabreyt­ingar hjá varnaraðila, þann 31. mars 2009 og 4. júní 2009, og hafi skuldabréfið verið stimplað um það. Varnar­aðili byggir á því að þær áritanir svari til áritunar á bréfið, eða a.m.k. ígildis áritunar á bréfið, um framsal þess.

Verði ekki fallist á ofangreinda röksemd byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi með aðgerðum sínum viðurkennt að varnaraðili sé eig­andi skuldabréfs nr. 7015. Sóknaraðili hafi greitt 11 afborganir af skulda­bréf­inu eftir að skulda­bréfið hafi verið framselt varnaraðila með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 21. október 2008.  Sóknaraðili hafi ávallt greitt af skulda­bréfinu til varnaraðila án fyrirvara og án athugasemda. Sóknaraðili virðist fyrst hafa gert efnislegar athugasemdir við eignar­hald varnaraðila á skuldabréfinu við birtingu stefnu í gagnsök í máli nr. E-1889/2011 þann 10. janúar 2012. Þá ítrekar varnaraðili að sóknar­aðili hafi í skýrri mótsögn við framangreinda afstöðu sína nú skrifað undir tvær skil­mála­breytingar við skuldabréfið hjá varnaraðila. Með því telur varnaraðili að sóknaraðili hafi viðurkennt að varnaraðili sé réttur eigandi kröfunnar. Að minnsta kosti hafi sóknaraðili sýnt af sér verulegt tómlæti með því að hafa aldrei haft frammi athugasemd þessu að lútandi þrátt fyrir fjölmörg tækifæri.

Sóknaraðili haldi því fram að skuldabréf nr. 7015 hafi ekki verið framselt til varnaraðila að því er virðist á þeim grundvelli að skuldabréfið hafi verið gefið út til uppgjörs vegna afleiðuviðskipta. Varðandi þetta vísar sóknaraðili til þess að tekið sé fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 að afleiðusamningar eigi ekki að flytjast til varnaraðila. Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að skulda­bréfið hafi verið gefið út til uppgjörs á afleiðusamningi, enda komi það ekki fram á skuldabréfinu eða megi ráða af nokkrum gögnum sem hafi verið lögð fram í málinu. Því sé sérstaklega mót­mælt að þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram við fjárnámsgerð hjá sýslu­manninum í Hafnarfirði þann 17. janúar sl. geri á nokkurn hátt líklegt að svo sé. Sönnunarbyrði fyrir þessari fullyrðingu hvíli alfarið á sóknaraðila.

Sóknaraðili byggi kröfur sínar í öðru lagi á því að það sé ágreiningur um gildi kröfunnar. Varnaraðili mótmælir þeim málatilbúnaði sóknaraðila. Krafa varnaraðila samkvæmt skuldabréfi nr. 7015 sé gild. Um hefðbundið skuldabréf sé að ræða og hafi sóknaraðili greitt 11 afborganir af því til varnaraðila eftir að bréfið hafi verið framselt frá Kaupþingi banka hf. til varnaraðila. Varnaraðili telur að röksemdir sóknar­aðila vegna kröfu varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu séu allt í senn óljósar, órökstuddar og of seint fram komn­ar.

Sóknaraðili byggi kröfu sína í þriðja lagi á því að varnaraðili hafi með engu móti sýnt fram á réttmæti og fjárhæð kröfunnar. Varnaraðili kveðst hafna þeim mála­til­búnaði sóknaraðila. Krafa varnaraðila sé skýr og ótvíræð. Eins og gerð sé grein fyrir að ofan byggi krafa varnaraðila á skuldabréfi nr. 7015 (upphaflega nr. 6222) að höfuðstólsfjárhæð upphaflega 147.000.000 króna. Þann 29. janúar 2008 hafi skulda­bréf­inu verið skilmálabreytt á þann veg að það miðaðist við erlendar myntir. Þá hafi skuldabréf­ið fengið nýtt númer, nr. 7015. Við skilmálabreytingu hafi eftirstöðvar höfuðstóls skuldabréfsins verið 53.869.038 krónur eins og komi fram á breytingunni sjálfri.  Skuldabréfið hafi fallið í gjalddaga 1. september 2009. Frá því að skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt og þangað til það hafi fallið í gjalddaga hafi sóknaraðili greitt samtals 7.293.521 krónu af skuldabréfinu. Varnaraðili hafi viðurkennt að skuldabréfið hafi gengið  gegn ákvæðum IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vegna þessa, og ákvæða 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, hafi varnaraðili endurreiknað kröfu samkvæmt skuldabréfinu og tilkynnt sóknaraðila um það. Samkvæmt þeim endur­útreikningi nemi krafa skuldabréfsins á gjalddaga 62.069.465 krónum.

Í kæru sóknaraðila sé því haldið fram að varnaraðili hafi ekki gert grein fyrir þeim greiðslum sem hafi borist inn á höfuðstól kröfunnar fyrir fyrsta gjalddaga hennar þann 1. janúar 2008, þ.e. áður en skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt úr íslenskum krónum í erlendar myntir. Sóknaraðili hafi,  áður en skuldabréfinu var skilmálabreytt úr íslenskum krónum í erlendar myntir þann 29. janúar 2008, innt af hendi til varnaraðila alls  105.853.094 krónur. Við skilmálabreytinguna hafi skuldabréfið staðið í 53.869.089 krónum. Við undirritun á skilmálabreytingunni hafi sóknaraðili staðfest þá fjárhæð,  53.869.089 krónur. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að krafan sé uppgreidd.

Sóknaraðili fari þess einnig á leit við varnaraðila í máli þessu að varnaraðili skýri mismun á fjárhæðum á greiðsluseðli vegna gjalddaga skuldabréfsins 1. janúar 2008  og þeirri fjárhæð sem fram komi í breytingu skuldabréfsins úr íslenskum krónum í erlendar myntir, dags. 29. janúar 2008. Um sé að ræða greiðsluseðil þar sem fram komi að skuld sóknaraðila hafi numið á gjalddaga, þann 1. janúar 2008, 52.805.018 krónum. Þar komi ekkert fram um að skuld­færsla eða greiðsla hafi átt sér stað umræddan dag, enda sé um greiðsluseðil að ræða en ekki greiðslukvittun. Þann 29. janúar 2008 hafi eftirstöðvum skuldar stefnda samkvæmt skuldabréfinu verið breytt í erlent myntkörfulán með breytilegum vöxtum með skilmálabreytingu. Komi fram á myntbreytingarskjalinu að þann dag hafi höfuðstóll lánsins verið að jafnvirði íslenskra króna 53.869.038 krónur. Það sé í samræmi við yfirlit sem varnaraðili hefur lagt fram.

Varnaraðili kveðst að auki vilja taka það fram til frekari skýringa að krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila sé samkvæmt skuldabréfi nr. 7015 (upphaflega nr. 6222), upphaflega að fjárhæð 147.000.000 króna. Þegar skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt þann 29. janúar 2008, úr íslenskum krónum í erlendar myntir, hafi skýrlega komið fram á skilmálabreytingunni, sem sóknaraðili hafi samþykkt með undirritun sinni, að höfuðstóll lánsins á myntbreytingardegi sé að jafnvirði 53.869.038 krónur. Sú fjárhæð sé lögð til grundvallar í endurútreikningi skuldabréfsins en yfirlit yfir endurútreikning hafi verið kynnt sóknaraðila og hafi einnig verið lagt fram í málinu. Á yfirliti yfir endurútreikning skuldabréfsins megi einnig sjá að greiðslur sóknaraðila inn á lánið, eftir skilmálabreytinguna, hafi samtals verið 7.293.521 króna. Þá hafi skuldabréfið verið í vanskilum frá 1. september 2009 og því reiknist dráttarvextir af skuldabréfinu frá þeim degi. Ef greiðslur sóknaraðila af skuldabréfinu frá þeim tíma sem því var skilmálabreytt (samtals 7.293.521 króna) séu dregnar frá höfuðstól skuldabréfsins þegar því var skilmála­breytt (53.869.038 krónur) komi í ljós að eftirstöðvar skuldabréfsins séu að lágmarki 46.575.517 krónur. Það ætti því að liggja ljóst fyrir, sama hvernig krafa skuldabréfsins sé reiknuð út, þ.e. með samningsvöxtum, óverðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands eða jafnvel engum vöxt­um, að varnaraðili eigi ávallt kröfu á hendur sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu. Almenn og óljós mótmæli sóknaraðila gegn endur­útreikningi varnaraðila breyti engu um þetta. Það, að krafa varnaraðila sé gengis­tryggð og hafi verið endur­útreiknuð, geri það ekki að verkum að hún sé sjálfkrafa óskýr.

Að lokum mótmælir varnaraðili öllum málatilbúnaði sóknaraðila að því leyti sem hann fer í bága við málatilbúnað varnaraðila.

Varðandi lagarök fyrir kröfu sinni vísar varnaraðili til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. reglna um viðskiptabréf. Einnig vísar varnar­aðili til laga nr. 90/1989 um aðför.

Varðandi kröfu stefnda um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129.-131. gr. þeirra, og um virðis­auka­skatt af málflutnings­þóknun er vísað til laga nr. 50/1988 um virðis­auka­skatt. Varnaraðili sé ekki virðis­aukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi sóknaraðila.

IV.

Í málinu krefst sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerð, sbr. 92. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, sem fram fór hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila í eignarstýringasafni sóknaraðila hjá varnaraðila þann 17. janúar 2012.

Í 1. mgr. 93. gr. aðfararlaga segir að í tilkynningu til héraðsdóms um að krafist sé úrlausnar um aðfarargerð skuli í fyrsta lagi koma fram um hverja aðfarargerð sé að ræða, í öðru lagi hvers krafist sé fyrir héraðsdómi og í þriðja lagi á hverjum málsástæðum og lagarökum kröfur séu reistar.

Í málinu gerir sóknaraðili þá dómkröfu „að ákvörðun sýslumanns verði hnekkt og lagt verði fyrir sýslumann að synja gerðarbeiðanda, þ.e. Arion banka hf., kt. 581008-0150, um fjárnám hjá gerðarþola, þ.e. Einari Þór Einarssyni, kt. 04.11.54-2419, á grundvelli fyrirliggjandi aðfararbeiðni.“

Í málinu er ekki krafist ógildingar á aðfarargerðinni, heldur er þess krafist að lagt verði fyrir sýslumann að synja um fjárnám hjá sóknaraðila. Aðfarargerðinni var hins vegar lokið með fjárnámi hjá sýslumanni 17. janúar 2012 og bar sóknaraðila því að krefjast ógildingar á aðfarargerðinni, sbr. 1. mgr. 95. gr. aðfararlaga þar sem segir að í úrskurði héraðsdómara skuli á grundvelli skýrslna og málflutnings aðila og framkominna skjala kveða á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar, samkvæmt því sem við á hverju sinni.

 Framangreind kröfugerð sóknaraðila fullnægir að þessu leyti ekki meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð og er þannig andstæð d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Verði því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður úrskurðast ekki.