Hæstiréttur íslands

Mál nr. 677/2017

Arnór Stefánsson (Jón Ögmundsson hrl.)
gegn
Ísfelli ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning
  • Gjaldþrotaskipti

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú A var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu Í ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns af kyrrsetningargerð þeirri sem um ræddi hefði A bent á eign sína R til tryggingar kröfu Í ehf. Talið var að sýslumanni hafi brostið heimild til að ljúka gerðinni án árangurs nema áður yrði staðreynt með virðingu hans eða tilkvaddra sérfræðinga að krafa Í ehf. væri hærri en sem næmi verðmæti eignarinnar, en þessu bæri dómstólum að gæta að sjálfsdáðum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 21/1991 um meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2017, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að hann verði felldur niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þar á meðal eru verðmat löggilts fasteignasala á jörðinni Runnum í Reykholtsdal, Borgarbyggð, 21. október 2017, þinglýstri eign sóknaraðila, þar sem áætlað markaðsvirði hennar var talið nema 190.000.000 krónum, og verðmat sama manns 22. sama mánaðar á hesthúsi við B-Tröð 10 í Víðidal,  Reykjavík, þinglýstri eign sóknaraðila, en áætlað markaðsvirði þeirrar eignar var þar talið vera 22.000.000 krónur.

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 63. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, verður kyrrsetningu ekki lokið án árangurs ef bent er á eign gerðarþola, sem að nokkru gæti nægt til tryggingar kröfunni, nema staðreynt sé með virðingu samkvæmt 2. eða 3. mgr. 38. gr. síðarnefndu laganna að eignin nægi ekki til fullrar tryggingar. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu af kyrrsetningargerð þeirri, sem um ræðir í málinu og fór fram 17. febrúar 2017, benti sóknaraðili á eign sína, jörðina Runna í Reykholtshreppi, til tryggingar kröfu varnaraðila. Eins og mál þetta lá fyrir sýslumanni brast af þeim sökum heimild til að ljúka gerðinni án árangurs nema áður yrði staðreynt með virðingu hans eða tilkvaddra sérfræðinga að krafa varnaraðila væri hærri en sem næmi verðmæti eignarinnar, en að þessu ber dómstólum að gæta af sjálfsdáðum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 21/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 317/2010. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Varnaraðili, Ísfell ehf., greiði sóknaraðila, Arnóri Stefánssyni, samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 18. október 2017

Krafa sóknaraðila, Ísfells ehf., um að bú varnaraðila, Arnórs Stefánssonar, kt. [...], Þverási 47, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta, barst dóminum 16. maí sl. Málið var tekið fyrir 14. júní sl. og mótmælti varnaraðili þá kröfunni. Var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Greinargerð var skilað af hálfu varnaraðila í þinghaldi 28. júní sl. Var málinu frestað í tvígang eftir það til framlagningar gagna af hálfu aðila.

Sóknaraðili krefst þess að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Í þinghaldi 13. september sl. var málinu frestað til aðalmeðferðar til 4. október sl. Málið var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess þann dag.

I

Málavextir

Sóknaraðili lagði fram kyrrsetningarbeiðni í eignum varnaraðila sem tekin var fyrir hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 17. febrúar 2017. Krafðist hann þess að kyrrsettar yrðu eignir gerðarþola til tryggingar kröfu að fjárhæð 67.180.443 krónur.

Forsaga beiðni þessarar kveður sóknaraðila vera þá að félag varnaraðila, sem þá hét Dímon lína, seldi sóknaraðila rekstur sinn, vörubirgðir og viðskiptavild með samningi 5. mars 2013. Eftir söluna hafi félagið Dímon lína fengið nafnið Dofri ehf. en það félagð sé nú undir gjaldþrotaskiptum.

Í kyrrsetningarbeiðni kemur fram að sóknaraðili hafi höfðað mál á hendur varnaraðila vegna ætlaðs brots á samkeppnisákvæði í áðurnefndum samningi aðila um kaup sóknaraðila á rekstri og vörubirgðum félagsins Dofra ehf. Í kaupunum hafi m.a. falist kaup á daglegum rekstri, nafni vörumerki, viðskiptavild og öllum viðskiptasamböndum félagsins hér á landi og erlendis, hvort sem um væri að ræða birgja eða viðskiptavini. Þá kemur fram í beiðninni að með kaupsamningnum hafi varnaraðili og Dofri ehf. tekist á hendur þá skuldbindingu að stunda ekki samkeppnisrekstur við sóknaraðila í þrjú ár frá afhendingardegi en í því hafi falist að gera ekki samninga við sömu viðskiptamenn og birgja og Dofri ehf. hafði gert samninga við. Þá kemur fram í beiðninni til stuðnings kröfu gerðarbeiðanda að hætta sé á að endurheimtur verði verulegra örðugri þar sem fjárhagsleg staða gerðarþola sé tvísýn, eignir séu verulega veðsettar og grunur sé um undanskot eigna með veðsetningum til handhafa.

Mætt var af hálfu varnaraðila við gerðina og henni mótmælt. Í endurriti úr gerðabók sýslumanns kemur fram að gerðarþoli mótmæli réttmæti kröfunnar og fjárhæð hennar, sem hann telji allt of háa. Nái krafa gerðarbeiðanda fram að ganga telji gerðarþoli hana í hæsta lagi geta numið 6.896.443 krónum. Við gerðina var skorað á gerðarþola að benda á eignir til tryggingar kröfu gerðarbeiðanda. Benti gerðarþoli á jörðina Runna í Reykholtsdalshreppi, landnr. 134456. Gerðarbeiðandi hafnaði þeirri ábendingu. Fasteignamat jarðarinnar sé mun lægra en áhvílandi veðskuldir að meðtöldum tryggingarbréfum. Óskaði þá gerðarbeiðandi eftir því að upplýst yrði um stöðu áhvílandi veðskulda. Bókað er í endurrit gerðabókar að gerðarþoli upplýsi ekki um núverandi stöðu veðskulda. Áfram er bókað að „gerðarbeiðandi innir eftir því hvort gerðarþoli eigi til verðmat eða búi yfir upplýsingum um markaðsverð eignarinnar. Gerðarþoli getur ekki framvísað neinum gögnum um verðmæti eignarinnar. Gerðarbeiðandi krefst þess að kyrrsetningu verðið lokið án árangurs og er svo gert með vísan til 8. kafla aðfararlaga nr. 90/1989, sbr. 15. gr. l. 31/1990.“

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. mars 2017 í máli nr. E-669/2015 var varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 40.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppkvaðningu dóms og 4.000.000 króna í málskostnað.

Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila barst dóminum 16. maí sl. eins og áður sagði.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili krefst gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að fara fram á gjaldþrotaskipti hafi verið gerð árangurslaus kyrrsetning hjá skuldara þremur mánuðum fyrir frestdag endi sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Sóknaraðili kveður árangurlausa kyrrsetningu hafa farið fram hjá varnaraðila 17. febrúar sl. vegna kröfu sóknaraðila. Kveðst sóknaraðili setja fram kröfu um gjaldþrotaskipti á grundvelli þeirrar gerðar einkum með riftunarreglur laga nr. 21/1991 í huga og þeirra tímafresta sem þar er kveðið á um. Með hinni árangurlausu gerð séu sönnur fyrir ógjaldfærni aðila. Varnaraðili eigi þess þó kost að hnekkja því með því að sýna fram á gjaldfærni sína.

Sóknaraðili kveðst eiga lögvarða kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. mars 2017 í máli nr. E-669/2017. Með dóminum hafi varnaraðili verið dæmdur til að greiða sóknaraðila 40.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppkvaðningu dóms og 4.000.000 króna í málskostnað. Sóknaraðili kveðst áskilja sér rétt til að lýsa hærri kröfu í bú varnaraðila komi til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar. Engu máli skipti fyrir skilyrði gjaldþrotaskipta þótt kyrrsetningargerðin að baki kröfu um gjaldþrotaskipti hafi verið gerð fyrir hærri fjárhæð en dæmd hafi verið í áðurnefndum dómi. Þá skipti engu máli um lögvernd kröfunnar þótt varnaraðili hafi áfrýjað ofangreindum dómi til Hæstaréttar.

Varnaraðili hafi í málinu haldið því fram að hann sé gjaldfær og geti staðið skil á skuldbindingum sínum. Hann hafi þó engin gögn lagt fram því til stuðnings. Ekki sé unnt að taka yfirlýsingar varnaraðila sjálfs um að hann sé borgunarmaður fyrir skuldum sínum til greina í þessu sambandi. Þá hafi varnaraðili haldið því fram að eignir hans standi undir kröfu sóknaraðila. Hafi varnaraðili þar vísað til jarðarinnar Runna og hesthúsa sem séu í hans eigu. Varnaraðili hafi þó engan reka gert að því að sýna fram á hvert verðmæti þessara eigna hans sé. Ekki komi honum að haldi að vísa til skoðunar fasteignasala á því hvert verðmætið sé enda liggi engin gögn fyrir því til staðfestingar heldur einungis frásögn varnaraðila sjálfs um samtal við fasteignasala um verðmæti jarðarinnar. Þá verði ekki byggt á verðmati varnaraðila sjálfs á hesthúsum í hans eigu. Ljóst sé að varnaraðili hafi engan reka gert að því að sýna með gögnum fram á gjaldfærni sína. Þá bendir sóknaraðili á að fasteignamat jarðarinnar sé mun lægra en áhvílandi veðskuldir. Umrædd jörð standi því engan veginn til tryggingar kröfu sóknaraðila. Jafnframt liggi ekkert fyrir um verðmæti félagsins Puffin ehf. en félagið hafi ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2016. Ekkert verði byggt á fullyrðingum varnaraðila sjálfs um góða stöðu félagins. Þá sé ekkert fjármagn fast í hendi vegna lánssamnings varnaraðila og félagsins Icepuffin Fishing Gear ehf. en gjalddagi lánsins sé 31. desember 2017. Auk þess liggi ekkert fyrir um fjárhagslega stöðu þess félags og hvort það geti endurgreitt umrætt lán enda hafi ársreikningi félagsins fyrir árið 2016 ekki verið skilað.

Þá komi gildi áðurnefndrar kyrrsetningargerðar ekki til álita í máli þessu þegar skilyrði til gjaldþrotaskipta séu metin sbr. ákvæði 65. gr. laga nr. 21/1991 eins og því var breytt með 17. gr. laga nr. 95/2010.

Hvernig sem á málið sé litið hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að hann sé gjaldfær. Sóknaraðili telur því ljóst að skilyrði til gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila sem áskilin séu í lögum nr. 21/1991 séu uppfyllt, bæði hvað það varðar að hann eigi lögvarða kröfu á hendur varnaraðila og sönnun um ógjaldfærni varnaraðila. Varnaraðili hafi í málinu enga gangskör gert að því að sýna með óyggjandi hætti fram á gjaldfærni sína og hafi engin gögn lagt fram þar að lútandi þrátt fyrir að það séu þær varnir sem honum séu tækar samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Þá ítrekar varnaraðili að ekki sé unnt að styðjast við mat varnaraðila sjálfs á virði eigna sinna og fjárhagslegri stöðu sinni eða munnleg samskipti hans við fasteignasala um verðmæti jarðarinnar Runna. Óhjákvæmilegt sé því að fallist verði á kröfu sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

 

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta þar sem lagaskilyrði séu ekki fyrir hendi til þess að á kröfuna verði fallist.

Varnaraðili kveðst áður hafa rekið verslun með línu og fylgihluti undir merkinu Dímon lína. Hafi varnaraðili selt sóknaraðila reksturinn á árinu 2013 með kaupsamningi sem undirritaður hafi verið 5. mars 2013. Í samningnum hafi verið svokallað samkeppnisákvæði en samkvæmt því hafi varnaraðila verið óheimilt að stunda sambærilega starfsemi sem hann hafði áður rekið undir merkjum Dímonar línu. Félagið Puffin ehf. sem sé í eigu varnaraðila hafi flutt inn tvo gáma af línum sem þar til nýlega hafi verið á lager félagsins.

Samkeppnisákvæðið sé nú runnið út og sé varnaraðila því heimilt að hefja sams konar starfsemi og hann rak áður. Gildi því ekki sömu hömlur á atvinnufrelsi hans.

Varnaraðili kveður kröfu sóknaraðila eiga rætur sínar að rekja til dómsmáls sem sóknaraðili hafi höfðað á hendur honum vegna meintra brota á samkeppnisákvæði framangreinds samnings. Dómur hafi fallið í málinu 30. mars 2017 og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 40.000.000 króna auk dráttavaxta og málskostnaðar. Varnaraðili hafi frá upphafi hafnað kröfum sóknaraðila og hafi nú áfrýjað málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu sem gefin hafi verið út 23. maí 2017. Varnaraðili kveður því sóknaraðila enga gjaldkræfa kröfu eiga á hendur sér sem geti orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta að svo stöddu. Sé enn deilt um gildi kröfunnar og í ljósi eðlis hennar hljóti verulegur vafi að leika á gildi hennar.

Varnaraðili kveður allar líkur vera á því að niðurstaða Hæstaréttar verði honum hagfelld þannig að hann verði fær um að standa skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga. En á meðan krafan sé ódæmd í Hæstarétti eigi sóknaraðili enga skýra kröfu á hendur honum sem geti orðið grundvöllur gjaldþrotaskipta á búi hans. Hafi sóknaraðli því enga lögvarða hagsmuni sem geti leitt til þess að hann geti farið fram á gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.

Varnaraðili hafi ávallt staðið skil á öllum slíkum skuldbindingum og krafa sóknaraðila sé sú eina sem hafi farið í sérstaka innheimtumeðferð. Þá hafi varnaraðili nú meira aflahæfi í kjölfar þess að samkeppnisákvæði samningsins sé ekki lengur í gildi og hann eigi því auðveldara með að standa undir greiðslum skuldbindinga sinna.

Loks eigi varnaraðila fasteignina Runna sem sé landkostajörð í stuttri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Séu allar líkur á því að jörðin muni seljast fyrir töluvert hærra verð en sem nemi fasteignamati hennar. Verður því að ætla að varnaraðili eigi nægar eignir til þess að standa undir kröfum sóknaraðila þegar og ef þær verða gjaldkræfar. Þá mótmæli hann því að jörðin sé yfirveðsett.

Til viðbótar eigi varnaraðili alla hluti í félaginu Puffin ehf. Í kjölfar þess að samkeppnisákvæði áðurnefnds kaupsamnings hafi runnið út hafi varnaraðili getað selt króka og línur á Íslandi. Skapi félagið nú töluverðar tekjur og velta þess sé töluverð. Þá eigi varnaraðili rúmlega 19.000.000 króna kröfu á hendur félaginu Icepuffin Fishing Gear ehf. Til viðbótar sé varnaraðili handhafi skuldabréfs að fjárhæð 18.500.000 krónur sem hvíli á hesthúsi í hans eigu á B-tröð 10. Loks eigi varnaraðili hlutabréf í indverskri krókaverksmiðju. Hafi verðmæti þeirra vaxið töluvert og megi ætla að það nemi eigi lægri fjárhæð en 200.000 dollurum. Framangreindar eignir ættu að duga til þess að greiða kröfu sóknaraðila eins og hún hafi verið ákveðin með dómi héraðsdóms í máli nr. E-699/2015. Skilyrði 65. gr. laga nr. 21/1991 sé því ekki fullnægt enda sé varnaraðili fær um að standa við skuldbindingar sínar þegar og ef þær koma í gjalddaga.

Samkvæmt orðalagi áðurnefnds ákvæðis sé það einungis lánardrottinn sem geti haft uppi kröfu um gjaldþrotaskipti á grundvelli ákvæðisins. Eins og sakir standa sé sóknaraðili ekki lánardrottinn varnaraðila enda eigi hann enga lögvarða kröfu á hendur varnaraðila fyrr en í fyrsta lagi þegar dómur hefur gengið í Hæstarétti um niðurstöðu héraðsdóms í áðurnefndu dómsmáli. Ágreiningur sé um kröfuna, hún sé ekki gjaldfallin og tilvist hennar umdeild.

Þá beri héraðsdómi sérstaklega að meta, samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, hvort hin árangurslausa kyrrsetning gefi rétta mynd af fjárhag aðila. Þá beri einnig að meta hvort varnaraðili eigi nægilegar eignir til kyrrsetningar samkvæmt kröfu sóknaraðila. Upphaflega krafa hans hafi verið 67.180.443 krónur en krafa um gjaldþrotaskipti hljóði upp á mun lægri fjárhæð. Mun líklegra sé að varnaraðili eigi eignir til að standa undir þeirri kröfu og raunar sé vafi á því að kyrrsetningargerðinni hefði lokið án árangurs ef núverandi krafa hefði verið lögð fram í upphafi. Þá hafi sýslumanni borið að verðmeta eignir varnaraðila við kyrrsetningargerðina á grundvelli 38. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 15. gr. laga nr. 31/1990.

Þegar á allt framangreint sé litið telur varnaraðili ljóst að hann hafi sýnt fram á að skilyrði til gjaldþrotaskipta á búi hans séu ekki fyrir hendi.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila á grundvelli árangurslausrar kyrrsetningargerðar, sbr. 1. tölulið 2. mgr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæðinu getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta, hafi kyrrsetning, löggeymsla eða fjárnám verið gert hjá skuldaranum án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag, enda sýni skuldarinn ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Sóknaraðili hefur krafist gjaldþrotaskipta innan þess tíma sem lög nr. 21/1991 áskilja. Í máli þessu lýtur ágreiningur aðila að því hvort skilyrði gjaldþrotaskipta séu fyrir hendi.

Í málinu vísar sóknaraðili til þess að hann eigi kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-665/2017. Sóknaraðili kveður hina árangurslausu kyrrsetningargerð fela í sér sönnur um ógjaldfærni varnaraðila sem ekki hafi verið hnekkt. Óhjákvæmilegt sé að fallist verði á kröfu hans og bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili telur skilyrðum laga nr. 21/1991, um töku bús hans til gjaldþrotaskipta, ekki vera fullnægt. Byggir varnaraðili á því að hin árangurslausa kyrrsetningargerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans auk þess sem vafi sé um tilvist kröfu sóknaraðila sem ekki hafi verið leiddur til lykta fyrir Hæstarétti. Þá byggir varnaraðili á því að hann sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum þegar og ef þær falla í gjalddaga enda eigi hann eignir sem standi undir kröfu sóknaraðila.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess eins og áður sagði að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að tilteknum skilyrðum uppfylltum sem nánar er kveðið á um í 1.–5. tölulið málsgreinarinnar. Frumskilyrði þess er þó að sá sem krefst gjaldþrotaskipta eigi lögvarða kröfu á hendur skuldara.

Í máli þessu háttar svo til að fyrir liggur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. mars 2017 þar sem varnaraðila var gert að greiða sóknaraðila tildæmda fjárhæð auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Sóknaraðili á því lögvarða kröfu á hendur varnaraðila. Breytir engu um þessa niðurstöðu þótt varnaraðili hafi nú áfrýjað dóminum og telji allar líkur á að honum verði hnekkt. Vísar dómurinn þar um til dóms Hæstaréttar í máli nr. 132/2017, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins í máli nr. 313/2006 og 45/1926. Þá bendir dómurinn á að það komi ekki í veg fyrir gjaldþrotaskipti á búi skuldara þótt ágreiningur kunni að einhverju leyti að vera um endanlega fjárhæð kröfu svo fremi sem leitt hafi verið nægilega í ljós að krafa sé fyrir hendi sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 313/2006. Er sjónarmiðum varnaraðila hvað ofangreint varðar því hafnað.

Líta verður svo á að hin árangurslausa kyrrsetningargerð veiti sönnur um ógjaldfærni varnaraðila og er gildi þess sem slíks ekki til umfjöllunar eða úrlausnar í máli þessu. Þá er rétt að árétta í þessu samhengi að með 17. gr. laga nr. 95/2010 um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, voru orðin „og ekki er ástæða til að ætla að gerðin gefi ranga mynd af fjárhag hans“ í niðurlagi 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laganna felld brott og kemur þessi fyrirvari því ekki til skoðunar í máli þessu. Þá bendir dómurinn í þessu sambandi á skyldu varnaraðila samkvæmt 11. gr. laga nr. 31/1990 hvað varðar upplýsingagjöf við framkvæmd kyrrsetningargerðar. Þá verður ekki séð að varnaraðili hafi farið fram á endurupptöku gerðarinnar hjá sýslumanni samkvæmt ákvæðum fyrrnefndra laga.

Að þessu sögðu tekur dómurinn fram að þrátt fyrir að leiddar hafi verið líkur að ógjaldfærni skuldara á hann, samkvæmt upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laganna, þess kost að verjast kröfu um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann geti, þrátt fyrir röksemdir lánardrottins, staðið í fullum skilum með skuldbindingar sínar þegar þær falla í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Sönnunarbyrði um þetta hvílir því á skuldara.

Fram kom í skýrslu varnaraðila fyrir dóminum að hann ætti nægar eignir til að standa undir kröfu sóknaraðila og gæti staðið í skilum við lánardrottna. Hann ætti jörðina Runna í Borgarfirði. Fasteignamat hennar sé 32.000.000 króna og brunabótamat 88.000.000. Áhvílandi væru skuldir sem nemi um 150.000.000 króna. Þó telji hann ekkert vera á bak við tvö tryggingarbréf sem hvíli á eigninni en þeim hafi einfaldlega ekki verið aflétt. Jörðin hafi verið metin árið 2007 upp á 120.000.000 króna en gæti numið 160.000.000 til 190.000.000 króna samkvæmt munnlegum upplýsingum frá fasteignasala. Þá eigi hann hesthús en áætlað söluverð þess sé 19.000.000 til 20.000.000 króna. Á þeim sé áhvílandi handhafaskuldabréf sem hann haldi á sjálfur upp á 18.500.000 krónur. Þá hafi hann lánað félaginu Icepuffin Fishing Gear ehf. rúmlega 19.000.000 króna sem félaginu beri að endurgreiða 31. desember 2017. Auk þess eigi hann félagið Puffin ehf. Velta félagsins árið 2016 hafi numið 246.000.000 króna og einhver hagnaður sé af rekstrinum. Verðmæti séu inni í félaginu og virði þess sé ekki undir 30.000.000 króna. Með vísan til þessa alls telur hann sig vera borgunarmann fyrir kröfu sóknaraðila.

Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi leitt að því nægilegar líkur að hann eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila. Þrátt fyrir framangreindar yfirlýsingar um fjárhagslega stöðu sína hefur varnaraðili þó ekki gert reka að því að leggja fram skýr gögn um eignir sínar eða skuldir. Þannig liggja engin gögn fyrir um verðmæti jarðarinnar Runna eða hesthúsa í eigu varnaraðila eða annarra eigna sem hann kveðst eiga. Verður ekki í málinu byggt á mati varnaraðila sjálfs á verðmæti eigna sinna eða yfirlýsingum hans um gjaldfærni sína, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 469/2010, enda nýtur ekki við neinna gagna í málinu því til stuðnings. Þá verður ekki fram hjá því litið að gögn málsins benda raunar til þess að jörðin Runni sé veðsett umfram fasteignamat hennar og hefur varnaraðili ekki sýnt fram á annað. Þegar á allt framangreint er litið verður varnaraðili því ekki talinn hafa fært sönnur á að hann sé gjaldfær eða verði það innan skamms tíma í skilningi 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Hugsanlega hagfelld niðurstaða í dómsmáli því er áður er getið breytir þessu ekki. Verður krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila því tekin til greina.

Með vísan til þessa og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, er sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðin 350.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Bú varnaraðila, Arnórs Stefánssonar, kt. [...], Þverási 47, Reykjavík, er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, Ísfelli ehf., 350.000 krónur í málskostnað.