Hæstiréttur íslands

Mál nr. 493/2010


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Sönnunargögn
  • Bókun
  • Dráttur á máli


Fimmtudaginn 24. mars 2011.

Nr. 493/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Líkamsárás. Sönnunargögn. Bókanir. Dráttur á máli.

X var sakfelldur fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa slegið A margsinnis með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut opið beinbrot á nefi, bólgu og mar umhverfis hægra auga og mar við vinstra auga. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ákærði hefði haft samband við A, sem staddur var á heimili sínu, og fengið hann til að koma þaðan og upp í bifreið, sem ákærði hefði haft til umráða, í því skyni að beita hann ofbeldi. Árásin hefði verið langdregin og harkaleg og brotavilji ákærða einbeittur. Auk þess hefði ákærði hagað aðstæðum þannig að A hefði ekki átt þess kost að komast undan atlögum hans. Var héraðsdómur því staðfestur með vísan til forsendna og refsing X ákveðin óskilorðbundið fangelsi í sex mánuði. Þá var hann dæmdur til að greiða A nánar tilgreindar skaðabætur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd. 

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara mildunar á refsingu. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu brotaþola, A, verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli krafðist þess í greinargerð til Hæstaréttar, aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 596.482 krónur „með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. febrúar 2009, en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., vaxtalaga“, en til vara staðfestingar héraðsdóms um skaðabætur.

Sakaferli ákærða er nægilega lýst í héraðsdómi. Eftir uppsögu hans hefur ákærða verið gert að greiða sekt með viðurlagaákvörðun 24. september 2010 vegna brota á lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Af hálfu ákærða er sýknukrafa reist á því að ósannað sé að hann hafi framið brot það sem ákært er fyrir. Því til stuðnings hefur hann fyrir Hæstarétti meðal annars haldið því fram að ekki sé unnt að leggja til grundvallar sakfellingu skýrslu Rettsmedisinsk Institutt við Háskólann í Ósló um rannsókn á blóðsýnum sem fundust í bifreiðinni FX-B16, svo sem gert var í héraðsdómi. Styður ákærði þetta við þau rök að skýrslan hafi verið á norsku, án þess að þýðing hennar á íslensku hafi verið lögð fram, og að höfundar skýrslunnar hafi ekki komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Telur ákærði þetta í andstöðu við ,,grunnreglur í íslensku sakamálaréttarfari.“

Framangreind skýrsla var lögð fram við þingfestingu málsins í héraði. Ekki var bókuð í þingbók athugasemd af hálfu ákærða, hvorki þá né síðari að nauðsynlegt væri að þýða skýrsluna, en lögreglan hafði tekið saman greinargerð um aðalatriði skýrslunnar sem einnig var lögð fram. Í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að skjali á erlendu tungumáli skuli að jafnaði fylgja þýðing á íslensku, að því leyti sem byggt er á efni þess í máli, nema dómari telji sér fært að þýða það. Nauðsynlegt var að athugasemdir sem þessar kæmu fram sem fyrst af hálfu ákærða, ef hann taldi nauðsynlegt að þýða skýrsluna, þótt ljóst mætti vera að dómari teldi svo ekki vera. Verður að hafna síðbúnum athugasemdum um þetta efni, enda er því ekki haldið fram að samantekt lögreglu um efni skýrslunnar sé að einhverju leyti röng. Af hálfu ákærða var heldur ekki óskað bókað við meðferð málsins fyrir héraðsdómi að nauðsynlegt væri að leiða höfunda framangreindrar rannsóknarskýrslu fyrir dóm sem vitni. Ákæruvaldið andmælir því að slíkar athugasemdir hafi komið fram við meðferð málsins í héraði. Ákærði átti þess kost að fá bókaða athugasemd um að nauðsynlegt væri að leiða skýrsluhöfunda sem vitni, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 88/2008, eða boða þá sjálfur sem vitni, ef ákæruvaldið fór ekki að óskum hans í því efni, sbr. 1. mgr. 120. gr. laganna. Þessara úrræða neytti hann ekki. Verður ekki fallist á með ákærða að það dragi úr þýðingu skýrslunnar, að höfundar hennar hafi ekki komið fyrir dóm.

Fallist er á forsendur og niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða. Ákærði hafði samband við A, sem staddur var á heimili sínu, og fékk hann til að koma þaðan og upp í bifreið, sem ákærði hafði til umráða, í því skyni að beita hann ofbeldi. Eins og fram kemur í héraðsdómi var árásin langdregin og harkaleg og brotavilji ákærða einbeittur. Auk þess hagaði ákærði aðstæðum þannig að A átti þess ekki kost að komast undan atlögum hans. Með hliðsjón af þessu verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um ákvörðun refsingar og að hún verði ekki bundin skilorði. Í ljósi atvika breytir það ekki þessari niðurstöðu að 15 mánuðir liðu frá því að brotið var framið og þar til ákæra var gefin út, en ekki verður séð hvers vegna dráttur varð á því að rannsókn lögreglu lyki.

Niðurstaða héraðsdóms um miskabætur og vexti verður staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 340.979 krónur, þar með talda málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 28. júní sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 4. maí 2010 á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir líkamsárás með því að hafa, sunnudaginn 8. febrúar 2009, í bifreiðinni [...] sem var kyrrstæð við Hólagarða í Reykjavík, slegið A margsinnis með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut opið beinbrot á nefi, bólgu og mar umhverfis hægra auga og mar við vinstra auga.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur samtals að fjárhæð 596.482 krónur með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. febrúar 2009, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga.

Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Aðallega er krafist frávísunar bótakröfu, en til vara að hún sæti verulegri lækkun. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.

Málsatvik

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá sunnudeginum 8. febrúar 2009, klukkan 19:08, var óskað aðstoðar að [...] í Reykjavík vegna líkamsárásar sem hefði átt sér stað. Þar hittu lögreglumenn fyrir húsráðanda, A, sem var með umtalsverða áverka, blóðugur í framan, bólginn á báðum kinnbeinum og virtist nef vera aflagað. A sagði áverkana vera af völdum ákærða í máli þessu, X. Sagði hann ákærða hafa hringt heim til sín og beðið sig um að koma út í bifreið til sín. Hann hefði gert það og sest í farþegasæti bifreiðarinnar sem ákærði ók, sem hefði verið silfurgrá af Audi Sedan gerð. Í aftursæti bifreiðarinnar hefði setið maður, sem hann vissi ekki deili á. Ákærði hefði sagt honum að slökkva á farsíma sínum. Síðan hefði ákærði ekið bifreiðinni að Hólagörðum og lagt upp við grindverk svo að A komst ekki út úr henni. Hefði ákærði síðan borið það á A að hann hefði verið með kærustu ákærða og slegið hann um 10 hnefahögg í andlit. Ákærði hefði jafnframt hótað honum lífláti ef hann gerði lögreglu viðvart. A sagði ekkert hæft í því sem ákærði hefði borið á hann um meint samband hans við konuna. 

A mætti hjá lögreglu mánudaginn 9. febrúar 2009 og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar og hótana. Sagði A að um klukkan 18:15 deginum áður hefði ákærði hringt til sín og viljað fá að tala við sig. Um 20 mínútum síðar hefði ákærði komið að heimili hans akandi á silfurgrárri Audi bifreið. A sagðist hafa sest í framsæti bifreiðarinnar, en annar maður hefði setið í aftursætinu. Ákærði hefði sagt að hann grunaði A um að eiga í einhverju sambandi við konu sína, B, en þau A væru vinnufélagar. Hefði ákærði ekið bifreiðinni af stað og sagt við A að hann vildi gefa honum færi á að segja rétt frá, en ef hann segði ósatt myndi hann berja hann með ógurlegum hnefahöggum. Hefði ákærði sagt að faðir sinn væri hátt settur í „stærstu glæpasamtökum heims“ og að lítið mál væri að láta menn á hans vegum vinna barnshafandi konu A mein. Þá hefði ákærði hótað að ræna heimili hans og „rústa“ sumarbústaðnum. Ákærði hefði slegið hann einu hnefahöggi á meðan á akstrinum stóð. Hann hefði síðan ekið inn á bifreiðastæði við Hólagarð, stöðvað bifreiðina þar, og slegið hann nokkrum höggum í andlitið. Því næst hefði ákærði ekið bifreiðinni upp að vegg, svo að ekki var hægt að opna hurðina farþegamegin. Þá hefði hann læst hurðum og haft áfram í hótunum við A. Hefði A sagt að hann ætti ekki í neinum tengslum við B nema vegna vinnunnar. Ákærði hefði slegið hann mörgum höggum til viðbótar og hefði honum blætt talsvert og blóð komið á föt hans og í bifreiðina, sérstaklega á hurðina. Sagðist A hafa sagt við ákærða að hann myndi hringja til lögreglu strax og hann losnaði, en ákærði hótað honum lífláti ef hann gerði það. Þá hefði ákærði fyrirskipað honum að slá röng lykilnúmer inn í farsíma hans, með þeim afleiðingum að síminn varð óvirkur. Sagðist A hafa yfirgefið bifreiðina eftir þetta og farið heim til sín. Hann sagðist hafa fengið upplýsingar um að maðurinn sem sat í aftursæti bifreiðarinnar héti C. A sagðist rekja tildrög þessa atburðar til þess að hann hefði sent B og öðrum vinnufélögum sínum tölvupósta með ýmsu gríni. Teldi hann að ákærði hefði séð einhvern þessara pósta og dregið þá ályktun að hann ætti í einhverju sambandi við B.

Samkvæmt vottorði Jóns Hai Hwa Sen, sérfræðings í skurðlækningum, dagsettu 25. febrúar 2009, leitaði A á slysa- og bráðamóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss um klukkan 19:00 8. febrúar 2009. Sagðist hann hafa orðið fyrir líkamsárás af völdum eiginmanns konu sem hann ynni með. Eiginmaðurinn hefði grunað hann um framhjáhald, ráðist á hann og slegið u.þ.b. 10 sinnum í andlitið. Hann hefði verið blóðugur í andliti, með mikla bólgu og mar umhverfis hægra auga og mar vinstra megin. Nef hefði verið bólgið, skurður yfir nefbeini hægra megin og annar rétt miðlægt við nefið, einnig hægra megin. Við skoðun hefði fundist sprunga í nefbeini, án tilfærslu í brotinu. Hann hefði því verið með opið beinbrot á nefi. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að áverkar komi heim og saman við lýsingu sjúklings á líkamsárás sem hann hefði orðið fyrir.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 10. mars 2009. Sagðist hann ekki kannast við það sem honum væri gefið að sök og að þetta hlyti að vera tómur misskilningur. Sagðist ákærði vita til þess að A hefði unnið með fyrrverandi konu sinni, B, en sambúð þeirra hefði lokið fyrir um tveimur mánuðum. Hann kannaðist við að hafa haft afnot bifreiðar B þegar þau bjuggu saman. Hann vísaði hins vegar framburði A á bug sem röngum og sagði ekkert slíkt hafa átt sér stað.

Í málinu er skýrsla tæknideildar lögreglu um rannsókn á bifreið B, [...], sem fór fram 27. febrúar 2009. Ljósmyndir fylgja af bifreiðinni, sem er fjögurra dyra fólksbifreið af tegundinni Audi A4 Quattro, grá að lit. Í bifreiðinni fundust blettir sem gáfu jákvæða svörun við blóðprófun. Blóðblettir voru aftarlega á innanverðri rúðu í hægri framhurð. Neðarlega á hurðarspjaldi var blóðkám og blóðblettur. Ofarlega á dyrastaf aftan við hurðina voru nokkrir litlir blóðblettir. Þá var blóðkám á framanverðum höfuðpúða framfarþegasætis og stór blóðdropi á sleðabraut við gólf bifreiðarinnar á milli sætisins og hurðar. Tekin voru sýni af blettunum.

Samkvæmt greinargerð tæknideildar voru þrjú sýni úr blóðblettum, sem tekin höfðu verið við rannsókn bifreiðarinnar, send 18. mars 2009 til DNA greiningar hjá Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló. Leiddi greining í ljós að DNA snið allra sýnanna var hið sama. Var það snið eins og DNA snið A og yrðu því öll rakin til hans. Í svari Rettsmedisinsk Institutt kemur fram að líkur á því að finna samskonar snið frá óskyldum einstaklingi séu ávallt minni en 1:1.000.000.000.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2009, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar Íslands 20. mars 2009, var lögreglu heimilað að leita upplýsinga frá síma- og fjarskiptafyrirtækjum um notkun símanúmersins [...], sem ákærði hafði til umráða. Samkvæmt greinargerð upplýsinga- og áætlanadeildar lögreglu, dagsettri 5. ágúst 2009, kom í ljós að 8. febrúar 2009 var í tvígang hringt úr símanúmeri ákærða í símanúmerið [...], sem A var skráður fyrir. Fundin voru GPS staðsetningarhnit fyrir númer senda sem símtölin fóru í gegnum. Athugun lögreglu leiddi í ljós að hringt hafði verið úr síma með númerinu [...] í númerið [...] klukkan 18:13. Fór símtalið um sendi í [...] í Grafarvogi og hafi símtækið sem hringt var úr þá verið staðsett í [...] í Grafarvogi. Aftur var hringt klukkan 18:33. Fór símtalið um sendi í [...] og hafi símtækið þá verið staðsett í [...] í Breiðholti. Gögn frá símafyrirtækjunum fylgja greinargerðinni.

Í skýrslu lögreglu, dagsettri 21. júní 2010, er að finna samantekt á gögnum um símanotkun síðdegis þennan dag. Auk samskipta við símanúmer A, sem rakin hafa verið, var tvívegis, klukkan 17:21 og 17:34 hringt úr símanúmeri ákærða í símanúmerið [...], sem C er skráður fyrir. Þá var klukkan 17:36 og 18:24 hringt í símanúmerið [...], sem B var skráð fyrir.

Við skýrslutöku hjá lögreglu 3. desember 2009 voru bornar undir ákærða niðurstöður rannsóknar lögreglu á símanotkun og DNA rannsóknar. Ákærði vísaði því á bug að hann hefði hringt til A í umrætt sinn. Þá sagðist hann ekki geta útskýrt hvernig blóðslettur í bifreið fyrrum sambýliskonu sinnar væru til komnar.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði neitaði alfarið sök. Sagðist hann hvorki hafa hringt til A daginn sem um ræðir, né komið að heimili hans. Hann sagðist ekki muna hvar hann hefði verið þennan dag á milli klukkan 18 og 19. Ákærði kannaðist við að vera notandi símanúmersins [...], en sagðist hafa notað nokkra síma á þessum tíma. Þá kannaðist hann við að hafa haft aðgang að bifreið fyrrverandi sambýliskonu sinnar og að hafa stundum fengið hann lánaðan um helgar. Er símagögn voru borin undir ákærða sagðist hann ekki kannast við að hafa verið staddur nálægt [...] og síðar nálægt [...] á þeim tíma sem um ræðir. Hann sagðist hvorki vita hver hefði verið á bifreið sambýliskonu sinnar, né hver hefði hringt þessi símtöl. Hann kynni ekki skýringar á símasamskiptum við símanúmer sambýliskonu sinnar og C, kunningja síns, um sama leyti. Þá kynni hann ekki skýringar á því að blóð fannst í bifreiðinni.

Vitnið A sagðist hafa verið heima með fjölskyldunni og verið að undirbúa kvöldverð þegar ákærði hefði hringt til hans og sagst þurfa að tala við hann. A sagðist hafa sagt ákærða hvar hann ætti heima og hefði hann hringt aftur skömmu síðar og sagst vera kominn. Hefði ákærði beðið hann að koma út, sem hann hefði gert. Hann hefði séð að maður sat í aftursæti bifreiðarinnar. Hann hefði sest í farþegasætið frammi í og ákærði ekið af stað. Þegar þeir óku út af bifreiðaplaninu hefði ákærði sagt: „Nú veit ég allt“. Hefði ákærði haft í hótunum við hann um að meiða fjölskyldu hans og eyðileggja eigur þeirra. Þegar þeir óku fram hjá Vesturbergi hefði ákærði slegið hann hnefahögg í andlitið. Hann hefði ekið bifreiðinni inn á bifreiðaplan við Hólagarð og stöðvað þar. Ákærði hefði farið að tala um tölvupóst sem A hefði sent konu hans, en um hefði verið að ræða saklaust „you tupe“ myndband, sem hann hefði sent henni ásamt fleiri vinnufélögum sínum. Hefði ákærði látið að því liggja að eitthvað hefði gerst á milli A og konunnar, en hann hefði svarað því til að ekkert væri til í því. Ákærði hefði fært bifreiðina upp að grindverki við leikskóla sem þarna er, svo að A komst ekki út úr henni. Hefði ákærði slegið hann þarna um 10 til 20 hnefahögg í andlitið og hefði honum blætt töluvert við þetta. A sagðist hafa reynt að tala til ákærða, en hann hefði einnig sagt að hann myndi kæra hann fyrir þetta. Hefði ákærði látið hann slá nokkrum sinnum rangt „pin-númer“ inn í síma sinn með þeim afleiðingum að hann varð óvirkur. Ákærði hefði síðan ekið bifreiðinni út af bifreiðaplaninu og hefði A stigið út úr bifreiðinni þegar komið var út á götu. A sagðist kannast við manninn sem sat í aftursætinu, sem héti C. Hann hefði ekki komið að þessari atburðarás.

Vitnið D, eiginkona A, sagði þau hafa verið að undirbúa kvöldverð þegar síminn hringdi og hefði A sagt að ákærði vildi fá að hitta hann og myndi hann koma að sækja hann. Hún hefði séð á eftir A þegar hann fór út skömmu síðar og hefði hann sest inn í ljósgráa bifreið. Hún hefði séð ákærða undir stýri bifreiðarinnar og hefði einhver maður setið í aftursætinu. A hefði sest í framsætið. Um 15 mínútum síðar hefði hún reynt að hringja í A, en slökkt hefði verið á símanum hans. Skömmu síðar hefði hún séð hvar A kom hlaupandi að húsinu og var hann alblóðugur og illa útlítandi. Hann hefði lýst fyrir henni því sem hefði gerst. Síðar um kvöldið eða morguninn eftir hefðu þau farið að grindverkinu þar sem A sagði atlöguna hafa átt sér stað og hefði hún séð blóðslettur þar.

B, barnsmóðir ákærða og fyrrverandi sambýliskona, kom fyrir dóminn sem vitni. Hún skoraðist undan því að gefa vitnaskýrslu vegna náinna tengsla við ákærða.

Vitnið C sagði þá ákærða vera kunningja. Hann sagðist ekki þekkja A og ekkert vita um málið. Þá myndi hann ekki eftir því að hafa verið með ákærða umræddan dag. Vitnið játaði því að nota símanúmerið [...] og kannaðist við að hafa oft verið í símasambandi við ákærða, en tók fram að ákærði notaði fjölda símanúmera.

Vitnin Kristján Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður og Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, staðfestu skýrslur sínar um rannsókn bifreiðarinnar [...], sýnatöku og greinargerð vegna DNA rannsóknar. Kristján sagði það hafa verið niðurstöðu skoðunar á bifreiðinni að aðili í framfarþegasæti hefði fengið fleiri en eitt högg í andlit frá aðila í ökumannssæti. Staðsetning blóðbletta í bifreiðinni væri til marks um að höggin hefðu komið frá manni sem sat við hlið brotaþola. Það væri þekkt staðreynd að ekki komi blóð frá fyrsta höggi sem veitt er, en við það myndist sárið. Því hljóti höggin að hafa verið fleiri en eitt.

Vitnið Jón Hai Hwa Sen staðfesti læknisvottorð sitt fyrir dóminum og áréttaði að áverkar A samrýmdust því að hann hefði verið sleginn endurtekið í höfuðið. Þá komu fyrir dóminn Ágústa Ringsted lögreglumaður, sem ritaði frumskýrslu í málinu, og Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi lögreglufulltrúi, sem vann greinargerð um símagögn. Vitnin staðfestu skýrslur sínar og eru ekki efni til að reifa framburð þeirra frekar.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Hann kveðst hvorki hafa hringt til A, né hitt hann daginn sem um ræðir.

A hefur borið að ákærði hafi hringt til hans tvívegis síðdegis þennan dag og sagst vilja ræða við hann. Hefði ákærði í síðara skiptið verið staddur utan við heimili hans í [...]. Lýsingar A á bifreiðinni sem ákærði ók í umrætt sinn koma heim og saman við bifreið fyrrum sambýliskonu ákærða, sem hann hafði afnot af. Þá fær framburður A stuðning í frásögn D, eiginkonu hans, af atvikum sem að framan er rakið. Samkvæmt vottorði og framburði Jóns Hai Hwa Sen skurðlæknis samrýmdust áverkar A lýsingum hans á líkamsárás sem hann hefði orðið fyrir. Sú lýsing fær frekari stoð í niðurstöðum rannsóknar lögreglu á blóðblettum, sem fundust í umræddri bifreið. Rannsókn Rettsmedisinsk Institutt á sýnum sem tekin voru af blóðinu leiddi í ljós að DNA snið allra sýnanna var eins og DNA snið A. Loks liggja fyrir upplýsingar frá símafyrirtæki um að hringt hafi verið úr síma með númerinu [...], sem ákærði var skráður fyrir, í númerið [...], sem A var skráður fyrir, umræddan dag klukkan 18:13 og 18:33, og fór síðara símtalið um sendi í [...], skammt frá heimili A. Skömmu fyrir og skömmu eftir fyrra símtalið var hringt úr símanúmeri ákærða í númer sem kunningi hans, C, var skráður fyrir og í símanúmer sem tilheyrði þáverandi sambýliskonu hans, B. Hefur ákærði hvorki getað gefið skýringu á þessum símtölum, né á niðurstöðu rannsóknar á blóðblettum. Framburður hans um að hann hafi hvorki haft símasamband við A, né komið að heimili hans í umrætt sinn, er í andstöðu við gögn málsins að öðru leyti. Á hinn bóginn hefur A verið stöðugur í frásögn sinni og fá lýsingar hans á atvikum jafnframt stuðning í framburði vitna og gögnum málsins, svo sem rakið hefur verið. Verður framburður hans lagður til grundvallar í málinu. Samkvæmt framansögðu þykir, gegn neitun ákærða, lögfull sönnun komin fram fyrir því að ákærði hafi veist að A í bifreiðinni, eins og lýst er í ákæru, og slegið hann margsinnis með krepptum hnefa í andlitið, með þeim afleiðingum sem þar greinir og lýst er í áverkavottorði. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Ákærði er fæddur í [...] 1975. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 2003 margsinnis gengist undir sektarrefsingu vegna brota gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og vopnalögum. Árás ákærða á A var langdregin og harkaleg, en ákærði er sakfelldur fyrir að slá A mörgum hnefahöggum í höfuð. Þykir ákærði hafa sýnt af sér einbeittan brotavilja með verkinu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði og eru ekki efni til að binda refsinguna skilorði.

A hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 596.482 krónur auk vaxta. Er krafan sundurliðuð þannig:

Miskabætur skv.  26. gr. skaðabótalaga

500.000 krónur

Lögfræðikostnaður auk virðisaukaskatts

96.482 krónur

Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 250.000 krónur. Þá á brotaþoli rétt á bótum vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu sinni svo sem krafist er. Verður ákærði dæmdur til að greiða A skaðabætur að fjárhæð 346.482 krónur, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.

                Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 376.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 45.676 krónur í annan sakarkostnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Ragna Bjarnadóttir aðstoðarsaksóknari.

                Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði.

                Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 346.482 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. febrúar 2009 til 3. janúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði greiði 422.176 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 376.500 krónur.