Hæstiréttur íslands

Mál nr. 83/2000


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Laun
  • Tómlæti
  • Orlof
  • Fyrning


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000.

Nr. 83/2000.

Eimskip innanlands hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Jóhanni Gunnari Jóhannssyni

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Vinnusamningur. Laun. Tómlæti. Orlof. Fyrning.

J starfaði hjá E frá 31. júlí 1989 til loka september 1998, fyrst sem framkvæmdastjóri og síðar fjármálastjóri. Til 1. febrúar 1993 fékk J greitt fyrir alla yfirvinnu samkvæmt eigin tímaskráningu. Eftir það voru honum greidd föst laun, sem lengst af innihéldu greiðslu 40 yfirvinnustunda óháð vinnuframlagi. J, sem hafði ítrekað lýst óánægju með starfskjör miðað við vinnuálag, höfðaði mál á hendur E til heimtu ógreiddra launa vegna yfirvinnu fyrir tiltekið tímabil og greiðslu vegna ótekins orlofs á starfstímanum. Hæstiréttur hafnaði kröfu J um greiðslu fyrir yfirvinnu þar sem hann þótti ekki hafa sýnt fram á að samningur milli J og E hefðu kveðið á um skyldu E til greiðslu umfram mánaðarlaun og hinar föstu yfirvinnustundir. Þá þótti aðgerðarleysi J styðja framangreinda niðurstöðu, en hann krafðist ekki greiðslu vegna ætlaðra vanefnda á ráðningarkjörum fyrr en 14. september 1998. Hæstiréttur féllst á kröfu J vegna ótekins orlofs að því leyti sem krafan var ekki fyrnd.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. mars 2000. Hann krefst þess aðallega að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 518.652 krónur, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð í aðra fjárhæð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Stefndi höfðaði mál þetta gegn Dreka hf. 29. janúar 1999. Samkvæmt málflutningi áfrýjanda fyrir Hæstarétti sameinuðust eftir það tvö önnur félög Dreka hf. og var nafni hins sameinaða félags breytt í Eimskip innanlands hf. áður en dómur féll í héraði. Rekur áfrýjandi málið fyrir Hæstarétti með nýju heiti sínu.

Eins og nánar er lýst í héraðsdómi eru málavextir þeir að stefndi, sem er rekstrartæknifræðingur að mennt, réði sig til áfrýjanda 31. júlí 1989. Á stjórnarfundi í félaginu 10. mars 1990 var samþykkt að ráða stefnda sem framkvæmdastjóra þess og var honum jafnframt veitt prókúruumboð. Gegndi hann starfi framkvæmdastjóra til 20. nóvember 1991, en tók þá við starfi fjármálastjóra félagsins. Í því starfi hans fólst að sjá um bókhald, fjármál og áætlanagerð félagsins og að auki skyldi hann sjá um eftirlit með viðhaldi tækja. Stefndi hélt prókúruumboði fyrir félagið þrátt fyrir breytt verksvið. Með bréfi 30. október 1992 var stefnda sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara og skyldi störfum hans ljúka 31. janúar 1993. Óumdeilt er að stefndi hafi fram til þess tíma fengið greitt fyrir alla yfirvinnu samkvæmt sinni eigin tímaskráningu.

Eftir 1. febrúar 1993 hélt stefndi áfram störfum sem fjármálastjóri hjá áfrýjanda, en skyldi nú einungis fá greitt fyrir dagvinnu. Síðar sama ár var kjörum hans breytt og skyldi samkvæmt því greiða honum mánaðarlega 40 yfirvinnustundir. Örn Þórsson, þáverandi framkvæmdastjóri félagsins, bar fyrir héraðsdómi að það hafi verið ákvörðun stjórnar þess að takmarka yfirvinnugreiðslur til stefnda. Í framburði stefnda kom fram að honum var kunnugt um þá ákvörðun stjórnar, en hann hafi talið að takmörkun á yfirvinnugreiðslum hafi átt að fylgja samsvarandi minnkun á yfirvinnu. Staðfesti Örn að staðið hafi til að minnka vinnuálag á stefnda í tengslum við þessar breytingar á kjörum hans. Þetta gekk ekki eftir. Kom fram í framburði Arnar að stefndi hafi verið óánægður með kjör sín og viljað úrbætur. Ekki urðu þó breytingar á kjörum stefnda næstu misserin að öðru leyti en því að föstum yfirvinnutímum, sem hann fékk greitt fyrir, var fjölgað úr 40 í 50 um nokkurra mánaða skeið á árunum 1995 og 1996.

Guðmundur Pedersen tók við starfi framkvæmdastjóra áfrýjanda 1. október 1997. Í framburði hans fyrir héraðsdómi kom fram að stefndi hefði fljótlega eftir  þetta komið að máli við hann vegna óánægju með laun sín miðað við vinnuframlag. Varð að samkomulagi milli þeirra að auka mánaðarlegar greiðslur til stefnda um 30.000 krónur um þriggja mánaða skeið og yrði sá tími notaður til að kanna hvort unnt væri að breyta vinnufyrirkomulagi og minnka álag á stefnda. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að þetta hafi valdið teljandi breytingu á vinnutíma stefnda. Með bréfi 31. júlí 1998 var stefnda sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara. Samkomulag varð með aðilum að stefndi þyrfti ekki að vinna í október, sem var síðasti mánuður uppsagnarfrestsins. Með símbréfi 14. september 1998 krafðist stefndi greiðslu vegna ótekinna sumarleyfa og ógreiddrar yfirvinnu fyrir liðin ár. Var kröfu vegna yfirvinnunnar hafnað samdægurs.

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda á starfstíma hans hjá áfrýjanda. Hins vegar liggur fyrir ráðningarbréf 18. ágúst 1998, sem gert var að ósk stefnda en ekki undirritað af honum. Í framburði stefnda fyrir héraðsdómi kom fram að hann var ekki í Stéttarfélagi tæknifræðinga á þeim árum, er yfirvinnukrafa hans tekur til. Þá var því lýst yfir af hálfu áfrýjanda að hann væri ekki aðili að kjarasamningi fulltrúaráðs Félags ráðgjafarverkfræðinga og Stéttarfélags tæknifræðinga.

Stefndi höfðaði mál þetta til heimtu ógreiddra launa vegna yfirvinnu fyrir tímabilið frá upphafi árs 1995 til starfsloka, svo og greiðslu vegna ótekins orlofs á öllum starfstíma hans. Fyrrnefnda hluta kröfunnar hefur áfrýjandi hafnað með öllu, en þann síðarnefnda hefur hann viðurkennt að því marki, sem fram kemur í dómkröfu hans fyrir Hæstarétti.

II.

Eins og að framan er rakið urðu breytingar á ráðningarkjörum stefnda 1. febrúar 1993. Fram til þess tíma hafði hann fengið greidda yfirvinnu samkvæmt eigin tímaskráningu, en eftir það stóð honum ekki til boða að fá yfirvinnu sína greidda með þeim hætti. Kom fram í framburði Arnar Þórssonar fyrir héraðsdómi að ákvörðun þar að lútandi hafi verið tekin af stjórn félagsins og í framburði stefnda að honum hafi verið kunnugt um þá ákvörðun stjórnar. Frá þessum tíma og allt til starfsloka stefnda hjá áfrýjanda síðla árs 1998 eða um tæplega sex ára skeið fékk hann greiðslu fyrir vinnu sína, sem ekki tók mið af skráðum fjölda yfirvinnustunda hans, heldur var ákveðin sem mánaðarlaun auk fastra viðbótargreiðslna, sem miðuðust við tiltekinn mánaðarlegan yfirvinnustundafjölda. Á þessum tíma gegndi stefndi stöðu fjármálastjóra félagsins og var þannig næstráðandi þess. Af gögnum málsins er einnig ljóst, þar á meðal af framburði stefnda fyrir héraðsdómi, að yfirmenn félagsins hafi almennt verið á fastlaunakjörum, er ekki tóku mið af skráðum yfirvinnustundum á þessu tímabili. Þegar allt þetta er virt verður að telja að stefnda hafi ekki tekist að sýna fram á að samningar milli hans og áfrýjanda hafi staðið til þess að honum bæru greiðslur fyrir vinnu sína umfram mánaðarlaun og hinar föstu yfirvinnugreiðslur. Af framburði stefnda og Arnar Þórssonar fyrir héraðsdómi er að vísu ljóst að stefnt var að því, þegar breytingar voru gerðar á launakjörum stefnda á árinu 1993, að draga úr vinnuálagi hans. Þá er ljóst að stefndi var óánægður með hvernig til tókst í þeim efnum og fór þess ítrekað á leit á næstu árum að úr þessu yrði bætt eða launagreiðslur auknar. Með þessum kvörtunum náði hann hins vegar ekki fram breytingum á eðli starfs þess, er hann gegndi, né þeim kjörum, er honum stóðu til boða, ef frá er skilinn samningur, sem hann gerði við Guðmund Pedersen í árslok 1997 um þriggja mánaða tímabundinn launaauka. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að stefndi hafi látið við það sitja að reyna að fá starfskjörum sínum breytt til framtíðar og ekki gert kröfu, er byggðist á ætlaðri vanefnd á gildandi ráðningarkjörum, fyrr en með framangreindu símbréfi 14. september 1998 skömmu eftir að honum hafði verið sagt upp störfum. Styður þetta aðgerðarleysi stefnda framangreinda niðurstöðu. Verður því að hafna kröfu stefnda að því leyti, sem hún tekur til greiðslu fyrir yfirvinnu á umræddu tímabili.

III.

Í dómkröfu stefnda vegna ótekins orlofs er miðað við að hann hafi við lok hvers einstaks orlofsárs frá upphafi til loka starfstíma síns hjá áfrýjanda átt ónotað nánar tilgreint orlof þess árs, sem svari ákveðnum fjölda klukkustunda. Óumdeilt er í málinu að stefndi átti við starfslok ótekinn hluta af orlofi, sem honum beri greiðsla fyrir, en ágreiningur er hins vegar um hvort krafa hans sé að einhverju leyti fyrnd. Áfrýjandi ber ekki fyrir sig að 13. gr. laga nr. 30/1987 um orlof eigi þegar að leiða til þess að árlegur réttur stefnda til orlofs teljist hafa fallið niður við lok viðkomandi orlofsárs að því leyti, sem hann var ekki nýttur. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 30/1987 fyrnist krafa á hendur vinnuveitanda samkvæmt lögunum eftir sömu reglum og gilda um kaupkröfur samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Samkvæmt 1. tl. 3. gr. þeirra laga er fyrningarfrestur slíkra krafna 4 ár og verður í þeim efnum að telja að krafa til orlofs falli í gjalddaga í lok næsta orlofsárs eftir að krafan stofnast. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að fyrning kröfu hans, að því er tekur til tímabilsins til loka orlofsársins 1992 til 1993, hafi verið rofin, en fyrir því ber hann sönnunarbyrði. Ófyrnd er hins vegar krafa stefnda vegna ótekins orlofs frá 1. maí 1993, sem samkvæmt skráningu hans sjálfs nemur 694,5 klukkustundum. Hvorki hefur áfrýjandi hnekkt þeirri skráningu né hefur hann sýnt fram á að stefndi hafi nýtt meira orlof en þar greinir. Ekki hefur verið andmælt þeirri fjárhæð, sem stefndi miðar við varðandi greiðslu fyrir hverja vinnustund, og verður hún, 1.302,49 krónur, því lögð til grundvallar. Verður áfrýjanda samkvæmt þessu gert að greiða stefnda 904.579 krónur með dráttarvöxtum, eins og ákveðnir voru í héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Eimskip innanlands hf., greiði stefnda, Jóhanni Gunnari Jóhannssyni, 904.579 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. nóvember 1998 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. desember 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 2. nóvember s.l., hefur Jóhann Gunnar Jóhannsson, kt. 090154-5249, Eikarlundi 3, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Dreka hf., kt. 450877-0189, Oddeyrarskála v/Strandgötu, Akureyri, með stefnu birtri þann 29. janúar 1999.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega, að stefnda verði dæmt til greiðslu á vangoldnum launum og orlofi að fjárhæð kr. 5.228.077,00 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 sem hér segir:

Af kr. 95.756,00 frá 15.02.1995 til 15.03.1995, þá af kr. 141.458,00 frá þeim degi til 15.04.1995, þá af kr. 259.227,00 frá þeim degi til 15.05.1995, þá af kr. 269.021,00 frá þeim degi til 15.06.1995, þá af kr. 311.542,00 frá þeim degi til 15.07.1995, þá af kr. 373.552,00 frá þeim degi til 15.08.1995, þá af kr. 421.832,00 frá þeim degi til 15.09.1995, þá af kr. 452.837,00 frá þeim degi til 15.10.1995, þá af kr. 460.367,00 frá þeim degi til 15.11.1995, þá af kr. 494.915,00 frá þeim degi til 15.12.1995, þá af kr. 534.779,00 frá þeim degi til 15.01.1996, þá af kr. 564.012,00 frá þeim degi til 15.02.1996, þá af kr. 572.008,00 frá þeim degi til 15.03.1996, þá af kr. 688.881,00 frá þeim degi til 15.04.1996, þá af kr. 718.099,00 frá þeim degi til 15.05.1996, þá af kr. 738.327,00 frá þeim degi til 15.06.1996, þá af kr. 808.001,00 frá þeim degi til 15.07.1996, þá af kr. 811.598,00 frá þeim degi til 15.08.1996, þá af kr. 906.445,00 frá þeim degi til 15.09.1996, þá af kr. 943.304,00 frá þeim degi til 15.10.1996, þá af kr. 1.019.594,00 frá þeim degi til 15.11.1996, þá af kr. 1.141.216,00 frá þeim degi til 15.12.1996, þá af kr. 1.299.323,00 frá þeim degi til 15.01.1997, þá af kr. 1.523.217,00 frá þeim degi til 15.02.1997, þá af kr. 1.648.156,00 frá þeim degi til 15.03.1997, þá af kr. 1.812.897,00 frá þeim degi til 15.04.1997, þá af kr. 1.916.828,00 frá þeim degi til 15.05.1997, þá af kr. 2.068.302,00 frá þeim degi til 15.06.1997, þá af kr. 2.180.591,00 frá þeim degi til 15.07.1997, þá af kr. 2.277.252,00 frá þeim degi til 15.08.1997, þá af kr. 2.448.000,00 frá þeim degi til 15.09.1997, þá af kr. 2.567.813,00 frá þeim degi til 15.10.1997, þá af kr. 2.722.934,00 frá þeim degi til 15.02.1998, þá af kr. 2.855.365,00 frá þeim degi til 15.03.1998, þá af kr. 3.004.048,00 frá þeim degi til 15.04.1998, þá af kr. 3.110.595,00 frá þeim degi til 15.05.1998, þá af kr. 3.164.169,00 frá þeim degi til 15.06.1998, þá af kr. 3.251.453,00 frá þeim degi til 15.07.1998, þá af kr. 3.366.427,00 frá þeim degi til 15.08.1998, þá af kr. 3.412.778,00 frá þeim degi til 31.10.1998 og loks af kr. 5.228.077,00 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi gerir þær kröfur til vara, að stefnda verði dæmt til greiðslu á vangoldnum launum og orlofi að fjárhæð kr. 5.079.906,00 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 sem hér segir:

Af kr. 95.756,00 frá 15.02.1995 til 15.03.1995, þá af kr. 141.458,00 frá þeim degi til 15.04.1995, þá af kr. 259.227,00 frá þeim degi til 15.05.1995, þá af kr. 269.021,00 frá þeim degi til 15.06.1995, þá af kr. 311.542,00 frá þeim degi til 15.07.1995, þá af kr. 373.552,00 frá þeim degi til 15.08.1995, þá af kr. 421.832,00 frá þeim degi til 15.09.1995, þá af kr. 452.837,00 frá þeim degi til 15.10.1995, þá af kr. 460.367,00 frá þeim degi til 15.11.1995, þá af kr. 494.915,00 frá þeim degi til 15.12.1995, þá af kr. 534.779,00 frá þeim degi til 15.01.1996, þá af kr. 564.012,00 frá þeim degi til 15.02.1996, þá af kr. 572.008,00 frá þeim degi til 15.03.1996, þá af kr. 688.881,00 frá þeim degi til 15.04.1996, þá af kr. 718.099,00 frá þeim degi til 15.05.1996, þá af kr. 738.327,00 frá þeim degi til 15.06.1996, þá af kr. 808.001,00 frá þeim degi til 15.07.1996, þá af kr. 811.598,00 frá þeim degi til 15.08.1996, þá af kr. 906.445,00 frá þeim degi til 15.09.1996, þá af kr. 943.304,00 frá þeim degi til 15.10.1996, þá af kr. 1.019.594,00 frá þeim degi til 15.11.1996, þá af kr. 1.141.216,00 frá þeim degi til 15.12.1996, þá af kr. 1.299.323,00 frá þeim degi til 15.01.1997, þá af kr. 1.523.217,00 frá þeim degi til 15.02.1997, þá af kr. 1.648.156,00 frá þeim degi til 15.03.1997, þá af kr. 1.812.897,00 frá þeim degi til 15.04.1997, þá af kr. 1.916.828,00 frá þeim degi til 15.05.1997, þá af kr. 2.068.302,00 frá þeim degi til 15.06.1997, þá af kr. 2.180.591,00 frá þeim degi til 15.07.1997, þá af kr. 2.277.252,00 frá þeim degi til 15.08.1997, þá af kr. 2.448.000,00 frá þeim degi til 15.09.1997, þá af kr. 2.567.813,00 frá þeim degi til 15.10.1997, þá af kr. 2.722.934,00 frá þeim degi til 15.02.1998, þá af kr. 2.855.365,00 frá þeim degi til 15.03.1998, þá af kr. 3.004.048,00 frá þeim degi til 15.04.1998, þá af kr. 3.110.595,00 frá þeim degi til 15.05.1998, þá af kr. 3.164.169,00 frá þeim degi til 15.06.1998, þá af kr. 3.251.453,00 frá þeim degi til 15.07.1998, þá af kr. 3.366.427,00 frá þeim degi til 15.08.1998, þá af kr. 3.412.778,00 frá þeim degi til 31.10.1998 og loks af kr. 5.079.906,00 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi gerir þær kröfur til þrautavara, að stefnda verði dæmt til greiðslu á vangoldnum launum og orlofi að fjárhæð kr. 4.810.933,00 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 sem hér segir:

Af kr. 95.765,00 frá 15.02.1995 til 15.03.1995, þá af kr. 141.458,00 frá þeim degi til 15.04.1995, þá af kr. 259.277,00 frá þeim degi til 01.05.1995, þá af kr. 462.760,00 frá þeim degi til 15.05.1995, þá af kr. 472.504,00 frá þeim degi til 15.06.1995, þá af kr. 515.025,00 frá þeim degi til 15.07.1995, þá af kr. 577.035,00 frá þeim degi til 15.08.1995, þá af kr. 625.315,00 frá þeim degi til 15.09.1995, þá af kr. 656.320,00 frá þeim degi til 15.10.1995, þá af kr. 663.850,00 frá þeim degi til 15.11.1995, þá af kr. 698.398,00 frá þeim degi til 15.12.1995, þá af kr. 738.262,00 frá þeim degi til 15.01.1996, þá af kr. 767.495,00 frá þeim degi til 15.02.1996, þá af kr. 775.491,00 frá þeim degi til 15.03.1996, þá af kr. 892.364,00 frá þeim degi til 15.04.1996, þá af kr. 921.582,00 frá þeim degi til 01.05.1996, þá af kr. 972.815,00 frá þeim degi til 15.05.1996, þá af kr. 993.043,00 frá þeim degi til 15.06.1996, þá af kr. 1.062.717,00 frá þeim degi til 15.07.1996, þá af kr. 1.066.314,00 frá þeim degi til 15.08.1996, þá af kr. 1.161.161,00 frá þeim degi til 15.09.1996, þá af kr. 1.198.020,00 frá þeim degi til 15.10.1996, þá af kr. 1.274.310,00 frá þeim degi til 15.11.1996, þá af kr. 1.395.932,00 frá þeim degi til 15.12.1996, þá af kr. 1.554.039,00 frá þeim degi til 15.01.1997, þá af kr. 1.777.933,00 frá þeim degi til 15.02.1997, þá af kr. 1.902.872,00 frá þeim degi til 15.03.1997, þá af kr. 2.067.613,00 frá þeim degi til 15.04.1997, þá af kr. 2.171.544,00 frá þeim degi til 01.05.1997, þá af kr. 2.420.000,00 frá þeim degi til 15.05.1997, þá af kr. 2.571.474,00 frá þeim degi til 15.06.1997, þá af kr. 2.683.763,00 frá þeim degi til 15.07.1997, þá af kr. 2.780.424,00 frá þeim degi til 15.08.1997, þá af kr. 2.951.172,00 frá þeim degi til 15.09.1997, þá af kr. 3.070.985,00 frá þeim degi til 15.10.1997, þá af kr. 3.226.106,00 frá þeim degi til 15.02.1998, þá af kr. 3.358.537,00 frá þeim degi til 15.03.1998, þá af kr. 3.507.220,00 frá þeim degi til 15.04.1998, þá af kr. 3.613.767,00 frá þeim degi til 01.05.1998, þá af kr. 3.940.145,00 frá þeim degi til 15.05.1998, þá af kr. 3.993.719,00 frá þeim degi til 15.06.1998, þá af kr. 4.081.003,00 frá þeim degi til 15.07.1998, þá af kr. 4.195.977,00 frá þeim degi til 15.08.1998, þá af kr. 4.242.328,00 frá þeim degi til 31.10.1998 og loks af kr. 4.810.933,00 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi gerir loks þær kröfur til þrautaþrautavara, að stefnda verið dæmt til greiðslu á vangoldnum launum og orlofi að fjárhæð kr. 4.706.092,00 með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987 sem hér segir:

Af kr. 95.765,00 frá 15.02.1995 til 15.03.1995, þá af kr. 141.458,00 frá þeim degi til 15.04.1995, þá af kr. 259.277,00 frá þeim degi til 01.05.1995, þá af kr. 441.626,00 frá þeim degi til 15.05.1995, þá af kr. 451.370,00 frá þeim degi til 15.06.1995, þá af kr. 493.891,00 frá þeim degi til 15.07.1995, þá af kr. 555.901,00 frá þeim degi til 15.08.1995, þá af kr. 604.181,00 frá þeim degi til 15.09.1995, þá af kr. 635.186,00 frá þeim degi til 15.10.1995, þá af kr. 642.716,00 frá þeim degi til 15.11.1995, þá af kr. 677.264,00 frá þeim degi til 15.12.1995, þá af kr. 717.128,00 frá þeim degi til 15.01.1996, þá af kr. 746.361,00 frá þeim degi til 15.02.1996, þá af kr. 754.357,00 frá þeim degi til 15.03.1996, þá af kr. 871.230,00 frá þeim degi til 15.04.1996, þá af kr. 900.448,00 frá þeim degi til 01.05.1996, þá af kr. 949.266,00 frá þeim degi til 15.05.1996, þá af kr. 969.494,00 frá þeim degi til 15.06.1996, þá af kr. 1.039.168,00 frá þeim degi til 15.07.1996, þá af kr. 1.042.765,00 frá þeim degi til 15.08.1996, þá af kr. 1.137.612,00 frá þeim degi til 15.09.1996, þá af kr. 1.174.471,00 frá þeim degi til 15.10.1996, þá af kr. 1.250.761,00 frá þeim degi til 15.11.1996, þá af kr. 1.372.383,00 frá þeim degi til 15.12.1996, þá af kr. 1.530.490,00 frá þeim degi til 15.01.1997, þá af kr. 1.754.384,00 frá þeim degi til 15.02.1997, þá af kr. 1.879.323,00 frá þeim degi til 15.03.1997, þá af kr. 2.044.064,00 frá þeim degi til 15.04.1997, þá af kr. 2.147.995,00 frá þeim degi til 01.05.1997, þá af kr. 2.375.921,00 frá þeim degi til 15.05.1997, þá af kr. 2.527.395,00 frá þeim degi til 15.06.1997, þá af kr. 2.639.684,00 frá þeim degi til 15.07.1997, þá af kr. 2.736.345,00 frá þeim degi til 15.08.1997, þá af kr. 2.907.093,00 frá þeim degi til 15.09.1997, þá af kr. 3.026.906,00 frá þeim degi til 15.10.1997, þá af kr. 3.182.027,00 frá þeim degi til 15.02.1998, þá af kr. 3.314.458,00 frá þeim degi til 15.03.1998, þá af kr. 3.463.141,00 frá þeim degi til 15.04.1998, þá af kr. 3.569.688,00 frá þeim degi til 01.05.1998, þá af kr. 3.878.177,00 frá þeim degi til 15.05.1998, þá af kr. 3.931.751,00 frá þeim degi til 15.06.1998, þá af kr. 4.019.035,00 frá þeim degi til 15.07.1998, þá af kr. 4.134.009,00 frá þeim degi til 15.08.1998, þá af kr. 4.180.360,00 frá þeim degi til 31.10.1998 og loks af kr. 4.706.092,00 frá þeim degi til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti skv. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og málskostnaðar ásamt álagi er nemi virðisaukaskatti af honum, í samræmi við málskostnaðarreikning sem lagður var fram við upphaf aðalmeðferðar.

Stefnda gerir þær dómkröfur aðallega, að verða sýknað af öllum kröfum stefnanda gegn greiðslu kr. 518.652,-, en til vara, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.  Í báðum tilvikum krefst stefnda, að stefnandi verði dæmdur til að greiða því málskostnað að mati dómsins.

Málsatvik munu vera samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, að stefnandi, sem er lærður tæknifræðingur, var ráðinn til starfa hjá stefnda þann 31. júlí 1989.  Þann 10. mars var stefnandi ráðinn framkvæmdastjóri stefnda og honum veitt prókúruumboð til að sinna þeim störfum, sem ráðningin fól í sér.  Samhliða ráðningu í starf framkvæmdastjóra var stefnandi kjörinn í stjórn stefnda.  Stefnandi gegndi starfi framkvæmdastjóra og sat í stjórn stefnda til 20. nóvember 1991.  Þann dag gekk hann úr stjórn og lét jafnframt af störfum sem framkvæmdastjóri, en tók í þess stað við starfi fjármálastjóra hjá stefnda.  Með uppsagnarbréfi dags. 30. október 1992 var stefnanda sagt upp störfum, en þremur mánuðum síðar var honum boðið að halda áfram störfum hjá stefnda.

Frá ráðningu og til 31. október 1992 fékk stefnandi greidd laun fyrir alla þá vinnu sem hann innti af hendi í þágu stefnda.  Þeim kjörum var sagt upp með áðurnefndu uppsagnarbréfi dags. 30. október 1992.  Þann 1. febrúar 1993 var stefnanda boðið að halda áfram störfum gegn því að vinna eingöngu dagvinnu og féllst stefnandi á það.  Í ágúst 1993 var kjörum stefnanda breytt á þá leið, að innifalin í launum hans var greiðsla fyrir ákveðinn fjölda yfirvinnustunda.  Með þeim hætti fékk stefnandi greitt fyrir 40 yfirvinnustundir mánaðarlega.  Hækkaði sá stundafjöldi í 50 á tímabilinu frá janúar 1995 til ágúst 1996, en lækkaði svo aftur í 40 stundir á tímabilinu september 1996 til október 1998.  Ráðningarsambandi stefnanda við stefnda lauk endanlega 31. október 1998, en þann 31. júlí 1998 var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda með lögboðnum þriggja mánaða uppsagnarfresti.  Af hálfu stefnda var þess hins vegar óskað, að stefnandi hætti störfum í lok september og ynni því ekki út uppsagnarfrestinn.

Á meðan stefnandi starfaði hjá stefnda nýtti hann einungis að hluta áunninn rétt sinn til orlofstöku.  Þá kvartaði hann ítrekað undan miklu vinnuálagi og yfir því að fá ekki greidd laun fyrir alla vinnu sína.  Allan þann tíma sem stefnandi starfaði hjá stefnda hélt hann dagbækur um störf sín og vinnutíma, en engin stimpilklukka var á vinnustað stefnanda.  Þann 19. október 1998 sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf þar sem krafist var launa fyrir tiltekinn fjölda yfirvinnustunda og greiðslu vangoldins orlofs.  Í nóvember barst stefnanda bréf lögmanns stefnda þar sem hafnað var greiðsluskyldu að öllu leyti f.h. stefnda, en boðnar voru fram „umfram skyldu” kr. 711.811,- til lúkningar á málinu.  Stefnandi félst ekki á boð stefnda og höfðaði því mál þetta.

Stefnandi byggir kröfu sína vegna vangoldinna yfirvinnulauna á, að stefnda beri, í samræmi við allar viðurkenndar meginreglur vinnuréttar, að greiða stefnanda rétt laun fyrir allt hans vinnuframlag í þágu stefnda.  Kveður stefnandi það í algerri andstöðu við viðurkennd réttindi starfsmanna, að leggja til vinnuframlag í þágu vinnuveitanda án þess að fá endurgjald fyrir í formi launa.  Engu breyti þó samið hafi verið um við stefnanda, að hann fengi, ásamt dagvinnulaunum, greitt fyrir ákveðinn fjölda vinnustunda, enda verði að teljast fráleitt, að með því hafi hann afsalað sér rétti til launa fyrir alla sína vinnu.

Hinar umkröfðu yfirvinnustundir grundvallar stefnandi á tímaskráningu, sem hann hafði frumkvæði að allan sinn starfstíma.  Stefnandi kveður stefnda alltaf hafa staðið umræddar tímaskýrslur stefnanda til boða auk þess sem vanbúnaður á starfsstöð stefnda hafi leitt til þess, að ekki hafi verið hægt með öðrum og tryggari hætti, að staðfesta raunverulega viðveru starfsmanna.  Stefnda beri því sönnunarbyrði fyrir því, að tímaskráning stefnanda sé röng eða ósönn.

Stefnandi byggir jafnframt á, að um ráðningarkjör hans hjá stefnda verði að miða við kjarasamning Stéttarfélags tæknifræðinga.  Af þeim samningi verði ekki annað ráðið, en greiða skuli fyrir allt vinnuframlag starfsmanna, þ.m.t. alla þá yfirvinnu sem viðkomandi starfsmanni sé nauðsynlegt að inna af hendi.  Byggir stefnandi á, að sú yfirvinna, sem hann hafi innt af hendi og verið hafi umfram hinar föstu yfirvinnustundir, sem innifaldar hafi verið í launum hans,  hafi verið nauðsynleg og eingöngu til komin vegna hagsmuna stefnda.  Því sé ekki með nokkrum hætti hægt að telja, að vinna stefnanda hafi verið á eigin ábyrgð og í andstöðu við fyrirskipanir stefnda.  Stefnanda hafi raunar aldrei verið fyrirskipað að vinna ekki meiri yfirvinnu en sem sem nam hinum fasta stundafjölda, heldur hafi þvert á móti verið lagðar á herðar hans ákveðnar óumflýjanlegar skyldur, sem honum hafi borið að sinna.  Þróun ráðningarsambands stefnanda og stefnda hafi endurspeglað þessar staðreyndir.  Stefnandi hafi þannig fengið greidd laun fyrir alla yfirvinnu sína fyrstu starfsárin, en að frumkvæði stefnda hafi því verið breytt, enda hafi átt að draga úr starfsskyldum stefnanda á móti.  Það hafi ekki gerst og hafi kjörum stefnanda verið breytt á ný í ágúst 1993.  Í þeirri breytingu hafi falist viðurkenning stefnda á vinnuálagi stefnanda.  Þó stefnandi hafi með þessum hætti fallist á viðbótargreiðslur á móti yfirvinnu sinni sé á engan hátt hægt að halda því fram, að hann hafi samfara því afsalað sér rétti til launa fyrir yfirvinnu umfram hinar umsömdu yfirvinnustundir.

Byggir stefnandi einnig á, að af ráðningarbréfi hans verði ekki annað séð, en fyrir yfirvinnu umfram hinar föstu yfirvinnustundir hafi átt að greiða sérstaklega, enda sé í bréfinu sérstaklega kveðið á um tímalaun fyrir hverja yfirvinnustund.  Bendir stefnandi á, að ráðningarbréfið stafi frá stefnda og sé gert að frumkvæði þess, löngu eftir ráðningu stefnanda.  Hafi bréfinu verið ætlað að bæta úr skorti á skriflegum ráðningarsamningi milli aðila, enda hafi aldrei verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda.  Beri stefnda því allan halla af sönnunarbyrði um ráðningarkjör stefnanda.

Orlofskröfur sínar byggir stefnandi á, að stefnda beri að greiða stefnanda orlofsinneign í samræmi við þau uppsöfnuðu orlofsréttindi, sem hann hafi hlotið í starfi sínu hjá stefnda.  Allar meginreglur vinnuréttar leiði  rök að greiðsluskyldu stefnda enda fáist ekki staðist, að vegna ráðningarslita af hálfu stefnda eða atvika, er varði skipulagningu stefnda á störfum stefnanda, verði stefnandi að þola brottfall áunnins orlofsréttar. 

Stefnandi byggir allar orlofskröfur sínar á, að stefnda beri að greiða orlof af vangoldnum launum fyrir yfirvinnu.  Byggir stefnandi greiðsluskyldu stefnda á grein 4.2.4 í áðurnefndum kjarasamningi Stéttarfélags tæknifræðinga.  Stefnandi kveður í aðal- og varakröfu krafist orlofs af yfirvinnu miðað við einn gjalddaga, þann 31. október 1998, en í þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu sé hins vegar miðað við orlof af yfirvinnu fyrir hvert orlofsár.

Byggir stefnandi í aðal- og varakröfum sínum á, að hann hafi notið, eða átt að njóta, þrátt fyrir ákvæði laga um orlof nr. 30, 1987, þeirra réttinda sem starfsmenn stefnda hafi notið, að fá orlofsrétt sinn færðan milli ára.  Því byggir stefnandi á, að öll orlofsinneign hans hafi í fyrsta lagi gjaldfallið þann 31. október 1998 við starfslok, þegar endanlega hafi verið ljóst, að frekari tilfærsla á orlofsrétti færi ekki fram.  Telur stefnandi staðreyndir málsins benda eindregið til þeirrar niðurstöðu enda hefði stefnandi að öðrum kosti aldrei sýnt það tómlæti, að láta ónýttan orlofsrétt fyrnast vegna ákvæða laga nr. 30, 1987.

Verði aðal- og varakröfum stefnanda hafnað sakir fyrningar, krefst hann í þrautavara- og þrautaþrautavarakröfum sínum þeirrar orlofsinneignar, sem ekki sé fyrnd.  Byggir stefnandi á, að stefnda hafi í raun viðurkennt greiðsluskyldu vegna þessarar orlofsinneignar með bréfi dags. 19. nóvember 1998.

Stefnandi byggir í aðal- og þrautavarakröfu á, að stefnda beri að greiða stefnanda orlofsinneign vegna frítíma, sem honum hafi ekki tekist að taka út.  Byggir stefnandi á, að stefnda beri að greiða honum, vegna þessa vangoldna frítíma, orlof af þeim launum er hann á inni í ótekinn frítíma.  Um orlofsprósentu vísar stefnandi til greinar 4.1.2 í áðurnefndum kjarasamningi Stéttarfélags tæknifræðinga.  Er það álit stefnanda, að eingöngu með þessum hætti sé honum greidd raunveruleg orlofsinneign.

Byggir stefnandi að síðustu í öllum kröfum á, að stefnda beri að greiða til viðbótar við umkrafin laun vegna yfirvinnu og orlofs, 6% framlag í lífeyrissjóð.  Greint framlag stefnda beri að reikna af öllum kröfum stefnanda, bæði vegna yfirvinnu og orlofs.  Framlag stefnda í lífeyrissjóð, sem og annarra vinnuveitenda, eigi að nema greindu hlutfalli af öllum skattskyldum launum og launatengdum greiðslum sem stefnandi fái eða eigi að fá.  Þetta byggist að öðrum þræði á ákvæðum 8. kafla kjarasamnings Stéttarfélags tæknifræðinga auk almennra og viðurkenndra réttarreglna um þetta atriði.

Kröfur sínar kveðst stefnandi byggja á meginreglum vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglum samninga- og kröfuréttar um skyldu til efnda á samningum og greiðslu fjárskuldbindinga.   Þá byggir stefnandi á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1994, auk ákvæða laga nr. 80, 1938, laga nr. 19, 1979, laga nr. 55, 1980, laga nr. 88, 1971 og laga nr. 30, 1987.

Varðandi kröfur stefnanda um greiðslu launa fyrir yfirvinnu byggir stefnda sýknukröfu sína á, að stefnandi hafi gegnt ábyrgðarstarfi hjá stefnda, hann hafi sem fjármálastjóri verið næst æðsti starfsmaður fyrirtækisins og haft prókúruumboð allan þann tíma, sem um sé deilt og að jafnaði setið stjórnarfundi stefnda.  Laun stefnanda hafi verið ákveðin annars vegar sem föst laun og hins vegar sem greiðsla fyrir tiltekna fasta yfirvinnu í hverjum mánuði, auk aksturspeninga.  Stefnda kveður ósannað, að stefnandi hafi átt rétt til sérstakra greiðslna vegna yfirvinnu, sem hafi farið fram úr föstum, umsömdum greiðslum.  Um slíkt hafi ekki verið samið og hafi stefnandi aldrei gefið í skyn, að slíkur réttur fælist í ráðningarsamningi hans við stefnda.  Alkunna sé, að stjórnendum fyrirtækja í almennum rekstri sé yfirleitt ekki greitt fyrir tilfallandi yfirvinnu „eftir klukku”.  Hafi stefnandi stönnunarbyrði um, að öðruvísi hafi samist á milli hans og stefnda.

Stefnda kveður óánægju stefnanda með launakjör ekki vera vanefnd sína.  Stefnda kveður kröfur stefnanda um úrbætur vegna framangreindrar óánægju sinnar benda til, að stefnandi hafi krafist breytinga á ráðningakjörum fremur en efnda á ráðningarsamningi sem tekist hefði.  Renni það stoðum undir að stefnandi hafi sjálfur skilið ráðningarkjör sín á þann veg, að hann fengi aðeins greidda fasta, mánaðarlega þóknun fyrir yfirvinnu, þótt vera kynni að hann hafi gjarnan viljað breytingu á ráðningarkjörum sínum.  Slíkum umleitunum hafi stefnda hins vegar hafnað hverju sinni er þær hafi verið upp bornar.

Kveður stefnda stefnanda engin gögn hafa fært fram því til stuðnings, að hann hafi átt rétt til greiðslna umfram hinar umsömdu, föstu yfirvinnustundir.  Í ráðningarbréfi stefnanda og stefnda komi fram, að „aðrar greiðslur”, þ.e. greiðslur fyrir utan dagvinnu, séu „yfirvinna fyrir 40 klst. á mánuði”.  Þar sé hins vegar einskis getið um að greiða hafi átt sérstaklega fyrir yfirvinnu sem umfram það væri.  Þótt ráðningarbréfið hafi ekki verið gert fyrr en undir lok starfsferils stefnanda hjá stefnda verði ekki annað séð, en það sé staðfesting á þeim kjörum sem stefnandi hafi notið og hvíli á stefnanda sönnunarbyrði um að svo hafi ekki verið.  Stefnda fullyrðir að á 8 ára starfsferli stefnanda í stjórnunarstörfum hjá stefnda hafi aldrei komið fyrir, að honum hafi verið greitt fyrir yfirvinnu eftir mældu umfangi hennar.  Það hafi enda aldrei verið ætlan stefnda, að frekari greiðslur kæmu fyrir meiri vinnu enda hefði þá verið tilgangslítið að semja um að greitt yrði fast fyrir 40 yfirvinnustundir.  Hafi stefnandi í reynd varið öllum þeim tíma, sem hann haldi fram, á vinnustað, sé algjörlega ósannað að það hafi verið nauðsynlegt vegna starfa hans, eða yfirleitt skilað framlegð til fyrirtækisins.

Stefnda kveður stefnanda hafa haldið utan um bókhald stefnda á umræddum tíma og séð um launaútreikning starfsmanna, þ.m.t. sjálfs sín.  Stefnandi hafi því borið ábyrgð á að launabókhald væri rétt fært og að nákvæmlega væri gerð grein fyrir raunverulegum eignum og skuldum félagsins í fjárhagsbókhaldi.  Samkvæmt 6. gr. bókhaldslaga nr. 145, 1994, hafi honum borið að sjá til þess að í bókhaldi félagsins kæmi fram, að ógreiddar væru launakröfur hans á hendur félaginu.  Honum hafi því verið rétt og skylt að færa þær til bókar enda hafi falist í starfsskyldum hans sem fjármálastjóra, að gefa raunsanna mynd af fjárhag félagsins í bókhaldi þess.  Aldrei hafi hann þó séð ástæðu til þess þrátt fyrir eigin fullyrðingar um kröfuréttindi sín á hendur stefnda eftir starfslok.

Forsendu þess, að stefnandi verði talinn eiga kröfu á hendur stefnda vegna vangoldinna launa, kveður stefnda vera, að hann sýni fram á að hann hafi öðlast rétt til slíkra greiðslna með gagnkvæmum samningi milli aðila.  Á það hafi hann hins vegar engar sönnur fært.  Hafi stefnandi einhvern tíma öðlast þann rétt megi ennfremur fullyrða, að hann sé nú niður fallinn fyrir áralangt tómlæti.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi nokkurn tíma, öll þau fjögur ár sem hann krefji nú um vangoldin laun fyrir, lýst þeirri skoðun sinni, að greiða bæri fyrir unna yfirvinnu umfram þann fasta tímafjölda, sem um var samið.  Verði það að teljast slíkt tómlæti, að slíkar kröfur, hafi þær einhvern tíma verið til, séu nú niður fallnar.

Stefnda kveðst ekki vera aðili að kjarasamningi fulltrúaráðs félags ráðgjafarverkfræðinga og Stéttarfélags tæknifræðinga frá september 1994.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að samkomulag hafi tekist um það með honum og stefnda, að um ráðningarkjör hans skyldi fara eftir þeim samningi.  Verði réttindi ekki leidd af samningnum, stefnanda til hagsbóta, án þess að slík sönnun hafi verið færð fram.  Af þeim sökum sé því alfarið mótmælt, að stefnandi njóti réttar samkvæmt fyrrgreindum samningi.

Sýknukröfur sínar vegna yfirvinnugreiðslna byggir stefnda einnig á, að það hafi þegar greitt stefnanda fyrir það vinnuframlag, sem hann krefji um.  Stefnda kveður ekki annað ráðið af stefnu, en heildaryfirvinna stefnanda á tímabilinu frá janúar 1995 til október 1998 hafi alls numið 1614,25 yfirvinnustundum og vangoldin laun nemi því kr. 4.724.134.  Á þessu sama tímabili hafi stefnda greitt stefnanda fyrir 2078 yfirvinnustundir.  Af þessu leiði, að stefnandi hafi fengið greitt fyrir 463,75 yfirvinnustundir umfram þá yfirvinnu sem hann innti af hendi.  Megi því vera ljóst, að stefnandi eigi enga kröfu til greiðslna úr hendi stefnda á þeim forsendum, að hann hafi ekki fengið vinnuframlag sitt greitt að fullu.

Þá mótmælir stefnda sérstaklega kröfu stefnanda um laun fyrir yfirvinnu í janúar 1995.  Laun stefnanda fyrir janúar 1995 hafi orðið gjaldkræf 15. þess mánaðar og sé krafa um þau því fyrnd skv. 1. tl. 3. gr. fyrningarlaga.  Þá beri að taka tillit til þess, að stefnandi hafi fengið greitt fyrir yfirvinnu í ágúst og september 1998 án þess að hún væri innt af hendi.  Þær greiðslur beri að draga frá bótakröfu stefnanda, svo og aðrar sem eins kunni að vera ástatt um, enda geri stefnandi kröfu um að launuð verði unnin yfirvinna.  Af því leiði, að óunna yfirvinnu beri ekki að greiða.

Stefnda heldur því fram, að því fari fjarri að tilgreining þess, hvert kaup skuli vera í krónum á klukkustund í yfirvinnu, sanni eitthvað um réttmæti kröfu stefnanda fyrir tilfallandi yfirvinnu. 

Kröfur sínar varðandi orlof stefnanda styður stefnda eftirfarandi rökum:  Samkvæmt 13. gr. laga um orlof nr. 30, 1987, sé allur flutningur orlofs milli ára óheimill.  Af þeim sökum verði því ekki haldið fram í málinu, að stefnandi hafi haft rétt til að flytja ógreitt orlof milli ára.  Stefnandi hafi ennfremur ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings að á slíkt hafi verið fallist af hálfu stefnda.  Orlof frá því fyrir 1995 sé því fyrnt og verði stefnda ekki krafið um greiðslu þess, sbr. 14. gr. orlofslaga og 1. tl. 3. gr. fyrningarlaga.

Hins vegar fellst stefnda á, að á tímabilinu 1. janúar 1995 til 31. október 1998 hafi stefnandi unnið sér inn 828 klst. vegna orlofs.  Frá því beri að draga 337,5 klst. sem stefnandi segist sjálfur hafa tekið í sumarleyfi á nefndu tímabili og 92,3 klst. sem stefnandi hafi fengið sérstaklega greiddar í júní 1997.  Stefnda fellst því á, að stefnandi eigi rétt til 398,2 klst. vegna ógreidds orlofs, alls kr. 518.652,-.

Stefnda kveður stefnanda krefjast þess í aðal- og þrautavarakröfu, að stefnda verði gert að greiða honum orlof ofan á orlofsgreiðslur.  Stefnda mótmælir þessu með vísan til 5. mgr. 7. gr. orlofslaga þar sem skýrt sé tekið fram, að orlofslaun reiknist ekki af orlofslaunum.  Þá mótmælir stefnda kröfu stefnanda um greiðslu orlofs af vangoldinni yfirvinnu með vísan til umfjöllunar hér að framan um að stefnandi eigi ekki rétt til greiðslna úr hendi stefnda af þeim sökum.

Að lokum mótmælir stefnda alfarið, að dráttarvextir leggist á kröfu stefnanda allt frá árinu 1995.  Stefnandi hafi engin gögn fært fram því til stuðnings að hann hafi krafist yfirvinnu- og orlofslauna fyrr en eftir að honum var sagt upp störfum.  Því standi engin rök til að því verði gert að greiða dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögu, verði fallist á greiðsluskyldu stefnda.

Skýrslur fyrir dómi gáfu auk stefnanda, Baldur Ragnarsson bifreiðarstjóri, Guðmundur Peterson framkvæmdastjóri, Þráinn Jónsson skrifstofumaður, Marinó Sveinsson, Árni Steinsson framkvæmdastjóri Securitas og Örn Þórsson fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda.

Telja verður sannað, að aðilar hafi í ágústmánuði 1993 gert samning um að stefnandi fengi greiddan ákveðinn fjölda yfirvinnustunda á mánuði.  Í upphafi voru stundirnar 40, þeim fjölgaði í 50 um nokkurra mánaða skeið, en fækkaði svo aftur í 40.  Sú fullyrðing stefnanda, að umsömdum yfirvinnustundafjölda hafi verið ætlað að takmarka þann yfirvinnustundafjölda, sem honum hafi verið ætlað að inna af hendi, fékk stuðning í framburði vitnisins Arnar Þórssonar fyrir dómi.  Þá komu að hluta fram hjá vitninu ástæður þeirrar miklu yfirvinnu, sem stefnandi innti af hendi, en á engan hátt, að yfirvinna stefnanda umfram hinar umsömdu yfirvinnustundir hafi verið óþörf eða óútskýranleg.  Er því sannað, að tilgangur áðurnefnds samnings um fastar yfirvinnugreiðslur, hafi verið að takmarka yfirvinnu stefnanda.  Sú aðgerð hafi hins vegar mistekist af ástæðum, sem stefnanda verður ekki kennt um. 

Það er ein meginskylda atvinnurekenda, að greiða starfsmönnum laun fyrir þeirra vinnu.  Þessi réttindi launþega til launa teljast eign þeirra í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Stefnda hefur ekki leitt fram sönnur þess, að stefnandi hafi afsalað sér þessum grundvallarrétti sínum, en gera verður strangar kröfur um sönnun í tilvikum er varða svo mikilsverð réttindi.  Engu breytir í þessu sambandi staða stefnanda hjá stefnda.  Fullyrðingu stefnda þess efnis, að stefnandi hafi samið um að vinna þá yfirvinnu, sem færi umfram hinar áðurnefndu föstu yfirvinnustundir, án þess að fá fyrir hana greitt, er því hafnað sem ósannaðri.

Stefnandi telur að honum hafi ekki verið heimilt að færa launakröfur sínar í bókahald stefnda, þar sem þær hafi ekki verið viðurkenndar af stefnda.  Verður að fallast á með stefnanda, að færsla hans á óviðurkenndum kröfum í bókhald stefnda hefði verið í hæsta máta óeðlileg.  Verður sýkna því ekki byggð á nefndu athafnaleysi stefnanda.

Því hefur verið haldið fram af stefnanda, að hann hafi ítrekað gert athugasemdir við laun sín þann tíma, sem hann starfaði hjá stefnda.  Þessi fullyrðing stefnanda var staðfest fyrir dómi af fyrrverandi framkvæmdastjórum stefnda þeim Erni Þórssyni og Guðmundi Petersen.  Þykir stefnandi því ekki hafa glatað rétti til launa sakir tómlætis.

Stefnandi skráði jafnharðan í dagbækur sínar allar þær vinnustundir sem hann innti af hendi í þágu stefnda, en engin stimpilklukka var á vinnustað.  Þessari skráningu stefnanda hefur stefnda ekki hnekkt og þykir því verða að leggja hana til grundvallar.

Tímagjald fyrir hverja unna yfirvinnustund byggir stefnandi á tímagjaldi því, sem fram kemur á launaseðlum hans.  Er það tímagjald í samræmi við sjónarmið stefnda, sem fram koma í greinargerð þess og ber því að leggja það til grundvallar í málinu.

Dagbækur stefnanda bera greinilega með sér, að stefnandi krefst í málinu þeirra yfirvinnustunda, sem voru umfram hinar föstu umsömdu stundir.  Fullyrðing stefnda um að það hafi nú þegar greitt stefnanda fyrir alla hans yfirvinnu er því haldlaus með öllu.

Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram hjá stefnanda og vitninu Guðmundi Petersen, að laun fyrir yfirvinnu hjá stefnda hefðu verið greidd 15. dag næsta mánaðar eftir að til þeirra var unnið.  Fullyrðingu stefnda um að laun fyrir yfirvinnu hafi gjaldfallið 15. þess mánaðar, sem til þeirra var unnið, er hafnað.

Eins og áður kom fram sömdu aðilar um að stefnandi fengi greiddan ákveðinn tímafjölda vegna yfirvinnu í hverjum mánuði.  Hinar föstu yfirvinnustundir voru því hluti af kjörum stefnanda og bar honum greiðsla fyrir þær.  Er því hafnað kröfu stefnda um frádrátt af kröfu stefnanda vegna ofgreiddra yfirvinnustunda í ágúst og september 1998.

Samkvæmt launaseðlum stefnanda fékk hann greidd orlofslaun á alla yfirvinnu og verður að telja, að þær orlofsgreiðslur hafi verið þáttur í launakjörum hans.  Samkvæmt launaseðlunum fékk stefnandi greidd 10,40 % orlofslaun á yfirvinnu frá janúar 1995 til og með janúar 1996, en 11,59 % frá þeim degi til ráðningarslita.  Ber stefnda því að greiða stefnanda orlof vegna vangoldinna yfirvinnustunda miðað við þær hlutfallstölur.

Vitnið Örn Þórsson bar fyrir dómi, að starfsmönnum stefnda hafi verið heimilt, þegar hann var framkvæmdastjóri stefnda, að flytja orlofsrétt sinn milli ára.  Þá bar vitnið Baldur Ragnarsson, að hann hefði notið þeirra kjara hjá stefnda.  Þykir því sannað, að hjá stefnda hafi starfsmenn notið þeirra réttinda, að geta fært rétt sinn til orlofstöku milli ára.  Þykir 13. gr. orlofslaga nr. 30, 1987, ekki standa því í vegi, að stefnandi byggi rétt á framkvæmd þessari, sbr. 2. gr. nefndra laga.  Er orlofsréttur stefnanda því í engu fyrndur og þykir rétt að miða við, að orlofsinneign hans hafi gjaldfallið þann 31. október 1998 er ráðningarsambandi aðila lauk.  Ber við útreikning orlofsinneignar stefnanda að þessu leyti, að miða við kr. 1.302,49 fyrir hverja vinnustund, enda hefur þeirri krónutölu ekki verið mótmælt sérstaklega af stefnda.

Kröfu stefnanda um greiðslu orlofs af þeim launum, sem hann á inni í ótekinn frítíma, er hafnað með vísan til 5. mgr. 7. gr. orlofslaga, en þar kemur skýrt fram, að orlofslaun reiknist ekki af orlofslaunum. 

Launþegi er ekki aðili að kröfu viðkomandi lífeyrissjóðs um framlag atvinnurekanda til sjóðsins á móti framlagi launþegans.  Verður stefnda því sýknað af kröfu stefnanda um 6 % lífeyrissjóðsframlag þess.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er niðurstaða dómsins sú, að dæma ber stefnda til að greiða stefnanda krónur 4.886.730,-, þ.e. varakröfu stefnanda að frádregnu 6 % framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, sem samkvæmt gögnum málsins nemur krónum 193.176,-.  Rétt er að dæma stefnda til greiðslu dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, frá 19. nóvember 1998, til greiðsludags, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti frá upphafsdegi vaxtanna.

Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilegur krónur 700.000,- og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

DÓMSORÐ :

Stefnda, Dreki hf., greiði stefnanda, Jóhanni Gunnari Jóhannssyni, krónur 4.886.730,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, frá 19. nóvember 1998 til greiðsludags, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti frá upphafsdegi vaxtanna og krónur 700.000,- í málskostnað.