Hæstiréttur íslands

Mál nr. 433/2003


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Aðild


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. apríl 2004.

Nr. 433/2003.

E. Gullborg ehf.

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

Þekking-Tristan hf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Verksamningur. Aðild.

Í málinu krafðist Þ greiðslu reikninga vegna vinnu við tölvukerfi E. Ekki var fallist á það með E að tiltekinn starfsmaður Þ hefði tekið verkið að sér persónulega og þar sem E hafði hvorki vefengt tímaskýrslur vegna vinnunnar né sýnt fram að verkið hefði verið gallað voru kröfur Þ teknar til greina að fullu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. nóvember 2003 og krefst sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, E. Gullborg ehf., greiði stefnda, Þekking-Tristan hf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. september 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 3. september s.l., hefur Þekking-Tristan ehf., Hafnarstræti 91-95, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn E. Gullborg ehf. Reykjavík, Köldulind 8, Kópavogi, með stefnu birtri 18. mars 2003.

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 533.296,- ásamt dráttarvöxtum af kr. 303.033,- frá 25. febrúar 2002 til 25. mars 2002 en af kr. 533.296,- frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

I.

Í máli þessu er um það deilt hvort munnlegur verksamningur hafi komist á milli aðila og eftir atvikum hvort verk stefnanda hafi verið haldið svo miklum annmörkum að félagið geti ekki krafið stefnda um endurgjald fyrir það.

Málsatvik eru nánar þau að forsvarsmenn stefnda kölluðu Heimi Jóhannsson til starfa í fyrirtæki sínu Pizzahöllinni í ársbyrjun 2002 en Heimir hafði séð um netkerfi fyrirtækisins fyrir fyrri eiganda.  Samkvæmt framlögðum reikningum stefnanda vann Heimir við netkerfi Pizzahallarinnar dagana 14., 15., 17., 18., 19. og 20. janúar 2002.  Annar starfsmaður stefnanda, Þorsteinn Halldórsson, vann einnig við kerfið ásamt Heimi þann 19. janúar.  Reikningur vegna þessarar vinnu var gefinn út af stefnanda þann 31. janúar 2002 og var gjalddagi reikningsins 25. febrúar s.á.

Heimir og Þorsteinn komu til starfa að nýju í þágu stefnda þann 8. febrúar 2002 og Heimir einnig dagana 21., 22. og 23. s.m.  Stefnandi gaf út reikning vegna þeirrar vinnu 28. febrúar 2002 og var gjalddagi þess reiknings 25. mars s.á.

Samkvæmt nefndum reikningum var tímagjald, það er stefnda var krafið um, vegna starfa þeirra Heimis og Þorsteins kr. 7.600,- auk virðisaukaskatts fyrir hverja unna klukkustund hvors starfsmanns.

Einhverju eftir að Heimir lauk störfum fyrir stefnda kallaði félagið til nýjan aðila til að vinna við tölvukerfi Pizzahallarinnar, Geislastein ehf.  Geislasteinn ehf. gaf út tvo reikninga vegna þeirrar vinnu þann 14. maí 2002.

Þann 9. apríl 2002 ritaði stefnandi bréf til Gunnars Skúla Guðjónssonar, framkvæmdastjóra stefnda.  Samkvæmt fyrirsögn bréfsins var það skrifað í tilefni af fyrirspurn Gunnars Skúla varðandi hina tvo áðurnefndu reikninga stefnanda.  Í niðurlagi bréfsins kom fram að ekki yrðu gerðar neinar breytingar á reikningunum af hálfu stefnanda.

Stefnda greiddi ekki reikninga stefnanda og setti stefnandi því kröfur sínar til innheimtu.  Þann 6. desember 2002 var stefnda sent innheimtubréf þar sem skorað var á félagið að greiða kröfur stefnanda.  Stefnda varð ekki við kröfum stefnanda og höfðaði félagið því mál þetta.

II.

Stefnandi kveður hina umdeildu skuld vera tilkomna vegna viðskipta stefnda við stefnanda sem hafi með höndum þjónustu á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðargerðar, auk annarrar þjónustu.

Kröfur sínar segir stefnandi byggja á tveimur reikningum að fjárhæð kr. 303.033,- og kr. 230.263,-, útgefnum 31. janúar 2002 og 28. febrúar 2002, er samtals nemi stefnufjárhæðinni.

Um aðild félagsins að málinu segir stefnandi að stefnda hafi ekki getað dulist að Heimir Jóhannsson væri starfsmaður stefnanda, hann hafi t.a.m. verið á bifreið merktri fyrirtækinu.  Bendir stefnandi jafnframt á að stefnda hafi verið búið að fá fyrri reikninginn áður en það hafi kallað Heimi til að nýju en reikningurinn hafi borið það skýrlega með sér að vera útgefinn af stefnanda.  Þá kveður stefnandi framkvæmdastjóra stefnda engar athugasemdir hafa gert við aðild stefnanda að málinu þegar hann hafi haft samband við félagið á vormánuðum og gert athugasemd við fjárhæð reikninganna.

Stefnandi segir tölvukerfi stefnda hafa verið í lagi eftir að Heimir Jóhannsson, starfsmaður félagsins, lauk störfum og vísar um það m.a. til tveggja reikninga sem liggi fyrir í málinu frá Geislasteini ehf. sem gefnir hafi verið út í byrjun sumars 2002.  Ekkert í málinu bendi til annars en Heimir hafi lokið því verki sem stefnda hafi fengið stefnanda til að sinna.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga.  Þá segir félagið kröfu um dráttarvexti byggja á reglum III. kafla laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu.

III.

Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína m.a. á því að það hafi hvorki samið við stefnanda um að félagið ynni við tölvukerfi stefnda né samþykkt að Heimir Jóhannsson fengi stefnanda til verksins.  Það hafi því komið stefnda í opna skjöldu að fá reikning frá stefnanda vegna vinnu við tölvukerfið.  Bendir stefnda í þessu sambandi á að stefnandi hafi aldrei unnið fyrir stefnda við tölvukerfi þess en Heimir hafi annast kerfið um árabil.  Heimir hafi sjálfur unnið að hinu umdeilda verki og samkomulag verið gert við hann vegna þess.  Hvorki stefnandi né aðrir verktakar hafi nokkurn tímann komið að verkinu.

Jafnframt heldur stefnda því fram að verkið hafi verið svo illa unnið að ekki hafi verið nokkur leið að nota tölvukerfið.  Þá hafi verkinu ekki verið lokið en Heimir hafi gefist upp á að vinna að lagfæringum og breytingum á kerfinu.  Eftir það hafi Geislasteinn ehf. verið fenginn til verksins en þar hafi verið í forsvari Stefán Viðarsson.  Honum hafi tekist eftir öðrum leiðum en Heimir hafi farið að koma með nothæfar lausnir sem enn séu notaðar án þess að gera hafi þurft frekari lagfæringar á kerfinu.

Stefnda heldur því einnig fram að Heimir Jóhannsson hafi ekki haft nægjanlega þekkingu til að koma kerfi stefnda í ásættanlegt horf.  Hann hafi stöðugt verið í tilraunastarfsemi sem engan árangur hafi borið.  Því hafi ekkert af hans vinnu eða tilraunum nýst stefnda.  Tekur stefnda sérstaklega fram að félagið hafi ekki beðið um að fá til sín mann í vinnu til að stunda tilraunastarfsemi.  Þar sem vinna Heimis hafi ekki nýst stefnda á nokkurn hátt segir stefnda ekki hægt að krefjast endurgjalds fyrir hana.  Þess utan sé hið umkrafða tímagjald allt of hátt.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til reglna samningalaga og kröfuréttar um loforð og efndir skuldbindinga.

IV.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að stefnandi er fyrirtæki sem býður m.a. upp á þjónustu og ráðgjöf í tengslum við tölvukerfi.  Jafnframt er upplýst að Heimir Jóhannsson var starfsmaður stefnanda á þeim tíma sem hin umdeildu verk voru innt af hendi fyrir stefnda.  Heimir fullyrti fyrir dómi að hann hefði kynnt stefnda að hann myndi vinna umbeðin verk í nafni stefnanda, ekki eigin nafni.  Þá upplýsti Heimir að hann hefði komið til vinnu sinnar á bifreið merktri stefnanda og jafnframt að annar starfsmaður félagsins hefði komið nokkuð að umræddum verkum.  Fá tvö síðastnefndu atriðin stoð í framlögðum reikningum og framburði Gunnars Skúla Guðjónssonar, framkvæmdastjóra stefnda, fyrir dómi.  Hins vegar hélt Gunnar Skúli því fram að þeir Heimir hefðu samið um að Heimir myndi vinna fyrir stefnda í eigin nafni og á svipuðum kjörum og hann hafði unnið fyrir fyrri eiganda Pizzahallarinnar.

Í ljósi alls framangreinds er það stefnda sem ber sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu að Heimir Jóhannsson hafi tekið að sér umrædd verk fyrir félagið í eigin nafni en ekki nafni stefnanda.  Stefnda hefur hins vegar engin haldbær gögn lagt fram til stuðnings þessari fullyrðingu og þá fær hún ekki stoð í framburði vitna.  Tilvísun félagsins til þess að Heimir hafi unnið í eigin nafni við tölvukerfi Pizzahallarinnar fyrir fyrri eiganda getur engu um þetta breytt enda ósannað að til staðar hafi verið samningur milli Heimis og fyrri eiganda Pizzahallarinnar sem hinir nýju eigendur hafi gengið inn í, en á því var byggt af hálfu stefnda við munnlegan málflutning.  Stefnandi er því réttur aðili máls þessa.

Stefnda hefur ekki gert tilraun til að hnekkja þeirri tímaskráningu sem fram kemur í reikningum stefnanda.  Stefán Torfi Höskuldsson, en hann er eigandi hugbúnaðar þess er um ræðir í málinu, svaraði því til er reikningar og tímaskýrslur stefnanda voru bornar undir hann fyrir dómi að hann sæi ekki betur en gögnin bæru með sér tímafjölda sem væri ekki fjarri lagi fyrir umrædd verk, að því skilyrði uppfylltu að tölvukerfið virkaði að verkunum loknum.  Að framansögðu athuguðu þykir við úrlausn málsins verða að miða við umrædda tímaskráningu stefnanda.

Heimir Jóhannsson fullyrti fyrir dómi að tölvukerfi Pizzahallarinnar hefði verið lagi er hann lauk vinnu við það, en samkvæmt fylgiskjölum með reikningum stefnanda var það 23. febrúar 2002.  Í málinu hefur stefnda hins vegar haldið því fram að kerfið hafi ekki virkað og hefur félagið lagt fram bréf frá Stefáni Erni Viðarssyni, starfsmanni Geislasteins ehf., máli sínu til stuðnings.  Í bréfi Stefáns Arnar, sem ekki kom fyrir dóm í málinu, kemur ekki fram hvenær hann hafi komið að vinnu við tölvukerfið og þá verður það jafnframt ekki ráðið af framlögðum reikningum fyrirtækis hans Geislasteins ehf., en útgáfudagur reikninganna er 14. maí 2002.  Þessu til viðbótar verður ekki fram hjá því litið að þeir sérfræðingar á því sviði er hér um ræðir sem unnu við tölvukerfi Pizzahallarinnar á fyrri hluta árs 2002, þ.e. Heimir Jóhannsson og Stefán Örn Viðarsson, virðast á öndverðum meiði um ástand kerfisins.  Mátti stefnda því vera ljóst að hygðist félagið bera fyrir sig að verk stefnanda hefði verið haldið alvarlegum göllum og að frá því hefði verið horfið óloknu yrði það skv. meginreglum fjármunaréttar að tryggja sér sönnun á nefndum fullyrðingum, eftir atvikum með dómkvaðningu matsmanna, skv. IX. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Það lét stefnda hins vegar undir höfuð leggjast og verður félagið að bera hallan af því.

Í málinu liggur ekki fyrir sönnun þess að samið hafi verið um sérstakt tímagjald fyrir vinnu starfsmanna stefnanda í þágu stefnda.  Í munnlegum málflutningi mótmælti stefnda því tímagjaldi er fram kemur á reikningum stefnanda sem allt of háu.  Félagið vísaði hins vegar hvorki til réttarheimilda né haldbærra gagna til stuðnings kröfu sinni um lækkun gjaldsins.  Að þessu athugðu þykir verða að dæma stefnda til að greiða stefnanda það tímagjald sem félagið krefst.

Samkvæmt öllu framansögðu dæmist stefnda til að greiða stefnanda fjárhæð hinna umdeildu reikninga, samtals kr. 533.296,- ásamt dráttarvöxtum af kr. 303.033,- frá 25. febrúar 2002 til 25. mars 2002, en af kr. 533.296,- frá þeim degi til greiðsludags.

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, dæmist stefnda til að greiða stefnanda málskostnað er hæfilega telst ákvarðaður kr. 140.000,-.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefnda, E. Gullborg ehf., greiði stefnanda, Þekkingu-Tristan hf., kr. 533.296,- ásamt dráttarvöxtum af kr. 303.033,- frá 25. febrúar 2002 til 25. mars 2002 en af kr. 533.296,- frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda kr. 140.000,- í málskostnað.