Hæstiréttur íslands
Mál nr. 97/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Samaðild
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2013. |
|
Nr. 97/2013.
|
Brynjólfur Jónsson John Francis Zalewski Sæmundur Kristján Þorvaldsson Lúðvík Emil Kaaber og Tré ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Margréti Rakel Hauksdóttur og Áslaugu Sólbjörtu Jensdóttur (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Samaðild. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli B o.fl. gegn M og Á var vísað frá dómi á þeirri forsendu að skilyrði samaðildar skv. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri ekki uppfyllt í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að B o.fl. ættu í óskiptri sameign jarðirnar K og H og gerðu í málinu kröfu á hendur M og Á, á grundvelli 5. gr. girðingarlaga nr.131/2001, sem ættu land að girðingarstæði lands þeirra. Yrði því ekki annað séð en að B o.fl. ættu óskiptan rétt og að þeim hefði borið að standa saman að málsókninni á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, eins og þeir gerðu. Var því ekki talið að þeir annmarkar væru á aðild málsins eða reifun þess af hálfu B o.fl. að varðaði frávísun frá héraðsdómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 23. janúar 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau þess að „niðurstöðu úrskurðar um greiðslu málskostnaðar verði hrundið.“ Í greinargerð sinni til Hæstaréttar krefjast sóknaraðilar þess að ,,ákvörðun um kærumálskostnað bíði efnisdóms“ en jafnframt er krafist kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður verði felldur niður.
Sóknaraðilar, Brynjólfur, John, Lúðvík og Sæmundur keyptu árið 2007 jarðirnar Klukkuland og Hólakot í Ísafjarðarbæ, til skógræktar. Jarðirnar eiga landamerki að Minni-Garði, Læk og Núpi. Jarðirnar eru í óskiptri sameign sóknaraðila og á sóknaraðilinn Lúðvík 50% hlut en sóknaraðilarnir Brynjólfur, John og Sæmundur eiga hver um sig 16% hlut. Til þess að forða ágangi fjár frá skógrækt á jörðum sóknaraðila, töldu sóknaraðilar sig þurfa að girða af jarðir sínar gagnvart jörðinni Núpi og lögðu í það kostnað sem reikningar þeir sem lagðir hafa verið fram í máli þessu, eiga rót að rekja til.
Sóknaraðilar gera í málinu óskipta fjárkröfu á hendur varnaraðilum og byggja málsókn sína á því að varnaraðilum sé að lögum skylt að taka þátt í kostnaði vegna girðingar sbr. 5. gr. girðingarlaga nr. 135/2001. Þá verður ráðið af stefnu að stefnufjárhæðin sé helmingur samtölu tíu reikninga, sem gefnir voru út á tímabilinu frá 25. maí til 31. júlí 2011, auk helmings svokallaðs umsjónarkostnaðar. Sóknaraðilar gera allir þá aðalkröfu í málinu að varnaraðilar verði óskipt dæmdar til að greiða þeim tiltekna fjárhæð auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Varakrafa sóknaraðila er að varnaraðilar greiði sóknaraðilum, öllum nema Tré ehf., sömu fjárhæð og í aðalkröfu. Í stefnu var sameiginleg aðild sóknaraðila allra að fjárkröfu þessari ekki rökstudd með neinum hætti, en um aðild að varakröfu var vísað til þess að þeir væru eigendur jarðanna.
Samkvæmt 5. gr. girðingarlaga hefur umráðamaður lands rétt til að krefjast þess að sá eða þeir sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði greiði girðingarkostnað að jöfnu að tiltölu við lengd girðingar fyrir landi hvers og eins og er það meginreglan. Þó er hægt að semja um aðra skiptingu nái aðilar um það samkomulagi. Samkvæmt þinglýsingarvottorðum sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt eru sóknaraðilar sameigendur jarðanna Hólakots og Klukkulands og reikningar þeir sem kröfugerð sóknaraðila byggist á eru vegna girðingarframkvæmda sem sóknaraðilar stóðu að til að forða ágangi fjár frá aðliggjandi jörð, Núpi, en varnaraðilar eru eigendur þeirrar jarðar.
Með því að sóknaraðilarnir, Brynjólfur, John, Sæmundur og Lúðvík eiga ofangreindar jarðir í óskiptri sameign og gera, á grundvelli 5. gr. girðingarlaga kröfu á hendur þeim sem land eiga að girðingarstæði lands þeirra, verður ekki annað séð en að þeir eigi óskiptan rétt og hafi borið að standa saman að málsókn þessari á grundvelli 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 eins og þeir og gerðu. Aðild Trjáa ehf. að málsókn á hendur varnaraðilum hefur hins vegar ekki verið skýrð með fullnægjandi hætti af hálfu sóknaraðila, en aðildarskortur leiðir til sýknu, ef krafist er, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Varnir sem lúta að sönnun dómkrafna, tilgreiningu málsástæðna og lagaraka tilheyra efnisþætti málsins. Verður samkvæmt framangreindu ekki talið að þeir annmarkar séu á aðild málsins eða reifun þess af hálfu sóknaraðila að varði frávísun frá héraðsdómi. Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Sóknaraðilar hafa uppi í máli þessu ósamrýmanlegar kröfur um kærumálskostnað, þar sem þess er hvort tveggja krafist að ákvörðun um kærumálskostnað bíði efnisdóms, en einnig kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila. Kærumálskostnaður verður því ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 23. janúar 2012.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. desember sl., höfðuðu stefnendur, Brynjólfur Jónsson, Vogatungu 18, Kópavogi, John Francis Zalewski, Lundahólum 5, Reykjavík, Sæmundur Kristján Þorvaldsson, Lyngholti, Dýrafirði, Lúðvík Emil Kaaber, Brekkusmára 3, Kópavogi, og skógræktarfélagið Tré ehf., kt. 661007-2650, hinn 8. maí 2012, gegn stefndu, Margréti Rakel Hauksdóttur, Góuholti 5, Ísafirði, og Áslaugu Sólbjörtu Jensdóttur, Bústaðavegi 73, Reykjavík.
Samkvæmt stefnu eru kröfur stefnenda í málinu eftirfarandi:
Aðallega: Að stefndu verði in solidum dæmdar til þess að greiða stefnendum 2.165.824 krónur með dráttarvöxtum af 683.865 krónum frá 24. ágúst 2011 til 18. september 2011, af 724.069 krónum frá þeim degi til 22. september 2011, en af 2.164.824 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara: Að stefndu greiði in solidum stefnendum Brynjólfi Jónssyni, John Francis Zalewski, Lúðvík Emil Kaaber og Sæmundi Kristjáni Þorvaldssyni 2.165.824 krónur með dráttarvöxtum af 683.865 krónum frá 24. ágúst 2011 til 18. september 2011, af 724.069 krónum frá þeim degi til 22. september 2011, en af 2.164.824 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Í báðum tilvikum krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu.
Þá krefjast stefnendur þess að kröfu stefndu um frávísun málsins verði hrundið. Tók lögmaður stefnenda sérstaklega fram við munnlegan málflutning um þá kröfu að gerð væri krafa um málskostnað vegna frávísunarkröfunnar, en að ákvörðun um hann biði efnisdóms í málinu. Yrði fallist á kröfu stefndu um frávísun að hluta krefðust stefnendur þess að málskostnaður félli niður í frávísunarþætti málsins.
Kröfur stefndu eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnenda, en til þrautavara að dómkröfur stefnenda verði lækkaðar mjög verulega. Í öllum tilvikum krefjast stefndu, hvor um sig, málskostnaðar in solidum úr hendi stefnenda.
Hér er til úrlausnar frávísunarkrafa stefndu sem þær settu fram í greinargerð sinni, dagsettri 27. ágúst 2012. Fór fram munnlegur málflutningur 7. desember sl. og var málið tekið til úrskurðar um kröfuna að honum loknum samkvæmt áðursögðu.
I.
Stefndu benda á að stefnendur í málinu séu fjórir einstaklingar og eitt einkahlutafélag. Allir geri þeir í málinu þá aðalkröfu, ósundurgreint, að stefndu verði in solidum dæmdar til að greiða þeim tiltekna fjárhæð, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Ekki sé sundurliðað hvað hverjum stefnenda beri af hinni umstefndu fjárhæð, en þó sé ljóst af framlögðum dómskjölum (merktum nr. 26 til 35) að kostnaðartölur þar tilheyri ýmsum í hópi stefnenda, og jafnvel aðilum utan þess hóps, sbr. framlagða reikninga, dagsetta 15. og 26. júlí 2011, sem gefnir hafi verið út á Skógræktarfélag Íslands annars vegar og AJ-Verktaka hins vegar. Aðallega tilheyri umræddar kostnaðartölur þó stefnandanum skógræktarfélaginu Trjám ehf.
Stefndu segja hvorutveggja vandséð að stefnendur eigi óskipt umkrafin réttindi, svo að þeir geti allir að lögum rekið mál þetta með óskiptri aðild, þ.e. samaðild, og hvernig fjórir stefnendanna geti í varakröfu sinni gert óskipt tilkall til meintrar fjárkröfu á hendur stefndu, sem stefnandanum skógræktarfélaginu Trjám ehf. virðist tilheyra að mestu leyti, eða jafnvel öllu, samkvæmt framlögðum gögnum og eins og atvikum máls sé háttað.
Þá segja stefndu með engum hætti útskýrt í stefnu hvort eða hvernig stefnendur geti farið fram með málið í krafti réttarheimilda um samlagsaðild, fremur en á grundvelli reglna um samaðild. Sé málið verulega vanreifað bæði að þessu leyti og öðru.
Kröfu sína um frávísun kveðast stefndu í fyrsta lagi byggja á því að stefnendur eigi ekki óskipt réttindi í málinu og því séu ekki uppfyllt skilyrði samaðildar skv. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið sæti því frávísun hvort sem er að kröfu eða ex officio.
Í annan stað byggi frávísunarkrafa stefnu á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, enda verði ekki séð að skilyrði laganna um samlagsaðild séu uppfyllt, svo sem málið sé fram sett. Það leiði og til frávísunar að kröfu.
Í þriðja lagi reisi stefndu kröfu sína um frávísun málsins á því að málið sé verulega vanreifað, bæði hvað varðar aðild og þau atriði er tiltekin séu í d-, e- og f-liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Málið sé af þeim sökum ekki dómtækt og því beri að vísa málinu frá dómi að kröfu stefndu, ef ekki ex officio.
II.
Við munnlegan málflutning mótmæltu stefnendur frávísunarkröfu stefndu og þeim röksemdum sem krafan byggist á.
Stefnendur segja stefndu tjalda öllu til svo ekki verði tekið efnislega á málinu. Sakarefni þess sé hins vegar skýrt, svo sem meðal annars megi ráða af ítarlegri greinargerð stefndu sjálfra. Aðild málsins til sóknar sé einnig skýr og ljós. Um sé að ræða óskipta samaðild fjögurra aðila sem í sameiningu eigi þann fimmta, þ.e. skógræktarfélagið Tré ehf. Taka stefndu fram að þó svo talið verði að aðild félagsins sé ofaukið leiði það eitt ekki til frávísunar málsins. Þá verði alls ekki fram hjá því litið að aðildarskortur sé sýknuástæða og komi því alls ekki til skoðunar í þessum þætti málsins.
Að lokum mótmæla stefnendur málskostnaðarkröfu stefndu, bæði réttmæti hennar og fjárhæð. Taka stefnendur sérstaklega fram að málinu verði ekki vísað frá vegna meintrar vanreifunar á málskostnaðarkröfu stefnenda. Slík niðurstaða væri ótæk.
III.
Samkvæmt stefnu byggja stefnendur málsókn sína á því að stefndu sé að lögum skylt að taka þátt í kostnaði vegna girðingar sem reist hafi verið við Núpsá í landi jarðarinnar Klukkulands, sbr. 5. gr. girðingalaga nr. 135/2001. Í stefnu er upplýst að stefnandinn Lúðvík sé helmingseigandi að jörðinni en meðstefnendur Brynjólfur, John og Sæmundur eigi hver um sig einn sjötta hluta hennar.
Af stefnu verður ráðið að stefnufjárhæðin sé helmingur samtölu tíu reikninga, sem gefnir voru út á tímabilinu frá 25. maí til 31. júlí 2011, auk helmings svokallaðs umsjónarkostnaðar, en sá kostnaður er í bréfi eins stefnenda til stefndu frá 22. ágúst 2011 sagður „... fólginn í skipulagningu girðingarinnar og athugun á aðstæðum, valkostum og möguleikum, bréfaskriftum og samskiptaviðleitni, leit að verktaka og efnisseljendum og athugun og samanburði á kjörum þeirra, viðræðum og samningaumleitunum við verktaka og efnisseljendur, efnisleit, efnisöflun, efnisgeymslu og efnisflutningi, bókhaldi, skjalavörzlu og greiðsluumsjón, og því að fylgjast með framvindu verksins og veita verktakanum aðstoð og aðhald eftir mætti.“
Aðalkrafa stefnenda í málinu er sú að stefndu verði dæmdar óskipt til að greiða þeim 2.165.824 krónur, auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Varakrafan er samhljóða að því undanskildu að hún er gerð af hálfu stefnendanna Lúðvíks, Brynjólfs, John og Sæmundar, ekki Trjáa ehf. Í stefnu er ekki sundurliðað hvað hverjum stefnenda beri af stefnufjárhæðinni.
Eigi fleiri en einn óskipt réttindi eiga þeir óskipta aðild skv. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefndu var af hálfu stefnenda skýrlega tekið fram, sbr. kafla II hér að framan, að stefnendur rækju mál þetta á þeim grunni að um óskipta samaðild þeirra væri að ræða. Hins vegar verður ekki annað séð en þau mögulegu og tengdu réttindi sem stefnendur gera kröfu um í máli þessu á grundvelli 5. gr. girðingalaga nr. 135/2001, þ.e. hlutdeild hvers og eins þeirra í fjárkröfu að upphæð 2.165.824 krónur, sbr. bæði aðal- og varakröfur stefnenda, megi auðveldlega aðskilja í sjálfstæðar einingar. Að þessu virtu þykja ekki vera uppfyllt í málinu skilyrði samaðildar skv. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá verður ekki talið, svo sem stefnendur hafa kosið að haga kröfugerð sinni, er þeir sáu ekki ástæðu til að gera breytingar á þrátt fyrir framkomna kröfu stefndu um frávísun, að kröfugerð þeirra sé dómtæk í áðurlýstu horfi á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Á dómurinn því ekki annan kost en vísa málinu frá dómi að kröfu stefndu.
Samkvæmt framangreindri niðurstöðu dómsins, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, ber að úrskurða stefnendur til að greiða hvorri stefndu um sig málskostnað óskipt, sem hæfilega telst ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Brynjólfur Jónsson, John Francis Zalewski, Sæmundur Kristján Þorvaldsson, Lúðvík Emil Kaaber og skógræktarfélagið Tré ehf., greiði stefndu, Margréti Rakel Hauksdóttur og Áslaugu Sólbjörtu Jensdóttur, óskipt og hvorri um sig, 450.000 krónur í málskostnað.