Hæstiréttur íslands
Mál nr. 805/2017
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Uppgjör
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Arngrímur Ísberg héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. desember 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 11.346.630 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur og 24. október 2017 að fjárhæð 3.497.780 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst sýknu af kröfu áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir uppsögu hins áfrýjaða dóms greiddi stefndi áfrýjanda 24. október 2017 í samræmi við dómsorð 4.691.688 krónur, þar með talið dráttarvexti, 193.908 krónur, og málskostnað, 1.000.000 krónur, til viðbótar þeim 2.763.430 krónum, sem stefndi innti af hendi til áfrýjanda 1. febrúar 2016 og tilgreindar eru í dómsorði. Krafa áfrýjanda hér fyrir rétti er um það sem eftir stendur af kröfu hans fyrir héraðsdómi, en sýknukrafa stefnda byggist á því að hann hafi þegar greitt áfrýjanda í samræmi við hinn áfrýjaða dóm.
Eins og lýst er í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir tjóni á veiðihúsi sínu við Rangá af völdum vatnsleka, en stefnda var tilkynnt 16. febrúar 2015 um tjónið. Óumdeilt er að stefndi viðurkenndi bótaskyldu úr húseigendatryggingu, sem hann hafði veitt áfrýjanda. Aðilar sammæltust um að Guðmundur Stefán Sigurbjörnsson húsasmíðameistari tæki að sér viðgerð á veiðihúsinu, en þeir deila á hinn bóginn um hvort stefndi hafi samþykkt án fyrirvara að greiða fyrir verkið samkvæmt reikningi húsasmíðameistarans, sem upphaflega var að fjárhæð 11.800.321 króna. Stefndi heldur því fram að á honum hvíli aðeins skylda til að greiða vátryggingarbætur í samræmi við skilmála vátryggingarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skilmála um húseigendatryggingu, sem í gildi var milli aðila á tjónsdegi, skyldu bætur miðast við, að svo miklu leyti sem unnt væri, að húseignin yrði ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið. Þá sagði í 3. mgr. greinarinnar að bótafjárhæðir skyldu taka mið af kostnaði við viðgerð á hinni vátryggðu húseign og væri félaginu í sjálfsvald sett hvort það bætti tjón með peningagreiðslu eða greiddi kostnað af fullnægjandi viðgerð á hinu vátryggða. Þegar um peningagreiðslu væri að ræða næmi fjárhæð bóta að hámarki þeirri fjárhæð, sem félagið hefði greitt fyrir viðgerð eða enduröflun hins vátryggða.
Ósannað er af hálfu áfrýjanda að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða kostnað við viðgerð á veiðihúsinu í samræmi við reikning áðurnefnds húsasmíðameistara, óháð því hvort hann samrýmdist skyldum stefnda samkvæmt vátryggingarskilmálum. Fyrir liggur að áfrýjandi aflaði undir rekstri málsins í héraði mats dómkvadds manns á tjóninu og kostnaði við að bæta úr því og að stefndi samþykkti við aðalmeðferð þess að bæta áfrýjanda tjón sitt í samræmi við niðurstöðu matsgerðarinnar. Þá er sem fyrr segir fram komið í málinu að stefndi hefur greitt áfrýjanda bætur milli dómstiga í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfu áfrýjanda, Lax-ár ehf.
Áfrýjandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2017.
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 31. maí 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 14. september sl. Stefnandi er Lax-á ehf., Akurhvarfi 16, Kópavogi. Stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanleg krafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 11.346.630 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika
Stefnandi er eigandi að veiðihúsi við Ytri-Rangá með fastanúmerið 228-5677, merkt 020101. Tjón varð á eigninni og innbúnaði hennar hinn 12. febrúar 2015 vegna þess að vatnslagnir í fjórum herbergjum hússins sprungu vegna frosts og vatn flæddi frá þeim, með þeim afleiðingum að viður í húsinu bólgnaði og skápar, gólf, loft og veggir skemmdust. Stefnandi var með vátryggingar hjá stefnda samkvæmt eignatryggingaskírteini nr. 1895485, húseigendatryggingarskírteini nr. 1895489 og brunatryggingarskírteini nr. 1895491. Er ekki ágreiningur um að stefnandi eigi rétt á bótum úr húseigendatryggingu stefnda vegna þessa tjóns.
Fyrirsvarsmaður stefnanda tilkynnti stefnda um tjónið þann 16. febrúar 2015. Hinn 19. sama mánaðar var veiðihúsið skoðað af Oddgeiri Sæmundi Sæmundssyni, matsmanni og starfsmanni stefnda. Viðstaddur skoðunina var Guðmundur Sigurbjörnsson húsasmíðameistari, tilkvaddur af stefnanda. Eftir fundinn hófst Guðmundur handa við viðgerðir eftir lekann. Guðmundur mun fljótlega hafa orðið þess áskynja að umfang tjónsins væri meira en ætlað var. Oddgeir skoðaði veiðihúsið á ný hinn 6. mars 2015 að Guðmundi viðstöddum.
Málsaðila greinir á um hvað hafi farið Oddgeiri og Guðmundi á milli á þessum fundum. Stefnandi byggir á því að á fundinum 19. febrúar 2015 hafi Oddgeir innt Guðmund eftir því hvort hann gæti sinnt viðgerðum og lagfæringum eftir lekann, stefnandi myndi leggja út fyrir öllum viðgerðarkostnaði og stefnandi myndi því næst krefja stefnda um greiðslu. Guðmundur hafi getað sinnt því verki og hafi þeir Oddgeir bundist fastmælum að sá háttur yrði á hafður. Stefnandi segir að þannig hafi stefnandi og stefndi áður samið um uppgjör bóta. Stefnandi fullyrðir einnig að á fundinum 6. mars 2015 hafi Oddgeir samþykkt að Guðmundur héldi áfram verkinu. Stefndi mótmælir þessari lýsingu og fullyrðir að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að Guðmundur tæki að sér verkið og hafi stefndi orðið við þeirri beiðni. Stefndi hafnar því einnig að Oddgeir og Guðmundur hafi samið um uppgjör bóta með þeim hætti sem stefnandi byggir á.
Guðmundur mun hafa lokið viðgerðum á veiðihúsinu í október 2015. Í kjölfarið sendi stefnandi stefnda reikning hinn 8. október 2015 fyrir þeim kostnaði sem hann kveðst hafa haft af vinnu Guðmundar og undirverktaka og efniskaupum. Reikningurinn er að fjárhæð 11.800.321 króna, en þar af eru 110.000 krónur vegna húsbúnaðar sem stefndi hefur þegar bætt stefnanda. Fyrrnefndur Oddgeir vann í kjölfarið matsgerð, dags. 11. nóvember 2015, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kostnaður við viðgerð næmi 2.763.430 krónum. Hinn 1. febrúar 2016 greiddi stefndi stefnanda þá fjárhæð.
Að beiðni stefnanda var Auðunn Elíson, byggingafræðingur og húsasmíðameistari, dómkvaddur sem matsmaður undir rekstri málsins. Matsgerð hans er dagsett 18. mars 2017 og mun hafa verið kynnt stefnda 28. sama mánaðar. Niðurstaða hins dómkvadda matsmanns er á þá leið að eðlilegur kostnaður stefnanda við viðgerð á veiðihúsinu, miðað við að stefnandi hafi annast viðgerðina sjálfur og miðað við að húseignin hafi eftir viðgerð orðið ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið, sé samtals 7.763.900 krónur með virðisaukaskatti, miðað við verðlag í mars 2017, eða 6.261.210 krónur án virðisaukaskatts.
Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi upphaflega dómkröfu sína, sem var 11.690.321 króna, um samtals 343.691 krónu, þar sem láðst hefði að draga virðisaukaskatt frá vinnureikningum fyrir málun og dúklögn, vegna þess að reikningur frá IKEA að fjárhæð 137.700 krónur félli undir innbú, og vegna þess að eigin áhætta við vatnstjón væri 32.100 krónur. Við aðalmeðferð málsins lýsti lögmaður stefnda því yfir að fallist væri á niðurstöður dómkvadds matsmanns og stefndi væri reiðubúinn að gera upp tjón stefnanda samkvæmt matsgerð eða greiða 6.261.210 krónur, að frádreginni innborgun stefnda 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur. Þar sem fjárhæðir samkvæmt matsgerð séu miðaðar við mars 2017 eigi vextir ekki að reiknast fyrr en mánuði eftir að matsgerð lá fyrir.
Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Valgerður F. Baldursdóttir, stjórnarformaður stefnanda. Einnig gáfu skýrslu vitnin Guðmundur Sigurbjörnsson og Oddgeir Sæmundur Sæmundsson og Auðunn Elísson, dómkvaddur matsmaður.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir aðallega á því að samkomulag hafi orðið með stefnda og stefnanda um að Guðmundur Sigurbjörnsson húsasmíðameistari myndi annast viðgerðir á áðurnefndu veiðihúsi, að stefnandi myndi leggja út fyrir öllum kostnaði samfara þeirri vinnu og endurkrefja síðan stefnda um allan viðgerðarkostnaðinn. Byggir stefnandi á því að það samkomulag hafi fulltrúar beggja samningaaðila, Guðmundur Sigurbjörnsson fyrir hönd stefnanda og Oddgeir Sæmundur Sæmundsson fyrir hönd stefnda, gert hinn 19. febrúar 2015, þegar skoðun þeirra á skemmdum á veiðihúsinu fór fram. Þeir hafi síðan fyrir hönd málsaðila gert með sér viðbótarsamkomulag um að sami háttur yrði hafður á, þegar Guðmundur hafi kallað Oddgeir til sín á staðinn til að skoða og meta frekari skemmdir sem þá höfðu komið í ljós á húsinu hinn 6. mars 2015. Bæði Guðmundur og Oddgeir hafi haft umboð málsaðila til að semja þannig um frágang málsins samkvæmt stöðuumboðum, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Krafa stefnanda er byggð á framlögðum reikningi stefnanda til stefnda og raunverulegum kostnaði við viðgerðir á veiðihúsinu.
Stefnandi vísar til þess að stefndi geti ekki byggt á því að Oddgeir hafi ekki haft umboð sitt til samningsgerðarinnar. Með vísun til almennra skyldna stefnda sem vátryggingafélags gagnvart viðsemjanda sínum og sérstaklega ákvæðis 2. mgr. 69. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, beri stefndi halla af því ef vafi leiki á því hvort slíkur samningur hafi náðst með aðilum eða ekki. Stefnandi telur að líkur séu til þess að samningur hafi náðst með aðilum um að tjón stefnanda yrði gert upp með þessum hætti þegar virt sé að matsgerð Oddgeirs sé samin í nóvember 2015, þegar stefnandi hafði sent stefnda reikning sinn. Gefi auga leið að Oddgeir hafi ekki talið sig þurfa að semja matsgerðina eftir að samningar náðust með honum og Guðmundi 19. febrúar 2015. Stefnandi vísar einnig til þess að stefnandi og stefndi hafi áður haft sama hátt á við uppgjör bóta úr vátryggingum stefnanda hjá stefnda. Stefnandi hafi því verið í góðri trú um að þannig hefði samist um með aðilum þegar Guðmundur Sigurbjörnsson hóf viðgerðarvinnu sína.
Til vara byggir stefnandi á því að stefnda beri að greiða honum vátryggingarbætur að sömu fjárhæð. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi viðurkennt að honum beri að greiða stefnanda vátryggingarbætur vegna umrædds tjóns. Stefanndi vísar til framlagðra tölvupóstsamskipta málsaðila, fyrirvaralausrar innborgunar stefnda og framlagðra matsgerða. Stefnda sé skylt að greiða stefnanda fullar bætur á grundvelli framlagðra tryggingaskírteina og sé í því efni vísað til greiðsluskyldu stefnda samkvæmt. 35. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. Stefnandi telur að vátryggingarbætur honum til handa verði réttilega ákvarðaðar á grundvelli þeirra vinnulauna og efniskostnaðar sem stefnandi hafi greitt vegna viðgerðar Guðmundar Sigurbjörnssonar á veiðihúsinu. Stefnandi hafi með reikningsgerð sinni og sundurliðun raunkostnaðar við viðgerðir á veiðihúsinu lagt fullnægjandi upplýsingar fyrir stefnda til þess að hann geti greitt út vátryggingabætur til hans á grundvelli 47. gr. laga nr. 30/2004. Stefnandi geti ekki fallist á að til grundvallar bótauppgjöri verði lögð matsgerð Oddgeirs Sæmundssonar frá nóvember 2015, enda ljóst að hún byggi einungis á minnispunktum hans frá skoðun hinn 19. febrúar 2015 og þar sé í engu getið um viðbótarskoðun á tjóni sem hann framkvæmdi síðar eftir að frekara tjón kom í ljós.
Þess sé krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015, en þá var liðinn mánuður frá því að stefnandi sendi stefnda reikning sinn, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga.
Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að honum beri aðeins að greiða raunverulegt fjártjón stefnanda, þ.e. þann kostnað sem nemi raunverulegum kostnaði við endurbætur. Ekki sé ágreiningur um að stefnandi eigi rétt á bótum úr húseigendatryggingu hjá stefnda.
Stefndi hafnar því að samkomulag hafi náðst með málsaðilum um að stefndi myndi greiða meintan raunkostnað Guðmundar Sigurbjörnssonar við viðgerðir á áðurnefndu veiðihúsi í samræmi við útgefna reikninga, óháð fjárhæð þeirra. Þegar Oddgeir Sæmundur Oddgeirsson og Guðmundur hittust á tjónsstað 16. febrúar 2015 og 6. mars sama ár til að meta umfang tjónsins hafi ekki annað farið fram þeirra í millum en óformlegar samræður um umfang tjónsins, auk þess sem Oddgeir hafi fallist á að Guðmundur tæki að sér viðgerð fyrir hönd stefnanda.
Aðilar málsins hafi áður samið um að vátryggingarfjárhæð og uppgjör bóta færi eftir ákvæðum vátryggingarskírteinis og gildandi vátryggingarskilmála. Í 1. mgr. 13. gr. sameiginlegra skilmála húseigendatryggingar segi að bætur skuli miðast við, að svo miklu leyti sem unnt sé, að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skuli bótafjárhæð taka mið af kostnaði við viðgerð á hinni vátryggðu húseign. Stefnda sé í sjálfsvald sett hvort hann bæti tjón með peningagreiðslu eða greiði kostnað af fullnægjandi viðgerð á hinu vátryggða. Þegar peningagreiðsla sé innt af hendi skuli fjárhæð bóta nema að hámarki þeirri fjárhæð sem stefndi hefði greitt fyrir viðgerð eða enduröflun hins vátryggða. Þá sé kveðið á um uppgjör vatnstjóns í 4. gr. sérskilmála fyrir Vatnstjón A. Þar segi að vátryggingarbætur miðist við sannanlegar vatnsskemmdir á hinni vátryggðu húseign. Bætur greiðist fyrir kostnað við uppbrot og rask sem sé óhjákvæmilegt til þess að komast fyrir leka, svo og frágang að nýju vegna aðgerða þannig að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjón. Ekki sé þó bættur sá hlutur eða hluti sem tjóninu olli.
Framangreindir tjónaskilmálar byggi á þeirri meginreglu skaðabótaréttar og vátryggingaréttar að tjónþoli skuli vera eins settur fyrir og eftir tjón. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um uppgjör bóta með öðrum hætti. Gera verði ríkar kröfur um þá sönnun í ljósi þess að áður hafi verið samið um að uppgjör bóta skyldi fara samkvæmt skilmálum húseigendatryggingar. Stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun. Þegar aðilar máls áttu í viðræðum um aðkomu matsmanna að bótauppgjöri hafi stefnandi ekki minnst á hið meinta samkomulag um uppgjör bóta. Það hafi fyrst verið með bréfi, dags. 24. febrúar 2016, sem stefnandi hafi haldið fram slíku samkomulagi. Í öllu falli hafi hvorki Oddgeir né Guðmundur haft umboð til að semja um uppgjör bóta með öðrum hætti en kveðið sé á um í framangreindum tryggingarskírteinum og tryggingarskilmálum.
Stefndi vísar til sömu málsástæðna fyrir varakröfu sinni eftir því sem við eigi. Jafnframt vísar stefndi til þeirrar almennu reglu að þeim sem greiðir skaðabætur verði ekki gert að bæta nýtt fyrir gamalt. Ætla verði að einhver verðmætaaukning hafi átt sér stað við endurbætur á umræddu veiðihúsi og beri að draga þá aukningu frá bótum. Geti stefnandi nýtt kostnað vegna tjóns til skattafrádráttar eða eigi rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna tjónsins beri að lækka bætur sem því nemi. Loks beri að draga frá kostnað vegna endurbóta við hinar sprungnu vatnslagnir, þar sem ekki skuli bæta þann hlut er tjóninu olli.
Niðurstaða
Ekki er um það deilt að stefnandi á rétt á bótum úr hendi stefnda vegna vatnstjóns sem varð í veiðihúsi stefnanda við Ytri-Rangá hinn 12. febrúar 2015. Stefnandi byggir aðallega á því að um hafi samist með Guðmundi Sigurbjörnssyni húsasmíðameistara fyrir hönd stefnanda og Oddgeiri Sæmundi Sæmundssyni fyrir hönd stefnda hinn 19. febrúar 2015 og aftur 6. mars sama ár að stefndi myndi greiða allan kostnað við viðgerðir á veiðihúsinu. Skilja verður málatilbúnað stefnanda á þann veg að komist hafi á munnlegt samkomulag þessa efnis milli Guðmundar og Oddgeirs.
Guðmundur og Oddgeir komu báðir fyrir dóm og gáfu skýrslu. Meðal gagna málsins er yfirlýsing Guðmundar dagsett 24. maí 2016. Guðmundur kvaðst fyrir dóminum staðfesta efni yfirlýsingarinnar, en þar segir að við skoðun veiðihússins hinn 19. febrúar 2015 hafi Oddgeir innt hann eftir því hvort hann gæti sinnt viðgerðum og lagfæringum eftir lekann; stefnandi myndi leggja út fyrir öllum viðgerðarkostnaði og stefndi myndi síðan greiða þann kostnða eftir reikningi stefnanda. Samkomulag hafi orðið með þeim um að hafa þennan hátt á. Þegar Oddgeir hafi komið aftur á staðinn 6. mars 2015 hafi Oddgeir samþykkt að Guðmundur héldi áfram verkinu þótt umfang þess yrði meira en þeir hafi talið í fyrst. Guðmundur skýrði einnig svo frá í skýrslu sinni fyrir dóminum að Oddgeir hafi beðið hann um að sjá um viðgerð á umræddu veiðihúsi.
Í skýrslu sinni fyrir dóminum sagði Oddgeir að við skoðun veiðihússins hinn 19. febrúar 2015 hefði Guðmundur tjáð honum að stefnandi hefði óskað eftir því að hann annaðist viðgerðir á tjóninu og hafi hann ekki gert athugasemd við það. Oddgeir hafi tjáð Guðmundi að hann væri að vinna fyrir stefnanda og skyldi gera honum reikning fyrir vinnu sína. Stefnandi gæti sent stefnda afrit reikningsins, sem stefndi myndi greiða án virðisaukaskatts ef reikningurinn myndi stemma miðað við skoðun á veiðihúsinu. Hinn 6. mars 2015 hafi Oddgeir skoðað veiðihúsið á nýjan leik, þar sem í ljós hefði komið að tjónið væri meira en bara á plastparketi og fataskáp. Það hafi alltaf legið fyrir að reikningur gæti aldrei numið hærri fjárhæð en sem næmi tjóninu. Ef stefndi myndi ákveða að bæta tjón með peningagreiðslu myndi félagið senda sundurliðað tjónamat. Aðspurður hversu langan tíma tæki að vinna slíkt mat nefndi Oddgeir dæmi um að slíkt mat hefði legið fyrir degi eftir skoðun á tjóni.
Í 1. mgr. 13. gr. vátryggingaskilmála stefnda fyrir húseigendatryggingu er kveðið á um að bætur skuli miðast við, að svo miklu leyti sem unnt er, að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal bótafjárhæð taka mið af kostnaði við viðgerð á hinni vátryggðu húseign. Stefnda er í sjálfsvald sett hvort hann bætir tjón með peningagreiðslu eða greiðir kostnað af fullnægjandi viðgerð á hinu vátryggða. Þegar peningagreiðsla er innt af hendi nemur fjárhæð bóta að hámarki þeirri fjárhæð sem stefndi hefði greitt fyrir viðgerð eða enduröflun hins vátryggða. Í skilmálum húseigendatryggingarinnar eru sérskilmálar fyrir Vatnstjón A, sem bætir skemmdir á vátryggðri húseign sem eiga upptök sín innan veggja hússins og stafa eingöngu af ófyrirsjáanlegum, skyndilegum og óvæntum leka úr vatnsleiðslum, hitakerfi eða frárennslislögnum hennar. Í 4. gr. sérskilmálanna segir að vátryggingarbætur miðist við sannanlegar vatnsskemmdir á hinni vátryggðu húseign. Bætur greiðast fyrir kostnað við uppbrot og rask sem er óhjákvæmilegt til þess að komast fyrir leka, svo og frágang að nýju vegna aðgerða þannig að húseignin verði ekki í lakara ástandi en fyrir tjón. Ekki er þó bættur sá hlutur eða hluti sem tjóninu olli.
Ekki er hægt að skilja málatilbúnað stefnanda á annan hátt en að hann telji að samið hafi verið um frávik frá þessum skilmálum. Samkvæmt almennum reglum ber sá, sem heldur því fram að samningur hafi komist á við annan aðila, sönnunarbyrðina fyrir þeirri staðhæfingu. Er ekki fallist á það með stefnanda að stefndi eigi að bera sönnunarbyrði þar um með vísan til 2. mgr. 69. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Af yfirlýsingu Guðmundar og framburði hans og Oddgeirs fyrir dóminum verður ekki skýrlega ráðið að samið hafi verið um slíkt frávik. Gegn mótmælum stefnda er sérstakur samningur aðila í þessa veru því ósannaður. Verður því að skilja samskipti Guðmundar og Oddgeirs á þann veg að samist hafi um að stefndi myndi bæta tjónið með peningagreiðslu, svo sem honum var heimilt að gera samkvæmt áður tilvitnaðri 3. mgr. 13. gr. vátryggingarskilmálanna.
Stefndi sendi stefnanda matsgerð áðurnefnds Oddgeirs, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að kostnaður við viðgerð á tjóninu næmi 2.763.430 krónum, sem var nánar sundurliðað eftir verkþáttum, efni, vinnu og tækjum. Þá voru liðnir um níu mánuðir frá seinni skoðun Oddgeirs. Ekkert er fram komið um að stefndi hafi á fyrra tímamarki veitt stefnanda upplýsingar um það hvernig hann hygðist ákveða fjárhæð bóta. Hefur stefndi enga skýringu veitt á þessum drætti, sem er ekki í samræmi við þá skyldu stefnda samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 30/2004 að sjá til þess að tjónþoli fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt sinn og sundurliðun á því hvernig bætur til hans séu ákveðnar.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2004 á vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt, sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi. Sömu niðurstöðu leiðir af áður tilvitnuðum ákvæðum 1. og 3. mgr. 13. gr. vátryggingarskilmála stefnda og 4. gr. sérskilmála um Vatnstjón A. Með matsgerð dómkvadds matsmanns var komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegur kostnaður stefnanda við viðgerð á veiðihúsinu, miðað við að stefnandi hafi annast viðgerðina sjálfur og miðað við að húseignin hafi eftir viðgerð orðið ekki í lakara ástandi en fyrir tjónið, sé samtals 7.763.900 krónur með virðisaukaskatti, miðað við verðlag í mars 2017, eða 6.261.210 krónur án virðisaukaskatts. Þessari matsgerð hefur ekki verið hnekkt og verður niðurstaða hennar því lögð til grundvallar. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 6.261.210 krónur. Umrædd matsgerð var kynnt stefnda 28. mars 2017. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti frá 28. apríl 2017 til greiðsludags, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Svo sem áður greinir lýsti stefndi því yfir við aðalmeðferð málsins að hann féllist á niðurstöður matsmanns og væri tilbúinn að inna greiðslu af hendi til stefnanda í samræmi við það. Verður og að leggja til grundvallar að þessi afstaða stefnda hafi legið fyrir þegar aðalmeðferð málsins var ákveðin. Þótt dómurinn hafi samkvæmt framangreindu að verulegu leyti fallist á málsástæður stefnda verður hann engu að síður, eftir úrslitum málsins, dæmdur til að greiða stefnanda stærstan hluta málskostnaðar hans, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þ.á m. þann kostnað sem leitt hefur störfum dómkvadds matsmanns. Þykir málskostnaður úr hendi stefnda að þessu virtu hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ásgeir Þór Árnason hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Guðjón Ármannsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Lax-á ehf., 6.261.210 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 6.261.210 krónum frá 28. apríl 2017 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 1. febrúar 2016 að fjárhæð 2.763.430 krónur.
Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.