Hæstiréttur íslands

Mál nr. 851/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur
  • Meðalhóf
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


                                     

Þriðjudaginn 23. desember 2014.

Nr. 851/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Saga Ýrr Jónsdóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar. Meðalhóf. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms, þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002 um útlendinga, með skírskotun til þess að meðalhófs hefði ekki verið gætt.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns til framkvæmdar kæmi ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda varnaraðila aftur til Ítalíu, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. janúar 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í 33. gr. a. laga nr. 96/2002 um útlendinga er kveðið á um þvingunarúrræði til að tryggja framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar samkvæmt 33. gr. laganna og í þeim tilvikum sem ætla má að útlendingur komi sér undan framkvæmd hennar eða hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta. Í 1. málslið 4. mgr. sömu greinar segir að ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar sé heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Í 6. mgr. segir síðan að útlending megi hvorki handtaka né úrskurða í gæsluvarðhald ef það, með hliðsjón af eðli máls og atvikum að öðru leyti, myndi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun eða dómarinn telur fullnægjandi að útlendingurinn sæti þess í stað úrræðum samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Í síðastgreindu ákvæði er mælt fyrir um önnur og vægari úrræði, þar á meðal um skyldu útlendings til að tilkynna sig til lögreglu og halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að reynd hafi verið önnur og vægari úrræði í máli varnaraðila áður en hann var handtekinn 18. desember 2014 og úrskurðaður í gæsluvarðhald degi síðar. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, fæddur [...] 1985, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd frávísunar hans til Ítalíu fer fram, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. janúar 2015 kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 10. janúar 2014 hafi A, fd. [...]1985, ríkisborgari Eþíópíu, sótti um hæli á Íslandi hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Fingraförum hans hafi verið flett upp í Eurodac gagna­grunn­inum þann 21. janúar 2014. Niðurstaða þeirrar leitar hafi gefið samsvörun við mál á Ítalíu árið 2012 og 2013 og einnig við mál í Danmörku árið 2013. Samskipti við yfirvöld á Ítalíu hafi leitt í ljós að varnaraðili hefði stöðu flóttamanns þar í landi; honum hafði þegar verið veitt hæli á Ítalíu.Óumdeilt sé að ítölskum yfirvöldum beri að taka við varnaraðila og standa þar með við alþjóðlegar skuldbindingar sínar gagnvart honum sem flóttamanni.Samþykki þess efnis hafi þegar borist.

Þann 7. mars sl. hafi varnaraðila verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar (UTL) þess efnis að hælisbeiðni hans væri synjað þar sem hann hefði nú þegar stöðu flóttamanns á Ítalíu.Þá hafi einnig verið tekin sú ákvörðun að honum yrði ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Jafnframt skyldi varnaraðila vísað frá landinu eins fljótt og verða mætti. Varnaraðili hafi kært ákvörðun UTL til innanríkisráðuneytisins (IRR).

Þann 22. júlí sl. hafi varnaraðila verið birtur úrskurður IRR þar sem ákvörðun UTL hafi verið staðfest og varnaraðila bæri því að yfirgefa landið.Varnaraðili hafi höfðað mál fyrir dómstólum til ógildingar á ákvörðuninni og óskað eftir frestun réttaráhrifa við IRR á þeim grundvelli. Þann 14. nóvember sl. hafi beiðni um frestun réttaráhrifa verið hafnað.

Þann 27. nóvember sl. hafi alþjóðadeild ríkislögreglustjóra borist tilkynning frá IRR þess efnis að unnið væri að ákvörðun vegna beiðni um endurupptöku á ákvörðun ráðuneytisins um frestun réttaráhrifa.Því væri ekki unnt að framkvæma frávísun samkvæmt ákvörðun á meðan sú beiðni væri til umfjöllunar. Þann 16. desember sl. hafi ákvörðun IRR, dags. 3. desember sl., um að hafna endurupptöku á frestun réttaráhrifa verið birt fyrir varnaraðila.

Þegar varnaraðila hafi verið birt framangreind ákvörðun IRR hafi hann tjáð lögreglufulltrúa hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra og talsmanni sínum að hann hyggðist svipta sig lífi ef hann yrði sendur til Ítalíu, eins og til stóð. Í framhaldinu hafi varnaraðili samþykkt að leita aðstoðar á geðdeild Landspítalans.

Þann 18. desember sl. hafði geðlæknir sá er annaðist varnaraðila samband við lögreglufulltrúa alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra og tjáð honum að varnaraðili yrði útskrifaður af geðdeild þar sem hann væri ekki haldinn geðsjúkdómum. Aðspurður kvað læknirinn varnaraðila vera í mótmælasvelti og hefði ekki neytt matar í 3 daga. Hann sýndi af sér sjálfskaðahegðun og taldi læknirinn varnaraðila geta verið hættulegan sér og umhverfi sínu. Hefði varnaraðili gert tilraun til að leggja eld að úlpu sinni og gæti verið hættulegur öðrum ef hann reyndi íkveikju. Þegar varnaraðila hefði verið tilkynnt um að hann yrði útskrifaður af geðdeild, hefði hann lagst niður í anddyri húsnæðis geðdeildar og neitað að færa sig. Í málinu liggi fyrir vottorð frá geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss, dags. 18. desember 2014.

Í þágu rannsóknar málsins hafi varnaraðili verið handtekinn í gær, 18. desember, með það fyrir augum að fullnægja ákvörðun Útlendingastofnunar. Miðað við það sem að framan sé rakið og m.t.t. gagna málsins verði að ætla að varnaraðili sé mjög mótfallinn því að verða fluttur til Ítalíu og líklegt sé að hann muni reyna að torvelda flutninginn. Það sé því mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að nauðsynlegt sé að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi svo unnt verði að tryggja nærveru hans og framkvæma ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun til Ítalíu.

Með vísan til þess sem að framan sé rakið, framlagðra gagna og 4. mgr. 33. gr. a. laga um útlendinga nr. 96/2002 og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Svo sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila liggur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að varnaraðili skuli fluttur til Ítalíu þar sem  hann hefur stöðu flóttamanns. Sóknaraðili upplýsti í dómi að til stæði að varnaraðili verði sendur þangað 22. desember n.k. eða svo fljótt sem verða má eftir þann tíma.  Með vísan til atvika og hegðunar varnaraðila þegar honum var fyrir skömmu síðan tilkynnt ákvörðun um fyrirhugaðan flutning þykja skilyrði 4. mgr. 33. gr. a laga nr. 96/2002 vera fyrir hendi til að hann sæti gæsluvarðhaldi þar til hann fer úr landi í því skyni að  tryggja framkvæmd flutningsins. Verður krafa lögreglustjóra þar að lútandi því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, X, fæddur [...] 1985, skal sæta gæsluvarðhaldi uns framkvæmd frávísunar hans til Ítalíu fer fram, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. janúar 2015 kl. 16.00.