Hæstiréttur íslands

Mál nr. 56/2006


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. maí 2006.

Nr. 56/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Mohd Bashar Najeh S. Masaid

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Fíkniefnalagabrot.

M var sakfelldur fyrir að hafa í vörslum sínum og móttekið til söludreifingar í ágóðaskyni 245,75 g af amfetamíni, 400 töflur sem innihéldu amfetamín, 106 töflur sem innihéldu blöndu af amfetamíni og metamfetamíni, 50 töflur sem innihéldu MDMA og 100 töflur sem innihéldu blöndu af MDMA og N-ethyl-MDA. Fyrir lá mat sérfræðings að þær amfetamíntöflur sem M hafði í fórum sínum hafi innihaldið um tólffalt magn amfetamínsúlfats miðað við þær amfetamíntöflur sem skráðar væru hér landi til notkunar við lækningar. M átti sér engar málsbætur. Sakarferill hans hafði ekki áhrif á refsiákvörðun eins og á stóð og þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að ákæru verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.

Þrátt fyrir að kröfugerð ákærða sé með framangreindum hætti verður fyrst að fjalla um kröfu hans um frávísun málsins. Málatilbúnaður ákærða verður ekki skilinn á annan veg en að krafa þessi sé á því reist að ákæran sé illskiljanleg. Engin efni eru til að fallast á þessa kröfu ákærða.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða. Ákærði hafði í vörslum sínum og móttók til söludreifingar í ágóðaskyni verulegt magn af hættulegum fíkniefnum. Jakob Líndal Kristinsson, dósent í eiturefnafræðum við Háskóla Íslands, bar fyrir dómi að þær amfetamíntöflur sem ákærði hafði í fórum sínum hafi innihaldið um tólffalt magn amfetamínsúlfats miðað við þær amfetamíntöflur sem skráðar væru hér á landi til notkunar við lækningar. Ákærði á sér engar málsbætur. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár. Til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald hans frá 14. til 19. júlí 2005.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Mohd Bashar Najeh S. Masaid, sæti fangelsi í tvö ár. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald hans frá 14. til 19. júlí 2005.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 356.917 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2005.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 20. október 2005 á hendur:  ,,Mohd Bashar Najeh S. Masi, kt. 151078-2149, jórdönskum ríkisborgara, Dalbraut 1, Reykjavík og A, kt. [...], rússneskum ríkisborgara, sama stað fyrir stórfelld fíkniefnabrot framin í Reykjavík árið 2005:

1)           Ákærða Mohd er gefið að sök að hafa í lok júní eða byrjun júlí við verslunina 10-11 við Barónsstíg 2-4, móttekið af ónafngreindum manni, til söludreifingar í ágóðaskyni, 245,75 g af amfetamíni, 400 töflur sem innihéldu amfetamín, 106 töflur sem innihéldu blöndu af amfetamíni og metamfetamíni, 50 töflur sem innihéldu MDMA og 100 töflur sem innihéldu blöndu af MDMA og N-ethyl-MDA. Fíkniefnin hafði ákærði síðan í vörslum sínum, fyrst á þáverandi heimili sínu og meðákærðu að Laugavegi 67a, en eftir það á veitingastað sínum Purple Onion að Hafnarstræti 18, þar sem lögreglan fann efnið við húsleit mánudaginn 11. júlí falin milli þilja á salerni.

2)           Ákærðu A er gefið að sök að hafa, í lok júní eða byrjun júlí, eftir að hún varð þess vör að meðákærði geymdi framangreind fíkniefni, sem henni var ljóst að væru til sölu í ágóðaskyni, á þáverandi heimili þeirra að Laugavegi 67a, tekið efnin í vörslur sínar og farið með þau á framangreindan veitingastað, þar sem hún geymdi efnin í skáp sem hún hafði til umráða sem starfsmaður á staðnum í að minnsta kosti einn dag. Fór ákærða síðan með fíkniefnin á þáverandi heimili sitt og meðákærða.

 

Háttsemi ákærðu telst varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001.

Þess er krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar og að ofangreind fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“

Verjandi ákærða Mohds krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist að mati dómsins.

Verjandi ákærðu A krefst sýknu og málsvarnarlauna að mati dómsins.

Málsatvik

Á grundvelli upplýsinga sem bárust lögreglunni frá ótilgreindum aðilum um ætlað fíkniefnamisferli ákærða Mohds var óskað eftir húsleitarheimild sem fékkst með dómsúrskurði 11. júlí sl. þar sem heimiluð var húsleit á veitingastaðnum Purple Onion í Hafnarstræti 18 í Reykjavík sem er í eigu ákærða Mohds. Við leitina fundust fíkniefnin sem í ákæru greinir en efnunum hafði verið komið fyrir milli þilja á bak við pappírsþurrkustand sem festur var á vegg á salerni veitingastaðarins. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndust efnissýnin innihalda fíkniefnin sem tilgreind eru í ákæru.

Sama dag, 11. júlí sl., var ákærða A handtekin. Kvaðst hún kannast við meðákærða Mohd Bashar (kallaður Alex) án þess að vita frekari deili á honum. Eftir húsleit á heimili hennar að Laugavegi 67a, kvaðst hún vera unnusta meðákærða og sagði að þau byggju saman. Ekkert saknæmt fannst við leit í íbúðinni.

Hinn 13. júlí 2005 var ákærði Mohd Bashar handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komu hans til landsins. Var gerð leit á honum og í farangri hans en ekkert saknæmt fannst.

Nú verður reifaður framburður ákærðu fyrir dómi og vitnisburður. Vegna mjög breytts framburðar ákærðu fyrir dómi verður vikið að framburði þeirra og eftir atvikum vitna hjá lögreglu.

Ákærði Mohd Bashar neitar sök. Kvaðst hann hafa neitað sök í fyrstu skýrslutökunni hjá lögreglunni þar sem hann naut aðstoðar arabísks túlks. Við síðari skýrslutökur hjá lögreglunni  hafi verið túlkað fyrir hann á ensku en ákærði kvað sér hafa verið greint frá því að ekki væri unnt að fá arabískan túlk fyrr en eftir 4 til 6 vikur og að hann yrði í gæsluvarðhaldi í a.m.k. þrjár vikur sem síðan væri unnt að framlengja. Hinn kosturinn væri að gefa skýrslu með aðstoð ensks túlks. Framburður ákærða verður ekki skilinn öðruvísi en svo að hann hafi af þessum sökum játað sök hjá lögreglunni til að losna úr gæsluvarðhaldi. Kvaðst hann hafa búið í Bandaríkjunum í 5 ár en þó hafi hann ekki verið þar allan tímann heldur ferðast á milli Íslands, Bandaríkjanna og Jórdaníu. Ákærði kvaðst fyrst hafa komið hingað til lands árið 2000 og kvað hann samskipti sín hér á landi við eiginkonu sína, yfirvöld og flesta aðra, að því er ráða mátti af framburði ákærða, fara fram á ensku.

Við skýrslutöku hjá lögreglunni 14. júlí greindi ákærði frá því hvernig hann fékk efnin afhent, einnig frá efnismagni og efnistegund eins og síðar verður rakið. Framburður ákærða um þetta fyrir dómi verður ekki skilinn öðruvísi en svo að hann hafi einungis samsinnt því sem lögreglumaðurinn spurði um og bar undir ákærða við þessa skýrslutöku og að það sem bókað var eftir ákærða væru upplýsingar sem hann hefði fengið hjá lögreglumanninum. Ákærði gekk lengra. Hann greindi svo frá að í hléi sem gert var á skýrslutökunni hafi verjandinn, sem var viðstaddur skýrslutökuna, brugðið sér frá. Á meðan hafi lögreglumaðurinn sem tók skýrsluna rætt við hann og gefið allar upplýsingarnar sem síðar voru ritaðar í skýrsluna eftir ákærða. Við þessa skýrslutöku lýsti ákærði því að meðákærða ætti engan hlut að máli. Málið væri milli sín og aðilans sem afhenti ákærða fíkniefnin. Fyrir dóminum kvað hann þennan framburð sinn rangan. Hann hafi borið á þennan veg til að meðákærða losnaði úr gæsluvarðhaldi. Hið sama eigi við um þá lýsingu ákærða í þessari skýrslutöku að hann hafi flutt efnin að Laugavegi 67a þar sem hann bjó á þessum tíma. Þetta hafi hann gert vegna meðákærðu. Fyrir dóminum kvað hann þennan framburð sinn rangan. Hann hafi borið á þennan veg til að meðákærða losnaði úr gæsluvarðhaldi.

Ákærði kvað skýrslu sem hann gaf hjá lögreglunni 19. júlí sl. og síðar verður vikið að sama marki brennda. Upplýsingar sem þar komi fram hafi hann fengið hjá lögreglunni. Ákærði kvaðst þannig aldrei hafa vitað af fíkniefnunum sem í ákæru greinir.

Skilja mátti á ákærða að framburður hans hjá lögreglunni væri eins og rakið hefur verið vegna þess að verjandi hans á rannsóknarstigi málsins hafi ráðlagt honum að játa og hann gæti breytt framburði sínum síðar. Hafi þetta verið ástæða þess að hann staðfesti lögregluskýrslurnar frá 14. og 19. júlí 2005 fyrir dómi 19. júlí 2005. Af þessum sökum óskaði ákæruvaldið eftir því að verjandi ákærða á rannsóknarstigi kæmi sem vitni fyrir dóminn. Heimilaði ákærði það og leysti lögmanninn undan trúnaðarskyldu við sig. Ákærði féll síðar frá þessu. Varð því ekki af skýrslutöku af lögmanninum.

Nú verða reifaðar skýrslur ákærða Mohd hjá lögreglunni. 

Við yfirheyrslu 13. júlí 2005 kvaðst ákærði ekki vera eigandi fíkniefnanna sem fundust við húsleit á veitingastaðnum Purple Onion. Taldi hann fyrrverandi eiganda staðarins B frá Litháen geta verið eiganda efnanna en hann væri nú farinn til Bandaríkjanna.

Við yfirheyrslu hinn 14. júlí 2005 var enskur túlkur viðstaddur en í skýrslunni segir að ákærði hafi samþykkt það og að hann skilji og tali ensku mjög vel. Greindi ákærði svo frá að fíkniefnin sem fundust á veitingastað hans hafi ekki verið hans eign en hann hafi vitað af þeim inni á staðnum í veggnum í skáp á bak við spegil. Kvaðst hann ekki vilja greina frá nafni eiganda efnanna af ótta um líf sitt. Sá hafi útbúið þetta gat í veggnum tveimur til þremur mánuðum áður og falið fíkniefnin án hans vitundar. Nánar spurður kvaðst ákærði hafa tekið við poka með fíkniefnum af þessari manneskju og komið þeim fyrir í holunni í veggnum eftir að manneskjan sagði honum frá staðnum. Kvaðst hann ekki hafa opnað pokann. Eftir að hlé var gert á yfirheyrslunni er sráður svofelldur kafli í skýrslunni, en fram kom í skýrslunni að ákærði væri þar nefndur Alex: ,,Alex óskar nú eftir því að fá að bæta við framburð sinn: Mér voru afhent þessi fíkniefni af aðilanum sem ég þori ekki að nafngreina og voru efnin afhent mér fyrir utan 10-11 á Hverfisgötu. Með þessum ónefnda aðila var annar maður sem er erlendur og tel ég hann vera samstarfsmann þess sem á efnin og held ég að hann sé stórlax í þessum fíkniefnaheimi en ég þekki hann ekki. Fíkniefnin voru 2-400 grömm af amfetamíni og 400-700 extacy töflur í plastpoka. Ónefndi aðilinn sagði mér að efnið væri ,,crystal meth“ og extacy töflur en hann sagði mér ekki neitt um magnið. Aðilinn sagði að hann myndi hafa samband við mig síðar og þá fá afhenta peninga fyrir efnunum. Fíkniefni þessi afhenti þessi aðili mér vegna þess að hann var að neyða mig til að selja þau fyrir sig. Aðili þessi neyddi mig til að selja fyrir sig fíkniefni og hafði frammi hótanir um að hann myndi drepa mig ef ég ekki gerði það.

Eftir að ég fékk efnin afhent þá fór ég með þau í íbúðina að Laugavegi 67a og einum eða tveimur dögum seinna fór ég með efnin inn á veitingastaðinn Purple Onion. Ástæðan fyrir því að ég flutti efnin er að ég vildi geyma þau þar frekar en heima hjá mér. Það sem ég sagði fyrr í skýrslunni um þetta gat í veggnum inni á veitingastaðnum er satt og rétt“. 

Síðar í skýrslunni greinir ákærði svo frá að hann hafi stundað sölu á fíkniefnum fyrir þennan aðila í fjóra mánuði og hafi selt efni fyrir um eina milljón króna á mánuði miðað við götuverðmæti efnanna. Fíkniefnin hafi hins vegar ekki verið seld á veitingastaðnum og aðrir starfsmenn hafi ekki vitað um þau. Kaupendur hafi ekki haft samband í gegnum síma heldur komið á veitingastaðinn. Verðmæti efnanna hafi verið innan við milljón króna. Hann hafi selt töfluna á 500 krónur eða minna en aðeins selt í kringum 100 töflur í einu. Þetta hafi þó verið í fyrsta skipti sem hann seldi extacy en áður hafi hann aðeins selt ,,crystal meth“ amfetamín. Grammið af amfetamíni hafi hann selt á 7-8000 krónur en þetta tiltekna amfetamín sem fannst á staðnum hafi verið ætlað vini aðilans sem seldi honum efnið og sá hafi átt að sækja það til hans og afhenda honum peninga.

Ákærði var yfirheyrður hinn 19. júlí 2005. Þá var túlkað á ensku og sama ástæða tilgreind og við skýrsluna sem rakin var hér að framan, þ.e. að ákærði skildi og talaði ensku mjög vel. Kvaðst ákærði aðeins hafa verið milliliður og átt að afhenda amfetamínið öðrum manni og taka við greiðslu fyrir það. Hafi hann ætlað að selja e-töflurnar tveimur mönnum og þeir hafi ætlað að selja þær öðrum til að sjá um götusölu. Ákærði kvaðst ekki hafa selt fíkniefni sjálfur í minni einingum. Þessir menn hafi keypt af honum fíkniefni sl. fjóra mánuði. Kvaðst ákærði hafa tekið við fíkniefnunum sem í ákæru greinir fyrir utan verslunina 10-11 á Hverfisgötu fyrir um það bil tveimur til þremur vikum. Hann hafi geymt efnin í einn eða tvo daga á Laugavegi 67a og svo á veitingastaðnum. Mennirnir sem sóttu efnin til hans hafi alltaf komið til hans að fyrra bragði og ákveðið hvar efnin yrðu afhent. Kvaðst ákærði ekki geta sagt til um hversu mikið magn af fíkniefnum hann hafi selt sl. fjóra mánuði en hann hafi tekið við um 500 þúsund til einni milljón króna í hverjum mánuði. Nánar spurður kvaðst ákærði ekki geta sagt nákvæmlega til um efnismagn pakkninganna sem hann hafi fengið afhent. Hann hafi einungis giskað á 200-400 gr af amfetamíni og 400-700 e-töflur í síðustu yfirheyrslu. Þá væri honum ekki kunnugt um muninn á ,,crystal meth“ og e-töflum. Hinn ónafngreindi maður sem afhenti honum efnin hafi sagt honum að um þessi efni væri að ræða. Ákærði kvaðst ekki sjást á upptöku úr eftirlitsmyndavél veitingastaðarins er hann kom efnunum fyrir í holunni í veggnum vegna þess að hann hefði slökkt á vélinni á meðan. Kvaðst hann hafa notað aðra tölvuvogina sem haldlögð var til þess að vigta fíkniefni.

Spurður um tengsl sín við meðákærðu kvað ákærði hana vera unnustu sína og kvaðst hafa kynnst henni í Rússlandi. Hann væri hins vegar giftur íslenskri konu og ætti með henni dóttur.

Eins og rakið var að framan kom ákærði fyrir dóm 19. júlí sl. og staðfesti lögregluskýrslur sem hann gaf 14. og 19. s.m. Enskur túlkur var viðstaddur réttarhaldið.

Ákærði Mohd Bashar var yfirheyrður hjá lögreglu hinn 7. október 2005. Túlkað var fyrir hann á arabísku. Bornar voru undir hann sömu spurningar og í yfirheyrslu hinn 14. júlí 2005 en hann kaus að tjá sig ekki. Kvaðst hann hafa svarað spurningum um afhendingu fíkniefna og að hann hafi farið með þau í íbúðina að Laugavegi 67a þar sem hann hafi verið undir miklum þrýstingi til að losna úr gæsluvarðhaldi. Hann hafi lýst atburðarás eins og hann hefði séð hana gerast í kvikmynd en frásögn hans væri ekki endilega rétt. Hafi hann einungis gert það til að þóknast lögreglumanninum við yfirheyrsluna. Ákærði kvaðst ekki vera eigandi fíkniefnanna sem fundust á veitingastaðnum Purple Onion.

Ákærða A játar sök. Hún gerði þá athugasemd við verknaðarlýsingu í ákæru að hún kveðst ekki hafa farið með fíkniefnin aftur á heimili sitt að Laugavegi 67a eins og þar er lýst. Þá kvað ákærða sér aldrei hafa verið ljóst að efnin hafi verið ætluð til sölu í ágóðaskyni eins og ákært er fyrir. Kvað hún rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu hvað þetta varðar. Ákærða breytti framburð sínum mjög frá því sem hún bar hjá lögreglu og fyrir dómi undir rannsókn málsins og kvað hún nú meðákærða engan hlut hafa átt að málinu.

Ákærða kvaðst hafa kynnst meðákærða fyrir u.þ.b. ári í Pétursborg þar sem hún starfaði á kaffihúsi. Hann hafi boðið henni vinnu á Íslandi en ástarsamband þeirra á milli hafi ekki byrjað fyrr en á Íslandi. Kvaðst hún hafa flutt fíkniefnin til Íslands frá Rússlandi hinn 9. apríl 2005. Lýsti hún aðdraganda þessa svo að eitt sinn er hún var á leið heim til sín eftir skemmtun að kvöldlagi í Pétursborg hafi bifreið verið við heimili hennar. Þeir sem í bifreiðinni voru hafi skipað henni að setjast þar inn sem hún gerði. Hafi þá komið í ljós að þessir aðilar vissu allt um hana og fyrirhugaða ferð hennar hingað til lands en hún hafði áður kynnst ákærða ytra eins og rakið var. Hafi þessir aðilar fengið hana til að flytja hingað til lands pakkann sem hér um ræðir. Hafi þeir hótað henni og fjölskyldu hennar yrði hún ekki við ósk þeirra. Ákveðið hafði verið að einhver hefði samband við hana vegna þessa um mánuði síðar sem ekki hafi orðið. Hún hafi því geymt efnin á heimili sínu í nokkra mánuði eða þar til hún flutti efnin á veitingastaðinn og setti þau í holuna (á milli þilja) en ákærða kvaðst áður hafa veitt athygli gatinu á veggnum bak við pappírsþurrkukassann. Meðákærði hafi ekkert um þetta vitað. Framburður hennar hjá lögreglu um hlut hans væri rangur svo og að hún hafi reynt að fá hann ofan af því að selja fíkniefni. Þá kvað hún skýrslu sína fyrir dómi á rannsóknarstigi málsins ranga. Hún hafi aðeins verið hrædd og reynt að verja sig.

Ákærða A var yfirheyrð af lögreglu 12. júlí sl.  Greindi hún svo frá að hún hafi annast rekstur veitingastaðarins í fjarveru meðákærða, en hann hafi farið til Sýrlands 9. júlí 2005. Þann sama dag hafi hún séð eitthvað athugavert við handþurrkustand á starfsmannasalerni staðarins og skrúfað hann lausan. Hafi hún séð gat þar á bak við og þar hafi hún séð pakka í rauðu plasti. Í pakkningunni hafi verið fimm hvítar egglaga pakkningar sem virtust vera blautar í olíu og pakkning með töflum. Þá hafi einnig verið þar plastílát með töflum. Hún hafi gengið frá þessu aftur í vegginn. Vegna þess hversu vel pakkningarnar voru faldar hafi hana grunað að í þeim væru fíkniefni. Kvaðst hún ekkert hafa haft með þessar pakkningar að gera. Hún væri hvorki eigandi né hafi hún verið að geyma þær fyrir neinn. Hún hafi ekki haft vitneskju um þær fyrr en hún fann þær þennan dag.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 15. júlí sl. greindi ákærða svo frá að hún hafi um tveimur til þremur vikum áður fundið töflur heima hjá sér í plastílátum ásamt einhvers konar öðrum litlum ílátum og vafið í sellófanplast. Þetta hafi verið hringlaga töflur sem voru bleikar og gráar að lit. Hún hafi tekið töflurnar og sett í plastpoka sem hún fór með á veitingastaðinn og setti í skápinn sinn. Hún hafi sýnt D samstarfsmanni sínum töflurnar. Töflurnar hafi verið þarna í einn dag í viðbót en eftir það kvaðst ákærða ekki muna atburðarásina vel. Hún gæti hafa farið með töflurnar heim til sín. Hún hafi ekki sett töflurnar milli þilja bak við pappírsstandinn. Þann stað hafi hún uppgötvað laugardaginn 9. júlí 2005. Hún hafi þá tekið pappírsstandinn af veggnum og litið milli þilja og þá séð rauðan poka með nokkrum egglaga pakkningum og pakkningum með töflum sem svipaði til þeirra sem hún fann heima hjá sér. Aðspurð kvaðst ákærða ekki muna hvort hún hafi látið meðákærða fá töflurnar. Ákærða kvaðst hafa greint C frá þessu daginn eftir.

Við þessa skýrslutöku var borinn undir ákærðu framburður meðákærða þess efnis að hann hefði sett fíkniefnin í holuna á salernisveggnum og ætlað til sölu. Kvaðst hún vita að hann seldi fíkniefni og að hann hafi viljað hætta því. Hafi hann reynt hvað hann gat að selja þessi fíkniefni sl. tvær vikur fyrir handtökuna því hann hafi viljað hætta í eitt skipti fyrir öll.             

Hinn 15. júlí sl. gaf ákærða A skýrslu fyrir dómi og staðfesti lögregluskýrsluna sem hún gaf fyrr sama dag. Kvaðst hún hafa veitt athygli gati á veggnum á salerninu 9. júlí 2005. Hún hafi skrúfað niður skáp sem var yfir gatinu og þar inni hafi hún séð efnin sem hún hafði áður fundið á heimili sínu en auk þess voru á milli þilja egglaga stykki. Hún kvaðst nokkrum dögum fyrr hafa fundið efni heima hjá sér í tveimur ílátum. Í öðru voru töflur. Hún hafi einnig fundið lítinn pakka vafinn í sellófan en í honum voru töflur. Hún hafi tekið þetta með sér á veitingastaðinn. Kvaðst hún hafa grunað að um fíkniefni væri að ræða og hana grunaði hver væri eigandi efnanna en kaus að svara ekki nánar spurningu þar um. Er hún kom með efnin á veitingastaðinn hafi hún hitt D, samstarfsmann sinn. Kvaðst hún hafa sýnt honum það sem hún hefði fundið. Að því búnu setti hún efnin í skáp sem hún hafði til afnota á vinnustaðnum. Hún kvaðst hafa greint meðákærða frá þessu en man ekki hvenær. Kvaðst hún ekki vita hvort hann ætti efnin og mundi ekki hvort hún hefði afhent honum þau. Það gæti verið að hún hafi farið með þau aftur heim. Hún myndi það ekki. Þá kvaðst hún ekki vita hvernig það vildi til að efnin voru sett í gatið í veggnum. Hún kvaðst hafa sýnt C staðinn. Hún kvað meðákærða hafa selt fíkniefni tveimur vikum fyrir handtöku hennar. Hafi hann viljað hætta þessum viðskiptum en vildi þó ekki greina frá því fyrir hvern hann seldi af ótta við þá aðila. Kvað hún meðákærða hafa selt sams konar töflur og fundust.

Vitnið D kvaðst hafa verið starfsmaður ákærða Bashars á þessum tíma. Lýsti hann því að ákærða A hefði komið með fíkniefni á vinnustað þeirra heiman frá sér og hafi hún greint honum frá því að ákærði Bashar ætti efnin og hún hafi ekki viljað hafa efnin á heimili sínu. Ákærða A hafi komið efnunum fyrir í skáp sem hún hafði til afnota á vinnustaðnum.

Vitnið D gaf skýrslu hjá lögreglunni 14. júlí sl. Kvaðst hann hafa verið starfsmaður ákærða Mohd Bashars í júní-júlí 2005. Hann kvaðst hafa vitað af fíkniefnunum á vinnustaðnum enda hafi ákærða A komið með þau að heiman þar sem hún hafi sagst hafa fundið efnin í dóti sem meðákærði Bashar átti en ákærðu hafi á þessum tíma verið kærustupar og búið saman. Hann kvað A hafa verið í miklu uppnámi og að hún hafi greint honum frá tveimur mönnum sem kæmu stöðugt á heimili þeirra Bashars í ,,misjöfnum viðskiptum“. D kvaðst ekki hafa vitað hvar efnin voru geymd á veitingastaðnum en A hafi sett efnin í skápinn sinn. D kvað samskipti á milli þeirra ákærðu hafa farið fram með ,,táknmáli“ en hann tali ekki ensku.

Sama dag gaf D skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa séð fíkniefni á veitingastaðnum Purple Onion þegar ákærða A kom með þau þangað að heiman um viku áður en ákærði Bashar fór til Sýrlands. Hafi hún greint svo frá að Bashar ætti efnin og hún hafi ekki viljað hafa þau inni á heimili sínu. Efnin hafi verið í plastpoka sem í voru glös eða dósir. A hafi sett pokann í skápinn sinn en Bashar hafi verið á staðnum er hún kom. Það hafi verið eftir að hann fór sem hún hafi sýnt honum í pokann. D kvaðst ekki hafa séð Bashar handleika pokann og A hafi ekki sýnt honum hann. Kvað D A vera hrædda við Bashar. Kannaðist D við að mikið af peningum hafi verið í umferð á veitingastaðnum og nefndi hann dæmi slíks.

Aðspurður kvað D ágreining hafa verið á milli hans og Bashars vegna launagreiðslna til hans en það hafi engin áhrif á vitnisburð hans fyrir dómi.

Vitnið C kvaðst þekkja ákærðu bæði lítillega. Hann kvað sína upplifun hafa verið þá að ákærða A hafi verið hrædd og þegar hún hafi loksins tjáð sig við hann hafi hún sagt sig ,,þræla“ dag og nótt og að hún fengi ekkert kaup. Ákærði hafi logið að henni og því gæti hún ekki sent móður sinni í Rússlandi peninga. Hafi hún orðið hrædd þegar hún sá heima hjá sér stóran poka með ,,drasli“ og kvað C A þá hafa átt við að í pokanum væru fíkniefni. Hún hafi því farið með pokann á veitingastaðinn. C kvað ákærðu hafa sýnt sér fíkniefnin á veitingastaðnum. Hún hafi farið inn á klósett, tekið upp skrúfjárn og opnað eitthvað hólf og komið með poka með fjólubláum pillum o.fl. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð að þarna væri hólf fyrr en hún opnaði það.

Vitnið Ingólfur Arnarson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa tekið skýrslur af ákærða en einnig verið viðstaddur skýrslutöku 14. júlí. Ingólfur kvað samkomulag hafa verið um það að enskur túlkur yrði viðstaddur skýrslutökuna. Ekki hafi fengist arabískur túlkur í seinna skiptið og í fyrra skiptið hafi sú túlkun ekki gengið nógu vel. Öll samskipti hafi því farið fram á ensku sem ákærði hafi skilið. Aðspurður kvað hann skýrslurnar innihalda framburð ákærða og skýrði hann hvernig skýrslutakan fór fram. Ákærði hafi ekki hagað framburði sínum eins og hann gerði eftir að hafa fengið upplýsingar frá vitninu um málið. Hafi ákærði sérstaklega óskað eftir því þegar önnur skýrslan var tekin að segja sannleikann en hann hafi neitað sök í fyrsta skiptið. Vitnið hafnaði því sem ákærði héldi fram að hann hafi fengið einhverjar upplýsingar og nefndi sem dæmi að ákærði hafi greint þeim frá því að um e-töflur og ,,crystal meth“ væri að ræða, en á þessum tíma hafi efnin enn verið í rannsókn og niðurstaða greiningar um efnistegund hafi legið fyrir mörgum vikum síðar. Þá hafi ákærða ekki verið hótað heldur hafi honum aðeins verið gerð grein fyrir þeirri aðstöðu sem hann væri í eins og venja væri og að hann ætti á hættu að vera úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann hafi verið hvattur til að segja sannleikann. Spurður um hlerun á síma ákærða kvað vitnið aðgerðir lögreglu ekki hafa leitt neitt í ljós sem að gagni hafi komið. Ákærði hafi sagt lögreglu að hann hafi aldrei talað um fíkniefni í síma.

Vitnið Steindór Erlingsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa tekið skýrslu af ákærða hinn 14. júlí 2005 að viðstöddum enskum túlk og hann hafi ekki skynjað að ákærði hafi átt í erfiðleikum með að skilja það sem fram fór. Hafi ákærði ekki fengið neinar upplýsingar um fíkniefnin heldur hafi hann búið yfir upplýsingum um hvernig efnin efnunum var pakkað en Steindór kvaðst á þeim tíma er skýrslan var gerð ekki hafa vitað hvernig þessu hafi verið háttað þar sem efnin hafi verið í vörslu tæknideildar lögreglunnar. Í skýrslunni komi fram framburður ákærða sjálfs sem hafi vitað nákvæmlega hvað var í pökkunum.

Vitnið Jakob Líndal Kristinsson, dósent í eiturefnafræðum við Háskóla Íslands, staðfesti og skýrði fyrir dóminum matsgerðir sem hann vann og varða bæði amfetamín og MDMA.

Niðurstaða 1 og 2

Fyrir liggja hljóðrituð símtöl, þar sem ákærði Mohd hefur kannast við að hafa átt hlut að máli en samræður eru þar á ensku. Ekki verður annað ráðið af þeim samtölum en að ákærði eigi ekki í neinum erfiðleikum með að skilja og tala ensku.  Hið sama kom fram í vitnisburði Ingólfs Arnarsonar og Steindórs Erlingssonar, sem tóku skýrslur af ákærða undir rannsókn málsins, er enskur túlkur var viðstaddur.  Það er því mat dómsins að ekki dragi neitt úr vægi lögregluskýrslna sem ákærði gaf þótt þar hafi notið við ensks túlks en ekki arabísks, en arabíska er móðurmál ákærða.           Ákærði Mohd bar um þátt sinn í máli þessu hjá lögreglunni 14. og 19. júlí sl. og staðfesti skýrslurnar fyrir dómi 19. júlí. Framburður hans fyrir dómi um að hann hafi hagað framburði sínum hjá lögreglu eins og raun ber vitni eftir að hafa fengið um það upplýsingar hjá lögreglunni er að engu hafandi og er alveg úr lausu lofti gripinn að mati dómsins. Ráða má af skýrslunum að ákærði greindi þar nákvæmlega frá málavöxtum. Dómurinn telur ljóst af öllu samhengi málsins að ákærði Mohd hafi verið að greina frá fundarstað fíkniefnanna þar sem hann nefndi skáp bak við spegil inni á salerninu en síðar nefndi hann holu í vegg. Bókaðar voru eftir ákærða m.a. upplýsingar um efnistegund, en þær upplýsingar lágu ekki fyrir hjá lögreglunni á þessum tíma og geta því ekki verið frá öðrum en ákærða sjálfum.  Vísast til þess sem áður var rakið um þetta. 

Að mestu leyti er samræmi milli framburðar ákærða Mohds í lögregluskýrslum frá 14. og 19. júní sl., sem hann staðfesti fyrir dómi, og í framburði ákærðu A hjá lögreglu og fyrir dómi undir rannsókn málsins. Bæði sættu einangrun í gæsluvarðhaldi á þeim tíma er þau gáfu ofangreindan framburð sinn.

Að þessu virtu þykir breyttur framburður ákærða Mohds fyrir dómi ótrúverðugur og er hann í miklu ósamræmi við önnur gögn málsins og verður hinn breytti framburður því ekki lagður til grundvallar niðurstöðu málsins. Breyttur framburður ákærðu A er sama marki brenndur. Hann er ótrúverðugur að hluta og í ósamræmi við önnur gögn málsins.  Þá er framburður hennar um málavexti sem ekki varða sakarefni máls þessa, reyfarakenndur á köflum. Ekki verður tekin afstaða til framburðar hennar nema að því leyti er varðar ákæruefnið á hendur henni.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður framburður ákærðu A hjá lögreglu og fyrir dómi undir rannsókn málsins lagður til grundvallar.

Samkvæmt öllu ofanrituðu er sannað með framburði ákærða Mohds hjá lögreglu 14. og 19. júlí sl., sem var staðfestur fyrir dómi 19. júlí sl. og með stoð í framburði ákærðu A hjá lögreglu og fyrir dómi undir rannsókn málsins og með stoð í vitnisburði sem rakinn hefur verið og öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Þrátt fyrir að ákærða A hafi borið að hluta um aðrar og meiri sakir en þær sem í ákæru greinir, er sannað með skýlausri játningu hennar fyrir dómi og með framburði hennar hjá lögreglunni og fyrir dómi undir rannsókn málsins og með stuðningi af framburði ákærða Mohds undir rannsókn málsins og með stoð í vitnisburði sem rakinn hefur verið, að ákærða hafi gerst sek um háttsemi þá sem í ákæru greinir utan að ekki er sannað að hún hafi farið með fíkniefnin á þáverandi heimili sitt og meðákærða aftur eins og lýst er í niðurlagi 2. kafla ákæru.  Er ákærða sýknuð af þeim hluta ákærunnar.

Það er álit dómsins að ekki séu saknæmar vörslur hjá ákærðu að fjarlægja fíkniefnin af heimili sínu eins og hún gerði og lýst er í ákæru.  Hins vegar hafði hún efnin í vörslum sínum stuttan tíma á vinnustað sínum og var það saknæm háttsemi hjá ákærðu.  Eins og hlut hennar í málinu er háttað þykir háttsemi hennar varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Sakarferill ákærða Mohds hefur ekki áhrif á refsiákvörðun eins og á stendur. Ákærði tók við fíkniefnunum, sem í ákæru greinir, til söludreifingar í ágóðaskyni, sem eykur saknæmi brotsins, auk þess sem efni þau sem hér um ræðir eru meðal fíkniefna með hvað mesta hættueiginleika.

Að þessu virtu þykir refsing ákærða Mohds hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði.

Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsingunni gæsluvarðhald, sem ákærði sætti vegna málsins.

Ákærða A hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing hennar hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 mánuði.  Eins og broti hennar er háttað þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmd upptæk fíkniefni sem lagt var hald á og talin eru upp í dómsorði.

Rétt þykir eins og á stendur að dæma ákærða Mohd til að greiða 1.091.756 krónur vegna rannsóknar á fíkniefnunum sem í ákæru greinir.

Ákærðu greiði óskipt 67.473 krónur, sem er annar sakarkostnaður sem til féll á rannsóknarstigi málsins.

Ákærði Mohd greiði 249.000 krónur í málsvarnarlaun til Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns og 493.020 krónur til Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns vegna starfa hans fyrir ákærða á rannsóknarstigi málsins.

Ákærða A greiði 249.000 krónur í málsvarnarlaun til Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns.

Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur í öllum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Mohd Bashar Najeh S. Masi, sæti fangelsi í 15 mánuði, en frá refsingu skal draga gæsluvarðhald, sem ákærði sætti vegna málsins.

Ákærða, A, sæti fangelsi  í 3 mánuði, en fresta skal fullnstu refsivistar ákærðu skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Komi til afplánunar refsivistar ákærðu A skal draga frá refsivistinni gæsluvarðhald, sem hún sætti vegna málsins.

Upptæk eru dæmd 245,75 g af amfetamíni, 400 töflur, sem innihéldu amfetamín, 106 töflur sem innihéldu blöndu af amfetamíni og metamfetamíni, 50 töflur sem innihéldu MDMA og 100 töflur sem innihéldu blöndu af MDMA og N-ethyl-MDA.

Ákærði Mohd greiði 1.091.756 krónur vegna rannsóknarkostnaðar á fíkniefnum.

Ákærðu greiði óskipt 63.473 krónur sem er hluti sakarkostnaðar.

Ákærði Mohd greiði 493.020 krónur í málsvarnarlaun til Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns.

Ákærði Mohd greiði 249.000 krónur í málsvarnarlaun til Karls Georgs Sigurbjörnssonar hæstaréttarlögmanns.

Ákærða A greiði 249.000 krónur í málsvarnarlaun til Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns.