Hæstiréttur íslands
Mál nr. 434/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Matsgerð
- Þóknun
|
|
Mánudaginn 24. ágúst 2015. |
|
Nr. 434/2015.
|
Ríkissaksóknari (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn M (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Kærumál. Kæra. Matsgerð. Þóknun.
Kærður var úrskurður héraðsdóms um þóknun til handa M vegna vinnu hans við matsgerð. Kæra M til Hæstaréttar var talin fullnægja skilyrðum 3. málsliðar 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 og var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 22. júní 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2015, þar sem þóknun varnaraðila fyrir matsgerð sem hann innti af hendi að beiðni sóknaraðila var ákveðin 3.519.864 krónur. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér 4.954.307 krónur með „dráttarvöxtum“ af 3.114.177 krónum frá 31. janúar 2015 til 20. febrúar sama ár, en af 4.954.307 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara „að Hæstiréttur endurskoði þá hluta niðurstöðu hins kærða úrskurðar sem annars vegar lúta að fjárhæð tímagjalds og hins vegar að því að ekki séu forsendur til að draga í efa að framlögð tímaskýrsla kæranda endurspegli þá vinnu sem fór í umrætt verk.“
Samkvæmt 3. málslið 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greina frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. Í kæru varnaraðila voru gerðar sömu kröfur og hafðar voru uppi fyrir héraðsdómi. Þá sagði í kærunni að ástæður hennar væru þær að tímagjald sem lagt var til grundvallar í hinum kærða úrskurði væri of lágt. Samkvæmt þessu fullnægir kæran skilyrðum fyrrgreinds lagaákvæðis. Verður aðalkröfu sóknaraðila því hafnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2015.
Með beiðni, móttekinni 18. febrúar sl., óskaði sóknaraðili, ríkissaksóknari, Hverfisgötu 6, Reykjavík, eftir úrskurði dómsins um hæfilega þóknun til handa varnaraðila vegna vinnu hans sem dómkvaddur matsmaður í máli nr. M-92/2014.
Varnaraðili, M, [...], krefst þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum fyrir þá vinnu sem hann leysti af hendi í samræmi við útgefna reikninga dags. 31. desember 2014, að fjárhæð 3.114.177 krónur og dags. 20. janúar 2015, að fjárhæð 1.840.130 krónur, samtals 4.954.307 krónur. Þá er krafist dráttarvaxta af 3.113.177 krónum frá 31. janúar 2015 og af 4.954.307 krónum frá 20. febrúar 2015 og til greiðsludags. Varnaraðili gerir enn fremur kröfu um greiðslu málskostnaðar.
Málið var tekið til úrskurðar 3. júní sl.
I
Málsatvik
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli nr. M-92/2014, uppkveðnum 24. október 2014, var fallist á beiðni sóknaraðila um að dómkvaddur yrði sérfræðingur til að framkvæma mat og svara nánar tilteknum spurningum varðandi vörslu barnakláms í tölvubúnaði ákærðs manns, vegna áfrýjunar dóms héraðsdóms til Hæstaréttar. Var varnaraðili, sem er kerfisfræðingur að mennt, dómkvaddur 28. sama mánaðar til að framkvæma matið.
Í matsbeiðni er þess óskað að matsmanni verði falið að gera almenna grein fyrir því hvernig „Torrent“ vefsíður virka og hvort vefsíðan „Pirate Bay“ hafi þar einhverja sérstöðu. Þá er þess óskað að hann svari eftirfarandi spurningum með rökstuddum og greinargóðum hætti:
1. Er hægt að segja til um hvert skrárnar ellefu, sem málið varðar, voru sóttar er þær voru vistaðar á framangreindum Hardoox diski? Og ef það er hægt, hvert voru skrárnar sóttar?
2. Er hægt að segja til um hvenær skrárnar ellefu, sem málið varðar, komu fyrst inn á framangreindan Hardoox disk? Og ef það er hægt, hvenær komu skrárnar inn á diskinn?
3. Er hægt að segja til um hvort skrárnar ellefu, sem málið varðar, hafi einhvern tíma verið opnaðar á framangreindum Hardoox diski? Og ef það er hægt, voru skrárnar opnaðar og hvenær?
4. Er hægt að segja til um hvaða forrit hafi verið notað til að sækja skrárnar ellefu, sem málið varðar? Og ef það er hægt, hvaða forrit var notað?
5. Er hægt að segja til um hvort mögulegt sé að skrárnar ellefu, sem málið varðar, hafi vistast á framangreindum Hardoox diski, án þess að notandi disksins hafi sótt þær? Og ef það er hægt, hvernig og hvar geta þær vistast?
6. Er hægt að segja til um hvort skrár þessar kunni mögulega að hafa slæðst með öðrum gögnum sem notandi sótti, t.d. af vefsíðunni pirate bay, og setti inn á Hardoox diskinn, án þess að hann yrði þess var? Og ef það er hægt, hvernig getur það gerst? Eru einhver merki um að það hafi gerst á Hardoox disknum sem málið varðar?
7. Er hægt að segja til um hvort kerfi það, sem skrárnar ellefu sem málið varðar voru sóttar úr, geti búið til skráarmöppu, á framangreindum Hardoox diski gefið henni nafn og raðað skrám í hana án þess að notandi disksins viti af því? Og ef það er hægt, hvernig getur það gerst? Eru einhver merki um að það hafi gerst á Hardoox disknum sem málið varðar?
Varnaraðili skilaði skriflegri matsgerð (ódagsettri) sem hann staðfesti fyrir dómi 14. janúar sl. Sóknaraðila voru sendir tveir reikningar vegna starfa varnaraðila. Eru reikningarnir útgefnir af fyrirtækinu [...], þar sem varnaraðili starfar og er einn af eigendum. Fyrri reikningurinn, 2.481.416 krónur án virðisaukaskatts, er dagsettur 31. desember sl. og er vegna vinnu varnaraðila í október, nóvember og desember. Síðari reikningurinn, 1.483.976 krónur án virðisaukaskatts, dagsettur 20. janúar 2015, er vegna vinnu varnaraðila í janúar. Nema reikningarnir samtals 3.965.392 krónum án virðisaukaskatts en 4.954.307 krónum með virðisaukaskatti (25,5%). Samkvæmt framlagðri tímaskýrslu [...] er heildartímafjöldi vegna þessa máls 189,24 tímar. Tímagjalds er ekki getið í skýrslunni en í minnisblaði varnaraðila, dagsettu 30. janúar sl., kemur fram að það sé 21.000 krónur. Er því lítis háttar misræmi milli tímaskýrslunnar/minnisblaðsins og framlögðum reikningum, þ.e. reikningarnir gefa til kynna lægra tímagjald.
Rétt er að geta þess að sóknaraðili krafðist þess með bréfi 26. janúar sl. að dómurinn úrskurði um hæfilega þóknun til handa varnaraðila vegna sömu matsgerðar. Var málið tekið fyrir 28. janúar sl. (Ö-1/2015). Varnaraðili, sem þá gætti hagsmuna sinna sjálfur, fékk frest til 30. sama mánaðar til að skila greinargerð. Ekki varð þó af þeirri fyrirtöku þar sem málið var, áður en til hennar kom, fellt niður að beiðni sóknaraðila. Í tölvuskeyti saksóknara til dómsins þann dag kemur fram að sóknaraðili vilji draga til baka kröfu sína á þeim grunni að ákærði hafi verið sýknaður fyrir brot sín. Hinn 18. febrúar sl., sendi sóknaraðili, eins og getið er í upphafi, dóminum aftur kröfu sama efnis.
II
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili telur fjárhæð reikninga vegna vinnu varnaraðila of háa og ósanngjarna með hliðsjón af eðli verksins. Samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008 eigi dómkvaddur matsmaður rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi ákæruvaldsins. Í því felist að greiða skuli matsmanni hæfileg laun fyrir störf hans.
Sóknaraðili telur tímagjald varnaraðila of hátt. Ekki eigi að greiða varnaraðila endurgjald sem miðist við rekstur á starfsemi fyrirtækis. Í ljósi þess að reikningarnir séu gefnir út af [...], þar sem varnaraðili starfi, megi ætla að þeir miðist við útselda vinnu á vegum fyrirtækisins og að tekið hafi verið tillit til reksturs þess við ákvörðun á fjárhæð reikningsins.
Sóknaraðili telur fjölda vinnustunda varnaraðila oftaldar. Sérstaklega vísar sóknaraðili til þess að ritun matsgerðarinnar hafi tekið 90 klst.
III
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að eftir að hann hafi verið skipaður matsmaður hafi hann boðað til matsfundar með málsaðilum og lögreglumanni. Á fundinum hafi verið farið yfir hvernig staðið yrði að rannsókn til grundvallar matsgerð. Engar athugasemdir hafi borist og hafi varnaraðili aldrei sett neinar línur af hálfu sóknaraðila eða farið yfir hver kostnaðurinn af matsgerðinni gæti orðið eða hve mikil vinna myndi fylgja því að svara matsspurningum með skriflegri matsgerð. Hlutverk varnaraðila sem dómkvadds matsmanns hafi verið að rannsaka þrjár tölvur og einn utanáliggjandi harðan disk. Hafi hann m.a. þurft að nota hugbúnað og aðstöðu hjá lögreglu (forritið [...]) sem hafi gert málið enn tímafrekara. Hluta vinnunnar hafi varnaraðili síðan innt af hendi á starfsstöð sinni hjá [...] en þar hafi verið að finna nauðsynlegan hugbúnað.
Varnaraðili bendir á að til að svara matspurningum hafi hann þurft að leggjast í rannsóknarvinnu, m.a. til að kynna sér hvernig tilteknar vefsíður hafi virkað í október 2012 þegar tölvubúnaður ákærða var haldlagður. Varnaraðili hafi síðan skilaði vandaðri skriflegri matsgerð. Þá hafi varnaraðili staðfest skýrslu sína fyrir dómi en því hafi fylgt töluverður undirbúningur.
Varnaraðili mótmælir því að tímagjald sé of hátt. Tölvuverða sérfræðikunnáttu þurfi umfram hefðbundna sérfræðikunnáttu tæknimanna til að vinna að tölvurannsókn eins og þeirri sem hann innti af hendi við matsgerðina. Hæfileg laun hljóti að vera sú fjárhæð sem varnaraðili fái almennt greitt fyrir störf sín.
Hvað viðkemur þeirri málsástæðu sóknaraðila að endurgjaldið eigi ekki að miðast við rekstur og starfsemi [...] þá bendir varnaraðili á að við starfið hafi hann notað aðstöðu fyrirtækisins og búnað sem þar sé að finna. Erfitt hefði verið fyrir matsmann sem ekki hafi haft aðgang að slíkum búnaði að vinna matsgerðina. Það að reikningurinn sé gefinn út í nafni [...] breyti að sjálfsögðu ekki því að varnaraðili sé persónulega skipaður matsmaður í málinu og beri sem sérfræðingur persónulega ábyrgð á því verki sem hann innti af hendi.
Varnaraðili mótmælir því að tímafjöldi sé oftalinn. Hann tekur fram að í 90 klukkustunda vinnu við skýrslugerð hafi ekki einungis verið fólgið að gera skýrsluna sjálfa heldur líka þær rannsóknir sem niðurstöður matsgerðarinnar byggi á.
Kröfu um dráttarvexti byggir varnaraðili á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa varnaraðila um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðila vinni við að selja þjónustu sína og til viðbótar við þá vinnu sem hann hafði innt af hendi við matsgerðina hafa nú bæst við a.m.k. 12 klukkustundir vegna ákvörðunar sóknaraðila um leita til dómstóla um ákvörðun þóknunar. Varnaraðili geri kröfu til að fá þær töpuðu vinnustundir greiddar auk þess sem hann gerir kröfu um að greiddur verði kostnaður lögmanns hans.
V
Niðurstaða
Um matsgerðir er fjallað í IX. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 3. mgr. 128. gr. laganna getur maður ekki skorast undan að verða við dómkvaðningu sem matsmaður ef honum er skylt og heimilt að bera vitni um matsatriði. Matsmaður á með vísan til 3. mgr. 130. gr. laganna rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi ákæruvaldsins. Ef annar en ákæruvaldið eða ákærði telur að fjárhæð sú sem matsmaður fer fram á sé ósanngjörn getur hann krafist úrskurðar dómara um hana. Á dómari því úrskurðarvald um hæfilega þóknun til varnaraðila fyrir störf hans sem matsmaður. Ekki er unnt að fallast á það með varnaraðila að þar sem sóknaraðili hafi í upphafi ekki farið yfir það með varnaraðila hver kostnaðurinn af matsgerðinni gæti orðið, eða hve mikil vinna myndi fylgja því að svara matsspurningum, sé sóknaraðili skuldbundinn til að greiða uppsett gjald. Í því samhengi verður enn fremur að hafa í huga að kostnaður við matsgerð telst til sakarkostnaðar sem ákærða ber að jafnaði að greiða verði hann sakfelldur, sbr. c-lið 1. mgr. 216. gr., sbr. 2. mgr. 218. gr., laga nr. 88/2008.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 371/2006 frá 16. ágúst 2006 var því slegið föstu að af ákvæði 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem er nánast samhljóða framagreindu ákvæði 3. mgr. 130. gr. laga nr. 88/2008, mætti ráða að greiða skuli matsmanni laun fyrir störf hans, en ekki áskilið endurgjald sem kann að miðast við rekstur fyrirtækis. Hafi matsmaður útgjöld af matsstarfanum á hann að gera grein fyrir þeim með reikningi og á þá rétt á að fá þau endurgreidd. Með hliðsjón af þessu skýra fordæmi verður að hafna því að hæfileg þóknun til varnaraðila eigi að fela í sér annað en laun fyrir vinnu við matið. Óumdeilt er að í framlögðum reikningum [...] er tekið tillit til rekstrarkostnaðar. Verður varnaraðili að bera hallann af því að ekki liggur fyrir hve stór hluti af fjárhæð þess sem hann krefst er vegna kostnaðar sem hefði fallið til hefði hann þurft að afla sér aðgangs að nauðsynlegum búnaði með öðrum hætti en hjá fyrirtækinu, eins og hann byggir á.
Ljóst er að vinna sú sem fólst í matsgerðinni krafðist sérfræðiþekkingar á afmörkuðu sviði. Verður fallist á að hæfilegt tímagjald vegna vinnu varnaraðila við matsgerðina sé 15.000 krónur á tímann. Þá á að greiða varnaraðila virðisaukaskatt sem frá sl. áramótum er 24%, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 124/2014. Ítarleg tímaskýrsla varnaraðila liggur fyrir og eru ekki forsendur til að draga í efa að hún endurspegli þá vinnu sem fór í verkið.
Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið, þykir hæfilegt endurgjald til varnaraðila fyrir vinnu hans við umrædda matsgerð vera samtals 3.519.864 krónur að meðtöldum 24% virðisaukaskatti (189,24x15.000x24%). Með hliðsjón af því að ekki hefur verið fallist á greiðslu skv. upphaflegum reikningum varnaraðila eru ekki efni til að fallast á kröfu hans um dráttarvexti.
Eins og atvikum er háttað þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Stefanía Sæmundsdóttir, settur saksóknari, en af hálfu varnaraðila Dagmar Arnardóttir hdl.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Þóknun til varnaraðila, M, fyrir vinnu við matsgerð, sem sóknaraðili, ríkissaksóknari, fékk hann dómkvaddan til að gera, er ákveðin 3.519.864 krónur.
Málskostnaður fellur niður.