Hæstiréttur íslands

Mál nr. 550/2012


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Meðdómsmaður
  • Ómerking héraðsdóms


                                     

Fimmtudaginn 14. febrúar 2013.

Nr. 550/2012.

Ólafur Hilmarsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Verði tryggingum hf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón. Meðdómsmaður. Ómerking héraðsdóms.

Ó krafðist skaðabóta vegna tjóns sem hann varð fyrir í vinnu hjá G ehf. er á hann féll timburbúnt. Deildu aðilar um það hvort sá búnaður sem notaður hefði verið til verksins hefði verið fullnægjandi, hvort hvort Ó hefði sýnt að sér nægilega aðgæslu og hvort hann hefði átt að standa að verkinu með öðrum hætti. Með vísan til þess að ekki hefði farið fram rannsókn lögreglu eða vinnueftirlitsins á slysinu hefði dómara verið ókleift að fjalla um þær málsástæður sem að málinu lytu á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu. Hefði héraðsdómara borið að kveða til meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var héraðsdómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.247.598 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 10. nóvember 2007 til 25. febrúar 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 23. júní 2011 að fjárhæð 341.797 krónur.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem rakið er í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir slysi 16. júní 2006 þegar hann var að stöfum hjá G. Leifssyni ehf. við nýbyggingu að Klukkuvöllum 3 í Hafnarfirði. Áfrýjandi hefur lýst atvikum þannig að samstarfsmaður hans hafi stjórnað byggingarkrana og látið búnt af uppsláttartimbri síga niður frá 7. hæð hússins en áfrýjandi hafi tekið á móti búntinu á jörðu niðri og ætlað að stafla því ofan á annað búnt. Áfrýjandi telur að búntin hafi verið þrír metrar á lengd, einn og hálfur metri að hæð og um 100 til 200 kíló að þyngd. Til að slaka niður timbrinu hafi verið notaðar tvær keðjur sem brugðið hafi verið um sinn hvorn endann. Áfrýjandi heldur því fram að ólag hafi verið á einni spýtu í búntinu og því hafi hann gefið samstarfsmanni sínum merki um að hífa búntið upp til að hann gæti lagað spýtuna svo hægt væri að losa keðjuna eftir að búntið hefði verið lagt niður. Samstarfsmaðurinn, sem stýrði krananum, hafi ekki híft búntið nógu hátt til að áfrýjandi gæti átt við það og því hafi áfrýandi gefið honum merki um að hífa hærra, en þá hafi hann slakað búntinu niður sem við það hafi fallið á hliðina og yfir áfrýjanda. Stefndi hefur ekki andmælt lýsingu áfrýjanda á tildrögum slyssins, en við það hlaut hann beinbrot á hægri ökkla.

 Í kjölfar slyssins var lögregla ekki kölluð til í þeim tilgangi að fram færi rannsókn samkvæmt 3. mgr. 66. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá tilkynnti atvinnurekandi ekki vinnueftirlitinu um slysið í samræmi við 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og því rannsakaði það ekki atvikið. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna er markmið rannsóknar vinnueftirlitsins að kanna orsakir slysa í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Rannsókn á því slysi sem áfrýjandi varð fyrir hefði meðal annars beinst að því að meta hvort sá búnaður sem notaður var til að slaka niður timbrinu hafi verið fullnægjandi og hvernig staðið hefði verið að allri verktilhögun, þar með talið hvort áfrýjandi og samstarfsmaður hans, sem stýrði byggingarkrananum, hafi getað átt greið samskipti þar sem áfrýjandi var á jörðu niðri en samstarfsmaðurinn uppi á 7. hæð hússins. Þá má gera ráð fyrir að vettvangur hefði verið ljósmyndaður og annarra gagna aflað eftir því sem efni voru til í því skyni að varpa ljósi á orsakir slyssins. Í málinu nýtur ekki við neinna gagna af þessu tagi.

Við úrslausn málsins reynir á hvort sá búnaður sem notaður var til verksins var fullnægjandi, en um það er ágreiningur með aðilum. Einnig deila þeir um hvort áfrýjandi hafi sýnt af sér næga aðgæslu þegar hann tók á móti timburbúntinu sem valt yfir hann og hvort hann hefði átt að standa að því verki með öðru móti. Eins og málið liggur fyrir dóminum, án þess að fram hafi farið rannsókn lögreglu eða vinnueftirlitsins, var dómara ókleift að fjalla um þær málsástæður sem uppi eru hafðar á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu. Því var þörf á sérkunnáttu og bar héraðsdómara að kveða til meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem héraðsdómari lét það ógert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.    

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 16. maí sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Ólafi Hilmarssyni, Dvergabakka 12, Reykjavík, á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 10. nóvember 2011.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum 3.247.598 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum frá 10. nóvember 2007 til greiðsludags dráttarvaxta, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og vaxta frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist aðallega, að dráttarvextir reiknis frá 25. febrúar 2011, en til vara frá síðara tímamarki, allt að frádregnum 341.797 krónum, sem greiddar voru 23. júní 2011.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda, eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

Málavextir eru þeir, að hinn 16. júní 2006 varð stefnandi fyrir slysi við vinnu sína fyrir G.Leifsson ehf. við nýbyggingu að Klukkuvöllum 3, Hafnarfirði. 

Stefnandi kveður slysið hafa orðið með þeim hætti að stefnandi, sem er húsasmíðameistari að mennt, var á jörðu niðri að taka á móti búnti af 2x4 tommu timbri sem kranamaður, sem staddur var á þaki byggingarinnar á 7. hæð, var að hífa niður á jörðina.  Stærð timburbúntsins var um 1,5 metri að hæð og 3 metrar að lengd og u.þ.b. 100-200 kg að þyngd.  Kraninn sem notaður var við vinnuna var staðsettur fyrir framan húsið, til hliðar við stefnanda, en kranamaðurinn stýrði krananum með fjarstýringu af þaki hússins.  Í kringum stefnanda voru m.a. nokkur búnt af alls konar timbri og var ætlunin að setja búntið ofan á annað búnt.  Tvær keðjur voru notaðar til að hífa niður efnið og var þeim krækt í sinn hvorn endann.  Búntin voru ekki víruð saman og ekki notuð stroffa til að herða búntið þegar híft var, en þannig hefði timburbúntið verið stöðugra, að sögn stefnanda.  Með keðjum sé búntið hins vegar laust.  Kranamaðurinn slakaði búntinu niður og kveður stefnandi að kranamaðurinn hafi gefið honum merki um að slaka búntinu ofan á búnt sem hafi verið niðri.  Stefnandi kveðst hafa séð að ein spýtan í búntinu hafi verið flækt þannig að hún hafi verið inni í keðjunni öðrum megin en legið fyrir utan hinum megin og hafi stefnandi af þeim sökum ekki náð að losa keðjurnar frá búntinu.  Stefnandi kveðst hafa gefið kranamanninum merki um að hífa búntið upp svo hann gæti losað keðjurnar frá.  Kranamaðurinn hafi ekki híft nóg svo stefnandi hafi gefið honum merki um að hífa aðeins meira til að geta hagrætt búntinu betur.  Í stað þess að hífa búntið hafi kranamaðurinn slakað búntinu niður og hratt þannig að það hafi farið á hreyfingu og fallið saman í keðjunum og timburbúntið, sem þá hafi verið í 1,5 metra hæð, fallið á hliðina.  Stefnandi hafi þurft að stökkva frá til þess að forða sér, en í þann mund hafi hann fengið timburbúntið í bakið og fallið niður með þeim afleiðingum að hann tvíbrotnaði á hægri ökkla.  Kranamaðurinn hafi híft búntið upp aftur og fært það af stefnanda.  Kranamaðurinn hafi síðan hringt í vinnufélaga þeirra, sem ekið hafi stefnanda á slysadeild.  Á leiðinni á slysadeild hafi bílstjórinn hringt í atvinnurekandann og eiganda G. Leifssonar ehf. og látið hann vita af slysinu.

Hinn 30. apríl 2010 var stefnda tilkynnt um slysið, og óskað eftir að félagið viðurkenndi bótaskyldu.  Sú beiðni var ítrekuð með tölvuskeytum 31. maí 2010, 25. júní 2010 og 6. ágúst 2010.  Stefnandi sendi síðan stefnda bréf, dagsett 25. ágúst 2010, þar sem erindið var ítrekað.

Hinn 21. september 2010 viðurkenndi stefndi bótaskyldu úr slysatryggingu launþega, en hafnaði bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu og taldi ósannað að slysið yrði rakið til atvika sem G. Leifsson hef. bæri ábyrgð á.

Stefnandi lagði ágreining aðila fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hinn 27. september 2010, sem komst að þeirri niðurstöðu 26. október 2010, að greiðsluskylda úr ábyrgðartryggingu væri ekki fyrir hendi.

Hinn 16. desember 2010 var óskað eftir mati á tímabundinni örorku stefnanda, þjáningarbótum, varanlegum miska, varanlegri örorku og stöðugleikatímapunkti. Í matsgerðinni, sem dagsett er 19. janúar 2011, var komist að þeirri niðurstöðu, að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 100% frá 16. júní 2006 til 11. ágúst 2006 og 50% frá þeim degi til 25. ágúst 2096.  Stöðugleikapunktur var ákveðinn 16. september 2006, þjáningabætur voru ákvarðaðar frá 16. júní 2006 til 25. ágúst 206, þar af einn dagur rúmliggjandi, varanlegur miski var metinn 5 stig og varanleg örorka var ákveðin 5%.

Hinn 25. janúar 2011 voru matsgerðin og útreikningur kröfu send stefnda.  Hinn 21. febrúar 2011 ítrekaði stefndi höfnun á bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu G.Leifssonar ehf. á grundvelli þess að árstilkynningarfrestur hefði verið löngu liðinn þegar tilkynning um slysið hafi borist félaginu.  Stefndi féll síðar frá þeirri afstöðu að hafna bæri bótaskyldu þar sem tilkynningarfrestur væri liðinn.

Hinn 23. júní 2011 gerði stefndi upp bætur úr slysatryggingu launþega, og greiddi stefnanda 328.598 krónur vegna 5% örorku, 13.199 krónur vegna vaxta og 75.000 krónur vegna matsgerðar, eða samtals 416.797 krónur.

III

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að slysið megi rekja til sakar vátryggðs eða starfsmanns sem hann beri ábyrgð á.  Einnig byggir stefnandi á því að aðstæður á vinnustað hafi verið ófullnægjandi, þ.m.t. tækjabúnaður.

Byggir stefnandi á því, að kranamaðurinn hafi ekki búið tryggilega um timburbúntið.  Vinna kranamannsins hafi m.a. falist í því að sjá um að vel væri búið utan um timburbúntið svo það héldist kyrrt í keðjunni og færi ekki á hreyfingu.  Það sé því kranamaðurinn sem beri ábyrgð á því hvernig bundið sé utan um timbrið, sem verið var að hífa niður.  Stefnandi hafi ekkert haft um það að segja og hafi því þurft að treysta á rétt vinnubrögð kranamannsins.  Telur stefnandi að kranamaðurinn hafi ekki gert nógu vel að þessu leyti.  Timbrið hafi ekki verið vírað saman, en þar til gerðir vírar hafi verið til staðar á vinnusvæðinu.  Ef búntið hefði verið vírað saman hefði það haldist stöðugt í keðjunum og ekki farið á hreyfingu þegar híft var niður.  Þetta hafi átt að vera hlutverk kranamanns.  Sérstaklega hafi þetta verið mikilvægt þar sem hífa hafi þurft búntið niður um 7 hæðir.

Þá liggi fyrir að kranamaðurinn hafi notað keðjur utan um búntið en ekki stroffu.  Keðjur skapi þá hættu að búnt geti losnað því keðjurnar herði ekki að.  Spýturnar sem hafi verið í keðjunni hafi verið um 3-4 metrar að lengd og hafi keðjurnar legið utarlega á búntinu beggja megin og þar með hafi skapast hætta á að þær færðust til eins og gerst hafi í þessu tilfelli.  Stroffa herði hins vegar að timbrinu þegar híft sé og þannig verði timburbúntið stöðugra.  Með keðjum sé búntið laust.  Þá telur stefnandi að kranamaðurinn hafi ekki gengið nægilega vel frá spýtunum því ein spýtan hafi verið flækt í keðjunni öðrum megin.  Spýtan hafi því verið föst, sem hún eigi ekki að vera, og því hafi stefnandi ekki getað losað búntið frá.  Það hafi verið ástæða þess að stefnandi hafi þurft að gefa kranamanninum merki um að hífa búntið svo hann gæti losað keðjuna frá.  Það sé því við kranamanninn að sakast að hafa ekki gengið betur frá spýtunni.

Hafi kranamaðurinn ekki fengið nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafaði hætta af eða hafi hann ekki haft nauðsynleg tæki í þessu tilliti byggi stefnandi á því að um sé að ræða vanbúnað sem virða beri vátryggða til sakar, sbr. 14. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, 25. gr. reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, 5. og 8. gr. og lið 1.1. í II. viðauka reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, auk tilskipana nr. 89/655/EBE og nr. 89/391/EBE sem þessar reglur byggi á.

Í öðru lagi hafi kranamaðurinn ekki farið að fyrirmælum stefnanda við að hífa búntið.  Stefnandi sem hafi verið að taka á móti timbri á jörðu niðri frá kranamanninum sem staddur hafi verið á þaki byggingarinnar á 7. hæð hafi orðið að reiða sig á rétt viðbrögð starfsmannsins.  Stefnandi kveðst hafa gefið kranamanninum merki eða fyrirmæli með viðurkenndum handahreyfingum um að hífa búntið upp.  Kranamaðurinn hafi í fyrstu ekki híft nægilega hátt svo stefnandi hafi gefið honum merki aftur um að hífa meira en þess í stað hafi kranamaðurinn slakað á búntinu með fyrrgreindum afleiðingum.  Ef starfsmaðurinn hefði farið að fyrirmælum stefnanda og híft timburbúntið upp aftur í stað þess að slaka því niður hefði ekkert tjón orðið.  Það sé útilokað með öllu að stefnandi hafi gefið fyrirmæli um að slaka þegar hífa hafi átt timbrið.  Það hafi engin ástæða verið fyrir kranamanninn að misskilja fyrirmæli stefnanda, þar sem unnið hafi verið eftir viðurkenndum handahreyfingum sem kenndar séu á námskeiðum sem báðir aðilar hafi sótt.  Það verði því að virða kranamanninum það til sakar að hafa ekki horft á aðstæður á jörðu niðri og hagað vinnu sinni í samræmi við þær aðstæður.  Hafi starfsskilyrði á vinnustaðnum verið ófullnægjandi hvað þetta varði sé við vátryggðan að sakast, sbr. 4.13 og 23. gr. laga nr. 46/1980, 2., 4., 21., 26. og 27. gr. reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, auk tilskipunar nr. 89/391/EBE, sem reglugerðin sé byggð á.

Í þriðja lagi hafi kranamaðurinn farið rangt að við að hífa og slaka búntinu.  Þegar kranamaðurinn hafi slakað búntinu í stað þess að hífa það hafi hann slakað því of hratt þannig að hreyfing hafi komist á búntið með þeim afleiðingum að timburbúntið hafi farið af stað og lent á stefnanda.  Jafnvel þótt kranamaðurinn hefði slakað búntinu í stað þess að hífa það sé möguleiki á því að ekkert tjón hefði orðið ef hann hefði farið rétt að við verkið.  Þar sem hann hafi slakað því of hratt hafi aukist enn meira hættan á að hreyfing kæmist á búntið.  Það sé því við kranamanninn að sakast í þessu efni og með öllu ósannað að tjónþola verði kennt um slysið.

Stefnandi byggir einnig á því, að vinnuveitandi hafi ekki tryggt að aðstæður á vinnustað væru með þeim hætti að þær tefldu ekki í tvísýnu öryggi starfsmanna, sbr. 4., 13., 37. og 46. gr. laga nr. 46/1980, liði 1.1., 3.1.3., 3.1.4, 3.2.3. og 3.2.4. II. viðauka reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, og 8. og 14. gr. og liði 2.1. og 14.1. í IV. viðauka A-hluta reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og aðra tímabundna mannvirkjagerð, og tilskipun nr. 92/57/EBE.  Hefði vinnuveitanda verið skylt að haga vinnu þannig að umbúnaður utan um svo stóra og þunga hluti sem þurfi að hífa niður væri eins og best verði á kosið.  Við verkið hafi verið notaðar tvær keðjur, en öruggara hefði verið að nota t.d. svokallaða stroffu, sem séu breið bönd sem keðjurnar hefðu verið húkkaðar í, eða víra búntið saman.  Böndin séu breiðari og mun stöðugri en keðjurnar og því meiri líkur á að búntið hefði haldist kyrrt og ekki farið af stað.  Það verði því að virða vinnuveitandanum það til sakar ef skort hafi á að nota rétt tæki og tól við vinnuna.

Fyrir liggi að mikil fjarlægð hafi verið á milli kranamanns á 7. hæð byggingarinnar og stefnanda á jörðu niðri.  Þegar svo mikill hæðarmunur sé á vinnuaðstöðu manna sé vinnuveitanda skylt að bregðast við þessum aðstæðum með þeim hætti að fyllsta öryggis sé gætt.  Til dæmis hefði mátt nota talstöðvar og/eða veifur til að fyrirbyggja misskilning milli starfsmanna. 

Ljóst sé að eitthvað hafi farið úrskeiðis við aðstæðurnar á vinnustaðnum.  Tilvist búnaðar og/eða notkun hans og þjálfun starfsmanna og leiðbeiningar um það hvernig verkið skyldi unnið hefði getað verið með öruggari hætti.

Stefnandi byggir á því, að verkstjórn hafi ekki verið fullnægjandi.  Eigandi fyrirtækisins hafi verið verkstjóri og byggingarstjóri en enginn verkstjóri hafi verið á staðnum er slysið varð, eingöngu stefnandi og kranamaður.  Hafi aðstæður því ekki verið fullnægjandi á vinnustaðnum og ekki hafi verið gætt fyllsta öryggis.

Stefnandi byggir og á því, að 79. gr. og 80. gr. vinnuverndarlaga nr. 46/1980, hafi verið brotin.  Vinnueftirliti ríkisins hafi ekki verið tilkynnt um slysið eins og skylda hafi verið til.  Þá hafi atvinnurekandi ekki tilkynnt lögreglu um slysið og því hafi engin rannsókn farið fram, samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991.  Ef upp kemur deila um málsatvik eða um aðstæður á slysstað og skorti á sönnunargögn verði atvinnurekandi af þessum sökum að bera hallann af slíku, sbr. dómafordæmi Hæstaréttar t.d. í málunum nr. 286/2009, 101/2009, 481/2008 og 582/2007.

Ef Vinnueftirlitið hefði verið kallað til hefði það rannsakað orsök slyssins og aðstæður allar, m.a. hvort kranamaðurinn hefði staðið rétt að verki.  Með aðkomu Vinnueftirlitsins hefði orsök slyssins upplýsts í málinu.  Eins og fram hafi komið í bréfi frá stefnda, dagsettu 21. september 2010, haldi kranamaðurinn því nú fram að hann sé ekki sammála því að honum hafi verið gefin skipun um að hífa timbrið auk þess sem hann hafni því að timbrið hafi verið í 1,5 metra hæð.  Sá framburður skipti ekki máli í þessu tilviki því allt framangreint hefði Vinnueftirlitið getað rannsakað á staðnum ef vinnuveitandi hefði kallað það til og rannsókn hefði farið fram.  Á því beri vinnuveitandinn ábyrgð og verði því að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnun um atvik.  Hins vegar verði að líta svo á að stefndi hafi viðurkennt sök í bréfi, dagsettu 21. september 2010, en þar segi að timburbúntið hafi farið á hliðina og hafi það lent á tjónþola sem hafi slasast.  Með því sé stefndi að viðurkenna mistök af hálfu kranamannsins, sem hafi verið starfsmaður tryggingartaka.  Í sama bréfi segi enn fremur að ekki sé ágreiningur um aðstæður á vettvangi heldur sé eingöngu ósannað hvað hafi farið milli þessara tveggja manna.  Stefnandi kveðst vera ósammála stefnda um þetta atriði, því ekkert liggi fyrir um aðstæður á vettvangi.  Ef Vinnueftirlitið hefði verið kallað til á þessum tíma hefðu aðstæður verið kannaðar og ef skýrslur hefðu verið teknar af aðilum á þeim tíma er atvikið átti sér stað hefðu samskipti aðila verið í fersku minni og lægju ljós fyrir.  Vegna þess að stefndi hafi ekki sinnt lögboðinni skyldu sinni, samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980, um að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins og engin lögreglurannsókn hafi farið fram séu gögn málsins af skornum skammti.  Engum öðrum en vinnuveitanda verði kennt um að ekki sé upplýst um atvik og beri hann því ábyrgð á að svo sé.

Sannað sé að umræddan dag hafi verið gerð mistök sem leitt hafi til þess að búntinu hafi verið slakað ofan á stefnanda, sem hafi slasast.  Vinnuveitandi beri ábyrgð á slíkum mistökum, jafnvel þótt ekki sé hægt að benda á ákveðinn starfsmann í þessu efni, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 288/2009.

Stefnandi kveður ábyrgð vinnuveitanda vera byggða á sakarreglunni um ábyrgð atvinnurekanda á skaðaverkum starfsmanna sinna, svokallaða vinnuveitandaábyrgð.

Stefnandi hefur sundurliðað bótakröfu sína með eftirgreindum hætti:

1.  Þjáningabætur reiknist frá tjónsatburði hinn 16. júní 2006 til 25. ágúst 2006, eða alls í 71 dag, þar af einn rúmliggjandi.  Þjáningabætur fyrir að vera rúmliggjandi séu 2.860 krónur á dag, en annars 1.540 krónur, eða samtals 110.660 krónur.

2.  Varanlegur miski reiknist 5% af 8.796.000 krónum, eða 439.800 krónur.

3.  Varanleg örorka reiknist 5% miðað við viðmiðunarlaun síðustu þrjú almanaksár fyrir slys eða meðaltal áranna 2003, 2004 og 2005, uppfært til launavísitölu á stöðugleikapunkti (298,9 stig):

Samantekt

Upphæð

Launavísitala

Uppfært

Árið 2005

3.968.927

292,7

4.052.997 kr.

Árið 2004

2.603.875

250,3

3.109.462 kr.

Árið 2003

1.444.833

239,1

1.806.507 kr.

Meðaltal

2.989.655 kr.

Skyldubundin lífeyrisréttindi

192.889 kr.

Viðbótarframlag atvinnurekanda

59.793 kr.

Viðmiðunarlaun

3.242.337 kr.

Stuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé 16,637 stig.  Því reiknist fjárhæðin þannig:  3.242.337 x 16,637 x 5%=2.697.138 krónur.

Krafa sundurliðist því þannig:

Þjáningabætur

110.660 kr.

Varanlegur miski

439.800 kr.

Varanleg örorka

2.697.138 kr.

Samtals

3.247.598 kr

Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð.  Einnig vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, nú laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Jafnframt vísar stefnandi til reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, tilskipunar nr. 89/391/EBE, reglugerðar nr. 367/2006, um notkun tækja, og reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, tilskipunar nr. 92/57/EBE, reglna nr. 609/1999 og tilskipunar nr. 83/189/EBE.  Þá vísar stefnandi til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyldur og þurfi hann því dóm fyrir skattinum.

IV

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að engri saknæmri háttsemi starfsmanna G. Leifssonar ehf. hafi verið til að dreifa, sem leitt gæti til ábyrgðar á fjárkröfum stefnanda í málinu.

Stefndi heldur því fram að í raun séu tildrög slyss stefnanda ósönnuð.  Ekkert sé upplýst um ástæðu þess að stefnandi hafi orðið fyrir höggi af völdum timburbúnts þess sem verið var að slaka niður.  Stefnandi hafi sjálfur stjórnað móttöku á búntinu á jörðu niðri og hafi verið fullkunnugt um að samstarfsmaður hans, sem verið hafi að slaka efninu niður, væri sjö hæðum ofar.  Hafi þeir slakað fjölmörgum eins búntum án vandkvæða fyrr um daginn.  Það hafi staðið stefnanda næst að ganga úr skugga um að óhætt væri að standa við hlið búntsins er það hafi verið komið niður í slíka nálægð að hafa mætti hendur á því.  Það liggi fyrir óumdeilt í málinu að stefnandi hafi gefið starfsmanni G. Leifssonar ehf. merki um að slaka búntinu niður.  Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda þess efnis að hann hafi gefið kranamanninum merki um að hífa búntið aftur og hann í þess stað slakað því.  Stefnanda hafi verið fullljóst hvernig búið hafi verið um búntið, að það væri híft í keðjum sem brugðið væri utan um búntið.  Slíkt leyni sér ekki.  Þar að auki hafi stefnandi einnig tekið þátt í að taka á móti þeim búntum sem á undan hafi verið komin niður og hífð hafi verið á sama hátt.  Þá hafi stefnandi og þessi starfsmaður stefnda margoft unnið sambærilegt verk áður, mánuðina á undan, á sama hátt, við byggingu blokkarinnar sem nú hafi verið orðin 7 hæðir.  Umbúnaður sá sem viðhafður hafi verið sé ekki ólögmætur á neinn hátt eða óvenjulegur.  Ekkert af þeim fjölmörgu reglugerðarákvæðum sem haldið sé fram af stefnanda að hafi verið brotin hafi verið það og ekkert þeirra banni heldur slíka aðferð við verkið enda næsta hættulaust ef höfð er eðlileg aðgæsla er timbrið komi niður.  Á því sé byggt að stefnandi, sem sé húsasmíðameistari að mennt, hefði ekki átt að ganga þess dulinn hver frágangurinn hafi verið og að það væru þannig keðjurnar sem haldið hafi búntinu saman.  Það, að hugsanlega hefði verið mögulegt að nota stroffur við hífinguna, geri það ekki saknæmt að nota keðjur.  Að sama skapi sé á því byggt af hálfu stefnda að það geti á engan hátt talist saknæmt að búntið hafi ekki verið fest saman með vírum.  Vinnulagið við frágang búntsins hafi þannig verið venjulegt og á engan hátt strítt gegn því vinnulagi sem tíðkanlegt sé eða verið í andstöðu við neinar reglur.  Að auki verði ekki séð að umbúnaður búntsins hafi átt þátt í slysinu.  Búntið hafi ekki losnað úr keðjunum.  Þá byggir stefndi einnig á því að það eitt að vírar hafi verið til staðar á vinnusvæðinu breyti engu.  Ef stefnandi hafi talið að öruggt væri að nota víra hafi það verið hans að eiga frumkvæði að því að þeir væru notaðir og gera athugasemdir við verklagið, teldi hann það óöruggt, enda hafi stefnda engin skylda borið til að nota víra eða stroffur við verkið.  Ekkert hafi verið óeðlilegt eða óvenjulegt við verklag starfsmanna stefnda.

Stefndi mótmælir þeim fullyrðingum stefnanda í stefnu, sem röngum, að stefnandi hafi ekkert haft um það að segja hvernig verkið væri unnið.  Stefnandi, sem sé húsasmíðameistari, hafi ráðið því sjálfur hvernig hann vann verkið.  Hefði hann talið að hann gæti ekki framkvæmt verkið án þess að setja sjálfan sig í hættu hefði hann getað gert kröfu til þess að úr yrði bætt en ella neitað að vinna verkið. Verði að ætla að stefnandi hafi haft menntun og reynslu til að leggja mat á hættueiginleika umhverfis síns á byggingarstaðnum og hvernig hann gæti best gengið fram við framkvæmd þeirra verka sem honum hafi verið falin.

Hafi verið ólag á einhverjum stoðum, sem í búntinu hafi verið, sé það í fyrsta lagi ósannað, en í öðru lagi virðist það ekki hafa valdið slysinu.  Það sem valdi slysinu sé að stefnandi hafi ekki stýrt búntinu á réttan stað, sem þó hafi verið í hans verkahring.  Ekki verði séð að ástæða hafi verið til þess að búntið lenti óhönduglega þó að einhver stoðin hafi verið skorðuð þannig að erfitt væri að losa búntið úr hífingarkeðjunum.  Þær flækjur á keðjunni, sem lýst sé í stefnu og stefnandi eigi að hafa að vera að bregðast við, hafi ekki komið í veg fyrir að hægt væri að koma búntinu fyrir.

Starfsmaður stefnda kannist ekki við að hafa brugðist rangt við merkjum stefnanda um hvort hífa ætti eða slaka og því sýnist orsaka slyssins helst vera að leita í hans eigin athöfnum, að stýra því ekki með fullnægjandi hætti hvar búntið lenti með þeim afleiðingum að það lenti þannig að það hafi oltið til hliðar, eða vegna óhappatilviljunar.  Í þessum efnum hefði engu breytt að mati stefnda þó að stefnandi og samstarfsmaður hans hefðu verið búnir fjarskiptatækjum eða með merkjaveifur.  Slíkur búnaður komi ekki í veg fyrir misskilning milli manna, hafi honum verið til að dreifa.  Þá mótmælir stefndi því sem ósönnuðu, að eitthvað hafi vantað uppá þjálfun eða kennslu kranamanns auk þess sem slíkar staðhæfingar séu jafnframt í andstöðu við fullyrðingar stefnanda um að samstarfsmaðurinn beri sök þar sem hann hafi ekki brugðist rétt við fyrirmælum sem kennd séu.  Málatilbúnaður stefnanda sé í innbyrðis mótsögn að þessu leyti.

Rannsókn Vinnueftirlits eða lögreglu hefði engu breytt í þessum efnum, þar sem aðstæðurnar á vinnustað séu óumdeildar.  Það sem deilt sé um lúti að munnlegum samskiptum milli tveggja manna, sem hvorki Vinnueftirlit né lögregla sé umkomin að staðreyna með vettvangsrannsókn, en öðrum en þeim tveimur sé ekki til að dreifa, sem gætu sagt til um samskiptin.  Stefnandi hafi strax verið fluttur af vettvangi eftir slysið og hefði því ekki verið viðstaddur slíka skoðun og hefði því ekki getað komið þar að framburði sínum.  Hann hafi síðan ekkert gert til að færa sönnur á málstað sinn, um að samstarfsmaður hafi brugðist ranglega við bendingum hans, fyrr en á árinu 2010, eða tæpum fjórum árum eftir slysið.  Þannig skorti ekki á neinar aðrar upplýsingar um slysið umfram þær upplýsingar sem enn séu umdeildar, um samskipti milli manna.  Því standi engin rök til þess að sönnunarbyrði máls þessa verði felld á stefnda, en stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að tjónið megi rekja til saknæmrar háttsemi einhvers annars en hans sjálfs.

Stefndi telur málsástæður stefnanda um óforsvaranlega verkstjórn vera ósannaðar, en engin tilraun sé gerð til þess af hálfu stefnanda að tengja þau almennu varúðarsjónarmið, sem rakin séu af hans hálfu, bæði lögbundin og þau sem draga megi lærdóm af í dómaframkvæm, við málavexti máls þessa.  Ekki liggi fyrir á hvern hátt óforsvaranleg verkstjórn hafi leitt til slyss stefnanda.  Verkið sem stefnandi og samstarfsmaður hans hafi verið að leysa af hendi hafi í eðli sínu verið einfalt og á engan hátt átt að vera tveimur húsasmiðum ofviða, þannig að beina verkstjórn þyrfti frá þriðja aðila.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að samanvíruð búnt eða búnt í stroffum hefðu ekki fallið á hann, enda hafi búntið ekki farið á hliðina vegna þess að það losnaði heldur vegna þess að því hafi verið stýrt á óslétt undirlag af stefnanda.  Hvar það hafi lent hafi verið á ábyrgð stefnanda.  Það hafi verið í hans verkahring að stjórna því.  Engin viðurkenning liggi því fyrir á saknæmri vanrækslu, sem sé á ábyrgð stefnda.  Bæði geti saknæm háttsemi verið stefnandans, sem leiði ekki til bótaskyldu stefnda, og einnig til þess að óhappatilviljun hafi leitt til þessa falls.

Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda, sem rangri og ósannaðri, að skipulagi og öryggismálum á vinnustað hafi verið áfátt, en hífing á timburbúntum í keðjum hafi á engan hátt verið óvenjuleg eða óforsvaranleg.  Fullyrðingar stefnanda þess efnis séu ekki studdar neinum rökum með vísan til málavaxta heldur einungis til ákvæða í lögum nr. 46/1980, sem heimfærð séu upp á málið, mest án efnislegra tenginga.  Sama gildi um fjölmörg reglugerðarákvæði sem talin séu upp í stefnu.  Engin tilraun sé gerð til að skýra hvernig atvik máls geti falið í sér brot á þeim almennu varúðarreglum sem sé að finna í tilgreindum greinum. 

Stefndi mótmælir því einnig sem röngu og ósönnuðu, að þar sem kranamaður hafi verið á 7. hæð og stefnandi á jörðu niðri, hafi stefnda verið skylt að bregðast við með því að nota talstöðvar eða veifur.  Enga slíka skyldu megi lesa út úr reglugerðarákvæðum, sem vísað sé til, eingöngu sé um að ræða almennar varúðarreglur sem leggi þá skyldu á vinnuveitanda að tryggja öryggi og meta aðstæður hverju sinni.  Það hafi verið gert, ekkert hafi verið óeðlilegt við verklag kranamannsins eða í ósamræmi við það sem venjulega hafi verið viðhaft.

Stefndi byggir og á því, verði fallist á að hann eigi að bera einhvern hluta ábyrgðarinnar, að frá dómkröfu beri að draga þegar greiddar bætur vegna slysatryggingar launþega, að fjárhæð 416.797 krónur, sem greiddar hafi verið 23. júní 2011, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.

Stefndi mótmælir sérstaklega vaxtakröfum stefnanda frá fyrra tímamarki en 10. nóvember 2007, vegna fyrningar, enda hafi fyrning fyrst verið rofin með birtingu stefnu í málinu.  Stefndi mótmælir og kröfu um dráttarvexti þar sem fullt tilefni hafi verið fyrir stefnda að taka til varna í málinu, þar sem svo klént sé í pott búið sem hér sé raunin.  Auk þess sem látið hafi verið hjá líða að gera grein fyrir greiðslu sem stefndi hafi þegar innt af hendi til stefnanda og lögbundin skylda sé til að komi til frádráttar.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 50/1993, auk áðurgreindra lagaraka.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en jafnframt sé krafist virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, þar sem stefndi reki ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi og beri því nauðsyn til að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnanda.

V

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi því, sem stefnandi varð fyrir við vinnu sína 16. júní 2006.

Þegar stefnandi slasaðist var hann að vinna við að taka á móti timbri, sem híft var niður með krana af 7. hæð nýbyggingar við Klukkuvelli 3 í Hafnarfirði.  Fram hefur komið að samstarfsmaður stefnanda stýrði krananum með fjarstýringu af þaki hússins og var timbrið  híft niður í búntum og var tveimur keðjum krækt í sinn hvorn endann.  Fram kom við aðalmeðferð málsins, að stefnandi, sem nú er menntaður húsasmiður, og vann sem smiður, hafði á þeim tíma ekki lokið meistaragráðu í húsasmíði, en lauk meistaranámi 24. maí 2007.  Þá kom fram að stefnandi hafði langa reynslu af húsasmíðum er slysið varð, hann hafði oft áður unnið við að hífa timbur og var með réttindi til að stjórna byggingarkrana.  Hafði stefnandi unnið hjá fyrirtækinu með skóla allt frá árinu 2001. 

Stefnanda og samstarfsmanni hans, þeim sem stjórnaði krananum umrætt sinn, ber ekki saman um hvað olli slysi stefnanda.  Hefur stefnandi borið að ein spýta í timburbúntinu hafi verið flækt og hann því gefið kranamanninum merki um að hífa búntið, en búntið ekki verið híft nóg til þess að hann gæti lagfært það.  Síðan hafi kranamaðurinn látið búntið síga í stað þess að hífa það meira, eins og stefnandi kveðst hafa gefið honum merki um, með þeim afleiðingum að timburbúntið hafi fallið á hliðina og lent á stefnanda.  Samstarfsmaður stefnanda hefur hins vegar borið að hann hafi farið að bendingum stefnanda en timburbúntið hafi dottið á hliðina, þar sem það hefði ekki verið sett rétt á timburbúntið, sem fyrir var.

Fyrir liggur að ekki fór fram rannsókn Vinnueftirlitsins á tildrögum slyssins.  Af gögnum málsins verður hins vegar ekki annað ráðið en að verklag við undirbúning og hífingu timbursins tiltekið sinn hafi verið með venjulegum hætti af hálfu stefnanda og samstarfsmanns hans.  Eins og að framan greinir hafði stefnandi margoft unnið sams konar störf og hafði m.a. réttindi til að stjórna byggingarkrana.  Þekkti hann vel til aðstæðna á vinnustaðnum.  Þá verður ekki annað séð en að stefnandi hafi sjálfur stjórnað því hvernig staðið yrði að því verki, sem hann átti að vinna.  Hefur ekki verið sýnt fram á með hvaða hætti slys stefnanda verði rakið til ófullnægjandi verkstjórnar eða skorts á leiðbeiningum við framkvæmd verksins á vinnustaðnum.  Hafi hann talið að hann gæti ekki framkvæmt verkið án þess að setja sjálfan sig í hættu gat hann með réttu gert kröfu til þess að úr yrði bætt.  Þegar framanritað er virt er ósannað að slys stefnanda verði rakið til atvika sem stefndi beri ábyrgð á heldur hafi verið um óhappatilvik að ræða sem ekki verði rakið til saknæmrar háttsemi samstarfsmanns stefnanda eða saknæmrar vanrækslu á vinnustað.  Tilgreind ákvæði laga nr. 46/1980, sem stefnandi vísar til, eru almenns eðlis um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum, og hefur stefnandi ekki sýnt fram á að brotið hafi verið gegn þeim í tengslum við slysið.  Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki séð að neinu hafi breytt að Vinnueftirlitið var ekki kallað á staðinn í kjölfar slyssins.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Ólafs Hilmarssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður