Hæstiréttur íslands
Mál nr. 554/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 13. október 2008. |
|
Nr. 554/2008. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Einar Hugi Bjarnason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. a. og b. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. október 2008. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. október 2008 kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðilli hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 30. september 2008.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2008.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að úrskurði að X verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 16. október nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að 2. september sl. hafi þýski ríkisborgarinn Y verið handtekinn við komu til Íslands, Seyðisfjarðar, með farþegaskipinu Norrænu. Í bifreið sem Y hafi verið með í Norrænu hafi fundist mikið magn fíkniefna, bæði amfetamín og hass, sbr. nánar í hjálögðum gögnum. Hafi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu verið falin rannsókn málsins.
Við handtöku hafi í fórum Y fundist símanúmer sem reynst hafi vera heimasímanúmer X. Einnig hafi í fórum Y fundist símanúmer móður X, sem búi í Þýskalandi og símanúmer Z, sem einnig búi í Þýskalandi og lögregla hafi upplýsingar um að sé sambýlismaður móður X. Þá hafi Y borið um að hafa áður komið til Íslands í apríl á þessu ári og hafi X þá sótt hann við komuna til landsins, til Seyðisfjarðar. Við leit lögreglu á heimili X hafi fundist pappírar þar sem hvoru tveggja sé að finna nöfn Z og móður X. Þá hafi vitni tengd greindum aðilum borið um að Z og móðir X séu í sambúð og að Z hafi aðstoðað X við ýmsa formlega hluti og skráningar hér á landi. Þá hafi allir framangreindir aðilar verið saman komnir í veislu á vegum X og barnsmóður hans í Þýskalandi í ágúst sl.
X hafi borið svo um í skýrslutöku hjá lögreglu að hann kannaðist ekkert við Y og kannaðist ekkert við ferð austur á land til að sækja hann í apríl á þessu ári. Þá hafi sagt að hann kannaðist ekki við áðurgreindan Z. Símagögn sem fengin hafi verið á grundvelli úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur bendi til þess að farsími X hafi farið um senda austur á landi á þeim tíma sem Y kveðjist hafa hitt X á Seyðisfirði.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu þá hafi Y og áðurgreindur Z verið saman í fangelsi í [...] í Þýskalandi og kynnst þar.
Rannsókn lögreglu miði að því að upplýsa um hver/hverjir eigi þau fíkniefni sem haldlögð hafi verið, hverjir stóðu að innflutningnum, fjármögnun og skipulagningu. Hafi við rannsóknina meðal annars verið leitað atbeina erlendra lögregluyfirvalda. Talið sé að X sé aðili að ætluðum fíkniefnainnflutningi, en kanna þurfi nánar í hverju hans ætlaða aðild felist.
Rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot kærða. Nauðsynlegt sé talið að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins, svo honum sé fyrirmunað að setja sig í samband við ætlaða vitorðsmenn sem ganga lausir og/eða að þeir setji sig í samband við hann og/eða að kærði geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi í málinu og hafi ekki verið haldlagðir. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Kærði sé þýskur ríkisborgari sem hafi dvalið síðustu ár að hluta í Þýskalandi og að hluta á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi barnsmóðir kærða nú farið úr landi ásamt barni þeirra og því mikil hætta talin á að kærði yfirgefi landið á meðan málið sé til rannsóknar.
Rannsókn málsins sé umfangsmikil. Frekari gagnaöflun þurfi að fara fram varðandi aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun.
Til rannsóknar sé ætlað brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a og b liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði er erlendur ríkisborgari og er rannsókn máls þessa ekki lokið. Fyrir liggur í vitnaskýrslum sem lagðar hafa verið fyrir dóminn, að ákveðin tengsl eru milli hans og Y, sem fyrr í dag samþykkti gæsluvarðhaldskröfu á hendur sér vegna gruns um að eiga aðild að innflutningi fíkniefna sem komu til Seyðisfjarðar með farþegaskipinu Norrænu 2. september 2008, en kærði hefur neitað að þekkja fyrrgreindan Y. Y hefur borið fyrir lögreglu að kærði hafi sótt hann við komu Y til landsins í apríl á þessu ári.
Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er það skilyrði gæsluvarðhalds að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Af fyrrgreindum framburðarskýrslum verður fallist á að fram sé kominn rökstuddur grunur í skilningi lagaákvæðisins um aðild varnaraðila að innflutningi fíkniefnanna. Þá er og fallist á með lögreglu að ætla megi að kærði geti torveldað rannsókn málsins og reynt að komast úr landi, fari hann frjáls ferða sinna. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a og b-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu tekin til greina, eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, skal áfram sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 16. október nk. kl. 16:00.