Hæstiréttur íslands

Mál nr. 357/2004


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Sjómaður
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Almannatryggingar
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. febrúar 2005.

Nr. 357/2004.

Kjartan Sigurðsson

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Frostfiski ehf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Vinnuslys. Sjómenn. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Almannatryggingar. Málskostnaður.

K varð fyrir slysi í starfi sínu hjá F ehf. Í málinu var deilt um hvort vátryggingarfélaginu S hf. hafi á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga verið rétt að draga frá bótum K fyrir varanlega örorku eingreiðsluverðmæti barnalífeyris til hans samkvæmt lögum um almannatryggingar, en skattyfirvöld höfðu farið þannig með barnalífeyri að hann teldist ekki til skattskyldra tekna. F ehf. var sýknað af aðalkröfu K sem var reist á því að eingreiðsluverðmæti barnalífeyris bæri ekki að draga frá bótunum vegna tilgangs barnalífeyris. Talið var að fylgja yrði þeirri almennu reglu við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt 4. mgr. 5. gr. að eingreiðsluverðmæti þess, sem tjónþoli ætti rétt til úr almannatryggingum, kæmi aðeins að 2/3 hlutum til frádráttar bótum þegar um væri að ræða tekjuskattskyldan lífeyri, sem greiddist ekki í einu lagi. Þrátt fyrir að barnalífeyrir hafi ekki verið talinn til skattskyldra tekna krafðist K þess að eingreiðsluverðmætið kæmi ekki að fullu til frádráttar þar sem enn ætti eftir að taka tillit til áhrifa af því að hann færi á mis við hagræði af því að fá bætur að fullu greiddar í einu lagi en hluti þeirra kæmi í formi barnalífeyris sem myndi dreifast á mánaðarlegar útborganir um fjölda ára úr almannatryggingum. Ekki var talið fært að fella efnisdóm á þessa kröfu K, en að engu leyti hafði verið rakið af hendi hans hver þau atriði væru önnur en tekjuskattfrelsi bótanna, sem gætu búið að baki því að bætur fyrir varanlega örorku sættu lækkun vegna hagræðis tjónþola af eingreiðslu þeirra, og enn síður hvert væri reikningslegt vægi slíkra atriða. Var varakröfu F ehf. því vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

 Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2004. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 4.982.818 krónur, en til vara 1.660.939 krónur, með 4,5% ársvöxtum frá 30. maí 2002 til 4. apríl 2003 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann nýtur hér fyrir dómi. Verði stefndi sýknaður krefst áfrýjandi þess til þrautavara að stefndi verði allt að einu dæmdur til að greiða málskostnað á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í héraðsdómi er í máli þessu deilt um uppgjör skaðabóta til áfrýjanda vegna slyss, sem hann varð fyrir í starfi hjá stefnda 24. júní 2001. Að fengnu örorkumati 6. febrúar 2003 krafði áfrýjandi réttargæslustefnda 4. mars sama ár um bætur að fjárhæð samtals 22.305.887 krónur að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Samkomulag tókst um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar og varanlegan miska, svo og um útreikning bóta fyrir varanlega örorku að öðru leyti en um frádrátt vegna greiðslna, sem áfrýjandi átti rétt til úr lífeyrissjóðum og almannatryggingum. Voru skaðabætur gerðar upp við áfrýjanda 25. apríl 2003 að því leyti, sem ágreiningur var ekki uppi. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 26. nóvember sama ár til greiðslu á 6.305.082 krónum, en hann taldi bætur fyrir varanlega örorku ranglega hafa verið skertar um þá fjárhæð vegna áðurgreindra frádráttarliða. Eftir að málið var höfðað greiddi réttargæslustefndi áfrýjanda 1.322.264 krónur af stefnufjárhæðinni auk vaxta eða samtals 1.559.894 krónur. Stóð þá eftir ágreiningur milli aðilanna um hvort réttargæslustefnda hafi verið rétt að draga frá bótum áfrýjanda fyrir varanlega örorku eingreiðsluverðmæti barnalífeyris til hans frá Tryggingastofnun ríkisins, en óumdeilt er í málinu að það verðmæti nemi 4.982.818 krónum, sem er aðalkrafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti. Í varakröfu hans er við það miðað að þessi fjárhæð geti aðeins komið til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku að 2/3 hlutum. Áfrýjandi rökstyður þrautavarakröfu sína með því að krafa hans hafi að hluta verið greidd eftir að hann höfðaði mál þetta, en af þeim sökum eigi hann rétt á málskostnaði úr hendi stefnda, hver sem niðurstaða þess verður að öðru leyti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um aðalkröfu áfrýjanda.

Áfrýjandi vísar til þess um varakröfu sína að í lögskýringargögnum, sem varða breytingar á skaðabótalögum nr. 50/1993 með lögum nr. 37/1999, komi meðal annars fram að gæta verði að því, þegar greiðslur til tjónþola af félagslegum toga eru dregnar frá bótum fyrir varanlega örorku eftir núgildandi reglum 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, að þær séu sambærilegar með tilliti til skattskyldu og greiðsluforms áður en þær komi til frádráttar skattfrjálsum og afvöxtuðum bótum. Þá komi og fram í þeim gögnum að við ákvörðun margföldunarstuðla, sem nú eru í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga, hafi meðal annars verið tekin með í reikninginn almenn regla um að tekjuskattfrelsi bóta fyrir varanlega örorku og hagræði af eingreiðslu þeirra leiddi samanlagt til lækkunar þeirra um 33,3%. Fyrir Hæstarétti er ekki ágreiningur um að skattyfirvöld hafi farið þannig með barnalífeyri samkvæmt 14. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar með áorðnum breytingum að hann teljist ekki til skattskyldra tekna, þrátt fyrir orðalag 3. málsliðar 2. töluliðar A. liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Áfrýjandi telur að þrátt fyrir þetta eigi eingreiðsluverðmæti barnalífeyris ekki að koma að fullu til frádráttar skaðabótum fyrir varanlega örorku, þar sem enn eigi eftir að taka tillit til áhrifa af því að áfrýjandi fari að þessu leyti á mis við hagræði af því að fá bætur að fullu greiddar í einu lagi og komi þess í stað hluti þeirra í formi barnalífeyris, sem muni dreifast á mánaðarlegar útborganir um fjölda ára úr almannatryggingum. Með því að ekki verði ráðið frekar af fyrrnefndum lögskýringargögnum að hve miklu leyti bætur fyrir varanlega örorku lækki nákvæmlega í útreikningi vegna tekjuskattfrelsis annars vegar og hagræðis af eingreiðslu hins vegar verði áfrýjandi að njóta vafans á þann hátt að þriðjungslækkunin í heild verði rakin hér til eingreiðsluhagræðis.

Fallast verður á með áfrýjanda að fylgja verði þeirri almennu reglu við ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku eftir 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að eingreiðsluverðmæti þess, sem tjónþoli á rétt til úr almannatryggingum, komi aðeins að 2/3 hlutum til frádráttar bótum þegar um er að ræða tekjuskattskyldan lífeyri, sem greiðist ekki í einu lagi, sbr. að nokkru dóma Hæstaréttar 18. september 2003 í máli nr. 520/2002 og 27. nóvember 2003 í máli nr. 223/2003. Verður þetta rakið til þess, sem áður segir, að eftir lögskýringargögnum hefur við ákvörðun margföldunarstuðla í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga verið reiknað með því að bætur fyrir varanlega örorku skerðist um þriðjung samtals vegna tekjuskattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu þeirra. Ljóst er að þessi skerðing hlýtur að mestu að verða rakin til tekjuskattfrelsis bótanna, enda felst að öðru leyti í útreikningi þeirra að áætlað tekjutap tjónþola vegna örorku sætir lækkun, sem svarar til frambúðarávöxtunar þeirra, en með þessu er þá þegar að verulegu leyti tekið tillit til áhrifa af því að bæturnar séu inntar af hendi með eingreiðslu. Í málinu hefur að engu leyti verið rakið af hendi áfrýjanda hver þau atriði séu önnur, sem geti búið að baki því að bætur fyrir varanlega örorku sæti lækkun vegna hagræðis tjónþola af eingreiðslu þeirra, og enn síður hvert sé reikningslegt vægi slíkra atriða. Af þessum sökum er ekki fært að fella efnisdóm á varakröfu áfrýjanda og verður henni því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Eins og áður segir greiddi réttargæslustefndi eftir málshöfðun hluta af þeirri fjárhæð, sem áfrýjandi krafðist í héraðsdómsstefnu. Er því rétt að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði, eins og nánar greinir í dómsorði, en málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Frostfisks ehf., af aðalkröfu áfrýjanda, Kjartans Sigurðssonar, um greiðslu á 4.982.818 krónum.

Varakröfu áfrýjanda um greiðslu á 1.660.939 krónum er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi greiði áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað í héraði.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2004.

Mál þetta var höfðað 26. nóvember 2003 og dómtekið 13. þ.m.

Stefnandi er Kjartan Sigurðsson, Sóleyjargötu 4, Vestmannaeyjum.

Stefndi er Frostfiskur ehf., Hafnarskeiði, Þorlákshöfn.  Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík er stefnt til réttargæslu.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð aðallega 4.982.818 krónur en til vara 1.660.939 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 30. maí 2002 til 4. apríl 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og til að greiða sér málskostnað.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur hans verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

Stefnandi, sem var skipverji á skipi stefnda, Danska Pétri VE-423, varð fyrir slysi þann 24. júní 2001 er hann var að fara um borð í skipið.  Enginn landgangur var við skipið.  Stefnandi rann til, var nærri fallinn í sjóinn milli skips og bryggju en tókst að verja sig falli með því að grípa um borðstokkinn.  Við þetta kom mikil fetta á bak hans þannig að eitthvað gaf sig.  Stefnandi jafnaði sig ekki nema að takmörkuðu leyti og hefur verið til meðferðar hjá ýmsum sérfræðingum vegna meina sinna. 

Læknarnir Jónas Hallgrímsson og Guðmundur Björnsson mátu afleiðingar slyssins á heilsufar stefnanda.  Niðurstaða matsgerðar, dags. 6. febrúar 2003, er þessi:  Tímabundið atvinnutjón 100% frá slysdegi til 30. maí 2002.  Stefnandi hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaga tímabilið 24. júní 2001 til 30. maí 2002, þar af 13 daga rúmliggjandi.  Stöðugleikapunktur er settur 30. maí 2002.  Varanlegur miski 20% og varanleg örorka 40%.

Lögmaður stefnanda sendi réttargæslustefnda kröfubréf, dags. 4. mars 2003, vegna slyssins með vísun til niðurstöðu framangreinds mats og ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi en afleiðingar slyssins voru bótaskyldar úr vátryggingu sem stefndi hafði keypt hjá réttargæslustefnda.  Upphæð kröfunnar nam 22.305.887 krónum.  Ágreiningur varð um uppgjörið.  Fullnaðaruppgjör af hálfu réttargæslustefnda fór fram 25. apríl með greiðslu 7.825.909 króna en áður hafði félagið greitt stefnanda 4.555.063 krónur.  Greiðslan var móttekin með fyrirvara um frádrátt greiðslna frá lífeyrissjóðum og TR og forsendur tryggingastærðfræðings varðandi áhrif skatta.

Aðalkrafa samkvæmt stefnu nam 6.305.082 krónum.  Eftir þingfestingu málsins, en áður en greinargerð var skilað af hálfu stefnda og réttargæslustefnda, greiddi hinn síðarnefndi stefnanda 1.322.264 krónur auk vaxta.  Krafa stefnanda var lækkuð til samræmis við þetta.  Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu. 

Ágreiningur aðila varðar það hvort framreiknað verðmæti barnalífeyris, sem greiddur er á grundvelli 14. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, beri að draga frá bótum fyrir varanlega örorku með vísan til 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, 4. gr. 

Aðalkrafa stefnanda er reist á því að barnalífeyrir falli ekki að hugtaks­skilyrðum tilvitnaðs ákvæðis skaðabótalaga.  Stefnandi fái barnalífeyri ekki greiddan til eigin viðurværis heldur í þeim tilgangi að sinna lögboðinni framfærsluskyldu sinni með börnum sínum, sbr. 9. gr. laga nr. 20/1992.  Það að stefndi njóti góðs af barnalífeyrinum í stað barna stefnanda sé öndvert löggjafarviljanum og stjórnarskrár­vörðum réttindum stefnanda og barna hans til lágmarksframfærslu, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar svo og 72. gr. hennar enda sé aflahæfi manna stjórnarskrárvarin eignarréttindi.  Varakrafa stefnanda er reist á því að verði fallist á það með stefnda að draga eigi barnalífeyri, sem stefnandi muni fá greiddan vegna barna sinna frá bótum úr hendi stefnda, sé ótvírætt að ekki beri að draga aðra og hærri fjárhæð frá en sem nemur 2/3 hlutum útreiknaðs eingreiðsluverðmætis þessa lífeyris enda sé barnalífeyrir tekjuskattskyldur eins og aðrar greiðslur almannatrygginga og beri því að lækka fjárhæð eingreiðsluverðmætisins um sama hlutfall og lagt hafi verið til grundvallar við útreikning margföldunarstuðla 6. gr. laga nr. 50/1993. 

Aðalkrafa stefnda er reist á því að ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eins og því var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999, verði ekki skýrt á annan hátt en að allar bætur frá almannatryggingum, sem tjónþoli fái greiddar, skuli koma til frádráttar samkvæmt skýru orðalagi þess.  Því beri að leggja barnalífeyri að jöfnu við örorku­lífeyri, sem stefnandi fái greiddan frá almannatryggingum, enda skuli barnalífeyrir greiddur foreldrum barna samkvæmt 5. mgr. 14. gr. laga nr. 117/1993.    Margfeldis­stuðull núgildandi skaðabótalaga tryggi tjónþola fullar bætur vegna framtíðar­tekjutaps.  Ef greiðslur af félagslegum toga séu ekki dregnar frá sé tjónþoli í raun að hagnast á tjóni sínu.  Því er mótmælt að frádráttur barnalífeyris sé brot á 76. gr. eða 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Jafnfram er bent á að barnalífeyrir greiddur samkvæmt 14. gr. laga nr. 117/1993 sé ekki skattskyldur.  Varakrafa stefnda er studd þeim rökum að meirihluti barnalífeyris skuli koma til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku með vísan til rökstuðnings fyrir aðalkröfu eftir því sem við á.  Þá er upphafstíma dráttar­vaxta mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Barnalífeyrir, sem hér er deilt um, er samkvæmt 14. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða örorkulífeyrisþegi.  Margföldunarstuðull 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 5. gr. laga nr. 37/1999, er, samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 37/1993, við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku.  Jafnframt sé sú breyting gerð að til frádráttar bótum skuli koma greiðslur af félagslegum toga sem koma í hlut tjónþola vegna örorkunnar.  Í samræmi við þetta er mælt fyrir um það í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1993, að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragast greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum.  Að því leyti, sem hér um ræðir, verður ekki talið að framfærslugeta stefnanda skerðist þar sem tjón hans er að fullu bætt.  Lagaregla þessi er sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola verði, í samræmi við meginreglu skaðabótaréttar, að fullu bættur, en heldur ekki umfram það, og samkvæmt henni er farið eins með alla tjónþola sem eins háttar til um að þessu leyti; hún er því hvorki andstæð 65. gr. né 72. gr. stjórnarskrárinnar. 

Samkvæmt þessu er ekki fallist á aðalkröfu stefnanda.

 Samkvæmt lögskýringargögnum má finna því stoð að ýmsar þær greiðslur, sem samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga skulu dragast frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns, þ.á m. greiðslur frá almannatryggingum, skuli einungis reiknast að 2/3 hlutum séu þær skattskyldar.  Barnalífeyrir, sem greiddur er samkvæmt 14. gr. laga um almannatryggingar, telst hins vegar ekki til tekna samkvæmt 2. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt.

Þegar með vísun til framangreinds er ekki fallist á varakröfu stefnanda.

Niðurstaða málsins er samkvæmt þessu sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Frostfiskur ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Kjartans Sigurðs­sonar.

Málskostnaður fellur niður.