Hæstiréttur íslands
Mál nr. 436/2004
Lykilorð
- Kaupsamningur
- Veðsetning
- Þinglýsing
|
|
Fimmtudaginn 10. mars 2005. |
|
Nr. 436/2004. |
Sparisjóður Mýrasýslu(Lárentsínus Kristjánsson hrl.) gegn Kára Stefánssyni (Othar Örn Petersen hrl.) |
Kaupsamningur. Veðsetning. Þinglýsing.
K gerði samning 6. september 2001 um kaup á hluta úr jörðinni H en þinglýsti honum ekki. Eftir þetta tímamark gáfu þinglýstir eigendur jarðarinnar út tvö tryggingarbréf til S samtals að fjárhæð 140.000.000 króna og var bréfunum þinglýst á jörðina. Ágreiningur málsaðila laut að því hvort tryggingarbréfin fengju hrundið rétti K samkvæmt hinum óþinglýsta kaupsamningi. Þar sem fram hafði komið í aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns S að hann kannaðist við nafn K af þeim kaupsamningum um spildur úr jörðinni sem lagðir hafi verið fyrir S þegar gengið var frá lánafyrirgreiðslu þeirri sem var grundvöllur tryggingarbréfanna gat S ekki talist grandlaus um efni kaupsamningsins og gekk réttur K því framar rétti S, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Var S því dæmdur til að aflétta umræddum veðböndum af spildunni. Taldist það ekki standa þessari niðurstöðu í vegi, eða breyta neinu í lögskiptum aðila þótt veðrétti S yrði ekki endanlega aflýst af spildunni fyrr en henni hefði verið skipt úr jörðinni með samþykki viðeigandi stjórnvalda.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 2004 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda en til vara, að honum verði aðeins gert að létta veðböndum samkvæmt tryggingarbréfum dagsettum 7. september 2001 að höfuðstól 120.000.000 krónur og 20. nóvember sama ár að höfuðstól 20.000.000 krónur „af umdeildri spildu stefnda á jörðinni Hvammi, Skorradalshreppi, sbr. kaupsamning stefnda og Eignarhaldsfélagsins Hvammskógs ehf. dags. 6. september 2001, gegn því að stefndi greiði kaupverð tilgreindrar landspildu til áfrýjanda.“ Hann krefst og málkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sparisjóður Mýrasýslu, greiði stefnda, Kára Stefánssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 1. september 2004.
Mál þetta var höfðað 5. apríl 2004 og dómtekið 24. ágúst sama ár. Stefnandi er Kári Stefánsson, Víðihlíð 6 í Reykjavík, en stefndi Sparisjóður Mýrasýslu, Borgarbraut 14 í Borgarnesi.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert skylt að aflétta veðböndum af spildu í eigu stefnanda úr jörðinni Hvammi í Skorradalshreppi, eins og spildan er afmörkuð í kaupsamningi 6. september 2001 milli stefnanda og Eignarhaldsfélagsins Skorradals ehf., samkvæmt tryggingarbréfi að höfuðstól 120.000.000 krónur útgefnu 7. september 2001 af Eignarhaldsfélaginu Skorradalur ehf. og tryggingarbréfi að höfuðstól 20.000.000 krónur útgefnu 20. nóvember sama ár af Eignarhaldsfélaginu Hvammsskógur ehf. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að stefnda verði aðeins gert að aflétta af spildunni veðböndum samkvæmt greindum tryggingarbréfum gegn því að stefnandi greiði til stefnda kaupverð spildunnar samkvæmt kaupsamningi um hana. Þá gerir stefndi þá kröfu að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
I.
Með samningi 6. september 2001 keypti stefnandi af Eignarhaldsfélaginu Skorradal ehf. spildu úr landi Hvamms í Skorradal. Í kaupsamningnum er mörkum spildunnar lýst en með samningnum fylgdi uppdráttur af spildunni. Kaupverðið var 24.000.000 krónur og bar að greiða það við útgáfu afsals en þá átti jarðarparturinn að vera veðbandslaus.
Þessi kaup áttu sér aðdraganda sem rekja má til kaupa Eignarhaldsfélagsins Skorradals ehf. á jörðinni Hvammi. Verður þeim viðskiptum lýst hér að svo miklu leyti sem horfir til skýringar á því sakarefni sem er til úrlausnar í þessu máli.
Með kaupsamningi 22. maí 2001 keypti Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. jörðina Hvamm af erfingjum Hauks Thors. Kaupverðið nam 120.000.000 krónur og átti að greiða það með 10.000.000 krónum við undirritun samnings, 10.000.000 krónum innan þriggja daga frá dagsetningu samningsins gegn skilyrtu veðleyfi og 100.000.000 krónum við afsal 25. júlí 2001.
Jörðin Hvammur er skógræktarjörð og var tilgangurinn með kaupunum að skipuleggja sumarhúsabyggð og selja lóðir undir sumarhús. Til að fjármagna greiðslu að fjárhæð 10.000.000 krónur, sem greiða átti innan þriggja daga frá undirritun kaupsamnings, fékk Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. lán hjá stefnda og gaf út tryggingarbréf fyrir þeirri fjárhæð 23. maí 2001 með 1. veðrétti í jörðinni. Í kjölfarið leitaði Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. til stefnda um frekari fjármögnun vegna kaupa jarðarinnar. Af hálfu stefnda var sett sem skilyrði fyrir lánveitingu að Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. sýndi fram á að unnt væri að selja lóðir eða spildur úr jörðinni fyrir um 50.000.000 til 60.000.000 krónur. Eftir að félagið hafði lagt fyrir stefnda gögn því til staðfestingar veitti stefndi lán fyrir lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi um jörðina. Til tryggingar á því láni gaf Eignarhaldsfélagið Skorradalur út tryggingarbréf til stefnda 7. september 2001 að fjárhæð 120.000.000 krónur með 1. veðrétti í jörðinni, samhliða fyrra tryggingarbréfi.
Afsal til Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf. var gefið út 7. september 2001 en það ásamt fyrrgreindu tryggingarbréfi, sem gefið var út sama dag, var lagt inn til þinglýsingar 10. þess mánaðar.
II.
Hinn 2. október 2001 var stofnað nýtt félag um eignarhald á jörðinni, Eignarhaldsfélagið Hvammsskógur ehf. Afsal til félagsins fyrir jörðinni var síðan gefið út 15. sama mánaðar. Að umræddu félagi stóðu Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. með 98 % hlutafjár og Þerney ehf. og Jóhann Kristján Sigurðsson með 1 % hlutafjár hvor. Í október og nóvember 2001 leysti Jóhann til sín allt hlutafé í félaginu en hann mun um þetta leyti hafa fengið lánafyrirgreiðslu hjá stefnda. Af því tilefni gaf Eignarhaldsfélagið Hvammsskógur ehf. út tryggingarbréf til stefnda 20. nóvember 2001 að fjárhæð 20.000.000 krónur með 1. veðrétti í jörðinni, samhliða fyrri tryggingarbréfum.
Í framhaldi af þessum viðskiptum reis ágreiningur milli stefnanda og Eignarhaldsfélagsins Hvammsskógur ehf. um hvort félagið væri bundið af kaupsamningi stefnanda 6. september 2001 um spildu úr jörðinni. Af því tilefni höfðaði stefnandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur félaginu 10. apríl 2002 og gekk dómur í málinu 5. desember sama ár. Með þeim dómi var viðurkennt að Eignarhaldsfélagið Hvammsskógur ehf. væri bundið af umræddum kaupsamningi stefnanda og Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf. Dóminum var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar 2. október 2003 í máli nr. 77/2003 var héraðsdómur staðfestur.
III.
Hinn 14. október 2003 ritaði lögmaður stefnanda bréf og gerði þá kröfu að Eignarhaldsfélagið Hvammsskógur ehf. gæfi út afsal fyrir spildu stefnanda. Með bréfi sama dag var þess einnig farið á leit að stefndi leysti spildu stefnanda úr veðböndum gegn því að kaupverðið að frádregnum kostnaði yrði greitt. Því erindi svaraði stefndi með bréfi 7. nóvember sama ár en þar kom fram að jarðarparturinn yrði ekki leystur úr veðböndum nema með samþykki lántakanda, auk þess sem sýna þyrfti fram á að sparisjóðurinn yrði ekki fyrir tjóni. Í kjölfarið urðu frekari bréfaskipti milli aðila án þess að efni séu til að rekja þau nánar.
Með bréfi 8. janúar 2004 gerði stefndi þá kröfu að jörðin Hvammur yrði seld nauðungarsölu. Var krafan reist á tryggingarbréfum stefnda áhvílandi á jörðinni. Með bréfi lögmanns stefnanda 8. mars 2004 var nauðungarsölunni andmælt vegna grandsemi stefnda um betri rétt stefnanda til spildu úr jörðinni. Einnig var því haldið fram að viðhlítandi nauðungarsöluheimild væri ekki fyrir hendi. Með bréfi sýslumanns 23. mars 2004 var fallist á andmæli stefnanda og náði nauðungarsalan ekki fram að ganga.
IV.
Stefnandi reisir málsókn sína á því að komist hafi á bindandi samningur 6. september 2001 milli hans og Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf. um kaup á spildu úr jörðinni Hvammur. Með dómi Hæstaréttar 2. október 2003 hafi skuldbindingargildi samningsins síðan verið staðfest gagnvart núverandi þinglýstum eiganda jarðarinnar, Eignarhaldsfélaginu Hvammsskógur ehf.
Stefnandi vísar til þess að spildan eigi að vera veðbandslaus við útgáfu afsals. Heldur stefnandi því fram að stefndi hafi verið grandvís um betri rétt stefnanda samkvæmt kaupsamningnum þegar stefndi tók veð í allri jörðinni með tryggingarbréfum útgefnum 7. september og 20. nóvember 2001. Vísar stefnandi til þess að kaup Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf. hafi átt sér nokkurn aðdraganda en stefndi hafi sett að skilyrði fyrir láni til fjármögnunar á kaupunum að lóðir yrðu seldar úr jörðinni. Telur stefnandi hafið yfir allan vafa að kaupsamningur við hann hafi verið borinn undir stefnda áður en hann fékk veð í jörðinni með fyrrgreindum tryggingarbréfum, enda hafi kaupverðið numið umtalsverðum hluta af því fé sem afla átti með lóðasölu áður en komið gæti til lánfyrirgreiðslu. Þannig hafi kaup stefnanda á spildu úr jörðinni beinlínis verið forsenda fyrir lánveitingu stefnda.
Stefnandi bendir á að grandleysi sé skilyrði þess að síðari rétthafi geti á grundvelli samnings hrundið eldri óþinglýstum rétti sem háður sé þinglýsingu, sbr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Jafnframt tekur stefnandi fram að þinglýsing breyti engu um lögskipti milli aðila að kaupsamningi, auk þess sem núverandi þinglýstur eigandi jarðarinnar sé bundinn af kaupsamningnum, eins og staðfest hafi verið með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar.
Stefnandi tekur fram að við kaup hans á spildu úr jörðinni 6. september 2001 hafi verið áhvílandi tryggingarbréf til stefnda 23. maí 2001 að fjárhæð 10.000.000 krónur. Af þeirri ráðstöfun sé stefnandi bundinn en síðari veðsetningar til stefnda sé stefnanda óviðkomandi. Þá andmælir stefnandi þeirri röksemd stefnda að hann geti ekki leyst spilduna úr veðböndum án samþykkis lántakanda. Í því sambandi bendir stefnandi á að lántakandi hafi skuldbundið sig til að láta spilduna af hendi veðbandslausa við útgáfu afsals.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið heldur stefnandi því fram að veðsetning á spildu hans til stefnda hafi verið ólögmæt. Vegna grandsemi stefnda verði hann að þola ógildingu veðsetningarinnar og að veðböndum eftir gerð kaupsamnings við stefnanda 6. september 2001 verði aflétt.
Verði ekki fallist á þessar röksemdir vísar stefnandi til almennra ógildingarreglna samningaréttar til stuðnings kröfum sínum. Telur stefnandi óheiðarlegt af stefnda að bera fyrir sig veðsetninguna og því beri að ógilda hana samkvæmt 33. gr. samningalaga nr. 7/1936. Sama leiði einnig af 36. gr. laganna, enda sé veðsetningin ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju. Þá telur stefnandi að stefndi brjóti gegn reglunni um tillit til þeirra sem hagsmuna eigi að gæta haldi hann fast við þá afstöðu að synja um afléttingu veðbanda.
V.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að þegar hann hafi tekið við tryggingarbréfi 7. september 2001 útgefnu af Eignarhaldsfélaginu Skorradalur ehf. og tryggingarbréfi 20. nóvember 2001 útgefnu af Eignarhaldsfélaginu Hvammsskógur ehf. hafi útgefendur þeirra verið þinglýstir eigendur jarðarinnar Hvamms, enda hafi bréfunum verið þinglýst án athugasemda. Einnig heldur stefndi því fram að hann hafi ekki tekið á sig neinar skuldbindingar gagnvart stefnanda og því beri honum engin skylda til að aflétta veðböndum af eigninni.
Stefndi heldur því fram að hann hafi mátt treysta að viðsemjendum hans, Eignarhaldsfélaginu Skorradalur ehf. og Eignarhaldsfélaginu Hvammsskógur ehf., hafi verið heimilt að veðsetja jörðina með þeim hætti sem gert var, enda hafi hann ekki haft neina ástæðu til að vefengja réttindi þeirra. Í því sambandi breyti engu kaupsamningur við stefnanda frá 6. september 2001 en sá samningur sé stefnda óviðkomandi.
Stefndi telur ljóst að með fyrrgreindum tryggingarbréfum hafi hann öðlast veðrétt í allri jörðinni Hvammi, þar með talið umdeildri landspildu stefnanda, enda hafi spildan ekki verið skilin undan jörðinni þannig að hún standi sem sjálfstæð eign í þinglýsingarbókum. Í því sambandi bendir stefndi á að útilokað hafi verið fyrir hann að taka veð í jörðinni Hvammi, án þess að það tæki til landspildu stefnanda, því skylt sé að hver sjálfstæð eign sé skráð með ákveðnum hætti í Landskrá fasteigna og þar með þinglýsingarbókum. Að öðrum kosti telst partur úr jörð ekki sérstök eign sem hægt er að undanskilja við veðsetningu jarðarinnar, sbr. lög um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.
Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi enn ekki látið þinglýsa kaupsamningi um spilduna frá 6. september 2001. Í því tilliti bendir stefnandi á að tryggingarbréfi útgefnu 20. nóvember 2001 hefði ekki verið þinglýst á þann hluta jarðarinnar ef stefnandi hefði þinglýst samningnum án ástæðulauss dráttar. Telur stefndi að stefnandi sjálfur verði að bera hallann af því að hafa ekki gætt þess að tryggja rétt sinn samkvæmt kaupsamningnum með því að láta þinglýsa honum. Með engu móti geti stefndi glatað rétti vegna þessarar vanrækslu stefnanda.
Stefndi vekur athygli á því að tryggingarbréf að fjárhæð 120.000.000 krónur var gefið út daginn eftir að gerður var kaupsamningur 6. september 2001 um spildu stefnanda. Þegar tryggingarbréfið var gefið út hafi ekki verið búið að fjalla um kaupsamninginn í sveitarstjórn og jarðanefnd í samræmi við áskilnað jarðalaga, nr. 65/1976. Auk þess hafi ekki verið búið að afla staðfestingar landbúnaðarráðuneytisins á skiptingu jarðarinnar að fenginni umsögn Bændasamtaka Íslands, sbr. 3. mgr. 12. gr. sömu laga. Af þessu sökum hafi ekki verið ljóst að kaupsamningurinn öðlaðist gildi og í raun sé enn ekki ljóst hvort hann muni öðlast gildi þar sem hann hafi ekki komið til umfjöllunar hjá þessum stjórnvöldum. Með hliðsjón af þessu hafi ekki verið óeðlilegt af stefnda að taka veð í allri jörðinni, jafnvel þótt talið verði að honum hafi verið kunnugt um kaupsamning stefnanda. Í framhaldi af því hafi það síðan verið mál stefnanda og eiganda jarðarinnar hvernig þeir leystu þetta gagnvart stefnda ef kaupsamningurinn öðlaðist gildi.
Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir heldur stefndi því fram að stefnandi hafi fyrirgert öllum rétti sínum gagnvart stefnda með tómlæti við að halda hugsanlegum rétti sínum til streitu. Þótt stefnandi hafi ekki þinglýst kaupsamningnum hefði honum verið í lófa lagið að tilkynna stefnda um kaupin á landspildunni en til þess hafi hann haft ástæðu þar sem á jörðinni hvíldi tryggingarbréf til stefnda 23. maí 2001 að höfuðstól 10.000.000 krónur.
Stefndi mótmælir því eindregið að ógildingarreglur samningalaga eigi við um það sakarefni sem hér er til úrlausnar, enda hafi stefndi ekki átt neina aðild að lögskiptum stefnanda og eigenda jarðarinnar.
Stefndi reisir varakröfu sína á því að hætt sé við að hann verði fyrir óverðskulduðu tjóni ef spilda stefnanda verður leyst úr veðböndum án þess að kaupverð spildunnar renni til stefnda. Einnig bendir stefndi á að ekki sé útilokað að hann verði fyrir tjóni ef spildan verði skilin frá jörðinni þar sem verðmæti jarðarinnar muni rýrna.
VI.
Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga, nr. 39/1978, skal þinglýsa réttindum yfir fasteign til þess að þau haldi gildi sínu gegn þeim er reisa rétt sinn á samningum um eignina. Fær samningur ekki hrundið eldri óþinglýstum rétti nema honum sé þinglýst sjálfum, enda sé rétthafi eftir samningi grandlaus um þann rétt er hrinda á, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Með grandleysi er átt við að rétthafi eftir samningi eða löggerningi hvorki þekki né ætti að þekkja hin óþinglýstu réttindi, sbr. 19. gr. laganna.
Með kaupsamningi 6. september 2001 keypti stefnandi nánar afmarkaða spildu úr jörðinni Hvammi í Skorradal af Eignarhaldsfélaginu Skorradalur ehf., sem þá var eigandi jarðarinnar samkvæmt kaupsamningi 22. maí sama ár. Jarðarparturinn var seldur án þess að stefnandi ætti að yfirtaka áhvílandi veðskuldir. Daginn eftir að stefnandi keypti spilduna gaf Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. út tryggingarbréf til stefnda að fjárhæð 120.000.000 krónur með 1. veðrétti í jörðinni. Sama dag var gefið út afsal fyrir jörðinni til Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf. Voru bæði afsalið og tryggingarbréfið móttekið til þinglýsingar 10. sama mánaðar. Eftir að Eignarhaldsfélagið Skorradalur ehf. hafði afsalað jörðinni til Eignarhaldsfélagsins Hvammsskógar ehf. 15. október 2001 gaf það félag út tryggingarbréf til stefnda 20. nóvember sama ár að fjárhæð 20.000.000 krónur með 1. veðrétti í jörðinni. Það bréf var móttekið til þinglýsingar 26. sama mánaðar. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort þessi tryggingarbréf stefnda, samtals að fjárhæð 140.000.000 krónur, fái hrundið rétti stefnanda samkvæmt óþinglýstum kaupsamningi hans.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi verið grandsamur um rétt stefnanda samkvæmt óþinglýstum kaupsamningi hans þegar honum var veitt veð í jörðinni með umræddum tryggingarbréfum. Stefndi hefur ekki vefengt að fyrir þá ráðstöfun hafi honum borist kaupsamningurinn við stefnanda. Þvert á móti kom fram fyrir dómi í aðilaskýrslu Gísla Kjartanssonar, sparisjóðsstjóra stefnda, að hann myndi eftir nafni stefnanda í tengslum við þá samninga sem lagðir voru fyrir hann áður en lán til að fjármagna kaup á jörðinni var afgreitt til Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf. 7. september 2001. Sparisjóðsstjórinn kvaðst hins vegar ekki hafa kannað nánar efni þessara samninga.
Með hliðsjón af þessum málatilbúnaði stefnda og ráðstöfun á sakarefni í aðilaskýrslu, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður lagt til grundvallar að kaupsamningur stefnanda hafi borist stefnda áður en jörðin ásamt spildu stefnanda var sett stefnda að veði með tryggingarbréfum 7. september og 20. nóvember 2001. Mátti stefnda því vera ljóst að spilda úr jörðinni hafði verið seld stefnanda án þess að hann tæki að sér að greiða áhvílandi skuldir. Var stefndi því grandsamur um betri rétt stefnanda þegar hann fékk veð í jörðinni með umræddum tryggingarbréfum. Í því sambandi breytir engu hvort sparisjóðsstjóri stefnda kynnti sér nánar þau gögn sem beinlínis voru lögð voru fyrir hann í tengslum við veðsetningu jarðarinnar, eins og honum bar með hliðsjón af þeim kröfum sem gera verður til lánastofnanna um vandaða viðskiptahætti. Samkvæmt þessu verður ekki talið að tryggingarbréf stefnda fái hrundið rétti stefnanda samkvæmt óþinglýstum kaupsamningi um spildu úr jörðinni.
Með bréfi 14. október 2003 krafðist stefnandi þess að stefndi leysti spildu hans úr veðböndum, en þá voru um tvö ár liðin frá því að stefnda var sett jörðin að veði með tryggingarbréfum 7. september og 20. nóvember 2001. Verður ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti að hann hafi fyrirgert rétti sínum gagnvart stefnda. Þá gat engu breytt gagnvart stefnda hvort stefnandi þinglýsti kaupsamningi sínum, enda var stefndi grandsamur um betri rétt stefnanda. Þessum málsástæðum til stuðnings sýknukröfu stefnda verður því hafnað.
Samkvæmt framansögðu verður að taka til greina kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að aflétta tryggingarbréfum 7. september og 20. nóvember 2001 af spildu stefnanda. Verður ekki talið standa í vegi fyrir þessari niðurstöðu eða breyta neinu í lögskiptum málsaðila þótt veðrétti stefnda verði ekki endanlega aflýst af spildunni fyrr en henni hefur verið skipt úr jörðinni með samþykki viðeigandi stjórnvalda, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um samningsveð, nr. 75/1997.
Af hálfu stefnda er gerð sú krafa til vara að honum verði gert að aflétta veðböndum af spildu stefnanda gegn því að stefnandi greiði kaupverð spildunnar til stefnda. Um þessa kröfu stefnda verður ekki dæmt án aðildar Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf., sem var seljandi spildunnar, og Eignarhaldsfélagsins Hvammsskógur ehf., sem er bundið af kaupsamningi um spilduna, sbr. dómur Hæstaréttar 2. október 2003 í máli nr. 77/2003. Varakröfu stefnda er því hafnað.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Sparisjóði Mýrasýslu, er gert að aflétta tryggingarbréfum útgefnum 7. september og 20. nóvember 2001 af spildu stefnanda, Kára Stefánssonar, úr jörðinni Hvammi í Skorradalshreppi samkvæmt kaupsamningi 6. september 2001 milli stefnanda og Eignarhaldsfélagsins Skorradalur ehf.
Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.