Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-7
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ærumeiðingar
- Tjáningarfrelsi
- Friðhelgi einkalífs
- Ómerking ummæla
- Miskabætur
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 5. janúar 2023 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. desember 2022 í máli nr. 606/2021: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðanda og krafðist ómerkingar eftirfarandi ummæla sem hún viðhafði í lokuðum umræðuhóp á Facebook: „Í vor nauðgaði [A] stelpu sem er mér mjög kær.“ Þá krafðist gagnaðili miskabóta úr hendi leyfisbeiðanda auk greiðslu til að kosta birtingu dómsins.
4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og ómerkti fyrrgreind ummæli auk þess sem leyfisbeiðanda var gert að greiða gagnaðila 400.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum í miskabætur. Í dómi Landsréttar kom fram að með ummælunum hefði leyfisbeiðandi sakað gagnaðila um nauðgun sem væri alvarlegt brot samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Ummælin hefðu verið fyrirvaralaus og ekki lýst eigin upplifun hennar. Þá var hvorki fallist á það með leyfisbeiðanda að ummælin hefðu verið sönn né að hún hefði mátt vera í góðri trú um sannleiksgildi þeirra þegar hún lét þau falla. Með þeim hefði hún vegið að persónu gagnaðila og æru. Ummælin hefðu jafnframt verið óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og yrðu þau því ómerkt. Miskabætur voru ákveðnar 400.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum en ekki þóttu efni til að verða við kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi yrði dæmd til að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Því til stuðnings vísar hún meðal annars til þess að niðurstaða málsins hafi mikla þýðingu fyrir fjölda aðila sem kunna að hafa þörf eða vilja til að tjá sig á samfélagsmiðlum eða á öðrum opinberum vettvangi um meint kynferðisbrot gegn aðilum þeim tengdum. Þá reisir hún beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína, meðal annars í ljósi þess að afleiðingar dóms Landsréttar muni verða henni fjárhagslega ofviða. Loks telur hún dóm Landsréttar bersýnilega rangan, meðal annars niðurstöðu um að hún hafi ekki verið í góðri trú um sannleiksgildi ummælanna.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.