Hæstiréttur íslands

Mál nr. 572/2012


Lykilorð

  • Dómsuppkvaðning
  • Ómerking héraðsdóms
  • Heimvísun


                                     

                                     

Fimmtudaginn 13. desember 2012.

Nr. 572/2012.

Gunnar Örn Ástþórsson

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

Fili ehf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Dómsuppkvaðning. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun.

Héraðsdómur var ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju, þar sem ekki hafði verið fylgt fyrirmælum síðari málsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir. 

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. júní 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 1. ágúst sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 29. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.751.104 krónur með 4,5% ársvöxtum af 511.925 krónum frá 25. september 2000 til 25. janúar 2001, en af 2.751.104 krónum frá þeim degi til 20. október 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Mál þetta er skriflega flutt á grundvelli 3. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991.

Málið var tekið til dóms í héraði að lokinni aðalmeðferð 17. febrúar 2012. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 19. mars sama ár. Samkvæmt þessu leið lengri tími en fjórar vikur frá því að málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 bar vegna þessa dráttar að flytja málið á ný nema dómari og aðilar teldu það óþarft. Málið var ekki flutt að nýju. Við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var bókað í þingbók að sótt væri þing af hálfu beggja aðila. Hvorki var bókað að aðilar væru sammála um að endurflutningur væri óþarfur né lágu fyrir við uppkvaðningu dómsins skriflegar yfirlýsingar frá lögmönnum aðila um að þeir teldu ekki þörf á endurflutningi málsins. Vegna þessa verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu að nýju.

Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og uppsögu dóms að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.