Hæstiréttur íslands

Mál nr. 385/2003


Lykilorð



    Fimmtudaginn 1

     

    Fimmtudaginn 1.apríl 2004.

    Nr. 385/2003.

    Birna Jóhanna Jónasdóttir

    (Karl Axelsson hrl.)

    gegn

    Kaupfélagi Árnesinga svf.

    (Hákon Árnason hrl.)

     

    Skaðabætur. Fasteign. Líkamstjón. Örorka.

    B krafði K um bætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir þegar hún rann í polli í verslun K. Með hliðsjón af gögnum málsins var K látinn bera hallann af því að hafa ekki aflað gagna um slysið þrátt fyrir að hafa haft fullt tilefni til. Þá þótti sannað að þrátt fyrir aðvaranir nafngreinds starfsmanns hefði K engar viðeigandi ráðstafanir gert til að koma í veg fyrir hálkuslys. Samkvæmt þessu þótti slysið verða rakið til vanrækslu K, sem dæmt var til greiðslu bóta, en B var ekki látin bera hluta tjóns síns sjálf.

     

    Dómur Hæstaréttar.

    Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

    Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2003. Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 8.665.248 krónur, til vara 7.197.800 krónur en til þrautavara 6.008.619 krónur. Í öllum tilvikum krefst hún 2% ársvaxta frá 2. maí 1998 til 30. janúar 2003, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiði sér 5.428.685 krónur með 2% ársvöxtum frá 2. maí 1998 til 30. janúar 2003 og af 3.900.685 krónum frá þeim degi til 12. nóvember sama árs. Þá krefst hún dráttarvaxta af 1.528.000 krónum frá 30. janúar 2003 til 12. nóvember sama árs og af 5.428.685 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

    Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.

    I.

    Eins og fram kemur í héraðsdómi kom áfrýjandi inn í verslun stefnda á Hellu laugardaginn 2. maí 1998 í þeim erindagjörðum að eiga þar viðskipti. Gekk hún inn með hillum framhjá opinni frystikistu sem stóð úti á gólfi. Rann hún í polli sem var á gólfinu við kistuna og féll við. Í skýrslutöku hjá lögreglu 4. febrúar 2002 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins kvaðst hún hafa gripið í brún kistunnar í fallinu og við það fengið slæman hnykk á öxlina. Vitnið Eygló Bergsdóttir, sem þá var nýkomin til starfa sinna í versluninni, gaf einnig skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómi. Kvaðst hún hafa séð vatnspoll á gólfinu fyrir framan frystikistuna er hún kom til vinnu sinnar. Hún hafi gengið inn um aðaldyrnar áleiðis inn á lagerinn til að fara úr yfirhöfn sinni og þá séð pollinn, sem hafi verið að stærð „innan við hálft vatnsglas“. Þegar hún kom fram hafi áfrýjandi kallað til sín og spurt um einhverja vöru, sem hún hafi leiðbeint áfrýjanda hvar væri að finna. Þegar áfrýjandi hafi gengið á brott kvaðst Eygló hafa séð hana renna í bleytunni á gólfinu, falla niður og reka hægri olnbogann ofan á kant frystikistunnar. Svo hafi virst sem áfrýjandi hafi fengið afar slæmt högg á hægri handlegginn, enda kveinkað sér mjög. Eygló sagði að vatnið á gólfinu hafi ekki geta borist að utan, áfrýjandi hafi fallið svo „langt inni í búðinni“ að vatnið hafi ekki farið „þarna alla leið inn”. Áfrýjandi fór rakleiðis út úr versluninni eftir fallið og mun engin rannsókn hafa farið fram á vettvangi. Hún tilkynnti ekki stefnda um afleiðingar þess fyrr en 3. september 1999 með bréfi þáverandi lögmanns hennar, sem spurðist jafnframt fyrir um vátryggingar stefnda vegna atvika sem þessa. Vitnið Eygló kvaðst hins vegar hafa sagt verslunarstjóra stefnda frá slysinu er hún kom til vinnu mánudaginn 4. maí 1998. Áfrýjandi fór til læknis þremur dögum eftir slysið og kom þá í ljós að hún gat ekki hreyft hægri öxlina og var líklegasta ástæða þess talin vera tognun. Samkvæmt örorkumati Jónasar Hallgrímssonar læknis 16. október 2002 var varanleg örorka hennar vegna slyssins metin 15% og varanlegur miski 20%. Tímabundið atvinnutjón hennar var metið 100% á tímabilinu 2. maí 1998 til 8. október sama árs. Þá var talið að hún hafi verið óvinnufær vegna slyssins frá fyrrnefndum degi fram til þess að ekki var að vænta frekari bata hennar eða 8. október 1998.

    II.

             Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna líkamstjóns. Telur hún að slysið megi rekja til þess að aðbúnaður í verslun stefnda hafi verið óforsvaranlegur greint sinn. Fyrir slysið hafi Eygló Bergsdóttir margsinnis tilkynnt verslunarstjóranum um slysahættu vegna polla, sem hafi myndast við frystikistu, og hafi starfsmönnum stefnda því mátt vera ljós sú slysahætta, sem af þeim kynni að hljótast. Þrátt fyrir það hafi stefndi engan reka gert að því að koma í veg fyrir slys. Pollinn, sem áfrýjandi rann í, hafi að öllum líkindum mátt rekja til þess að frystikistan hafi lekið vegna bilunar eða hún verið yfirfull af vörum. Stefndi hafnar bótakröfu áfrýjanda og telur ósannað að pollinn megi rekja til þessara orsaka. Áfrýjandi hafi heldur ekki sýnt fram á að starfsmenn stefnda hafi átt sök á slysinu. Ógerningur hafi verið fyrir þá tvo starfsmenn, sem voru við vinnu ásamt vitninu Eygló, að fylgjast með hvort bleyta hefði borist á gólf verslunarinnar. Pollurinn gæti hafa verið nýr og Eygló verið nýkomin til vinnu. Hvorki hafi verið ráðrúm til að þurrka hann upp né gera aðrar ráðstafanir áður en slysið varð.

             Fram kom í vætti Eyglóar Bergsdóttur fyrir dómi að hún vissi ekki hvað olli því að pollurinn myndaðist á gólfinu. Gat hún ekki um það borið hvort frystikistan hafi verið biluð eða yfirfull greint sinn. Er ekkert komið fram í málinu sem styður þá fullyrðingu áfrýjanda að pollurinn hafi myndast af þessum sökum. Stefndi telur að slysið megi rekja til gáleysis áfrýjanda, sem sjálf verði að bera hallann af skorti á sönnun um atvik, þar sem hún hafi ekki hlutast til um rannsókn á slysinu fyrr en mörgum árum eftir það. Eins og að framan er rakið tilkynnti áfrýjandi stefnda um slysið 3. september 1999. Stefndi hafði ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. Það var fyrst með bréfi félagsins 14. janúar 2002 sem áfrýjanda barst svar og bótakröfu hennar hafnað. Gerði stefndi engan reka að því að afla gagna um slysið í tilefni af áðurnefndu bréfi áfrýjanda heldur lét við það sitja að mótmæla kröfu hennar. Hafði stefndi þó fullt tilefni til að afla frekari gagna, meðal annars í ljósi framburðar vitnisins Eyglóar hjá lögreglu og síðar fyrir dómi. Verður stefndi því að bera hallann af því að láta þetta undir höfuð leggjast. Enginn starfsmaður stefnda hefur heldur gefið skýrslu fyrir dómi um atvik málsins. Vitnið Eygló, sem eins og fyrr segir sá áfrýjanda renni í pollinum við frystikistuna, kvaðst margsinnis hafa varað við bleytu við frystikisturnar, sem stóðu á gólfi verslunarinnar. Gólfin hafi verið bónuð tvisvar í viku og þau verið „svakalega sleip“ og ekki hafi þurft meira en hálft vatnsglas til að maður rynni á gólfinu, hún hafi verið „margbúin að lenda í þessu sjálf.“ Þessum framburði vitnisins hefur stefndi í engu hnekkt. Verður því byggt á að stefndi hafi engar viðeigandi ráðstafanir gert til að koma í veg fyrir slys vegna þessara aðstæðna þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um hættu sem stafað gæti af bleytu á sleipu gólfinu á þessum stað. Verður samkvæmt framansögðu að rekja slysið til vanrækslu stefnda. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að aðstæður hafi verið með þeim hætti að áfrýjandi hafi mátt verjast því að ganga í bleytuna á gólfinu og verður hún því ekki látin bera hluta tjóns síns sjálf.

    III.

    Áfrýjandi hefur sem fyrr segir lagt fram örorkumat, sem verður lagt til grundvallar enda hefur því ekki verið hnekkt. Í málinu er hins vegar ágreiningur um fjárhæð bóta vegna varanlegrar örorku. Þá telur stefndi að áfrýjandi eigi hvorki rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns né annars fjártjóns, en stefndi hefur ekki mótmælt kröfu hennar tölulega um bætur fyrir varanlegan miska og þjáningabætur. Eftir 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og hún hljóðaði er slysið varð, skyldu árslaun teljast vera heildartekjur tjónþola næstliðið ár fyrir þann dag er tjón varð. Áfrýjandi miðar aðalkröfu sína um bætur vegna varanlegrar örorku við helming þeirrar fjárhæðar, sem eiginmaður hennar taldi fram til skatts vegna tekjuársins 1998 sem hreinar tekjur af atvinnurekstri, sem þau höfðu sameiginlega með höndum samkvæmt samningi við Barnaverndarstofu 30. júní 1997, ásamt reiknuðu endurgjaldi vegna sama rekstrar samkvæmt skattframtali hennar sjálfrar. Krafan tekur samkvæmt þessu ekki mið af tekjum, sem áfrýjandi taldi sjálf fram til skatts á þessu tímabili. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna aðalkröfu áfrýjanda. Varakrafa og þrautavarakrafa hennar eru reistar á þágildandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga á þeim grunni að tekjur hennar hafi verið „afar sveiflukenndar og á ólíkum grundvelli hverju sinni.“ Ekki er fallist á að þau gögn, sem áfrýjandi hefur lagt fram þessu til stuðnings, sýni að undantekningarákvæði þetta eigi við. Verður varakröfu og þrautavarakröfu hennar því einnig hafnað.

    Að framangreindum kröfum frágengnum hefur áfrýjandi reist fyrir Hæstarétti kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku á heildartekjum sínum síðustu 12 mánuði fyrir slysið, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Er óumdeilt að fjárhæð þeirra tekna nemur 1.608.735 krónum. Við útreikning kröfunnar hefur áfrýjandi reiknað fjárhæðina með lánskjaravísitölu frá slysdegi í samræmi við 2. mgr. 15. gr. laganna. Hins vegar hefur hún ekki reiknað fjárhæðina með vísitölu til janúar 2003, eins og hún miðar aðal-, vara- og þrautavarakröfu sína við í málinu, heldur með vísitölu á þingfestingardegi þess í Hæstarétti. Hefur stefndi mótmælt síðastnefndri viðmiðun áfrýjanda. Verður fjárhæð tekna áfrýjanda því framreiknuð með lánskjaravísitölu frá slysdegi til janúar 2003 og nemur hún samkvæmt því 1.967.418 krónum. Stefndi hefur mótmælt því að ekki sé við útreikning kröfunnar tekið tillit til frádráttar vegna aldurs tjónþola, sbr. þágildandi 9. gr. skaðabótalaga. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti mótmælti áfrýjandi því að þessi mótbára stefnda kæmist að á þeim grunni að hún væri of seint fram komin. Sú krafa áfrýjanda, sem hér er fjallað um, kom ekki fram fyrr en í greinargerð hennar til Hæstaréttar og eru mótbárur stefnda gegn henni því ekki of seint fram komnar. Er á það fallist með stefnda að lækka beri kröfuna um 17% með vísan til áðurnefndrar 9. gr. skaðabótalaga og nemur fjárhæð hennar þannig reiknuð 2.449.435 krónum.

    Eins og fyrr segir hefur stefndi mótmælt kröfu áfrýjanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Í áðurnefndu örorkumati var tímabundin örorka áfrýjanda talin 100% frá slysdegi til 8. október 1998, en þann dag hafi ekki verið að vænta frekari bata, sbr. 2. gr. skaðabótalaga. Segir í matinu að áfrýjandi hafi verið í hálfu starfi er hún slasaðist og síðan óvinnufær uns hún fór í aðgerð vegna afleiðingar slyss, er hún lenti í 8. október 1998. Áfrýjandi hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn til sönnunar því að hún hafi orðið fyrir tekjumissi vegna tímabundinnar örorku sinnar. Gegn mótmælum stefnda telst það tjón því ósannað og ber að hafna kröfu vegna þess. Kröfu áfrýjanda um bætur fyrir varanlegan miska að fjárhæð 1.077.600 krónur og þjáningarbætur að fjárhæð 150.400 krónur er ekki sérstaklega mótmælt og verða þær því teknar til greina. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings kröfu sinni um annað fjártjón og er henni, gegn mótmælum stefnda, hafnað þegar af þeirri ástæðu. Verður stefndi samkvæmt framansögðu dæmdur til að greiða áfrýjanda bætur að fjárhæð samtals 3.677.435 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

    Um málskostnað og gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

    Dómsorð:

    Stefndi, Kaupfélag Árnesinga svf., greiði áfrýjanda, Birnu Jóhönnu Jónasdóttur, 3.677.435 krónur með 2% ársvöxtum frá 2. maí 1998 til 30. janúar 2003, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

    Stefndi greiði í ríkissjóð samtals 850.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

    Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsflutningsþóknun lögmanns hennar, samtals 850.000 krónur.

     

    Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júlí 2003.

    Stefnandi málsins er Birna Jóhanna Jónasdóttir, kt. 180356-0029,  Broddanesskóla, Hólmavík, en stefndi er Kaupfélag Árnesinga, kt. 680169-5869, Austurvegi 3-5, Selfossi.

    Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 22. janúar sl., sem árituð var um birtingu af lögmanni stefnda hinn 23. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi  30. sama mánaðar. Málið var dómtekið 20. júní sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

    Dómkröfur:

    Dómkröfur stefnanda eru þessar:

    Aðallega,  að stefndi greiði stefnanda miska- og skaðabætur að fjárhæð 8.729.348 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 2. maí 1998 til stefnubirtingardags, en með dráttarvöxtum skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

    Til vara, að stefndi greiði stefnanda miska- og skaðabætur að fjárhæð 7.261.900 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 2. maí 1998 til stefnubirtingardags, en með með dráttarvöxtum skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

    Til þrautavara, að stefndi greiði stefnanda miska- og skaðabætur að fjárhæð 6.072.719 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 2. maí 1998 til stefnubirtingardags, en með með dráttarvöxtum skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

    Einnig krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda, auk virðisaukaskatts á málskostnað henni að skaðlausu, eins og málið væri eigi gjaf­sóknarmál.

    Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og honum verði til­dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

    Til vara, að krefst stefndi þess, að sök verði skipt í málinu og að dómkröfur stefnanda lækkaðar verulega og að málskostnaður verði látinn niður falla.

    Stefnanda var veitt gjafsókn til að höfða mál þetta á hendur stefnda með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 19. desember 2002.

    Málsaðilar urðu ásáttir um að reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

     

    Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

     

    Málsatvik eru þau, að stefnandi kom í verslun stefnda á Hellu laugardaginn 2. maí 1998 í verslunarerindum. Hún gekk að frystiborði, sem var innarlega í versluninni. Þegar hún var þangað komin, sá hún Eygló Bergsdóttur, sem hún taldi vera starfsmann stefnda, enda oft séð hana að störfum þar. Spurði hún Eyglóu, hvar ákveðnar vörur væri að finna og fékk svör við því. Sem hún leggur af stað frá frystiborðinu til að nálgast vörur þær, sem hana vanhagaði um, rann hún til í bleytu, sem var á gólfinu framan við frystiborðið, og féll við það aftur fyrir sig og slasast illa. Eygló var nærstödd og reyndi að forða stefnanda frá falli, en tókst það ekki. Stefnandi yfirgaf verslunina við svo búið, án þess að versla.

    Stefnandi rak á þessum tíma meðferðarheimili fyrir börn að Geldingalæk, ásamt eiginmanni sínum, samkvæmt samningi við Barnaheill, sem dagsettur er 30. júní 1997.

    Slysið hafði víðtækar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda. Hún var mjög þjáð af verkjum, sem ágerðust og hefur verið í stöðugri læknismeðferð síðan slysið átti sér stað, án þess að fá bata. Jónas Hallgrímsson læknir lagði mat á tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins á heilsufar stefnanda. Matsgerð hans er dagsett 16. október 2002.  Niðurstaða hennar var sú, að stefnandi hefði verið algjörlega óvinnufær (100%) frá slysdegi til 8. október 1998. Þjáningatímabil hafi varað jafn lengi. Varan­legur miski var metinn 20%, en varanleg örorka 15%.

    Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hafnaði bótakröfu stefnanda með bréfi, dags. 14. janúar 2002, en stefndi hafði keypt ábyrgðartryggingu hjá félaginu. Afstaða félagsins var byggð á því, að starfsmenn stefnda hafi ekki vitað af polli við áðurnefndan frysti og einnig vísaði félagið til dóms Hæstaréttar frá 1996, bls. 2668, í því sambandi. Lögmaður stefnanda óskaði eftir því við VÍS í bréfi, dags. 4. mars s.á., að félagið endurskoðaði afstöðu sína gagnvart bótakröfu stefnanda, en því var hafnað.

    Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglunni í Reykjavík hinn 4. febrúar 2002. Þar lýsir hún slysinu með sama hætti og að framan er getið. Einnig kemur þar fram, að hún hafi gripið hægri hendi í fallinu til að reyna að verjast falli og fengið við það slæman hnykk á hægri öxl. Hún hafi náð að rykkja höfðinu frá gólfi, sem varð til þess, að hún hlaut mikinn hnykk á háls. Hún kvaðst hafa snúið sér til Þóris Kolbeinssonar, læknis á Heilsugæslustöðinni á Hellu, strax næsta mánudag vegna verkja. Þaðan hafi hún verið send til Magnúsar Páls Albertssonar, bæklunarsérfræðings á Borgarspítalanum í Reykja­vík, og verið til meðferðar hjá honum og öðrum læknum síðan.  Hún kvað Eyglóu Bergsdóttur, Freyvangi 1, Hellu, starfsmann stefnda, hafa orðið vitni að slys­inu. Þær hafi rætt saman í versluninni, áður en slysið vildi til.

    Skýrsla var tekin af Eygló Bergsdóttur hjá lögreglunni á Hvolsvelli hinn 14. febrúar s.á. Hún lýsti slysinu með sama hætti og stefnandi.  Hún sagðist hafa starfað sem verktaki hjá stefnda og unnið við að fylla í hillur verslunarinnar. Þegar hún kom til vinnu umræddan dag, hafi hún veitt því athygli, að vatnspollur var við annað af tveimur frystiborðum í versluninni. Hún hafi farið inn á lager til að skipta um föt, áður en hún hóf störf, en farið að því búnu inn í verslunina til að skrá þær vörur, sem vantaði. Þá hafi kona kallað í sig, og spurt um einhvern hlut. Konan hafi staðið við frystiborðið. Hafi hún farið til konunnar og leiðbeint henni. Þegar konan var á leið frá henni hafi hún runnið til í bleytunni á gólfinu, fallið niður og rekið hægri olnbogann ofan á kant frystiborðsins og tekið síðan með vinstri hendinni í kant borðsins til þess að varna því, að hún skylli í gólfið. Hún hafi rokið til konunnar og náð að halda við hana og hjálpað henni á fætur. Konan hafi virst hafa fengið afar slæmt högg á hægri handlegginn og hafi kveinkað sér mjög, en ekki þegið boð sitt um að kalla á lækni, og sagst myndi leita læknis sjálf, ef hún jafnaði sig ekki.

    Fyrir liggur í málinu minnisblað frá VÍS, sem ber yfirskriftina Annáll fyrir tjón 71-98-0677. Þar segir m.a. Hringdi í Eyglóu Bergsdóttur, sem var á staðnum þegar slysið gerðist en hún var verktaki sem vann við að fylla á. Hún telur að frystirinn hafi ekki lekið enda hann ekki bilaður á þeim tíma. Hins vegar hafi smá pollur verið sem tjónþoli steig í á sínum fínu skóm. Sennilega sléttbotna. Telur Eygló að ís úr frystinum hafi smám saman myndað þennan poll. Ekki er vitað hvort starfsmenn hafi vitað af pollinum. Bréf ritað til tjónþola þar sem bótaábyrgð er hafnað. Dagsetningin 14. janúar 2002 er rituð við þennan texta skjalsins.

    Málsástæður og lagarök stefnanda.

    Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, að stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni hennar á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Fyrir liggi, að starfsmenn stefnda hafi vikið frá þeirri háttsemi, sem gera verði kröfur til. Einnig byggir stefnandi á því, að um brot á settum reglum hafi verið að ræða af hálfu starfsmanna stefnda. Þegar þessi skilyrði, annað eða bæði, séu fyrir hendi, sé um bótaskyldu að ræða. Einnig verði að líta til ríkrar skyldu stefnda sem fasteignaeiganda, sem bjóði fram þjónustu og vörur til kaups. Eygló Bergsdóttir, starfsmaður stefnda, í skilningi reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, en ekki sem verktaki, hafi vitað af polli þeim, sem stefnandi hrasaði í, en látið undir höfuð leggjast að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana. Með þessu hafi Eygló sýnt af sér saknæm mistök, sem stefndi beri ábyrgð á. Pollur hafði margoft myndast við frystiborð verslunar stefnda og hafði Eygló margsinnis látið verslunarstjóra stefnda og aðra starfsmenn hans vita um það, áður en slysið vildi til. Þrátt fyrir það hafi starfsmenn stefnda aldrei gripið til neinna úrræða til að koma í veg fyrir slys af þessum völdum.  Þessi háttsemi starfsmanna stefnda hafi í för með sér frávik frá þeim athafnaskyldum, sem á stefnda hvíldi.

    Telja megi, að líklegasta skýring á tildrögum slyssins sé bilun í frystiborði, enda liggi fyrir, að stefndi hafi látið gera við frystiborð þremur dögum eftir slysið, eins og framlagður reikningur sýni. Byggt sé einnig á því, að aðbúnaði á slysstað hafi verið ábótavant og þannig farið í bága við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað nr. 46/1980, sbr. ákvæði IV. kafla a,b og c, sem og VI. kafla þeirra laga, sem kveða á um skyldur atvinnurekenda, verkstjóra og starfsmanna.

    Fyrir liggi í málinu, að ekki hafi verið kallað á Vinnueftirlit eða lögreglu í kjölfar slyssins. Samkvæmt 2. mgr. 81. gr. síðastnefndra laga skulu vinnuveitandi eða fulltrúi hans á vinnustað tilkynna lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins verði slys á vinnustað. Tilkynna skuli svo fljótt sem unnt sé og eigi síðar en innan sólarhrings frá slysi. Fjallað sé með fyllri hætti um tilkynningarskyldu vinnuveitanda vegna vinnuslysa í rgl. 612/1989. Tilkynna skuli um slys í síðasta lagi innan 14 daga, samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar, ef það valdi fjarveru í einn eða fleiri daga. Fyrirsvarsmönnum stefnda hafi verið tilkynnt um, að stefnandi hafði orðið fyrir slysi í versluninni. Stefndi hafi engu að síður látið undir höfuð leggjast að tilkynna um slysið til réttra aðila, eins og lögskylt sé.  Hefði það verið gert hefði mátt ganga úr skugga um öryggisþætti, er vörðuðu aðbúnað verslunarinnar. Stefndi hljóti að bera hallann af þeirri vanrækslu, sem valdi því, að sönnunarbyrðin um aðbúnað verslunarinnar snúist við.

    Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993, (skbl.), eins og þau voru á slysdegi, og miða við þær forsendur, að kröfurnar séu uppreiknaðar í samræmi við stöðu lánskjaravísitölu í janúar 2003 (4421 stig), sbr. 15. gr. skbl. og 2% ársvexti frá slysdegi, þar til stefna var birt fyrir stefnda, sbr. 16. gr. skbl., en frá þeim degi reiknist dráttarvextir.

    Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína þannig:

    1. Tímabundið atvinnutjón                                                                 kr. 1.614.077

    2. Þjáningabætur                                                                  -       150.400

    3. Varnarlegur miski                                                             -    1.077.600

    4. Varanleg örorka                                                                                -    5.523.171

    5. Annað fjártjón                                                                  -       300.000

    6. Útlagður kostnaður                                                         -         64.100

                     Samtals                                                                                kr. 8.729.348

     

    Stefnandi skýrir kröfugerð sína með eftirfarandi hætti:

    Um 1. kröfulið: Þessi krafa sé byggð á 2. gr. skbl. og vísi til þess, að Jónas Hallgrímsson  læknir hafi talið stefnanda óvinnufæra til 8. október 1998, eða í fimm mánuði og sex daga. Miðað sé við sömu tekjur og gert sé í kröfulið 4 vegna bóta fyrir varanlega örorku, þ.e 3.682.114 kr. árstekjur. Niðurstaðan sé því þannig fengin (3.682.114 x 160 dagar/365= 1.614.077).

    Um 2. kröfulið:  Stefnandi vísar til 3. gr. skbl. til stuðnings þessum kröfulið og byggir á matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis um dagafjölda. Um sé að ræða 160 daga og nemi bætur á dag 940 krónum með vísitölubótum, sbr. 15. gr. skbl. (160x940= 150.400 kr.).

    Um 3. kröfulið: Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á 4. gr. skbl. og miðar við 20% miskastig, samkvæmt mati Jónasar Hallgrímssonar læknis. Bætur fyrir algeran varanlegan miski nemi 5.388.000 kr. eftir uppfærslu lánskjaravísitölu en 1.077.600 kr. miðað við 20% miska.

    Um 4. kröfulið:  Stefnandi vísar til 5.-7. gr. skbl. til stuðnings þessum kröfulið og sem fyrr til matsgerðar Jónasar Hallgrímssonar læknis, sem mat varanlega örorku hennar af völdum slyssins 15%.  Krafan styðjist við 2. mgr. 7. gr. skbl. og taki mið af samningi, sem stefnandi gerði, ásamt eiginmanni sínum, við Barnaverndarstofu um rekstur meðferðarheimilis Barnaheilla að Geldingalæk. Barnaverndarstofa hafi greitt þeim hjónum 18.105.000 kr. ár ári í rekstrarframlag.  Á árinu 1998 hafi rekstrartekjur umfram rekstrargjöld numið 3.507.068 kr., sem eiginmaður hennar hafi talið fram sem stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvar, en hafi þó byggst á samningnum við Barna­verndarstofu.  Reiknað endurgjald til hvors um sig hafi numið 1.086.864 kr. og hafi sú fjárhæð verið inni í rekstrargjöldunum.  Stefnandi hafi talið þá fjárhæð fram til skatts, en eiginmaður hennar samkvæmt þessu 4.593.932 kr., að öðrum tekjum viðbættum, eða alls 4.811.336 kr.  Stefnandi byggir á því, að tekjur til útreiknings bóta eigi að nema helmingi af rekstrartekjum samkvæmt áðurnefndum samningi, að viðbættum þeim tekjum, sem hún hafi talið fram á framtali sínu, eða 2.840.398 kr. Þessu til viðbótar komi 6% mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð og breytingar á láns­kjara­vísitölu frá slysdegi til stefnudags 4421/3615. Þannig reiknuð nemi viðmiðunartekjur 3.682.114 kr.  Stuðull 6. gr. sklb. hafi verið 10 á slysdegi og geri 5.523.171 kr. miðað við örorku stefnanda, að mati Jónasar Hallgrímssonar  (3.682.114 x 10 x 15%).

    Um 5. kröfulið:  Stefnandi vísar til 1. gr. skbl. til stuðnings þessa kröfuliðar. Ljóst sé, að stefnandi hafi þurft að leggja út fyrir margvíslegum kostnaði vegna slyssins. Um sé að ræða ferðir til og frá heilsugæslustöðvum, lyfjakaup og margvís­legan annan kostnað, sem sé bein afleiðing slyssins, en erfitt sé að færa sönnur á.  Stefnandi hafi verið búsett úti á landi og þurft að ferðast langar leiðir til að leita sér læknisaðstoðar og fara til sérfræðinga. Krafa þessi sé byggð að álitum og nemi 300.000 kr.

    Um 6. kröfulið:   Krafa samkvæmt þessum kröfulið varði greiðslu útlagðs kostnaðar og sé byggð á 1. gr. skbl. Um sé að ræða öflun matsgerðar.

    Varakrafa stefnanda:

    Stefnandi byggir varakröfu sína á tekjuviðmiðun við meðaltekjur iðnaðarmanna. Ljóst sé, að tekjur stefnanda árin fyrir slysið hafi verið mjög sveiflukenndar og af ólíkum toga. Meðaltekjur iðnaðarmanna á slysdegi hafi numið 2.256.400 kr. Að viðbættu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og að teknu tilliti til uppfærslu lánskjaravísitölu frá slysdegi nemi tekjuviðmiðunin 2.925.056 kr. Varakrafan nemi því 4.387.584 kr. (2.925.056 x10 x 15%). Varakrafan um bætur fyrir tímabundið atvinnu­tjón byggist á sömu viðmiðun og nemi þannig 1.282.216 kr. (2.925.056 x 160/365). Að öðru leyti sundurliðist varakrafan með sama hætti og aðalkrafa og verði því 7.261.900 kr.

    Þrautavarakrafa:

    Þrautavarakröfu sína byggir stefnandi á meðaltekjum stefnanda síðustu þrjú árin fyrir slysið. Á árinu 1995 hafi meðaltekjur hennar numið 1.808.819 kr., á árinu 1996 2.602.742 kr., en á árinu 1997 1.150.000 kr.  Séu fjárhæðir þessar uppfærðar miðað við launavísitölu hvers árs til stöðugleikatímapunkts og bætt við 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, verði tekjuviðmiðunin 2.311.556 kr. og heildarkrafan fyrir varanlega örorku því 3.467.334 kr.  Sé gengið út frá sömu tekjum við ákvörðun bóta fyrir tímabundna örorku nemi sá kröfuliður 1.013.285 kr. (2.311.556 x 160/365). Aðrir kröfuliðir sundurliðist með sama hætti og í aðalkröfu. Samtals nemi þrautavarakrafan því 6.072.719 kr.

    Stefnandi vísar til meginreglna skaðabótaréttar um sakarábyrgð og vinnuveit­endaábyrgð. Einnig til sérsjónarmiða um bótaábyrgð fasteignaeigenda, svo og til laga nr. 46/1980 um aðbúnað fasteignar. Stefnandi vísar einnig til áðurnefndra lagaákvæða skaðbótalaga. Þá byggir stefnandi á ákvæðum áðurnefndra laga nr. 46/1980 og reglugerð nr. 612/1989, að því er varðar tilkynningarskyldu tjónvalds. Vaxtakröfu sína byggir stefnandi á 16. gr. skaðabótalaga og kröfu sína um dráttarvexti á lögum nr. 38/2001. Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála (eml.) nr. 91/1991.


    Málsástæður og lagarök stefnda:

    Andmæli stefnda gagnvart aðalkröfu stefnanda:

    Stefndi hafnar því, að starfsfólk hans hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, sem valdið hafi tjóni stefnanda.  Því sé ekki um skaðabótaábyrgð stefnda að ræða á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Starfsmönnum stefnda hafi ekki verið kunnugt um að bleyta hefði myndast við frystiborðið og því hafi þeir ekki haft tækifæri til að þurrka hana upp. Eygló Bergsdóttur hafi aðeins vitað um bleytuna við frystiborðið. Hún hafi engar ráðstafanir gert til að koma í veg fyrir slysið. Sé um saknæm mistök að ræða af hennar hálfu, geti stefndi ekki borið ábyrgð á þeim á grundvelli vinnuveitandaábyrgðar, þar sem hún hafi starfað sem sjálfstæður verktaki. Fráleitt sé að telja Eygló til starfsmanns á grundvelli reglunnar um vinnu­veit­anda­ábyrgð, eins og stefnandi haldi fram. Hún hafi aldrei verið á launaskrá stefnda, heldur hafi hún fengið greiðslur samkvæmt verksamningi gegn framvísun reiknings.  Hún hafi ekki notið launatengdra réttinda, s.s. orlofs og veikindaréttar. Starf hennar hafi falist í því að skrá niður, hvaða vörur vantaði í hillur verslunarinnar og fylla á þær og hafi hún að jafnaði unnið utan venjulegs opnunartíma verslunarinnar, þ.e. á nóttunni, en þó getað sjálf ráðið, hvenær sólarhringsins hún væri að störfum. Eygló hafi sjálf lýst því yfir hjá lögreglu og hér í dómi, að hún hafi starfað hjá stefnda sem verktaki. Meint saknæmt athafnaleysi hennar sé því ekki á ábyrgð stefnda.

    Stefndi mótmælir því að aðbúnaði í verslun hans hafi verið ábótavant og farið í bága við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað nr. 46/1980, en þau lög varði eingöngu aðbúnað og öryggi starfsmanna á vinnustað og verði því ekki beitt um aðbúnað í matvöruverslunum.  Þar gildi skipulags- og byggingalög nr. 73/1997 og reglugerðir settar samkvæmt þeim.  Aðbúnaður og starfsemi verslunar­innar hafi á engan hátt farið í bága við þau lög og reglugerðir.

    Stefndi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu stefnanda, sem fram komi í stefnu og haldið hafi verið fram af Eygló hér fyrir dómi, að hún hafi margsinnis tilkynnt versl­unarstjóra stefnda, sem og öðrum starfsmönnum hans, um polla á gólfi við frystiborð verslunarinnar.  Eygló hafi ekki greint frá þessu í skýrslu sinni hjá lögreglu.  Hún hafi heldur ekki látið þessa getið við starfsmann VÍS í símtali, sem hann hafi átt við hana 14. janúar 2002.

    Þá mótmælir stefndi mótmælir því, að um bilun hafi verið að ræða í umræddu frystiborði.  Eygló hafi talið í áðurnefndu símtali sínu við starfsmann VÍS og í skýrslu sinni hér í dómi, að líklegasta skýring á pollinum við frystinn sé sú, að ís hafi fallið á gólfið af vörum, sem í frystinum voru, þegar viðskiptamenn verslunarinnar handléku þær. Einnig geti bleytan hafa stafað af því, að viðskiptamaður hafi misst vöru niður á gólf. Eigendur og starfsmenn verslana geti með engu móti komið í veg fyrir að bleyta berist á gólf með þessum hætti, og ómögulegt sé að fylgjast svo vel með, að eftir því sé strax tekið og bleyta þurrkuð. Framlagður reikningur um viðgerð á djúpfrysti veiti enga sönnun þess, að umræddur frystir hafi lekið, enda ekki eini frystirinn í versl­uninni.  Eins líklegt sé, að um hafi verið að ræða þátt í eðlilegu viðhaldi. Þá sé ekki hægt að útiloka, að stefnandi hafi fallið í bleytu, sem borist hafi inn í verslunina, en nokk­uð hafi rignt þann dag, þegar slysið átti sér stað, eins og framlagt vottorð Veðurstofu Íslands sýni.  Skór stefnanda kunni einnig að hafa verið blautir og hálir, svo ekki hafi þurft bleytu til að hún félli.  Viðskiptavinir verslana sem aðrir verði að sýna eðlilega aðgát. Hafi stefnandi runnið til í bleytu á gólfinu, verði að telja megin­ástæðu þess, að hún hafi ekki sýnt nægjanlega varúð sjálf.

    Með vísan til alls þessa verði að telja ljóst, að slysið verði á engan hátt rakið til saknæmrar vanrækslu starfsmanna stefnda. Skilyrði skaðabótaskyldu séu því ekki fyrir hendi, heldur verði að telja, að um hreina óhappatilviljun hafi verið að ræða.

    Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda, að snúa beri við sönnunarbyrði í málinu, þar sem stefndi hafi ekki tilkynnt um slysið. Stefnandi vísi til laga nr. 80/1980 í þessu sambandi. Stefndi byggi á því, eins og áður sé lýst, að lög þessi eigi aðeins við um starfsfólk, sem slasist við vinnu sína, og verði því ekki beitt í tilviki stefnanda. Stefndi hafi enga ástæðu haft til að kalla til lögreglu. Stefnandi hafi afþakkað boð um, að læknir yrði tilkvaddur, og hafi stefndi ekki mátt ætla annað en stefnandi hefði náð sér af byltunni, enda hafi stefnandi ekki látið vita um afleiðingar slyssins.

    Umfjöllun stefnda um varakröfu stefnanda.

    Stefndi byggir á því, verði ekki fallist á aðalkröfu hans, að slysið verði að stærstum hluta rakið til eigin sakar stefnanda og óhappatilviljunar. Því verði stefnandi að hluta að bera tjón sitt sjálf, auk þess sem skaðabætur verði að lækka tölulega.

    Fjárhæðum dómkrafna stefnanda sé mótmælt í heild.

    Þá beri að hafna kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Allar upplýsingar skorti fyrir því, að stefnandi hafi í raun orðið fyrir tímabundnu tekjutapi vegna slyssins eða hversu miklu, sé um slíkt að ræða.  Aðeins beri að bæta raun­veru­legt tímabundið tekjutap.

    Stefndi mótmælir enn fremur tekjuviðmiðunum stefnanda fyrir varanlega örorku.  Samkvæmt 7. gr. þágildandi skbl. skulu árslaun teljast vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag, er tjón varð. Að mati stefnda hafi aðstæður stefnanda ekki verið á neinn hátt óvenjulegar, þannig að beita beri 2. mgr. 7. gr. skbl., sbr. skýringar við 2. mgr. 7. gr. í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga. Því verði að leggja til grundvallar við útreikning bóta fyrir varanlega örorku tekjur stefnanda síðustu 12 mánuði fyrir slysdag.  Stefnandi hafi ekki upplýst hverjar tekjur hennar voru á þessu tímabili.

    Stefndi mótmælir auk þess þeirri reikningsaðferð stefnanda við útreikning bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, að blandað sé saman hagnaði af atvinnurekstri, sem eiginmaður stefnanda hafi fært á skattframtal sitt og launatekjum. Vísar stefndi til dóms Hæstaréttar frá 19. nóvember 2001 í þessu samhengi.

    Loks mótmælir stefndi kröfu stefnanda um bætur fyrir annað fjártjón sem ósönnuðu og órökstuddu. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram, sem styðji þessa kröfu hennar. Auk þess sé kröfunni mótmælt sem allof hárri. 

    Að endingu mótmælir stefndi kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en dóms­uppsögudegi.

    Niðurstaða:

     

    Stefnandi gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins og einnig mætti Eygló Bergsdóttir til skýrslugjafar, sem og Ólafur Lúter Einarsson, lögfræðingur, starfs­maður VÍS.

    Skýrslur þeirra verða nú stuttlega raktar:

    Stefnandi lýsti aðdraganda og afleiðingum slyssins á sama hátt og að framan er rakið. Hún kvaðst hafa komið u.þ.b. vikulega í umrædda verslun stefnanda og hafi hún í þeim ferðum ekki tekið eftir pollum á gólfi hennar. Tvö frístandandi frystiborð hafi verið í versluninni og hafi hún fallið við annað þeirra. Aðspurð kvaðst hún ekki muna, hvernig veður var þennan dag, en hún taldi sig muna, hvernig hún hafi verið klædd og ráði af því, að ekki hafi verið rigning. Hún segist hafa hitt fyrir Eygló Bergsdóttur í versluninni þennan dag og álitið hana starfsmann stefnanda, enda hafði hún séð hana þar áður. Eygló hafi verið að koma út úr lagerrými verslunarinnar og hafi hún spurt Eygló um vörur, sem Eygló hafi bent henni á, hvar væri að finna, væru þær til. Hún hafi staðið við frystikistuna og verið í þann mund að færa sig þaðan, þegar hún hafi runnið til og slasaðist.  Eftir slysið hafi hún farið út úr búðinni, án þess að hafa haft samband við nokkurn þar, enda talið, að hún myndi jafna sig og því ekkert gert með þetta og engan látið vita um slysið, en Eygló hafi verið vitni að því.  Hún hafi engan séð í versluninni annan en Eygló og stúlku við afgreiðslukassa, sem hún hafi tekið eftir á leið inn í búðina. Hún kvaðst ekki hafa séð poll á gólfi verslunarinnar, en skynjað það, þegar hún kom út í bíl, að föt hennar voru blaut. Mánudaginn eftir slysið, sem gerðist á laugardegi, hafi hún farið til Þóris Kolbeinssonar, heimilislæknis síns og fengið hjá honum verkjalyf.  Svo hafi staðið á, að hún hafi átt pantaðan tíma hjá Magnúsi Páls Albertssonar bæklunarlækni daginn eftir út af meini í hendi.. Hafi þau komið sér saman um það, að hún léti Magnús skoða sig. Hann hafi tekið mynd af öxlinni, sem þá hafi þjakað hana mest. Stefnandi gerði dóminum grein fyrir atvinnu­sögu sinni, námsferli og heimilishögum með sama hætti og lýst er í framlögðum gögnum. Hún hafi á þeim tíma, sem slysið átti sér stað, rekið meðferðarheimili að Geldinga­læk, ásamt eiginmanni sínum, samkvæmt samningi við Barnaheill. Samn­ingurinn hafi verið þess efnis, að Barnaheill hafi greitt þeim hjónum ákveðna fjárhæð, sem átt hafi að mæta rekstrarkostnaði, m.a. launakostnaði starfsmanna, fæði bæði fyrir börnin, sem þar voru til meðferðar, sem og fyrir starfsfólk og þau sjálf og börn þeirra.. Það, sem eftir stóð eftir greiðslu rekstrarkostnaðar, hafi verið laun þeirra hjóna. Þau hafi valið að færa þessar tekjur eða hagnað á skattframtal eiginmanns hennar, en það hefði allt eins getað verið öfugt. Þau hafi engin áform haft um að hætta þessu starfi, en hafi orðið að gera það vegna heilsubrests hennar, sem slysið hafi valdið. Slysið og afleiðingar þess hafi gjörsamlega rústað lífi hennar. Áður hafi hún verið ofvirk í öllu, sem hún tók sér fyrir hendur, en nú væri hún stöðugt þjáð af verkjum og hafi orðið að leita til geðlæknis vegna sálrænna afleiðinga slyssins og sé þar enn til meðferðar. Hún taki geðlyf af ýmsum toga og þurfi að nota svefntöflur, því að hún eigi erfitt með svefn vegna verkja.  Hún hafi mjög oft þurft að leita sér lækninga til Reykjavíkur, sem hafi haft mikinn kostnað í för með sér, en hún hafi alltaf búið úti á landi. Einnig hafi slysið haft í för með sér mikinn lyfjakostnað og útgjöld vegna sjúkraþjálfunar, bæði í Hveragerði og á Reykjalundi.

    Vitnið Eygló Bergsdóttir lýsti starfi sínu í verslun stefnanda með þeim hætti, að hún hafi séð um að panta allar vörur, að undanskildum frysti- og kælivörum og koma þeim fyrir í versluninni. Hún kvað það ekki hafa verið í sínum verkahring að leiðbeina viðskiptavinum verslunarinnar, en hún hafi svarað væri hún spurð. Hún hafi gert skriflegan samning við stefnanda um starf sitt, sem hún hafi fengið sendan með símbréfi frá stefnanda. Ekki mundi vitnið, hvort samningurinn hafi verið nefndur verksamningur eða ráðningarsamningur. Hún hafi starfað eftir fyrirmælum versl­unarstjóra á hverjum tíma, en í samningnum hafi verið nákvæmlega tilgreint hvert starfsvið hennar skyldi vera í samráði við verslunarstjóra. Hún hafi fengið fastar mánaðarlegar greiðslur fyrir starf sitt 5. hvers mánaðar, en eingreiðslu í desember, sem nefnt hafi verið álag. Henni hafi verið látin trilla í té til að færa vörur inn í verslunina og einnig hnífa til að skera upp pakkningar. Hún kvaðst hafa litið svo á, að hún ætti að vinna sjálf umsamda vinnu, en eiginmaður hennar hefði stöku sinnum hlaupið í skarðið, hafi hún t.d. þurft að fara til læknis. Einhver tímasetning hafi verið í samningnum um vinnutíma, en yfirleitt hafi hún unnið starf sitt í samráði við verslunarstjóra. Í samningnum hafi verið gagnkvæmur uppsagnarfrestur og ákvæði um það, að henni mætti víkja fyrirvaralaust úr starfi, gerðist hún brotleg.  Sérstaklega aðspurð, kvaðst hún hafa litið á sig sem verktaka. Hún hafi greitt öll launatengd gjöld og virðisaukaskatt.  Hún hafi átt að skila umsömdu starfi og hafa lokið því fyrir kl. 9.00 að morgni. Hún hafi ekki getað tekið sér veikindafrí, enda hafi enginn starfsmaður stefnda getað hlaupið í skarðið fyrir sig. Ekki hafi verið um það að ræða að taka sér frí, nema hún gæti útvegað einhvern fyrir sig.  Hún sagði tvö frystiborð hafa verið í búðinni. Ekki vissi hún til, að frystiborð hafi bilað á þeim tíma, sem slysið varð og það verið lagfært. Viðgerðarmenn hafi komið annað slagið og lagfært vélar og tæki. Pollur sá, sem stefnandi hrasaði í, hafi verið við annað frystiborðið. Oft hafi það komið fyrir, að frystiborð hafi verið ofhlaðin, sem valdið geti því, að klaki myndaðist í efstu lögunum, sem síðan gæti fallið á gólfið, þegar varan væri tekin þaðan. Þetta komi ekki fyrir sé hæfilegt vörumagn í borðunum. Það hafi hins vegar oft gerst, að frystiborð væru ofhlaðin, og taldi vitnið, að ástæða þess væri sú, að börn og unglingar hafi verið fengin til að koma vörum fyrir í borðunum og þau ekki fylgt margítrekuðum fyrirmælum yfirmanna í þessu tilliti. Hún gat ekki fullyrt, að frystiborð það,  sem stefnandi hrasaði við hafi þá verið yfirhlaðið. Í tilefni af framlögðu dómskjali, þar sem starfsmaður VÍS, lýsir símtali í janúar 2002, sem hann átti við vitnið, var að því spurt, hvort rétt sé eftir henni haft, að frystirinn hafi ekki lekið, enda ekki bilaður á þessum tíma, svarar vitnið því til, að hún geti ekki staðfest þetta. Hún viti ekkert um ástand frystisins á þessum tíma. Einnig vildi vitnið taka fram, að sú lýsing, sem starfsmaðurinn gaf í framlögðu dómskjali, sé ekki með hennar orðum. Hún hafi t.d. ekki veitt skóm stefnanda athygli, eins og gefið sé í skyn í yfirlýsingu starfsmannsins.  Hún lýsir pollinum á gólfinu þannig, að hún  áætli, að vatnið, sem pollinn myndaði, hafi rúmast í tæplega hálfu vatnsglasi. Aðspurð kvað hún útilokað, að vatnið hafi borist að utan, því frystiborði hafi verið innarlega í versluninni. Hún kvaðst hafa séð poll við frystinn, þegar hún kom í vinnuna. Hafi hún farið beint inn á lager til að skipta um föt. Þegar hún kom þaðan hafi stefnandi verið í búðinni og gefið sig á tal við hana. Hún hafi því ekki haft tíma til að láta neinn vita um bleytuna, en það hafi hún gert margoft áður, þegar svona stóð á. Hún segist hafa látið þáverandi verslunarstjóra vita um slysið næsta mánudag.  Vitnið tók fram, að gólf verslunarinnar hafi verið hál og hættuleg, einkum eftir að þau hafi verið bónuð, sem hafi verið tvisvar í viku. Vitnið staðfesti þau ummæli, sem eftir henni eru höfð í lögregluskýrslu, þess efnis, að hún hafi boðist til að kalla í lækni en stefnandi hafi svarað því til, að hún myndi sjálf fara til læknis, ef hún teldi þörf á því.

    Vitnið Ólafur Lúter Einarsson, starfsmaður VÍS, kvaðst hafa fengið það verkefni að svara tjónþola í þessu máli varðandi bótaskyldu félagsins. Hann hafi haft af því tilefni haft símasamband við vitnið Eygló Bergsdóttur og skrifað niður efni símtalsins, strax að því loknu og samið skjal það, sem liggi frammi í málinu. Þar sé rétt eftir Eyglóu haft.

    Álit dómsins:

    Af gögnum málsins og vætti stefnanda og Eyglóar Bergsdóttur hér í dómi, verður að telja fullvíst, að pollur hafi verið við annað af tveimur frystiborðum í verslun stefnda að Hellu.  Vitnið, Eygló Bergsdóttir, sá pollinn, þegar hún kom til vinnu laugardaginn 2. maí 1998 og sá stefnanda renna til í honum með fyrrgreindum afleiðingum.  Stefnandi sagði, að sér hafi skrikað fótur við frystiborð í verslun stefnda, en kvaðst ekki hafa veitt polli þar athygli og fyrst gert sér grein fyrir því, að hún hefði runnið til í bleytu, þegar hún kom út í bíl eftir slysið og varð þess vör, að föt hennar voru blaut. Stefnanda og Eygló ber saman um þessi atriði. Stefndi mótmælir því ekki berum orðum, að slysið hafi orðið með þeim hætti, sem Eygló lýsir og stefnandi byggir á, en bendir m.a. á, að bleyta sú, sem stefnandi hrasaði í, hafi eins getað komið að utan eða með öðrum hætti.

    Stefnandi byggir á því, að vitnið Eygló hafi verið starfsmaður stefnda eða að stöðu hennar megi a.m.k. jafna til þess, að starf hennar falli undir þá skilgreiningu. Eygló hafi veitt pollinum við frystiborðið athygli, þegar hún kom til vinnu,  en engar ráðstafanir gert til að koma í veg fyrir slysahættu, sem af honum stafaði.  Stefndi beri sem vinnuveitandi ábyrgð á þessari vangá Eyglóar á grundvelli reglunnar um vinnuveitendaábyrgð.

    Slysið vildi til rétt í þann mund, er Eygló kom til starfa í verslun stefnda, eftir að hafa skipt um föt.  Hún bar hér í dómi, að hún hafi ekki haft tíma til að láta aðra starfsmenn stefnda vita af pollinum en það hafi ekki verið í hennar verkahring að þurrka upp bleytu á gólfi.  Eygló lýsti því yfir hér í dómi og í skýrslu sinni hjá lögreglu, sem fyrr er getið, að hún hafi litið á sig sem verktaka og gerði dóminum grein fyrir umsömdum starfskyldum sínum.

    Dómurinn lítur svo á, með hliðsjón af lýsingu Eyglóar Bergsdóttur á efni þess samnings, sem hún gerði við stefnda og áliti hennar sjálfrar, að hún hafi starfað sem verktaki og starf hennar ráðist af fyrir fram ákveðnum verkþáttum. Verður því ekki talið, eins og mál þetta er vaxið, að stefndi beri ábyrgð á vanrækslu Eyglóar um að láta vita um pollinn við frystiborðið eða þurrka hann sjálf upp. Annað starfsfólk stefnda veitti gólfbleytunni ekki athygli, eftir því sem best verður vitað.

    Stefnandi byggir einnig á því, að bleyta hafi margoft myndast við frystiborð verslunarinnar og því hafi starfsmenn stefnda átt að hafa opin augu fyrir þessari hættu og sjá til þess, að þurrka upp bleytu, sem þar kynni að myndast.  Stefnandi styðst þar við upplýsingar Eyglóar Bergsdóttur. Aðrar heimildir liggja ekki fyrir um þessa máls­ástæðu stefnanda.  Telja verður þessa staðhæfingu Eyglóar ósannaða gegn mótmælum stefnda.

    Þá er á því byggt af hálfu stefnanda, að bleytan á gólfi við umrætt frystiborð hafi stafað af bilun í tækinu. Stefnandi hefur lagt fram reikning, sem sýnir, að gert hafi verið við djúpfrysti í verslun stefnda á Hellu 5. maí 1998.  Á reikningnum kemur fram, að skipt hafi verið um ákveðna hluti í djúpfrysti. Hvorugur málsaðila hefur lagt fram gögn, sem skýra í hverju viðgerðin var fólgin eða upplýsingar um það, hvaða tæki hér kom við sögu.  Til þess ber að líta, að vatnsleki úr tækinu getur vart hafa átt sér stað, hafi frystiborðið á annað borð haldið frosti, en bilun af því tagi hefði ekki leynst neinum. Vitnið Eygló var sérstaklega að því spurð hér í dómi, hvort umrætt frystiborð hafi verið bilað og kvaðst hún ekki muna, hvort svo hafi verið.  Að öllu þessu virtu lítur dómurinn svo á, að ósannað sé, að umrætt frystiborð hafi verið bilað með þeim hætti, að vatn hafi lekið úr því og myndað þá bleytu, sem stefnandi rann til í. Ekkert liggur heldur fyrir um það, að annar vökvi en vatn hafi myndað umræddan poll.

    Stefnandi byggir enn fremur á því, að stefndi hafi ekki tilkynnt Vinnueftirliti eða lögreglu um slysið, eins og lögskylt sé samkvæmt lögum nr. 46/1980 og reglugerð nr. 612/1989. Sú vanræksla leiði til þess, að sönnunarbyrði um tildrög slyssins og aðbúnað og staðhætti í verslun stefnda snúist við.

    Fallast má á það með stefnda, að tilgreind lög varði eingöngu vinnuslys og öryggi á vinnustöðum. Slys af því tagi, sem hér er til umfjöllunar, falla utan gildissviðs laganna. 

    Í þessu sambandi verður, að mati dómsins, einnig að líta til þess, að stefnandi lét hjá líða að tilkynna fyrirsvarsmönnum stefnda um slysið og afleiðingar þess. Vitnið, Eygló, sagðist hafa sagt þáverandi verslunarstjóra frá slysinu mánudaginn 5. maí 1998.  Þá var það eitt vitað, að stefnandi hefði fallið og orðið fyrir einhverjum meiðslum, sem hún sjálf hafi ekki talið svo alvarleg, að ástæða væri til að tilkveðja lækni.  Stefnda verður því ekki lagt það til lasts að hafa ekki tilkynnt lögreglu um slysið.  Fyrir liggur, að stefndi fékk fyrst vitneskju um afleiðingar slyssins með bréfi lögmanns stefnanda, sem dagsett er 3. september 1999, sbr. og vætti stefnanda hér í dómi.

    Dómurinn telur því, með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, að ekki liggi fyrir fullnægjandi sannanir um það, að slys það, sem stefnandi varð fyrir í verslun stefnda 2. maí 1998 hafi orðið með bótaskyldum hætti, samkvæmt almennum skaðabótareglum eða öðrum þeim reglum, sem stefnandi vísar til og byggir á.

    Því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

    Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

    Stefnanda var veitt gjafsókn til þessarar málshöfðunar, eins og áður er getið.

    Lögmaður stefnanda lagði fram málskostnaðaryfirlit, þar sem hann miðar þóknun sína við hagsmuni stefnanda af málalokum og tekur þar mið af aðalkröfu stefnanda.

    Dómurinn telur rétt, eins og hér stendur á, að hafa hliðsjón af umfangi málsins við ákvörðun málskostnaðar stefnanda, og ákveður hæfilega þóknun til lögmanns hennar 560.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Við þá fjárhæð bætist ferðakostnaður vitnisins, Eyglóar Bergsdóttur, sem starfar við Sigöldu, og þurfti að taka sér frí frá vinnu til að mæta hér í dómi. Sá kostnaður nam 34.288 krónum. Samtals nemur gjafsóknarkostnaður stefnanda 594.288 krónum, sem greiðist úr ríkissjóði.

    Skúli J. Pálmason kveður upp þennan dóm.

     

    Dómsorð:

     

    Stefndi, Kaupfélag Árnesinga, er sýknað af kröfum stefnanda,  Birnu Jóhönnu Jónasdóttur.

    Málskostnaður fellur niður.

    Gjafsóknarkostnaður, 594.288 krónur, greiðist úr ríkissjóði.