Hæstiréttur íslands

Mál nr. 198/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni í fjórar vikur á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2016 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 7. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni og brottvísun af heimili. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur en til vara að hann verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa varnaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar er reist á því að héraðsdómur hafi ekki fjallað um þær varnir sem teflt hafi verið fram og að hvorki dómurinn né sóknaraðili hafi hlutast til um að rannsaka mikilsverð atriði sem styrkja málatilbúnað varnaraðila. Þannig hafi aðeins verið lögð fram sérstaklega valin smáskilaboð úr síma varnaraðila, sem lögregla lagði hald á. Ef varnaraðili taldi önnur smáskilaboð en liggja fyrir í málinu hafa þýðingu fyrir það var honum í lófa lagið að óska eftir að þeirra yrði aflað. Að öðru leyti er órökstudd krafa varnaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar og verður henni hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/2011 er heimilt að líta til þess hvort háttsemi sakbornings á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta er talin á að hann muni hafa í frammi háttsemi sem lýst er í 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laganna. Þegar virt er forsaga málsins og frásögn varnaraðila sjálfs hjá lögreglu er nægjanlega leitt í ljós að hætta er á að hann muni áfram raska friði brotaþola eða brjóta gegn þeim. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem áveðin verður með virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Sératkvæði

Karls Axelssonar hæstaréttardómara

Ég er sammála meirihluta dómenda um að hafna beri kröfu varnaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar og að staðfesta beri úrskurðinn hvað varðar brottvísun varnaraðila af heimili og að hann skuli sæta nálgunarbanni gagnvart eiginkonu sinni. Er þá meðal annars til þess að líta að viðurkennt er af hans hálfu að hann hafi viðhaft þá hótun um refsivert brot að eiga við hana mök nauðuga, þó svo að hann beri því nú við að engin alvara hafi fylgt þeirri hótun. Hins vegar tel ég að ekki séu uppfyllt skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann til að beita varnaraðila nálgunarbanni gagnvart þeim A og B. Er þá horft til þess að þær eru 25 og 23 ára og að nokkuð er um liðið síðan flest þau tilvik sem tilkynnt hafa verið til lögreglu eiga að hafa átt sér stað. Aðrar ásakanir af þeirra hálfu á hendur varnaraðila eru það óljósar bæði að efni og um tíma að til þeirra verður ekki litið við mat á skilyrðum nálgunarbanns. Þá ber að gæta að því að það athæfi sem A ber varnaraðila á brýn nú í marsmánuði og felst í beiðni um kynlíf með smáskilaboðum væri að sönnu ósiðlegt, en verður ekki talið þess eðlis að raskað hafi friði brotaþola með þeim hætti að til nálgunarbanns geti komið á grundvelli a. liðar 4. gr. laga nr. 85/2011. Loks er til þess að líta að A og B njóta jafnframt góðs af því úrræði að varnaraðili sæti brottvísun af heimili móður þeirra, þar sem að þær búa núna.

Með vísan til þessa tel ég að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi hvað varðar nálgunarbann það sem varnaraðila hefur verið gert að sæta gagnvart þeim A og B. Ég er sammála meirihluta dómenda um ákvörðun þóknunar verjanda varnaraðila.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2016.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra, dags. 7. mars 2016, um að X, kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, skv. a. og b. lið 4. gr. og a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 4 vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við lögheimili sitt og C, kt. [...], A, kt. [...] og B, kt. [...], að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti C, A og B eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að sunnudaginn 6. mars sl. hafi C, eiginkona X, haft samband við lögreglu vegna hótana og áreitis hans í garð hennar og dætra hennar og stjúpdætra hansA og B, sbr. mál lögreglu nr. [...]. Á vettvangi hafi C tjáð lögreglu að X væri búinn að beita hana andlegu og kynferðislegu ofbeldi í mörg ár en þau séu búin að vera gift í um 10 ár. Nú hafi hann hótað að taka hana með valdi og ríða henni í rassgatið þar sem hún hafi neitað honum um samræði. Kvað hún X vera mjög brenglaðan kynferðislega og að hann liti á það sem hlutverk hennar að þjónusta hann kynferðislega óháð vilja hennar. Kvaðst hún þurfa að fróa honum daglega, gegn vilja sínum, til þess eins að fá frið fyrir honum. Kvað hún X hafa nauðgað sér þann 20. september árið 2014 en hún hafi ekki kært það og sæi hún eftir því í dag.

C segi X einnig hafa áreitt dætur hennar, þá sérstaklega A. Hann hafi sent A sms-skilaboð þess efnis að ef hún svæfi hjá honum myndi hann láta B vera. Þá hafi hann einnig sagt við B að ef hún yrði ekki góð myndi hann hafa samræði við A. Fram hafi komið hjá C að X héldi heimilinu í heljargreipum með hátterni sínu og væri þar einráður.

Lögregla hafi einnig rætt við A dóttur C á vettvangi og kvaðst hún hafa þurft að þola kynferðislega áreitni frá X lengi og sagði frá því að X segði við móður þeirra að hann kæmi til með að nota dætur hennar ef hún sinnti honum ekki. Kvað hún X hafa sent henni sms-skilaboð sl. nótt sem hún hafi sýnt lögreglu og hafi skilaboðin verið svohjóðandi: „Geturu komið inn í herbergi til mín og sofið hjá mér og tha færdu sefnfrið allan morgundaginn“.

Í skýrslutökum af þeim C, A og B vegna málsins hafi þær allar lýst því hvernig X hafi beitt C kynferðisofbeldi og hvernig hann hefði hótað henni að nota þær A og B í hennar stað ef hún sinnti honum ekki kynferðislega. Hafi hann jafnframt hótað því að henda systrunum út af heimilinu af sama tilefni. Hafi þær einnig lýst því hvernig X hafi áreitt A kynferðislega með sms-skilaboðum. Þá hafi komið fram hjá þeim A og B að X  hafi stundum reynt að sjá þær systur naktar. Ennfremur hafi komið fram að X hafi beitt þær C og B líkamlegu ofbeldi. Af  framburðum þeirra C, B og A sé jafnframt ljóst að X virðist í miklu ójafnvægi og stjórna heimilinu með hótunum og ógnandi hegðun. Hafi þær allar lagt fram beiðni um að X yrði brottvísað af heimilinu og honum gert að sæta nálgunarbanni gagnvart þeim.

X hafi neitað sök í skýrslutöku og hafnað alfarið lýsingum C, A og B. X kvaðst hafa ætlað að senda C sms-skilaboð aðfaranótt 6. mars sl. þar sem hann hafi beðið um kynlíf en skilaboðin hafi óvart farið á A. X kvaðst hafa talað við C um að ríða í rassgat eins og komið hafi fram í lögregluskýrslunni en engin meining hafi verið að baki því. Varðandi framburð C um að hann hafi nauðgað henni þann 20. september 2014 þá hafi hann neitað því. Kvaðst hann þá hafa grunað hana um framhjáhald og þau hafi sofið saman til að hún gæti sannað að það væri ekki rétt. Kvað hann hana hafa kvartað um verki daginn eftir og hann beðið hana afsökunar. Kvaðst hann hafa verið undir áhrifum áfengis og ekki munað fyrr en daginn eftir að hún fyndi til í leggöngunum við samfarir. Aðspurður um afstöðu sína til ákvörðunar um nálgunarbann og brottvísun af heimili kvaðst hann ætla að una ákvörðuninni.

Mæðgurnar hafi ítrekað óskað eftir aðstoð lögreglu vegna X, sbr. eftirfarandi mál lögreglu:

1.            Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]. Bókað þann 18. október 2015 að A hafi óskað aðstoð lögreglu þar maðurinn á heimilinu væri að hóta sér. Bókað að lögregla hafi farið á staðinn og rætt við A sem hafi sagt að X hafi hótað að henda sér út ef hún gerði ekki það sem hann vildi varðandi einhverja tölvu. Bókað að hún hafi sagt að X hafi verið að áreita hana kynferðislega með óviðeigandi skilaboðum auk þess að áreita B systur hennar. Bókað að A og B hafi sagt að þær hafi margoft heyrt X hóta móður þeirra að ef hún svæfi ekki hjá honum myndi hann bara sofa hjá dætrum hennar. Bókað að X hafi verið vísað út af heimilinu þar sem mæðgurnar hafi ekki viljað hafa hann.

2.            Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: C hafi kallað tvívegis eftir aðstoð á heimilið þann 20. september 2014 vegna ofbeldis og hótana X. Í viðræðum við lögreglu kvað hún X hafa ráðist á sig og hótað sér. Kvað hún hann hafa heimtað að hún uppfyllti eiginkonuskyldur sínar en ef hún yrði ekki við því hafi X gefið í skyn að hann myndi þá svala þörfum sínum á dóttur hennar, B..

3.            Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: Bókað þann 1. september 2014 að A hafi komið á lögreglustöð til að tilkynna um ósiðleg sms-skilaboð frá stjúpföður sínum X. Bókað að skilaboðin séu send úr síma [...] sem sé skráð á hann í lögreglukerfinu. Bókað að í einu þeirra hafi staðið: „Þú sefur bara hjá manni mömmu þinnar ef þú getur ekki borgað leiguna“.

4.            Mál lögreglu nr. 007-2014-[...]: Bókað þann 23. september 2014 að A hafi óskað aðstoðar lögreglu við að ná í nauðsynlega hluti heim til sín en hafi óttast barsmíðar frá fósturföður og hafi hún ekki þorað inn.

5.            Mál lögreglu nr. 007-2013-[...]: Bókað að A hafi mætt á lögreglustöð vegna nafnlausra sms-skilaboð sem hún væri að fá. Bókað að við rannsókn hafi komið fram að skilaboðin væru send úr tölvupóstfanginu [...], netfangi X.

6.            Mál lögreglu nr. 007-2013-[...]: Bókað þann 11. nóvember 2013 að A hafi komið á lögreglustöð vegna fjögurra ógeðfelldra sms skilaboða sem hún hafi fengið. Tekið fram að þau fjalli um móður hennar og X. Bókað að A sagðist hafa fengið ógeðfelld skilaboð frá X og að hún teldi ekki ósennilegt að skilaboðin væru frá honum. Bókað að hún hafi tekið fram að X væri perri.

7.            Mál lögreglu nr. 007-2012-[...]: Bókað þann 23. júní 2012 að C hafi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna heimiliserja. Bókað að C  hafi sagt að X hafi fyrir einhverju síðan lagt á hana hendur og hafi hún sýnt lögreglu lítinn marblett sem hún sagði afleiðingu af því.

Þá sé jafnframt nokkur fjöldi eldri mála í málaskrákerfi lögreglu þar sem C hafi óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ónæðis, hótana og ofbeldi af hálfu X. Í máli lögreglu nr. 007-2009-[...] sé bókað þann 24. október 2009 að C hafi óskað eftir aðstoð þar sem X hafi nauðgað henni. Í máli lögreglu nr. 007-2009-[...] sé bókað þann 8. mars 2009 að C hafi hringt og tilkynnt um að X legði reglulega á hana hendur og hefði nokkrum sinnum þvingað hana til samræðis og hefði það síðast gerst 6. mars 2009.

 

Í ljósi alls framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi í áraraðir brotið gegn C,A og B með refsiverðum hætti og raskað friði þeirra. Um sé að ræða rökstuddan grun um bæði kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi auk hótana. Talin sé hætta á að hann muni brjóta gegn þeim aftur og raska friði þeirra njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.

Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljist skilyrði 4. og 5.  gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, hefur krafist þess að staðfest verði sú ákvörðun hans frá 7. mars 2016 þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni. Í a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 segir að beita megi nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Í b-lið ákvæðisins segir að beita megi nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið. Þá er samkvæmt a-lið og b- lið 1. mgr. 5. gr. heimilt að beita brottvísun af heimili þegar þar tilgreindar aðstæður eru fyrir hendi, þó að hámarki í 4 vikur, sbr. 4. mgr. 7. gr. laganna. Fyrir dóminn hafa verið lögð rannsóknargögn lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 7. mars sl. Þá kom fram fyrir dóminum að aðilar búi í leiguhúsnæði og sé brotaþoli C leigutaki þess húsnæðis. Fallast verður á það með lögreglustjóra að gögn málsins beri með sér að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverð brot gegn brotaþolum, sbr. a-lið áðurnefndra ákvæða. Þá verður að telja, þegar litið er heildstætt á atvik málsins og gögn þess, að án nálgunarbanns og brottvísunar af heimili sé varnaraðili líklegur til að halda áfram háttsemi sinni gagnvart brotaþolum, sbr. b-lið áðurnefndra ákvæða. Með hliðsjón af framangreindu þykja því vera uppfyllt skilyrði a- og b-liðar. 4. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr., svo og 12. gr. laga nr. 85/2011 til þess að nálgunarbanni og brottvísun af heimili verði beitt enda verður ekki talið, eins og málum er háttað, að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um nálgunarbann og brottvísun af heimili eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl. fyrir dómi og á rannsóknarstigi 150.000. krónur greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði sam­kvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011 þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl. 150.000 krónur.  

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                    Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra frá 7. mars 2016, um að X, kt. [...], skuli sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni, skv. a. og b. lið 4. gr. og a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 4 vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við lögheimili sitt og C, kt. [...], A, kt. [...] og B, kt. [...], að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti C, A og B eftirför, nálgist þær á almannafæri eða setji sig í samband við þær með öðrum hætti.

                    Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl. fyrir dómi og á rannsóknarstigi 150.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Einnig greiðist úr ríkissjóði sam­kvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011 þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl. 150.000 krónur.