Hæstiréttur íslands
Mál nr. 56/2005
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Misneyting
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 26. maí 2005. |
|
Nr. 56/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Sigurði Jónssyni(Kristján Stefánsson hrl. Jóhannes Ásgeirsson hdl.) |
Börn. Kynferðisbrot. Misneyting. Miskabætur
S var sakfelldur fyrir brot á 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa nýtt sér andlega annmarka Y til að hafa við hann tiltekin kynferðismök á gistiheimili í Reykjavík og fyrir brot á 209. gr. sömu laga með því að hafa sært blygðunarkennd piltsins Z með ósiðlegu og kynferðislegu tali við biðskýli strætisvagna á nánar tilgreindum stað í Reykjavík. Var hann dæmdur í 12 mánaða fangelsi og til að greiða Y 400.000 krónur í miskabætur, en bótakrafa Z var ekki til umfjöllunar í Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til að greiða Y 800.000 krónur í miskabætur.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað að nýju, en til vara að hann verði sýknaður af sakargiftum um brot gegn Y og dæmd vægasta refsing að öðru leyti, sem verði skilorðsbundin. Hann krefst þess einnig að bótakröfu Y verði vísað frá dómi, en að því frágengnu að hún verði lækkuð.
Af hálfu ákærða hafa ný skjöl verið lögð fyrir Hæstarétt til stuðnings aðalkröfu hans. Ekki er hald í þessum gögnum og kemur krafan ekki til neinna álita.
Svo sem rakið er í héraðsdómi fór ákærði með Y inn á gistiheimili við [...] í Reykjavík að kvöldi 15. október 2003. Ákærði hefur gengist við hluta sakargifta, sem lúta að háttsemi hans þar, en neitar að hafa fengið Y til að hafa við sig endaþarmsmök. Í héraðsdómi er einnig greint frá því að A kom til þeirra í umrætt sinn, en hvarf nokkru síðar á braut. Y bar í skýrslu sinni að áðurnefnd mök hafi orðið meðan A var staddur í herberginu hjá þeim. Ekki var tekin skýrsla af A við meðferð málsins í héraði og hefur það ekki heldur verið gert eftir áfrýjun málsins þrátt fyrir tilmæli ákærða þar um. Ekki er fram komin skýring á því hvers vegna skýrsla var ekki tekin af vitninu, sem augljóslega skipti þó máli og lá beint við að gera. Er að þessu virtu varhugavert að telja sannað að ákærði hafi fengið Y til að hafa við sig endaþarmsmök og verður hann sýknaður af þeim lið ákærunnar. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur, þar á meðal um refsingu ákærða, sem er hæfilega ákveðin að þessu gættu.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Sigurður Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember sl., er höfðað með tveim ákærum ríkissaksóknara, sem báðar eru dagsettar 6. ágúst 2004 og sameinaðar hafa verið í eitt mál undir rekstri málsins. Ákærurnar eru á hendur Sigurði Jónssyni, [kt.], Írabakka 6, Reykjavík. Í fyrri ákærunni er Sigurður ákærður fyrir kynferðisbrot, með því að hafa mánudaginn 13. október 2003 við biðskýli strætisvagna við [...] í Reykjavík, gefið sig á tal við Z fæddan árið 1991, og sært blygðunarkennd hans með ósiðlegu og kynferðislegu tali.
Er háttsemin aðallega talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sbr. 15. gr. laga nr. 40/1992, en til vara við 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 20/2002.
B, [kt.], hefur krafist þess f.h. ólögráða sonar síns Z, [kt.], Reykjavík, að ákærði verði dæmdur til að greiða miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur, auk dráttarvaxta frá 14. október 2003 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar auk virðisaukaskatts.
Í síðari ákærunni er Sigurður ákærður fyrir kynferðisbrot, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 15. október 2003 í Gistiheimilinu [...], Reykjavík, notfært sér andlega annmarka Y, til að sjúga á honum liminn og til að fá Y síðan til að hafa við sig endaþarmsmök.
Er þessi háttsemi talin varða við 196. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.
Af hálfu Y, [kt.], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 15. október 2003 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Ákærði hefur skýlaust játað sakargiftir vegna háttseminnar 13. október 2003 gagnvart Z. Hefur hann fallist á að greiða Z 100.000 krónur í skaðabætur og hefur brotaþoli fallist á þær bætur. Að því er varðar háttsemi 15. október 2003 neitar ákærði sök. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist, að hann verði í því tilviki alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Þriðjudaginn 14. október 2003 kom á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík B, móðir Z. Kvað hún son sinn hafa verið að bíða eftir strætisvagni í biðskýli strætisvagna við [...] í Reykjavík daginn áður. Þá hafi gefið sig á tal við drenginn maður, sem hafi m.a. leitað eftir því við drenginn að fá uppgefið farsímanúmer hans. Hafi Z gefið manninum, sem hafi nefnt sig ,,Sigga”, upplýsingar um númerið. Maðurinn hafi síðan innt drenginn eftir ýmsum atriðum, m.a. hvort hann reykti eða drykki áfengi. Einnig hafi hann spurt drenginn um ýmis kynferðisleg atriði, þ.á m. hvort hann hafi sofið hjá karlmanni. Loks hafi maðurinn leitað eftir því við Z að hann myndi sjúga á honum getnaðarliminn. Því hafi drengurinn neitað og hafi maðurinn þá reynt að koma við kynfæri Z, m.a. með því að koma höndum inn fyrir buxur drengsins. Í framhaldi þessa hafi maðurinn haldið áleiðis að [...]. Z hafi lýst manninum þannig að hann hafi verið 30-35 ára að aldri, í svörtum millisíðum leðurjakka og bláum gallabuxum. Hafi hann verið hár og grannur og með dökkt þunnt hár. Eftir að Z hafi komið heim til sín hafi B skynjað að drengurinn hafi verið að fá SMS skilaboð á símann sinn úr símanúmerinu 661 1503. Hafi hún spurt hann að því hver væri að senda honum skilaboð. Þá hafi Z sagt henni frá umræddum manni og hafi hann sýnt henni skilaboð er honum hafi borist frá honum. Kvaðst B gera þá kröfu að umræddum manni yrði refsað fyrir háttsemi sína gagnvart drengnum.
Miðvikudaginn 15. október 2003 ákvað lögreglan í Reykjavík að grennslast nánar fyrir um eiganda þess síma er sent hafi Z SMS skilaboðin 13. október. Er tekið fram að umrætt símanúmer hafi verið svokallað ,,frelsissímanúmer”, en það hafi leitt til þess að ógjörningur hafi verið að sannreyna hver væri eigandi þess. Hafi lögregla ákveðið að senda SMS skilaboð á símanúmerið 661 1503 þann dag með þeim skilaboðum að tiltekinn maður að nafni ,,Kalli” hefði áhuga á að kynnast viðtakanda með ,,samband” í huga. Hafi nokkur skilaboð gengið á milli lögreglu og þess manns er hafi haft umrætt símanúmer undir höndum. Hafi umræddur maður fallist á að hitta ,,Kalla” á matsölustaðnum Svarta Svaninum við Rauðarárstíg í Reykjavík kl. 20.00 það kvöld. Hafi viðkomandi maður lýst klæðnaði sínum þannig að hann yrði klæddur í hvíta peysu, leðurjakka, gallabuxur og að hann yrði með svartan klút á höfði. Hafi maðurinn lagt til að hann og ,,Kalli” færu síðan saman á gististað og að þeir hefðu þar kynferðislegt samband og hafi borist skilaboð frá manninum með fyrirspurn um hvort hann og ,,Kalli” ættu einungis að vera tveir og ,,leika sér” eða hvort þeir ættu að vera þrír. Í skýrslu lögreglu kemur fram að kl. 20.00 hafi enginn er hafi samsvarað lýsingu á manninum verið kominn á matsölustaðinn og hafi lögregla þá sent SMS skilaboð í símanúmerið 661 1503 og leitað eftir upplýsingum um hvort maðurinn kæmi ekki á matsölustaðinn. Hafi svar borist um að maðurinn tefðist um 15 mínútur. Klukkan 20.07 hafi lögregla hringt í símanúmerið 661 1503. Um leið hafi lögregla fylgst með því hvort einhver myndi svara hringingu í síma á sama tíma. Hafi lögregla þá veitt ákærða athygli við Hlemmtorg. Klukkan 20.15 hafi ákærði gengið inn á Svarta Svaninn og í kjölfarið hafi lögregla sent SMS skilaboð undir nafni ,,Kalla” í símanúmerið 661 1503 með skilaboðum um að ,,Kalli” hafi guggnað á því að hitta manninn. Hafi ákærði þá sent skilaboð til baka um að hann yrði að hitta ,,Kalla”, þar sem hann væri orðinn ,,svo þurfi fyrir kynlíf með karlmanni”. Hafi ákærði eftir það sent nokkur skilaboð sama eðlis. Er þess getið að ákærði hafi á þeim tíma drukkið bjór úr bjórdós. Kl. 21.05 hafi ákærði enn sent SMS skilaboð um kynferðislegar athafnir. Klukkan 21.06 hafi ákærði gengið út af matsölustaðnum að Hlemmtorgi, þar sem hann hafi fengið sér sæti á bekk utandyra. Þar hafi verið fyrir nokkur ungmenni, er ákærði hafi gefið sig á tal við. Um kl. 22.00 hafi tveir piltar verið eftir hjá ákærða, en önnur ungmenni hafi þá verið farin með strætisvögnum. Kl. 22.16 hafi eitt ungmenni verið eftir hjá ákærða. Hafi ákærði og ungmennið gengið suður Snorrabraut. Á leiðinni hafi ákærði áfram drukkið bjór úr bjórdós. Leið þeirra hafi í fyrstu legið að gistiheimilinu [...]. Hafi það virst lokað og hafi ákærði og ungmennið þá haldið að Gistiheimilinu [...]. Þar hafi ákærði farið inn og látið ungmennið bíða fyrir utan á meðan. Eftir um 3 mínútur hafi ákærði komið aftur út og bent ungmenninu á að koma inn. Þá hafi ákærði verið búinn að taka slæðu af höfði sínu, en þá hafi komið í ljós að hann hafi ekki verið með hár á höfði. Kl. 23.20 hafi ákærði komið út um kjallarahurð á gistiheimilinu og hafi hann staðið við gangstétt fyrir framan gistiheimilið og talað í farsíma. Stuttu síðar hafi komið þar að ljóshærður maður í gráleitum fatnaði og hafi hann farið inn í gistiheimilið. Kl. 00.15 hafi sá einstaklingur komið út aftur og hafi hann hlaupið í átt að [...] og [...] og við það horfið sjónum lögreglumanna. Kl. 00.21 hafi ákærði og ungmennið komið út úr gistiheimilinu og hafi þeir gengið norður [...] að gatnamótum [...] og [...]. Ákærði hafi þar farið inn á staðinn Háspennu og komið út að vörmu spori. Hafi lögreglu virst sem ákærði hafi afhent ungmenninu fjármuni. Kl. 00.50 hafi ákærði tekið leigubifreið frá Hlemmtorgi og haldið að Írabakka 6, þar sem hann hafi farið inn. Kl. 01.25 hafi lögregla athugað skráða íbúa að Írabakkanum og hafi hún sannreynt að ákærði byggi þar.
Næsta dag, 16. október 2003, á tímabilinu frá kl. 19.00 hóf lögregla eftirgrennslan eftir því ungmenni er farið hafði með ákærða að gistiheimilinu við [...] 15. október. Er fært í lögregluskýrslu að kl. 22.40 hafi lögregla komið auga á ungmennið við Laugaveg 103. Hafi lögregla þar haft tal af Y. Er tekið fram í frumskýrslu lögreglu, að í viðræðum við Y hafi virst sem hann væri ekki andlega heill. Hafi lögregla leitað eftir upplýsingum um með hverjum Y hafi verið kvöldið á undan. Hafi Y upplýst að hann hafi verið við Hlemmtorg ásamt kunningjum sínum. Kom fram að einhver ,,maður” hafi verið að ræða þar við ungmennin. Lýsti Y því að hann hafi farið með manninum til að hlusta á tónlist. Í kjölfarið hafi lögregla farið þess á leit við Y að hann lýsti nákvæmlega samskiptum sínum við þennan einstakling. Hafi Y þá gert grein fyrir því að viðkomandi einstaklingur hafi innt sig eftir því hvort hann vildi ekki koma með sér að hlusta á tónlist. Hafi Y lýst því að hann væri tilbúinn til þess og hafi hann fylgt manninum eftir að einhverju húsi, er Y hafi ekki vitað með vissu hvar hafi verið. Hafi maðurinn beðið Y um að bíða fyrir utan húsið á meðan hann hafi farið inn. Fljótlega hafi maðurinn komið út aftur og hafi hann sótt Y. Hafi þeir farið í herbergi í kjallara hússins, en herbergið hafi verið númer 13. Hafi Y sest með manninum á rúm í herberginu og hafi þeir rætt um tónlist og bifreiðar. Þá hafi maðurinn farið að strjúka getnaðarlim Y. Hafi hann sagt frá því að hann ætti eiginkonu og börn, væri tvíkynhneigður og ,,saknaði karlkynsins”. Hafi maðurinn farið úr fötunum og hafi Y gert það sama. Hafi Y sogið á manninum getnaðarliminn, auk þess sem maðurinn hafi sogið getnaðarliminn á Y. Hafi Y lýst því að hann hafi aldrei fyrr gert neitt því líku. Hafi hann ekki þorað að segja nei við manninn, þar sem hann hafi haldið að maðurinn myndi lemja sig. Hafi maðurinn sagt Y að setja getnaðarlim sinn í endaþarminn á sér og hafi Y ekki þorað annað en að gera það. Sími mannsins hafi síðan hringt og hafi hann farið að ræða við viðmælanda sinn og við það farið út úr herberginu. Hafi hann síðan komið inn aftur og um hálfri klukkustundu síðar hafi komið inn í herbergið annar ljóshærður maður. Hafi sá maður einnig afklæðst. Hafi sá sogið getnaðarlim ákærða, auk þess sem Y hafi sogið getnaðarlim hans. Þessi maður hafi yfirgefið herbergið á undan Y og ákærða. Hafi Y farið með ákærða úr húsinu og þeir gengið samferða niður að Hlemmtorgi. Þar hafi ákærði látið sig fá 150 krónur, auk þess sem hann hafi látið sig fá símanúmerið sitt á miða með þeim skilaboðum að Y mætti hringja hvenær sem væri ef sig langaði oftar að ,,gera þetta”. Kvaðst Y hafa rifið miðann og hent honum. Eftir það hafi hann farið heim til sín. Ekki hafi hann sagt móður sinni eða föður frá þessum atburðum. Er fært í lögregluskýrslu að eftir að frásögn Y hafi komið fram hafi lögregla haft samband við föður Y og gert honum grein fyrir atvikum málsins. Í viðræðum við foreldra hafi komið fram að Y væri misþroska og ofvirkur og væri hann metinn 75% öryrki. Hafi lögregla haft samband við neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna málsins. Þar hafi verið tekin ákvörðun um að foreldrar Y skyldu koma með hann á neyðarmóttökuna 17. nóvember 2003.
Í málinu liggur fyrir skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á Y. Er komutími skráður 17. október 2003. Er skráð að Y hafi lýst atvikum þannig að hann hafi verið á Hlemmtorgi miðvikudagskvöldið 15. október. Hafi hann hitt þar kunningja úr skólanum, en hann væri í sérdeild innan [...]. Þar muni tveir menn hafa tekið hann tali, annar þeirra 23 ára er hafi sagt að hann væri giftur og utan af landi. Hafi sá farið með Y á gistiheimili í grenndinni þar sem þeir hafi ætlað að hlusta á tónlist saman. Er þeir hafi komið í herbergi á gistiheimilinu hafi maðurinn viljað afklæðast og hafi hann viljað að Y færi úr buxum og nærbuxum. Hafi maðurinn strokið honum um kynfærin og sleikt þau og hafi síðan fengið Y til að fara með ,,typpið” í endaþarminn á sér. Annar maður muni hafa komið í herbergið, en einungis strokið kynfæri Y en haft samræði við þann mann er hafi komið með Y í herbergið. Hafi Y farið með þeim af gistiheimilinu. Í samantekt um ástand sjúklings er tekið fram að drengurinn hafi gefið nokkuð greinargóða einlæga sögu. Í viðtali komi fljótlega fram nokkur vanþroski og greindarskerðing. Í niðurstöðu læknis er tekið fram að drengurinn sé einlægur, vanþroska og undir meðalgreind. Er þess getið að Y hafi sagt að mennirnir hafi ekki hótað sér með orðum en vakið hjá honum ógn um að ef hann gerði ekki það sem þeir hafi viljað myndu þeir lemja hann.
Samkvæmt vottorði Stefáns J. Hreiðarssonar læknis frá 18. apríl 2004 hefur Y verið í eftirliti hjá lækninum frá fjögurra ára aldri vegna alvarlegra frávika í þroska og aðlögun. Hafi hann síðast komið til athugunar í nóvember 2002. Hafi hann verið rannsakaður ítarlega á barnadeild Landakotsspítala við 5 ára aldur. Hafi hann jafnframt verið til ítarlegrar athugunar á vegum Barna- og unglingageðdeildar í október 1999. Hafi greindarmat sýnt jaðargreind, en jafnframt væri til staðar verulegur misstyrkur. Á verklegum þáttum greinarprófs við 13 ára aldur hafi rökhugsun og sjónræn útsjónarsemi verið á stigi vægrar þroskahömlunar, en ýmsir mállegir þættir hafi staðið betur. Námsframmistaða hafi verið í samræmi við það en hann hafi notið mikillar sérkennslu í grunnskóla og verið eitt ár í Öskjuhlíðarskóla. Unnið hafi verið eftir einstaklingsnámsskrá, vissum námsgreinum sleppt og hafi hann engin samræmd próf tekið. Lestur hafi verið stirður og lesskilningur slakur. Stærðfræðigeta hafi verið mjög takmörkuð. Auk greindarskerðingar búi hann við alvarleg frávik í hegðun og aðlögun. Hafi hann ítrekað uppfyllt greiningarviðmið um ofvirkni og athyglisbrest, sem hafi mildast hvað ofvirka hegðun varði, en athyglisbrestur sé enn verulegur. Jafnframt sé veruleg tilhneiging til áráttu- og þráhyggjuhegðunar. Hann hafi átt erfitt með félagsleg samskipti, lesi illa í aðstæður og hafi ráðið betur við félagsskap yngri barna á grunnskólaárum. Í daglegu lífi hafi hann þurft verulega stýringu og aðstoð foreldra. Rannsóknir hafi ekki leitt í ljós ákveðna orsök fyrir vanda hans. Engin sérstök útlitseinkenni séu til staðar. Hann sé hins vegar lágvaxinn. Sé því til staðar hjá Y greindarskerðing, jaðargreind, en jafnframt misstyrkur, þannig að ályktunarhæfni og námsgeta sé slakari. Auk þess séu geðræn einkenni í formi athyglisbrests, þráhyggjutilhneigingar og verulega skertrar félagsfærni. Fötlun hans hafi leitt til alvarlegs námsvanda og hafi hann verið metinn til örorkustyrks af tryggingalækni. Hæfni hans til að meta og taka ábyrgð á aðstæðum sé verulega skert og sé því auðvelt að hafa áhrif á hann vegna slakrar dómgreindar hans.
Í vottorði Dr. Jóns Friðriks Sigurðssonar sérfræðings í klínískri sálarfræði og réttarsálfræði, dagsettu 8. desember 2004, kemur fram að Jón Friðrik hafi haft Y til athugunar og meðferðar árin 2001 og 2002, að beiðni Skólaskrifstofu [...]. Þann 8. desember 2004 hafi verið lögð fyrir Y tvö sálfræðipróf. Annað prófið, Ravens Standard Progressive Matrives, mæli almenna greind og reyni á skynjunar- og ályktunarhæfni. Síðara prófið, Sefnæmispróf Gísla H. Guðjónssonar, meti getu til upprifjunar. Það próf mæli bæði tafarlausa og tafða upprifjun úr minni og íspuna, þ.e. tilhneigingu til að fylla, meðvitað eða ómeðvitað, í eyður í minni. Einkunn Y á fyrra prófinu hafi verið 36 sem samsvari jaðargreind. Sú niðurstaða sé í samræmi við fyrri greindarmælingar á honum. Á síðara prófinu hafi einkunn verið 19 í tafarlausri upprifjun og 18½ í tafðri upprifjun, sem sé um 47% af minnisatriðum prófsins. Hafi minni hans verið rétt og hafi hann mjög lítið fyllt í eyðurnar. Bendi niðurstöðurnar til þess að upprifjun sé í meðallagi miðað við heilbrigða jafnaldra og að unnt sé að treysta framburði hans þrátt fyrir takmarkaða greind. Getur Jón Friðrik þess að Y hafi verið mjög þægilegur og samvinnuþýður í viðtölum þótt hann hafi stundum átt frekar erfitt með að tjá sig. Er hann hafi komið í viðtal 2. desember 2003, stuttu eftir atburði 15. október 2003, hafi honum virst líða mjög illa og hafi hann átt frekar erfitt með að svara spurningum og gera grein fyrir því er hafi átt sér stað. Hafi það sama verið uppi viku síðar, er Y hafi aftur komið í viðtal. Er í vottorðinu lýst sjálfstæðri frásögn Y af atburðum 15. október. Í viðtölum 12. október (sic) og 7. desember 2004 hafi virst sem honum liði mun getur og hafi hann átt auðveldar með að skýra frá því er hafi átt sér stað á gistiheimilinu. Í samantekt á niðurstöðum tekur sálfræðingurinn fram að Y sé 18 ára misþroska drengur. Óhætt sé að fullyrða að atvikið á gistiheimilinu hafi haft neikvæð áhrif á Y þótt erfitt sé að komast að því hversu mikil eða langvinn þau séu. Hjá honum komi fram eitt af þremur einkennum áfallastreitu, minningar um atburðinn komi fyrirvaralaust upp í huga hans og valdi honum vanlíðan. Vegna misþroska sé hins vegar erfitt að átta sig á hversu alvarleg þau áhrif séu, en greinilegt sé að minningarnar hafi neikvæð áhrif á hann. Vitsmunaþroski Y sé verulega takmarkaður þótt minni hans sé prýðilegt. Félagsleg staða hans sé fremur slæm, hann sé auðtrúa og geti átt erfitt með að meta aðstæður hverju sinni og auðvelt geti verið að hafa áhrif á hann. Komi það heim og saman við lýsingu hans á því sem gerst hafi þegar ókunnugur maður, sem hann hafi hitt á Hlemmi, hafi boðið honum með sér að hlusta á tónlist. Hafi hann fylgt honum, þrátt fyrir efasemdir, og hafi ekki virst hafa haft getu eða kjark til að forða sér. Lýsing hans á atburðarásinni þetta kvöld hafi verið einlæg og trúverðug og samræmi verið milli þess sem hann hafi greint sálfræðingnum frá í viðtölum og þess er kæmi fram í endurriti af framburði hans hjá lögreglu 2. desember 2003.
Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík 21. nóvember 2003 var farið á leit við héraðsdóm, að tekin yrði skýrsla af Y fyrir dómi. Sú skýrslutaka fór fram þriðjudaginn 2. desember 2003. Gerði Y þá grein fyrir atvikum að hann og ákærði hafi rætt saman í um 30 mínútur á Hlemmtorgi. Kvað Y ákærða hafa leitað eftir því hvort hann vildi koma til að hlusta með sér á tónlist. Hafi þeir í framhaldinu farið á gistiheimili í nágrenni við Hlemmtorg. Ákærði hafi farið einn inn í gistiheimilið og síðan komið út aftur. Þeir hafi síðan farið saman inná gistiheimilið og þar í herbergi hafi ákærði lagt til að þeir myndu setjast niður. Þeir hafi báðir verið klæddir á þeim tíma. Síðan hafi ákærði tekið til við að nudda á Y getnaðarliminn. Því næst hafi hann afklætt Y og tekið til við að sjúga á honum getnaðarliminn. Y hafi ekki vitað hvað myndi gerast ef hann byrjaði að öskra, hann hafi verið hræddur og óttast að ákærði myndi lemja sig. Af þeirri ástæðu hafi Y ekki þorað að mótmæla framferði ákærða. Y kvað sér ekki hafa orðið sáðlát við athafnirnar. Ákærði hafi síðan afklæðst sjálfur og farið þess á leit við ákærða að hann myndi sjúga á sér getnaðarliminn. Y hafi lýst því að hann kynni það ekki. Eftir það hafi ákærði látið Y setja getnaðarliminn inn í endaþarminn á sér. Ákærði hafi rætt við einhvern í síma og í kjölfarið hafi komið í herbergið feitlaginn, ljóshærður maður með gleraugu. Sá maður hafi einnig sogið getnaðarliminn á Y. Y hafi hins vegar hvorki sogið getnaðarliminn á þessum manni né sett getnaðarliminn í endaþarminn á honum. Maðurinn hafi farið á brott og ákærði og Y yfirgefið gistiheimilið í sameiningu og gengið í áttina að Hlemmtorgi. Áður en ákærði hafi yfirgefið sig hafi hann látið Y fá 150 krónur. Y hafi ætlað að fara með strætisvagni heim, en þegar þar var komið hafi klukkan verið orðin það margt að strætisvagnar hafi verið hættir að ganga. Hafi Y því gengið heim til sín. Næsta dag hafi lögregla komið að máli við sig og leitað eftir upplýsingum um hvað hafi átt sér stað á gistiheimilinu. Hafi hann greint lögreglu frá þeim atvikum. Eftir þessa atburði hafi sér ekki liðið vel.
Ákærði var fyrst yfirheyrður um sakarefnið 12. nóvember 2003. Við þá yfirheyrslu kvaðst hann ekki kannast við að hafa áreitt ungan dreng kynferðislega í biðskýli strætisvagna við [...] í Reykjavík 13. október 2003. Hann kvaðst ekki kannast við símanúmerið 661 1503 eða SMS skeyti er lögregla sýndi honum um samskipti úr því símanúmeri í síma Z. Þá kvaðst hann ekki kannast við SMS sendingar úr þessu númeri í annað varðandi tiltekinn ,,Kalla” er hafi mælt sér mót við mann á matsölustaðnum Svarta Svaninum að kvöldi miðvikudagsins 15. október 2003. Hann kvaðst hins vegar kannast við að hafa verið að drekka áfengi við Hlemmtorg 15. október 2003. Þar hafi hann hitt fyrir nokkra stálpaða unglinga. Þar á meðal hafi verið drengur er hafi kallað sig ,,[Y]” og hafi sá verið 18 ára. Hafi þeir rætt saman um stund og hafi m.a. komið fram að drengurinn hafi verið við nám í [...]. Hafi ákærði leitað eftir því við drenginn hvort hann væri til í að koma með sér á gistiheimili á [...]. Hafi hann spurt drenginn hvort hann hafi einhvern tíma verið með strák í kynlífsathöfnum. Hafi drengurinn neitað því og ákærði þá leitað eftir því hvort hann hefði áhuga á slíku. Hafi drengurinn svarað ,,já jafnvel”. Ákærði hafi farið ásamt drengnum að gistiheimili við [...], þar sem ákærði hafi greitt fyrir herbergi. Drengurinn hafi beðið fyrir utan þar til ákærði hafi gefið honum merki um að koma inn um kjallaradyr. Ákærði og drengurinn hafi setið þar um stund þar til ákærði hafi sett hendi á læri hans. Ákærði hafi leitað eftir því hvort drengurinn vildi ,,meira” og hafi hann svarað því játandi. Hafi hann þá beðið drenginn um að fara úr buxum, sem hann hafi gert. Ákærði hafi sogið getnaðarlim drengsins, auk þess sem drengurinn hafi sogið getnaðarlim ákærða. Hafi ákærði spurt drenginn hvort hann vildi annan í kynlífsathafnirnar og hafi drengurinn verið samþykkur því. Ákærði hafi þá hringt í mann er hann hafi þekkt. Umræddur maður hafi síðan komið á vettvang og haft kynlífssamskipti við sig, en ekki drenginn. Kvaðst hann hafa átt munnmök við þann mann er hafi komið. Ekki hafi verið um mök í endaþarm að ræða. Eftir að maðurinn hafi horfið á brott hafi ákærði setið um stund með drengnum og þeir rætt saman. Síðan hafi þeir gengið út og áleiðis saman að Hlemmtorgi. Drenginn hafi vantað pening fyrir strætisvagnafargjaldi og hafi ákærði látið hann fá pening í þeim tilgangi. Kvaðst ákærði mótmæla því að einhver nauðung hafi átt sér stað í samskiptum sínum við drenginn ,,[Y]” og að hann hafi ekki orðið þess var að drengurinn væri ekki andlega heill. Við yfirheyrslur 12. maí 2004, er undir ákærða voru bornar upplýsingar um notkun úr og í farsíma 661 1503, kvaðst ákærði viðurkenna að hafa verið með símanúmerið 661 1503. Í það sinn kvaðst hann viðurkenna að hafa rætt við Z í biðskýli fyrir strætisvagna við [...] 13. október 2003. Hafi ákærði verið undir áhrifum áfengis og hafi hann rætt við drenginn ,,á kynferðislegum nótum”. Hafi hann ekki ætlað sér neitt með því og ekki snert drenginn eða gert tilraun til þess. Kvaðst hann viðurkenna að hafa sent Z SMS skeyti en ekki hafa ætlað sér neitt kynferðislegt með þeim sendingum. Bar ákærði við greindarskorti. Þá kvaðst ákærði við þessa yfirheyrslu jafnframt viðurkenna að hafa staðið í SMS skeytasendingum við einhvern er hafi kallað sig ,,Kalla”. Ákærði kvað ,,fyllerísrugl” hafa verið ástæðu þess að hann hafi ákveðið að mæla sér mót við ,,Kalla” en kvaðst ekki vilja útskýra það nánar.
Við aðalmeðferð málsins hefur ákærði greint frá atvikum varðandi háttsemi frá 15. október 2003, í tengslum við Y, með sama hætti og hjá lögreglu. Kvaðst hann viðurkenna að hafa farið með Y á [...] og að hafa átt þar við hann kynferðisleg samskipti er hafi falist í því að ákærði hafi sogið getnaðarlim Y og að Y hafi sogið lim ákærða. Ákærði neitaði að Y hafi sett getnaðarlim sinn í endaþarm ákærða. Þá kvaðst ákærði ekki hafa getað séð að Y væri ekki andlega heill er þeir hafi átt samskiptin. Hafi hann komið ákærða eðlilega fyrir sjónir, en ákærði hafi í upphafi hitt hann í hópi ungs fólks, er hafi virst á sama aldri og drengurinn.
Hákon B. Sigurjónsson lögreglufulltrúi staðfesti rannsóknargögn sín í málinu. Tók vitnið fram að er lögregla hafi rætt við Y 16. október 2003 hafi þegar vaknað grunsemdir um að drengurinn væri háður andlegum annmörkum. Benti vitnið sérstaklega á orðfæri Y í því sambandi, en af því hafi greinilega mátt ráða þroskaleysi. Vitnið kvað Y í fyrstu hafa verið nokkuð lokaðan varðandi frásögn af atburðum en síðan hafi hann skýrt frá atvikum með þeim hætti er fært hafi verið í frumskýrslu lögreglu.
Guðbjörg Sigurgeirsdóttir læknir á neyðarmóttöku kom fyrir dóminn. Staðfesti vitnið skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun. Vitnið kvað ekki þurfa sérfræðing til að sjá að Y væri greindarskertur. Noti drengurinn einföld orð og fari hægt í hlutina. Hafi hann lýst atvikum fyrir vitninu einfeldningslega og einlæglega. Vitnið Stefán J. Hreiðarsson læknir staðfesti vottorð sitt frá 18. apríl 2004. Lýsti vitnið þeirri skoðun að auðvelt væri fyrir hvern og einn að sjá að Y væri verulega vanþroska. Vitnið Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur staðfesti sitt vottorð frá 9. desember 2004. Kvað vitnið það skoðun þess að eftir stutt samtal við Y ætti hverjum meðaleinstaklingi að vera augljóst, að drengurinn hefði ekki fulla greind. Væri auðvelt að hafa áhrif á hann, þar sem hann væri bæði auðtrúa og leiðitamur.
Niðurstaða:
Ákærði hefur skýlaust játað háttsemi frá 13. október 2003, er beindist að Z. Hefur hann viðurkennt að hafa sært blygðunarkennd drengsins með ósiðlegu og kynferðislegu tali við biðskýli strætisvagna við [...] í Reykjavík. Játning ákærða verður lögð til grundvallar niðurstöðu og háttsemin færð undir 209. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa átt kynferðisleg samneyti við Y í [...] í Reykjavík, að kvöldi miðvikudagsins 15. október 2003. Hefur ákærði viðurkennt að hafa sogið lim Y, auk þess sem Y hafi sogið getnaðarlim ákærða. Ákærði hefur hins vegar synjað fyrir að Y hafi haft við ákærða endaþarmsmök og að hafa notfært sér andlega annmarka Y.
Framburður Y um atvik hefur frá upphafi verið greinargóður og staðfastur um atvik. Lögreglu greindi hann frá atburðum 16. október 2003, eftir að lögregla hafði uppi á ungmenni því er farið hafði með ákærða á gistiheimilið að kvöldi 15. október. Jafnframt greindi hann lækni á neyðarmóttöku, sem og Stefáni J. Hreiðarssyni lækni og Jóni Friðrik Sigurðssyni sálfræðingi, frá atvikum og hefur frásögnin ávallt verið á einn veg. Skýrslugjöf hans fyrir dómi var á sama veg. Í öllum þessum tilvikum kemur fram að ákærði hafi leitað eftir því við Y, að hann hefði við sig endaþarmsmök. Stefán J. Hreiðarsson læknir og Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur hafa í vottorðum fjallað um Y, svo sem áður er rakið. Er það niðurstaða Jóns Friðriks, í ljósi prófa er lögð voru fyrir Y, að treysta megi framburði hans þrátt fyrir takmarkaða greind. Á sama hátt hefur Guðbjörg Sigurgeirsdóttir læknir á neyðarmóttöku lýst því að frásögn Y hafi verið einfeldningsleg en einlæg.
Framburður ákærða hefur verið á reiki. Við fyrstu yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði hann alfarið kynnum af kærandanum Z. Þá þvertók hann fyrir að kannast við farsímanúmerið 661 1503. Fyrst eftir að lögregla bar undir hann tengingar úr því símanúmeri við aðra síma breytti ákærði framburði sínum og játaði afskipti af Z og að hafa verið með umrætt símanúmer í sínum umráðum. Óstöðugur framburður ákærða um þessi atriði veikir trúverðugleika hans.
Að mati dómenda er frásögn Y af atvikum og samskiptum við ákærða afar trúverðug. Hefur hann lýst atburðarás í samræmi við framburð ákærða, m.a. um kynferðisleg samskipti þeirra á milli. Er ekkert fram komið sem gat gefið honum tilefni til að búa til frásögn um þá kynferðislegu athöfn, er ákærði hefur synjað fyrir. Þegar til þessa er litið, staðfasts og einlægs framburðar Y, sem dómendur meta trúverðugan, og þess að ákærði hefur játað tiltekin kynferðisleg samskipti við Y, þykir ekki varhugavert að leggja framburð Y til grundvallar niðurstöðu og telja sannað að ákærði hafi fengið Y greint sinn til að hafa við sig endaþarmsmök, auk munnmaka.
Stefán J. Hreiðarsson og Jón Friðrik Sigurðsson hafa lýst andlegum þroska Y í ítarlegum umfjöllunum. Er það mat þeirra beggja, sem þeir hafa staðfest fyrir dómi, að andlegt ástand Y eigi ekki að hafa getað dulist neinum er hafi átt við hann samtal. Á sama veg er mat Guðbjargar Sigurgeirsdóttur læknis og Hákonar B. Sigurjónssonar lögreglufulltrúa. Dómendur hafa horft á upptöku af viðtali, er fram fór í héraðsdómi 2. desember 2003, er tekin var skýrsla af Y fyrir dómi. Ekki leynist að þroska hans er ábótavant. Í viðtalinu tjáir hann sig óvenjulega hægt og með einföldum hætti. Ytra yfirborð og málþroski gefa þannig glögglega til kynna að Y býr við skertan þroska. Í frumskýrslu lögreglu er skráð að ákærði hafi gengið út úr matsölustaðnum Svarta Svaninum kl. 21.06 að kvöldi 15. október og tekið ungmenni við Hlemmtorg tali. Hafi ákærði rætt við þau til um kl. 22.00 er tvö ungmenni hafi verið eftir hjá honum. Kl. 22.16 hafi Y verið eftir einn hjá ákærða. Samkvæmt því leið ríflega klukkustund frá því ákærði tók ungmennin fyrst tali, þar til hann hélt ásamt Y áleiðis [...]. Tímaskráning lögreglu er nákvæm og verður hún lögð til grundvallar að þessu leyti. Samkvæmt þessu hefur ákærða gefist ríflegt ráðrúm til að ræða við Y, áður en þeir héldu saman áleiðis að [...]. Þegar til þess er litið þykir dóminum hafið yfir skynsamlegan vafa, að ákærða hafi hlotið að vera ljósir andlegir annmarkar Y. Er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi nýtt sér þá til að tæla drenginn með sér í umrætt gistiheimili, undir því yfirskyni að þeir færu að hlusta á tónlist, en eftir að þangað var komið hafi hann tælt Y til kynferðislegra athafna við sig. Við mat í þessu efni er einnig litið til þess að daginn áður hafði ákærði haft í frammi kynferðislega tilburði gagnvart barni af sama kyni. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 196. gr. laga nr. 19/1940.
Samkvæmt sakavottorði er ríkissaksóknari hefur lagt fyrir dóminn hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir brot gegn 209. gr. laga nr. 19/1940 og að hafa notfært sér andlega annmarka ungmennis til að svala kynfýsn sinni. Er síðarnefnda háttsemin mjög alvarleg að mati dómsins og var brotavilji ákærða í því tilviki styrkur og einbeittur. Þá er einnig litið til þess að ákærði kallaði þar til annan fullorðinn einstakling til þátttöku í þeim athöfnum. Samkvæmt því og með vísan til 1. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, sbr. og 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem að engu leyti þykir fært að skilorðsbinda.
B hefur krafist skaðabóta f.h. ólögráða sonar síns Z. Ákærði hefur samþykkt greiðslu á 100.000 krónum, auk vaxta og hefur brotaþoli fallist á bæturnar. Samkvæmt því greiði ákærði skaðabætur að fjárhæð 100.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 14. október 2003 til 3. júlí 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Y hefur krafist greiðslu miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 15. október 2003 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr., frá þeim degi til greiðsludags. Í skaðabótakröfunni segir að ákærði hafi notfært sér andlega annmarka brotaþola til að hafa við hann kynferðismök og að ákærða hafi mátt vera ljóst að brotaþoli hafi, vegna andlegs ástands síns, ekki getað spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Um sé að ræða alvarlegt kynferðisbrot og gróft brot gegn persónu brotaþola. Krafist sé bóta fyrir brot sem komi til með að hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu drengsins í framtíðinni. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Í vottorði Jóns Friðriks Sigurðssonar sálfræðings segir að fram komi hjá kæranda eitt einkenni áfallastreitu, en minningar um atburðinn komi fyrirvaralaust upp í huga kæranda og valdi honum vanlíðan. Vegna vanþroska Y sé erfitt að átta sig á hversu alvarleg áhrifin af verknaðinum séu, en greinilegt sé að minningarnar hafi neikvæð áhrif á hann. Með vísan til þessa er nægjanlega fram komið, að Y hafi orðið fyrir tjóni sem leitt hafi til miska í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993. Á hann rétt á skaðabótum sem þykja hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Verður fjárhæðin bundin vöxtum, svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem og þóknun til réttargæslumanna brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttir héraðsdómslögmanns og Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Jósefsdóttir saksóknari.
Dómurinn er kveðinn upp af Símoni Sigvaldasyni héraðsdómara sem dómsformanni, ásamt meðdómendunum Helga I. Jónssyni dómstjóra og Skúla J. Pálmasyni héraðsdómara.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Sigurður Jónsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði Z, [kt.], 100.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 14. október 2003 til 3. júlí 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði Y, [kt.], 400.000 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 15. október 2003 til 3. júlí 2004, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 140.000 krónur, og þóknun til réttargæslumanna brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttir héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur, og Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, 40.000 krónur.