Hæstiréttur íslands
Mál nr. 556/2012
Lykilorð
- Rán
- Þjófnaður
- Nytjastuldur
- Ítrekun
- Einkaréttarkrafa
|
|
Fimmtudaginn 14. mars 2013. |
|
Nr. 556/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Pawel Jerzy Podburaczynski (Sigmundur Hannesson hrl.) (Heiðar Örn Stefánsson hrl. f.h. brotaþola) |
Rán. þjófnaður. Nytjastuldur. Ítrekun. Einkaréttarkrafa.
P var sakfelldur fyrir rán og nytjastuld með því að hafa í félagi með öðrum ráðist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi á stafsfólk úra- og skartgripaverslunarinnar A og tekið þaðan 49 armbandsúr, auk þess að hafa tekið fjórar bifreiðar í heimildarleysi til þess að nota við ránið. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir þjófnað. Samkvæmt pólsku sakavottorði var P m.a. dæmdur til 7 ára fangelsisrefsingar á árinu 2006 fyrir rán og hylmingu og hafði dómurinn ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar hans, sbr. 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þessa auk 1., 2., 6., 7. og 8. tölul. 1. mgr. 70. gr., 2. mgr. 70. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing P hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár. Þá var honum gert að greiða V hf. bætur, óskipt með samverkamönnum sínum, þar sem V hf. hefði greitt A ehf. hámarksbætur samkvæmt tveimur vátryggingum verslunarinnar hjá V hf. Í héraði var einnig fallist á bótaskyldu P gagnvart tilteknu starfsfólki verslunarinnar og honum gert að greiða Á bætur vegna þjófnaðar, en ákvæði héraðsdóms um þetta kom ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti þar sem P hafði viðurkennt bótaskyldu sína og fallist á kröfu Á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu Vátryggingafélags Íslands hf. verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Vátryggingafélag Íslands hf. krefst staðfestingar héraðsdóms á einkaréttarkröfu sinni og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu hér á landi. Samkvæmt pólsku sakavottorði var ákærði dæmdur árið 1998 í 30 klukkustunda ólaunaða vinnu í almenningsþágu fyrir eignaspjöll og fleiri brot. Þá var hann árið 2001 dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot. Að lokum var ákærði dæmdur á árinu 2006 til 7 ára óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir rán og hylmingu. Ákærði afplánaði þá refsingu á tímabilinu frá 22. apríl 2008 þar til hann hlaut reynslulausn 26. mars 2009, en frá refsingunni var dregið gæsluvarðhald hans frá 4. júlí 2002 til 20. ágúst 2006. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er heimilt að láta refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp erlendis, hafa ítrekunaráhrif eins og þeir hefðu verið kveðnir upp hér á landi. Verður þessu heimildarákvæði beitt um síðastnefndan dóm. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til refsiforsendna hins áfrýjaða dóms og 1., 2., 6., 7. og 8. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, 2. mgr. þeirrar lagagreinar, svo og 255. gr. sömu laga, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald, sem ákærði sætti frá 26. febrúar til 12. mars 2012 og frá 20. apríl til 25. júlí sama ár, en ákærði hafði á síðargreinda tímabilinu sætt tímabundnu framsali frá Sviss til Íslands vegna meðferðar þessa máls og var að loknum áfrýjunarfresti afhentur svissneskum yfirvöldum síðastnefndan dag vegna rannsóknar sakamáls þar í landi.
II
Ákærði reisir kröfu sína um frávísun bótakröfu Vátryggingafélags Íslands hf. á því að ekki séu „á þessu stigi máls“ forsendur til þess að dæma um kröfuna þar sem „raunverulegt tjón vegna ránsins“ liggi ekki fyrir. Félagið greiddi tjónþola, E ehf., hámarksbætur samkvæmt tveimur vátryggingum, sem hinn síðarnefndi hafði keypt hjá því. Leiðir félagið rétt sinn frá tjónþola, sbr. 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Af gögnum málsins verður ráðið með fullnægjandi hætti að þær bætur, sem félagið greiddi tjónþola úr tryggingunum, hafi verið lægri en sem nemur því tjóni er hlaust af ráninu. Að þessu virtu og þar sem uppfyllt eru þau skilyrði, sem upp eru talin í 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um framsetningu bótakröfunnar, eru hvorki efni til að vísa henni frá héraðsdómi né lækkunar hennar að álitum.
Með hinum áfrýjaða dómi var samverkamaður ákærða, X, dæmdur til að greiða Vátryggingafélagi Íslands hf. umkrafða fjárhæð óskipt með ákærða með vöxtum eins og þar greinir. Dóminum var ekki áfrýjað af hálfu samverkamannsins. Þá var annar samverkamaður ákærða, Y, dæmdur 8. mars 2012 með óáfrýjuðum héraðsdómi til að greiða félaginu sömu fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum. Verður ákærði dæmdur til að greiða kröfuna og er greiðsluskylda hans óskipt með fyrrnefndum samverkamönnum. Ákvæði hins áfrýjaða dóms verður því staðfest um einkaréttarkröfu þessa.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, B, D og C eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti með því að ákærði hefur viðurkennt bótaskyldu sína gagnvart fyrrnefndum einstaklingum og samþykkt kröfu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað Vátryggingafélags Íslands hf. samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 er staðfest og þá verður ákærði dæmdur til að greiða félaginu 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Pawel Jerzy Podburaczynski, sæti fangelsi í 7 ár, en til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald hans frá 26. febrúar til 12. mars 2012 og frá 20. apríl til 25. júlí sama ár.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu Vátryggingafélags Íslands hf., auk málskostnaðar vegna hennar, er staðfest og þá greiði ákærði félaginu 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 508.597 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012.
I
Málið, sem dómtekið var 13. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 15. maí 2012 á hendur „X, fæddum [...], pólskum ríkisborgara, [...], og Pawel Jerzy Podburaczynski, fæddum [...], pólskum ríkisborgara, dvalarstaður: fangelsið Litla-Hrauni, fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:
I.
Á hendur ákærðu báðum fyrir rán og nytjastuld í október á árinu 2011, í Reykjavík nema annað sé tekið fram, í félagi og ásamt samverkamönnunum Y, fæddum [...] og Z, fæddum [...], pólskum ríkisborgurum, með því að hafa ráðist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi á starfsfólk úra- og skartgripaverslunarinnar A, [...], Reykjavík, í því skyni að komast yfir verðmæti í versluninni og tekið þaðan 49 armbandsúr af gerðunum Rolex, Tudor og Michelsen, samtals að verðmæti rúmlega kr. 50.000.000, allt eftir fyrirfram gerðri áætlun ákærðu og samverkamanna þeirra, sem hér greinir:
1. Ákærðu og samverkamenn þeirra komu til landsins gagngert í þeim tilgangi að komast yfir úr í versluninni A, ákærðu og Z með flugi um Keflavíkurflugvöll sunnudaginn 9. október, en Y með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 11. október, þaðan sem hann ók bifreiðinni YY[...]-[...] sem leið lá til Reykjavíkur.
2. Aðfaranótt föstudagsins 14. október, við [...], tóku ákærðu og samverkamenn þeirra í sameiningu og í heimildarleysi bifreiðina TK-[...] til að nota við ránið, en hún fannst við Sundlaug Kópavogs í Kópavogi þann 3. nóvember.
3. Aðfaranótt föstudagsins 14. október, við [...], tóku ákærðu og samverkamenn þeirra í sameiningu og heimildarleysi bifreiðina RJ-[...] til að nota við ránið, en ekki kom til þess þar sem bifreiðin fannst síðar sama dag við Hverfisgötu.
4. Sunnudaginn 16. október, við [...] í [...], tóku ákærðu og samverkamenn þeirra í sameiningu og í heimildarleysi bifreiðina UB-[...] til að nota við ránið, en hún fannst við Vegamótastíg þann 17. október.
5. Að kvöldi sunnudagsins 16. október, við [...], tóku ákærðu og samverkamenn þeirra í sameiningu og í heimildarleysi bifreiðina NT-[...] til að nota við ránið, en hún fannst við Smáragötu þann 17. október.
6. Að morgni mánudagsins 17. október ruddust ákærðu og Z, samkvæmt ráðagerð þeirra þriggja og Y, inn í fyrrgreinda úra- og skartgripaverslun með andlit sín hulin og ógnuðu starfsfólkinu B, C og D, með ógnandi framkomu og með því að beina að þeim eftirlíkingum af skotvopnum og skipa þeim að leggjast á gólfið þar sem þeir síðan brutu upp hirslur og höfðu á brott sér fyrrgreind armbandsúr og fóru með að Vegamótastíg þaðan sem þeir óku á brott á fyrrnefndri bifreið, NT-[...], í heimildarleysi að Smáragötu [...], þar sem þeir skildu bifreiðina eftir og héldu för sinni áfram í heimildarleysi á fyrrnefndri bifreið, TK-[...], sem fannst síðar við Sundlaug Kópavogs.
7. Síðar á mánudeginum 17. október földu samverkamennirnir Y og Z, samkvæmt ráðagerð þeirra og ákærðu, ránsfenginn í bifreiðinni YY[...]-[...] sem Y gætti að og hugðist koma þannig földum af landi brott með Norrænu uns hann var handtekinn þann 26. október. Ákærðu og Z fóru af landi brott með flugi frá Keflavíkurflugvelli þriðjudaginn 18. október.
Telst háttsemin varða við 252. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Á hendur ákærða Pawel Jerzy Podburaczynski fyrir þjófnað úr Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í [...], [...], sem hér greinir:
1. Með því að hafa, þann 11. október 2011, tekið tvær flöskur af viskíi af gerðinni Jack Daniel´s, samtals að verðmæti kr. 12.598, sett þær í tösku og gengið út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
2. Með því að hafa, þann 14. október 2011, tekið tvær flöskur af viskíi af gerðinni Jack Daniel´s, samtals að verðmæti kr. 12.598, sett þær í tösku og gengið út úr versluninni án þess að greiða fyrir vörurnar.
Telst háttsemin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Vegna ákæruliðar I:
Af hálfu Vátryggingafélags Íslands hf., kennitala [...], er krafist skaðabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð kr. 14.106.453, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi 17. október 2011 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er gerð krafa um greiðslu lögmannskostnaðar að mati dómsins.
Af hálfu B, kennitala [...], D, kennitala [...], og C, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu greiði þeim miskabætur samkvæmt 4. gr., sbr. 26. gr. laga um skaðabætur nr. 50/1993 með síðari breytingum, þannig:
A) fyrir B kr. 8.850.000,
B) fyrir C kr. 8.450.000 og
C) fyrir D kr. 9.408.000,
auk 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá tjónsdegi 17. október 2011 til útgáfudags ákæru, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi ákærðu að skaðlausu að mati réttarins, lögum samkvæmt.
Vegna ákæruliðar II:
Af hálfu vínbúðar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, [...], kennitala [...], er þess krafist að ákærða Pawel Jerzy Podburaczynski verði gert að greiða skaðabætur að andvirði stolinna muna, samtals kr. 25.196, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi 11. október 2011 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.“
Ákærðu játuðu aðild að ráninu við þingfestingu, en neituðu að hafa skipulagt það og fjármagnað. Þá neituðu þeir að hafa stolið bifreiðum eins og í ákæru greinir. Ákærði Pawel játaði sök samkvæmt II. kafla ákæru. Ákærðu krefjast vægustu refsingar. Þeir krefjast þess aðallega að bótakröfunum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar.
II
Að morgni mánudagsins 17. október 2011 barst lögreglu tilkynning um vopnað rán í úra- og skartgripaverslun A að [...]. Eigandi verslunarinnar skýrði lögreglumönnum frá því að þrír menn vopnaðir skotvopnum, dökkklæddir og með hulin andlit hefðu ruðst inn í verslunina. Þeir hefðu skipað starfsfólkinu að leggjast í gólfið og síðan hefðu þeir brotið sýningarskápa og stolið úrum. Þá taldi eigandinn sig hafa heyrt skothvelli. Hann kvaðst hafa séð á eftir ræningjunum aka á brott á dökkum bíl. Þetta reyndist vera NT-[...] sem hafði verið tilkynnt stolin. Síðar kom í ljós að bifreiðar þær, sem í ákæru getur, höfðu einnig verið teknar ófrjálsri hendi og byggir ákæruvaldið á því að þær hafi verið notaðar við ránið. Ránsfengurinn reyndist vera 49 armbandsúr af þeim gerðum sem í ákæru getur og að verðmæti rúmlega 50 milljónir króna.
Rannsókn lögreglu næstu daga leiddi til handtöku Y og haldlagningar bifreiðar sem hann hafði komið á til landsins. Við rannsóknina beindist grunur að ákærðu og manni þeim, sem í ákæru getur. Ákærðu voru handteknir í Sviss í febrúar síðastliðnum og framseldir hingað til lands og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Framangreindur Y var dæmdur í 5 ára fangelsi 8. mars síðastliðinn.
III
Við aðalmeðferð skýrði ákærði X svo frá að í fyrra hefði Y boðið sér að taka þátt í innbroti í úraverslun á Íslandi. Eftir að hafa hugsað málið kvaðst ákærði hafa samþykkt þátttöku. Y hefði fjármagnað þetta og látið sig og aðra hafa peninga til að borga flugmiða og hótel. Ákærði kvað sig og aðra hafa ekið til Kaupmannahafnar og flogið þaðan til Íslands þar sem þeir biðu eftir Y sem átti að sýna þeim hvað þeir áttu að gera. Hann átti einnig að koma með tæki til að stela bílum. Eftir að Y kom sýndi hann þeim verslunina, en þeir áttu að brjótast inn í hana. Sú áætlun breyttist þegar í ljós kom að úrin, sem átti að stela, voru ekki í versluninni að nóttu til. Ákærði kvað Y hafa sagt þeim að mikill kostnaður væri til fallinn vegna ferðarinnar og þess vegna væri betra að fremja rán en hætta við. Þeir hafi hugsað þetta í tvo til þrjá daga, en ákærði kvaðst aldrei hafa gert svona nokkuð áður. Y hefði sagt þeim að þeir myndu lenda í vanda í Póllandi ef þetta væri ekki gert og þess vegna hafi þeir ákveðið að ræna verslunina. Áður tóku þeir bílana sem í ákæru getur, en ákærði kvaðst ekki hafa komið beint að því þótt hann hafi vitað um nytjastuldi þeirra og til hvers átti að nota bílana.
Ákærði kvað þá þrjá hafa farið grímuklædda inn í verslunina að morgni. Hann hafi farið fyrstur og haldið á plastbyssu. Hann taldi Y hafa látið sig hafa byssuna og hafði henni verið breytt þannig að hún liti út fyrir að vera raunverulegri. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvað gerðist fyrir aftan sig í versluninni, en hann hafi verið hræddur. Hann mundi þó eftir að gefin hefði verið skipun á ensku um að leggjast niður. Ákærði kvaðst hvorki hafa brotið skápa né tekið úrin. Hann hafi séð eigandann sem hafi verið mjög brugðið. Eftir ránið fóru þeir á einum hinna stolnu bíla stuttan spöl, en skiptu þar um bíl og óku að sundlaug þar sem hann og meðákærði fóru í sund. Z tók ránsfenginn og fór með hann til Y. Ákærði kvaðst ekki tekið hafa þátt í því að koma honum fyrir. Y hafi ákveðið að hafa þetta svona.
Ákærði kvað þá upphaflega hafa ætlað að fara fyrr af landinu, en það hafi breyst eftir að ákveðið var að hætta við innbrotið og fremja rán í staðinn. Hann kvað Y hafa sagt að ef allt gengi vel myndu þeir skipta jafnt, en Y hefði skipulagt þetta allt saman og hann átti að sjá um að koma fengnum í verð. Hann hafi sagt að þetta yrði ekki lítil upphæð, en ákærði kvaðst hafa ákveðið að taka þátt í þessu vegna fjárhagserfiðleika.
Ákærði Pawel Jerzy bar að hafa kynnst Y síðastliðið sumar í gegnum bróður hans. Í september hafi Y hitt sig og meðákærða og hafi hann spurt sig hvað hann myndi segja ef honum yrði boðið tækifæri til að þéna peninga. Hann kvaðst hafa spurt um hvað málið snerist og Y svarað að til að vinna sér inn háa fjárhæð í eitt skipti þá væri um eitthvað ólöglegt að ræða. Síðar þegar þeir hittust kvað Y að um væri að ræða innbrot og ákærði gæti þénað á því 20.000 zloty. Hann hafi sagt að það ætti að brjótast inn í skartgripaverslun á Íslandi. Það ætti að brjóta rúðu með steini og taka úr. Y kvaðst myndu fjármagna ferðina en spurði ákærða hvort hann ætti greiðslukort og hefði það verið notað til að panta flug og hótel. Y hefði svo greitt inn á kortið. Þetta hafi líka verið gert til að ekki sæjust tengslin við Y. Af sömu ástæðum hefði hann búið á öðru hóteli en ákærðu og Z. Þegar Y var kominn til landsins hefðu þeir farið með honum og hann hefði sýnt þeim verslunina þar sem þeir áttu að brjótast inn. Síðar kom í ljós að úrin, sem þeir áttu að stela, voru ekki í versluninni að nóttu til. Y hefði þá sagt að það yrði að gera þetta með öðrum hætti, enda væri búið að eyða það miklum peningum í þetta að þeir yrðu að endurgreiða útlagðan kostnað í Póllandi auk þess sem þeim yrði refsað fyrir að hafa ekki gert það sem átti að gera. Ákærði kvaðst hafa orðið hræddur um að eitthvað gæti komið fyrir hann eða fjölskyldu hans ef ekkert yrði úr þessu. Y hafi sagt að eina lausnin væri að fara vopnaðir inn í verslunina að degi til. Ákærði kvað Y hafa útvegað búnað til ránsins, plastbyssur og grímur. Hann hafi sagt að plastbyssurnar myndu engan skaða. Þá kvaðst ákærði ekki hafa athugasemdir við að þeir hefðu tekið bílana, sem nefndir eru í ákærunni, til að nota við ránið en þeir hafi þó bara notað tvo bíla. Ákærði tók fram að það hafi verið Y sem hefði skipulagt þetta allt saman frá upphafi til enda og hafi sér skilist að hann hefði verið í sambandi við einhvern hér á landi. Sjálfur hafi hann ekki komið nálægt fjármögnun og skipulagningu og heldur ekki meðákærði. Sér hafi þó skilist að hlutverk Z hafi verið að stela bílum og fela á góðum stöðum.
Umræddan morgun kvað hann þá þrjá hafa farið inn í verslunina eftir að hafa sett á sig grímur. Meðákærði hafi farið fyrstur en ekki mundi hann hvar hann var í röðinni, en hann hafi verið með plastbyssu. Hann hafi verið með byssuna til að hræða starfsfólkið, en ekki kvaðst hann muna hvort hann hefði haldið henni á lofti. Ákærði kvaðst hafa rifið gler frá útstillingarglugga og tekið úr og látið Z hafa þau, en hann hafi verið með tösku. Þeir hafi síðan hlaupið á brott og sest inn í bíl og ekið nokkrar götur áður en þeir settust inn í annan bíl. Á þeim bíl óku þeir að sundlaug þar sem hann og meðákærði fóru í sund. Þegar þeir komu úr sundinu hefðu þeir hitt hina tvo sem þá voru búnir að koma úrunum fyrir að því er hann taldi. Eftir að hafa farið í verslunarmiðstöð fóru þeir á hótelið og daginn eftir fóru þeir af landi brott með flugi.
Y, sem dæmdur var í fangelsi 8. mars síðastliðinn fyrir aðild sína að ráninu, bar að hafa verið milliliður milli þeirra sem skipulögðu ránið og þeirra sem frömdu það. Hann kvað því ákærðu vel geta hafa litið svo á að hann væri skipuleggjandinn. Y kvaðst hafa hitt mann sem hann hefði kynnst í fangelsi og hefði hann spurt sig hvort hann vildi taka þátt í innbroti í skartgripaverslun á Íslandi. Þetta hafi átt að vera einfalt, bara þurft að brjóta rúðu og taka hluti úr glugganum. Y kvaðst ekki hafa tekið þátt í svona áður og spurði þá maðurinn hvort hann þekkti ekki einhverja sem vildu gera þetta. Hann hefði síðan fengið ákærðu til að koma með til Íslands og gera þetta. Maðurinn hefði fjármagnað ferðina og þegar þeir kæmu til baka yrði kostnaðurinn greiddur og afganginum skipt. Síðan hefðu verið keyptir flugmiðar og miði með ferjunni og þeir farið til Íslands. Hann kvað Z hafa komið að málinu á síðustu stundu því að maðurinn vildi hafa sinn mann með og eins taldi Y að Z ætti að hafa eftirlit með sér. Y kvaðst ekki vilja gefa upp nafn þessa manns en hann væri glæpamaður í heimaborg sinni. Hann kvað líklegt að hann þyrfti að borga fyrir þessa mislukkuðu ferð þegar hann kæmi heim. Eins óttaðist hann um fjölskyldu sína ef hann segði til mannsins.
C, sem vinnur í versluninni, kvaðst allt í einu hafa heyrt háreysti og inn hefðu komið menn sem hefðu hlaupið að hurðinni. Hún kvaðst hafa séð byssu og mann öskra „get down“. B hefði horft á manninn og þá hefði maðurinn öskrað hærra. Hún kvaðst hafa ætlað að fara á bak við en þá hefði B sagt sér að leggjast í gólfið og hefði hún gert það. Stuttu seinna kvaðst hún hafa heyrt byssuhvell og talið að búið væri að skjóta B. Kvaðst hún hafa átt von á að hún og D yrðu næst. Einnig hefði heyrst mikill hávaði þegar verið að brjóta skápana. Síðan hefðu mennirnir hlaupið út og þessu verið lokið.
B kvaðst hafa verið við vinnu sína umræddan morgun skömmu eftir opnun. Hann kvaðst hafa setið við vinnuborð og verið að gera við þegar hann hafi orðið var við skugga koma mjög snöggt inn og þegar hann hafi litið upp hefði hann horft beint inn í byssuhlaup og séð mann sem hefði öskrað „get down, get down“. B kvaðst þá hafa sagt við starfsfólkið að það skyldi gera það sem maðurinn segði og hefðu þau lagst niður. Maðurinn hefði staðið yfir sér með byssuna og síðan kvaðst hann hafa heyrt mikil brothljóð og séð út undan sér fleiri skugga sem voru að athafna sig frammi í versluninni. B kvað þetta hafa staðið yfir í tíma sem hefði virst langur. Þá hefðu mennirnir hlaupið út. Meðan á þessu stóð og þau lágu í gólfinu kvaðst hann hafa heyrt skothvell og þá talið að maðurinn væri að skjóta eitthvert þeirra. Hann kvað tvo mannanna hafa verið grímuklædda en einn hafi verið með klút fyrir andlitinu.
D kvaðst hafa verið að vinna í tölvu á kaffistofu inn af verkstæðinu þennan morgun. Faðir hans hefði setið við vinnuborð sitt við inngang verslunarinnar. C hefði staðið á bak við hann. Hann kvaðst hafa séð hönd teygja sig inn á verkstæðið þar sem faðir hans var og hélt höndin á byssu. Síðan kvaðst hann hafa heyrt orðin „get down“. Faðir hans hefði lagst niður og sagt sér og C að leggjast niður sem þau hefðu gert. Því næst hefðu heyrst brothljóð og læti, en skömmu síðar hefði faðir hans staðið upp og þá var þessu lokið. Þetta hafi tekið mjög skamman tíma og hann kvaðst ekki hafa heyrt skothvell.
IV
Við þingfestingu og síðar við aðalmeðferð játuðu ákærðu aðild sína að ráninu og nytjastuldi bifreiða eins og rakið hefur verið. Þeir neituðu hins vegar að hafa skipulagt og fjármagnað ránið. Af skýrslum ákærðu og Y má ráða að ferðin til Íslands hafi verið skipulögð í Póllandi beinlínis í þeim eina tilgangi að stela úrum úr verslun A. Þegar í ljós kom að ekki var hægt að stela úrunum með því að brjótast inn í verslunina ákváðu ákærðu að ræna hana. Af skýrslum ákærðu og Y verður ekki annað ráðið en það hafi verið sameiginleg hugmynd þeirra, en skipulagningin í Póllandi hafi miðast við innbrot. Liður í undirbúningi ránsins var að taka ófrjálsri hendi bifreiðar þær sem í ákæru getur. Ákærði Pawel hefur játað þjófnaðina sem hann er ákærður fyrir í II. kafla ákæru. Samkvæmt þessu verða ákærðu því sakfelldir fyrir það sem þeim er gefið að sök í ákærunni en brot þeirra eru þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærðu hefur ekki áður verið refsað hér á landi, en samkvæmt upplýsingum frá pólskum yfirvöldum eiga þeir báðir sakaferil þar í landi og verið dæmdir í fangelsisrefsingar fyrir margvísleg hegningarlagabrot. Þegar refsing ákærðu er ákveðin verður að hafa í huga að þeir, í félagi við tvo aðra, stóðu að vel skipulögðu ráni þar sem miklum verðmætum var rænt. Við ránið voru notaðar leikfangaskammbyssur. Starfsfólk verslunarinnar gat þó ekki vitað annað en að um raunveruleg vopn hefði verið að ræða og af skýrslum þeirra má ráða að þau hafa upplifað ránið á þann hátt. Ákærðu eiga sér ekki aðrar málsbætur en að hafa játað sök undanbragðalaust fyrir dómi og að hafa við aðalmeðferð gefið ítarlega skýrslur eins og rakið var. Þykja þeir mega njóta þess að nokkru við ákvörðun refsingar sem telst hæfileg fangelsi í 5 ár.
Ákærðu voru handteknir í Sviss 26. febrúar síðastliðinn og færðir í varðhald sem þeir hafa setið í síðan. Þessi tími skal koma refsingunni til frádráttar með fullri dagatölu að því er varðar ákærða X. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Sviss sat ákærði Pawel í varðhaldi vegna þessa máls frá 26. febrúar til 12. mars, en frá þeim degi til 19. apríl sat hann í varðhaldi vegna rannsóknar á máli ytra. Sækjandinn hefur tekið undir kröfu ákærðu um að varðhaldið í Sviss komi dæmdri refsingu til frádráttar, en krafist þess þó að tíminn sem ákærði Pawel sat í varðhaldi vegna rannsóknar á máli svissneskra yfirvalda geri það ekki. Fallist er á með sækjandanum að ekki sé eðlilegt að varðhaldsvist ákærða vegna annars máls en þessa komi refsingu í þessu máli til frádráttar.
Fyrir dóminn hafa verið lögð gögn sem sanna að úra- og skartgripaverslunin var tryggð hjá bótakrefjanda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Enn fremur hafa verið lögð fram gögn um að bótakrefjandi hafi greitt umkrafða fjárhæð vegna ránsins. Ákærðu eru skaðabótaskyldir vegna tjónsins og verða því dæmdir til að greiða bætur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, svo og málskostnað. Það athugast að ákærðu var fyrst birt bótakrafan við þingfestingu og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi.
Framangreindir starfsmenn verslunarinnar gerðu bótakröfur eins og rakið var. Við flutning bótakröfunnar krafðist lögmaður þeirra þess að í málinu yrði dæmt um bótaskyldu ákærðu og féllst dómarinn á það. Ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir að ræna verslunina þegar brotaþolar voru þar að störfum. Þeir réðust vopnaðir og grímuklæddir inn í verslunina og létu þar greipar sópa. Af skýrslum brotaþola má ráða að þeim varð mjög um þetta og óttuðust um líf sitt. Það er því fallist á með brotaþolum að ákærðu séu bótaskyldir gagnvart þeim. Þá verða þeir dæmdir til að greiða málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Ákærði Pawel hefur samþykkt bótakröfu ÁTVR og verður hún tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Loks verða ákærðu dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 26. febrúar 2012.
Ákærði, Pawel Jerzy Podburaczynski , sæti fangelsi í 5 ár, en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 26. febrúar 2012 til 12. mars sama ár og frá 19. apríl sama ár.
Ákærðu greiði óskipt Vátryggingafélagi Íslands hf. 14.106.453 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. október 2011 til 30. júní 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.
Viðurkennd er bótaskylda ákærðu gagnvart B, C og D. Ákærðu skulu greiða þeim sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað.
Ákærði, Pawel Jerzy Podburaczynski, greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, [...], 25.196 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. október 2011 til 30. júní 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags
Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 677.951 krónu.
Ákærði, Pawel Jerzy Podburaczynski, greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 677.951 krónu.