Hæstiréttur íslands

Mál nr. 87/1999


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Ábyrgð


Fimmtudaginn 14. október 1999.

Nr. 87/1999.

Jón Ingi Baldursson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Jón G. Briem hrl.)

Skuldabréf. Ábyrgð.

J ritaði nafn sitt sem ábyrgðarmaður á skuldabréf. Bréfið var selt bankanum Í. Greiðslufall varð hjá L, aðalskuldara bréfsins, og neyddist J til að leysa það til sín eftir að fjárnám hafði verið gert hjá honum vegna kröfunnar. J stefndi Í til endurgreiðslu bréfsins eftir að hafa fengið það í hendur, meðal annars á þeirri fosendu að sjálfskuldarábyrgð hans hefði ekki verið gild þar sem hún var ekki rituð á bréfið sjálft, heldur á málningu sem sett hafði verið á skuldabréfið, yfir nafn sem áður hafði verið ritað á það. Þá taldi J að Í hefði með ólögmætum hætti notfært sér ranghugmyndir hans um gjaldfærni L og annarra ábyrgðarmanna bréfsins.

Talið var að þar sem J hefði sjálfur ritað nafn  sitt á bréfið með fyrrgreindum hætti gæti hann ekki borið það fyrir sig að nafnritunin væri ógild. Þá var talið að Í hefði stöðu grandlauss framsalshafa og væri því ekki unnt að bera atvik við útgáfu bréfsins fyrir sig gagnvart honum. Aðrar málsástæður J þóttu einnig haldlausar. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í staðfest með vísan til forsendna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 1998. Málið var fellt niður 16. febrúar 1999, en hann áfrýjaði á ný 2. mars sama árs. Hann krefst þess að ábyrgðaryfirlýsing hans á skuldabréfi úgefnu í júlí 1989 af Lögmanns- og fasteignastofu Reykjavíkur hf. til Inger Steinsson, að nafnvirði 1.400.000 krónur, verði ógilt með dómi og að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.885.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 26. febrúar 1992 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, þingfestri 27. janúar 1998.

Stefnandi er Jón Ingi Baldursson, kt. 130643-3619, Brautarási 1, Reykjavík.

Stefndi er Íslandsbanki hf., kt. 421289-5069, Kirkjusandi, Reykjavík.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1. Að ábyrgðaryfirlýsing hans á skuldabréfi, útgefnu í júlí 1989 af Lögmanns- og fast­eignastofu Reykjavíkur til Inger Steinsson, til tveggja ára, að nafnvirði 1.400.000 krónur, til greiðslu með 4 afborgunum, á 6 mánaða fresti, fyrst þann 12. janúar 1990, verði ógilt með dómi.

2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.885.000 krónur, ásamt drátt­ar­vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 26. febrúar 1992 til greiðsludags.

3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins, auk álags, er nemur virðisaukaskatti af mál­flutningsþóknun.

Af hálfu stefnda var í upphafi aðallega krafist frávísunar málsins, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 28. apríl síðastliðinn.

I.

Málavextir.

Í júlímánuði árið 1989 ritaði stefnandi sem sjálfskuldarábyrgðarmaður á skulda­bréf, útgefið í sama mánuði af Lögmanns- og fasteignastofu Reykjavíkur hf. til Inger Steins­son, kt. 080448-7919, Esjugrund 29, Kjalarnesi. Skuldabréfið var að fjárhæð 1.400.000 krónur og skyldi greiðast á tveimur árum með fjórum afborgunum, í fyrsta sinn 12. janúar 1990. Ritaði stefnandi nafn sitt á bréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmaður að beiðni Ólafs Arnar Péturssonar, kt. 070748-2239, er þá var einn eigenda útgefanda bréfs­ins. Á skuldabréfið rituðu einnig nöfn sín sem sjálfskuldarábyrgðarmenn foreldrar Ólafs Arnar, Alda Jensdóttir og Pétur Andrésson, og þá er ofangreind Inger Steinsson eigin­kona Ólafs Arnar. Málað hafði verið ofan í þann reit, sem stefnandi ritaði á bréfið. Eftir að málningin hafði flagnað að miklu leyti af, kom í ljós nafnið Friðgerður Friðriks­dóttir, sem á þeim tíma var starfsmaður áðurnefnds hlutafélags. Þann 19. júlí 1989 fram­seldi Inger Steinsson bréfið til Verslunarbanka Íslands hf., en stefndi yfirtók öll rétt­indi og skyldur þess lögaðila á árinu 1990.

Skuldabréfið fór í vanskil og með áskorunarstefnu á hendur útgefanda og sjálfskuldarábyrgðarmönnum, útgefinni 22. júní 1990, var því stefnt til greiðslu af hálfu stefnda í máli þessu, sem þá hafði yfirtekið réttindi og skyldur Versl­unarbanka Íslands hf. Ekki var mætt af hálfu þessara stefndu við þingfestingu málsins og var stefnan árituð um að­far­arhæfi 30. október sama ár. Í árslok 1991 var gert fjárnám í fasteign stefnda. Fór svo, að stefndi leysti bréfið til sín 26. febrúar 1992 með greiðslu að fjárhæð 2.485.000 krónur og fékk kröfur samkvæmt því framseldar til sín næsta dag. Hins vegar fékk stefn­andi ekki bréfið í hendur, fyrr en í febrúar 1997.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Helstu málsástæður stefnanda eru þessar:

A. Að ekki hafi verið um gilda sjálfskuldarábyrgð að ræða, þar sem stefnandi hafi ekki áritað skuldabréfið sjálft, heldur málningu, sem sett hafði verið á skuldabréfið yfir nafn til­greindrar konu, er tekið hafi sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þeirrar fjárhæðar, sem skulda­bréfið ber með sér, en þetta hafi ekki komið í ljós, fyrr en löngu síðar.

B. Að starfsmenn stefnda hafi, miðað við þekkingu þeirra og reynslu af við­skipta­bréf­um, auðveldlega mátt sjá ofangreinda annmarka bréfsins með athugun á því sjálfu, þ.e. að áritun konunnar hafði verið máð af bréfinu með málningu og áritun stefnanda sett á máln­inguna. Þá hafi það verið forsenda fyrir sjálfskuldarábyrgð stefnanda, að fjórði aðil­inn, tengdafaðir Ólafs Arnar, Björn Thors, ábyrgðist skuldina.

C. Að Verslunarbanki Íslands hf. hafi haft fulla vitneskju um bágan fjárhag útgefanda bréfs­ins, Lögmanns- og fasteignastofu Reykjavíkur hf., í júlí 1989 og einnig, að sam­ábyrgð­armenn stefnanda, Pétur Andrésson og Alda Jensdóttir, voru ekki eignafólk. Hafi stefnandi ekki verið upplýstur um þetta og því ljóst, að lánveitandinn, Versl­un­ar­banki Íslands hf., hafi hagnýtt sér villu stefnanda um, að Lögmanns- og fasteignastofa Reykja­víkur hf. stæði vel fjárhagslega og að samábyrgðarmenn stefnanda væru eigna­fólk.

D. Að óheiðarlegt hafi verið af Verslunarbanka Íslands hf. í fyrsta lagi að lána út á skulda­bréfið, þar sem útgefandi þess hafi í fyrsta lagi ekki verið lánshæfur og í öðru lagi, að ljóst hafi verið, miðað við fjárhagslega getu annarra ábyrgðaraðila bréfsins, að greiðsla skuldabréfsins myndi lenda á stefnanda. Þá byggir stefnandi jafnframt á, að óheið­arlegt hafi verið af stefnda að bera fyrir sig skuldabréfið með hliðsjón af ofan­greindum atvikum öllum. Ennfremur, að það hafi bæði verið óheiðarlegt og ósanngjarnt af stefnda að vilja ekki framselja stefnanda skuldabréfið og dóminn strax og stefnandi hafði innleyst bréfið í febrúar 1992, en öðruvísi hafi stefnandi ekki geta gætt réttar síns meðlögformlegum hætti

E. Að stefnandi hafi af þeim ástæðum, sem raktar eru undir d. lið, orðið fyrir tjóni, sem nemi stefnufjárhæð málsins, og beri stefndi sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða.

F. Að stefnandi hafi ekki fengið skuldabréfið í raun innleyst, fyrr en það var afhent, en þá hafi grunsemdir hans um óheiðarleika stefnda og útgefanda þess fyrst vaknað.

Stefnandi styður dómkröfur sínar við reglur kröfuréttarins um fölsuð viðskiptabréf. Óheimilt sé að breyta efni skuldabréfs/viðskiptabréfs með því að mála yfir hluta af efni þess. Þá styður stefnandi dómkröfur sínar einnig við reglur kröfuréttarins um ábyrgð­ar­lof­orð, upplýsingaskyldu kröfuhafa til ábyrgðarmanns og forsendur ábyrgðarmanns. Þá vísar stefnandi til reglna um réttarstöðu ábyrgðarmanns, þegar kröfuhafi er banka­stofnun, en stefnandi sé neytandi í skilningi laga nr. 14/1995. Ennfremur vísar stefnandi til 2. ml. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 og grunnraka 7. gr. sömu laga. Að lokum byggir stefnandi málsókn sína á ákvæðum samningalaga, svo sem 33. og 36. gr. Varð­andi fjárkröfu sína vísar stefnandi sjálfstætt til sakarreglunnar og reglna skaða­bóta­rétt­ar­ins um vinnuveitendaábyrgð.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt, að um fullgilda kröfuréttarlega ábyrgð stefnanda hafi verið að ræða með áritun hans sem sjálfskuldarábyrgðarmanns á umrætt skuldabréf. Bréfið hafi ekki verið gefið út til stefnda, heldur til þriðja aðila, sem síðan hafi framselt það til stefnda. Um sé að ræða viðskiptabréf, og eigi því viðskiptabréfareglur við í máli þessu, þar á meðal reglur um traustfang. Njóti stefndi því stöðu grandlauss framsalshafa gagn­vart stefnanda á grundvelli þeirra reglna.

Í öðru lagi byggir stefndi á því, að fram komi í stefnu, að stefnanda hafi verið ljóst, er hann ritað á bréfið, hvers konar skuldbindingu hann hafi tekist á hendur með undir­ritun sinni, þ.e. sjálfskuldarábyrgð á greiðslu kröfu samkvæmt bréfinu.

Þá byggir stefndi jafnframt á því, að þegar stefnandi undirritaði bréfið á árinu 1989, hafi það borið, eins og fram komi í stefnu, alla þá annmarka, sem stefnandi telji nú, að varði ógildi ábyrgðaryfirlýsingar hans. Stefnandi viðurkenni að hafa ritað nafn sitt eigin hendi á bréfið yfir þá málningu, sem huldi nafn Friðgerðar Friðriksdóttur. Hafi stefnandi því ekki orðið fyrir tjóni, sem stefndi beri ábyrgð á, og sé því öllum full­yrð­ingum stefnanda um saknæma háttsemi stefnda harðlega mótmælt. Þá sé og mótmælt öllum málsástæðum stefnanda varðandi fölsun á efni bréfsins og gildi sjálf­skuld­ar­ábyrgð­aryfirlýsingar hans sem röngum, órökstuddum og ósönnuðum. Ennfremur mót­mælir stefndi málsástæðum stefnanda varðandi það, að það hafi verið forsenda hans fyrir sjálfskuldarábyrgð, að fjórði maðurinn tækist einnig á hendur þá ábyrgð á greiðslu bréfs­ins, og að réttarreglur um innbyrðis réttasamband ábyrgðaraðila á viðskiptabréfi leiði til þess, að um ógilt ábyrgðarloforð hafi verið að ræða. Þessar málsástæður eigi ekki við, þar sem stefndi hafi stöðu grandlauss framsalshafa í máli þessu.Jafnframt er mótmælt sem rangri, órökstuddri og ósannaðri þeirri þeirri málsástæðu stefnanda, að óheið­arlegt hafi verið fyrir stefnda að bera fyrir sig umrætt skuldabréf.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um, að stefnda hafi verið skylt að fram­selja stefnanda hið umdeilda skuldabréf, þegar hann greiddi kröfuna í febrúar 1992, svo að stefnandi hefði tök á að gæta réttar síns og höfða endurkröfumál á hendur aðal­skuld­ara og meðábyrgðarmönnum sínum, eða að stefnda hafi verið skylt að framselja stefn­anda dóminn. Stefnanda hafi verið afhentar kvittanir og fullnægjandi gögn, til þess að sanna rétt sinn til endurkröfu, er hann hafði gert upp kröfur samkvæmt skuldabréfinu. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á, að hann hafi orðið fyrir neinu tjóni, sem stefndi beri ábyrgð á. Að lokum mótmælir stefndi sérstaklega tilvísun stefnanda til laga nr. 14/1995 um neytendalán, en þau hafi ekki tekið gildi, er umrædd lögskipti áttu sér stað. Þá sé til­vísun stefnanda til 2. ml. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 óskiljanleg.

IV.

Niðurstaða.

Svo sem áður greinir, var skuldabréf það, sem mál þetta tekur til, gefið út af Lög­manns- og fasteignastofu Reykjavíkur hf. í júlí árið 1989. Kröfuhafi samkvæmt bréfinu var Inger Steinsson, eiginkona eins eigenda útgefanda, Ólafs Arnar Péturssonar, en sjálf­skuldarábyrgðarmenn, auk stefnanda, voru foreldrar Ólafs Arnar, Alda Jensdóttir og Pétur Andrésson. Er upplýst í málinu, að Ólafur Örn aflaði sjálf­skuld­ar­ábyrgð­ar­manna á bréfið og að stefnandi gerðist einn þeirra vegna vinskapar síns við hinn fyrr­nefnda. Bréfið var síðan framselt til Verslunarbanka Íslands hf. af eiganda þess. Verður ráðið af vætti Grétars Bergmanns og Ólafs Arnar, sem voru eigendur umrædds hluta­félags, að andvirði bréfsins hafi runnið til Grétars, að meginstofni til sem greiðsla fyrir hlut hans í félaginu.

Af þeim gögnum, sem fyrir dóminn hafa verið lögð, er ósannað af hálfu stefnanda, að Verslunarbanki Íslands hf. vitað eða mátt vita, er hann keypti umrætt skuldabréf, að út­gefandi bréfsins og sjálfskuldarábyrgðarmenn, aðrir en stefnandi, væru ekki færir um að standa í skilum með afborganir af því. Verður því ekki við annað miðað, en að bank­inn hafi verið í stöðu grandlauss framsalshafa, er hann keypti umrætt viðskiptabréf greint sinn af Inger Steinsson. Samkvæmt því er ósannað af hálfu stefnanda, að atvikum máls þessa sé þannig háttað, að ógildingarreglur 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 11/1986, geti hér átt við. Þá eiga lög nr. 14/1995 um breytingu á lögum nr. 7/1936, heldur ekki við um viðskipti þessi, bæði vegna þess, að þau tóku ekki gildi, fyrr en tæp­lega 6 árum eftir umræddan löggerning og af þeirri ástæðu, að viðsemjandi bankans greint sinn var ekki stefnandi málsins, heldur fyrrnefndur eigandi skuldabréfsins.

Er stefnandi ritaði eigin hendi á skuldabréfið sem sjálfskuldarábyrgðarmaður gat honum ekki dulist, að málað hafði verið yfir reit þann á bréfinu, þar sem hann ritaði nafn sitt og þar með, að hann ritaði nafn sitt ofan á þá málningu. Eftir að svo hafði verið gert, var efni bréfsins að engu leyti breytt. Verður því ekki fallist á það með stefnanda, að bréfið hafi verið falsað. Við þetta er því við að bæta, að stefnandi gerði enga at­huga­semd við ábyrgðarskuldbindingu sína, er áðurnefnt áskorunarmál var höfðað á hendur honum og öðrum skuldurum bréfsins á árinu 1990 og heldur ekki, er hann gerði skuld­ina upp við stefnda árið 1992. Samkvæmt því mátti stefnanda vera fyllilega ljós sú ábyrgð hann tókst á hendur með nafnritun sinni á bréfið. Þá er sú málsástæða stefnanda, að það hafi verið forsenda fyrir sjálfskuldarábyrgð hans, að fjórði maður kæmi þar einnig til, stefnda óviðkomandi.

Af hálfu stefnanda var á árinu 1992 reynt að innheimta skuld þá, er hann leysti til sín greint sinn, hjá Lögmanns- og fasteignastofu Reykjavíkur hf., en án árangurs. Var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði, uppkveðnum 12. október 1992 og skiptum lokið 5. apríl á næsta ári, án þess að eignir fyndust í því. Þá liggur fyrir í málinu, að bú Öldu Jensdóttur var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 15. febrúar 1991. Var skiptum lokið í búinu 21. ágúst sama ár og reyndist það eignalaust. Sam­kvæmt gögnum málsins voru einnig gerðar árangurslausar tilraunir af hálfu stefnanda til að innheimta skuldina hjá Pétri Andréssyni fyrri hluta ársins 1992. Var bú hans tekið til gjald­þrotaskipta með úrskurði 7. mars 1995. Urðu skiptalok 18. september 1997 á sama veg og í áðurnefndum búum.

Af því, sem hér hefur verið rakið, verður að telja fullljóst, að meðskuldarar stefnanda á skulda­bréfinu hafi ekki verið borgunarmenn fyrir skuldinni á þeim tíma, sem hann leysti hana til sín, og upp frá því, en þar að auki hefur stefnandi ekki sýnt fram á eða gert sennilegt, að honum hafi verið ófært að höfða endurkröfumál á hendur þeim á grund­velli þeirra gagna, sem hann fékk afhent af hálfu stefnda við uppgjör skuldarinnar.

Eigi verður séð af málatilbúnaði stefnanda, að tilvísun hans til ákvæða fyrn­ingarlaga nr. 14/1905 sé studd neinum lagarökum.

Með vísan til framanskráðs ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að málskostnaður milli aðila falli niður.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóns Inga Baldurs­sonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.