Hæstiréttur íslands
Mál nr. 393/1998
Lykilorð
- Ærumeiðingar
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 12. maí 1999. |
|
Nr. 393/1998. |
Sigurður Sigurjónsson og (Othar Örn Petersen hrl.) Austur-Eyjafjallahreppur (Magnús Guðlaugsson hrl.) gegn Vigfúsi Andréssyni (sjálfur) og Vigfús Andrésson gegn Sigurði Sigurjónssyni Guðrúnu Ingu Sveinsdóttur Ástrúnu Svölu Óskarsdóttur og (Othar Örn Petersen hrl.) Austur-Eyjafjallahreppi |
Ærumeiðingar. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Gjafsókn.
Kennarinn V sótti um stöðu við grunnskóla í hreppnum A og áttu S, G og Á þá sæti í skólanefnd hreppsins. Nefndin mælti einróma með því að staðan yrði veitt öðrum umsækjanda sem hafði ekki kennsluréttindi og heimilaði menntamálaráðherra ráðningu hennar. Höfðaði V mál á hendur íslenska ríkinu vegna stöðuveitingarinnar og voru honum dæmdar bætur. Í kjölfarið höfðaði V þetta mál á hendur A, S, G og Á og gerði kröfu um refsingar, bætur og ómerkingu ummæla S sem fram komu við meðferð fyrra dómsmálsins, svo og ummæla í bréfi S fyrir hönd skólanefndarinnar. Í héraðsdómi var refsikröfu og einum lið kröfu um ómerkingu ummæla vísað frá og þar sem V kærði ekki frávísunina til Hæstaréttar var ekki unnt að endurskoða niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti. G og Á voru sýknaðar af kröfum V, þar sem ekki var talin lagastoð fyrir kröfum á hendur þeim, en ummæli þau sem krafist var ómerkingar á voru ekki eftir þeim höfð. Ekki voru talin efni til að ómerkja tilgreind ummæli S og voru S og A sýknaðir af kröfum V.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi Austur-Eyjafjallahreppur skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 1998 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi Sigurður Sigurjónsson skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 24. september 1998 að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hans hendi varð ekki af þingfestingu málsins fyrir Hæstarétti og áfrýjaði hann á ný 20. nóvember 1998 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar á báðum dómstigum án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 7. janúar 1999. Hann krefst þess aðallega „að dómi héraðsdóms verði hrundið og viðurkenndar verði kröfur hans“, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnstefndu Guðrún Inga Sveinsdóttir og Ástrún Svala Óskarsdóttir krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjanda að öðru leyti en því að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um að vísa frá dómi hluta af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefjast gagnstefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málið á rætur að rekja til þess að gagnáfrýjandi, sem er kennari að mennt, sótti á árinu 1992 um kennarastöðu við grunnskólann að Skógum í Austur-Eyjafjallahreppi. Aðaláfrýjandinn Sigurður Sigurjónsson og gagnstefndu Guðrún Inga Sveinsdóttir og Ástrún Svala Óskarsdóttir sátu þá í skólanefnd hreppsins. Hún mælti einróma með því að staðan yrði veitt öðrum umsækjanda, sem hafði þó ekki réttindi til kennslu við grunnskóla. Vegna þessarar afstöðu nefndarinnar og þar sem hvorki skólastjóri né fræðslustjóri mæltu með að gagnáfrýjandi fengi stöðuna var leitað til undanþágunefndar grunnskólakennara um heimild til að ráða þennan umsækjanda, sbr. 3. mgr. 13. gr. þágildandi laga nr. 48/1986 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Ágreiningur mun hafa orðið um niðurstöðu innan undanþágunefndarinnar og menntamálaráðherra því tekið ákvörðun um að heimila ráðningu umsækjandans.
Í kjölfar þess að fyrrnefndur umsækjandi, sem var kona, var ráðin í kennarastöðuna mun gagnáfrýjandi hafa lagt erindi fyrir kærunefnd jafnréttismála, þar sem hann taldi að með ráðningunni hefði verið brotinn á sér réttur samkvæmt ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Mun kærunefndin hafa í áliti 28. júní 1993 fallist á sjónarmið gagnáfrýjanda og beint því til skólanefndar Austur-Eyjafjallahrepps og skólastjóra grunnskólans að Skógum að finna lausn á málinu, sem gagnáfrýjandi gæti unað við.
Gagnáfrýjandi höfðaði mál gegn íslenska ríkinu 3. október 1995, þar sem hann krafðist þess að viðurkennt yrði að ráðning áðurnefnds umsækjanda í kennarastöðuna hefði verið ólögmæt, svo og að sér yrðu dæmdar bætur auk vaxta og málskostnaðar. Í dómi Hæstaréttar í því máli, sem er birtur í dómasafni 1997 bls. 1544, var talið nægilega fram komið að kynferði gagnáfrýjanda hefði ekki ráðið því að umsókn hans um kennarastöðuna var hafnað. Hins vegar var vísað til þess að fram hefði komið að aðaláfrýjandinn Sigurður Sigurjónsson hefði tjáð Sigurði Helgasyni, starfsmanni menntamálaráðuneytisins, þegar fjallað var þar um undanþágu til að mega ráða í kennarastöðuna umsækjanda án kennsluréttinda, að grunur hefði beinst að gagnáfrýjanda um siðferðilega ámælisverða háttsemi, sem væri til opinberrar rannsóknar. Starfsmaður ráðuneytisins hefði ekki kannað þetta frekar og ráðherra tekið afstöðu til málsins á grundvelli þessarar frásagnar aðaláfrýjandans. Þótti ekki annað verða ráðið en að sögusagnir um þetta atvik hefðu orðið ákvörðunarástæða fyrir að heimilað var að ráða umsækjanda án kennsluréttinda í starfið. Starfsmenn menntamálaráðuneytisins hefðu vanrækt að rannsaka frekar hvernig máli vegna atviksins hefði verið háttað og gefa gagnáfrýjanda kost á að tjá sig um það. Með þessu hefði verið brotið gegn rétti gagnáfrýjanda, en aðrar ávirðingar, sem bornar hefðu verið á hann í tengslum við umsókn um kennarastöðuna, þóttu ekki vera á rökum reistar. Var íslenska ríkinu þannig gert að greiða gagnáfrýjanda bætur, en hann þótti hins vegar ekki hafa lengur hagsmuni af því að fá dóm um ólögmæti ráðningar í stöðuna.
Eins og nánar greinir hér á eftir gerir gagnáfrýjandi kröfur í málinu um ómerkingu ummæla aðaláfrýjandans Sigurðar, sem ýmist féllu við skýrslugjöf fyrir dómi í máli gagnáfrýjanda á hendur íslenska ríkinu eða vikið var þar að, svo og í bréfi Sigurðar fyrir hönd skólanefndar 14. mars 1995. Auk þess krefst gagnáfrýjandi refsingar, bóta og málskostnaðar.
II.
Í héraðsdómsstefnu gerði gagnáfrýjandi í fyrsta lagi þá kröfu að ummæli aðaláfrýjandans Sigurðar Sigurjónssonar, sem hafi valdið því að gagnáfrýjandi „fékk ekki starf við Grunnskólann í Skógum ..., verði dæmd dauð og ómerk. Samkvæmt framburði Sigurðar Helgasonar, menntamálaráðuneyti, í Hd.máli nr. E-5580/1995, Hd.Rvíkur: Það var talað um grun um refsivert athæfi og ung stúlka eða unglingur nefnd í því sambandi.“ Í öðru lagi að ómerkt verði ummæli aðaláfrýjandans Sigurðar við skýrslugjöf í sama máli, en gagnáfrýjandi kveður þau hafa verið svofelld: „Lögmaður stefnanda spyr Sigurð: Þú sagðist hafa heyrt að hann hafi gerst sekur um kynferðislegt brot eða hvað? Svar Sigurðar: Ég sagðist hafa heyrt það já.“ Í þriðja lagi að ómerkt verði svofelld ummæli aðaláfrýjandans Sigurðar við sama tækifæri: „Ríkislögmaður spyr Sigurð: Getur vitnið þá skýrt fyrir dóminum hvað það var sem vitnið telur að hafi ráðið afstöðu skólanefndar? Svar Sigurðar: Nú, það réði afstöðu að hann var bendlaður við mál, kynferðismisnotkun á ungri stelpu.“ Í fjórða lagi að ómerkt verði „ummæli eftir Sigurði höfð dags. 7.12.1992“, svohljóðandi: „Hann sé sakaður um alls kyns afglöp og eigi í illdeilum við flesta sveitunga sína.“ Í fimmta lagi að ómerkt verði ummæli „sem látin eru falla á niðrandi hátt“ um gagnáfrýjanda í bréfi 14. mars 1995, undirrituðu af aðaláfrýjandanum Sigurði fyrir hönd fyrrverandi skólanefndar grunnskólans í Skógum, en í þeirri nefnd hafi jafnframt átt sæti gagnstefndu Guðrún Inga Sveinsdóttir og Ástrún Svala Óskarsdóttir. Í sjötta lagi að aðaláfrýjendur og gagnstefndu verði hvert um sig eða sameiginlega dæmd til þyngstu refsingar og til að sæta ómerkingu fyrrnefndra ummæla. Loks í sjöunda lagi að hin sömu verði hvert um sig eða sameiginlega dæmd til að greiða gagnáfrýjanda miskabætur að fjárhæð 10.000.000 krónur ásamt vöxtum frá 16. desember 1997 til greiðsludags.
Skýra verður málatilbúnað gagnáfrýjanda svo að þetta séu þær kröfur, sem hann gerir fyrir Hæstarétti, auk áðurgreindrar kröfu um málskostnað á báðum dómstigum.
III.
Með hinum áfrýjaða dómi var vísað frá fimmta liðnum í kröfum gagnáfrýjanda, sem greinir hér að framan, svo og þeim sjötta að því er refsikröfu varðar. Gagnáfrýjandi kærði ekki til Hæstaréttar ákvæði héraðsdóms um frávísun þessara kröfuliða. Getur niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þessi atriði því ekki komið til endurskoðunar nú og verður hún látin standa óröskuð.
Samkvæmt málflutningi gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti beinir hann fjórum fyrstu liðunum í kröfum sínum að gagnstefndu Guðrúnu Ingu Sveinsdóttur og Ástrúnu Svölu Óskarsdóttur, þótt ummælin, sem þar um ræðir, séu ekki eftir þeim höfð. Skýringar gagnáfrýjanda á þessu hafa ekki verið reifaðar með fullnægjandi hætti. Eins og málið liggur fyrir verður ekki fundin lagastoð fyrir slíkum kröfum á hendur gagnstefndu. Krafa gagnáfrýjanda um bætur hefur ekki verið rökstudd á viðhlítandi hátt með tilliti til annars en þess að hún eigi rætur að rekja til ummælanna, sem hann krefst að ómerkt verði. Af framansögðu leiðir að gagnáfrýjandi getur heldur ekki beint kröfu á þeim grunni að gagnstefndu. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 verða gagnstefndu sýknaðar af kröfum gagnáfrýjanda. Rétt þykir að málskostnaður á milli gagnáfrýjanda og gagnstefndu falli niður á báðum dómstigum.
IV.
Í meiðyrðamáli, sem er rekið á grundvelli ákvæða XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður eftir atvikum að gera kröfu um ómerkingu tiltekinna ummæla og refsingu fyrir tilgreind orð, eins og fram kemur í d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Eins og áður greinir hefur gagnáfrýjandi í fjórum fyrstu liðum dómkrafna sinna tilgreint ákveðin ummæli, sem hann krefst ómerkingar á og refsingar fyrir, og er þess þar getið í meginatriðum hvar og hvenær þau voru höfð uppi. Úrlausn um þessar kröfur getur ekki snúið að öðru en þeim orðum einum og sér, sem tilfærð eru. Koma því ekki til álita í málinu ummæli, sem kunna að hafa fallið á öðrum stað og við önnur tækifæri en gagnáfrýjandi vísar til í dómkröfum sínum, þótt þau geti hafa varðað sömu atvik og málið er sprottið af.
Í fyrsta kröfulið krefst gagnáfrýjandi þess að ómerkt verði ummæli, sem aðaláfrýjandinn Sigurður Sigurjónsson hafi látið falla og orðið hafi til þess að gagnáfrýjandi fékk ekki umrædda kennarastöðu við grunnskólann að Skógum. Þessi ummæli tiltekur gagnáfrýjandi með þeim hætti að taka upp hluta framburðar Sigurðar Helgasonar í vitnaskýrslu, sem var gefin í áðurnefndu máli gagnáfrýjanda á hendur íslenska ríkinu. Þar sagði vitnið meðal annars eftirfarandi, aðspurt um hvað legið hafi að baki ákvörðun menntamálaráðherra í tengslum við veitingu stöðunnar: „Það var talað um grun um refsivert athæfi og ung stúlka, eða unglingur nefnd í því sambandi.“ Síðar í skýrslunni bar vitnið að aðaláfrýjandinn Sigurður hafi verið heimildarmaður sinn um þessar ávirðingar, sem beindust að gagnáfrýjanda. Í málinu liggur fyrir að opinber rannsókn fór á sínum tíma fram vegna ætlaðs brots, sem var talið hugsanlega hafa beinst að unglingsstúlku, svo og að skýrslur hafi af því tilefni meðal annars verið teknar af gagnáfrýjanda, sem hafi þá notið réttarstöðu grunaðs manns. Ríkissaksóknari lýsti yfir ákvörðun í bréfi 31. ágúst 1992 um að gögn málsins gæfu ekki tilefni til frekari aðgerða. Í fyrrnefndri vitnaskýrslu Sigurðar Helgasonar kom fram að menntamálaráðherra hafi tekið ákvörðun sína, sem um ræðir í málinu, 13. ágúst 1992. Verður ekki annað ályktað af því en að ætlað samtal vitnisins við aðaláfrýjandann Sigurð hljóti að hafa átt sér stað fyrir þann tíma. Skýrsla vitnisins um ummæli aðaláfrýjandans er ekki nákvæm. Er þannig ekki unnt að ráða með vissu að aðaláfrýjandinn hafi greint vitninu frá öðru en því, sem virðist hafa verið á vitorði margra og var í samræmi við staðreyndir, eins og atvikum var þá háttað. Þótt annað hafi síðar komið í ljós og gerðir annarra, sem virðast hafa ráðist af þessum ummælum, hafi af öðrum orsökum talist brjóta gegn rétti gagnáfrýjanda, nægir það ekki til að ómerkja þau.
Annar kröfuliður gagnáfrýjanda snýr að svari, sem aðaláfrýjandinn Sigurður gaf í vitnaskýrslu fyrir dómi við spurningu lögmanns þess fyrrnefnda, en spurningin og svarið hljóðuðu svo: „Þú sagðist hafa heyrt að hann hefði gerst sekur um kynferðislegt brot eða hvað? - Ég sagðist hafa heyrt það já.“ Eins og gagnáfrýjandi hefur lagt málið fyrir beinist þessi kröfuliður hans ekki að ummælum, sem aðaláfrýjandinn hafi látið falla við aðra um sök gagnáfrýjanda um kynferðisbrot, heldur að tilvitnuðum orðum aðaláfrýjandans, þar sem hann staðfesti fyrir dómi að hann hafi heyrt aðra ræða um slíka sök gagnáfrýjanda. Þessi tilfærðu orð geta ekki sætt ómerkingu.
Þriðji kröfuliður gagnáfrýjanda varðar svofellda spurningu ríkislögmanns og svar aðaláfrýjandans Sigurðar við sömu skýrslugjöf: „Getur vitnið þá skýrt fyrir dóminum hvað það var sem vitnið telur að hafi ráðið afstöðu skólanefndar? - Nú það réði afstöðu að hann var bendlaður við mál, kynferðismisnotkun á ungri stelpu sem var í umræðunni og það réði alla vega afstöðu minni.“ Með þessu svari greindi aðaláfrýjandinn ekki frá öðru en því, sem réði afstöðu hans til umsóknar gagnáfrýjanda um kennarastöðuna við grunnskólann að Skógum. Eru ekki efni til að ómerkja frásögnina sem slíka.
Fjórði kröfuliður gagnáfrýjanda lýtur að ummælum, sem komu fram í minnisblaði 7. desember 1992 til kærunefndar jafnréttisráðs frá starfsmanni hennar um samtal við fyrrnefndan Sigurð Helgason. Þau orð í minnisblaðinu, sem þessi kröfuliður varðar, eru svohljóðandi: „Sigurður upplýsti ennfremur, að ásakanir á hendur Vigfúsi hefðu gengið fyrir alls kyns afglöp og ætti hann í útistöðum við flesta samsveitunga sína.“ Af minnisblaðinu verður ekki ráðið að ummælin, sem hér um ræðir, séu höfð eftir aðaláfrýjandanum Sigurði, hvorki beint né óbeint. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að ómerkja ummælin.
Samkvæmt framangreindu verður aðaláfrýjandinn Sigurður sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda um ómerkingu ummæla. Leiðir það jafnframt til sýknu aðaláfrýjandans Sigurðar af kröfu gagnáfrýjanda um bætur, svo og til sýknu aðaláfrýjandans Austur-Eyjafjallahrepps af sömu kröfu, enda virðist hún ekki á öðru reist en ætlaðri húsbóndaábyrgð hans á gerðum fyrrnefnda aðaláfrýjandans.
Í ljósi atvika málsins er rétt að aðaláfrýjendur og gagnáfrýjandi beri hver sinn kostnað af þessum þætti þess í héraði og fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjandans Sigurðar Sigurjónssonar fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um frávísun nánar tilgreindra dómkrafna gagnáfrýjanda, Vigfúsar Andréssonar, skulu vera óröskuð.
Aðaláfrýjendur, Sigurður Sigurjónsson og Austur-Eyjafjallahreppur, og gagnstefndu, Guðrún Inga Sveinsdóttir og Ástrún Svala Óskarsdóttir, eru sýkn af kröfum gagnáfrýjanda.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda Sigurðar Sigurjónssonar fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 12. júní 1998.
Ár 1998, föstudaginn 12. júní, er í Héraðsdómi Suðurlands á málið nr. E-433/1997: Vigfús Andrésson gegn Sigurði Sigurjónssyni, Guðrúnu Ingu Sveinsdóttur, Ástrúnu Svölu Óskarsdóttur og sveitarsjóði Austur-Eyjafjallahrepps, lagður svohljóðandi dómur:
Mál þetta höfðaði Vigfús Andrésson, kt. 280347-3379, Berjanesi, Austur-Eyjafjallahreppi, Rangárvallasýslu, með stefnu dags. 5. desember 1997 á hendur Sigurði Sigurjónssyni, kt. 271047-2319, Ytri-Skógum, Austur-Eyjafjallahreppi, Guðrúnu Ingu Sveinsdóttur, kt. 141252-4299, Fosstúni, Austur-Eyjafjallahreppi, Ástrúnu Svölu Óskarsdóttur, kt. 300641-2379, Hrútafelli, Austur-Eyjafjallahreppi og sveitarsjóði Austur-Eyjafjallahrepps, kt. 430169-7349. Málið var dómtekið 22. maí sl.
Stefnandi gerir svohljóðandi kröfur, hér teknar orðrétt úr stefnu:
„a) Að ummæli stefnda, Sigurðar Sigurjónssonar, sem ollu því að stefnandi fékk ekki starf við Grunnskólann í Skógum, Rang. ár 1992, verði dæmd dauð og ómerk. Samkvæmt framburði Sigurðar Helgasonar, menntamálaráðuneyti, í Hd.máli nr. E-5580/1995, Hd. Rvíkur: Það var talað um grun um refsivert athæfi og ung stúlka eða unglingur nefnd í því sambandi.
b) Að dæmd verði dauð og ómerk ummæli Sigurðar Sigurjónssonar, úr sama máli. Lögmaður stefnanda spyr Sigurð: Þú sagðist hafa heyrt að hann (þe. stefnandi) hafi gerst sekur um kynferðislegt
brot eða hvað? Svar Sigurðar: Ég sagðist hafa heyrt það já.
c) Úr sama máli: Ríkislögmaður spyr Sigurð: Getur vitnið þá skýrt fyrir dóminum hvað það var sem vitnið telur að hafi ráðið afstöðu skólanefndar? Svar Sigurðar: Nú, það réði afstöðu að hann (þe. stefnandi) var bendlaður við mál, kynferðismisnotkun á ungri stelpu. (Tilv. lýkur)
d) Ummæli eftir Sigurði höfð dags. 7.12.1992, verði dæmd dauð og ómerk. Þau eru: Hann (þe. stefnandi) sé sakaður um alls kyns afglöp og eigi í illdeilum við flesta sveitunga sína.
e) Ummæli í bréfi frá 14.3.1995 undirr. af Sigurði fh. fyrrverandi skólanefndar Grsk. Skógum, þe. auk hans þær Guðrún Inga Sveinsdóttir fyrrv. oddviti og Ástrún Svala Óskarsdóttir fyrrv. varaoddviti, sem látin eru falla á niðrandi hátt til stefnanda, verði dæmd dauð og ómerk.
f) Að stefndu, hver um sig eða in solidum, verði dæmdir til þyngstu refsingar og til að sæta ómerkingu ofangreindra ærumeiðandi ummæla.
g) Að stefndu, hver um sig eða in solidum, verði dæmdir til að greiða stefnanda miskabætur vegna ærumeiðinga að upphæð kr. 10.000.000.- tíu milljónir auk vaxta frá 16.12.1997 til greiðsludags.
h) Að stefndu hver um sig eða in solidum, verði dæmdir til að greiða allan löglega leiðandi kostnað af málinu stefnanda til handa.”
Stefndu Sigurður Sigurjónsson, Guðrún Inga Sveinsdóttir og Ástrún Svala Óskarsdóttir krefjast frávísunar á 5. tl. (e-lið) kröfu stefnanda og þess að hafnað verði kröfu um ómerkingu ummæla og þau sýknuð af öðrum kröfum stefnanda. Til vara krefjast þau verulegrar lækkunar á dómkröfum. Loks krefjast þessi stefndu málskostnaðar að fjárhæð kr. 351.401. Er þá virðisaukaskattur innifalinn.
Stefndi Austur-Eyjafjallahreppur krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefnandi kveðst hafa sótt um stöðu kennara við Grunnskólann í Skógum árið 1992. Hann hafi ekki verið ráðinn þrátt fyrir að hann hafi kennsluréttindi, heldur leiðbeinandi. Hann hafi leitað til kærunefndar jafnréttismála, sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að honum hefði borið staðan. Hann hafi höfðað mál á hendur ríkinu vegna þessa og unnið það í meginatriðum. Komið hafi fram í því máli að það hafi verið ummæli fyrrverandi formanns skólanefndar, stefnda Sigurðar Sigurjónssonar, sem réðu þeirri afstöðu menntamálaráðherra að veita leiðbeinanda undanþágu til kennslunnar, þrátt fyrir að stefnandi hefði sótt um starfið og hefði full réttindi.
Stefnandi lýsir því að afleiðingar ummæla stefnda Sigurðar hafi verið þær að hann fékk ekki kennarastarf. Hafi þetta valdið honum og fjölskyldu hans hugarangri og álitshnekki, auk þess að hafa bein áhrif á afkomu heimilisins. Þetta sé atvinnurógur er hafi langtímaáhrif.
Í stefnu er vísað til vaxtalaga, sveitarstjórnarlaga, 26. gr. skaðabótalaga og 142., 146., 147., 148., 229., 232., 234., 235., 236. og 241. gr. almennra hegningarlaga.
Við fyrirtöku málsins 27. mars síðast liðinn lagði stefnandi fram skriflegar skýringar á 5. lið stefnu, sem að framan greinir og stefndu höfðu krafist þess að yrði vísað frá. Er þar tekið fram að um sé að ræða bréf dagsett 14. mars 1995, undirritað af stefnda Sigurði Sigurjónssyni. Ummæli þau sem krafist sé ómerkingar séu falin í þessum texta:
„4. Sú ákvörðun skólanefndar að mæla með Elfu Dögg í starfið var byggð á því að hún væri betur fallin til að sinna umræddu kennslustarfi heldur en meðumsækjandi hennar. Var þá meðal annars horft til þess að kennarastarfið er mikilvægt uppeldisstarf og kennarar hafa mótandi áhrif á þau börn sem þeir uppfræða. Kennarar eru þannig börnunum fyrirmynd í raun bæði í starfi og utan þess, og þá ekki síst í litlu samfélagi eins og hér. Það er því áríðandi að nemendur, foreldrar og stjórnendur skólans geti borið traust til þeirra sem veljast til kennslustarfa ekki bara hvað varðar beina uppfræðslu, heldur einnig þau atriði sem nefnd eru hér að framan.
Meðumsækjandi Elfu Daggar, Vigfús Andrésson, hefur verið búsettur hér í sveitinni og okkur skólanefndarmönnum var því kunnugt um hagi hans. Skólanefndinni var þannig kunnugt um að til rannsóknar hafði verið meint refsiverð háttsemi Vigfúsar. Þá hafði Vigfús átt í harðvítugum deilum um forræði yfir börnum sínum. Skólanefndinni var ljóst að sveitungar og foreldrar nemenda í skólanum höfðu vitneskju um þessi mál og það var ljóst af samtölum við foreldra í sveitinni að Vigfús naut ekki trausts þeirra til kennslustarfa.”
Stefndu Sigurður Sigurjónsson, Guðrún Inga Sveinsdóttir og Ástrún Svala Óskarsdóttir sátu í skólanefnd Austur-Eyjafjallahrepps á árinu 1992 er fjallað var um ráðningu í kennarastöðu er stefnandi sótti um ásamt Elfu Dögg Einarsdóttur. Þau hafa sameiginlega haldið uppi vörnum og gera sameiginlega kröfur. Ekki er reynt í málatilbúnaði þeirra að gera mun á milli þáttar þeirra hvers um sig.
Þau segja að menntamálaráðherra hafi heimilað ráðningu Elfu Daggar, þrátt fyrir að hún þyrfti undanþágu til starfsins. Í framhaldi af því hafi stefnandi leitað til kærunefndar jafnréttismála og síðan höfðað mál til að fá ráðninguna ógilta og til greiðslu skaða- og miskabóta. Hæstiréttur hefði með dómi 15. maí 1997 dæmt stefnanda kr. 300.000 í miskabætur, en hafnað kröfu um bætur fyrir fjárhagslegt tjón. Krafist sé ómerkingar ummæla er stefndi Sigurður viðhafði er hann kom fyrir dóm sem vitni í þessu máli, auk þess er fram kemur í bréfum skólanefndar og starfsmanna menntamálaráðuneytisins.
Stefndu fjalla sérstaklega um hvern lið í stefnu.
A-lið segja stefndu vera ummæli Sigurðar Helgasonar, en honum sé ekki stefnt í málinu. Telja þau að krafa um ómerkingu ummæla verði að beinast að þeim sem setur þau fram og því beri að sýkna þau samkvæmt reglu 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Ummælin í b-lið segja þau að geti sjálfstætt ekki falið í sér ærumeiðingu eða móðgun. Orðin „Ég sagðist hafa heyrt það, já.” séu ekki meiðandi.
Ummælin í c-lið telja stefndu hvorki vera ærumeiðandi né fela í sér móðgun þannig að refsingu eða ómerkingu geti varðað.
Með bréfi 29. janúar 1992 hafi fræðslustjóri Suðurlands óskað eftir því að tekin væri til rannsóknar meint kynferðisleg misnotkun gagnvart unglingsstúlku. „Blönduðust nokkrir menn í þessa rannsókn og var áfrýjandi talinn hafa ekið þremur þessara manna ölvuðum heim af dansleik og átti greind misnotkun meðal annars að hafa gerst í bifreiðinni í þessari ferð án þess að áfrýjandi kæmi í veg fyrir það.” [Orðrétt úr áðurnefndum dómi Hæstaréttar] Stefndu vísa jafnframt til þess að stefnandi hafi verið yfirheyrður þrisvar af rannsóknarlögreglu vegna málsins og í öll skiptin hafi verið gætt ákvæða 1. mgr. 40. gr. laga nr. 74/1974 gagnvart honum. Stefnandi hafi því haft stöðu sakaðs manns á þeim tíma er skólanefndin fjallaði um umsækjendur. 31. ágúst 1992 hafi ríkissaksóknari síðan ákveðið að ekki skyldi frekar aðhafst í málinu. Skólanefnd hafi verið kunnugt um þetta mál og því séu ummæli stefnda Sigurðar ekki annað en lýsing á vitneskju skólanefndar um rannsóknina er beinst hafi m.a. að stefnanda. Það hafi verið hlutverk hans að fjalla um umsóknirnar og telja stefndu að það hafi verið gert í samræmi við þær upplýsingar og gögn er lágu frammi á þeim tíma. Ummælin hafi verið sannleikanum samkvæm og því sé fráleitt að þau geti verið meiðandi.
Ummælin í d-lið stefnu segja stefndu vera tekin upp úr minnisblaði starfsmanns menntamálaráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála. Þar segi að Sigurður Helgason í menntamálaráðuneytinu hafi veitt tilteknar upplýsingar. Hin tilgreindu ummæli, sem reyndar séu ekki alfarið rétt eftir höfð, séu því ekki frá stefndu komin. Beri því að sýkna stefndu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Í e-lið sé krafist ómerkingar ummæla í tilteknu bréfi, án þess að greina þau ummæli sem krafan beinist að. Liðurinn uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 og því beri að vísa honum frá dómi.
Stefndu mótmæla því að síðari skýringar á þessum lið með framlagningu skjals, er hafi að geyma þann texta sem um sé rætt, geti komið í stað málavaxtalýsingar í stefnu. Í stefnu eigi að lýsa málavöxtum, m.a. tilgreina þau ummæli sem krafist sé ómerkingar á.
Miskabótakröfu er mótmælt á sama hátt og ómerkingarkröfu. Til viðbótar er sagt að ósannað sé að ummælin hafi valdið því að stefnandi fékk ekki starf. Þá er kröfunni mótmælt sem of hárri og loks vísað til dóms Hæstaréttar 15. maí 1997. Með þeim dómi hafi stefnanda verið dæmdar miskabætur er hafi bætt honum miska þann er honum kunni að hafa verið gerður.
Því er mótmælt af hálfu þessara stefndu að þau verði persónulega dæmd til greiðslu miskabóta. Þau hafi rækt starf sitt í skólanefnd í umboði og á ábyrgð sveitarstjórnar. Vísa þau til 18. og 19. gr. laga nr. 49/1991 um grunnskóla, sbr. nú 12. og 13. gr. laga nr. 66/1995.
Stefndu mótmæla tilvísun til ákvæða XV. kafla almennra hegningarlaga varðandi refsikröfu. Brot á þeim ákvæðum lúti meðferð opinberra mála. Þá telja stefndu ummælin hvorki vera móðganir né aðdróttanir. Þá séu þau sönn og því ekki ólögmæt. Loks sé sex mánaða fresturinn samkvæmt 29. gr. almennra hegningarlaga liðinn og því sé ekki unnt að hafa uppi refsikröfuna.
Auk þeirra lagaákvæða sem að framan eru greind vísa þessi stefndu m.a. til 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Stefndi Austur-Eyjafjallahreppur byggir á því að hann hafi ekki viðhaft nein þau ummæli er geti hafa verið ærumeiðandi fyrir stefnanda. Hann beri ekki ábyrgð á ummælum meðstefnda Sigurðar Sigurjónssonar, hvorki er hann riti bréf né er hann gefi skýrslu fyrir dómi.
Lagaheimild skorti til að dæma hreppinn til að þola ómerkingu ummæla þriðja manns. Þá skorti og lagaheimild til að dæma hann til greiðslu miskabóta vegna ummæla þriðja manns.
Annars vísaði þessi stefndi við aðalmeðferð til málatilbúnaðar meðstefndu varðandi kröfu um ómerkingu.
Niðurstaða.
Í stefnu er í 5 liðum gerð grein fyrir þeim ummælum sem krafist er ómerkingar á. Í reynd má greina ummælin í þrennt:
1. Þau sem tilgreind eru í a-, b- og c-liðum stefnu, þ.e. um að stefnandi sé grunaður um refsilagabrot með kynferðislegri misnotkun á ungri stúlku. Ummæli þessi koma einnig fram í bréfi því sem greinir í e-lið stefnu.
2. d-liður stefnu um að stefnandi sé sakaður um alls kyns afglöp og eigi í illdeilum við flesta sveitunga sína.
3. e-liður stefnu um að stefnandi eigi í harðvítugri forræðisdeilu.
Flest ummælanna stafa frá stefnda Sigurði Sigurjónssyni. Það sem greinir í a-lið stefnu og er sagt vera framburður Sigurðar Helgasonar fyrir dómi er frásögn hans af því sem stefndi Sigurður Sigurjónsson tjáði honum. Verður því að líta svo á að krafist sé ómerkingar ummæla stefnda sem vitnið Sigurður Helgason segir þarna frá. Verður sýkna ekki studd við aðildarskort í þessu tilviki.
Gögn um þá sakamálsrannsókn sem stefndu byggja sýknu sína einkum á eru fátækleg. Það sem liggur fyrir er að til rannsóknar hjá lögreglu var meint brot einhvers eða einhverra gagnvart 15 ára gamalli stúlku. Ekki neitt af því bendir til þess að stefnandi hafi á einhverju stigi rannsóknar verið undir rökstuddum grun um refsivert athæfi.
Stefndi Sigurður skýrði starfsmönnum í menntamálaráðuneyti frá atvikum og viðhafði m.a. þau ummæli sem hér er um fjallað sem fulltrúi í skólanefnd. Á honum hvíldu eins og sérhverjum starfsmanni eða fulltrúa í stjórnsýslunni þær skyldur er löggjöfin leggur þeim á herðar. Þar á meðal er skylda til rannsóknar og til nákvæmni í öflun, meðferð og miðlun upplýsinga. Stefndu hafa ekki lagt fram í málinu gögn er sýni hvaða gögn lágu fyrir skólanefnd er hún fjallaði um umsókn stefnanda um stöðu kennara. Getur stefndi því ekki byggt á því að hann hafi verið í réttmætri góðri trú er hann viðhafði þau ummæli sem stefnt er útaf.
Ummælin 1. lið að framan, þ.e. í a-, b- og c-lið stefnu skírskota öll til þess að stefnandi hafi gerst sekur um kynferðisbrot. Ummælin eru því röng að efni til. Þau eru meiðandi og verður að ómerkja þau öll með vísan til 1. mgr. 241. gr., sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga. Ummæli sama efnis er greinir í e-lið stefnu verða rædd hér á eftir.
Ummælin í 2. lið að framan, þ.e. d-lið stefnu eru ekki beint vingjarnleg og fjarri því að unnt sé að unna handhöfum opinbers valds að nota slík orð við framkvæmd starfa sinna eða síðari skýringar á þeim. Þau eru hins vegar ekki þess eðlis að þau nái að teljast meiðandi, en þau sýnast einkum rýra álit þess stjórnvaldshafa er viðhefur þau. Verður að hafna kröfu um ómerkingu þeirra.
Í 3. lið, þ.e. e-lið stefnu, er vísað til ákveðins bréfs án þess að texti þess sé að hluta eða í heild tekinn upp í stefnu. Krafa þessi er því ekki afmörkuð svo skýrt að unnt sé að fjalla um hana efnislega, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Úr þessu verður ekki bætt síðar eftir að greinargerðir stefndu hafa verið lagðar fram. Verður að vísa þessum kröfulið frá dómi.
Ummæli þau öll sem hér er fjallað um voru viðhöfð meira en 6 mánuðum áður en mál þetta var höfðað. Samkvæmt 29. gr. almennra hegningarlaga verður því að vísa refsikröfu frá dómi.
Ummælin í 1. lið eru illfýsin aðdróttun um að stefnandi hafi framið alvarlegt hegningarlagabrot. Verður að ákveða stefnanda miskabætur vegna þeirra samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. nú 26. gr. skaðabótalaga. Verða þær ákveðnar kr. 160.000 með vöxtum frá dómsuppkvaðningu.
Ómerkt eru í þessum dómi ummæli stefnda Sigurðar Sigurjónssonar. Liggur ekki fyrir ljóslega hvort meðstefndu Guðrún Inga og Ástrún Svala hafa viðhaft þessi ummæli utan þess sem getið er í e-lið stefnu, en þeim lið verður vísað frá. Er því ekki dæmt efnislega um að þessar stefndu hafi viðhaft þessi ummæli. Verður stefndi Sigurður dæmdur til að greiða miskabætur, en ekki meðstefndu Guðrún Inga og Ástrún Svala.
Einstaklingar bera ábyrgð á orðum sínum þó þau séu viðhöfð við framkvæmd trúnaðarstarfa á vegum sveitarfélags eða annarra opinberra aðila. Sveitarfélagið verður gert ábyrgt fyrir framkvæmd starfa sem unnin eru á þess vegum. Hinn stefndi sveitarsjóður verður því dæmdur til greiðslu miskabótanna óskipt með stefnda Sigurði.
Stefnandi flutti mál sitt sjálfur. Ákveða verður honum málskostnað að nokkru í samræmi við þau útgjöld sem eðlilegt hefði verið að stofna til við málsókn þessa. Hæfilegt er að stefndu Sigurður og sveitarsjóður Austur-Eyjafjallahrepps greiði stefnanda kr. 140.000 í málskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Kröfum í e-lið stefnu er vísað frá dómi.
Framangreind ummæli í a-, b, og c-liðum stefnu skulu vera dauð og ómerk. Kröfu um ómerkingu ummæla í d-lið stefnu er hafnað.
Refsikröfu stefnanda, Vigfúsar Andréssonar, er vísað frá dómi.
Stefndu, Sigurður Sigurjónsson og sveitarsjóður Austur-Eyjafjallahrepps, greiði stefnanda kr. 160.000 með dráttarvöxtum frá 12. júní 1998 til greiðsludags og kr. 140.000 í málskostnað.
Málskostnaður milli stefnanda og stefndu Guðrúnar Ingu Sveinsdóttur og Ástrúnar Svölu Óskarsdóttur fellur niður.