Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-146
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Söluyfirlit
- Galli
- Upplýsingaskylda
- Skoðunarskylda
- Skaðabætur
- Afsláttur
- Matsgerð
- Áfrýjunarfrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 24. nóvember 2022 leita Jóhannes Einar Valberg, Sigríður Rún Kristinsdóttir og Ólöf Hansína Friðriksdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 29. september sama ár í máli nr. 538/2021: Jóhannes Einar Valberg, Sigríður Rún Kristinsdóttir og Ólöf Hansína Friðriksdóttir gegn Val Steini Þorvaldssyni og Guðrúnu Sigurðardóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðendum um greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignar samkvæmt kaupsamningi 11. janúar 2019 gegn útgáfu afsals fyrir eigninni. Leyfisbeiðendur höfðuðu gagnsök til greiðslu skaðabóta eða afsláttar vegna ýmissa galla sem þau töldu annars vegar vera á íbúðarhúsi og gistihúsi eignarinnar og hins vegar á útihúsum.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins gegn útgáfu afsals og um sýknu þeirra í gagnsök. Landsréttur rakti að ýmsir annmarkar hefðu verið á matsgerð sem aflað var í héraði og yrði því ekki byggt á henni við úrlausn málsins. Á hinn bóginn lægi fyrir ítarleg og vönduð matsgerð sem aflað var við meðferð málsins fyrir Landsrétti og var hún lögð til grundvallar. Af þeirri matsgerð leiddi að meintir gallar teldust ekki rýra verðmæti eignarinnar svo nokkru varðaði eða þannig að hún teldist gölluð, sbr. síðari málslið 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Þá var hafnað málsástæðum leyfisbeiðenda sem lutu að því að gagnaðilar hefðu við kaupin vanrækt upplýsingaskyldu sem á þeim hvíldi samkvæmt lögum nr. 40/2002, söluyfirlit hefði geymt rangar upplýsingar um ástand fasteignarinnar eða gagnaðilar á annan hátt sýnt af sér saknæma háttsemi.
5. Leyfisbeiðendur taka fram að beiðni um áfrýjunarleyfi hafi ekki verið sett fram innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms Landsréttar, sbr. 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar hafi beiðnin komið fram innan fjögurra vikna viðbótarfrests í 2. mgr. 177. gr. sömu laga enda sé dráttur á áfrýjun nægjanlega réttlættur. Því til stuðnings láta leyfisbeiðendur við það sitja að tilgreina að þau „reyndu fyrst að vísa málinu til lögreglu sem vísaði málinu frá.“ Frekari rökstuðning fyrir því að skilyrðum 2. mgr. 177. gr. laganna sé fullnægt er ekki að finna í beiðninni. Hins vegar er þar að finna rökstuðning fyrir því að skilyrðum 1. mgr. 176. gr. fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt.
6. Heimildarákvæði 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 er undantekning frá meginreglu um fjögurra vikna frest til að sækja um áfrýjunarleyfi. Þær skýringar sem leyfisbeiðendur hafa gefið á því að ekki var sótt um leyfi innan tímamarka 1. mgr. sömu greinar fullnægja ekki þeim áskilnaði sem tilgreindur er í 2. mgr. hennar. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni leyfisbeiðenda um áfrýjunarleyfi hafnað.