Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2001
Lykilorð
- Vinnuslys
- Íþrótt
- Skaðabótamál
- Gjafsókn
|
|
Miðvikudaginn 23. maí 2001. |
|
Nr. 2/2001. |
Íslenska ríkið (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) gegn Erni Sævari Júlíussyni (Gylfi Thorlacius hrl.) |
Vinnuslys. Íþróttir. Skaðabótamál. Gjafsókn.
Ö varð fyrir slysi í starfi sínu sem slökkviliðsmaður hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Slysið bar að með þeim hætti að hann var að leika knattspyrnu á íþróttaæfingu, sem var hluti af skyldubundnum íþróttaæfingum slökkviliðsmanna. Í stefnu og aðilaskýrslu lýsti Ö því svo að hann hafi ætlað að spyrna knettinum frá marki er hann lenti í dæld, fóturinn hafi farið í gegnum grassvörðinn niður í stamt undirlag og um leið hafi snúist upp á fótinn. Að mati Ö mátti rekja slysið til þess að gerð vallarins og not hans hafi verið óforsvaranleg. Við gerð vallarins hafi verið notuð efni og aðferðir sem ekki séu viðurkennd og hættulegt sé að nota við gerð slíkra mannvirkja. Hæstiréttur taldi ekki sýnt fram á að gerð íþróttavallarins hafi verið óforsvaranleg miðað við þau not sem hann var ætlaður til. Þá hefði ekki verið sýnt fram á annað en að um hreint óhapp hefði verið að ræða og Ö hefði runnið til á hálu grasinu og misstigið sig. Ósannað væri að slysið yrði rakið til þess hvernig völlurinn væri úr garði gerður. Var Í sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. janúar 2001. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara krefst hann þess, að dæmdar kröfur verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Eins og lýst er í héraðsdómi varð stefndi fyrir slysi 28. ágúst 1996 í starfi sínu sem slökkviliðsmaður hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Er slysið varð var stefndi að leika knattspyrnu á íþróttaæfingu. Óumdeilt er, að slökkviliðsmönnum var skylt að stunda íþróttaæfingar milli klukkan 18 og 19 þá daga, sem þeir voru að störfum, en þeim var í sjálfsvald sett hvaða íþróttir þeir stunduðu á þessum æfingatíma. Umræddan dag kvaðst stefndi hafa verið að æfa sig á hlaupabretti inni í húsi, er vaktstjórinn, sem stjórnaði útiæfingum, hafi komið til sín og beðið sig um að taka þátt í knattspyrnuleik og hefði hann fallist á að vera í marki. Ómótmælt er, að stefndi hafði æft og leikið knattspyrnu í mörg ár og var þaulkunnugur ástandi vallarins.
Stefndi heldur því fram, að völlurinn, sem starfsmennirnir voru látnir nota, hafi verið byggður á ófullnægjandi hátt og að við gerð hans hafi verið notaðar aðferðir og efni, sem ekki séu viðurkennd og hættulegt að nota við gerð slíkra mannvirkja. Gerð vallarins og not hans hafi því verið óforsvaranleg og slysið megi rekja til þess. Í stefnu og aðilaskýrslu lýsir stefndi því svo, að hann hafi ætlað að spyrna knettinum frá markinu, er hann lenti í dæld, fóturinn hafi farið í gegnum grassvörðinn og niður í stamt undirlag og um leið hafi snúist upp á fótinn. Áfrýjandi telur þessa fullyrðingu stefnda ekki eiga stoð í gögnum málsins, heldur sé ljóst, að honum hafi orðið fótaskortur á blautum vellinum, sem algengt sé, hvernig svo sem undirbyggingu knattspyrnuvalla sé háttað.
II.
Stefndi fékk Narfa Hjörleifsson tæknifræðing til að skoða framangreindan íþróttavöll í október 1998. Ræddi hann við Guðmund Halldórsson slökkviliðsmann, sem hafði haft yfirumsjón með byggingu vallarins. Liggur greinargerð Narfa fyrir í málinu og hann bar einnig vitni fyrir héraðsdómi. Þar kemur fram, að fyrst hafi verið sett malbikssvarf, sem fræst hafi verið ofan af flugbrautum, þar ofan á 20 cm þykkt lag af grófri möl, svonefnt bögglaberg, síðan moldarkennt grúsarlag og þökur efst. Heildarþykkt þaka og grúsarlags hafi verið um 9 12 cm. Til samanburðar lýsti hann því, sem hann taldi eðlilega uppbyggingu grasvallar. Þar kemur fram, að fyrst skuli leggja grús, 30 40 cm, þar ofan á 12 15 cm lag af steinlausum sandi og síðan torf yfir. Sagði hann, að grús pakkaðist meira saman en sandur og gæti valdið umtalsvert meiri fyrirstöðu, en sandurinn gæfi eftir. Sagði hann grús ekki notaða á íþróttavöllum, sem byggðir væru upp af íþróttafélögunum. Þessa lýsingu kvað Narfi styðjast við leiðbeiningar, sem íþróttafulltrúi ríkisins hefði gefið út til íþróttafélaganna, en þær liggja ekki fyrir í málinu.
Þótt æfingavöllur slökkviliðsmannanna hafi ekki verið gerður í samræmi við framangreindar leiðbeiningar um gerð íþróttavalla, hefur ekki verið sýnt fram á, að gerð hans hafi verið óforsvaranleg miðað við þau not, sem hann var ætlaður til.
III.
Að framan er lýst staðhæfingu stefnda í stefnu og aðilaskýrslu um hvernig slysið vildi til. Í slysaskýrslu verkstjóra, sem gerð var samdægurs af varðstjóra, sem varð vitni að atburðinum, sagði, að stefndi hefði orðið fyrir slæmu misstigi, er hann rann til á röku grasi. Sama kemur fram í tilkynningu 2. september 1996 um vinnuslys til Vinnueftirlits ríkisins. Jónas H. Marteinsson varðstjóri bar fyrir lögreglu, að boltinn hefði komið að öðru markinu og stefndi verið búinn að stíga eitt skref fram, er honum skrikaði fótur og datt. Pétur Viðar Júlíusson, bróðir stefnda, lýsti því svo fyrir lögreglu, að stefndi hefði verið að hlaupa í áttina að boltanum, þegar hann missteig sig. Hörður Hilmarsson slökkviliðsmaður bar fyrir lögreglu, að hár bolti hefði komið inn á teig, og hafi hann og stefndi báðir hlaupið að og stefndi stokkið upp í boltann til að grípa hann og hafi litið svo út sem hann hafi misstigið sig, er hann lenti. Sigurður Ámundason slökkviliðsmaður lýsti því svo fyrir lögreglu, að boltinn hefði komið frá vinstri og stefnt framhjá markinu hægra megin við stöðu stefnda, sem hefði snúið sér að boltanum og hnigið niður. Fyrir lögreglu bar stefndi, að einhverra hluta vegna væri slysið sjálft hulið í minningunni og það, sem hann myndi, væri að vítateigurinn hefði verið mikið svað og vegna mikilla rigninga hefði verið vatnselgur og fannst honum eins og hann hefði runnið til í vatnselgnum, er hann tók skref, en ekki mundi hann, að neitt sérstakt hefði verið að gerast. Fyrir dómi bar stefndi, að slysið hefði orðið með þeim hætti, að boltinn hefði verið að koma inn í vítateig út frá vellinum og hann hlaupið á móti boltanum og runnið og fest fótinn. Framangreindir framburðir styðja á engan hátt þá staðhæfingu stefnda í stefnu og aðilaskýrslu, að slysið megi rekja til þess, að hann hafi ætlað að spyrna knetti frá marki og við það hafi fótur hans lent í dæld og farið gegnum grassvörð niður í stamt undirlag. Ekki er sýnt fram á annað en að um hreint óhapp hafi verið að ræða og stefndi runnið til á hálu grasinu og misstigið sig. Er ósannað, að slysið verði rakið til þess, hvernig völlurinn er úr garði gerður.
Samkvæmt framansögðu verður slys stefnda ekki rakið til atvika, sem áfrýjandi ber fébótaábyrgð á, og verður hann sýknaður af öllum kröfum stefnda.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnda, Arnar Sævars Júlíussonar.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hans, samtals 900.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Erni Sævari Júlíussyni, kt. 230359-5719, Njarðargötu 1, Reykjanesbæ, á hendur Halldóri Ásgrímssyni, kt. 080947-2329, utanríkisráðherra og Geir H. Haarde, kt. 080451-4749, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, kt. 540269-6459, vegna Varnarliðsins í Keflavík, með stefnu sem birt var 15. desember sl.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir til að greiða 8.660.841 krónur með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 28. ágúst 1996 til 12. nóvember 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi og til greiðsludags, skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Þá er þess krafist að vextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti í fyrsta skipti þann 28. ágúst 1997. Allt að frádregnum 3.289.914 krónum. Þá er gerð er krafa um að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað skv. málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjaf-sóknarmál þ.m.t. útlagðan kostnað stefnanda. Að auki er krafist virðisaukaskatts á málskostnaðinn.
Dómkröfur stefndu eru að íslenska ríkið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og tildæmt málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.
Með bréfi dómsmálaráðherra 19. október 1999 var stefnanda veitt gjafsókn vegna málsins.
I.
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi ásamt starfsfélögum sínum hjá slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli verið að leika knattspyrnu á íþróttaæfingu þegar hann hafi fallið og tognaði illa á ökkla. Stefnandi segir að knattspyrnuleikurinn hafi verið hluti af skyldubundnum íþróttaæfingum slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli og verið leikinn á íþróttarvelli Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli við bygginu #848. Völlurinn hafi verið mjög blautur og innan vítateiga hafi hann verið „mikið vaðinn."
Stefnandi kveðst hafa leikið stöðu markmanns þegar slysið varð og hafi hann ætlaði að spyrna knettinum frá markinu. Hafi hann þá lent í dæld og með hægri fótinn gegnum grassvörðinn og niður í stamt undirlag og um leið hafi snúist upp á fótinn þannig að eitthvað hefði brostið í ökklanum og hafi hann fallið til jarðar. Og segir svo í stefnu:
Stefnandi fann strax til mikils sársauka við slysið og hann gerði sér grein fyrir að hann væri annað hvort brotinn eða illa tognaður. Starfsfélagar hans fluttu hann á Sjúkrahús Keflavíkur, þar sem teknar voru röntgenmyndir. Vegna alvarleika áverkans var stefnandi sendur áfram á Landspítalann í Reykjavík. Á Landspítalanum voru framkvæmdar frekari rannsóknir og út frá niðurstöðum þeirra var ákveðið að gera aðgerð á stefnanda strax að kvöldi 28. ágúst 1996. Við aðgerðina kom í ljós að svokallað deltoid ligament var rifið svo og liðhimna ökklaliðsins að framanverðu meðfram miðlægum ökkla og kom jafnframt í ljós að völubein (talus) settist ekki eðlilega í liðgaffalinn. Ökklaliður var færður í réttar skorður, liðbönd saumuð og sett skrúfa í gegnum sperrilegg (fibula) og yfir í sköflung (tibia). Eftir aðgerðina var stefnandi í gipsi í 8 vikur. Synthesmosuskrúfa var tekin 14. nóvember 1996. Stefnandi fann áfram mikið til, hreyfigeta hægri ökklans var takmörkuð og ökklinn tók á sig táfótarstöðu. Ekki tókst að lina þjáningar stefnanda með sjúkraþjálfun og var því ákveðið að skera ökklann á ný þann 2. júní 1997. Settar voru tvær cancelous skrúfur í ökklann og stefnandi var í gipsi til 15. júlí 1997. Árangur þessarar aðgerðar var takmarkaður. Stefnandi býr enn í dag við hreyfiskerðingu á hægri ökkla og verki í hægri il og ökkla og hefur hann því þurft að vera í þjálfun hjá sjúkraþjálfara og hefur beitt raförvun vegna verkja.
Stefnandi segir að meginástæða fyrir lélegu ástandi íþróttavallar slökkvi-liðsins sé að við gerð vallarins hafi verið notuð efni í undirlag hans sem ekki hleypa vatni af honum og að moldarlag ofan á þessum efnum sé óvenjuþunnt fyrir knattspyrnuvöll. Af þeim sökum sé auðvelt fyrir menn að sparka í gegnum efsta lagið þannig að þeir lendi á stömu undirlaginu.
Stefnandi greinir frá því að örorkunefnd hefur metið örorku hans. Niðurstaða þess mats sé að varanlegur miski hans vegna vinnuslysins 28. ágúst 1996 sé 20% - tuttugu af hundraði, en varanleg örorka hans sé 25% - tuttugu og fimm af hundraði. Það sé álit nefndarinnar að stefnandi hafi ekki getað vænst bata eftir 1. júlí 1998. Bótakrafa stefnanda sé grundvölluð á þessu mati.
Stefnandi kveðst hafa sent skaðabótakröfu sína til skaðabótanefndar skv. lögum 110/1951 í bréfi, dags. 12. október 1999, ásamt rökstuðningi og gögnum. Skaðabótanefnd hafi hafnaði þeirri kröfu með bréfi, dags. 4. nóvember 1999. Sé honum því nauðsynlegt að höfða þetta mál til innheimtu þeirra skaðabóta sem hann eigi rétt á úr hendi stefndu vegna ábyrgðar þeirra á ástandi íþróttarvallarins sem sé meginorsök fyrir tjóni hans.
Af hálfu stefndu er talið að staðhæfing stefnanda um að meiðsl hans megi rekja til þess, að við það að ætla að spyrna knetti frá marki hafi fótur hans lent í dæld og farið gegnum grassvörð niður í stamt undirlag, eigi sér ekki stoð í gögnum málsins. Af gögnum máls sé þvert á móti ljóst að stefnanda varð fótaskortur á vellinum eins og verða vill í knattspyrnu. Knattspyrnumanni getur skrikað fótur á blautum grasvelli hvernig svo sem undirbyggingu vallarins sé háttað. Slys stefnanda verði hvorki rakið til tilverknaðar annarra leikmanna né undirbyggingu vallarins og ósannað sé að slysahætta hafi verið meiri á þessum velli en öðrum. Verður slys stefnanda þannig ekki rakið til sakar starfsmanna varnarliðsins eða annarrar áhættu er það ber bótaábyrgð á gagnvart stefnanda.
II.
Stefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig:
Við útreikning kröfunnar er miðað við grunnvísitölu skaðabótalaga 166.21 og vísitölu útreikningsdags í okt. 1999 sem var 191.80.
Þjáningabætur.
Þjáningabætur vegna rúmlegu.
Aðgerð í ágúst 1996, 4 dagar á sjúkrahúsi, 4 heima 8 dagar
Aðgerð í maí 1997, 3 dagar á sjúkrahúsi, 3 heima 6 dagar
Samtals 14 dagar
Krónur 1.500 fyrir hvern dag x 14 kr.21.000.-
Þjáningabætur án rúmlegu.
Stefnandi gat skv. áliti örorkunefndar eftir 1. júlí 1998 ekki reiknað með frekari bata af áverkum sínum. Frá sept. 1996 til loka júní 1998 eru 22 mánuðir eða 660 dagar.
660 dagar alls að frádregnum 14 rúmlegu dögum = 646
Krónur 810 fyrir hvern dag x 646 kr.523.260.-
Þjáningabætur alls kr.544.260.-
Bætur fyrir varanlegan miska.
Bætur fyrir 100% miska nema kr. 4.615.850 skv. ákvæðum skaðabótalaga.
20% af þeirri fjárhæð er kr.923.170.-
Bætur fyrir varanlega örorku.
Tekjur stefnanda á árinu 1995 námu kr. 2.488.708.-/12 x 4 kr.829.570.-
Tekjur stefnanda á árinu 1996 námu kr. 2.794.559.-/12 x 8 kr.1.863.040.-
Samtals kr. 2.692.610.-
Framlag í lífeyrissjóð 12% skv. reglug. um eftirlaunasjóð, dskj. 32 kr.323.113.-
Alls kr. 3.015.723.-
En framreiknað miðað vð vísitölu ágúst ´96 176.9/ okt´99 191.8 kr.3.269.732.-
Reiknað skv. 6. gr. skbl. krónur 3.269.732.-x 10 x 25% kr.8.174.331.-
Frádráttur vegna aldurs skv. 9. gr. (38 ára - 26 ára= 12) 12% (kr.980.920.-)
Samtals kr.7.193.411.-
Alls kr.8.660.841.-
Vextir skv. 16. gr. skbl.
2% vextir af kr. 8.660.840 frá 28. ágúst 1996 til 28. ágúst 1997 kr. 173.216.-
2% vextir af kr. 8.834.056 frá 29. ágúst 1997 til 8. apríl 1998 kr. 106.009.-
2% vextir af kr. 5.544.142 frá 9. apríl 1998 til 28. ágúst 1998 kr.44.353.-
2% vextir af kr. 5.694.504 frá 29. ágúst 1998 til 28. ágúst 1999 kr.113.890.-
2% vextir af kr. 5.808.394 frá 29. ágúst 1999 til 12. nóv. 1999 kr.23.815.-
Vextir samtals kr.461.283.-
En með dráttarvöxtum frá 12. nóvember 1999 til greiðsludags.
Allt að frádregnum greiddum bótum frá Vátryggingafélagi Íslands hf. að fjárhæð kr. 3.289.914.
Stefnandi kveðst reikna tjón sitt á grundvelli ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Halldór Baldursson, dr.med. tryggingarlæknir hafi metið örorku stefnanda fyrir Tryggingarstofnun ríkisins. Í mati hans, dags. 2. mars 1998, komi fram að örorka stefnanda sé 35% frá 26. febrúar 1998. Kröfu sína kveðst stefnandi byggja á álitsgerð örorkunefndar um varanlegt miskastig og örorku. Álitið, sem dagsett er 17. ágúst 1999, hafi verið unnið að beiðni lögmanns stefnda með vísan til 10. gr. laga nr. 50/1993. Í niðurstöðu örorkunefndar sé varanlegur miski hans metinn 20% en varanleg örorka hans 25% eins og áður sagði.
Stefnandi gerir með eftirgreindum hætti grein fyrir málsástæðum sínum og lagarökum í stefnu:
Slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli ber að vera í góðu líkamlegu ástandi enda getur líkamsæfing oft ráðið úrslitum í vinnu þeirra. Vegna þessa er liðsmönnum slökkviliðsins skylt að mæta á reglulegar æfingar þegar þeir eru á vakt. Stefnandi var þann 28. ágúst 1996 mættur til vinnu sinnar þar sem hann var kallaður út á aukavakt vegna forfalla annarra manna. Þann dag var venjubundin íþróttaæfing hjá vaktmönnum milli kl. 18 og 19 og tók stefnandi þátt í fótboltaleik, þar sem keppt var við slökkviliðið í Keflavík. Rigning var þennan dag og slasaðist stefnandi illa þegar hann rann til á blautum vellinum og lélegum vellinum.
Fótboltaleikurinn þann 28. ágúst 1996 fór fram á íþróttavelli Slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli, en ástand vallarins er megin orsök fyrir tjóni stefnanda. Hönnun og gerð vallarins var að mestu unninn af liðsmönnum slökkviliðsins og engar samþykktar teikningar eru til af hönnun hans. Í undirlag vallarins var m.a. notaður malbiksruðningur, sem fræstur hafði verið af brautum flugvallarins en þar ofan á sett önnur efni. Liðsmenn slökkviliðsins bentu þeim sem umsjón höfðu með verkinu fyrir hönd slökkviliðsins á hversu óhentugt þetta efni væri og að það gæti reynst hættulegt í framtíðinni þar sem það hleypti vatni illa í gegnum sig, sbr. lögregluskýrslur og yfirlýsingu starfsmanna dags. 10. júní 1997. Ekki var tekið tillit til þessara tilmæla við byggingu vallarins heldur látið slag standa. Með árunum kom í ljós að þeir sem höfðu varað við notkun efnisins höfðu rétt fyrir sér og safnaðist iðulega mikið vatn á vellinum í rigningum. Í yfirlýsingu Sturlaugs Ólafssonar garðyrkjumanns, sem sá um hluta af viðhaldi vallarins á árinu 1996, kemur fram að grasrótarlag vallarins er víða mjög grunnt. Hann fullyrðir að stórgrýti og klappir séu víða mjög nærri yfirborði og að það hafi skemmt höggpípur götunarvélar, sem hann notar til viðhalds á grasflötum. Í skýrslu Narfa Hjörleifssonar, tæknifræðings á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, kemur fram að moldarlag vallarins var mjög þunnt og að völlurinn hefur ekki verið byggður í samræmi við leiðbeiningar um uppbyggingu grasvalla sem gefnar eru út af íþróttafulltrúa ríkisins.
Ekki verður séð að nefnd sú sem fjalla skal um skipulags-, byggingar- og umhverfismál á varnarsvæðinu, skv. reglugerð 488/1993, hafi fjallað um gerð íþróttavallarins.
Vinna við gerð íþróttavallarins, þar sem slysið átti sér stað, var unninn af starfsmönnum slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli og nutu þeir aðstoðar Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Yfirumsjón með verkinu hafði Guðmundur Halldórsson, varðstjóri slökkviliðsins. Í skýrslu Guðmundar, dags. 30, mars 1999, kemur skýrt fram að völlurinn var unninn með leyfi slökkvistjórans og að starfsmenn slökkviliðsins hafi unnið verkið í vinnutíma. Verkfræðideild varnarliðsins aðstoðaði við mælingu og varnarliðið lánaði tæki. Slökkvilið varnarliðsins hefur alla tíð annast viðhald vallarins og greitt kostnað þar að lútandi. Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli er undir stjórn og á ábyrgð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Það er því ljóst að gerð og ástand vallarins er á ábyrgð varnarliðsins. Varnarliðið ber fébótaábyrgð í þessu máli á grundvelli ólögfestra reglna skaðabótaréttar, sem eigandi og umsjónarmaður vallarins, enda stóðst knattspyrnuvöllurinn ekki þær kröfur sem réttlætanlegt var að gera um gerð hans og ástand. Einnig ber varnarliðið á Keflavíkurflugvelli ábyrgð sem vinnuveitandi stefnanda í þessu máli þar sem sú aðstaða þar sem liðsmönnum slökkviliðsins var gert að æfa var algerlega óviðunandi.
Ekki var kallað til vinnueftirlits ríkisins né lögreglu til að láta fara fram rannsókn á slysinu eins og mælt er fyrir í lögum og verða stefndu að bera hallann af því að málið var ekki rannsakað og upplýst í upphafi.
Stefnda, íslenska ríkið, ber greiðsluskyldu, f.h. varnarliðsins, samkvæmt 2. tl. 12. gr. fylgiskjals með lögum nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess.
III.
Á því er byggt af hálfu stefndu að að vísu sé slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli skylt að stunda íþróttaæfingar milli klukkan 18 og 19 þá daga, sem þeir eru að störfum. Þeim sé hins vegar í sjálfsvald sett hvaða íþróttir þeir stundi æfingartímann. Stefnanda hafi ekki verið skylt að æfa fótbolta hvað þá að taka þátt í fótboltakeppni. Þá er vísað á bug að gerð knattspyrnuvallarins hafi verið óforsvaranleg eða að slysið megi rekja til þess að svo hafi verið.
Upplýst sé að slökkviliðsmennirnir sjálfir sléttuðu völlinn á sínum tíma til að stunda þar líkamsæfingar. Völlurinn hafi verið hannaður í samráði við verkfræðideild varnarliðsins og sé hann hvorki ósléttur né sérstaklega blautur. Lögregluskýrslur staðfesti það.
Bent er á það að lýsing stefnanda á aðdraganda slyssins í stefnu fari ekki saman við samtímaskýrslur né skýrslur er teknar hafi verið fyrir lögreglu um slysið í mars 1999. Um tildrög slyssins liggi eftirfarandi fyrir í gögnum málsins:
Í áverkavottorði ... vegna komu á Heilsugæslustöð í kjölfar slyssins er því lýst að hann hafi misstigið sig á hægri ökkla. Í læknabréfi Landspítala ... er rakið við komu þar 28. ágúst 1996 að hann hafi verið að leika knattspyrnu. „Hann snerist þá um hægri ökklann, er alls ekki viss um hvernig hann snerist en fann eitthvað smella". Neðst á bls. 5 í vottorði Landspítala ... kemur fram að um sé að ræða „ungan mann sem hljóti tiltölulega algengan og að því er virðist ekki mjög alvarlegan áverka um hægri ökkla".
Í slysaskýrslu verkstjóra ... gerðri 28. ágúst 1996 af Jónasi H. Marteinssyni varðstjóra er því lýst í lið 10 og 11 að hann hafi orðið fyrir slæmu misstigi, sennilega vegna rekju í grasi. Í lýsingu á tildrögum slyss, sbr. lið 16 segir: „Var að spila fótbolta og rann til á röku grasi og féll við og varð misstig þannig að hann féll með líkamann ofan á fótinn." Í tilkynningu 2. september 1996 um vinnuslys til Vinnueftirlitsins, móttekin þar 10. september 1996, ..., er því lýst að hann hafi verið að leika knattspyrnu ásamt vinnufélögum. „Hinn slasaði rann til og féll á blautu grasinu með þeim afleiðingum að hann sleit liðbönd í hægri ökkla".
Í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnanda kom fram að slysið sjálft sé hulið í minningu hans.
Í vitnisburði Harðar Hilmarssonar slökkviliðsmanns á Keflavíkurflugvelli sem var mótherji stefnanda í leiknum, kemur fram að hár bolti hafi komið inn á teig sem þeir báðir hafi hlaupið að og hafi stefnandi stokkið upp í boltann til að grípa hann en Hörður þá stoppað um 2 metra fyrir framan stefnanda sem hafi síðan lent og lagst strax niður. Virtist Herði sem hann hafi misstigið sig en á engan hátt hægt að átta sig á að um alvarlegt slys væri að ræða. Sigurður Ámundarson sem var til hliðar við stefnanda bar að boltinn hafi komið frá vinstri og stefnt framhjá markinu hægra megin við stöðu stefnanda sem hafi snúið sér að boltanum og hnigið niður og emjað. Kvaðst hann ekki hafa tekið það alvarlega því stefnandi hafi gert það oft áður vegna einhverra smáóhappa. Jónas H. Marteinsson, varðstjóri, bar að boltinn hafi komið að öðru markinu og hafi stefnandi verið búinn að stíga eitt skref fram þegar honum skrikar fótur og dettur og bögglast annar fótur einhvern veginn undir honum og leit ekki út fyrir að vera neitt alvarlegt á ferðum. Pétur Viðar Júlíusson slökkviliðsmaður lýsti því svo að stefnandi hafi verið að hlaupa í áttina að boltanum þegar hann missteig sig. Hafi þetta litið sakleysislega út og þeir álitið stefnanda lítið meiddan.
Á því er byggt af hálfu stefndu að stefnandi hafi með þátttöku sinni í fótboltaleik tekið á sig áhættu er því fylgi. Stefnandi hafi verið þaulkunnugur ástandi vallarins og fullkunnugt um bleytu og aðrar aðstæður á vellinum þegar hann ákvað að ganga til leiksins.
Stefndu mótmæla bótakröfum stefnanda sem ósönnuðum, auk þess séu fjárkröfur stefnanda svo vanreifaðar, hvort heldur er litið til rökstuðnings eða gagna, að varðað getur frávísun málsins frá dómi.
Til stuðnings varakröfu um lækkun er af hálfu stefndu byggt á því að slys stefnanda verði að mestu leyti rakið til vangæslu hans sjálfs. Sé því rétt að stefnandi beri tjón sitt að mestu leyti sjálfur.
IV.
Guðmundur Halldórsson slökkviliðsmaður gaf skýrslu fyrir rétti. Hann kannaðist við skýrslu sína, sem tekin var af lögreglunni á Keflavíkurflugvelli 30. mars 1999 út af slysi stefnanda 28. ágúst 1996, en skýrslan liggur frammi í málinu sem hluti af dskj. nr. 19. Hann kvaðst aðspurður ekki muna nákvæmlega hvaða ár var hafist handa við að gera knattspyrnuvöllinn við slökkvistöðina, sennilega hafi það verið á árinu 1994 eða 1995. Hann sagði að að mestu leyti hefði verið byggt á hyggjuviti manna sem voru þarna hvernig að verkinu var staðið „en eins og menn vita þá þýðir ekkert að hafa knattspyrnuvöll þar sem er forarpyttur". Reynt hafi verið eftir fremst megni að byggja völlinn þannig að yfirborðsvatn lægi ekki á honum.
Guðmundur kvaðst vera húsasmíðameistari að mennt og vita nokkurn veginn hvernig byggja á undir hús. Það hefði verið „svona svipað sem átti sér stað þarna." Hann kvaðst ekki minnast þess að varað hefði verið við því að nota malbiksfræsefni í undirlag. Hann kvaðst ekki minnast þess að prófun hefði verið gerð á því hvernig vatn lekur í gegnum þetta efni. Hann kvaðst hins vegar geta fullyrt að það leki ekki mikið vatn í gegnum malbiksfræsefnið því það hafi þjappast undan því efni sem komið hafi ofan á. Vatnið renni út af vellinum ofan á malbikinu vegna þess að gróf möl sé ofan á malbikinu, sem hleypi vatninu í gegn, en hliðarhalli sé á vellinum.
Guðmundur kvaðst minnast þess að athugasemdir hafi komið frá Sturlaugi Ólafssyni, sem hafði unnið við „götun, sáningu, söndun og áburðardreifingu á knattspyrnuvöll við slökkvistöðina á Keflavíkurflugvelli" skv. tilboði, dags. 8. maí 1996 [sbr. fylgiskjal með dskj. nr. 16]. Hann sagði að vélin, sem Sturlaugur vann með, sé með göddum, sem gangi niður úr henni og taktvist niður í jarðveginn. Hann hafi verið nýbyrjaður þegar þessir gaddar hefðu brotnað. Sturlaugur hefði viljað meina að grjót hefði verið undir. Guðmundur kvaðst hafa verið búinn að segja Sturlaugi hvernig þessi völlur væri byggður. Það væri bögglaberg á ákveðnu dýpi sem hann hefði ekki átt að fara niður í. Guðmundur kvaðst halda að ástæðan fyrir því hvernig fór hafi verið sú að Sturlaugur hefði stillt vélina vitlaust.
Guðmundur sagði að eftir að Sturlaugur hafði lokið sínu verki þá hafi slökkviliðsmenn tekið að sér að dreifa sandi yfir völlinn og ofan í holur þær, er Sturlaugur hafði gert. Sturlaugur hefði dreift áburði yfir völlinn þannig að þetta sumar hefðu slökkviliðsmennirnir ekki þurft að gera það. Slökkviliðsmenn hefðu séð um að slá völlinn á hálfs mánaðar fresti.
Aðspurður hvort í gildi hefðu verið einhverjar reglur um heimild til að nota völlinn miðað við ástand hans á hverjum tíma, sagði Guðmundur að þessi völlur hafi aðeins verið ætlaður slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli og venjan sé sú að farið sé í fótbolta milli kl. 6 og 8 á kvöldin. Engar fastmótaðar reglur hefðu verið settar í sambandi við notkun á vellinum aðrar en að hefði mikið rignt á daginn og völlurinn mjög blautur þá hefði ekki verið talið æskilegt að fara á hann. Guðmundur sagði að einungis í fáum tilvikum hafi öðrum en slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli verið leyft að nota völlinn en þó hafi Íslandsmót slökkviliðsmanna verið haldin á vellinum. Hann sagði að vegna smæðar vallarins færu ekki fram knattspyrnuleikir á vellinum með fullu liði heldur væru mest 7 í hvoru liði. Aðspurður kvaðst hann ekki muna sérstaklega eftir því hvernig ástand vallarins var þegar stefnandi, Örn Sævar, lenti í slysinu.
Guðmundur sagði að slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli hafi frelsi til að velja hvaða íþróttir þeir stundi, hvort þeir fari á þrekhjól, lyftingar, á hlaupabretti eða í fótbolta eða körfubolta. Þarna sé um fjölbreytt val að ræða.
Guðmundur kvað sér ekki kunnugt um að alvarleg slys hefðu orðið á knattspyrnuvellinum fyrr eða eftir slysið sem Örn Sævar varð fyrir. Hann sagði að Örn Sævar hefði verið þjálfaður knattspyrnumaður á árum áður og þekktur sem góður markvörður. Hann hefði oft sýnt það þarna á vellinum að hann var ósérhlífinn og kunni tökin á markvörslu. Guðmundur kvaðst ekki hafa verið á vakt þegar Örn Sævar lenti í slysinu.
Guðmundur sagði að slökkviliðsstjórinn og aðstoðarslökkviliðsstjórinn hefðu falið sér að sjá um gerð knattspyrnuvallarins. Hann sagði að verkfræðideild varnarliðsins hefði lítið komið að verkinu, deildin hefði lánað þeim hæðarkíki og hann sjálfur síðan mælt út hæðirnar á vellinum. Hann kvaðst mikið hafa notað hæðarkíki sem húsasmíðameistari. Hann kvaðst ekki hafa áður stýrt uppbyggingu íþróttavallar. Hann kvaðst ekki hafa séð verklýsingu frá íþróttafulltrúa ríkisins um gerð fótboltavalla. Hann sagði aðspurður að Jón Jóhannesson, fyrrverandi landsliðsmaður, hefði tjáð sér að honum litist vel á völlinn án þess að Jón hefði sjálfur spilað fótbolta á vellinum.
Guðmundur sagði að hann hefði aldrei orðið var við að treglega gengi fyrir vatn eftir rigningar að renna af vellinum. Hann kvaðst ekki vita til þess að vatn sæti á vellinum að sumarlagi, vatn sæti á vellinum þegar frost væri í jörðu að vetrarlagi eins og eðlilegt sé.
Stefnandi, Örn Sævar Júlíusson, gaf skýrslu fyrir réttinum. Hann sagði m.a. að hann hefði átt að vera í fríi daginn sem hann slasaðist. Hringt hefði verið í hann um morguninn og hann beðinn um að mæta á aukavakt, vaktin hefði hafist korter fyrir átta; rignt hefði þennan morgun. Stefnandi sagði að mikið hefði rignt undanfarna daga. Stefnandi sagði að ekkert hefði borið til tíðinda yfir daginn. Hann kvaðst hafa farið á æfingu um kl. 6 um kvöldið.
Stefnandi sagði að fyrirkomulag líkamsæfinga sé þannig að þær séu milli kl. 6 og 7 á kvöldin, skylt sé að stunda þær. Þennan dag hafi hann farið á hlaupabretti inni, þá hafi vaktstjóri, Jónas Marteinsson, sem stjórnaði útiæfingum, komið til hans og beðið hann um að taka þátt í leik sem átti að fara fram úti á grasinu á móti slökkviliðinu í Keflavík. Hann sagði að um undirbúning undir mót slökkviliða hefði verið að ræða. Kvaðst hann hafa fallist á að taka þátt í þessu og vera í marki.
Stefnandi kveðst hafa skipt um skó áður en hann gekk til leiks, fór í svonefnda grasskó, sem gerðir eru fyrir grasvelli. Hann sagði að aðdragandi slyssins hefði verið sá að boltinn hefði verið að koma inn í vítateig utan af vellinum, hann hefði hlaupið á móti boltanum en runnið og fest hægri fótinn og fundið að eitthvað brast í fætinum er hann datt kylliflatur. Þessu hefði fylgt gífurlegur sársauki. Þegar þetta gerðist hefði ástand vallarins verið þannig að ekkert gras hefði verið innan vítateigs, moldarflag á köflum og þar hefði setið vatn.
Stefnandi kvaðst halda að ástæðan fyrir því að hann slasaðist hefði verið að hann hefði farið niður úr yfirborði vallarins, rekið fæti í fast undirlagið og fest fótinn. Hann kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir að gerð vallarins var eins og raun bar vitni.
Stefnandi kvaðst áður hafa stundað knattspyrnu með nokkrum íþróttafélögum en hætt keppni 1984.
Stefnandi kvaðst ekki hafa komið að gerð vallarins að öðru leyti en því að hafa sett niður tré kringum völlinn.
Jónas Hafsteinn Marteinsson skökkviliðsmaður gaf skýrslu. Fyrir hann var lögð lögregluskýrsla, sem tekin hafði verið 16. mars 1999, þar sem hann gerir grein fyrir atvikum varðandi slys stefnanda. Kannaðist hann við að þar væri rétt eftir honum haft. Jónas kvaðst hafa stjórnað útiæfingum 28. ágúst 1996 þegar Örn Sævar slasaðist. Hann sagði að völlurinn hefði verið blautur enda hafði rignt. Hann kvaðst ekki muna hvort rignt hefði meðan á æfingu stóð. Hann kvaðst ekki muna að yfirmenn hefðu mælt fyrir um við hvaða aðstæður ekki mætti nota völlinn en almælt hefði verið að fara varlega við íþróttaiðkanir.
Jónas sagði að mönnum hefði þótt völlurinn „ræsa sig illa". Hann kvaðst muna eftir að menn hefðu tognað á vellinum og einu sinni hefði maður beinbrotnað.
Jónas kvaðst hafa séð þegar stefnandi slasaðist, boltinn hefði komið rúllandi til hliðar við markið. Stefnandi hefði hlaupið á eftir boltanum, skrikað fótur er hann teygði sig eftir boltanum og „skrokkurinn dettur ofan á löppina á honum". Hann kvað þá sem nálægt stóðu hafa heyrt smell. Hlynnt hefði verið að stefnanda og menn höfðu séð bólgumyndun. Aðspurður sagði Jónas að hreyfingar stefnanda og viðbrögð í leiknum hefðu verið með eðlilegum hætti.
Jónas kvaðst ekki hafa skipað stefnanda að taka þátt í knattspyrnu, engum sé skipað að taka þátt í knattspyrnu, menn séu hvattir til þess. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa beðið stefnanda að taka þátt í knattspyrnu þennan dag sem slysið varð.
Lagt var fyrir Jónas dskj. nr. 20, sem er „slysaskýrsla verkstjóra". Kvaðst hann hafa gert þessa skýrslu. Hann kvaðst hafa samið þess skýrslu eftir eigin vitneskju um slysið og upplýsingum, sem hann hefði fengið frá sjúkrahúsinu.
Jónas sagði að völlurinn hefði, er slysið varð, ekki verið verulega hættulegur. Ef svo hefði verið hefði mönnum ekki verið hleypt inn á völlinn. Hann kvaðst ekki minnast þess að vatn hefði legið á vellinum þennan dag. Hann sagði að leiknum hefði ekki verið haldið áfram eftir að Örn Sævar slasaðist. Hann sagði að völlurinn hefði verið notaður í framhaldi af þessu slysi og væri raunar enn notaður en að vísu í minna mæli en áður. Menn væru harðari á því en áður að fara ekki út á völlinn ef hann væri mjög blautur.
Pétur Viðar Júlíusson slökkviliðsmaður gaf skýrslu. Pétur er bróðir stefnanda.
Fyrir hann var lögð lögregluskýrsla, sem tekin hafði verið 16. mars 1999, þar sem hann gerir grein fyrir atvikum varðandi slys stefnanda. Kannaðist hann við að þar væri rétt eftir honum haft. Hann sagði m.a. að ekki hefði verið leyft að nota völlinn fyrr en í byrjun júní á hverju ári. Hann kvaðst minnast þess að menn hefðu misstigið sig og tognað á vellinum umfram „venjulegar tæklingar". Þá hafi Bragi Guðjónsson slökkviliðsmaður tjáð honum að hann hefði hætt að nota völlinn vegna þess að hann hefði rifið vöðva á kálfa við að leika á vellinum. Hann sagði að menn hefðu kvartað undan því að völlurinn væri of harður. Hann sagði að þeir hefðu haldið áfram að leika fótbolta á vellinum eftir að stefnandi slasaðist.
Hörður Hilmarsson slökkviliðsmaður gaf skýrslu. Fyrir hann var lögð lögregluskýrsla, sem tekin hafði verið 17. mars 1999, þar sem hann gerir grein fyrir atvikum varðandi slys stefnanda. Kannaðist hann við að þar væri rétt eftir honum haft en hann muni þó ekki í smáatriðum hvernig slysið vildi til. Hann sagði m.a. að maðurinn sem vann við götun á vellinum sumarið 1996 hefði sagt að völlurinn væri harður en stykki í tækinu til götunar hefðu brotnað.
Hörður sagði að slökkviliðsmönnum væri skylt að stunda líkamsrækt milli kl. 6 og 7 á kvöldin þegar þeir eru á vakt. Tvisvar á ári þurfi þeir að standast þrekpróf. Laun séu skert um svokallað þrekálag ef menn standist ekki prófið og talið sé að viðkomandi séu ekki hæfir til að vera reykkafarar. Ekki hafi reynt á hvað gerðist ef maður stæðist ítrekað ekki þrekpróf en hann gerði ráð fyrir því að viðkomandi yrði látinn hætta.
Hörður sagði að það sem oft réði því að menn færu í fótbolta, frekar en í einhverja aðra líkamsrækt, væri hvernig félögunum gengi að safna í lið hverju sinni. Hann sagði að völlurinn hefði verið notaður á sambærilegan hátt eftir slys stefnanda og fyrir það.
Eyjólfur Ævar Eyjólfsson slökkviliðsmaður gaf skýrslu. Fyrir hann var lögð lögregluskýrsla, sem tekin hafði verið 17. mars 1999, þar sem hann gerir grein fyrir þátttöku sinni í vallargerðinni og hvernig verkið hefði komið honum fyrir sjónir. Kannaðist hann við að þar væri rétt eftir honum haft. Hann sagði m.a. að almennt hefði komið upp í umræðuna þegar unnið var við vallargerðina að vatn næði ekki að síga í gegnum malbikssvarfið sem lagt var á völlinn. Ákveðið hefði verið að taka stóran slökkvibíl og dæla yfir völlinn til að sjá hvernig það kæmi út. Vatnið hefði runnið tiltöluleg fljótt í gegn en um það bil 20.000 lítrum af vatni hefði verið dælt yfir völlinn. Eyjólfur kvaðst hafa komið að vinnunni við vallargerðina vegna þess að hann hefði þungavinnuvélaréttindi og réttindi til að vinna á jarðýtu.
Eyjólfur sagði aðspurður að frekar þungt hefði verið að moka malbikssvarfið miðað við reynslu hans í að moka jarðveg. Efnið hefði verið mjög þungt og þétt.
Eyjólfur sagði að því væri fylgt eftir af yfirmönnum slökkviliðsins að menn stunduðu líkamsrækt á vaktinni milli kl. 6 og 7 á kvöldin. Bókað væri um þátttöku hvers og eins í einhvers konar æfingum á þessum tíma.
Haukur Örn Jóhannesson, öryggisfulltrúi hjá varnarliðinu á Keflavíkur-flugvelli, gaf skýrslu. Fyrir hann var lögð lögregluskýrsla, sem tekin hafði verið 20. apríl 1999, þar sem hann var kallaður til vitnis út af því máli sem hér um ræðir. Hann kannaðist við skýrsluna og undirskrift sína þar. Hann sagðist hafa hafið störf sem öryggisfulltrúi hjá varnarliðinu 20. febrúar 1984. Hann sagði að undir starf hans sem öryggisfulltrúi falli að skoða vinnustaði, bæði hjá íslenskum aðilum og bandarískum aðilum, með tilliti til öryggis á tækjum og búnaði sem starfsmenn hafa á sínum vinnustöðum. Þá sé hann með starfsþjálfun bæði fyrir bandaríska og íslenska starfsmenn. Öryggisfulltrúi skoði tæki, verkfæri og byggingar, svo eitthvað sé nefnt. Öryggisfulltrúar hafi reglulegt eftirlit með öllum vinnustöðum, mánaðarlega, á þriggja mánaða fresti, einu sinni á ári, eftir aðstæðum á hverjum vinnustað.
Haukur sagði að reglulega væru haldnir fundir með slökkviliðsmönnum og eitt af því sem fjallað væri um á þessum fundum væru íþróttaæfingar. Í starfi slökkviliðs-manna felist meðal annars að halda sér í ákveðinni þjálfun. Skýrt sé tekið fram að íþróttaæfingar fari fram með tilliti til aðstæðna hverju sinni og á réttan hátt. Hitað sé upp fyrir æfingar og þær æfingar gerðar sem geta hvers og eins leyfi. Þessu sé beint til manna á mjög skýran hátt.
Fari svo að óhapp verði við íþróttaæfingar, sagði Haukur að öryggisfulltrúi fái það til meðferðar. Fyrst væri því beint til hans símleiðis. Í framhaldi væri farið á staðinn og skoðað hvað hefði gerst. Síðan væri tekið við skýrslu frá verkstjóra þess starfsmanns, sem varð fyrir óhappinu. Í framhaldi af því gæfi öryggisfulltrúi skýrslu til Vinnueftirlits ríkisins og væri um alvarlegri slys að ræða, væri skýrsla einnig send til Bandaríkjanna. Þá sé metið hvort íslenska lögreglan skuli einnig koma á staðinn og íslensk yfirvöld með einhverjum hætti.
Lagt var fyrir Hauk dskj. nr. 13, sem er myndrit af tilkynningu um vinnuslys til Vinnueftirlits ríkisins, dags. 2. sept 1996. Haukur staðfesti að hafa undirritað þessa tilkynningu. Hann sagði að frumrit þessa skjals hefði verið gert skv. viðtölum við viðkomandi verkstjóra og starfsmann, sem varð fyrir óhappinu, og einnig hefði verið byggt á skriflegri skýrslu, sem verkstjórinn hefði gefið öryggisfulltrúa. Kvaðst Haukur hafa í framhaldi gert ítarlegri skýrslu, sem send hefði verið til Bandaríkjanna, vegna þess hvað slysið var alvarlegt. Skýrslan til Bandaríkjanna hefði verið gerð í beinu framhaldi og tilkynningin til vinnueftirlitsins var send. Hann sagði að í skýrslunni til Bandaríkjanna væru umfangsmeiri og ítarlegri upplýsingar um málið.
Haukur sagði að tilkynningin hefði verið saminn án þess að hann hefði átt viðtal við stefnanda. Hann hefði síðar talað við hann. Raunar hefði ekkert nýtt komið fram í því samtali.
Haukur sagði að ekki hefði orðið óhapp á vellinum í líkingu við slysið, sem hér um ræðir. Reyndar hefðu átt sér stað minniháttar óhöpp þarna. Ekki hafi verið talin ástæða til að banna notkun á vellinum. Á hinn bóginn væri því beint til yfirmanna og verkstjóra að nota ekki völlinn þegar hættumeiri aðstæður eru til staðar eins og blautt gras til að mynda og þess sé gætt að útbúnaður leikmanna hæfi aðstæðum.
Narfi Hjörleifsson tæknifræðingur gaf skýrslu. Lögð var fyrir hann greinargerð hans vegna skoðunar á íþróttavelli slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli sem dagsett er 23. október 1998 og liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 14. Staðfesti hann undirritun sína á skjalinu. Hann sagði m.a. að stefnandi hefði fengið hann til að skoða hvernig völlurinn hefði verið byggður upp. Kvaðst hann hafa haft orð stefnanda fyrir því hvar á vellinum slysið átti sér stað. Hafi hann valið þá leið að taka sýni/holur á þremur stöðum á þessu áætlaða svæði til að geta lagt mat á uppbyggingu vallarins.
Narfi sagði að komið hefði í ljós það sem greinargerðin segir. Narfi sagði að að taka yrði mið af því að þegar hann skoðaði völlinn þá hefðu tvö ár verið liðin frá því að stefnandi slasaðist þarna. Hverjar breytingar hefðu átt sér stað á vellinum á þeim tíma, kvað hann sér ekki vera kunnugt um, en greinilegt hefði verið að búið var að tyrfa völlinn aftur á þeim tíma. Þannig hafi hann ekki þekkt ástand vallarins þegar slysið varð. Kvaðst hann hins vegar með því að gera holur í völlinn hafa gert sér nokkra grein fyrir undirbyggingu vallarins. Þar að auki hefði Guðmundur Halldórsson [slökkviliðsmaður], sem séð hafði um uppbyggingu vallarins, lýst fyrir honum neðstu lögum vallarins.
Narfi sagði að fyrir neðan grassvörðinn hafi reynst vera grús, frekar í grófara lagi, með steinum, en það sé ekki eðlileg uppbygging miðað við hvernig grasvellir eru byggðir upp í dag. Þar fyrir neðan sagði Narfi að bögglaberg hefði myndað lag. Til að fá vitneskju um hvort um einhvern mismun í uppbyggingu á vellinum væri að ræða hefðu þrjár holur verið teknar. Komið hafi í ljós að svo hafi ekki verið.
Narfi sagði að samkvæmt hefðbundinni uppbyggingu valla, eins og grasvellir hafi verið lagðir síðustu 10 til 15 ár, jafnvel lengur, þá sé undir þökum hafður hreinn sandur, þ.e. sandur með grófustu kornastærð svona 10 mm. Þar fyrir neðan sé haft burðarlag, sem gæti bæði verið bögglaberg eins og íþróttavöllurinn á Keflavíkur-flugvelli hefur, eða jafnvel grús, eins og næst er grasinu á þeim velli. Aldrei séu þó notuð svona efni með steinum næst grasinu sjálfu í vönduðum völlum.
Aðspurður hvort óhætt væri að setja þökur ofan á grúsarlag eins og þarna hefði verið gert, svaraði Narfi, að það sem ráði mestu sé, að undir þökunum sé jarðlag sem tryggi eðlilegan vöxt rótarkerfis, mjög gróft efni sé þannig ekki talið heppilegt. Hann sagði að eins og oft vilji verða þá spænist gras upp í leik, því sé að auki ekki talið æskilegt að gróft efni sé næst undir grassverðinum sem gæti valdið óþægindum.
Narfi sagði að afleiðing þess að grús er undir grasvellinum á Keflavíkur-flugvelli næst grassverðinum í staðinn fyrir sand sé sú að undirlagið vera þéttara enda sé sandur mun eftirgefanlegri en grús. Efnið, sem gefið er nafnið grús hér sunnanlands, sé efni sem samanstandi af kornum sem eru stærri en 2 mm og upp í steina. Þessi dreifing korna geri það, að efnið pakkist fremur en sandur, sem er eingöngu einkorna - sandur verði alltaf eftirgefanlegri við álag.
Narfi sagði að grús væri ekki notað næst graslaginu á knattspyrnuvöllum, sem byggðir séu upp af íþróttafélögum. Þetta fyrirkomulag væri grundvallað á reynslu, innlendri sem erlendri.
Sturlaugur Ólafsson verktaki gaf skýrslu. Lögð var fyrir hann yfirlýsing sem dags. er 4. júní 1997 og liggur frammi í málinu sem dskj. nr. 16. Staðfesti hann undirritun sína á skjalinu. Þá var lögð fyrir Sturlaug lögregluskýrsla, sem tekin hafði verið 23. mars 1999, þar sem hann var kallaður til vitnis út af því máli sem hér um ræðir. Staðfesti hann undirritun sýna undir skýrsluna. Hann sagði m.a. að hann hefði unnið við það sem kallað er að gata golfvelli og knattspyrnuvelli [Skornar eru holur í grassvörðinn með til þess gerðri vél og holurnar síðan fylltar með sandi. Þetta er gert til að fá betra og meira súrefni fyrir ræturnar]. Kvaðst hann hafa gatað samanlagt 15 mismunandi knattspyrnuvelli. Kvaðst hann hafa tekið að sér að gata knattspyrnu-völlinn á Keflavíkurflugvelli vorið 1996 og taldi hann sig aldrei hafa lent á velli sem hefði eins gróft undirlag og þessi völlur. Hafi hann lent í miklum viðgerðarkostnaði á vélinni þess vegna, kostnaði, sem varð meiri en greiðslan sem hann hefði fengið fyrir verkið - sem var skv. tilboði hans í verkið. Vélin hefði lent í miklu grjóti. Erfitt sé að meta hvers konar grjót hefði verið um að ræða en það hljóti að hafa verið stórir steinar eða klöpp sem vélin hafi lent í. Vélin sé mjög sterk og ætluð til að gata svona velli en ekki ætluð í grjótmulning. Hann kvaðst aldrei hafa lent í því að vélin hefði brotnað með þessum hætti fyrr eða síðar. Hann hefði þurft að kaupa hálfan búnað að nýju í vélina eftir þessar ófarir.
Sturlaugur sagði að ekki hefði verið um það að ræða að vélin hefði verið stillt með röngum hætti, svo sem komið hefði fram í framburði Guðmundar Halldórssonar slökkviliðsmanns fyrir réttinum, vélin sé ekki stillanleg að öðru leyti en að unnt sé að setja mismunandi stórar pípur í hana. Notaðar hefðu verið 90 mm pípur við verkið eins og nánast eingöngu séu notaðar við svona verk nema beðið sé sérstaklega um annað.
Sturlaugur sagði að völlurinn hefði litið illa út þegar hann hóf verkið, skellóttur og mishæðóttur. Hann taldi að það væru örugglega frostlyftingar í þessum velli. Hann kvaðst raunar ekki hafa orðið hissa þegar Örn Sævar kom til hans á sínum tíma og bað hann um að gefa yfirlýsing um völlinn. Hann hefði ekki hugsað út í þetta þegar hann var að vinna verkið, en hann hefði ekki orðið hissa á því að Örn Sævar hefði slasað sig á vellinum, þegar hann hafi komið á hækjunum til hans. Á sínum tíma hefði athygli hans beinst að því að hafa eyðilagt vélina við verkið en ekki að því að menn gætu stórslasað sig á vellinum vegna þess hvernig hann væri byggður.
V.
Niðurstaða:
Í starfslýsingu slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli [dskj. nr. 22.] segi m.a. undir tl. 9: „Slökkviliðsmaðurinn þarf að vera heilsuhraustur og gangast undir reglulegar læknisskoðanir í sjúkrahúsi Varnarliðsins. Hann þarf að hafa góða sjón í samræmi við íslenskar og bandarískar reglugerðir. Þarf að standast sérstakar lungnalæknisskoðun vegna reykköfunar og standast þolpróf samkvæmt kröfum sem gerðar eru til slökkviliðsmanna af slökkviliðsstjóra, íslenskum og bandarískum reglugerðum..." Af framburði slökkviliðsmanna fyrir réttinum verður ráðið að þeim hafi verið skylt að stunda líkamsrækt með einhverjum hætti milli kl. 6 og 7 á kvöldin ef þeir voru á vakt. Í framburði Harðar Hilmarssonar slökkviliðsmanns kom m. a. fram að tvisvar á ári þurfi þeir að standast þrekpróf og laun séu skert um þrekálag ef þeir standist ekki prófið. Eyjólfur Ævar Eyjólfsson slökkviliðsmaður sagði m.a. fyrir réttinum að þess væri getið með bókun að menn stunduðu einhverja líkamsrækt á vaktinni milli kl. 6 og 7 á kvöldin. Raunar er því heldur ekki neitað af stefnda að stefnandi hafi verið að sinna skyldu sinni sem slökkviliðsmaður í vinnu sinni með því að fara í líkamsrækt svo sem hann gerði 28. ágúst 1996. Hins vegar er byggt á því af hálfu stefnda að stefnanda hafi ekki verið skylt að fara á fótboltaæfingu - honum hefði verið frjálst að velja einhverja aðra íþrótt.
Aðilar eru sammála um að stefnanda hafi orðið fótaskortur á vellinum umrætt sinn og hafi það valdið áverka hjá honum um hægri ökkla. Ekki er deilt um niðurstöðu örorkunefndar þar sem segir að varanlegur miski vegna slyssins sé 20% og varanleg örorka 25%. En því er haldið fram af hálfu stefnda að slysið verði ekki rakið til sakar starfsmanna varnaliðsins eða annarrar áhættu er það ber bótaábyrgð á gagnvart stefnanda.
Ekkert bendir til þess að slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli hafi verið varaðir við að fara í fótbolta á fótboltavellinum að kvöldi dags 28. ágúst 1996. Við skýrslutöku, hjá sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, sagði Jónas H. Marteinsson slökkviliðsmaður, er stjórnaði útiæfingum þennan dag, m.a. að verulegur hvati sé til að menn spili fótbolta. Verður stefnandi því ekki talinn hafa tekið augljósa áhættu á eigin ábyrgð við að fara í fótbolta í stað þess að gera eitthvað annað sér til heilsubótar í þetta sinn.
Ágreiningslaust er hvernig fótboltavöllurinn á Keflavíkurflugvelli er byggður. Og af gögnum málsins má ráða að völlurinn hafi verið lagður með vitund og vilja Varnaliðsins á Keflavíkurflugvelli. Hafi völlurinn verið ætlaður til þess að slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli gætu stundað fótbolta utan dyra með það að markmiði að þeir væru í líkamlegri þjálfun sem hæfði starfinu. Mönnum greinir hins vegar á um, hvort völlurinn sé þannig gerður, að hann sé hættulegri til íþróttaiðkunar en menn eiga almennt að venjast. Af greinargerð Narfa Hjörleifssonar tæknifræðings og framburði hans fyrir rétti og vitnisburði Sturlaugs Ólafssonar verður ráðið, að völlurinn sé óvenjulega harður undir grassverðinum. Þá hefur ekkert komið fram í málinu, sem bendir til þess, að stefnandi hafi hagað sér á einhvern hátt ógætilega í leiknum Þannig eru allar líkur á því að harka undirlagsins hafi valdið því að svo fór sem fór. Verður Varnarliðið því talið bera ábyrgð á slysi stefnanda.
Stefnandi hefur gert ítarlega grein fyrir útreikningi á bótakröfu sinni og þykir mega fallast á kröfufjárhæðina. Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda fjárhæðina með vöxtum svo sem í dómsorði greinir.
Stefndi greiði málskostnað, 946.757 krónur, þar með er talinn útlagður kostnaður, 54.630 krónur, í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 946.757 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Kristjáns B. Thorlacius hdl., 892.127 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar er litið til virðisaukaskattskyldu þóknunarinnar.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Erni Sævari Júlíussyni, 8.660.841 krónu með vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 28. ágúst 1996 til 12. nóvember 1999, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Allt að frádregnum 3.289.914 krónum 8. apríl 1998.
Stefndi greiði málskostnað, 946.757 krónur, er renna í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 946.757 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Kristjáns B. Thorlacius hdl., 892.127 krónur, greiðast úr ríkissjóði.