Hæstiréttur íslands
Mál nr. 30/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Kyrrsetning
- Res Judicata
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 10. febrúar 2003. |
|
Nr. 30/2003. |
Kristín Ólafsdóttir(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Kærumál. Kyrrsetning. Res judicata. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
K krafðist þess að felldar yrðu úr gildi kyrrsetningar Í í eignarhluta S í nánar tilgreindri fasteign, en S var fyrrverandi eiginmaður K. Áður höfðu verið kveðnir upp dómar í héraðsdómi í tveimur málum Í gegn S, þar sem kröfur Í gegn honum höfðu verið teknar til greina og jafnframt staðfestar þær kyrrsetningargerðir, sem krafa K laut að. Talið var að áðurnefndir dómar í málum Í gegn S fælu í sér bindandi úrslit milli aðila þeirra mála um sakarefnið, sem þar var dæmt að efni til, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Þessi réttaráhrif dómanna næðu hins vegar ekki til máls K gegn Í, en K hafi ekki verið aðili að kröfugerð í fyrrnefndu málunum. Var hinn kærði úrskurður um frávísun málsins því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2002, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hún krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í hinum kærða úrskurði greinir frá því að 5. júní 2002 hafi verið kveðnir upp dómar í Héraðsdómi Reykjavíkur í tveimur málum varnaraðila gegn Stephen Peter McKeefry, fyrrum eiginmanni sóknaraðila. Hafi kröfur varnaraðila gegn honum verið teknar þar til greina og jafnframt staðfestar kyrrsetningargerðir, sem krafa sóknaraðila þessa máls tekur til. Reisir sóknaraðili málsókn sína á heimild í 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Áðurnefndir dómar í málum varnaraðila gegn Stephen Peter McKeefry fela í sér bindandi úrslit milli aðila þeirra mála um sakarefnið, sem þar var dæmt að efni til, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Þessi réttaráhrif dómanna ná ekki til þessa máls, en sóknaraðili var ekki aðili að kröfugerð í fyrrnefndu málunum. Verður hinn kærði úrskurður samkvæmt því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Verður varnaraðila jafnframt gert að greiða kærumálskostnað, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Íslandsbanki hf., greiði sóknaraðila, Kristínu Ólafsdóttur, 60.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2002.
I
Mál þetta var höfðað 14. febrúar 2002 og dómtekið 4. desember 2002. Stefnandi er Kristín Ólafsdóttir kt. 180172-4089, Þórsgötu 19, Reykjavík en stefnandi er Íslandsbanki hf. útibú 527, kt. 421289-2719, Skútuvogi 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að kyrrsetningar stefnda í eignarhluta Stephen Peter McKeefry í fasteigninni Þórsgötu 19, Reykjavík fyrir annars vegar kröfu að fjárhæð 529.007 krónur en hins vegar kröfu að fjárhæð 383.645 krónur auk kostnaðar verði felldar úr gildi. Þá krefst hún málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og auk þess krefst hann málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Óumdeilt er í máli þessu að stefndi á kröfur á hendur fyrrverandi eiginmanni stefnanda, Stephen Peter Mckeefry, kt. 140771-2609, annars vegar vegna skuldar á tékkareikningi nr. 1971 við Íslandsbanka hf. 527, auk skuldar vegna VISA, korts nr. 45074300-0027-0453. Þann 27. júlí 2001 var var bú stefnanda og Stephen tekið til opinberra skipta til fjárslita og var Sigurður Georgsson hrl. skipaður skiptastjóri. Sýslumaðurinn í Reykjavík gaf út leyfi til skilnaðar að borði og sæng þann 31. desember 2001.
Fyrrgreindar skuldir voru í vanskilum og hafði stefndi af því áhyggjur að eignum Stephen og stefnanda yrði skipt upp og að Stephen gæti eftir þau skipti skotið undan eignum sínum á Íslandi þegar fjárskiptum lyki og ákvað hann að krefjast kyrrsetningar í eignarhlut Stephens í fasteign búsins og hefur stefndi haldið fram að miðað við fyrirliggjandi veðbókarvottorð hafi Stephen virst eiga nokkurn hlut í fasteigninni að frádregnum áhvílandi skuldum, en á eigninni hafi húsbréf hvílt á fyrsta og öðrum veðrétti, en á þriðja veðrétti hafi hvílt fjárnám að fjárhæð 19.515 krónur á eignarhluta Stephen en á fjórða veðrétti hafi hvílt fjárnám að fjárhæð 1.593.350 krónur á eignarhluta stefnanda. Miðað við þetta hafi Stephen átt meira í eigninni en stefnandi.
Stefndi sendi sýslumanninum í Reykjavík kyrrsetningarbeiðnir og tók sýslumaður þær fyrir á lögheimili gerðarþolans Stephen og kemur fram í endurritum af gerðinni að svo væri gert þar sem grunur væri á að gerðarþoli væri fluttur úr landi eða dveldist erlendis og því gæti reynst erfitt að boða hann til gerðarinnar. Enginn hittist fyrir á lögheimili gerðarþola og ákvað fulltrúi sýslumanns að ljúka gerðunum þar og var svo gert, með kyrrsetningu á eignarhluta gerðarþola í fasteigninni að Þórsgötu 19, Reykjavík. Var kyrrsetningargerðum þessum svo þinglýst á fasteignina þann 23. nóvember 2001.
Þann 27. nóvember 2001 gaf skiptastjóri búsins út yfirlýsingu um að ákveðið hafi verið á skiptafundi 16. nóvember 2001 að leggja stefnanda út eignarhluta þeirra hjóna í fasteigninni Þórsgötu 19, Reykjavík.
Dómstjórinn í Reykjavík gaf síðan út réttarstefnu þann 26. nóvember 2001 vegna höfðunar máls stefnda á hendur Stephen vegna fyrrnefndra skulda og staðfestingar á fyrrgreindum kyrrsetningum. Mál þessi, E-11/2002 og E-13/2002 voru dómtekin 22. janúar 2002 vegna útivistar Stephen og fór stefnandi fram á að þau væru endurupptekin og sameinuð þessu máli. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2002 var kröfu þeirri hafnað og með dómi Hæstaréttar 2. september 2002 var sú niðurstaða staðfest. Þann 5. júní 2002 voru kveðnir upp dómar í framangreindum útivistarmálum þar sem dómkröfur stefnda á hendur Stephen voru teknar til greina og var hann dæmdur til greiðslu skulda að fjárhæð 309.568 krónur auk dráttarvaxta og 451.580 krónur auk dráttarvaxta. Þá voru í dómum þessum staðfestar kyrrsetningargerðir þær sem um er fjallað í þessu máli og Stephen dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
III
Stefnandi byggir kröfu sína um að kyrrsetningarnar verði felldar niður á því að ákvæði laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 90/1989, hafi verið brotin við framkvæmd gerðarinnar. Í kyrrsetningarbeiðnum stefnda komi fram að hann hafi vitað að í gangi væru opinber fjárskipti á félagsbúi stefnanda og Stephens. Skiptastjóri í fjárslitamáli stefnanda og Stephen hafi þann 30. ágúst 2001 ritað sýslumanninum í Reykjavík bréf og óskað eftir því að bifreið búsins sem og fasteign þess yrðu ekki seldar án samþykkis skiptastjóra. Athugasemd um þetta hafi verið færð í þinglýsingarbækur 4. september 2001. Í þinglýsingarbókum hafi því legið fyrir upplýsingar um það að bú stefnanda og Stephens voru undir opinberum skiptum vegna hjónaskilnaðar þeirra og hver skiptastjóri væri.
Stefndi hafi farið fram á það að kyrrsetningargerðirnar færu fram án boðunar og hafi hann borið við hættu á undanskoti eigna af hálfu Stephen, eins og fram komi í gerðarbeiðnunum. Samkvæmt lokamálsgrein 8. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. fari um viðurvist málsaðila eða málsvara þeirra við kyrrsetningu eftir fyrirmælum 20. - 24. gr. og 35. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Það sé skýr meginregla í 21. gr. aðfararlaga að gerðarþola skuli tilkynnt með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram. Undantekningar séu þó frá þessari tilkynningarskyldu, sbr. 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga. Undantekningarnar beri að skýra þröngt þar sem meginreglan sé sú að gerðarþola skuli boða.
Virðist sýslumaður hafa fallist á fullyrðingar stefnda um að hann yrði fyrir réttarspjöllum ef reynt yrði að tilkynna Stephen um gerðirnar. Stefnandi telur að engin þeirra undantekninga sem 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga tilgreini hafi átt við í þessu tilviki og því hafi framkvæmd gerðanna án tilkynningar til Stephen sem gerðarþola verið ólögmæt. Þegar af þeirri ástæðu beri að fella gerðirnar úr gildi.
Verði talið að einhver undantekninga 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga hafi átt við þannig að heimilt hafi verið að hefja kyrrsetningarnar án tilkynningar til gerðarþola þá byggi stefnandi kröfu sína um niðurfellingu gerðanna á því að framkvæmd kyrrsetningagerðanna hafi verið ólögmæt.
Í 2. mgr. 22. gr. aðfararlaga segi að ef gerðarþola hafi ekki verið send tilkynning um gerðina skuli byrja kyrrsetninguna á heimili hans, en ella á vinnustað hans eða þeim stað öðrum, þar sem sennilegast þyki að hann eða málsvari hann muni hittast fyrir. Ákvæðið geri þannig ráð fyrir, þegar tilkynning hafi ekki verið send, að allt sé gert til að hitta gerðarþola fyrir vegna gerðarinnar. Ef það takist ekki beri sýslumanni að fresta gerðinni, sbr. 3. mgr. 24. gr. aðfararlaga.
Hafi sýslumaður byrjað kyrrsetningargerðirnar á lögheimili gerðarþola Stephens, án þess að senda honum tilkynningu um gerðirnar. Enginn hafi hist fyrir á lögheimili gerðarþola Stephen til að taka málstað hans og hafi sýslumanni því borið að fresta gerðinni svo unnt væri að tilkynna honum um gerðina eða einhverjum sem talað gæti máli hans. Telur stefnandi þessa framkvæmd kyrrsetningargerðanna skýlaust brot á ákvæði 24. gr. aðfararlaga. Kyrrsetningargerðirnar séu þannig ólögmætar og því beri að fella þær úr gildi.
Verði talið að framkvæmd kyrrsetningargerðanna hafi verið lögum samkvæmt þá byggi stefnandi kröfur sínar á því að réttarstefnur vegna kyrrsetningargerðanna hafi verið birtar á lögheimili Stephen að Álfatúni 21, Kópavogi 17. desember 2001. Réttarstefnurnar tilgreini hins vegar lögheimili stefnda sem Þórsgötu 19. Þá sé stefnufrestur tilgreindur 3 sólarhringar þótt stefnda hafi verið fullkunnugt um það að dvalarstaður Stephen væri á Nýja Sjálandi. Stefnufrestur hafi því átt að vera einn mánuður, sbr. 3. mgr. 91. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Kröfu sína um málskostnað kveðst stefnandi byggja á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggi á lögum 50/1988.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að kröfur hans séu réttmætar og að þeim hafi verið fylgt eftir með réttmætum hætti. Stefndi telur stefnanda ekki vera aðila að ofangreindum skuldamálum milli stefnda og Stephens, enda hefur stefnandi ekki uppi athugasemdir um að þær kröfur séu réttar. Stefnandi byggi aðild sína að máli þessu á 40. gr. laga um kyrrsetningu nr. 31/1990 og virðist byggja málið upp á því, að gerðarþoli Stephen hafi ekki í raun átt hagsmuni í eigninni Þórsgötu 19, Reykjavík. Þessu mótmælir stefndi og bendir á, að gerðarþoli hafi samkvæmt þinglýstum eignarheimildum átt þennan rétt og hafi stefnda verið rétt að kyrrsetja hluta hans til tryggingar kröfum sínum. Jafnvel þótt fjárskipti stefnanda og Stephens hafi verið til opinberra skipta komi það ekki í veg fyrir að skuldheimtumenn aðila geti gengið að skráðum eignarhlutum viðkomandi til tryggingar kröfum sínum. Ekkert í lögum um skipti dánarbúa ofl. komi í veg fyrir það.
Stefndi mótmælir þeirri afstöðu stefnanda að kyrrsetningargerð skuli felld úr gildi, þar sem meginreglan sé sú samkvæmt 21. gr. aðfararlaga, að gerðarþola sé tilkynnt um gerðina. Sé gert ráð fyrir því í 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga að taka megi fyrir gerð án boðunar. Í kyrrsetningarmálum þeim sem deilt sé um hafi stefndi vísað til þeirrar greinar og hafi fulltrúi sýslumanns fallist á þau rök. Verði ekki séð að neitt það hafi komið fram sem réttlæti endurskoðun þeirrar ákvörðunar sýslumanns. Þá skuli bent á varðandi þá skoðun stefnanda, að túlka beri þröngt undanþágur frá skilyrði um boðun gerðarþola, að gerðarbeiðandi vísi til 21. gr. aðfararlaga. Í greinargerð með 21. gr. sé fjallað um þá breytingu sem gerð hafi verið með aðfararlögum varðandi boðun. Sé þar sérstaklega vísað til þess, að breyting þessi sé nauðsynleg á aðfararlögum, vegna fjölgunar á beinum aðfararheimildum. Sé það gert þar sem þar séu verulega takmarkaðir möguleikar gerðarþola til að koma athugasemdum sínum á framfæri eða til að taka til varna fyrir dómsstólum. Með því megi segja að sú áhersla sem þar komi fram eigi síður við um kyrrsetningargerðir, þar sem þeim fylgi ávallt sú kvöð, að kyrrsetningarmáli verði að stefna til staðfestingar. Gefist þá gerðarþola tækifæri til að hafa uppi athugasemdir og mótmæli við kröfu sem beint sé að honum á því stigi. Verði því að mótmæla, að 21. gr. aðfararlaga komi í veg fyrir að taka megi fyrir kyrrsetningargerð á heimili gerðarþola án boðunar, auk þess megi vísa til 2.tl., 3.tl. og 6. tl. 21. gr. aðfararlaga sem eigi allar við í fyrrgreindum málum og réttlæti fyrirtöku án boðunar.
Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að framkvæmd kyrrsetningargerðarinnar hafi verið ólögmæt með vísan til þess að óheimilt hafi verið að ljúka gerðinni þar sem ekki hafi tekist að hitta gerðarþola fyrir og vísar þar máli sínu til stuðnings til 3. mgr. 24. gr. aðfararlaga. Skilja verði l. og 2. mgr. 24. gr. að þar sé gert ráð fyrir boðun gerðarþola til gerðar og að rétt sé að fresta gerðinni, hafi ekki náðst að boðagerðarþola og enginn sé viðstaddur til að tala máli hans.
Undantekningu sé að finna í 3. mgr. þar sem segi að sé enginn viðstaddur sem geti tekið málsstað gerðarþola, þá sé sýslumanni rétt að fresta gerðinni. Hins vegar segi í 3. mgr. if. 24. gr. aðfararlaga, að ef hagsmunir gerðarbeiðanda leyfi ekki að gerð verði frestað frekar sé sýslumanni heimilt að fara þangað sem gerðarþoli hafi heimili eða skráð aðsetur og ljúka gerðinni í samræmi við kröfur gerðarbeiðanda. Verði þannig ekki fallist á það með stefnanda að gerðin hafi verið ólögmæt heldur hafi sýslumaður metið málsatvik þannig að ljúka mætti gerðinni á lögheimili gerðarþola eins og gert hafi verið. Megi hér einnig benda á ákvæði 2. mgr. 22. gr. aðfararlaga sem mæli fyrir um að ef gerðarþola sé ekki send tilkynning samkvæmt 21. gr. aðfararlaga, skuli hefja aðför á heimili gerðarþola. Hafi því gerðarbeiðandi og sýslumaður verið í fullum rétti að hefja umrædda gerð á heimili gerðarþola.
Varðandi þá málsástæðu stefnanda, að hafi verið heimilt að hefja kyrrsetningargerðina, en ekki heimilt að ljúka henni, þá sé þeirri málsástæðu mótmælt og vísað til 3. mgr. if. 24. gr. aðfararalaga, ásamt útskýringa í greinargerð þar sem fjallað sé um hvenær megi ljúka gerð án þess að gerðarþoli hittist fyrir og hvaða takmarkanir geti verið á því. Einnig byggi stefndi á því varðandi ofangreindar málsástæður að túlka verði þær út frá því að um sé að ræða málsmeðferðarreglur aðfarar og sé eðlismunur á aðför og kyrrsetningu sem varði beinar aðfararheimildir. Þegar aðfararlög hafi verið sett hafi beinar aðfararheimildir verið auknar verulega sem merki að gerðarþolar hafi við aðför ekki haft möguleika á að hafa uppi varnir um kröfu þá sem beint er að þeim. Vegna þessa sé meira lagt upp úr því í aðfararlögum að gerðarþola sé kunnugt um að verið sé að taka fyrir kröfur á hendur þeim. Þetta eigi ekki við um kyrrsetningu meðal annars vegna þess að kyrrsetningarlög geri skilyrðislaust ráð fyrir því að mál sé höfðað til staðfestingar gerðinni eftir að hún hafi farið fram. Gerðin sé þannig í eðli sínu bráðabirgðaaðgerð og sem slík og með hliðsjón af framangreindu hljóti að verða túlka þröngt þar skorður sem settar séu við framkvæmd slíkrar bráðabirgðagerðar.
Þá sé mótmælt þeirri málsástæðu að rangur stefnufrestur hafi verið gefinn í stefnu. Réttarstefnur séu gefnar út 26. nóvember 2001 og á þeim tíma hafi Stephen verið með lögheimili að Þórsgötu 19, Reykjavík. Stefna hafi verið send til birtingar en þann 14.desember 2001, áður en birting hafi tekist, hafi Stephen flutt lögheimili sitt að Álfatúni 21, Kópavogi. Hafi því stefna á hendur honum verið birt á lögheimili hans, svo sem einkamálalög geri ráð fyrir, sbr. 32. gr. einkamálalaga, sbr. og 85. gr. 3. mgr. töluliður a, þar sem komi skýrt fram, að stefnubirting sé lögmæt, ef birt sé á skráðu lögheimili fyrir einhverjum sem þar hittist fyrir. Hvergi í einkamálalögum sé stefnanda gert skylt að leita uppi dvalarstað þess sem stefnt sé.
Þá mótmælir stefndi því að hagsmunir stefnanda sem byggi á 40. gr. laga um kyrrsetningu geti náð til formreglna í staðfestingarmáli. Hljóti hagsmunir þeir sem 40. gr. nái til að takmarkast við kyrrsetningargerðina sjálfa. Þá sé því einnig mótmælt að málsástæða þessi eigi við í máli þessu enda um að ræða atriði sem dómara staðfestingarmálanna sé rétt að skoða ex officio.
Um sýknukröfur sínar vísar stefndi til laga nr. 90/1989, laga nr. 31/1990, laga nr. 91/1991 og laga nr. 20/1991. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun til laga 50/1988.
V
Stefnandi byggir málsókn sína á 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann en þar segir að þriðji maður, sem telur rétti sínum hallað í sambandi við kyrrsetningar- eða lögbannsgerð, geti haft uppi kröfur sínar í staðfestingarmáli með meðalgöngu eða sótt þær í sérstöku máli, hvort sem er til niðurfellingar gerðar eða til skaðabóta vegna hennar. Þá segir í 41. gr. laganna að í slíku máli megi hafi uppi málsvarnir um kröfu gerðarbeiðanda hvort sem þeim var hreyft við framkvæmd hennar eða ekki og með sama hætti megi hafa uppi varnir um gildi gerðarinnar að því leyti sem héraðsdómur hafi ekki leyst úr þeim í máli til staðfestingar kyrrsetningu eða lögbanni.
Málatilbúnaður stefnanda byggir á því fyrst og fremst að ákvæði laga nr. 31/1990 sbr. lög nr. 90/1989 um aðför hafi verið brotin við framkvæmd þeirra kyrrsetninga sem mál þetta fjallar um.
Eins og rakið hefur verið hafa verið kveðnir upp dómar varðandi kröfur stefnda á hendur Stephen Peter McKeefry í málum nr. E-11/2002 og E-13/2002, þar sem segir um þær kyrrsetningargerðir sem hér er deilt um, að skjöl séu í samræmi við dómkröfur stefnandans, stefnda í þessu máli, og skilyrði til kyrrsetningar samkvæmt lögum nr. 31/1990 uppfyllt. Voru því kröfur stefnanda þeirra mála teknar til greina að öllu leyti og umdeildar kyrrsetningargerðir í eignarhluta gerðarþolans Stephen staðfestar.
Í 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 segir að krafa sem hefur verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segi í þessum og skuli nýju máli um slíka kröfu vísað frá dómi.
Með því að umdeildar kyrrsetningargerðir voru staðfestar í fyrrgreindum dómum á þeim forsendum að skilyrði hafi verið til kyrrsetningar samkvæmt lögum nr. 31/1990 hefur héraðsdómur leyst úr þeim vörnum sem stefnandi hefur uppi um gildi gerðarinnar í þessu máli. Verður því ekki í þessu máli hreyft við þegar dæmdum kröfum stefnda vegna kyrrsetninga í fasteigninni Þórsgötu 19, Reykjavík. Þegar af þessari ástæðu verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.
Eftir atvikum þykir þó rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Dögg Pálsdóttir hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Jón Ármann Guðjónsson hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Málskostnaður fellur niður.