Hæstiréttur íslands
Mál nr. 640/2010
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
|
|
Miðvikudaginn 1. júní 2011. |
|
Nr. 640/2010.
|
Unnur Aðalbjörg Hauksdóttir (Jón Auðunn Jónsson hrl.) gegn Félagi áhugafólks og aðstandenda alzheimersjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Ráðningarsamningur. Uppsögn.
U starfaði hjá F og í ráðningarsamningi hennar var kveðið á um að heimili hennar skyldi vera vinnustaður hennar. Með bréfi 16. apríl 2009 var U tilkynnt um ákvörðun stjórnar F þess efnis að öll skrifstofustarfsemi félagsins yrði flutt á einn stað, að Hátúni 10b. Með bréfi 29. apríl sama ár var U sagt upp störfum með vísan til þess að hún hefði verulega vanefnt starfsskyldur sínar. Deila aðila fyrir Hæstarétti laut að því hvort U hefði verið sagt upp þannig að henni hefði borið laun í uppsagnarfresti eða hvort F hefði mátt rifta ráðningarsamningnum. Þá deildu aðilar um hvort F hefði verið heimilt að skuldajafna skaðabótakröfu sinni við kröfu U. Hæstiréttur féllst á með U að samningur við F um að heimili hennar skyldi vera vinnustaðar hennar væri hluti ráðningarkjara, sem ekki yrði breytt nema að undangenginni uppsögn. U bæri því réttur til launa í uppsagnarfresti, sem hefði verið einn mánuður samkvæmt þágildandi kjarasamningi stéttarfélags hennar. Þá var F talið heimilt að skuldajafna skaðabótakröfu sinni við kröfu U.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar samkvæmt áfrýjunarstefnu sem lögð var fyrir skrifstofu Hæstaréttar 25. september 2010 en gefin út 27. sama mánaðar. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 10. nóvember 2010 og var málinu, með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, áfrýjað öðru sinni 16. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.019.229 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. apríl 2009 til greiðsludags, að frádregnum innborgunum 129.125 krónur 17. júlí 2009, 229.460 krónur 4. ágúst 2009, 114.730 krónur 1. desember 2009 og 343.640 krónur 2. júlí 2010. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram hjá málsaðilum að stefndu í héraði, Fríðuhús-dagvistun minnissjúkra, Drafnarhús-félag og Maríuhús-dagþjálfun væru í raun sérstakar deildir í stefnda Félagi áhugafólks og aðstandenda alzheimersjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma og lytu stjórn þess félags. Voru málsaðilar sammála um að fella niður aðild þessara deilda stefnda að málinu.
II
Eins og fram kemur í héraðsdómi hafði áfrýjandi verið starfsmaður stefnda í tæplega þrjú ár er henni var sagt upp störfum í apríl 2009 á þeim grunni að hún hefði verulega vanefnt starfsskyldur sínar. Áfrýjandi fékk hvorki greidd laun fyrir þann mánuð né í uppsagnarfresti. Hún taldi uppsögnina ólögmæta. Gerði hún kröfu um að fá greidd laun fyrir aprílmánuð 2009 og laun í uppsagnarfresti sem hún kvað hafa verið þrír mánuðir miðað við 1. maí 2009. Þá krafðist hún greiðslu vegna útlagðs skrifstofukostnaðar. Stefndi krafði áfrýjanda á hinn bóginn um greiðslu skaðabóta sökum þess að áfrýjandi hefði ekki skilað stefnda tölvubúnaði í eigu stefnda, sem áfrýjandi hefði haft til afnota við störf sín.
Með hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi verið heimilt að rifta ráðningarsamningnum án greiðslu launa í uppsagnarfresti og einnig var fallist á kröfu stefnda vegna tölvubúnaðarins að fjárhæð 229.614 krónur. Á hinn bóginn var áfrýjandi talin eiga rétt á launum fyrir allan aprílmánuð 2009 að fjárhæð 502.317 krónur, þó riftun hafi verið talin taka gildi 29. þess mánaðar. Jafnframt var fallist á að áfrýjandi hafi átt rétt til greiðslu útlagðs skrifstofukostnaðar vegna frímerkja og blekhylkis að fjárhæð 9.990 krónur. Þá var málskostnaður felldur niður.
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms greiddi stefndi áfrýjanda skuldina samkvæmt dómsorðinu, 282.693 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. maí til 30. júní 2010. Stendur þá eftir sá ágreiningur hvort áfrýjanda hafi verið sagt upp með ólögmætum hætti þannig að henni hafi borið laun í uppsagnarfresti og hvort stefnda hafi verið heimilt að skuldajafna skaðabótakröfu sinni við kröfu áfrýjanda.
III
Fram er komið að áfrýjandi var ráðin til starfa hjá stefnda um haustið 2006. Var starf hennar fólgið í að vera aðstoðarmaður Hauks Helgasonar þáverandi framkvæmdastjóra stefnda. Haukur er faðir áfrýjanda. Vegna aukins umfangs í starfsemi stefnda ákvað stjórn hans að ráða um vorið 2008 til viðbótar annan framkvæmdastjóra, Ernu Björk Jónsdóttur. Átti hún að starfa við hlið Hauks en annast störf er lutu ekki beinlínis að þeim húsum sem fyrr voru nefnd. Til samræmis við framangreint mun hafa verið gerð breyting á umfangi starfs áfrýjanda, sem þó var áfram sérstakur aðstoðarmaður Hauks. Var þá fyrst gerður skriflegur ráðningarsamningur við áfrýjanda en í honum kemur fram að hann hafi verið kynntur á stjórnarfundi stefnda 7. maí 2008.
Í samningnum var verksviði áfrýjanda lýst þannig: „Annast starf samkvæmt fyrirliggjandi starfsheiti „skrifstofumaður“.“ Þá var að finna ákvæði um laun áfrýjanda og um greiðslu fyrir akstur, 300 km fyrir hvern mánuð. Loks var kveðið á um að samningurinn skyldi gilda frá 1. júlí 2008 og vera „uppsegjanlegur samkvæmt kjarasamningum viðkomandi starfsmanns og stéttarfélags hans.“ Í gögnum málsins er að finna starfslýsingu áfrýjanda, sem einnig var kynnt á fundi stjórnar stefnda 7. maí 2008. Þar kemur meðal annars fram að næsti yfirmaður áfrýjanda sé framkvæmdastjóri sá sem annast eigi starfsemi húsa stefnda. Í starfslýsingunni eru þættir starfs áfrýjanda taldir upp í mörgum liðum og voru þeir meðal annars fólgnir í að útbúa reikninga fyrir Tryggingastofnun ríkisins, setja upp launakerfi í svokölluðu dk-hugbúnaðarkerfi, ganga frá og senda út launaseðla, annast skilagreinar til lífeyrissjóða og stéttarfélaga, annast vefskil á skatti, setja upp skjöl til bókhalds, útbúa og senda út reikninga.
Auk þessa gerði Haukur Helgason skriflegan samning við áfrýjanda 15. júlí 2008, með gildistíma frá 1. þess mánaðar „um vinnuaðstöðu“. Í samningnum segir að áfrýjandi leggi til húsnæði, ljós, hita og búnað fyrir þá vinnu sem hún inni af höndum.
Erna Björk Jónsdóttir lét af störfum fyrir stefnda um áramótin 2009 og var Svava Aradóttir ráðin framkvæmdastjóri í hennar stað. Fram er komið að gert hafi verið ráð fyrir að Haukur Helgason skyldi vera Svövu innan handar við upphaf starfa hennar. Í byrjun mars 2009 veiktist Haukur á hinn bóginn alvarlega og gat ekki sinnt störfum sínum eftir það. Fól stjórn stefnda því Svövu að annast einnig þá starfsemi stefnda sem heyrt hafði undir Hauk. Í héraðsdómi eru að nokkru rakin samskipti Svövu og áfrýjanda í mars og apríl 2009 og segir í dóminum að áfrýjandi hafi ekki svarað bréfum og fyrirspurnum Svövu eftir 7. apríl 2009. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn lagt fyrir Hæstarétt ný gögn sem bera með sér að bréfleg samskipti hafi átt sér stað milli þeirra Svövu eftir þann tíma. Til að mynda segir í bréfi áfrýjanda til framkvæmdastjóra stefnda 14. apríl 2009, sem var fyrsti virkur dagur eftir páska það ár: „Sæl Svava, ég verð upp á spítala með dótturinni í dag. Hef samband í fyrramálið.“ Þá lýsir áfrýjandi í bréfi til Svövu 24. apríl spítalavist dóttur sinnar og vilja sínum til að sinna störfum með þeim orðum að „allt verður komið í eðlilegt horf núna á allra næstu dögum.“ Áfrýjandi lagði fram fyrir Hæstarétt vottorð um læknismeðferð langveikrar dóttur sinnar til loka apríl 2009. Stefndi hefur ekki andmælt efni þessara gagna, að öðru leyti en því að ekki sé tekið undir þá fullyrðingu sem fram kemur í áðurnefndu bréfi áfrýjanda 24. apríl 2009 að hún hafi ítrekað sent Svövu skrifleg skilaboð gegnum síma.
Eins og fram kemur í héraðsdómi sendi María Th. Jónsdóttir formaður stefnda bréf til áfrýjanda 16. apríl 2009 þar sem segir: „Á fundi sínum þann 15. apríl 2009 samþykkti stjórn FAAS eftirfarandi bókun: „Stjórn ákvað að öll starfsemi félagsins verði tafarlaust og ekki seinna en 25. apríl nk. flutt á einn stað, það er í Þjónustusetrið í Hátúni 10b og full skrifstofustarfsemi félagsins hefjist frá þjónustusetrinu frá og með 30. apríl 2009“. Þetta þýðir að öll þau gögn og tækjabúnaður í eigu FAAS sem nú eru í notkun á heimili þínu að Einivöllum 5 í Hafnarfirði, eiga að vera flutt í húsnæði Þjónustusetursins innan ofangreindra tímamarka. Þar með fer öll skrifstofuvinna félagsins - þar með talin þín vinna - fram á skrifstofu félagsins að Hátúni 10, b frá og með 25. apríl nk. ...“ Áfrýjandi brást ekki sérstaklega við bréfi þessu, en fram er komið að henni barst ekki bréfið fyrr en 27. apríl 2009. Þá sendi stefndi áfrýjanda bréf 29. apríl 2009, en þar segir meðal annars svo: „Vegna vanrækslu og brotthlaups úr starfi ert þú ekki lengur starfsmaður FAAS-félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimersjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma og ber þér að skila af þér öllum gögnum og tækjabúnaði í eigu félagsins sem eru í vörslu á heimili þínu ... í síðasta lagi föstudaginn 8. maí 2009 kl. 16.00.“
IV
Þrátt fyrir að málsaðila greini á um hvort framangreint bréf stefnda 27. apríl 2009 eða bréf hans 16. sama mánaðar hafi falið í sér riftun á ráðningarsamningi við áfrýjanda, eru aðilar sammála um að áfrýjanda hafi borist bæði þessi bréf fyrir lok apríl 2009. Reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn raunar á því að henni hafi verið sagt upp störfum þegar hinn 16. apríl 2009.
Eins og áður greinir kvað framangreindur samningur 15. júlí 2008 á um að áfrýjandi skyldi inna starf sitt af hendi frá heimili sínu. Fram kom í skýrslu Maríu Th. Jónsdóttur, formanns stjórnar stefnda, fyrir héraðsdómi að hún hafi vitað að áfrýjandi sinnti starfinu frá heimili sínu. Er ekkert annað fram komið í málinu en að umsamin vinnutilhögun hafi verið sú sem áfrýjandi heldur fram. Verður því ekki fallist á fullyrðingar stefnda í aðra veru.
Af því sem fram er komið er fallist á með áfrýjanda að samningur við stefnda um að heimili hennar skyldi vera vinnustaður hennar sé hluti af ráðningarkjörum sem ekki verði breytt nema að undangenginni uppsögn. Verður því talið að bréf stefnda 16. apríl 2009, er áfrýjanda barst 27. þess mánaðar, hafi falið í sér fyrirvaralausa uppsögn á ráðningarsamningi áfrýjanda. Ekki eru efni til að telja að skrifleg andmæli áfrýjanda 22. næsta mánaðar hafi komið of seint fram og að líta beri til þess við niðurstöðu málsins, eins og stefndi byggir á. Þá skiptir þegar af framangreindum ástæðum ekki máli hvort stefndi hafi fært sönnur á að áfrýjandi hafi vanefnt starfskyldur sínar svo verulega að réttlætt hafi riftun á ráðningarsamningi hennar með síðara bréfi stefnda 29. apríl 2009.
Af framansögðu leiðir að áfrýjanda bar réttur til greiðslu launa í uppsagnarfresti, en fallist er á með stefnda að sá frestur hafi verið einn mánuður samkvæmt þágildandi kjarasamningi stéttarfélags hennar Verkalýðsfélagsins Hlífar við Samtök atvinnulífsins. Andmæli stefnda við fjárhæð mánaðarlauna áfrýjanda er felast í almennri kvörtun um að laun áfrýjanda hafi hækkað um þriðjung frá ráðningarsamningi áfrýjanda 7. maí 2008 og til mars 2009 eru óljós og hafa ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Hinar samningsbundnu greiðslur samkvæmt ráðningarsamningi áfrýjanda vegna maímánaðar 2009, 502.317 krónur, féllu í gjalddaga 1. júní 2009. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 skulu dráttarvextir eftir 1. mgr. 6. gr. laganna reiknast frá þeim tíma og til greiðsludags.
Af þeim samningum sem að framan eru raktir um ráðningarkjör áfrýjanda og öðrum gögnum málsins verður ekki séð að um hafi samist milli málsaðila að umþrættur tölvubúnaður skyldi vera í hennar eigu, en verðmæti búnaðarins er óumdeilt og bar áfrýjanda að afhenda stefnda búnaðinn líkt og hann krafðist. Verður því niðurstaða héraðsdóms staðfest um þetta atriði.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Félag áhugafólks og aðstandenda alzheimersjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma, greiði áfrýjanda, Unni Aðalbjörgu Hauksdóttur, 502.317 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júní 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2010.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. júní sl., er höfðað með áritun á stefnu hinn 6. júlí 2009 og með áritun á gagnstefnu hinn 1. október 2009.
Aðalstefnandi er Unnur A. Hauksdóttir, kt. 100758-2109, Burknavöllum 17, Hafnarfirði.
Aðalstefndu eru Félag aðstandenda alzheimersjúklinga, kt. 580690-2389, Hátúni 10B, Reykjavík, Fríðuhús-dagvistun minnissjúkra, kt. 430101-3580, Austurbrún 31, Reykjavík, Maríuhús, dagþjálfun, kt. 531107-1010, Blesugróf 27, Reykjavík, og Drafnarhús, félag, kt. 490605-0450, Strandgötu 75, Hafnarfirði, sem jafnframt er gagnstefnandi.
Dómkröfur í aðalsök.
Endanlegar dómkröfur aðalstefnanda eru þær að aðalstefndu verði dæmd in soldium til greiðslu skuldar að fjárhæð 2.019.258 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 16. apríl 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum 129.125 krónum frá 17. júlí 2009, 229.460 krónum frá 4. ágúst 2009 og 114.730 krónum frá 1. september 2009.
Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi lögmanns auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum úr hendi aðalstefndu.
Aðalstefndu krefjast sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda og að aðalstefndu verði dæmdur málskostnaður úr hendi aðalstefnanda að mati dómsins að teknu tilliti til þess að stefndu eru ekki virðisaukaskattskyld.
Dómkröfur í gagnsök:
Gagnstefnandi, Drafnarhús, félag, kt. 490605-0450, Strandgötu 75, Hafnarfirði, krefst þess að gagnstefnda, Unnur A. Hauksdóttir, greiði gagnstefnanda 229.614 krónur með vöxtum sem eru tveir þriðju hlutar vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 29. apríl 2009 til 3. ágúst 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags.
Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefndu samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til þess að gagnstefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Gagnstefnda krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og að henni verði dæmdur málskostnaður úr hendi gagnstefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.
II.
Aðalstefnandi kveður málsatvik vera þau að stefnandi hafi verið ráðin til starfa hjá aðalstefndu, Félagi aðstandenda alzheimersjúklinga (FAAS) og undirstofnana þess Drafnarhúsi og Fríðuhúsi árið 2006, en Maríuhús hafi verið stofnað ári síðar. Á þeim tíma er aðalstefnandi hafi verið ráðin hafði starfsemi félaganna vaxið mjög og þáverandi framkvæmdastjóri aðalstefnda FAAS og faðir aðalstefnanda, Haukur Helgason, hafi því fengið heimild til að ráða aðalstefnanda sér til fulltingis. Aðalstefnandi hafi tekið að sér ýmsa skrifstofu- og bókhaldsvinnu í þágu þessara félaga. Aðalstefnandi hafi lagt til allan búnað sem nauðsynlegur hafi verið til starfans, m.a. heimilistölvu sína og prentara sem hún hafi átt. Hafi um það verið samið þegar í upphafi að aðalstefnandi innti störf sín af hendi heima hjá sér, en það hafi hentað henni vel þar sem hún sé og hafi verið bundin heima við yfir langveiku barni. Frá haustinu 2007 til júní 2008 hafi aðalstefnandi þó unnið í þágu aðalstefnda FAAS tvo daga í viku, fjóra tíma í senn á skrifstofu félagsins að Hátúni 10, Reykjavík. Það hafi aðalstefnandi gert að sérstakri ósk Maríu T. Jónsdóttur stjórnarformanns aðalstefndu Fríðuhúss, Drafnarhúss og Maríuhúss, og Hauks Helgasonar, tímabundið. Þar hafi aðalstefnandi verið við símsvörun og móttöku minningarskeyta og fleira. Hafi aðalstefnandi þannig jafnan haft frjálsar hendur um það hvenær hún skilaði vinnu sinni yfir daginn, utan þess tímabils er hún hafi tekið að sér að vera á skrifstofu aðalstefnda FAAS.
Vorið 2008 hafi verið ákveðið að brjóta upp rekstur aðalstefnda FAAS og skilja á milli starfsemi þess félags og reksturs aðalstefndu Fríðuhúss, Drafnarhúss og Maríuhúss. Hafi Haukur Helgason tekið framkvæmdastjórn húsanna að sér en hætt sem framkvæmdastjóri FAAS. Hafi þá verið um það samið sérstaklega að hann nyti áfram starfskrafta aðalstefnanda vegna reksturs húsanna. Aðalstefnandi hafi eftir það ekki verið starfsmaður FAAS, en þá hafi á sama tíma verið ráðinn annar framkvæmdastjóri fyrir það félag, Erna Björk Antonsdóttir.
Í tilefni af þessum breytingum á starfsvettvangi aðalstefnanda hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við aðalstefnanda. Samkvæmt þeim samningi skyldi aðalstefnandi starfa í þágu hinna þriggja aðalstefndu Fríðuhúss, Drafnarhúss og Maríuhúss en ekki aðalstefnda FAAS. Í samningnum hafi verið kveðið á um með hvaða hætti félögin skiptu með sér launakostnaði aðalstefnanda. Þá hafi og komið fram í þeim samningi að greitt yrði fyrir heimasíma og nettengingu á heimili stefnanda að hluta.
Starfssamningur aðalstefnanda og starfslýsing hennar hafi verið kynnt á stjórnarfundi stefnda FAAS þann 7. maí 2008. Aðalstefnandi hafi frá upphafi ráðningar sinnar lagt sjálf til allan tækjabúnað, tölvu, prentara og skrifstofutæki án endurgjalds utan þess að sími hafi verið greiddur að hluta. Þann 15. júlí 2008 hafi verið gengið frá sérstökum samningi við aðalstefnanda um greiðslur fyrir afnot af búnaði og tækjum sem hún hafi lagt til á heimili sínu vegna starfa sinna. Í upphafi árs 2009 hafi svo verið komið að tæki aðalstefnanda hafi ekki lengur staðið undir þeirri vinnslu sem stefnandi hafi þurft að inna af hendi. Hafi því verið ráðist í endurnýjun þessa búnaðar og skyldi aðalstefnandi fá þau tæki, tölvu og prentara til eignar í stað hinna eldri tækja.
Framkvæmd ráðningarsamnings aðalstefnanda hafi gengið með ágætum árið 2008. Erna Björk Jónsdóttir framkvæmdastjóri aðalstefnda FAAS hafi látið af störfum um áramótin 2009 og Svava Aradóttir verið ráðin í hennar stað. Svava hafi verið í starfi nokkra daga í upphafi árs en orðið þá frá að hverfa til útlanda af persónulegum ástæðum. Af þessum ástæðum hafi Haukur Helgason gengið í hennar störf á meðan. Í fyrstu viku marsmánaðar hafi Haukur orðið alvarlega veikur af heilablóðfalli. Eins og sakir stóðu hafi öll skipulagsmál félaganna verið í uppnámi, enda nýráðinn framkvæmdastjóri aðalstefnda FAAS ekki í starfi. Svava Aradóttir hafi komið til starfa hjá aðalstefnda FAAS um miðjan mars. Með bréfi, dags. 28. mars 2009, hafi Svava tilkynnt starfsmönnum aðalstefndu FAAS, Fríðuhúss, Drafnarhúss og Maríuhúss að hún hefði tekið við störfum framkvæmdastjóra og þar með myndi hún meðal annars ganga frá launagreiðslum til starfsmanna um næstkomandi mánaðamót. Fljótlega eftir að Svava tók til starfa hafi farið að bera á núningi í samskiptum hennar og aðalstefnanda. Hafi samskipti þeirra að mati aðalstefnanda einkennst af því að framkvæmdastjórinn hafi ekki vitað gjörla hverjar starfsskyldur og starfssvið aðalstefnanda væru.
Með bréfi, dags. 16. apríl 2009, hafi aðalstefnanda verið tilkynnt að stjórn aðalstefnda FAAS hefði ákveðið á fundi sínum daginn áður að öll skrifstofustarfsemi félagsins yrði færð á einn stað, að Hátúni 10b, frá og með 30. apríl 2009. Hafi sérstaklega verið tekið fram að frá og með 25. apríl 2009 væri ætlast til þess að aðalstefnandi ynni starf sitt þar en ekki heima við, eins og ráðningarsamningur hennar gerði ráð fyrir. Um líkt leyti hafi verið lokað á aðgengi aðalstefnanda að þeim tölvuskrám sem hún hafi haft aðgang að til að sinna starfi sínu og henni þannig gert ómögulegt að inna starf sitt af hendi.
Aðalstefnandi kveðst ítrekað hafa reynt að fá upplýsingar og leita sátta um framhald starfa sinna með framkvæmdastjóra aðalstefnda FAAS, en þær tilraunir hafi ekki borið annan árangur en þann að hinn 5. maí 2009 hafi aðalstefnanda verið sent annað bréf. Hafi því nú verið haldið fram að aðalstefnandi hefði vanrækt starfsskyldur sínar og hlaupist á brott úr starfi og að af fyrrgreindum ástæðum liti aðalstefndi FAAS svo á að hún væri ekki lengur starfsmaður félagsins. Með bréfi lögmanns aðalstefndu, dags. 12. maí 2009, hafi riftun aðalstefndu á ráðningu aðalstefnanda verið ítrekuð. Í því bréfi hafi aðalstefnandi verið krafin um skil á gögnum og tækjum í eigu félaganna innan sex daga en að öðrum kosti mætti vænta þess að aðalstefndu leituðu fulltingis sýslumanns eða dómstóla. Enginn listi yfir þau gögn sem þar um ræddi hafi fylgt bréfi þessu eða nánari útlistun á því hvaða gögn, tæki eða meintar eigur aðalstefndu um væri að ræða.
Með bréfi lögmanns aðalstefnanda, dags. 22. maí 2009, hafi riftun ráðningarsamnings aðalstefnanda verið mótmælt sem ólögmætri uppsögn. Öllum ávirðingum á hendur henni um brot í starfi hafi og verið mótmælt sem röngum og ósönnuðum og skorað á aðalstefndu að gera upp laun við stefnanda í samræmi við rétt hennar samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi.
Aðalstefnandi hafi um þetta leyti skilað öllum bókhaldsgögnum, skrifstofuvörum og eigum félagins til endurskoðanda félaganna. Aðalstefnandi hafi þó haldið eftir tölvu og prentara þar sem hún hafi talið þessa hluti sína eign, enda þótt þeir hlutir hafi verið endurnýjaðir í upphafi árs 2009 í samkomulagi við hana. Ekki sé um það deilt að umþrættur búnaður hafi verið keyptur af aðalstefndu. Aðalstefnandi hafi starfað í þágu aðalstefndu frá árinu 2006 og allan þann tíma hafi hún ekki einasta lagt til alla vinnuaðstöðu heldur og tæki og búnað án nokkurs endurgjalds. Það hafi því orðið að samkomulagi milli hennar og framkvæmdastjóra að þegar þörf hafi verið orðin á að endurnýja tækjakostinn, þar sem hann hafi ekki lengur ráðið við þá vinnslu sem krafist hafi verið, að aðalstefndu myndu leggja til ný tæki, aðalstefnanda að kostnaðarlausu.
Með bréfi lögmanns aðalstefnda, dags. 11. júní 2009, hafi öllum kröfum aðalstefnanda verið hafnað og áréttað að aðalstefndu litu svo á að aðalstefnandi hefði vanrækt svo störf sín að varðaði fyrirvaralausri brottvikningu. Af þessu hafi verið ljóst að aðalstefndu hyggjast ekki greiða kröfu stefnanda og aðalstefnanda hafi því verið nauðugur sá kostur að leita fulltingis dómstóla til að ná fram kröfu sinni.
Krafa aðalstefnanda sé um greiðslu launa og kostnaðar í samræmi við samninga aðalstefnanda við aðalstefndu þar um, auk útlagðs kostnaðar samkvæmt nótu. Í apríl 2009 hafi tímakaup stefnanda numið 2.320 krónum. Samkvæmt samningi hafi aðalstefnandi átt að fá 45 stundir greiddar mánaðarlega frá stefnda Fríðuhúsi, 60 stundir frá stefnda Maríuhúsi og 60 stundir frá stefnda Drafnarhúsi. Alls hafi aðalstefnandi því átt að fá laun fyrir 165 vinnustundir mánaðarlega og miðist krafa hennar við það. Aðalstefnandi hafi ekki fengið greidd laun fyrir aprílmánuð en riftun ráðningar hennar hafi átt sér stað þann 16. apríl 2009. Gerð sé krafa um laun út þann mánuð og laun í þrjá mánuði á uppsagnarfresti. Þá sé gerð krafa um 13,04% orlof af launum aðalstefnanda og krafa um greiðslu vegna aksturs í samræmi við fyrrgreindan samning, alls 300 kílómetra á mánuði á 92 krónur á kílómetra, sem aðalstefnandi kveður vera akstursgjald ferðakostnaðarnefndar. Sé gerð krafa um greiðslu þessa út tímabil uppsagnarfrests. Þá sé gerð krafa um greiðslu kostnaðar samkvæmt samningi við aðalstefnanda um vinnuaðstöðu. Samkvæmt þeim samningi skyldi aðalstefnandi hafa alls 42.000 krónur mánaðarlega fyrir vinnuaðstöðu, búnað og tæki er hún hafi lagt til starfa sinna og sé gerð krafa um greiðslu þessa kostnaðar út uppsagnarfrest. Nánari sundurliðun kröfunnar sé eftirfarandi:
Vangoldin laun í fjóra mánuði, 165 x 2.320,- = 382.800,- x 4 1.531.200 kr.
Orlof af vangoldnum launum, 13,04% af 1.531.200 kr. 199.668 kr.
Akstur 300 km x 92,- = 27.600,- x 4 110.400 kr.
Greiðslur kostnaðar 42.000,- x 4 168.000 kr.
Útlagður kostnaður skv. nótum 9.990 kr.
Samtals 2.019.258 kr.
Samtals nemi krafa aðalstefnanda 2.019.258 krónum, sem sé dómkrafa máls þessa auk dráttarvaxta og kostnaðar, allt að frádregnum innborgunum. Krafist sé vaxta frá 16. apríl 2009 en þá hafi öll krafa stefnanda gjaldfallið vegna verulegra vanefnda stefnda.
Aðalstefndu séu Félag aðstandenda alzheimersjúklinga og þrjú félög sem stofnuð hafi verið um rekstur dagþjálfunar fyrir alzheimersjúklinga og heilabilaða, Fríðuhús, Maríuhús og Drafnarhús. Aðalstefnandi hafi upphaflega verið ráðin til aðalstefnda FAAS en með sérstökum samningi árið 2008 hafi ráðningu aðalstefnanda verið breytt þannig að hún hafi eftirleiðis verið starfsmaður aðalstefndu Fríðuhúss, Drafnarhúss og Maríuhúss og ekki lengur þegið greiðslur frá stefnda FAAS. Þrátt fyrir það hafi aðalstefnandi haldið áfram að vinna í þágu aðalstefnda FAAS að sérstakri ósk Hauks Helgasonar, framkvæmdastjóra aðalstefndu Fríðuhúss, Drafnarhúss og Maríuhúss. Þrátt fyrir þessa breytingu á ráðningarsamningi aðalstefnanda hafi aðalstefndi FAAS litið svo á að stefnandi væri starfsmaður sinn, enda hafi sami framkvæmdastjóri verið yfir öllum hinum aðalstefndu félögum frá því í mars 2009. Í samræmi við þetta hafi aðalstefndi FAAS haft sig í frammi gagnvart aðalstefnanda sem atvinnurekandi hennar og aðalstefnandi í raun litið á það félag sem einn af sínum atvinnurekendum sakir þess nána samstarfs sem með félögunum hafi verið í reynd. Þá hafi aðalstefndu Fríðuhús, Drafnarhús og Maríuhús viðurkennt í raun að aðalstefndi FAAS hafi komið fram fyrir þeirra hönd með bréfi lögmanns þeirra á dskj. nr. 9. Af þessum ástæðum sé þessum félögum öllum stefnt in solidum til greiðslu kröfu aðalstefnanda.
Mál þetta sé höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 38. og 35. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en aðalstefnandi sé búsett í Hafnarfirði og starfsstöð hennar hafi verið á heimili hennar.
Aðalstefndu mótmæla málavaxtalýsingu stefnanda. Málavöxtum verði nú lýst eins og þeir horfi við aðalstefndu:
Til að byrja með sé rétt að taka fram að aðalstefnandi hafi ekki unnið fullt starf fyrir stefndu fyrr en árið 2008 en ekki 2006 eins ráða megi af stefnu. Þá sé það ekki rétt að aðalstefnandi hafi átt að eignast þau tæki sem aðalstefndu keyptu í febrúar 2009, eins og nánar verði rakið síðar.
Aðalstefndu mótmæla því að ráðningarsamningur aðalstefnanda hafi gert ráð fyrir því að aðalstefnandi ynni starf sitt heima við. Í samningi aðila og starfslýsingu sem kynnt hafi verið á stjórnarfundi hinn 7. maí 2008 sé ekki gert ráð fyrir því að aðalstefnandi vinni heima við heldur komi þvert á móti fram að starfsheiti aðalstefnanda sé skrifstofumaður. Að ósk aðalstefnanda sjálfrar hafi hún þó fengið að vinna starf sitt að mestu leyti að heiman frá sér. Það fyrirkomulag hafi að engu leyti verið hagræði fyrir aðalstefndu sem séu með fullbúna skrifstofu fyrir skrifstofustarfsfólk sitt og því óþarfi að greiða fyrir aðra skrifstofu. Rétt sé að benda á að samningur aðalstefnanda og starfslýsing hafi verið kynnt á stjórnarfundi aðalstefndu en samningur um vinnuaðstöðu hafi eingöngu verið gerður milli aðalstefnanda og Hauks Helgasonar, föður aðalstefnanda, án vitundar stjórnar.
Eins og áður segi hafi aðalstefnandi fengið að vinna starf sitt heima hjá sér en það hafi því miður leitt til þess að erfitt hafi reynst að ná í aðalstefnanda. Þetta samskiptaleysi hafi komið niður á starfsemi félagsins. Samskiptin hafi sífellt orðið minni og erfiðara hafi orðið fyrir aðra starfsmenn aðalstefndu að ná í aðalstefnanda. Í mars og apríl 2009 hafi verið svo erfitt að ná í aðalstefnanda að stjórnendur aðalstefndu hafi ekki talið ganga lengur að aðalstefnandi ynni heima hjá sér. Af þessum sökum, en einnig þar sem talið hafi verið nauðsynlegt að samræma yfirstjórn aðalstefndu á einn stað, hafi verið ákveðið að skrifstofustarfsemi aðalstefndu færi fram á einum stað.
Við framangreind samskiptavandamál hafi svo bæst að aðalstefnandi hafi ekki innt af hendi þau störf sem henni hafi borið að sjá um. Í ljós hafi komið að aðalstefnandi hafði ekki sent skilagreinar til stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Auk þess hafi margar greiðslur verið rangt færðar og oft engin afrit til af reikningum, gíróseðlum eða öðrum bókhaldsgögnum. Þetta hafi oft gert aðalstefndu ómögulegt að halda utan um greiðslur til félagsins og fá yfirsýn yfir rekstur félagsins, t.d. vanskil.
Þegar stefndu höfðu ekki náð í aðalstefnanda í langan tíma, og á sama tíma hafði aðalstefnandi ekki innt störf sín af hendi, hafi komið að því að aðalstefndu hafi ekki getað annað en litið svo á að aðalstefnandi hefði hætt störfum fyrir félögin. Með bréfi aðalstefndu, dags. 29. apríl 2009, hafi aðalstefnanda verið tilkynnt að aðalstefndu litu svo á að aðalstefnandi væri ekki lengur starfsmaður félagsins. Á sama tíma hafi verið nauðsynlegt að grípa inn í þau störf, sem aðalstefnandi hafi átt að sjá um, m.a. til þess að starfsmenn félaganna fengju greidd laun um mánaðamót apríl og maí 2009.
Hinn 12. febrúar 2009 hafi aðalstefndu keypt nýjan tölvubúnað fyrir rekstur félagsins. Tækjabúnaðurinn hafi verið í eigu aðalstefndu en geymdur á heimili aðalstefnanda. Óumdeilt sé að frá og með 29. apríl 2009 hafi aðalstefnandi ekki lengur gegnt störfum fyrir aðalstefndu. Í lok bréfsins, dags. 29. apríl 2009, hafi enda verið gerð krafa um að aðalstefnandi skilaði eigum aðalstefndu.
Lögmaður aðalstefndu hafi ítrekað kröfuna um að aðalstefnandi skilaði öllum gögnum, tækjum og öðrum eignum, með bréfi, dags. 12. maí 2009. Krafan hafi enn verið ítrekuð, með bréfi, dags. 11. júní 2009.
Samskipti lögmanna aðila hafi einnig farið fram með tölvupósti og með tölvupósti lögmanns aðalstefndu, dags. 3. júlí 2009, hafi fylgt reikningur stefndu fyrir tölvubúnaðinum.
Þar sem aðalstefnandi hafi neitað að skila tækjunum en hefur höfðað mál gegn aðalstefndu telji aðalstefndi og gagnstefnandi, Drafnarhús, félag, rétt að höfða gagnsök til að leysa að öllu leyti úr réttarsambandinu milli aðila.
Aðalstefnandi kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Einnig gáfu aðilaskýrslu fyrir dóminum Sigrún Svava Aradóttir, framkvæmdastjóri allra aðalstefndu, og María Theodóra Jónsdóttir, stjórnarformaður aðalstefnda FAAS. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Helgi Hauksson, bróðir aðalstefnanda, og Viðar Elísson, endurskoðandi.
III.
Aðalstefnandi kveðst byggja á ráðningarsamningi aðila og rétti aðalstefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu stefnda. Þá kveðst aðalstefnandi byggja kröfu sína á meginreglu samningaréttar um að efna skuli gerða samninga.
Aðalstefnandi kveðst byggja á því að með bréfi, dags. 16. apríl 2009, hafi aðalstefndu rift ráðningarsamningi hennar með ólögmætum hætti. Aðalstefnanda beri því réttur til bóta úr hendi aðalstefndu sem nemi launum út tímabil uppsagnarfrests auk annarra greiðslna sem hún hafði samið sérstaklega um við aðalstefndu.
Aðalstefnandi kveðst byggja á því að það hafi verið sérstaklega umsamin forsenda ráðningar hennar að hún innti vinnuframlag sitt af hendi heiman frá sér. Slíkur háttur hafi verið á ráðningu hennar allt frá því árið 2006 með tímabundinni undantekningu er aðalstefnandi hafi verið tvisvar í viku á skrifstofu aðalstefnda FAAS, fjóra tíma í senn. Samningar aðalstefndu við aðalstefnanda beri þetta með sér og af þessum samningum hafi stefndu verið bundin. Það hafi því ekki verið á færi aðalstefndu að breyta einhliða ráðningarkjörum stefnanda þannig að hún skyldi með fárra daga fyrirvara flytja starfsstöð sína af heimili sínu í Hafnarfirði til Reykjavíkur. Slík einhliða breyting á ráðningarkjörum þýði í raun uppsögn ráðningarsamnings og sé um leið tilboð um nýjan ráðningarsamning. Af þeirri ástæðu hafi aðalstefndu borið að segja fyrrgreindum ráðningarkjörum upp með þeim uppsagnarfresti sem aðalstefnandi eigi rétt til. Það hafi hins vegar ekki verið gert í þessu tilviki og þá hafi aðalstefndu ekki verið til viðtals við aðalstefnanda um fyrrgreint boð um breytt ráðningarkjör. Aðalstefnanda hafi engin skylda borið til að koma nánast fyrirvaralaust til starfa á skrifstofu í öðru sveitarfélagi, og það að krefjast þess feli í sér sjálfstætt brot á ráðningarsamningi aðalstefnanda af hálfu aðalstefndu.
Aðstæður aðalstefnanda, sem einstæðs foreldris langveiks barns, hafi gert það að verkum að henni hafi verið útilokað að koma til móts við þessar kröfur aðalstefndu. Hafi hún því ekki verið reiðubúin að una þessum afarkostum. Hafi aðalstefnandi reynt ítrekað að ná sambandi og samningum við aðalstefndu um framhald starfa sinna en án árangurs. Þann 20. apríl hafi aðalstefndu lokað fyrir öll tölvusamskipti við heimatölvu stefnanda og gert henni þannig ómögulegt að rækja starfa sinn heiman að frá sér. Með þessu ráðslagi hafi aðalstefndu brotið svo gróflega gegn ráðningarsamningi aðalstefnanda að ekki verði virt á annan veg en þann að um einhliða ólögmæta riftun ráðningar af hálfu aðalstefndu hafi verið að ræða. Sú riftun fái enda staðfestingu í bréfi lögmanns aðalstefndu, dags. 12. maí 2009, þar sem riftun á ráðningu aðalstefnanda sé ítrekuð berum orðum.
Þá kveðst aðalstefnandi byggja á því að krafa um að hún kæmi til starfa í Reykjavík og öll viðbrögð stefndu við tilraunum aðalstefnanda til þess að ná samningum við stefndu eftir 16. apríl 2009, hafi miðað að því einu að gera stefnanda óvært í starfi án þess að til greiðslu uppsagnarfrests kæmi eða annarra samningsbundinna greiðslna henni til handa. Allur málatilbúnaður aðalstefndu beri þessa merki, þar sem ýmist sé á því byggt að aðalstefnandi hafi hlaupist á brott úr starfi eða gerst svo brotleg í störfum að varði fyrirvaralausri brottvikningu. Hvoru tveggja sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu.
Í bréfi aðalstefnda FAAS, dags. 29. apríl 2009, sé því lýst yfir af hálfu félagsins að aðalstefnandi hafi hlaupist á brott úr starfi með vísan til meintrar vanrækslu stefnanda í starfi. Þessum fullyrðingum aðalstefnda sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Í fyrsta lagi eigi meintar ávirðingar um vanrækslu starfa aðalstefnanda ekki við rök að styðjast og engin sönnun verið lögð fram um meint brot aðalstefnanda í þessu efni. Í öðru lagi hafi aðalstefndu lagt stein í götu aðalstefnanda þannig að aðalstefnandi hafi ekki getað, þrátt fyrir vilja til að rækja starf sitt, innt störf sín af hendi í samræmi við samning sinn við aðalstefndu. Af þessum ástæðum geti aðalstefndu ekki byggt á því gagnvart aðalstefnanda að hún hafi brotið þannig gegn ráðningarsamningi að hún hafi fyrirgert rétti til launa í uppsagnarfresti.
Þá kveðst aðalstefnandi ennfremur byggja á því að fyrrgreint bréf sé til þess eins sett fram að losa stefndu undan greiðsluskyldu á uppsagnarfresti. Aðalstefndu hafi á þessum tíma þegar verið í sambandi við stéttarfélag aðalstefnanda og hafi því fengið bakþanka vegna bréfsins frá 16. apríl 2009, að þar hafi aðalstefndu farið offari gegn stefnanda. Það megi því ljóst vera að hér sé um að ræða tilraun aðalstefndu til eftiráskýringar á því frumhlaupi.
Með bréfi lögmanns aðalstefndu, dags. 12. maí 2009, hafi verið lýst yfir ítrekun riftunar samninga aðalstefndu við aðalstefnanda, vegna meintar vanrækslu aðalstefnanda í starfi um „langa hríð“ en einkanlega þó í mars og apríl 2009. Hafi þar og verið látið að því liggja að aðalstefnandi hefði ofgreitt sjálfri sér laun og tekjur.
Þessum fullyrðingum sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Engin rök né sönnur hafa verið lagðar fram um meint vinnusvik aðalstefnanda og þá síður um ofgreiðslu launa. Samstarf aðalstefnanda og beggja fyrrverandi framkvæmdastjóra stefndu hafi verið með ágætum, en faðir aðalstefnanda hafi gegnt því starfi í reynd allt fram til 4. mars 2009. Það hafi ekki verið fyrr en Svava Aradóttir tók við störfum framkvæmdastjóra að farið hafi að bera á samstarfsörðugleikum milli aðalstefnanda og hennar. Að mati aðalstefnanda hafi samskipti framkvæmdastjórans strax frá upphafi einkennst af meinbægni í garð aðalstefnanda auk þess sem framkvæmdastjórinn hafi ekki virst þekkja til þess hver starfi aðalstefnanda í raun væri hjá stefndu. Sem dæmi um það séu ávirðingar í garð aðalstefnanda um sjálftöku launa, en aðalstefnandi hafi aldrei á starfsferli sínum haft prókúru fyrir aðalstefndu eða nokkra heimild til þess að fara með fjármuni þess. Hún hafi því á engum tímapunkti verið í aðstöðu til nokkurrar sjálftöku eða fjárdráttar. Þannig hafi aðalstefnandi ekki séð um að greiða laun, heldur aðeins um að reikna út laun í samráði við framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórinn hafi jafnan yfirfarið þá vinnu aðalstefnanda sem annað og sjálfur greitt launin. Í samræmi við það verklag hafi það verið framkvæmdastjóri aðalstefndu, Svava Árnadóttir, sem greitt hafi út laun, m.a. laun aðalstefnanda, fyrir marsmánuð 2009. Sú launagreiðsla hafi verið innt af hendi án athugasemda af hálfu aðalstefndu, en hefðu stefndu viljað endurskoða þá samninga sem að baki þeim launaútreikningum lágu eða útreikningana sem slíka hefði þeim verið rétt að gera það áður en til þessarar launagreiðslu kom. Það hafi hins vegar ekki verið gert en þess í stað hafi aðalstefnandi verið borin þungum sökum mánuðum síðar að ósekju. Byggi aðalstefnandi þannig á því að aðalstefndu hafi í verki viðurkennt þau launakjör sem aðalstefnandi byggi kröfu sína á. Sama eigi við um kröfur aðalstefnanda um greiðslur fyrir kostnað sem aðalstefndu hafa samþykkt í orði og verki um margra mánaða skeið án athugasemda.
Aðalstefnandi kveðst ennfremur byggja á því að ekki hafi verið tilefni til riftunar á ráðningu hennar. Aldrei fyrr en með bréfi stefndu, dags. 29. apríl 2009, hafi verið gerð athugasemd við störf hennar eða útreikninga hennar á launum starfsmanna, hvorki hennar né annarra, né hafi henni verið veitt áminning vegna brota í starfi. Megi því ljóst vera að mati aðalstefnanda að riftunin hafi haft þann eina tilgang að koma aðalstefnanda úr starfi og losa aðalstefnda undan greiðsluskyldu á uppsagnarfresti. Tilefni riftunar hafi skort með öllu og hún því verið ólögmæt.
Þá kveðst aðalstefnandi byggja á því að riftunin hafi ekki einasta verið ólögmæt þar sem forsendur hennar hafi ekki átt við rök að styðjast, heldur og vegna þess að skilyrðum brottvikningar hafi ekki verið fullnægt. Fyrirvaralaus uppsögn eða brottvikning verði að byggjast á verulegri vanefnd af hálfu starfsmannsins og fyrir slíkri vanefnd bera stefndu sönnun. Engar sannanir hafi verið lagðar fram um meint brot aðalstefnanda né umfang þess. Þá hafi aðalstefnandi aldrei verið áminnt vegna brots í starfi að viðlögðum brottrekstri sem einnig sé forsenda brottvikningar, enda hafi aðalstefnandi aldrei gerst brotleg á nokkurn hátt í starfi sínu. Hins vegar hafa aðalstefndu með hinni ólögmætu riftun bakað aðalstefnanda tjón sem nemi launum út kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest auk annarra greiðslna sem aðalstefnanda beri á grundvelli sérstakra samninga þar um við aðalstefndu og sé því krafist bóta í samræmi við það.
Gerður hafi verið skriflegur ráðningarsamningur við aðalstefnanda og samkvæmt honum hafi aðalstefnandi átt rétt til uppsagnarfrests í samræmi við ákvæði kjarasamnings. Aðalstefnandi hafi unnið skrifstofustörf og fari því um kjör hennar að lágmarki samkvæmt kjarasamningi Verslunarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Í 12. kafla þess samnings sé fjallað um uppsagnarfrest en eftir sex mánuði í starfi skuli uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir og miðast við mánaðamót, sbr. ákvæði 12.1. Aðalstefnandi hafi starfað frá því árið 2006 í þágu stefndu er starfslok hennar hafi orðið og beri henni því réttur í samræmi við fyrrgreint ákvæði kjarasamnings. Kröfur stefnanda í þessu efni séu um lágmarkskjör og sé vísað í því sambandi til 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938.
Tímalaun aðalstefnanda hafi verið ákveðin með samningi við aðalstefndu og hafi hækkanir á launum hennar verið ákveðnar með hliðsjón af meðaltalshækkunum launa VR samkvæmt launakönnunum félagsins og að ákvörðun framkvæmdastjóra. Á sama hátt hafi orlof aðalstefnanda verið ákveðið 13,04% og greitt í samræmi við það. Svo hátt orlof hafi verið ákveðið til handa aðalstefnanda þar sem enginn hafi leyst störf hennar af hendi þegar hún hafi farið í orlof heldur hafi aðalstefnandi orðið að inna verkin af hendi áður eða eftir að til orlofstökunnar kom. Um fjárhæðir þessar byggi stefnandi á samningi sínum við fyrrverandi framkvæmdastjóra aðalstefndu, sem kynntur hafi verið stjórn stefndu í maí 2008, svo og athugasemdalausri framkvæmd þeirra frá þeim tíma til þess dags er ráðningarsamningi hennar hafi verið rift með ólögmætum hætti.
Aðalstefnandi kveðst byggja sýknukröfu sína í gagnsök í fyrsta lagi á því að hún hafi gert samkomulag um það við framkvæmdastjóra að umræddur búnaður kæmi í stað þeirra tækja sem aðalstefnandi hafði sjálf lagt til við störf sín og ekki þegið endurgjald af aðalstefndu fyrir. Af því samkomulagi sé aðalstefndi, Drafnarhús, félag, bundinn. Byggi aðalstefnandi á því að framkvæmdastjórinn hafi haft vald til slíkra ákvarðana, sbr. skipurit félaganna sem samþykkt hafi verið á stjórnarfundi árið 2005. Samkvæmt því annist framkvæmdastjóri allar fjárreiður sem og gerð ráðningarsamninga við einstaka starfsmenn. Að sönnu sé sá framkvæmdastjóri faðir aðalstefnanda. Þá sé það og staðreynd að hann hafi sett það sem skilyrði fyrir því að hann sinnti framkvæmdastjórastarfi að aðalstefnandi væri honum til aðstoðar í starfi fyrir félögin. Þessar staðreyndir telji aðalstefnandi ekki að eigi að hafa nein áhrif á skyldur aðalstefnda, Drafnarhúss, félags, gagnvart henni, enda hafi félagið ásamt hinum stefndu félögum samþykkt og gengið að þessu öllu vísu.
Aðalstefnandi kveðst byggja á því að krafa aðalstefnda, Drafnarhúss, félags, um endurgreiðslu á umþrættum búnaði eigi sér ekki málefnalegar stoðir heldur sé um að ræða meinbægni í hennar garð. Ágreiningur hafi verið í stjórnum félaganna sem m.a. hafi lotið að ráðningu hennar sem aðstoðarmanns föður síns í starfi. Aðalstefnandi hafi hins vegar aldrei verið aðili að þeim ágreiningi þannig að hún gæti haft áhrif þar á, enda ekki í stjórn neins af þeim félögum sem um ræði. Staðreyndin hvað aðalstefnanda varði sé sú að aðalstefnandi hafi gert samninga um kjör sín og vinnuaðstæður við framkvæmdastjórann. Þeim samningum hafi hún treyst, enda aldrei verið gefið tilefni til annars fyrr en eftir að framkvæmdastjórinn varð veikur í mars 2009. Aldrei fyrr en eftir það hafi verið hafðar uppi athugasemdir við vinnu hennar heima við né hún krafin um endurgjald fyrir búnaðinn.
Byggir aðalstefnandi á því að með kröfu sinni um endurgjald fyrir tækjabúnaðinn sé gangstefnandi aðeins að freista þess að lækka kröfu aðalstefnanda vegna þess tjóns sem aðalstefndu hafi bakað henni með ólögmætri uppsögn. Þessi krafa um endurgjald fyrir tækjabúnaðinn sé sérlega ómakleg í garð aðalstefnanda þar sem framkvæmdastjórinn Haukur Helgason, sem gert hafi samninga við aðalstefnanda, sé málstola eftir heilablóðfall í mars 2009 og eigi því bágt með að koma fyrir dóm og bera um það sem milli hans og aðalstefnanda fór í þessu efni.
Aðalstefnandi kveður fráleita þá fullyrðingu aðalstefnda, Drafnarhúss, félags, um að hún hafi ekki fært neinar sönnur fyrir því að hún hafi lagt fram tæki við vinnu sína áður en umþrættur búnaður var keyptur. Óumþrætt sé að aðalstefnandi hafi unnið að tölvuverkefnum heima fyrir allt frá því í árslok 2006. Vinna hennar frá upphafi hafi verið með þeim hætti að hún hafi aðstoðað föður sinn heima við og notað sína heimilistölvu til þess, enda sé starf hinna stefndu félaga upphaflega byggt á hugsjónavinnu sem faðir aðalstefnanda hafi snemma komið að og byggt upp. Starfið hafi undið upp á sig og smám saman hafi vinna aðalstefnanda orðið umfangsmeiri og að lokum hafi verið gerður við hana ráðningarsamningur. Að mati aðalstefnanda standi það aðalstefnda, Drafnarhúsi, félagi, nær að sýna fram á að allan ráðningartímann hafi aðalstefndu lagt henni til tól og tæki til starfa hennar en að hún leggi fram reikninga fyrir keyptum búnaði í upphafi. Staðreyndin sé sú að aðalstefnandi hafi átt tölvubúnað heima, sem hún hafi notað í þágu aðalstefnda, Drafnarhúss, félags, án nokkurs endurgjalds. Sá búnaður hafi gengið úr sér, enda hafi vinna hennar stöðugt orðið umfangsmeiri og ný tölvukerfi hafi verið sett upp svo hún gæti sinnt þeim verkefnum, sem henni hafi verið falin. Svo hafi farið að heimilistölva aðalstefnanda hafi ekki ráðið við þessi verkefni. Af þeirri ástæðu hafi verið keyptur nýr búnaður fyrir aðalstefnanda.
Þá bendir aðalstefnandi á að ætlað tjón aðalstefnda, Drafnarhúss, félags, af því að hafa ekki umráð þess búnaðar sem hann geri kröfu til, sé í raun tilkomið vegna hans eigin athafna. Aðalstefndi, Drafnarhús, félag, hafi með framgöngu sinni, þ.e. með ólögmætri riftun ráðningar aðalstefnanda, bakað henni ekki einasta fjárhagslegt tjón heldur og valdið verulegri röskun á stöðu hennar og högum. Krafa aðalstefnda, Drafnarhúss, félags, um að fá afhenta heimilistölvu aðalstefnanda hafi enn frekar valdið henni óþægindum, en eins og alkunna sé fari margvísleg samskipti manna nú til dags fram með tölvum. Aðalstefnandi hafi frá því að henni hafi verið vikið úr starfi reynt að takmarka tjón sitt með öllum mögulegum leiðum og hafi í því skyni þurft m.a. að nýta tölvuna til samskipta. Afhending hennar hefði því haft í för með sér enn meiri óþægindi og tjón fyrir aðalstefnanda en orðið hafi. Af fyrrgreindum ástæðum og með vísan til málsástæðna í aðalsök beri að sýkna aðalstefnanda af kröfum aðalstefnda, Drafnarhúss, félags, í gagnsök.
Aðalstefnandi kveðst byggja kröfu sína í aðalsök á rétti hennar til endurgjalds fyrir vinnu sína í þágu aðalstefndu. Um greiðsluskyldu aðalstefndu sé vísað til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til að efna samninga, auk laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og laga nr. 30/1987 um orlof. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Að því er varðar sýknukröfu í gagnsök byggir aðalstefnandi á almennum reglum vinnuréttar og samningaréttar, sem og meginreglum skaðabótaréttar um sönnun tjóns og orsakasamband. Krafa um málskostnað í bæði aðal- og gagnsök styðjist við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þar sem aðalstefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur sé einnig krafist álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti skv. lögum nr. 50/1988.
IV.
Aðalstefndu kveða aðalstefnanda hafa óskað eftir því að vinna heima hjá sér. Aðalstefndu hafi fallist á það um tíma en augljós forsenda fyrir slíku fyrirkomulagi hafi verið að aðalstefnandi væri við á skrifstofutíma þannig að hægt væri að ná sambandi við hana með einum eða öðrum hætti. Sé þannig ekki rétt sem fram komi í stefnu að aðalstefnandi hafi haft algjörlega frjálsar hendur um það hvenær og hvernig hún innti störf sín af hendi. Stjórnendur aðalstefndu hafi lítið sem ekkert náð í aðalstefnanda í nokkrar vikur fyrir starfslok hennar.
Samkvæmt starfslýsingu hafi aðalstefnandi átt að ganga frá launaseðlum og senda út, annast skilagreinar til lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Það hafi aðalstefnandi ekki gert með fullnægjandi hætti í marga mánuði fyrir starfslok hennar.
Aðalstefndu hafi verið komin í veruleg vandræði vegna vanefnda aðalstefnanda og þar sem ekki hafi náðst í hana og hún verið hætt að vinna störf sín þá hafi aðalstefndu ekki getað litið öðruvísi á en að hún hefði hlaupist á brott úr starfi.
Ekki skipti máli hvor hafi í raun átt frumkvæðið að því að ljúka ráðningarsambandinu. Háttsemi aðalstefndu sé jafn lögmæt hvort sem litið verði svo á að aðalstefnandi hafi sjálf hætt störfum eða að aðalstefndu hafi rift ráðningarsambandinu. Háttsemi aðalstefnanda hafi verið með þeim hætti að aðalstefndu hafi verið í fullum rétti til að líta svo á að aðalstefnandi hefði hætt störfum. Þá hafi vanefndir aðalstefnanda verið slíkar að þær réttlættu riftun ráðningarsamnings milli aðilanna.
Aðalstefndu vísa til meginreglna vinnuréttar um brotthlaup starfsmanna úr starfi og rétt vinnuveitenda til að rifta ráðningarsambandi. Verði aðalstefndu ekki sýknuð krefjast aðalstefndu þess að krafa stefnanda verði lækkuð. Lækkunarkrafan felist í aðalkröfunni um sýknu og styðjist við sömu málsástæður og lagarök en einnig beri að líta til eftirfarandi til stuðnings varakröfu um lækkun:
Aðalstefnandi hafi verið félagsmaður í verkalýðsfélaginu Hlíf á meðan hún starfaði fyrir aðalstefndu. Komi þetta bersýnilega í ljós á launaseðlum aðalstefnanda. Sé þannig engin stoð fyrir því að aðalstefnandi miði uppsagnarfrest sinn við kjarasamning VR og SA. Réttur hennar til uppsagnarfrests fari eftir kjarasamningi Hlífar en samkvæmt honum eigi aðalstefnandi aðeins rétt á eins mánaðar uppsagnarfresti. Sama niðurstaða fáist samkvæmt 1. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.
Að framan sé rakið að uppsagnarfrestur stefnanda hafi aðeins verið einn mánuður og verði þannig strax að lækka launakröfuna sem því nemi og einnig kröfu um orlof af vangoldnum launum.
Kjör aðalstefnanda fari eftir kjarasamningi Verkalýðsfélagsins Hlífar en ekki VR. Áskilji aðalstefndu sér rétt til að koma síðar að útreikningi á launahækkunum og öðrum kjörum samkvæmt samningi Hlífar. Það hafi verið starf aðalstefnanda að reikna út laun, m.a. sín eigin, og sá sem greitt hafi stefnanda launin hafi verið framkvæmdastjórinn, faðir aðalstefnanda. Sé því ekki hægt að fallast á að aðalstefndu hafi borið að yfirfara útreikning launa og heldur ekki að aðalstefndu hafi í verki samþykkt launahækkanir, óeðlilega háar orlofsgreiðslur og viðbótarsamninga um kjör aðalstefnanda. Sé þessum kröfuliðum þannig mótmælt.
Aðalstefnandi eigi ekki rétt á að fá greitt fyrir útlagðan kostnað, sem aðalstefnandi hafi aldrei lagt út. Þannig geti hún ekki krafist þess að fá greitt fyrir akstur og annan kostnað fyrir tímabil þar sem hún hafi sannanlega ekki verið að leggja út kostnað vegna starfa fyrir aðalstefndu. Skipti þar engu máli þótt greiddar hafi verið fastar greiðslur vegna útlagðs kostnaðar en ekki byggt á útlögðum kostnaði samkvæmt nótum. Forsenda föstu greiðslnanna er ávallt að aðalstefnandi sé að vinna fyrir aðalstefndu.
Aðalstefnandi eigi ekki rétt á að fá greiddan útlagðan kostnað samkvæmt nótum, enda sé hér um að ræða útgjöld sem falli innan þess fasta kostnaðar sem kveðið sé á um í dómskjali nr. 5.
Þar sem krafa aðalstefnanda sé um vangoldin laun sé aðalstefnandi að krefjast þess að verða jafnsett og hún hefði verið ef ráðningarsambandi aðila hefði lokið með greiðslum á uppsagnarfresti. Aðalstefnandi hefði þurft að greiða skatta af launum sínum og því verði að draga staðgreiðslu skatta frá kröfu aðalstefnanda.
Aðalstefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi reynt að takmarka tjón sitt með því að ráða sig í aðra vinnu. Aðalstefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hún hafi gert allt sem í hennar valdi standi til að takmarka tjónið.
Verði fallist á kröfur aðalstefnanda að einhverju leyti sé þess krafist að til skuldajafnaðar gagnvart kröfu aðalstefnanda komi gagnkrafa aðalstefndu vegna tölvubúnaðar. Sé hér um að ræða sömu kröfu og gerð sé í gagnstefnu.
Kröfu aðalstefnanda beri að lækka sem nemi kröfu aðalstefndu að andvirði 229.614 krónur með vöxtum sem séu tveir þriðju hlutar vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveði og birti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. apríl 2009 til 3. ágúst 2009 en frá þeim degi með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.
Aðalstefndu hafi keypt tölvubúnað fyrir 229.614 krónur skömmu áður en ráðningarsambandi milli aðila lauk. Tækjabúnaðurinn hafi verið keyptur í þeim tilgangi að nota hann í starfsemi aðalstefndu og búnaðurinn sé eign aðalstefndu. Fyrir liggi að tækjabúnaðurinn hafi verið geymdur á heimili aðalstefnanda, enda hafi hún unnið vinnu sína þaðan. Aðalstefnandi hefur neitað að afhenda búnaðinn þrátt fyrir að starfa ekki lengur í þágu aðalstefndu.
Aðalstefnandi hafi hvorki sýnt fram á að hún hafi útvegað tæki fyrir vinnu sína fyrir aðalstefndu né hafi aðalstefnandi sýnt fram á að hún eigi rétt á því að halda tækjunum. Þvert á móti hafi aðalstefnandi lagt fram skjalið „Samningur um vinnuaðstöðu“ þar sem hvergi sé minnst á tölvubúnað, en af því megi gagnálykta að aðalstefnandi hafi ekki lagt búnaðinn til. Aðalstefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að hún eigi rétt til að halda tækjunum.
Aðalstefndu hafi orðið fyrir tjóni við það að fá ekki tölvubúnaðinn afhentan. Krafan sé miðuð við það tjón sem aðalstefndu hafi orðið fyrir við það að tapa þessum eigum sínum. Aðalstefndu hafi þurft að kaupa nýjan búnað og sé enduröflunarverð búnaðarins a.m.k. hið sama og kaupverð tækjanna, enda hafi þau verið keypt nýlega. Ef eitthvað sé þá hafi verð á búnaðinum hækkað frá því að aðalstefndu keyptu hann, enda hafi gengi íslensku krónunnar lækkað og verðbólga sé mikil.
Krafan byggi á almennu skaðabótareglunni og séu öll skilyrði hennar uppfyllt:
Háttsemi stefnanda sé saknæm og ólögmæt og hafi valdið stefndu tjóni. Tjón stefndu sé í orsakasambandi við háttsemi stefnanda og sennileg afleiðing af henni.
Aðalstefnanda hafi borið að skila eignum aðalstefndu þegar ráðningarsambandi þeirra lauk. Hin skaðabótaskylda háttsemi hafi þannig hafist hinn 29. apríl 2009 og verið viðvarandi síðan. Sé því krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með þeim degi sem hin ólögmæta háttsemi hófst. Með tölvupósti, dags. 3. júlí 2009, hafi aðalstefndu gert grein fyrir verðmæti búnaðarins og samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sé gerð krafa um dráttarvexti frá og með mánuði síðar. Því sé krafist dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá og með 3. ágúst 2009 til greiðsludags.
Upphafstíma dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda sé mótmælt, enda sé hann rangur og algerlega óútskýrður af hálfu aðalstefnanda. Krafa aðalstefnanda hafi ekki gjaldfallið hinn 16. apríl 2009 enda byggi aðalstefnandi málatilbúnað sinn á vangoldnum launum. Þau laun hafi greiðst mánaðarlega og aðalstefnandi hafi ekki öðlast rétt til launa fram í tímann.
Verði fallist á kröfu um dráttarvexti verði þeir fyrst dæmdir af kröfum stefnenda frá dómsuppsögudegi. Kröfugerð sé öll óljós og stefndu hafi fullt tilefni til að taka til varna. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að stefndu hefðu getað lagt mat á kröfuna fyrr en dómur fellur, fari svo að stefndu verði dæmd til greiðslu að einhverju leyti. Ósanngjarnt sé að stefnandi njóti þess í formi dráttarvaxta. Vísa aðalstefndu að þessu leyti til 9. gr. laga nr. 38/2001.
Málskostnaðarkrafa aðalstefndu og gagnstefnanda, Drafnarhúss, félags, eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa aðalstefndu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Aðalstefndu séu ekki virðisaukaskattskyld og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Um heimild til að hafa uppi kröfu í gagnsök er vísað til 2. gr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Óumdeilt er að aðalstefnandi vann störf sín í þágu aðalstefndu að mestu leyti á heimili sínu í Hafnarfirði, en ekki á skrifstofu aðalstefndu í Hátúni 10B í Reykjavík.
Í ráðningarsamningi aðalstefnanda og aðalstefndu á dskj. nr. 3 „vegna starfa hjá Fríðuhúsi, Drafnarhúsi og Maríuhúsi“, eins og segir í samningnum, er ekki kveðið á um það hvar aðalstefnandi skuli inna starfið af hendi. Þykir ósannað að það hafi verið forsenda fyrir ráðningu aðalstefnanda hjá aðalstefndu að aðalstefnandi innti starfið af hendi á heimili sínu en ekki á skrifstofu aðalstefndu. Hefur aðalstefnandi enda sjálf borið um það að hún hafi verið ráðin að tilhlutan föður síns og að störfum hennar hafi verið hagað eftir því sem best hentaði þörfum hans, en fram hefur komið að faðir hennar átti við veikindi að stríða og sinnti því framkvæmdastjórastarfinu að mestu á heimili sínu.
Með hliðsjón af framangreindu bar aðalstefnanda því að hlíta þeirri ákvörðun stjórnar aðalstefndu frá 15. apríl 2009 um að flytja skyldi alla skrifstofustarfsemi félagsins á einn stað, þ.e. á skrifstofuna að Hátúni 10b í Reykjavík eigi síðar en 25. apríl og að full skrifstofustarfsemi félagsins skyldi hefjast þar frá og með 30. apríl. Hreyfði aðalstefnandi enda engum mótmælum við þessari ákvörðun aðalstefndu fyrr en með bréfi lögmanns hennar rúmum mánuði síðar eða hinn 22. maí 2009.
Með bréfi, dags. 29. apríl 2009, tilkynnti stjórn aðalstefnda Félags aðstandenda alzheimersjúklinga að aðalstefnandi væri ekki lengur starfsmaður félagsins vegna vanrækslu og brotthlaups úr starfi. Jafnframt var aðalstefnanda tilkynnt að henni bæri að skila öllum gögnum og tækjabúnaði í eigu aðalstefndu, sem hún væri með í vörslum sínum, í síðasta lagi föstudaginn 8. maí 2009.
Í bréfinu segir að þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar hafi aðalstefnandi ekki sinnt þeim verkefnum sem henni hafi borið að sinna og hún þegið laun fyrir. Er þar sérstaklega tilgreint að félagið sé í vanskilum með skilagreinar til stéttarfélaga og lífeyrissjóða, í sumum tilvikum allt frá ágústmánuði 2008. Hafi þetta komið óorði á félagið sem launagreiðanda auk þess sem félagið hafi orðið fyrir kostnaði vegna vanskilanna. Einnig er tilgreint að innheimta gjalda fyrir dagþjálfun hafi dregist og greiðsluseðlar hafi í sumum tilvikum verið útfylltir með ófullnægjandi hætti. Loks er tilgreint í bréfinu að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum frá aðalstefnanda, sem hún ein hafi undir höndum, en án árangurs. Einnig að ekki hafi verið hægt að ná sambandi við aðalstefnanda svo dögum og vikum skipti.
Líta verður svo á að áðurgreind tilkynning feli í sér riftun á ráðningarsamningi aðalstefnanda vegna vanefnda hennar, sem taka skyldi gildi þá þegar.
Í starfslýsingu aðalstefnanda frá maí 2008, sbr. dskj. nr. 4, segir að um sé að ræða almennt skrifstofustarf. Helstu þættir starfsins eru tilgreindir m.a. þeir að ganga frá launaseðlum og senda þá út, gefa út reikninga og gíróseðla með þeim og senda út, fylgjast með greiðslum og senda ítrekun ef við á. Einnig að annast skilagreinar lífeyrissjóða og stéttarfélaga og senda til réttra aðila, annast samskipti við aðstandendur vegna reikninga eftir óskum og ábendingum forstöðukvenna, snúningar, póstur, sækja reikninga og gögn og annað sem á þurfi að halda vegna starfsins og að lokum að leysa af hendi önnur þau störf sem framkvæmdastjóri felur aðalstefnanda.
Á meðal gagna málsins eru tilkynningar frá hinum ýmsu lífeyrissjóðum, dagsettar í mars, apríl og maí 2009, um að skilagreinar vanti, í sumum tilvikum allt frá janúarmánuði 2009. Einnig ítrekaðar tilkynningar, greiðsluáskoranir og innheimtubréf frá lögmanni vegna vangreiddra iðgjalda, félagsgjalda o.fl., í sumum tilvikum allt frá því í september 2008.
Þá eru á meðal gagna málsins útprentanir af samskiptum framkvæmdastjóra aðalstefndu og aðalstefnanda í tölvupósti frá 20. mars til 27. apríl 2009. Má þar sjá fjölmargar fyrirspurnir og tilmæli frá framkvæmdastjóranum varðandi starfsemina, sem aðalstefnandi svarar seint og í mörgum tilvikum alls ekki. Má þar nefna að fyrirspurn og tilmælum framkvæmdastjórans frá 20. mars svarar aðalstefnandi ekki fyrr en sex dögum síðar. Í tölvupósti framkvæmdastjórans frá 26. mars kemur fram að hún bíði enn eftir listum yfir lífeyrissjóði og stéttarfélög, og yfir starfsmenn og bankareikninga þeirra, en hún hafi beðið aðalstefnanda um listana níu dögum fyrr. Í þessum sama pósti biður hún um ráðningarsamninga og síðustu launaseðla allra þeirra sem greiða eigi laun um næstu mánaðamót og að helst verði hún að fá þessi gögn strax. Í tölvupósti aðalstefnanda frá 30. mars kemur fram að hún hafi komið með launaseðlana á skrifstofuna þann sama dag eða fjórum dögum eftir að hún var beðin um að skila þeim.
Á tímabilinu 1. apríl til 27. apríl 2009 komu fjölmargar ábendingar frá framkvæmdastjóranum í tölvupósti, m.a. um að starfsmaður hefði ekki fengið greidd rétt laun, að upplýsingar um reikningsnúmer hjá starfsmanni og lífeyrissjóði hefðu verið rangar, að tiltekinn starfsmaður hefði ekki fengið sendan launaseðil vegna febrúar og að skilagreinar til lífeyrissjóða vanti. Einnig ábendingar um villur í skilagreinum til lífeyrissjóða og stéttarfélaga og að beðið sé eftir réttum upplýsingum um skilagreinarnar frá aðalstefnanda. Í tölvupósti frá 1. og 2. apríl er bent á að fara þurfi fram uppgjör launa vegna starfsmanns, sem hætt hafi störfum 31. mars og að hraða þurfi uppgjörinu. Þau tilmæli eru ítrekuð 7. mars og tekið fram að beðið sé eftir uppgjörinu. Í tölvupósti frá 18. apríl má sjá að aðalstefnandi hefur enn ekki sinnt þessari beiðni framkvæmdastjórans frá 1. apríl. Einnig kemur fram að enn vanti réttar upplýsingar varðandi skilagreinar til lífeyrissjóða og stéttarfélaga og að möppur með fylgiskjölum hafi enn ekki skilað sér á skrifstofuna. Ítrekar framkvæmdastjórinn jafnframt beiðni sína um að aðalstefnandi komi með fylgiskjölin á skrifstofuna. Tveimur dögum síðar ítrekar framkvæmdastjórinn enn beiðni sína varðandi fylgiskjölin.
Í tölvupósti frá 3. apríl biður framkvæmdastjórinn aðalstefnanda um að hringja til baka þegar hún hefur lesið inn skilaboð á símsvara aðalstefnanda. Einnig segir að ekki sé gott hversu erfitt sé að ná í aðalstefnanda. Í tölvupósti frá 8. apríl kemur fram að framkvæmdastjórinn hafi ítrekað reynt að ná í aðalstefnanda, en án árangurs. Einnig að aðalstefnandi hafi ekki svarað í síma. Í lok tölvupóstsins segir: „Þetta gengur náttúrulega ekki svona Unnur, ég er þó búin að margræða við þið hversu bagalegt það er að ég geti ekki ná á þér (svo). Það verða að koma til önnur vinnubrögð.“
Í tölvupósti frá 18. apríl segir framkvæmdastjórinn að hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við aðalstefnanda síðustu vikur en hún hafi ekki svarað í síma og engin viðbrögð hafi verið við þeim bréfum sem hún hafi sent aðalstefnanda. Í lok tölvupóstsins segir: „Þá staðreynd að þú hefur ekki verið við síðan fyrir Páska (svo) túlka ég sem að þú hafir tekið þér frí, en bendi þér á að það frí var ekki í samráði við vinnuveitanda þinn FAAS.“
Í tölvupósti frá 23. apríl segir að framkvæmdastjórinn hafi ítrekað reynt að ná í aðalstefnanda í rúman hálfan mánuð og sömuleiðis reynt að hringja í aðalstefnanda en án árangurs. Í tölvupóstinum segir síðan orðrétt: „16. apríl var þér sent bréf með pósti sem ekki hefur borist svar við. Ég get ekki skilið vöntun á viðbrögðum frá þér öðruvísi en að þú ætlir þér ekki að sinna þeim verkefnum sem þú ert ráðin til að sinna. Þar sem þú hefur ekki tilkynnt vinnuveitanda þínum um þá ákvörðun er fjarvera þín flokkuð sem brotthlaup úr starfi og mun stjórn FAAS bregðast við í samræmi við það. Eins og ég hef margoft tilkynnt þér hefur þú gögn heima hjá þér sem sárlega hefur vantað og hafa ómæld vandræði hlotist af vöntun á upplýsingum frá þér og efndum á vinnuframlagi. Ég hvet þig til að hafa samband tafarlaust og ekki seinna en föstudag 24. apríl fyrir kl. 16.00.“
Í tölvupósti frá 27. apríl var aðalstefnanda gefinn lokafrestur til 29. apríl 2009 kl. 16.00 til að gera grein fyrir nánar tilgreindum atriðum í bréfinu og til að skila gögnum og tækjabúnaði aðalstefndu, sem staðsettur væri á heimili hennar.
Á tímabilinu frá 20. mars til 27. apríl sendi framkvæmdastjórinn aðalstefnanda hátt í 30 tölvupósta, sem svarað var með alls fimm tölvupóstum aðalstefnanda, þar af var svar aðalstefnanda einu sinni „geri það“ og í annað skipti lét aðalstefnandi eingöngu í té bankanúmer, sem síðar reyndist vera rangt.
Eins og áður greinir var aðalstefnanda tilkynnt að öll skrifstofustarfsemi félagsins yrði flutt á einn stað, þ.e. á skrifstofuna að Hátúni 10B eigi síðar en 25. apríl 2009. Einnig að öll gögn og tækjabúnaður í eigu FAAS, sem væru í notkun á heimili hennar, skyldu flutt á skrifstofuna innan áðurgreindra tímamarka og að öll skrifstofuvinna félagsins, þ.m.t. vinna aðalstefnanda færi fram á skrifstofu félags að Hátúni 10B frá og með 25. apríl 2009.
Upplýst er að aðalstefnandi fór ekki að þessum fyrirmælum aðalstefndu.
Ljóst er af framangreindu að aðalstefnandi vanrækti verulega starfsskyldur sínar í starfi sínu hjá aðalstefndu. Þá þykir fram komið að framkvæmdastjóri aðalstefnda áminnti og aðvaraði aðalstefnanda vegna vanrækslu hennar í starfi eins og áðurgreindur tölvupóstur frá 8., 18. og 23. apríl ber með sér. Í tölvupósti frá 27. apríl kemur og skýrlega fram að aðalstefnanda er veittur lokafrestur til að bæta úr vanhöldum sínum og til að gefa skýringar á nánar tilgreindum atriðum til 29. apríl kl. 16.00. Þrátt fyrir þessar aðvaranir framkvæmdastjórans komu engin viðbrögð frá aðalstefnanda, en síðasti tölvupóstur frá henni til framkvæmdastjórans er dagsettur 7. apríl.
Með vísan til framangreinds var aðalstefndu rétt að rifta ráðningarsamningi aðalstefnanda vegna verulegra vanefnda aðalstefnanda á starfsskyldum sínum.
Fram hefur komið að aðalstefnandi hefur fengið greidd laun til 1. apríl 2009. Þar sem riftunin tók ekki gildi fyrr en 29. apríl 2009 þykir rétt að taka til greina kröfu aðalstefnanda um laun fyrir þann mánuð að fjárhæð samtals 502.317 krónur (382.800+49.917+ 27.600+ 42.000), en rétt þykir að miða við tímagjald sem aðalstefnanda hafði verið greitt án athugasemda af hálfu aðalstefndu. Þá er fallist á útlagðan kostnað vegna frímerkja og blekhylkis samtals að fjárhæð 9.990 krónur. Ber aðalstefndu því að greiða aðalstefnanda samtals 512.307 krónur vegna aprílmánaðar.
Ósannað er að svo hafi um samist að tölvubúnaður sem gagnstefnandi Drafnarhús, félag keypti fyrir rekstur félagsins og staðsettur var á heimili gagnstefndu skyldi verða eign hennar við starfslok. Fram hefur komið að gagnstefnda hefur neitað að skila aðalstefndu búnaði þessum, sem samkvæmt framlögðum gögnum er að verðmæti 229.614 krónur. Er fallist á með gagnstefnanda að félagið hafi orðið fyrir tjóni af völdum þessarar ólögmætu og saknæmu háttsemi aðalstefnanda. Er því fallist á bótakröfu gagnstefnanda.
Við aðalmeðferð kom fram af hálfu gagnstefnanda að yrðu kröfur aðalstefnanda teknar til greina að einhverju leyti væri þess krafist að gagnkrafan kæmi til skuldajöfnunar á móti kröfum aðalstefnanda á hendur aðalstefndu og var þeirri kröfu ekki mótmælt sérstaklega af hálfu gagnstefndu.
Með vísan til framangreinds er niðurstaða málsins sú að aðalstefndu er gert að greiða aðalstefnanda 282.693 krónur (512.307-229.614) með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.
Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af málinu.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Aðalstefndu, Félag aðstandenda alzheimersjúklinga, Fríðuhús-dagvistun minnissjúkra, Drafnarhús, félag, og Maríuhús, dagþjálfun, greiði aðalstefnanda, Unni A. Hauksdóttur, 282.693 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2009 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.