Hæstiréttur íslands

Mál nr. 573/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


         

Mánudaginn 5. nóvember 2007.

Nr. 573/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

 

 

Kærumál. Farbann.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi á meðan lögregla lýkur rannsókn og tekur ákvörðun um saksókn í nokkrum málum, sem snúa að aðild kærða í skipulögðum þjófnaðarbrotum á höfuðborgarsvæðinu, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 13. nóvember 2007, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt farbanni frá 19. október 2007. Farbann er eitt form frelsisskerðingar og er brýnt að hraða sérstaklega meðferð opinbers máls þegar sakborningur sætir slíkri skerðingu. Þrátt fyrir þetta þykja enn vera uppfyllt skilyrði 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991 fyrir farbanni varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2007.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að úrskurðað verði að X, kt. [...], verði bönnuð för frá Íslandi á meðan lögregla lýkur rannsókn og tekur ákvörðun um saksókn í nokkrum málum, sem snúa að aðild kærða í skipulögðum þjófnaðarbrotum á höfuðborgarsvæðinu, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 13. nóvember. 2007, kl. 16:00, vegna ætlaðra brota gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hann rannsaki nú rúmlega 20 þjófnaði úr verslunum, þar sem í öllum tilvikum sé um að ræða að stolið hafi verið á opnunartíma verslana með kerfisbundnum hætti dýrum smávarningi. Um síðustu mánaðamót hafi vaknað grunsemdir um að hópur fólks, frá Litháen, sem hér dvelji, stæði að þjófnuðunum. Gerð hafi verið húsleit í íbúð á 3. hæð í Y, Reykjavík, 2. október sl. Í íbúðinni haldi til nokkrir Litháar, þar á meðal kærði. Við húsleitirnar hafi verið lagt hald á mikið magn af munum, svo sem fatnað, snyrtivöru og ýmsan tæknibúnað. Í kjölfarið hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald fimmtudaginn 4. október sl. og í áframhaldandi gæsluvarðhald frá miðvikudeginum 10. október sl. til 19. október sl. en þann dag hafi kærði verið úrskurðaður í farbann til dagsins í dag.

Kærði sé grunaður um að vera aðili að hóp sem sjái um skipulagða þjófnaði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu. Í öllum þeim málum sem lögregla hafi nú til rannsóknar hafi hún þekkt gerendur sem aðila úr þessum hópi. Þá hafi fundist munir sem tengist ofantöldum málum á dvalarstað kærðu. Sé hópurinn grunaður um að stela úr verslunum með kerfisbundnum hætti, þar sem þeir skipuleggi sig saman og skipti með sér verkum hverju sinni.

Rannsókn málanna sé langt á veg komin. Þó hafi hún dregist um fram þann tíma sem áætlaður var, en umfang málanna sé mjög mikið og hafi mun meiri vinna farið í að yfirfara þá muni sem lögregla lagði hald á við húsleitirnar en gert hafi verið ráð fyrir, en um rúmlega 300 muni sé að ræða. Þá sé ekki búið að taka ítarlegar skýrslur af öllum kærendum í málunum.

Kærði hafi dvalið á Íslandi síðan í júlí 2006. Kærði hafi takmörkuð tengsl við landið, bæði fjölskyldu og önnur. Nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða hér á landi til að hann geti ekki komið sér undan frekari rannsókn málsins, mögulegri saksókn og málsmeðferð fyrir dómi. Sé því nauðsynlegt að kærði sæti áframhaldandi farbanni meðan á meðferð máls þessa stendur en vinnslu þess verði reynt að hraða eftir föngum, og stefnt er að því að ákvörðun um saksókn muni liggja fyrir eigi síðar en 13. nóvember n.k.

Í ljósi framangreinds, hjálagðra gagna og þeirra sjónarmiða sem fram komi í b-lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að fallist verði á framkomna kröfu.

Fallist er á, svo sem fram kemur í framangreindri lýsingu lögreglu, að skilyrði b-liðar 1. mgr. 103. gr. og 110 gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt.  Verður því fallist á beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti farbanni svo sem greinir í úrskurðarorði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærða, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi á meðan lögregla lýkur rannsókn og tekur ákvörðun um saksókn í nokkrum málum, sem snúa að aðild kærða í skipulögðum þjófnaðarbrotum á höfuðborgarsvæðinu, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 13. nóvember. 2007, kl. 16:00.